Hæstiréttur íslands
Mál nr. 4/2024
Lykilorð
- Hæfi dómara
- Vanhæfi
- Ómerking dóms Landsréttar
- Meðdómsmaður
Reifun
Dómur Hæstaréttar
1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen, Ingveldur Einarsdóttir, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
2. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 15. janúar 2024. Hann krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað að nýju til Landsréttar. Til vara krefst hann þess að stefndi verði dæmdur til greiðslu 19.262.236 króna með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðbætur af 6.095.766 krónum frá 2. apríl 2017 til 2. júní 2017, af 12.191.532 krónum frá þeim degi til 2. ágúst 2017 og af 18.287.298 krónum frá þeim degi til 17. janúar 2021 og af 19.262.236 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar á öllum dómstigum.
3. Stefndi krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur Landsréttar verði staðfestur en til vara að kröfur áfrýjanda verði lækkaðar verulega. Í báðum tilvikum krefst stefndi málskostnaðar úr hendi áfrýjanda.
4. Samkvæmt ákvörðun Hæstaréttar var málið flutt 10. júní 2024 um formhlið þess.
Ágreiningsefni og málsatvik
5. Áfrýjandi höfðaði mál þetta 11. desember 2020 til heimtu greiðslu sem hann kveður vera eftirstöðvar fjárhæðar samkvæmt samkomulagi sem aðilar höfðu gert með sér á grundvelli verkbeiðni 15. ágúst 2016. Í henni kemur fram að áfrýjandi yfirfari alla fasteignina að Kambavaði 1 í Reykjavík, lagi leka, skipti út rennum og setji rafþráð. Í kjölfarið undirrituðu aðilar greiðsluáætlun fyrir verkið 24. ágúst sama ár.
6. Áfrýjandi byggir á því að stefnda beri að greiða sér tilgreinda reikninga vegna þess að verkið hafi orðið umfangsmeira en gert hafi verið ráð fyrir í upphafi. Með síðari samningum, verklýsingum og verðáætlunum, sem hafi verið samþykktar af stefnda, hafi komist á viðbótarsamningur þar sem samið hafi verið um tiltekna verkþætti og tiltekið endurgjald fyrir þá. Stefndi andmælir þessu og telur sig hafa staðið áfrýjanda full skil á endurgjaldi fyrir þau verk sem um hafi samist milli þeirra. Jafnframt ber stefndi meðal annars fyrir sig að hluti þeirrar vinnu sem krafist sé greiðslu fyrir hafi ekki verið unninn og því sé um tilhæfulausa reikninga að ræða.
7. Með héraðsdómi 2. júní 2022 var stefnda gert að greiða áfrýjanda stefnufjárhæð á þeim grundvelli að sýnt hefði verið fram á að hann hefði samþykkt umfangsmeiri vinnu og viðgerðir við fasteignina en gert hefði verið ráð fyrir í upphaflegri greiðsluáætlun.
8. Með dómi Landsréttar 3. nóvember 2023 var stefndi á hinn bóginn sýknaður af kröfu áfrýjanda á þeim grundvelli að áfrýjanda hefði staðið nær sem seljanda þjónustu að tryggja sér viðhlítandi sönnun þess að stefndi hefði samþykkt að greiða fyrir möguleg viðbótarverk og aukinn kostnað vegna verka sem áður hefði verið samið um, sbr. 29. gr. laga nr. 42/2000 um þjónustukaup. Jafnframt hefði verið sannað með matsgerð dómkvadds manns fyrir Landsrétti að umtalsverðir annmarkar hefðu verið á vinnu áfrýjanda og hún að stórum hluta engum tilgangi þjónað. Málið dæmdu tveir embættisdómarar auk sérfróðs meðdómanda, Hjalta Sigmundssonar, byggingatæknifræðings og húsasmíðameistara.
9. Aðalkrafa áfrýjanda um ómerkingu hins áfrýjaða dóms lýtur að ætluðu vanhæfi hins sérfróða meðdómanda.
10. Í málinu liggur fyrir matsgerð fyrrgreinds sérfróðs meðdómanda frá árinu 2009, sem þá var aflað til að meta umfang og tilvist annmarka og galla í fasteigninni að Kambavaði 1–3 í Reykjavík ásamt kostnaði við að bæta úr þeim. Matsbeiðendur voru nánar tilgreindir eigendur íbúða að Kambavaði 1 en matsþolar munu hafa verið seljandi fasteignanna, byggingarstjóri við byggingu fjöleignarhússins og vátryggingafélag sem veitt hafði starfsábyrgðartryggingu. Eftir að matsgerðin lá fyrir voru tvö dómsmál höfðuð af kaupendum fasteignanna á hendur matsþolum þar sem matsgerðin var lögð fram.
11. Í matsgerðinni var meðal annars fjallað um sameignarhluta matsbeiðenda að Kambavaði 1–3 undir liðnum leki og/eða raki. Þar kom fram að matsmaður hefði skoðað þak og staðreynt gerð þess og einnig að asfaltdúkur væri á þakplötu hússins. Þar ofan á hefði verið lögð 2 x 100 mm einangrun og yfir hana síudúkur og möl. Í nánari umfjöllun matsmanns kom fram að skemmdir við þak í stigahúsi væru á tveimur hliðum og að í raun væri ekki öðrum mögulegum lekastað til að dreifa en þaki stigahússins. Asfaltdúkur sem lagður hefði verið væri aðeins 3,4 mm að þykkt og lagður laus í einu lagi á þakið. Það hallaði lítið og taldi matsmaður þá aðferð því ekki eiga hér við. Hann taldi að ekki yrði unnt að komast fyrir leka með viðunandi hætti nema með því að skipta út þakdúknum. Taka þyrfti upp farg, einangrun og fjarlægja núverandi þakdúk. Heillíma þyrfti síðan dúk á þakið með öllum kantfrágangi, leggja einangrun aftur, nýjan jarðvegsdúk og farg. Þá taldi matsmaður að tveggja laga dúkkerfi ætti við um þök sem hölluðust svona lítið. Matsmaður taldi að ekki yrði bætt úr með fullnægjandi hætti nema með því að leggja nýtt viðeigandi þéttilag á þak hússins.
12. Með matsbeiðni 17. ágúst 2022 sem lögð var fram í því máli sem hér er til úrlausnar var þess farið á leit að dómkvaddur yrði maður til þess að staðreyna að matsþoli, áfrýjandi þessa máls, hefði lokið við þá verkliði sem getið væri um í töflu um verkþætti. Verkliðir samkvæmt töflunni voru alls 21 og nam kostnaður vegna þeirra 46.019.785 krónum með virðisaukaskatti. Stefndi hefur greitt áfrýjanda 26.174.726 krónur vegna verksins.
13. Ríkharður Kristjánsson verkfræðingur var dómkvaddur sem matsmaður í málinu 12. október 2022. Í matsgerð hans 16. febrúar 2023 kom fram um verkþætti er lutu að hreinsun og þvotti á þaki og þéttingu og lagfæringu á þakkanti að hann gæti staðfest að gróður og rusl hefði verið hreinsað af þaki. Þá hefði raka- og myglueyðandi efni verið sprautað á það en matsmaður taldi það ekki gera neitt gagn og ekki ætti að reikna kostnað af þeim aðgerðum. Þá taldi hann það hafa verið misskilning „í upphafi að setja filtdúk ofan á asfaltdúkinn á þakinu og ekki í samræmi við hönnun“. Einangrunin væri varin af asfaltdúknum sem þyrfti engan filtdúk sér til hlífðar. Allar aðgerðir áfrýjanda við þennan filtdúk hefðu verið óþarfar og gagnslausar. Ekki væri ljóst af framlögðum gögnum hvort miklar viðgerðir hefðu farið fram á þakdúknum sjálfum á þakfletinum. Komið hefði fram á matsfundi hjá fulltrúa matsþola að einkum hefði verið gert við dúkinn á þakköntum en þar hefðu viðgerðir verið óþarfar og gagnslausar og horfnar að hluta. Af gögnum mætti ráða að á þakfletinum sjálfum hefði almenn þétting farið fram með því að sprauta efnum á möl og þakdúk. Matsmaður taldi þá aðgerð gagnslausa.
14. Áfrýjunarleyfi var veitt 15. janúar 2024 með ákvörðun Hæstaréttar nr. 2023-134. Leyfið var veitt á þeim grundvelli að ætla mætti að málsmeðferð fyrir Landsrétti kynni að vera stórlega ábótavant, sbr. 3. málslið 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991.
Málatilbúnaður aðila um formhlið máls
15. Áfrýjandi reisir kröfu sína um ómerkingu dóms Landsréttar á því að sérfróður meðdómandi, Hjalti Sigmundsson, sem dæmdi málið í Landsrétti, hafi áður verið matsmaður um sakarefnið í skilningi c-liðar 5. gr. laga nr. 91/1991 og því vanhæfur til að sitja í dómi í málinu. Jafnframt sé hann vanhæfur á grundvelli g-liðar sömu lagagreinar þar sem rangar upplýsingar hafi verið gefnar í tölvupósti Landsréttar til áfrýjanda 4. september 2023 er upplýst var um að hann tæki sæti í málinu sem sérfróður meðdómsmaður. Þar hafi komið fram að Hjalti hefði áður verið dómkvaddur matsmaður til að meta ástand tiltekinna íbúða við Kambavað 1–3 og hefði sú matsgerð tekið til frágangs byggingaraðila á tilgreindum séreignarhlutum sem og frágangs á sameign, meðal annars með tilliti til leka og raka en þak hefði ekki komið til skoðunar. Í tilkynningunni hafi jafnframt komið fram að rétturinn teldi ekki að aðkoma Hjalta að eigninni vegna vinnu við framangreinda matsgerð hefði áhrif á hæfi hans til þess að sitja sem sérfróður meðdómsmaður í málinu.
16. Áfrýjandi hafi aflað afrits matsgerðarinnar og þar kæmi fram að meðdómarinn hefði skoðað þakið við gerð matsgerðar sinnar og tiltekið hvaða aðgerða og úrbóta væri þörf varðandi það. Verkliðir er tengist þaki eignarinnar séu verulegur hluti þess verks sem áfrýjandi innti af hendi. Hinn sérfróði meðdómandi hafi verið matsmaður um sakarefnið. Ekki sé gerð krafa um það samkvæmt c-lið 5. gr. laga nr. 91/1991 að viðkomandi hafi verið matsmaður í sama máli, öndvert við þá aðstöðu sem lýst er í a-lið 5. gr. laganna, heldur sé nægilegt að um sé að ræða sama sakarefni sem óumdeilt sé að varði þak eignarinnar að Kambavaði 1. Af þessum sökum, ekki síst með hliðsjón af þeim röngu upplýsingum sem fram komu í tilkynningu Landsréttar, hafi hinn sérfróði meðdómandi verið vanhæfur til að taka sæti í málinu.
17. Af hálfu stefnda er bent á að sakarefnið sem matsgerð hins sérfróða meðdómanda laut að og var lögð fram í fyrrgreindum dómsmálum sé ekki það sama og til úrlausnar er í máli þessu. Þegar af þeirri ástæðu hafi ekki verið fyrir að fara vanhæfi meðdómsmannsins á grundvelli c-liðar 1. mgr. 5. gr. laga nr. 91/1991. Úrlausn um ætlað vanhæfi hans ráðist ekki af því hvort fjallað hafi verið um þak hússins að Kambavaði 1 í matsgerð hans frá árinu 2009, heldur af því hvort þar hafi verið tekin afstaða til þess sakarefnis sem er til úrlausnar í máli þessu.
18. Stefndi áréttar að matsgerðar þeirrar sem hinn sérfróði meðdómsmaður stóð að hafi verið aflað af upphaflegum kaupendum þriggja fasteigna að Kambavaði 1. Eftir það hafi tvö dómsmál verið höfðuð á hendur matsþolum og í þessum málumhafi gallar á aðalþaki hússins ekki verið til umfjöllunar að því frátöldu að vikið sé þar að þakdúki. Sakarefni máls þessa sé allt annað, það varði réttarsamband milli verkkaupa og verktaka og snúi að reikningum vegna framkvæmda áfrýjanda. Verk hans á þaki fasteignarinnar Kambavaðs 1 hafi aðallega lotið að þrifum á þakinu og ætluðum mygluforvörnum hans á því en ekki að þakdúk aðalþaksins.
19. Þá telur stefndi að hinn sérfróði meðdómsmaður sé ekki vanhæfur á grundvelli g-liðar 1. mgr. 5. gr. laga nr. 91/1991 enda ráðist mat á hæfi dómara ekki af því hvort efni tölvupósts Landsréttar 4. september 2023 hafi verið rangt eða rétt heldur mati á þeim atriðum sem greinir í 5. gr. laganna. Ekkert sé fram komið um að meðdómandinn hafi ætlað sér að gefa misvísandi upplýsingar um vinnu sína við matsgerð frá 2009.
20. Jafnframt bendir stefndi á að matsgerðin hafi ekki verið unnin fyrir annan hvorn aðila máls þessa heldur lotið að öðrum ágreiningi milli annarra aðila. Atvik séu því ósambærileg þeim sem uppi voru í máli því sem lýst er í dómum Hæstaréttar 18. október 2023 í máli nr. 7/2023 og 28. apríl 2016 í máli nr. 591/2015. Loks bendir stefndi á að sá langi tími sem liðinn sé frá því að hinn sérfróði meðdómandi gegndi matsstörfum árið 2009 mæli gegn vanhæfi hans í máli þessu.
Niðurstaða
21. Samkvæmt 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. 8. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, ber öllum réttur til að fá úrlausn um réttindi sín og skyldur með réttlátri málsmeðferð fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli. Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að fyrrnefndum lögum segir að skilyrðið um óhlutdrægan dómstól feli í sér áskilnað um að dómari í máli þurfi að vera hlutlaus og aðilar njóti jafnræðis að því leyti en ákvæðið sæki fyrirmynd sína í 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Þar segir að þegar kveða skal á um réttindi og skyldur manns að einkamálarétti skuli hann eiga rétt til réttlátrar málsmeðferðar fyrir sjálfstæðum og óvilhöllum dómstóli.
22. Fyrirmæli um sérstakt hæfi dómara til að fara með og dæma einkamál eru í 5. gr. laga nr. 91/1991. Þar er lýst nánar tilgreindum atvikum eða aðstæðum í liðum a til f. Þegar þeim liðum sleppir segir í g-lið greinarinnar að dómari sé vanhæfur til að fara með mál ef fyrir hendi eru önnur atvik eða aðstæður sem fallnar eru til að draga óhlutdrægni hans með réttu í efa.
23. Þegar lagt er mat á hæfi dómara til að fara með mál er þess að gæta að tilgangur hæfisreglna að réttarfarslögum er ekki aðeins að koma í veg fyrir að dómari dæmi mál ef hann er hlutdrægur gagnvart aðilum máls eða sakarefni, heldur jafnframt að tryggja traust bæði aðila máls og almennings til dómstóla með því að dómari standi ekki að úrlausn máls þegar réttmætur vafi gæti risið um óhlutdrægni hans. Sé slíkur vafi um óhlutdrægni dómara er óhjákvæmilegt að hann víki sæti.
24. Samkvæmt c-lið 5. gr. laga nr. 91/1991 er dómari vanhæfur til að fara með og dæma mál ef hann hefur borið eða verið kvaddur til að bera vitni um atvik málsins af réttmætu tilefni eða verið mats- eða skoðunarmaður um sakarefnið. Með sakarefni í skilningi þessa ákvæðis er átt við að dómari hafi áður sem mats- eða skoðunarmaður fjallað um sama viðfangsefni og er til úrlausnar í máli þannig að sönnunargagn sem stafar frá honum geti haft áhrif á úrlausn þess.
25. Eins og rakið hefur verið vann hinn sérfróði meðdómandi í Landsrétti að matsgerð á árinu 2009 um galla í fasteigninni Kambavaði 1–3. Skoðaði hann þá þak sameignar hússins. Í matsgerð hans var komist að ákveðnum niðurstöðum um þakið, einkum um þakdúkinn sjálfan og hvaða úrbóta væri þörf til þess að stemma stigu við raka og leka. Í niðurstöðum matsgerðar hans kom meðal annars fram að dúkurinn væri ófullnægjandi á svo hallalítið þak og lagt væri til svokallað tveggja laga dúkkerfi.
26. Það verk sem áfrýjanda var falið að vinna við fasteignina Kambavað 1 laut meðal annars að því að laga leka, hreinsa og þvo þak fasteignarinnar, hreinsa gróður og stífluð niðurföll, þétta og lagfæra þakkant og vinna að ákveðnum forvörnum á þakfleti.
27. Í fyrrnefndri matsgerð dómkvadds manns, Ríkharðs Kristjánssonar, sem aflað var undir rekstri þessa máls og vikið er að í niðurstöðum dóms Landsréttar er meðal annars greint frá þeim úrbótum sem áfrýjandi vann að við þak hússins en matsmaðurinn taldi margar þeirra óþarfar og gagnslausar. Matsmaður taldi það hafa verið misskilning í upphafi að setja filtdúk ofan á asfaltsdúkinn á þakinu og ekki í samræmi við hönnun. Var stefndi, með hinum áfrýjaða dómi, sýknaður af kröfum áfrýjanda um frekari greiðslur vegna viðbótarverka og aukins kostnaðar vegna verka sem áður hafði verið samið um, meðal annars með vísan til matsgerðar Ríkharðs.
28. Niðurstaða dóms Landsréttar um sýknu stefnda af kröfu áfrýjanda er öðrum þræði reist á því að tilgreindir ágallar hafi verið á verki því sem áfrýjandi vann, meðal annars við þak og þakdúk hússins. Þótt málið hafi verið höfðað af hálfu áfrýjanda til greiðslu ætlaðra eftirstöðva greiðslna fyrir tilgreind verk í þágu stefnda er ljóst að til grundvallar niðurstöðu dómsins um sýknu stefnda lá mat dómenda á verkum áfrýjanda, meðal annars á því verki sem unnið var varðandi þak og þakdúk eignarinnar. Að því mati kom hinn sérfróði meðdómandi sem hafði áður í matsgerð sinni frá árinu 2009 komist að tilgreindri niðurstöðu um ágalla á þaki hússins og hvaða úrbóta væri þörf. Því höfðu sömu atriði varðandi þak og þakdúk eignarinnar að Kambavaði 1 komið til skoðunar hjá hinum sérfróða meðdómanda er hann vann að matsgerð sinni og voru meðal þeirra atriða sem honum var nauðsynlegt að leggja mat á til að komast að niðurstöðu í málinu. Hann hafði samkvæmt þessu verið matsmaður um sama sakarefni og uppi er í máli þessu, sbr. c-lið 5. gr. laga nr. 91/1991, eins og það ákvæði verður skýrt í ljósi þess ágreinings sem hér er til úrlausnar. Hann var því vanhæfur til þess að fara með og leggja dóm á málið.
29. Samkvæmt þessu er fallist á kröfu áfrýjanda um að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað til löglegrar meðferðar á ný fyrir Landsrétti.
30. Rétt er að hvor aðili greiði sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur og málinu vísað á ný til Landsréttar til löglegrar meðferðar.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.