Hæstiréttur íslands
Mál nr. 40/2023
Lykilorð
- Kærumál
- Dánarbú
- Erfðaskrá
- Arfleiðsluheimild
Reifun
Dómur Hæstaréttar
1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
2. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. júlí 2023 sem barst réttinum 13. sama mánaðar en kærumálsgögn bárust 19. þess mánaðar. Kærður er úrskurður Landsréttar 28. júní 2023 þar sem fallist var á þrautavarakröfu sóknaraðila um að erfðaskrá I 16. desember 2013 um ráðstöfun á eignarhluta hans í jörðinni P í […], ásamt öllu því sem fylgir og fylgja ber, þar með talin veiðiréttindi og íbúðarhús, til barnabarna hans skyldi lögð til grundvallar við dánarbússkipti hans að því er varðaði 1/3 hluta eigna sem hann mátti ráðstafa samkvæmt 35. gr. erfðalaga nr. 8/1962.
3. Sóknaraðili krefst þess aðallega að erfðaskráin verði metin ógild og ekki lögð til grundvallar við skipti eigna í dánarbúinu. Til vara að hún verði einungis metin gild að því er varðar 1/3 hluta jarðarinnar P óskiptrar ásamt öllu er jörðinni tilheyrir. Til þrautavara að erfðaskráin verði einungis metin gild að því er varðar 1/3 hluta eigna sem hinn látni mátti ráðstafa samkvæmt 35. gr. erfðalaga. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar á öllum dómstigum úr hendi varnaraðilanna B, C og D.
4. Varnaraðilarnir B, C og D krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Aðrir varnaraðila hafa ekki látið málið til sín taka.
Ágreiningsefni
5. Málsaðilar deila um gildi og skýringu erfðaskrár I sem mælir fyrir um að barnabörn arfleifanda skuli taka að arfi eignarhluta hans í jörðinni P. Þar sem verðmæti eignarinnar fer fram úr því sem heimilt er að ráðstafa með erfðaskrá með tilliti til skylduerfingja, sbr. 35. gr. erfðalaga, lýtur ágreiningur aðila að því hvort erfðaskráin verði metin ógild og því ekki lögð til grundvallar við skipti eigna í dánarbúinu eða hún verði tekin til greina að hluta.
6. Með úrskurði héraðsdóms var hafnað kröfu sóknaraðila um að erfðaskráin skyldi metin ógild en fallist á að hún skyldi lögð til grundvallar þannig að bréferfingjar skyldu erfa að jöfnu 1/3 hluta heildareigna arfleifanda á formi eignarhlutar hans í jörðinni. Í hinum kærða úrskurði Landsréttar 28. júní 2023 var sú niðurstaða staðfest að efni til.
7. Að beiðni sóknaraðila var veitt leyfi til að kæra úrskurð Landsréttar til Hæstaréttar 24. ágúst 2023, með ákvörðun réttarins nr. 2023-94, á þeim grunni að dómur í málinu gæti haft fordæmisgildi um túlkun og gildi erfðaskráa meðal annars með hliðsjón af 35. gr. erfðalaga.
Málsatvik
8. I fæddist […] 1933 og lést […] febrúar 2020. Hann átti fjögur börn, J, L, K og A sem er sóknaraðili málsins. I átti sjö barnabörn og eru þau varnaraðilar málsins. Þrjú þeirra, B, C og D sem eru börn L, taka sem fyrr segir til varna en hin hafa ekki látið málið til sín taka. Sóknaraðili er barnlaus.
9. I lét eftir sig erfðaskrá sem hann ritaði undir í viðurvist lögbókanda 16. desember 2013. Efni hennar er eftirfarandi:
Barnabörn mín skulu erfa að jöfnu eignarhluta minn í jörðinni P í […] með öllu sem fylgir og fylgja ber og er ekkert undanskilið. Um er að ræða land, veiðiréttindi og íbúðarhús.
Vilji minn stendur til þess að arfshluti barnabarna minna verði séreign þeirra ef til hjúskapar kemur.
10. Jörðin P er um 650 hektarar og á land að […]. Á henni stendur gamalt íbúðarhús. Jörðin var áður í eigu M, föður I, og hóf hann þar skógrækt. Var stofnað félag um skógrækt á jörðinni með samningi 15. september 1950 milli föður I, hans og alsystkina hans N og R. Við það tímamark var faðir I eigandi að 5/8 hluta jarðarinnar en hvert barna hans þriggja að 1/8 hluta. Í samningnum var meðal annars kveðið á um gerð kaupmála til að tryggja séreignarréttindi eigenda jarðarinnar gengju þeir í hjónaband, innbyrðis forkaupsrétt og innlausnarrétt við nánar tilgreindar aðstæður. Með samningi 2. maí 1968 ákváðu systkinin I, N og R sem þá höfðu erft eignarhluta föður síns að slíta sameign sinni og skipta jörðinni milli sín. Í gerðardómi frá 29. október sama ár svo og landskiptagerð frá 11. apríl 1969 var nánar lýst skiptingu og skilmálum hennar. Samkvæmt þessum gerningum varð eignarhlutur I 3/5 hlutar jarðarinnar og systkina hans tveggja 2/5 hlutar.
11. Að beiðni K, sonar arfleifanda, var 8. júní 2020 aflað verðmats lögmanns og fasteignasala á eignarhlut I í P og nam það 80.000.000 króna.
12. Dánarbú I var tekið til opinberra skipta 14. október 2020 að kröfu sona hans. Sóknaraðili og J bróðir hans rituðu bréf til skiptastjóra 29. sama mánaðar. Þar kröfðust þeir ógildingar á erfðaskrá föður síns þar sem hún færi fram úr arfleiðsluheimild 35. gr. erfðalaga enda væri verðmæti fasteignarinnar sem ráðstafað var til annarra en skylduerfingja umfram 1/3 hluta eigna búsins.
13. Á fyrsta skiptafund 30. október 2020 mættu tveir lögmenn fyrir hönd allra erfingja. Þar var bókað að fundarmenn teldu líklegt að eignin sem tilgreind væri í erfðaskrá færi fram úr arfleiðsluheimild en það ætti eftir að koma í ljós miðað við verðmat og aðrar kröfur sem kynnu að vera í búinu. Þá var tekið fram að fundarmenn væru sammála um að álitaefni í tengslum við jörðina yrðu sett í bið.
14. Hinn 16. desember 2021 var gert kauptilboð í eignarhluta dánarbúsins í P að fjárhæð 265.000.000 króna en skiptastjóri hafnaði því. Í verðmati fasteignasala á jörðinni 31. janúar 2022 var líklegt söluverð hennar talið vera 325.000.000 króna.
15. Skiptastjóri boðaði til skiptafundar 20. maí 2022 til að ræða kröfu sóknaraðila um ógildingu erfðaskrárinnar. Var þar bókað um mótmæli þeirra þriggja varnaraðila sem nú hafa tekið til varna í málinu vegna þeirrar kröfu og jafnframt mótmælt hversu seint hún kæmi fram. Þá kom fram að samningaviðræður hefðu átt sér stað milli erfingja vegna þessa, auk þess sem tvö dómsmál hefðu verið rekin milli hluta lögerfingjanna sem myndu varpa ljósi á hverjir hagsmunir kynnu að vera fyrir erfingja búsins.
16. Í fundargerð skiptafundar 30. maí 2022 með fulltrúum allra lögerfingja kom fram að skiptastjóri teldi að ekki myndi takast að jafna ágreining aðila um erfðaskrána og að hann myndi vísa ágreiningnum til héraðsdóms. Það gerði hann með bréfi 1. júní 2022.
17. Svo sem fram kemur í úrskurði héraðsdóms sammæltust málsaðilar undir rekstri málsins um að eignarhlutur dánarbúsins í jörðinni P væri 300.000.000 króna virði. Aðrar helstu eignir búsins munu vera söluandvirði fasteignarinnar […] í Reykjavík að fjárhæð 59.431.301 króna eftir frádrátt áhvílandi lána og kostnaðar. Auk þess á dánarbúið kröfur á hendur dóttur I, L og syni hennar, varnaraðila C, samtals að fjárhæð ríflega 30.000.000 króna auk vaxta. Er ágreiningslaust með aðilum að verðmæti heildareigna dánarbúsins sé ríflega 387.000.000 króna en samkvæmt því nemur framangreint verðmæti jarðarinnar P 77,45% af því.
Helstu málsástæður aðila
18. Sóknaraðili byggir kröfu um ógildingu erfðaskrárinnar á því að arfleifandi hafi farið langt fram úr heimildum til að ráðstafa eignum sínum með erfðaskrá. Með henni hafi hann ráðstafað tæpum 78% af hreinni heildareign búsins en arfleiðsluheimild hans samkvæmt 35. gr. erfðalaga takmarkist við þriðjung eigna. Því skuli ekki byggt á erfðaskránni að neinu leyti við dánarbússkipti enda ekki unnt að framkvæma vilja arfleifanda í samræmi við hana. Það hafi verið forsenda við gerð erfðaskrárinnar að eignarhlutur hans í jörðinni P skyldi að öllu leyti verða eign barnabarna hans. Það sjáist meðal annars af þeim fyrirmælum að arfshluti barnabarnanna yrði séreign þeirra kæmi til hjúskapar en þannig hefði arfleifandi viljað tryggja eins og kostur væri að jörðin héldist í fjölskyldunni. Af vitnisburði J, bróður sóknaraðila, fyrir héraðsdómi sé ljóst að arfleifandi hafi haft áhyggjur af slæmri fjárhagsstöðu L dóttur sinnar og hafi óttast að stór hluti jarðarinnar kynni að renna til skuldheimtumanna hennar eftir hans dag. Þá hafi framburður L fyrir héraðsdómi um samskipti við föður sinn um erfðaskrána, leitt skýrlega í ljós vilja hans til að öll jörðin færi til barnabarnanna en ekki einungis hluti hennar. Erfðaskráin hafi því ekki haft þann tilgang að styðja þau fjárhagslega. Loks mótmælir sóknaraðili þeim forsendum hins kærða úrskurðar að sönnunarbyrði hvíli á honum um að vilji arfleifanda hefði staðið til annars en ráðstöfunar arfs til barnabarnanna hefði hann vitað að hann gæti ekki ráðstafað öllum eignarhlutanum til þeirra. Þvert á móti hljóti sönnunarbyrði um að byggja eigi á erfðaskránni með svo mjög breyttu efni að hvíla á varnaraðilum.
19. Varnaraðilarnir B, C og D taka fram að þótt andmæli sóknaraðila við erfðaskránni hafi komið fram á fyrsta skiptafundi hafi hann að ástæðulausu dregið of lengi að fara í þetta ágreiningsmál í andstöðu við 47. gr. erfðalaga með miklum tilkostnaði fyrir aðra erfingja. Þau byggja á því að arfleifandi hafi við gerð erfðaskrárinnar viljað umbuna barnabörnum sínum og hann hafi talið að verðmæti eignarhluta hans í jörðinni væri innan heimildar 35. gr. erfðalaga. Þau mótmæla fullyrðingum sóknaraðila um að ekki sé hægt að framkvæma vilja arfleifanda með öðrum hætti en þeim að ógilda erfðaskrána í heild sinni. Niðurstaða hins kærða úrskurðar sé hin eina sanngjarna og eðlilega í málinu. Með því sé vilji afa þeirra virtur að því marki sem unnt sé og ekkert því til fyrirstöðu að barnabörnin, foreldrar þeirra og sóknaraðili eigi jörðina saman. Þá sé í dómaframkvæmd tilhneiging til að túlka erfðaskrár þar sem farið er fram úr arfleiðsluheimild með þeim hætti að færa hlutdeildina niður að leyfilegu marki. Þessir varnaraðilar mótmæla jafnframt ályktunum sóknaraðila af framburði L móður þeirra fyrir dómi en ekkert sem hún hafi sagt sé í andstöðu við skýrt orðalag erfðaskrárinnar. Þá hafna þeir vangaveltum sóknaraðila um að eina ástæðan fyrir gerð hennar hafi verið fjárhagsstaða móður þeirra.
Niðurstaða
20. Varnaraðilarnir B, C og D halda því fram að sóknaraðili hafi dregið úr hófi að setja fram kröfu um vefengingu erfðaskrárinnar fyrir dómi eftir að andmæli hans komu fram á skiptafundi og fyrirmæla 47. gr. erfðalaga hafi því ekki verið gætt. Af hálfu lögmanns þeirra kom fram við flutning málsins fyrir Hæstarétti að í málinu væri þó ekki byggt á tilgreindum lögfylgjum af þessu tilefni, svo sem að kröfur sóknaraðila væru fallnar niður. Koma athugasemdir þessar því ekki til frekari umfjöllunar.
21. Í erfðalögum er ekki getið um hverjir geti átt aðild að vefengingu á erfðaskrá. Ljóst er að þeir sem standa til lögarfs hafa hagsmuni af niðurstöðu slíks máls. Í þessu sambandi nægir að einn lögerfingja setji fram slíka kröfu en teljist erfðaskrá ógild tapar hún gildi sínu engu að síður gagnvart öllum lögerfingjum. Þá ber að beina vefengingarkröfu að bréferfingjum, enda hafa þeir beinna hagsmuna að gæta af gildi hennar.
22. Þegar fram kom á skiptafundi með fulltrúum allra lögerfingja 30. maí 2022 að sóknaraðili, einn fjögurra skylduerfingja I, hygðist vísa ágreiningi um gildi erfðaskrárinnar til dómstóla kusu systkini hans, sem jafnframt eru foreldrar varnaraðila, að standa ekki að þeirri kröfu með honum. Þá tóku þau ekki til varna í málinu til stuðnings bréferfingjum. Þótt úrslit málsins hafi þýðingu fyrir aðra skylduerfingja en sóknaraðila verður í ljósi þessa aðdraganda ekki talin þörf á aðild þeirra að málinu.
23. Ágreiningslaust er að ráðstöfun eigna samkvæmt erfðaskrá I frá 16. desember 2013 er langt umfram arfleiðsluheimild hans vegna réttinda skylduerfingja og í andstöðu við 35. gr. erfðalaga um að óheimilt sé að ráðstafa meira en 1/3 hluta eigna með erfðaskrá. Verða fyrirmæli hennar því ekki framkvæmd samkvæmt efni sínu en kjarni ágreinings aðila lýtur að því hverjar verði afleiðingar þess og hvort vilja arfleifanda verði náð með öðru móti.
24. Erfðalögin veita ekki svör við því hvernig leysa skuli úr ef ómögulegt reynist við dánarbúskipti að fullnægja fyrirmælum arfleifanda um að tiltekinni eign búsins skuli ráðstafa til bréferfingja. Þá vaknar sú spurning hvort allt að einu sé hægt að laga skiptin með einhverjum hætti að fyrirmælum erfðaskrárinnar, svo sem hvort réttur erfingja geti yfirfærst til jafngildis slíkrar eignar í peningum eða eftir atvikum hvort efna eigi arfleiðslu að því marki sem unnt er.
25. Hafi arfleifandi ráðstafað hærri peningafjárhæð til bréferfingja en arfleiðslumörk heimila hefur verið litið svo á að fjárhæðin verði færð niður í þriðjung heildareigna sem heimilt er að ráðstafa. Sé um einstaklega ákveðna eign að ræða hefur fyllingarregla erfðaréttar almennt verið talin fela í sér að ákvæði erfðaskrár komi ekki til framkvæmda, til dæmis á þann veg að bréferfingi geti fengið eignina gegn greiðslu á því sem verðmæti fer fram úr heimilli ráðstöfun eða hann fái greitt andvirði eignar sé ekki unnt að afhenda hana samkvæmt fyrirmælum erfðaskrár. Má um það til hliðsjónar vísa til dóms Hæstaréttar 9. desember 1986 í máli nr. 180/1985 sem birtur er á bls. 1626 í dómasafni réttarins það ár. Þetta er þó ekki einhlítt en niðurstaðan ræðst fyrst og fremst af mati á þeirri erfðaráðstöfun sem fyrir liggur í hverju máli og atvikum öllum.
26. Við það mat verður byggt á þeirri meginreglu íslensks erfðaréttar að skýra beri erfðaskrá þannig að náð verði þeim vilja arfleifanda sem þar kemur fram eða sannað þykir að fyrir honum hafi vakað við erfðaráðstöfun. Verður jafnframt að meta hver viðbrögð hans við breyttum aðstæðum hefðu orðið hefðu þau atvik verið þekkt við gerð erfðaskrárinnar. Birtist þessi meginregla meðal annars í 2. mgr. 67. gr. erfðalaga sem lýtur að mistökum við erfðaskrárgerð en við þær aðstæður skal framkvæma ákvæði erfðaskrár í samræmi við það sem raunverulega vakti fyrir arfleifanda verði auðið að staðreyna arfleiðsluviljann.
27. Til að staðreyna vilja arfleifanda verður fyrst að líta til beinna orða erfðaskrár og leitast við að ráða af þeim hvað vakti fyrir honum. Verði vilji hans ekki ráðinn eða fengin skýr vísbending þar um ber að líta til annarra gagna og upplýsinga, svo sem samtala hans við lögmann eða aðra um efni erfðaskrárinnar, skjalfestra heimilda þar um eða eldri erfðaskráa hans sem að einhverju leyti hafa geymt sömu ráðstöfun.
28. Orðalag erfðaskrárinnar er skýrt að því leyti að hún tekur til eignarhluta I í jörðinni P í […] með öllu sem henni fylgir, landi, veiðiréttindum og íbúðarhúsi. Þá leikur enginn vafi á því við hverja er átt með vísun erfðaskrárinnar til barnabarna arfleifanda sem eru sjö talsins og jafnframt að þau skyldu erfa þann hluta að jöfnu. Loks er lýst þeim vilja hans að þessi arfshluti barnabarna hans verði séreign þeirra komi til hjúskapar.
29. Þar sem ekkert verður ráðið af þessum orðum um frekari vilja I að baki erfðaskránni eða afstöðu hans hefði hann vitað að hún yrði ekki framkvæmd samkvæmt efni sínu ber að kanna hvort önnur gögn málsins varpi ljósi á þann vilja og hvernig verði komist sem næst honum. Fyrir héraðsdómi gáfu tvö börn I skýrslu. Annars vegar bar J sonur hans að honum hefði ekki verið kunnugt um erfðaskrána. Hann lýsti samskiptum við föður sinn árin 2012 og 2013 og áhyggjum sem I hefði þá haft af fjárhagsvandræðum L dóttur sinnar, einkum að hún kynni að verða gjaldþrota og bankarnir myndu taka eignarhlut hennar í P upp í skuldir að honum látnum. Á þeim tíma hefði faðir hans nýlega gengist undir stóra hjartaaðgerð og vissi ekki hvort hann ætti langt eftir. Honum hefði verið mikið í mun að P héldist í ættinni þegar hann félli frá og velt fyrir sér ýmsum úrræðum, svo sem hvort gera mætti hana að ættaróðali eða setja í einhvers konar félag.
30. Í framburði L dóttur I fyrir héraðsdómi kom fram að hann hefði sagt henni frá erfðaskránni um það leyti sem hún var gerð árið 2013 og þau rætt ástæður hennar. Faðir hennar hefði sagt að hann vildi halda jörðinni innan fjölskyldunnar en þættist viss um að bræður hennar myndu vilja selja sinn hlut í henni. Með því að arfleiða barnabörnin „algjörlega“ að P væri hægt að klippa út ættlið hennar og bræðranna í eignarhaldi jarðarinnar vegna líklegs ágreinings þeirra um verðmæti, skiptingu og mögulega sölu á eigninni.
31. Skoða verður vitnisburð tveggja barna I, þeirra L og J, sem gáfu skýrslur við meðferð málsins fyrir héraðsdómi í því ljósi að þau eiga sem skylduerfingjar hans bæði hagsmuna að gæta af niðurstöðu um gildi erfðaskrárinnar og greinir á af hvaða ástæðum faðir þeirra gerði hana. Engu að síður er sá samhljómur í framburði þeirra að með erfðaskránni hafi I viljað tryggja að P yrði ekki seld eða tekin upp í skuldir heldur héldist áfram í eigu fjölskyldunnar. Verður sá vilji hans studdur öðrum gögnum málsins, svo sem tölvupóstum milli feðganna I og J á árunum 2012 og 2013. Þar komu meðal annars fram áhyggjur I af skuldastöðu dóttur sinnar, rætt var um möguleika á fyrir fram greiddum arfi til barna hans og mikilvægi þess að halda jörðinni í ættinni. Í tölvupósti frá J til föður síns frá 18. ágúst 2013 var rætt um afleiðingar þess fyrir fjórðung eignarhlutar L í P sem bankinn gæti gengið að ef bú hennar yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Þá var þar vikið að ráðgjöf sem I hefði fengið frá tilgreindum lögfræðimenntuðum mági sínum varðandi arfshluta L kæmi til fyrir fram greiðslu arfs til hennar.
32. Þegar metið er orðalag erfðaskrárinnar, vitnisburður og önnur gögn málsins svo og forsaga um ráðstafanir arfleifanda til að tryggja eignarhald jarðarinnar í fjölskyldu hans telst sannað að markmið erfðaráðstöfunarinnar og meginforsendan fyrir gerð hennar hafi verið að stuðla að því að eignarhluti hans í jörðinni P yrði áfram í eigu fjölskyldunnar. Að fenginni niðurstöðu um hvað vakti fyrir arfleifanda ber að kanna hvort unnt sé að ná því markmiði með því að framkvæma fyrirmæli erfðaskrárinnar að því leyti sem heimilt er lögum samkvæmt. Verður þar fyrst að leita fanga um hvort finna megi skýra vísbendingu um þann vilja hans að forsenda fyrir erfðaráðstöfuninni væri að barnabörnin sjö myndu erfa jörðina sem eina heild, eins og sóknaraðili heldur fram. Jafnframt þarf að meta hvaða afleiðingar það hefði fyrir tilgang erfðaskrárinnar að jörðin erfðist bæði til skylduerfingja og barnabarna.
33. Af því sem lýst er að framan verður ekki ályktað að það hafi verið skýr forsenda erfðaráðstöfunar I að barnabörn hans erfðu eignarhluta hans í jörðinni P sem eina heild en ella ekki. Í þessu sambandi skiptir einnig máli að verði erfðaskráin aðeins framkvæmd að því marki sem heimilt er innan arfleiðsluheimildar 35. gr. erfðalaga og jörðin P dreifist þannig á hendur bréferfingjanna sjö auk fjögurra barna I verður ekki séð að það grafi undan því markmiði arfleifanda að eignin haldist innan fjölskyldunnar. Þá fyrirbyggir áskilnaður I um að arfshluti barnabarnanna í jörðinni verði séreign þeirra komi til hjúskapar aðeins að arfshluti þeirra færist á annarra hendur í tengslum við hjúskaparslit en breytir ekki forræði þeirra á eignarhlutdeild sinni í sameigninni og ráðstöfunarrétti með sölu.
34. Loks ber að líta til þess að í erfðaskránni eru engin fyrirmæli um hvort eða hvernig bréferfingjar skuli nýta jörðina og hvorki lagðar á kvaðir né önnur skilyrði sett fyrir því að þeir taki hana að arfi sem ekki yrði unnt að fullnægja nema eignin erfðist til þeirra sem heild. Að þessu leyti greinir mál þetta sig í grundvallaratriðum frá atvikum máls sem sóknaraðili hefur bent á til stuðnings aðalkröfu sinni, sbr. dóm Hæstaréttar 22. febrúar 1983 í máli nr. 121/1980 sem birtur er á bls. 381 í dómasafni réttarins það ár. Í því máli kom fram skýr forsenda í erfðaskrá að eign skyldi erfast sem heild til tiltekins bréferfingja í ákveðnu markmiði en ella renna til annars bréferfingja. Þá má einnig vísa til dóms Hæstaréttar í fyrrgreindu máli nr. 180/1985 en þar var tilkall bréferfingja til lands sem þeim var ánafnað í erfðaskrá háð skilyrðum um nýtingu þess í ákveðnum tilgangi.
35. Að öllu þessu virtu verður hafnað aðalkröfu sóknaraðila um ógildingu erfðaskrár I. Við úrlausn um hvernig komist verði sem næst vilja hans ber að leitast við að efna arfleiðslufyrirmælin að því marki sem aðstæður leyfa. Eins og fram kemur í hinum áfrýjaða dómi ber þá að líta til þess hámarks sem arfleifandi mátti ráðstafa samkvæmt 35. gr. erfðalaga sem er þriðjungur af eignum búsins, en ekki aðeins þriðjungur af eigninni sem erfðaskráin tekur til svo sem varakrafa sóknaraðila byggist á. Er varakröfu sóknaraðila því jafnframt hafnað.
36. Því verður fallist á þrautavarakröfu sóknaraðila um að erfðaskráin verði metin gild að því marki að barnabörn I erfi að jöfnu eignarhluta í jörðinni sem samsvarar 1/3 hluta eigna búsins og hinn látni mátti ráðstafa samkvæmt 35. gr. erfðalaga. Samkvæmt þessu verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest á þann hátt sem í dómsorði greinir.
37. Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðilunum B, C og D kærumálskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði segir.
Dómsorð:
Erfðaskrá I 16. desember 2013 um ráðstöfun á eignarhluta hans í jörðinni P í […], ásamt öllu sem henni fylgir og fylgja ber, til barnabarna hans skal lögð til grundvallar við skipti eigna í dánarbúi hans að því marki sem samsvarar 1/3 hluta eigna búsins.
Ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað og kærumálskostnað eru staðfest.
Sóknaraðili, A, greiði varnaraðilunum B, C og D hverju fyrir sig 300.000 krónur í kærumálskostnað fyrir Hæstarétti.