Hæstiréttur íslands
Mál nr. 36/2024
Lykilorð
- Fjársvik
- Peningaþvætti
- Upptaka
- Stjórnarskrá
- Ómerkingarkröfu hafnað
Reifun
Dómur Hæstaréttar
1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen, Karl Axelsson, Sigurður Tómas Magnússon og Skúli Magnússon.
2. Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 4. júlí 2024 í samræmi við yfirlýsingu ákærðu um áfrýjun. Ákæruvaldið krefst þess að hafnað verði kröfum ákærðu um ómerkingu og frávísun, hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur um sakfellingu ákærðu og að refsing þeirra verði þyngd. Þá krefst ákæruvaldið þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur um upptöku eigna hinna ákærðu félaga og ákærðu dæmdir til greiðslu alls sakarkostnaðar.
3. Ákærðu Ágúst Arnar Ágústsson, Zuism trúfélag, Einar Ágústsson, EAF ehf. og Threescore LLC gera aðallega þær kröfur að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur en til vara að þeir verði sýknaðir af öllum kröfum ákæruvaldsins. Til þrautavara gera ákærðu Ágúst Arnar og Einar þá kröfu að þeim verði gerð vægasta refsing sem lög heimili og hún verði skilorðsbundin að öllu leyti eða hluta. Loks krefjast ákærðu þess að allur sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun verjenda þeirra.
Ágreiningsefni
4. Málið var höfðað með ákæru héraðssaksóknara 4. nóvember 2020. Samkvæmt A-lið I. kafla eru ákærðu, Ágústi Arnari og Einari, gefin að sök fjársvik, sbr. 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með því að hafa í sameiningu frá áliðnu ári 2015, en þó einkum frá október 2017 og fram á fyrri hluta árs 2019 styrkt og hagnýtt sér þá röngu hugmynd starfsmanna íslenskra stjórnvalda að trúfélagið Zuism uppfyllti skilyrði fyrir skráningu trúfélags samkvæmt lögum nr. 108/1999 um skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög. Á þeim grundvelli hafi trúfélagið, samkvæmt lögum nr. 91/1987 um sóknargjöld o.fl., fengið greidd úr ríkissjóði sóknargjöld í samtals 36 skipti, vegna áranna 2016, 2017 og 2018, að fjárhæð samtals 84.727.320 krónur. Einari er til vara gefin að sök hlutdeild í fjársvikum meðákærða Ágústar Arnars.
5. Þá er ákærðu, samkvæmt B-lið I. kafla ákæru, gefið að sök peningaþvætti, sbr. 1. mgr., sbr. 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga, með því að hafa í sameiningu á tímabilinu október 2017 til apríl 2019 aflað trúfélaginu samtals 84.727.320 króna ávinnings af fjársvikabrotunum og á sama tíma geymt, flutt, umbreytt og nýtt, þar á meðal að töluverðum hluta í eigin þágu, þann ávinning sem og leynt honum og upplýsingum um uppruna hans, staðsetningu og ráðstöfun, allt með nánar tilgreindri meðferð og ráðstöfun ávinningsins. Loks er í III. kafla ákæru gerð upptökukrafa á hendur ákærðu félögunum þremur.
6. Með héraðsdómi voru ákærðu sýknaðir af ákæru um fjársvik. Var sú niðurstaða byggð á því að verulegur vafi væri um hvort þeir hefðu með háttsemi sinni styrkt og hagnýtt sér ranga hugmynd starfsmanna stjórnvalda um að trúfélagið Zuism uppfyllti skilyrði skráningar samkvæmt lögum nr. 108/1999. Vafa þar um bæri að skýra ákærðu í hag. Vegna sýknu af ætluðu fjársvikabroti yrði jafnframt að sýkna ákærðu af peningaþvætti. Enn fremur var upptökukröfum hafnað.
7. Með hinum áfrýjaða dómi var komist að öndverðri niðurstöðu. Þar var talið sannað að ákærðu hefðu á árunum 2017 til 2019 blekkt stjórnvöld að því er varðar starfsemi trúfélagsins Zuism. Í stað þess að gera stjórnvöldum grein fyrir því að félagið uppfyllti ekki áskilnað laga nr. 108/1999 hefðu ákærðu styrkt og hagnýtt sér þá röngu hugmynd stjórnvalda að trúfélagið uppfyllti skilyrði skráningar. Það hefði leitt til þess að félagið fékk greidd sóknargjöld sem það átti ekki tilkall til samkvæmt lögum. Þá hefðu ákærðu Ágúst Arnar og Einar nýtt hluta þeirra fjármuna sem trúfélagið fékk greidda til eigin nota en fært stærstan hluta þeirra af reikningi félagsins inn á reikning ákærða Threescore LLC. Voru þeir sakfelldir fyrir fjársvik og peningaþvætti. Þá var fallist á upptökukröfu á hendur hinum ákærðu félögum.
8. Áfrýjunarleyfi í málinu var veitt 25. júní 2024 með ákvörðun réttarins nr. 2024-73. Þar kom fram að niðurstaða Landsréttar um mat á sönnunargildi munnlegs framburðar yrði ekki endurskoðuð fyrir Hæstarétti, sbr. 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Samkvæmt 4. málslið 4. mgr. sömu greinar skyldi hins vegar verða við ósk leyfisbeiðanda, sem sýknaður er af ákæru í héraðsdómi en sakfelldur fyrir Landsrétti, um leyfi til áfrýjunar nema Hæstiréttur teldi ljóst að áfrýjun myndi ekki verða til þess að breyta dómi Landsréttar. Þar sem því yrði ekki slegið föstu voru beiðnir ákærðu um áfrýjunarleyfi samþykktar.
Málsatvik
9. Málsatvikum er ítarlega lýst í hinum áfrýjaða dómi sem og dómi héraðsdóms þar sem framburður ákærðu og vitna er rakinn. Standa ekki efni til þess að endurtaka þá umfjöllun en þó verður hér vikið að allra helstu málsatvikum.
10. Rannsókn málsins hófst 4. desember 2018 þegar embætti héraðssaksóknara barst erindi skrifstofu fjármálagreiningar lögreglu (SFL) á grundvelli 7. gr. reglugerðar nr. 175/2016 um meðhöndlun tilkynningar um ætlað peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka. Laut málið að hugsanlegu peningaþvætti ákærðu Einars, Ágústs Arnars og trúfélagsins Zuism.
11. Ákærði, Zuism trúfélag, var upphaflega viðurkennt til skráningar sem trúfélag 28. janúar 2013, sbr. 2. gr. laga nr. 108/1999. Áður hafði umsókn um skráningu í tvígang verið hafnað. Voru þá af hálfu félagsins lögð fram frekari gögn sem nánari grein er gerð fyrir í hinum áfrýjaða dómi. Lutu þau að umfjöllun um inntak viðkomandi trúarbragða og fyrirkomulagi á starfsemi félagsins. Sátu ákærðu Ágúst Arnar og Einar í stjórn þess á þeim tíma en annar nafngreindur maður gegndi starfi forstöðumanns. Innanríkisráðuneytið fór þá með umsjón skráningar trú- og lífsskoðunarfélaga á grundvelli tilvitnaðra laga. Á því varð sú breyting 1. janúar 2015 að sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra tók við því hlutverki.
12. Í hinum áfrýjaða dómi eru rakin samskipti þeirra, sem fóru fyrir félaginu á fyrstu árunum, við stjórnvöld, þar með talið ákærðu Ágústs Arnars og Einars. Koma þar við sögu breytingar á fyrirsvari fyrir félagið, lög þess og samþykktir sem breytt var þrisvar frá fyrstu skráningu þess, fundargerðir aðalfunda félagsins og upplýsingar um starfsemi á vettvangi þess.
13. Eftir að sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra tók við því hlutverki sem innanríkisráðuneytið hafði áður samkvæmt lögum nr. 108/1999 ritaði hann bréf 27. febrúar 2014 til skráðs forstöðumanns hins ákærða trúfélags. Kom þar fram að samkvæmt 5. gr. laga nr. 108/1999 skyldu trúfélög árlega senda sýslumanni skýrslu um starfsemi sína á næstliðnu ári. Lagt var fyrir trúfélagið að senda sýslumanni slíka skýrslu eigi síðar en 31. mars 2014 vegna starfsemi þess á árinu 2013. Engin viðbrögð sýnast hafa borist við þessu erindi. Sendi sýslumaður á ný bréf 10. október 2014 þar sem fyrra erindi var ítrekað og frestur veittur til 1. nóvember það ár. Með áskorun sýslumanns í Lögbirtingablaðinu 20. apríl 2015 var skorað á alla þá sem teldu sig veita trúfélaginu Zuism forstöðu eða sætu í stjórn þess að gefa sig fram við sýslumann, þar sem ekki væri vitað um neina starfsemi á vegum þess. Hvorki væri kunnugt um hver væri forstöðumaður þess né hverjir sætu í stjórn. Leiddi áskorunin loks til viðbragða og með ákvörðun sýslumanns 1. júní 2015 var nafngreindur maður skráður forstöðumaður trúfélagsins.
14. Ákærði Ágúst Arnar skaut framangreindri ákvörðun sýslumanns til innanríkisráðuneytisins 17. febrúar 2016, sem með úrskurði 12. janúar 2017 felldi hana úr gildi og fól sýslumanni að taka til umfjöllunar kröfu hans um að verða skráður forstöðumaður trúfélagsins. Vísast til hins áfrýjaða dóms um nánari reifun á úrskurði ráðuneytisins þar sem atvik þess þáttar málsins eru rakin. Að gengnum úrskurðinum var ákærði Ágúst Arnar skráður forstöðumaður en þó ekki fyrr en í september það ár. Í október sama ár voru trúfélaginu fyrst greidd sóknargjöld en svo sem fram hefur komið fékk félagið frá þeim tíma og fram í janúar 2019 samtals 36 slíkar greiðslur úr ríkissjóði.
15. Í hinum áfrýjaða dómi er ítarleg grein gerð fyrir skýrslum þeim sem trúfélagið sendi sýslumanni og taka til ákærutímabilsins. Er um að ræða skýrslur vegna starfsemi áranna 2015, 2016, 2017 og 2018, sbr. 5. gr. laga nr. 108/1999. Samkvæmt skýrslu fyrir árið 2015 fjölgaði í félaginu á því ári úr fjórum í 3.106 meðlimi. Í því sambandi er ástæða til að geta þess að þeir aðilar sem voru tímabundið í forsvari fyrir félagið, þar á meðal fyrrgreindur maður sem gegndi tímabundið starfi forstöðumanns, munu hafa lofað endurgreiðslu sóknargjalda til meðlima. Beindist í kjölfarið nokkur athygli að trúfélaginu í fjölmiðlum svo sem nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi. Af hálfu ákærðu hefur jafnframt verið leitast við, með frekari vísan til gagna og framburða, að sýna fram á að virk starfsemi hafi verið í félaginu á umræddum tíma.
16. Með bréflegri fyrirspurn sýslumannsins á Norðurlandi eystra 19. febrúar 2019, sem sett var fram fram á grundvelli laga nr. 108/1999, var óskað nánar tilgreindra upplýsinga vegna skýrslu ákærða Zuism trúfélags fyrir árið 2017. Því erindi svaraði lögmaður félagsins með bréfi 8. mars það ár. Í kjölfarið fór sýslumaður þess á leit við Fjársýslu ríkisins 14. sama mánaðar að hún stöðvaði greiðslur til trúfélagsins þar sem ekki yrði fyllilega ráðið af þeim upplýsingum er hann hefði undir höndum hvort það uppfyllti skilyrði skráningar samkvæmt lögum nr. 108/1999. Gekk það eftir og var síðasta greiðsla á sóknargjöldum til trúfélagsins innt af hendi 15. janúar 2019. Þá sendi sýslumaður ákærða Ágústi Arnari bréf 15. apríl það ár þar sem fyrri fyrirspurn frá 19. febrúar sama ár var ítrekuð og rökstudd frekar og veittur 30 daga frestur til svara en ella mætti búast við því að félagið yrði fellt af skrá. Erindi þetta var ítrekað með bréfi 10. ágúst 2019 og ákærði Ágúst Arnar aðvaraður á grundvelli heimildar 1. mgr. 6. gr. laga nr. 108/1999. Svar barst frá honum með bréfi 13. september sama ár. Enn fremur vakti sýslumaður athygli fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra á því með bréfi 23. apríl 2019 að tilkynning um breytingu á stjórn trúfélagsins teldist ekki gild af nánar tilgreindum ástæðum.
17. Í ákæru eru raktar þær ráðstafanir fjármuna af bankareikningi ákærða Zuism trúfélags, sem og eftirfarandi meðferð þeirra sem ákæra vegna peningaþvættis er grundvölluð á. Liggur þeirri reifun til grundvallar yfirlit byggt á greiningu lögreglu á flæði fjármuna inn og út af reikningi trúfélagsins. Sýnist ekki deilt um einstakar ráðstafanir ellegar þær tölur sem í ákæru eru tilgreindar þó svo að ákærðu hafni því að þar hafi búið að baki refsiverð háttsemi af nokkru tagi.
Röksemdir ákæruvalds og ákærðu
Helstu röksemdir ákæruvalds
18. Ákæruvaldið hafnar því að einhverjir þeir annmarkar séu á dómi Landsréttar eða ákæru í málinu sem leiða eigi til ómerkingar eða frávísunar. Þá er tekið undir röksemdir Landsréttar fyrir sakfellingu ákærðu.
19. Ákæruvaldið áréttar þá afstöðu sína að málið hverfist ekki um trúfrelsi eða félagafrelsi meðlima trúfélaga enda sé ákærðu frjálst að trúa á eða tilbiðja hvað sem þeim sýnist. Málið snúist hins vegar um skilyrði þess að trú- eða lífsskoðunarfélag eigi rétt á fjárframlögum úr ríkissjóði samkvæmt ákvæðum II. kafla laga nr. 108/1999 um skilyrði skráningar slíkra félaga. Ákærðu hafi beitt blekkingum og styrkt og hagnýtt sér þá röngu hugmynd starfsmanna stjórnvalda að hið ákærða félag, Zuism trúfélag, uppfyllti þau skilyrði. Er því hafnað að fyrir hendi hafi verið hjá sýslumanni á umræddum tíma vitneskja um að starfsemi trúfélagsins Zuism væri ekki í samræmi við áskilnað II. kafla laganna.
20. Af hálfu ákæruvaldsins er byggt á því að engin raunveruleg starfsemi hafi farið fram á vettvangi Zuism trúfélags. Er bent á loðna og villandi upplýsingagjöf, meðal annars á vefsíðu félagsins. Þá vísar ákæruvaldið til þess að allar innsendar ársskýrslur félagsins eigi það sammerkt að þar séu einungis veittar lágmarksupplýsingar og engar efnislegar skýringar gefnar. Um sé að ræða upplýsingagjöf sem ómögulegt hafi verið að henda nokkrar reiður á, skýrslurnar séu ekki trúverðugar og bendi til þess að ákærðu hafi meðvitað verið að villa um fyrir sýslumanni. Hinar ætluðu samkomur sem þar sé getið séu fyrst og fremst svokallaðar „bjór og bæn“ - samkomur sem ákærðu hafi ekki viljað upplýsa hverjir sóttu og ekkert liggi fyrir um að hafi verið auglýstar fyrir félagsmönnum eða staðið þeim opnar.
21. Ákæruvaldið byggir á því að fjármunum sem runnu til ákærða trúfélagsins Zuism frá ríkissjóði hafi ekki verið varið til eða í þágu eiginlegrar trúariðkunar eða tengdrar starfsemi í skilningi laga nr. 108/1999 heldur með öðrum óskyldum hætti í þágu ákærðu. Ekkert raunverulegt bókhald, áreiðanlegir ársreikningar eða utanumhald fjármuna hafi verið fyrir hendi hjá félaginu og ákærðu ekki getað gefið neinar haldbærar skýringar á ráðstöfun fjármunanna. Á ákærutímabilinu hafi ákærðu ráðstafað út úr félaginu nánast öllum þeim fjármunum sem runnu til þess frá ríkinu. Það eitt og sér bendi þá þegar til þess að þeir hafi ekki ætlað sér að tryggja áframhaldandi starfsemi trúfélagsins. Að mati ákæruvalds bera gögn um ráðstöfun fjármunanna það með sér að verið sé að ljá umræddum fjármunafærslum formlegt eða lögmætt yfirbragð.
22. Ákæruvaldið hafnar enn fremur málatilbúnaði ákærðu þess efnis að ríkið sé sérfróður aðili og að það skipti máli við sakarmatið. Um þetta vísar ákæruvaldið til dóms Hæstaréttar 19. september 2013 í máli nr. 755/2012 þar sem sambærilegum vörnum var án árangurs teflt fram í máli þar sem fjársvik beindust gegn bankastofnun.
Helstu röksemdir ákærðu Ágústs Arnars og Zuism trúfélags
23. Af hálfu þessara ákærðu er byggt á því að ákæra í málinu sé svo óskýr að það varði frávísun frá héraðsdómi án kröfu. Hún standist ekki áskilnað c- og d-liða 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008 og sé of almennt orðuð til að með réttu megi átta sig á hver sé sú sérgreinda háttsemi sem talin er saknæm þegar kemur að rekstri trúfélagsins.
24. Kröfu um ómerkingu og heimvísun reisa ákærðu á því að samningu dóms Landsréttar sé áfátt en þar hafi í engu verið getið ýmissa þeirra varna sem þeir byggðu á.
25. Ákærði Ágúst Arnar byggir á því að hann sem forstöðumaður trúfélagsins hafi alla tíð verið í góðri trú um að það væri rekið með lögmætum hætti og uppfyllti öll skilyrði laga nr. 108/1999.
26. Þá mótmæla ákærðu því að villa í skilningi 248. gr. almennra hegningarlaga hafi verið fyrir hendi hjá stjórnvöldum. Þvert á móti liggi fyrir að fulltrúi sýslumanns hafi ráðist í umfangsmikla rannsóknarvinnu á málefnum trúfélagsins í aðdraganda þess að ákærði Ágúst Arnar var skráður forstöðumaður þess í september 2017. Á þeim tíma og allar götur síðan hafi fulltrúi sýslumanns haft fastmótaðar hugmyndir um að starfsemin væri í raun ekki lögmæt og uppfyllti ekki skráningarskilyrði laga nr. 108/1999. Ákærði Ágúst Arnar hafi hins vegar að endingu verið viðurkenndur forstöðumaður félagsins og þannig hafi sýslumaður staðfest í verki að það uppfyllti umrædd lagaskilyrði. Með vísan til þessa geti fulltrúi sýslumanns ekki talist hafa verið í einhvers konar villu. Staðreyndin sé að hið ákærða félag sé enn þann dag í dag skráð trúfélag og sýslumaður hafi ekki nýtt lagaheimildir til að fella skráningu þess úr gildi. Það fái hins vegar ekki greidd sóknargjöld og geti þar af leiðandi ekki sinnt lögbundinni starfsemi.
27. Ákærði Ágúst Arnar mótmælir því jafnframt að hafa beitt íslenska ríkið blekkingum í skilningi 248. gr. almennra hegningarlaga með þeim aðferðum og afleiðingum sem lýst sé í ákæru. Áréttar hann í því sambandi að ársskýrslur trúfélagsins, sem mikið sé lagt upp úr í hinum áfrýjaða dómi, hafi geymt allar nauðsynlegar og umbeðnar upplýsingar um starfsemi þess. Á stöðluðum eyðublöðum frá sýslumanni hafi ekki verið gerðar kröfur um nánari upplýsingar en gefnar hafi verið af hálfu hins ákærða félags. Þá sé ámælisvert að engin sönnunarfærsla hafi farið fram um efni umræddra skýrslna. Enn fremur vísar ákærði til gagna sem hann hafi lagt fram þar sem sýnt sé fram á fjölda frétta sem birst hafi á vefsíðu félagsins og greini frá starfsemi þess. Það hafi jafnframt sótt um lóð í Reykjavík til byggingar á hofi fyrir starfsemina, komið að útgáfu Gilgameskviðu, sagt fréttir af viðburðunum „bjór og bæn“ og opnað fyrir umsóknir um hjónavígslur og nafnagjafir svo að fátt eitt sé nefnt. Þannig hafi umtalsverð starfsemi sannanlega farið fram á vettvangi trúfélagsins.
28. Ákærðu vísa til þess að í íslensku sakamálaréttarfari hafi almennt verið gerðar minni kröfur til blekkingar sem þáttar í ólögmætri háttsemi eftir því sem blekkingarþolinn sé viðkvæmari. Í málinu sé blekkingarþoli þvert á móti reynslumikill löglærður fulltrúi hjá sýslumannsembætti. Samkvæmt því verði að gera kröfu um að hinar meintu blekkingar hafi verið mjög „vandaðar“ og einbeittar en að mati ákærðu sé því ekki til að dreifa í málinu.
29. Þá er hafnað fullyrðingum um að þúsundir félagsmanna hafi verið skráðir í félagið af óheilindum. Það hafi aldrei verið markmið trúfélagsins Zuism að fella niður sóknargjöld. Yfirlýsingar þess efnis hafi verið gefnar af aðilum sem hafi fyrir handvömm sýslumanns verið skráðir sem fyrirsvarsmenn félagsins. Við hafi tekið deila sem fram hafi farið opinberlega og lyktað með því að „uppreisn aktívista“ gegn sóknargjaldakerfinu hafi verið kveðin niður. Ákærðu hafi engu að síður talið sig bera þá skyldu gagnvart meðlimum trúfélagsins að endurgreiða sóknargjöldin vegna yfirlýsinga þess efnis. Komið hafi svo á daginn að 92,19% nýrra meðlima hafi ekki sóst eftir slíkri endurgreiðslu. Af hálfu ákærða Ágústs Arnars er áréttað að hann hafi gegnt forstöðu í félaginu í örskamman tíma þegar sú ákvörðun hafi verið tekin að uppsöfnuð sóknargjöld skyldu greidd félagsmönnum.
Helstu röksemdir ákærðu Einars, EAF ehf. og Threescore LLV
30. Ákærðu Einar, EAF ehf. og Threescore LLV byggja að breyttu breytanda og í meginatriðum á sömu málsástæðum og ákærðu Ágúst Arnar og Zuism trúfélag um að skilyrðum 248. gr. almennra hegningarlaga sé ekki fullnægt hvað varðar ætlaða villu brotaþola eða ásetning ákærðu til blekkinga.
31. Þessir ákærðu byggja að auki á því að fjársvik, líkt og önnur brot í XXVI. kafla laganna, séu tjónsbrot sem þýði að brotið sé fullframið þegar tiltekin afleiðing hafi hlotist af verknaðinum. Telja ákærðu ljóst að íslenska ríkið hafi ekki orðið fyrir neinu tjóni vegna greiðslu sóknargjalda til ákærða Zuism trúfélags. Ákvæði 1. gr. laga nr. 91/1987 séu afdráttarlaus um að skráð trúfélög eigi hlutdeild í álögðum tekjuskatti. Ríkið bíði ekkert fjártjón af þeirri ákvörðun almennings að beina sóknargjaldi sínu til eins safnaðar fremur en annars. Skilyrði tjónsbrots sé því ekki mætt og beri að sýkna ákærðu þegar af þeirri ástæðu.
Niðurstaða
Um formhlið málsins
32. Í þessum þætti málsins liggur fyrir að taka afstöðu til þeirrar ábendingar ákærðu að til álita komi að vísa málinu frá héraðsdómi án kröfu þar sem ákæra uppfylli ekki skilyrði 152. gr. laga nr. 88/2008. Með úrskurði héraðsdóms 9. apríl 2021 var hafnað samkynja kröfu þeirra um frávísun málsins. Í annan stað gera ákærðu þá kröfu fyrir Hæstarétti að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur vegna þess að samningu hans sé áfátt.
33. Sjónarmið um að frávísa beri málinu án kröfu frá héraðsdómi styðja ákærðu þeim rökum að ákæra í því uppfylli ekki, vegna skorts á skýrleika, skilyrði c- og d-liða 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008. Hún sé of almennt orðuð til að unnt sé að átta sig á hver hafi verið hin refsinæma háttsemi við rekstur trúfélagsins. Þannig sé ekki tilgreint nægilega hvaða röngu eða villandi gögnum og yfirlýsingum ákærðu hafi beint að stjórnvöldum. Þvert á móti hverfist málavaxtalýsing í ákæru um almennar staðhæfingar og lagaskilyrði fyrir skráningu trúfélags. Af þessum sökum hafi ákærðu hvorki komið viðhlítandi vörnum að í málinu né hafi fyrir dómi farið fram fullnægjandi sönnunarfærsla um þau gögn sem grundvallarþýðingu hafi haft fyrir sakfellingu.
34. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008 skal í ákæru greina svo glöggt sem verða má hver sú háttsemi er sem ákært er út af, hvar og hvenær brot er talið framið, heiti þess að lögum og aðra skilgreiningu og loks heimfærslu þess til laga og stjórnvaldsfyrirmæla ef því er að skipta. Þá skal samkvæmt d-lið greina í ákæru svo glöggt sem verða má þær röksemdir sem málsókn er byggð á, ef þörf krefur, svo sem ef mál er flókið eða umfangsmikið. Röksemdafærslan skuli þá vera gagnorð og svo skýr að ekki fari á milli mála hverjar sakargiftir eru. Teljist ákæra ekki uppfylla lágmarkskröfur 1. mgr. 152. gr. laganna, þar með talið þær kröfur um skýrleika sem ráða má af c- og d-liðum málsgreinarinnar, leiðir það til frávísunar málsins frá héraðsdómi með eða án kröfu ákærða.
35. Í dómaframkvæmd Hæstaréttar eftir gildistöku laga nr. 88/2008 hefur kröfunni um skýrleika ákæru verið beitt með þeim hætti að lýsing á háttsemi sem ákærða er þar gefin að sök verði að vera svo greinargóð og skýr að hann geti ráðið af henni og þeim röksemdum sem þar kunna að vera færðar fram hvaða refsiverðu háttsemi hann er sakaður um og hvaða ákvæði refsilaga hann er talinn hafa brotið. Ekki megi vera slík tvímæli um það hverjar sakargiftirnar eru að með réttu verði ákærða ekki talið fært að taka afstöðu til þeirra og halda uppi vörnum, sbr. 1. mgr. 180. gr. laga nr. 88/2008 og a-lið 3. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Verður því í ákæru að leggja þann fullnægjandi grundvöll að máli að fella megi dóm á það samkvæmt því sem í henni segir, enda verður ákærði ekki dæmdur fyrir aðra hegðun en þá sem þar greinir, sbr. 1. mgr. 180. gr. laga nr. 88/2008, sbr. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar 10. desember 2012 í máli nr. 703/2012 og 25. nóvember 2021 í máli nr. 28/2021.
36. Í ákæru er háttsemi sú sem ákærðu er gefin að sök annars vegar heimfærð undir fjársvik, sbr. 248. gr. almennra hegningarlaga, en hins vegar peningaþvætti samkvæmt 1. mgr., sbr. 2. mgr. 264. gr. sömu laga. Í ákærunni er gerð nánari grein fyrir tímasetningu ætlaðra brota þannig að hvað varðar 248. gr. hafi þau átt sér stað frá áliðnu ári 2015, en þó einkum frá október 2017 og fram á fyrri hluta ársins 2019. Brot gegn 1. mgr., sbr. 2. mgr. 264. gr. eru sögð hafa átt sér stað á tímabilinu október 2017 til apríl 2019. Þá er því nánar lýst í hverju hin refsiverða háttsemi hafi falist í hvoru tilviki fyrir sig. Hafi trúfélagið á tímabilinu frá október 2017 til janúar 2019, með samtals 36 greiðslum, ranglega fengið greiddar 84.727.320 krónur í formi sóknargjalda vegna áranna 2016, 2017 og 2018. Þeim ávinningi sem þannig hafi verið aflað með fjársvikum hafi ákærðu með peningaþvætti geymt, flutt, umbreytt og nýtt, þar á meðal að töluverðum hluta í eigin þágu, leynt honum og upplýsingum um uppruna hans, staðsetningu og ráðstöfun. Í tilviki ætlaðs fjársvikabrots er síðan lýst nánar þeim athöfnum og athafnaleysi sem ákærðu hafi beitt við ætlaðar blekkingar sínar á umræddu tímabili en þó hvorki vísað þar um til tiltekinna gagna eða dagsetninga. Að lokum eru um ætlað peningaþvætti raktar þær tilfærslur, ráðstafanir og varsla fjármuna sem ákæruvaldið leggur til grundvallar.
37. Af 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008 verður ekki ráðið að í ákæru beri að vísa til sönnunargagna til stuðnings ákæruefnum. Aftur á móti er í 154. gr. laganna mælt fyrir um að ákæruvaldið skuli senda héraðsdómi með ákæru þau sýnilegu sönnunargögn sem það hyggst leggja fram í máli og skrá yfir sönnunargögn og vitni sem óskað verði eftir að leiða.
38. Að sönnu er ákæran óvenjuleg að því leyti að þær röksemdir sem hún er reist á eru teknar inn í meginmál hennar með nokkuð ítarlegum hætti en ekki í sérstakan kafla, sbr. d-lið 152. gr. laga nr. 88/2008. Ekki fæst hins vegar séð að sú tilhögun hafi haft áhrif á möguleika ákærðu til þess að hafa uppi efnisvarnir.
39. Samkvæmt því sem rakið hefur verið voru ekki þeir ágallar á ákæru í málinu að torveldað hafi ákærðu að taka til varna eða ráða af henni hvaða refsiverðu háttsemi þeir væru sakaðir um. Með ákærunni var því lagður fullnægjandi grundvöllur að málinu svo fella mætti dóm á það. Ekki er því tilefni til að vísa málinu frá dómi á þeim grunni að ákæra hafi ekki uppfyllt kröfur 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008.
40. Kröfu um ómerkingu styðja ákærðu þeim rökum að samningu dóms Landsréttar hafi verið áfátt. Við flutning málsins fyrir Hæstarétti skýrðu skipaðir verjendur þeirra þá afstöðu nánar á þann veg að í hinum áfrýjaða dómi hafi meðal annars skort á umfjöllun um gögn og framburð vitna sem styðji staðhæfingar ákærðu um virka starfsemi í trúfélaginu á þeim tíma sem ákæra tekur til.
41. Svo sem meðal annars kemur fram í dómum Hæstaréttar 14. febrúar 2024 í máli nr. 43/2023 og 29. janúar 2025 í máli nr. 33/2024 er fullnægjandi rökstuðningur dóms í sakamáli þáttur í réttlátri málsmeðferð sem ákærði skal njóta samkvæmt 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmálans, sbr. til hliðsjónar dóma Mannréttindadómstóls Evrópu 16. desember 1992 í máli nr. 12945/87, Hadjianastassiou gegn Grikklandi, og 26. september 2023 í máli nr. 15669/20, Yüksel Yalçınkaya gegn Tyrklandi. Mannréttindadómstóllinn hefur slegið því föstu að rétturinn til réttlátrar málsmeðferðar geti ekki talist virkur nema varnir og athugasemdir aðila séu teknar til raunverulegrar skoðunar af innlendum dómstólum og þeir megi ekki virða að vettugi afmarkaða, viðeigandi og þýðingarmikla mótbáru sem sakborningur hefur sett fram, sbr. til dæmis dóm 29. nóvember 2016 í máli nr. 24221/13, Carmel Saliba gegn Möltu. Málsaðilar eigi þannig rétt á að tekin sé skýr afstaða til röksemda sem ráði úrslitum um niðurstöðu máls. Dómstólum beri hins vegar ekki skylda til að svara öllum röksemdum þeirra nákvæmlega, sbr. meðal annars dóm 9. desember 1994 í máli nr. 18390/91, Ruiz Torija gegn Spáni. Í forsendum dóms þarf því ekki fortakslaust að reifa og taka afstöðu til hvers og eins sönnunargagns, þar á meðal munnlegs framburðar, sem aðilar hafa aflað.
42. Samkvæmt framangreindu ber í forsendum dóms að fjalla með rökstuddum hætti um þær munnlegu skýrslur og önnur sönnunargögn sem ráða úrslitum máls þannig að aðilar geti gert sér grein fyrir á hvaða grundvelli niðurstaðan er reist. Að öðru leyti fer það eftir mati dómara á þýðingu munnlegs framburðar og annarra sönnunargagna hverju sinni hvort og með hvaða hætti efni eru til að reifa og fjalla um slík atriði.
43. Í máli þessu háttar þannig til að engin ný gögn voru lögð fram fyrir Landsrétti og ákærðu óskuðu hvorki eftir því að gefa þar sjálfir viðbótarskýrslur né leiða þar ný vitni eða þau vitni sem skýrslu höfðu gefið fyrir héraðsdómi. Í hinum áfrýjaða dómi eru málsatvik skilmerkilega rakin og koma þar meðal annars fram skýringar ákærðu á ýmsum þáttum í starfsemi trúfélagsins á ákærutímabilinu. Þá er í niðurstöðum dómsins vísað jöfnum höndum til þeirra gagna og framburða sem lagðir eru til grundvallar niðurstöðu. Að þessu virtu er ljóst að engir þeir ágallar eru á samningu hins áfrýjaða dóms sem leitt geta til ómerkingar hans. Er kröfu áfrýjenda þar að lútandi því hafnað.
44. Að fenginni framangreindri niðurstöðu liggur fyrir að engir þeir formannmarkar eru á hinum áfrýjaða dómi sem staðið geta því í vegi að efnisdómur verði lagður á málið. Verður því fjallað næst um þann þátt málsins.
Um efnishlið málsins
45. Það skal áréttað að áfrýjunarleyfi í málinu var einungis veitt með vísan til 4. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 á þeim grundvelli að þar sem ákærðu voru sýknaðir af ákæru í héraðsdómi en sakfelldir fyrir Landsrétti skyldi verða við ósk þeirra um áfrýjun nema Hæstiréttur teldi ljóst að hún myndi ekki verða til þess að breyta dómi Landsréttar. Þar sem því yrði ekki slegið föstu var beiðni um áfrýjunarleyfi samþykkt.
1) Um stjórnarskrárvernd trúfrelsis
46. Í beiðnum um áfrýjunarleyfi og undir rekstri málsins fyrir Hæstarétti hafa ákærðu meðal annars byggt á þýðingu stjórnarskrárvarins trúfrelsis fyrir úrlausn málsins. Það verði að vera í forgrunni þegar skorið sé úr ákæruefnum og einstök atriði málsins metin.
47. Í 1. gr. laga nr. 108/1999, sem byggist á fyrirmælum 63. og 64. gr. stjórnarskrárinnar, er mælt fyrir um að menn eigi rétt á að stofna trúfélög og iðka trú sína í samræmi við sannfæringu hvers og eins. Jafnframt eigi menn rétt á að stofna félög um hvers konar kenningar og lífsskoðanir, þar með talið um trúleysi. Ekki er skylt að tilkynna stjórnvöldum um stofnun eða starfsemi trúfélaga eða annarra félaga um lífsskoðanir samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laga nr. 108/1999. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laganna er það þó heimilt og gilda þá um félagið reglur II. kafla þeirra. Í þeim kafla eru ákvæði um skráð trúfélög utan þjóðkirkjunnar, meðal annars um skilyrði skráningar, umsókn um hana, eftirlit með skráðum trúfélögum, niðurfellingu skráningar, forstöðumenn skráðra trúfélaga aðild að þeim, þar á meðal um inngöngu og úrsögn. Ákærði Zuism trúfélag var á ákærutímanum skráð trúfélag samkvæmt lögunum og mun raunar vera svo enn.
48. Enginn vafi er á því að ákærðu Ágúst Arnar og Einar njóta trúfrelsis í skilningi tilvitnaðra ákvæða stjórnarskrár og 1. gr. laga nr. 108/1999. Svo sem áður greinir er í ákæru aðeins vísað til þeirra skilyrða sem trúfélag þarf að uppfylla samkvæmt fyrirmælum II. kafla laganna til skráningar en það er öðru fremur forsenda þess að það fái notið fjárframlaga í formi sóknargjalda úr ríkissjóði á grundvelli laga nr. 91/1987. Að þessu gættu geta reglur stjórnarskrár um trú- og félagafrelsi ekki stutt sýknukröfu ákærðu.
2) Um ætluð fjársvik ákærðu Ágústs Arnars og Einars
49. Fjársvikaákvæði 248. gr. almennra hegningarlaga er svohljóðandi:
Ef maður kemur öðrum manni til að hafast eitthvað að eða láta eitthvað ógert með því á ólögmætan hátt að vekja, styrkja eða hagnýta sér ranga eða óljósa hugmynd hans um einhver atvik, og hefur þannig fé af honum eða öðrum, þá varðar það fangelsi allt að 6 árum.
Ákvæðið hverfist öðru fremur um tvo þætti, blekkingu hins brotlega og villu brotaþola. Fullframið fjársvikabrot felst í því að sá brotlegi nær fram fjárhagslegum ávinningi með því að vekja villu hjá brotaþola eða styrkja villu sem fyrir er, svo sem með því að segja vísvitandi rangt frá ellegar leyna einhverju. Villan er nánar skilgreind í ákvæðinu sem röng eða óljós hugmynd brotaþola um einhver atvik. Óumdeilt er að ekki er nauðsynlegt að brotaþoli sé fullkomlega viss í sinni sök til að villa teljist vera fyrir hendi. Sá vafi sem kann að vera hjá viðkomandi um réttmæti yfirlýsingar hins brotlega skiptir ekki máli, svo framarlega sem hann byggi ráðstafanir sínar á villunni. Þá hefur verið við það miðað að unnt sé að vekja eða styrkja villu bæði beint og óbeint og með athöfnum eða athafnaleysi.
50. Í ákæru er á því byggt að villan í fyrrnefndum skilningi 248. gr. almennra hegningarlaga hafi falist í því að ákærðu hafi styrkt og hagnýtt sér þá röngu hugmynd stjórnvalda að hið ákærða trúfélag uppfyllti skilyrði fyrir skráningu í samræmi við fyrirmæli II. kafla laga nr. 108/1999. Blekkingar ákærðu hafi verið á þá leið að telja stjórnvöldum trú um að á vettvangi trúfélagsins færi fram virk starfsemi þegar raunin hafi verið sú að þar fór ekki fram nein eiginleg trúariðkun eða tengd starfsemi.
51. Með hinum áfrýjaða dómi var talið sannað að ákærðu hefðu á árunum 2017 til 2019 blekkt stjórnvöld með þeim hætti sem í ákæru greinir og fyrr er getið. Þeir hefðu þannig styrkt og hagnýtt sér þá röngu hugmynd stjórnvalda að trúfélagið uppfyllti lagaskilyrði skráningar. Að gögnum málsins virtum er fallist á þá niðurstöðu hins áfrýjaða dóms en þó þannig að leggja verður til grundvallar að ákærðu hafi fyrst og fremst hagnýtt sér takmarkaða vitneskju og þar með óljósa hugmynd stjórnvalda að þessu leyti. Verður ekki talið að vörnum ákærðu hafi verið áfátt þó svo að brot þeirra teljist fremur hafa falist í að hafa styrkt og hagnýtt sér óljósa hugmynd viðkomandi starfsmanna ríkisins fremur en beinlínis ranga hugmynd þeirra, sbr. 1. mgr. 180. gr. laga nr. 88/2008.
52. Hér er til þess að líta að ástæður þess að stjórnvöld skorti nægilega yfirsýn og þekkingu á raunverulegri starfsemi hins ákærða félags á þeim tíma sem máli skiptir var einkum að rekja til þess að opinberu eftirliti voru takmörk sett vegna tilhögunar heimilda þar að lútandi í lögum. Virku eftirliti af hálfu stjórnvalda varð því vart við komið nema í samvinnu við trúfélagið, einkum skilmerkilegri upplýsingagjöf af þess hálfu. Svo sem lýst er í hinum áfrýjaða dómi varð sú ekki raunin af ástæðum sem fyrst og fremst voru á ábyrgð ákærðu Ágústs Arnars og Einars sem raunverulegra stjórnenda félagsins á ákærutímabilinu. Þá einkenndust viðbrögð hins ákærða félags við hvers kyns afskiptum stjórnvalda af andstöðu þar sem meðal annars var látið í veðri vaka að um væri að ræða ólögmætt inngrip í stjórnarskrárverndað trú- og félagafrelsi. Var afleiðing alls þessa sú að stjórnvöld inntu umræddar greiðslur af hendi úr ríkissjóði í formi sóknargjalda svo sem nánar er lýst í ákæru.
53. Með framangreindum hætti hagnýttu ákærðu Ágúst Arnar og Einar sér markvisst og sameiginlega þá óvissu sem skapast hafði um raunverulega starfsemi hins ákærða trúfélags og öfluðu því framlaga úr ríkissjóði sem það átti í reynd engan rétt á. Í þessu ljósi getur ekki skipt máli þótt af hálfu stjórnvalda hafi á ákærutímanum verið uppi efasemdir um hvort og þá að hvaða marki raunveruleg starfsemi færi fram á vettvangi hins ákærða trúfélags svo og hvort fullnægt væri grunnskilyrðum II. kafla laga nr. 108/1999 fyrir skráningu þess. Með sama hætti getur ekki haft þýðingu þótt viðbrögð stjórnvalda við þeim aðstæðum sem uppi voru á ákærutímabilinu kunni að einhverju leyti að hafa verið of varfærin eða ómarkviss.
54. Að framangreindu gættu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærðu fyrir brot gegn 248. og 1. mgr., sbr. 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga. Þá er jafnframt og á sama grundvelli staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um refsingu, upptöku eigna og sakarkostnað.
55. Ákærðu greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðra verjenda sinna sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Ákærði Ágúst Arnar Ágústsson og Zuism trúfélag greiði óskipt málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Unnsteins Arnar Elvarssonar lögmanns, 2.511.000 krónur.
Ákærði Einar Ágústsson, EAF ehf. og Threescore LLC greiði óskipt málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Páls Kristjánssonar lögmanns, 2.511.000 krónur.
Ákærðu greiði óskipt annan áfrýjunarkostnað, 782.512 krónur.