Hæstiréttur íslands

Mál nr. 36/2022

Sjóvá-Almennar tryggingar hf. (Kristín Edwald lögmaður)
gegn
A (Jónas Þór Jónasson lögmaður)

Lykilorð

  • Slysatrygging
  • Líkamstjón
  • Miski
  • Stjórnarskrá
  • Vátryggingarsamningur
  • Uppgjör
  • Fyrirvari
  • Endurupptaka bótaákvörðunar
  • Sjómaður

Reifun

A slasaðist á árinu 2014 við störf á frystitogara og var vinnuveitandi hans með áhöfn skipsins vátryggða hjá S hf. í samræmi við fyrirmæli 172. gr. siglingalaga nr. 34/1985. A fékk greiddar bætur úr slysatryggingunni 2016 og gerði fyrirvara við bótauppgjörið um rétt til frekari bóta yrði varanleg örorka og/eða miski síðar metin hærri. A krafði S hf. árið 2019 um viðbótargreiðslu úr vátryggingunni á grundvelli álits örorkunefndar þar sem varanlegur miski og varanleg örorka hans var metin hærri en samkvæmt fyrri matsgerð. S hf. hafnaði þeirri kröfu með vísan til skilmála slysatryggingarinnar um að undantekningarlaust skuli framkvæma örorkumat sem liggur til grundvallar bótaákvörðun í síðasta lagi þremur árum eftir slys. A höfðaði í kjölfarið mál á hendur S hf. til heimtu frekari bóta. Í niðurstöðu sinni vísaði Hæstiréttur til þess að í dómaframkvæmd hefði verið viðurkennt að vátryggingarfélög hafi réttmæta hagsmuni af því að mæla fyrir um tímafresti sem tjónþolar hefðu til að afla sér sönnunar um varanlegar afleiðingar slyss í skilmálum slysatrygginga og hafi þriggja ára frestur ekki verið talinn óeðlilegur. Þá var talið að skilmálinn gilti án tillits til þess að bótafjárhæð ákvarðaðist á grundvelli skaðabótalaga samkvæmt ákvæði kjarasamnings. Þegar litið væri til efnis og skýrs orðalags ákvæðis skilmálanna auk tilvísunar til þeirra í kjarasamningi yrði ekki fallist það með A að óljóst hafi verið að ákvæðið hafi gilt í tilviki hans. Varðandi áhrif fyrirvara þess sem A gerði við bótauppgjörið vísaði Hæstiréttur til þess að fyrirvarinn hafi í engu tilliti lotið að skilmála slysastryggingarinnar um að undantekningarlaust skyldi framkvæma nýtt örorkumat innan þriggja ára frá slysdegi. Þá var talið að ekki væri í málinu komin fram nein sönnun fyrir samkomulagi milli aðila um að víkja frá skilmálum slysatryggingarinnar. Var því hafnað að fyrirvari sem A gerði við bótauppgjör hefði vikið til hliðar skilmálum slysatryggingarinnar. S hf. var því sýknað af öllum kröfum A.

Dómur Hæstaréttar

1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

2. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 16. júní 2022. Hann krefst sýknu af öllum kröfum stefnda og málskostnaðar á öllum dómstigum.

3. Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Ágreiningsefni

4. Aðilar deila um greiðsluskyldu úr slysatryggingu samkvæmt svokallaðri áhafnatryggingu fiskimanna hjá áfrýjanda vegna líkamstjóns sem stefndi varð fyrir í störfum sínum 1. mars 2014. Ágreiningur er um gildi þess skilmála slysatryggingarinnar að tjónþola beri að afla matsgerðar um varanlegar afleiðingar slyss innan þriggja ára frá slysdegi en auk þess hvort fyrirvari sem stefndi gerði við bótauppgjörið skapi rétt hans til frekari bóta.

5. Í héraðsdómi 15. febrúar 2021 var fallist á kröfu stefnda þar sem ekki var talið fært að byggja á umræddum skilmála slysatryggingar áfrýjanda, meðal annars með vísan til 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Í hinum áfrýjaða dómi Landsréttar 8. apríl 2022 var einnig fallist á kröfu stefnda en einkum á þeim grunni að fyrirvari hans við upphaflegt bótauppgjör hefði vikið skilmálanum til hliðar.

6. Áfrýjunarleyfi í málinu var veitt 16. júní 2022 með ákvörðun Hæstaréttar nr. 2022-66 á þeirri forsendu að dómur í því gæti haft fordæmisgildi meðal annars um skýringu vátryggingarsamnings og þýðingu fyrirvara við bótauppgjör.

Málsatvik

7. Stefndi slasaðist 1. mars 2014 við störf um borð í frystitogaranum […] og hlaut áverka á vinstra hné. D hf., sem gerði skipið út, var með áhöfn þess tryggða með vátryggingu hjá áfrýjanda í samræmi við fyrirmæli 172. gr. siglingalaga nr. 34/1985. Læknisrannsókn á stefnda eftir slysið leiddi í ljós rifu á liðþófa í vinstra hné og gekkst hann undir aðgerð á því 9. apríl 2014. Vegna frekari einkenna fór stefndi í aðra hnéaðgerð 1. júlí 2015 án þess að bata væri náð en í apríl sama ár hafði hann hætt störfum á sjó.

8. Aðilar óskuðu sameiginlega 25. janúar 2016 eftir mati B læknis og C lögmanns á afleiðingum slyssins í samræmi við ákvæði skaðabótalaga nr. 50/1993. Varð niðurstaða matsgerðar þeirra frá 18. apríl 2016 að varanlegur miski stefnda samkvæmt 4. gr. skaðabótalaga væri 5 stig og varanleg örorka samkvæmt 5. gr. laganna 10%.

9. Stefndi og áfrýjandi gerðu samkomulag 8. júní 2016 um uppgjör bóta úr vátryggingunni til stefnda á grundvelli matsgerðarinnar. Á tjónskvittun var handritaður svohljóðandi fyrirvari lögmanns stefnda.

[...] með fyrirvara um árslaunaviðmiðið við útreikning bóta f. varanlega örorku og með fyrirvara um rétt Jóns til frekari bóta verði varanleg örorka og/eða miski síðar metin hærri en skv. matsgerð [C] og [B].

10. Einkenni stefnda versnuðu seinni hluta ársins 2016 og leitaði hann til læknis 2. febrúar 2017. Gekkst hann á ný undir aðgerð 15. mars 2017 og komu þá í ljós frekari skemmdir á hnélið. Eftir það versnuðu einkenni hans enn frekar. Í árslok 2018 óskaði stefndi álits örorkunefndar á afleiðingum slyssins á grundvelli 10. gr. skaðabótalaga. Niðurstaða nefndarinnar 13. mars 2019 var að varanlegur miski stefnda væri 15 stig og varanleg örorka 25%.

11. Á grundvelli hins nýja mats sendi stefndi 18. júní 2019 áfrýjanda kröfu um viðbótargreiðslu úr vátryggingunni. Áfrýjandi hafnaði þeirri kröfu 27. júní sama ár með vísan til c-liðar 4. mgr. 6. gr. skilmála slysatryggingar sjómanna þar sem fram kemur að undantekningarlaust skuli framkvæma örorkumat sem liggur til grundvallar bótaákvörðun í síðasta lagi þremur árum eftir slys.

12. Í svari áfrýjanda til stefnda var jafnframt vísað til þess að ákvæði um þriggja ára frest til að framkvæma örorkumat væri í samræmi við það hvernig skilmálar slysatryggingar launþega hjá áfrýjanda og öðrum tryggingafélögum hér á landi hefðu verið um árabil. Var einnig tekið fram í tilefni af fyrirspurn stefnda að framangreindu ákvæði hefði yfirleitt ekki verið beitt með þessum hætti þar til fyrir nokkrum árum.

Löggjöf, kjarasamningur og vátryggingarskilmálar

13. Samkvæmt 1. mgr. 172. gr. siglingalaga ber útgerðarmaður ábyrgð á kröfum vegna líkamstjóns þeirra sem eru ráðnir í skiprúm hjá honum hafi slys borið að höndum þegar hlutaðeigandi var staddur á skipi enda þótt slysið eða tjónið verði ekki rakið til bilunar á tækjum eða ónógra öryggisráðstafana né heldur yfirsjónar þeirra er starfa í þágu skips.

14. Í 2. mgr. 172. gr. er mælt fyrir um skyldu útgerðarmanns til að kaupa tryggingu fyrir slysabótum sem á hann kunna að falla. Nánari fyrirmæli um ákvörðun örorkubóta á grundvelli slysatryggingar koma fram í 2. tölulið 2. mgr. greinarinnar en samkvæmt því skal greidd lögákveðin fjárhæð vegna hvers örorkustigs.

15. Í samræmi við fyrirmæli siglingalaga hefur slysatrygging verið þáttur í kjörum sjómanna um áratuga skeið og útgerðarmenn keypt slíkar tryggingar hjá vátryggingafélögum fyrir áhafnir fiskiskipa. Fram til ársins 2001 voru afleiðingar vinnuslysa sjómanna metnar og tryggingarbætur greiddar til samræmis við lögákveðnar fjárhæðir 2. töluliðar 2. mgr. 172. gr. laganna sem áður er lýst.

16. Með úrskurði gerðardóms 30. júní 2001, sem settur var á fót vegna kjaradeilu sjómanna og útvegsmanna, var gerð breyting á ákvæðum þágildandi kjarasamnings um slysatryggingu, sbr. 172. gr. siglingalaga. Í samninginn komu svohljóðandi ákvæði í 2. og 5. mgr. greinar 1.22:

Bætur úr vátryggingu þessari skulu ákvarðast á grundvelli reglna skaðabótalaga nr. 50/1993 með síðari breytingum leiði það til hærri heildarbóta en samkvæmt 172. gr. laga nr. 34/1985. [...]
Um vátryggingu þessa skulu að öðru leyti gilda almennir skilmálar fyrir slysatryggingu sjómanna.

17. Breyting þessi tók til allra sjómanna sem ráðnir voru á fiskiskip, 12 rúmlestir eða stærri, svo og á ákveðin kaupskip. Í öðrum tilvikum gildir enn ákvæði 2. mgr. 172. gr. siglingalaga um ákvörðun bóta vegna slysa sjómanna.

18. Á slysdegi var í gildi kjarasamningur 17. desember 2008 milli Landssambands íslenskra útvegsmanna og Samtaka atvinnulífsins annars vegar og hins vegar Sjómannasambands Íslands fyrir hönd nánar tiltekinna sjómanna- og verkalýðsfélaga og var framangreind ákvæði sem bætt hafði verið við kjarasamninginn 2001 þar að finna í 2. og 5. mgr. greinar 1.23.

19. Á slysdegi gilti milli útgerðar sem stefndi starfaði hjá og áfrýjanda áhafnatrygging fiskimanna. Í B-hluta vátryggingarskilmála voru ákvæði um slysatryggingu sjómanna og var þar í 6. grein fjallað um bætur fyrir varanlegt líkamstjón. Í 2. og 3. mgr. hennar var nánar fjallað um reikningsaðferðir við útreikning bóta sem miðast við lögákveðnar fjárhæðir hvers örorkustigs, sbr. b-lið 2. töluliðar 2. mgr. 172. gr. siglingalaga sem áður var lýst. Í 4. mgr. 6. greinar skilmálanna eru frekari reglur sem lúta að ákvörðun örorkubóta. Er þar að finna í c-lið fyrirmæli um frest til að framkvæma örorkumat eftir slys sem er svohljóðandi:

Þótt gera megi ráð fyrir, að ástand hins slasaða kunni að breytast, skal undantekningarlaust framkvæma örorkumat í síðasta lagi þremur árum eftir slysið. Í þessu tilfelli ber að ákveða örorkuna eins og gera má ráð fyrir, að hún verði endanleg. Ef líkur eru til að ástand hins slasaða megi bæta með læknismeðferð eða þjálfun, og hann veigrar sér við án gildra ástæðna að gangast undir slíka meðferð, ber samt sem áður við ákvörðun örorkustigs að taka tillit til hugsanlegs bata, sem slík meðferð kynni að hafa í för með sér.

20. Í viðauka við B-hluta vátryggingarskilmálanna voru sérákvæði um sjómenn sem féllu undir fyrrgreindan úrskurð gerðardómsins 30. júní 2001. Í 3. grein viðaukans segir að um ákvörðun bóta við þær aðstæður fari eftir ákvæðum skaðabótalaga. Þá ber 5. grein viðaukans yfirskriftina „Vátryggingarskilmáli“ og þar segir: „Að öðru leyti en því sem í viðaukanum greinir gilda ákvæði skilmála félagsins um slysatryggingu sjómanna.“

Niðurstaða

21. Við úrlausn málsins verður fyrst tekin afstaða til þess hvort vátryggingarskilmáli áfrýjanda um að framkvæma beri örorkumat innan þriggja ára eftir slysdag hafi gilt gagnvart stefnda. Að því búnu verður lagt mat á réttaráhrif fyrirvarans sem stefndi gerði við bótauppgjörið.

Gildi skilmála í slysatryggingu sjómanna um frest til að framkvæma örorkumat

22. Í 1. mgr. 172. gr. siglingalaga er sem fyrr segir mælt fyrir um hlutlæga bótaábyrgð útgerðarmanns vegna líkamstjóns starfsmanns sem verður fyrir slysi um borð í skipi og ber útgerðarmanni jafnframt að kaupa tryggingu fyrir slysabótum sem kunna að falla á hann, sbr. 2. mgr. sömu greinar.

23. Fáist líkamstjón sjómanns ekki bætt úr slíkri slysatryggingu vegna skilmála vátryggingarinnar á tjónþoli þess kost að beina kröfu sinni beint að útgerðarmanni á grundvelli framangreindrar lögbundinnar bótaábyrgðar hans, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 25. september 2019 í máli nr. 23/2019. Stefndi hefur hins vegar í máli þessu kosið að beina kröfu sinni einvörðungu að áfrýjanda, vátryggingafélagi útgerðarmannsins. Ábyrgð félagsins getur þó aðeins byggst á þeirri slysatryggingu sem er í gildi milli útgerðarmanns og áfrýjanda.

24. Fyrir liggur að ákvæði um frest af þeim toga sem kemur fram í skilmálum áfrýjanda um áhafnatryggingu fiskimanna til að láta fara fram örorkumat innan þriggja ára frá slysdegi tíðkast í skilmálum vátryggingafélaga um slysatryggingar, þar með talið slysatryggingum launþega sem byggjast á kjarasamningum og lögum. Slíkar tryggingar fela að jafnaði í sér, eins og raunin er í siglingalögum, víðtæka ábyrgð vegna tjóns sem launþegi verður fyrir vegna slyss í starfi og í vátryggingarskilmálum er að finna frekari afmörkun á inntaki réttar launþega.

25. Í dómum Hæstaréttar hefur verið leyst úr ágreiningi um gildi slíkra ákvæða í slysatryggingu, þar á meðal í dómi réttarins 27. maí 2004 í máli nr. 22/2004. Þar var deilt um gildi skilmála samhljóða þeim sem hér er til umfjöllunar í reglum sem vinnuveitandi hafði sett á grundvelli kjarasamnings starfsmannafélags Reykjavíkurborgar við Reykjavíkurborg. Í forsendum dómsins var litið til þess að tjónþola hefði verið í lófa lagið að kynna sér skilmála slysatryggingarinnar, sem mörkuðu nánar inntak þess réttar sem var veittur á grundvelli kjarasamnings. Þá var umrætt ákvæði skilmálanna hvorki talið óeðlilegt né óvenjulegt á sínu sviði. Í dómi Hæstaréttar 7. júní 2018 í máli nr. 604/2017 komu fram áþekk ummæli um slíkan skilmála í slysatryggingu vátryggingafélags og var ekki talið að vátryggingartaki hefði fært haldbær rök fyrir því að hann væri óbundinn af þeim.

26. Af framangreindu er ljóst að viðurkennt hefur verið að vátryggingafélög hafi réttmæta hagsmuni af því að mæla í skilmálum slysatrygginga fyrir um tímafresti sem tjónþolar hafa til að afla sér sönnunar um varanlegar afleiðingar slyss og er þriggja ára frestur þar ekki talinn óeðlilegur.

27. Í fyrrgreindum málum voru atvik sambærileg þessu máli að því leyti að bótaréttur tjónþola var byggður á vátryggingarsamningi eða reglum vinnuveitanda um slysatryggingu með stoð í kjarasamningi. Þótt útreikningur bótafjárhæðar stefnda í máli þessu sem lá til grundvallar uppgjöri hans við áfrýjanda hafi byggst á fyrirmælum skaðabótalaga en ekki lögákveðnum fjárhæðum 2. mgr. 172. gr. siglingalaga, eftir að kjarasamningi var breytt í því tilliti með úrskurði gerðardómsins 2001, er ótvírætt að ábyrgð áfrýjanda var eftir sem áður reist á vátryggingu sem vinnuveitandi stefnda keypti hjá félaginu. Varð engin slík eðlisbreyting á lög- og kjarasamningsbundinni slysatryggingu að c-liður 4. mgr. 6. greinar skilmála áfrýjanda teljist þar með hafa fallið niður eins og stefndi heldur fram.

28. Enn fremur verður til þess að líta að þótt vátryggingunni sé ætlað sé að bæta rauntjón tjónþola með því að fjárhæð bóta ákvarðist á grundvelli reglna skaðabótalaga, breytir skilmáli c-liðar 4. mgr. 6. greinar engu um að slíkt rauntjón verði bætt en mælir aðeins fyrir um að mat til að staðreyna tjónið skuli fara fram innan tiltekins tíma. Þannig lýtur skilmálinn ekki að brottfalli eða takmörkun kröfuréttar heldur tímafresti við mat á líkamstjóni.

29. Þegar metin er tilvísun hins áfrýjaða dóms til eignarréttarákvæðis 72. gr. stjórnarskrárinnar og dóms Hæstaréttar 22. maí 1998 í máli nr. 311/1997, sem birtur er á bls. 1047 í dómasafni réttarins það ár, skal áréttað að í máli þessu er leitað úrlausnar um þýðingu skilmála vátryggingarsamnings sem gerður er á grundvelli laga um vátryggingarsamninga nr. 30/2004. Í tilvitnuðum dómi og síðari dómum réttarins um þýðingu eignarréttarákvæðis 72. gr. fyrir rétt manns til skaðabóta fyrir líkamstjón voru aðstæður hins vegar öldungis frábrugðnar þeim sem hér eru til skoðunar. Í þeim var til úrlausnar stjórnskipulegt gildi tiltekinna lagaákvæða sem lutu meðal annars að hámarki bótafjárhæða fyrir líkamstjón, viðmiðunartekjum og lágmarksmiskastigi. Var þar lagt mat á að hvaða marki löggjafanum er heimilt að setja almennar reglur um ákvörðun skaðabóta og takmarka rétt manna til bóta fyrir skert aflahæfi og um jafnræði og málefnaleg sjónarmið sem þurfa að búa að baki slíkum lagareglum.

30. Stefndi hefur hins vegar ekki rökstutt að stjórnarskráin setji því sérstakar skorður að samið sé um fresti til að framkvæma örorkumat í skilmálum vátryggingarsamnings um slysatryggingu eins og hér háttar til. Má í því sambandi hafa í huga að samningsfrelsi ríkir um það hvernig ábyrgð er takmörkuð samkvæmt vátryggingarsamningi, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 1. mars 2001 í máli nr. 397/2000.

31. Stefndi hefur jafnframt vísað til þess að sú viðskiptavenja hafi skapast hjá áfrýjanda að bera ekki fyrir sig skilmála um þriggja ára frest til að framkvæma örorkumat í slysatryggingarmálum sjómanna og byggir þar á ummælum í tölvubréfi starfsmanns áfrýjanda um að framangreindu ákvæði „var yfirleitt ekki beitt með þessum hætti fyrr en fyrir nokkrum árum.“ Af hálfu stefnda hefur ekkert frekar verið lagt fram í málinu til að færa sönnur á staðhæfingu hans í þessu tilliti en fyrir tilvist ætlaðrar venju ber hann sönnunarbyrði. Tilvitnuð ummæli í tölvubréfi renna ekki ein og sér nægri stoð undir tilvist slíkrar viðskiptavenju. Koma ákvæði 33. og 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga í þessu samhengi því ekki til álita í málinu og er hafnað þeirri málsástæðu stefnda.

32. Þegar litið er til efnis og skýrs orðalags hins umþrætta skilmála c-liðar 4. mgr. 6. greinar í vátryggingarskilmálum, svo og tilvísunar 5. greinar viðauka við trygginguna þess efnis að vátryggingarskilmálar gildi um slysatrygginguna auk ákvæða kjarasamnings sjómanna, verður ekki fallist þá málsástæðu stefnda að óljóst hafi verið að skilmáli um þriggja ára reglu til að framkvæma örorkumat hafi gilt í tilviki hans. Ljóst er að stefndi er ekki sjálfur vátryggingartaki samkvæmt umræddri slysatryggingu heldur vinnuveitandi hans, D hf., sem er ekki aðili að máli þessu. Kemur því ekki til álita hvort áfrýjandi hafi uppfyllt upplýsingaskyldu sína samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laga nr. 30/2004 gagnvart stefnda. Þótt stefndi sé ekki aðili að vátryggingarsamningnum var honum í lófa lagið, ekki síst eftir að slysið varð, að kynna sér skilmála slysatryggingarinnar sem mörkuðu nánar inntak réttar sem hann átti samkvæmt tryggingunni. Má um það vísa til dóms Hæstaréttar í fyrrgreindu máli nr. 22/2004.

33. Að öllu framangreindu virtu hafa ekki verið færð fram haldbær rök fyrir því að ákvæði skilmála í slysatryggingu áfrýjanda gildi ekki gagnvart stefnda.

Um skýringu og réttaráhrif fyrirvara við bótauppgjör

34. Sú meginregla gildir í skaðabótarétti að hafi tjónþoli ekki gert fyrirvara við uppgjör skaðabóta geti hann almennt ekki krafist endurupptöku á bótaákvörðun nema að uppfylltum skilyrðum 11. gr. skaðabótalaga. Í dómaframkvæmd Hæstaréttar hefur þó verið litið svo á að þessi skilyrði girði ekki fyrir að tjónþoli geti gert fyrirvara við bótauppgjör þannig að hann njóti rýmri réttar til endurupptöku bótaákvörðunar en leiðir af 11. gr. skaðabótalaga að því tilskildu að slíkir fyrirvarar séu skýrir og ótvíræðir, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 14. desember 2022 í máli nr. 27/2022.

35. Bótauppgjör stefnda við áfrýjanda 8. júní 2016 fór fram tæpum níu mánuðum áður en þriggja ára frestur til að framkvæma örorkumat var liðinn. Fyrirvari stefnda tók til nánar tilgreindra atriða en það voru árslaunaviðmið við útreikning bóta fyrir varanlega örorku og frekari bætur yrði varanleg örorka og/eða miski síðar metin hærri en í matsgerð 8. apríl 2016. Á uppgjörsdegi lá fyrir að stefndi hafði gengist undir tvær aðgerðir á hnélið en tæpt ár var liðið frá síðari aðgerðinni sem ekki hafði skilað frekari bata. Þá hafði stefndi látið af störfum á sjó vegna meiðslanna.

36. Þótt fyrirvarinn kunni að hafa verið skýr um þau atriði sem hann tók til, þar á meðal að örorka stefnda og miski kynni síðar að vera metinn hærri, laut hann í engu tilliti að skilmála slysatryggingarinnar um að undantekningarlaust skyldi framkvæma nýtt örorkumat innan þriggja ára frá slysdegi. Stefnda hefði auk þess verið unnt að leita slíks mats þegar ástand hnéliðar versnaði enn á síðari hluta ársins 2016.

37. Ekki verður fallist á þá niðurstöðu hins áfrýjaða dóms að í fyrirvaranum hafi falist nýtt tilboð stefnda, í skilningi 1. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1936, um að víkja skyldi frá skýrum vátryggingarskilmála um frest til að framkvæma nýtt örorkumat. Ótvírætt er að fyrirvarinn laut ekki að umræddum skilmála og jafnframt að frestur til að láta fara fram nýtt mat var ekki liðinn þegar bótauppgjör fór fram. Liggur ekkert fyrir um að áfrýjandi hafi við þetta tækifæri samþykkt að víkja frá skilmálum slysatryggingarinnar og fallist á að stefndi gæti byggt bótarétt á matsgerð sem aflað yrði að liðnum þeim fresti sem þar er getið. Er því í málinu ekki komin fram sönnun fyrir samkomulagi milli aðila um að víkja frá skilmálum þeirrar slysatryggingar sem stefndi byggir rétt sinn á.

38. Verður að öllu þessu virtu hafnað þeirri málsástæðu stefnda að fyrirvari sem hann gerði við uppgjör skaðabóta við áfrýjanda hafi vikið til hliðar ákvæði c-liðar 4. mgr. 6. greinar skilmála áhafnatryggingar fiskimanna.

39. Samkvæmt framansögðu verður áfrýjandi sýknaður af öllum kröfum stefnda.

40. Eftir atvikum málsins verður málskostnaður á öllum dómstigum felldur niður.

Dómsorð:

Áfrýjandi, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., er sýkn af kröfum stefnda, A.

Málskostnaður fellur niður á öllum dómstigum.