Hæstiréttur íslands

Mál nr. 55/2025

Ákæruvaldið (Arnþrúður Þórarinsdóttir saksóknari)
gegn
X (Bjarni Hauksson lögmaður)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Ákæra
  • Peningaþvætti
  • Mannréttindasáttmáli Evrópu
  • Réttlát málsmeðferð
  • Frávísun Landsréttar felld úr gildi
  • Sératkvæði

Reifun

X var ákærður fyrir peningaþvætti með því að hafa tekið við á tilteknu tímabili samtals 21.125 evrum í reiðufé frá óþekktum aðila eða aðilum. Landsréttur taldi að ekki væri unnt að draga neinar ályktanir af ákæru um hvaða frumbrot lægi peningaþvættisbrotinu til grundvallar og vísaði málinu frá héraði þar sem ákæran uppfyllti ekki skilyrði c-liðar 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Hæstiréttur vísaði hins vegar til þess að í ákæru vegna brots gegn 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 væri ekki nauðsynlegt að tilgreina frumbrot og heldur ekki um hvaða tegund brots eða brota um væri að ræða. Væri það hlutverk ákæruvalds undir rekstri sakamáls að færa sönnur á að tiltekinn ávinningur stafaði af refsiverðu broti og nægði þar að sýna fram á með óyggjandi hætti að útilokað væri að ávinningur væri kominn til með lögmætum hætti svo og að öðrum skilyrðum fyrir refsiábyrgð væri fullnægt. Taldi Hæstiréttur að ekki væru þeir ágallar á ákæru í málinu að X gæti ekki af henni ráðið hvaða refsiverðu háttsemi hann væri sakaður um. Þá væri dómurum fært af ákærunni einni að gera sér grein fyrir hvað X væri sakaður um og hvernig telja mætti þá háttsemi refsiverða. Með ákærunni hefði því verið lagður fullnægjandi grundvöllur að málinu svo taka mætti það til efnislegrar meðferðar. Var hinn kærði dómur því felldur úr gildi og málinu vísað aftur til Landsréttar.

Dómur Hæstaréttar

1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen, Sigurður Tómas Magnússon og Skúli Magnússon.

2. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 3. október 2025 sem barst réttinum sama dag en kærumálsgögn bárust réttinum þann dag 7. sama mánaðar. Kærður er dómur Landsréttar 2. október 2025 í máli nr. 188/2025 þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá héraðsdómi. Kæruheimild er í a-lið 1. mgr. 211. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

3. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði dómur verði felldur úr gildi og lagt fyrir Landsrétt að taka málið til efnismeðferðar.

4. Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða dóms og að verjanda verði ákveðin þóknun úr ríkissjóði vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti.

Ágreiningsefni

5. Í málinu er deilt um hvort ákæra, þar sem varnaraðila er aðallega gefið að sök peningaþvætti samkvæmt 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sé svo greinargóð og skýr að hann geti ráðið af henni hvaða háttsemi hann er sakaður um og hvaða ákvæði refsilaga hann er talinn hafa gerst brotlegur við, sbr. einkum c-lið 152. gr. laga nr. 88/2008.

Málsatvik

6. Hinn 28. maí 2024 gaf lögreglustjórinn á Suðurnesjum út ákæru á hendur varnaraðila, „fyrir peningaþvætti með því að hafa á tímabilinu 6. mars 2024 til 11. mars 2024 tekið við samtals 21.125 evrum í reiðufé frá óþekktum aðila eða aðilum en ákærða gat ekki dulist að um væri að ræða ávinning af refsiverðum brotum“. Í ákæru kom fram að varnaraðili hefði verið með reiðuféð í vörslum sínum, annars vegar 20.000 evrur faldar í farangri og hins vegar 1.125 evrur í veski, þegar hann var handtekinn í Flugstöð Leifs Eiríkssonar 11. mars 2024 á leið til áfangastaðar erlendis með nánar tilteknu flugi. Þá kom fram að með háttsemi sinni hefði hann móttekið ávinning af refsiverðum brotum, geymt hann, flutt og leynt, svo og upplýsingum um uppruna, eðli, staðsetningu og ráðstöfun hans.

7. Í ákæru var háttsemi varnaraðila talin varða við 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga en til vara við 4. mgr. sömu greinar. Þess var krafist að hann yrði dæmdur til refsingar og gerðar yrðu upptækar með dómi 21.125 evrur.

8. Með héraðsdómi 25. febrúar 2025 var varnaraðili sakfelldur fyrir peningaþvætti og dæmdur skilorðsbundið til að sæta fangelsi í sex mánuði. Einnig var hann dæmdur til að sæta upptöku á 21.125 evrum og greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns.

9. Með hinum kærða dómi var málinu vísað frá héraðsdómi á þeim grunni að ákæra fullnægði ekki kröfum c-liðar 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008.

10. Málsatvikum er að öðru leyti lýst í héraðsdómi og hinum kærða dómi.

Röksemdir aðila

11. Sóknaraðili byggir kröfu sína um að hinn kærði dómur verði felldur úr gildi á því að í ákæru sé hverjum og einum þætti sem kveðið sé á um í c-lið 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008 lýst á fullnægjandi hátt. Varnaraðila hafi því verið kleift að taka afstöðu til ákærunnar og halda uppi vörnum.

12. Sóknaraðili telur að með hinum kærða dómi hafi verið gerðar ríkari kröfur til upplýsinga um frumbrot peningaþvættis í ákæru en leiði af löggjöf og dómaframkvæmd. Þá sé í forsendum dómsins jöfnum höndum vísað til formkrafna um skýrleika ákæru og efnisreglna um sönnun.

13. Varnaraðili vísar til þess að lýsing refsiverðrar háttsemi í ákæru sé mjög víðtæk, almenn og valkvæð. Hún feli að mestu í sér upptalningu á verknaðaraðferðum samkvæmt 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga án frekari afmörkunar. Ákæran byggist þannig á því að hinir haldlögðu fjármunir séu ávinningur refsiverðra brota án þess að nokkuð komi fram um hver brotin hafi verið eða hver framið þau. Varnaraðili telur einnig að sá annmarki sé á ákærunni að ekki sé getið um hvar hann eigi að hafa tekið við umræddum fjármunum, hérlendis eða erlendis. Vísar hann til þess að fyrrnefnt refsiákvæði eigi aðeins við um ávinning sem stafi af brotum á íslenskum refsilögum. Þá eigi sú tímasetning sem ákæran tilgreini um móttöku fjármunanna sér ekki stoð í gögnum málsins.

14. Varnaraðili byggir einnig á því að óskýrleiki ákærunnar og skortur á sönnun um frumbrot eða tengsl fjármuna eða varnaraðila við refsverð brot geri honum erfitt um vik með varnir. Í dómaframkvæmd hafi verið miðað við að ekki þurfi í ákæru að gera nákvæmlega grein fyrir því hvert sé frumbrot peningaþvættis, tegund þess eða heiti. Það sé þó lágmarkskrafa að af ákæru megi draga einhverja ályktun um það frumbrot sem liggi til grundvallar peningaþvættisbroti. Þeirri kröfu sé ekki fullnægt í málinu.

Niðurstaða

15. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008 skal greina í ákæru svo glöggt sem verða má hver sú háttsemi er sem ákært er út af, hvar og hvenær brot er framið, heiti þess að lögum og aðra skilgreiningu og loks heimfærslu þess til laga. Þessar kröfur til ákæru eru þáttur í rétti manns til að fá úrlausn um ákæru á hendur sér um refsiverða háttsemi með réttlátri málsmeðferð samkvæmt 70. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Þessi þáttur réttlátrar málsmeðferðar birtist einnig í þeim orðum a-liðar 3. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, að hver sá sem borinn er sökum um refsiverða háttsemi skuli fá án tafar vitneskju í smáatriðum um eðli og orsök þeirrar ákæru sem hann sætir.

16. Svo sem rakið er í hinum kærða dómi hafa fyrirmæli c-liðar 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008 verið skýrð svo í framkvæmd að lýsing á háttsemi sem ákærða er gefin að sök í ákæru verði að vera svo greinargóð og skýr að hann geti ráðið af henni hvaða háttsemi hann er sakaður um og hvaða ákvæði refsilaga hann er talinn hafa gerst brotlegur við. Mega ekki vera slík tvímæli um hverjar sakargiftir eru að ákærða verði með réttu talið torvelt að taka afstöðu til þeirra og halda uppi vörnum.

17. Af þessu leiðir að ákæra verður einnig að vera svo skýr að dómara sé kleift af henni einni að gera sér grein fyrir hvað ákærði er sakaður um og hvernig sú háttsemi er talin refsiverð. Ákæra verður því að leggja viðhlítandi grundvöll að saksókn svo að dómur verði lagður á mál enda verður ákærði ekki dæmdur fyrir aðra hegðun en þá sem í ákæru greinir, sbr. 1. mgr. 180. gr. laga nr. 88/2008. Það veltur þó á atvikum máls og eðli brots hvaða nánari kröfur verða gerðar til skýrleika ákæru samkvæmt framansögðu.

18. Svo sem einnig kemur fram í hinum kærða dómi er það því ekki skilyrði refsiábyrgðar samkvæmt 264. gr. almennra hegningarlaga að færðar séu sönnur á þau brot sem ávinningur verður rakinn til, sbr. dóma Hæstaréttar 8. nóvember 2001 í máli nr. 200/2001 og 25. nóvember 2021 í máli nr. 28/2021. Er kjarni hinnar refsiverðu háttsemi sem lýst er í ákvæðinu fólgin í meðferð ávinnings með aðferðum sem þar eru taldar. Brot gegn ákvæðinu er því sjálfstætt og verður refsað fyrir það án tillits til þess hvort áður eða samhliða hafi verið ákært fyrir tiltekið frumbrot.

19. Samkvæmt þessu þarf í ákæru vegna brots gegn 264. gr. almennra hegningarlaga að koma fram fullnægjandi afmörkun á því að hvaða verðmætum ávinningur lýtur og lýsing á því hvernig ákærði hafi tekið við, nýtt eða aflað sér hans þótt hann hafi vitað að ávinningur stafaði af brotum á almennum hegningarlögum eða öðrum lögum. Ekki er nauðsynlegt að tilgreina frumbrot og heldur ekki hvaða tegund slíks brots eða brota um er að ræða. Er það hlutverk ákæruvalds undir rekstri sakamáls að færa sönnur á að tiltekinn ávinningur stafi af refsiverðu broti og nægir þar að sýna fram á með óyggjandi hætti að útilokað sé að ávinningur sé kominn til með lögmætum hætti svo og að huglægum skilyrðum refsiábyrgðar sé fullnægt, sbr. 18. gr. laganna.

20. Með ákæru í máli þessu er varnaraðila aðallega gefið að sök peningaþvætti samkvæmt 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga en til vara 4. mgr. greinarinnar. Þar kemur fram að varnaraðili hafi á afmörkuðu tímabili tekið við tiltekinni fjárhæð í reiðufé en honum hafi ekki getað dulist að um væri að ræða ávinning af refsiverðum brotum. Þá er í ákærunni vísað til þess að um sé að ræða ákveðið magn gjaldeyris sem varnaraðili hafði í vörslum sínum í reiðufé þegar hann var handtekinn á för úr landinu tiltekinn dag.

21. Að öllu virtu voru ekki þeir ágallar á ákæru í málinu að varnaraðili gæti ekki af henni ráðið hvaða refsiverðu háttsemi hann var sakaður um. Var honum því fært að taka afstöðu til sakargifta og halda uppi vörnum gegn þeim, sbr. til hliðsjónar ákvörðun Mannréttindadómstóls Evrópu 2. maí 2017 í máli nr. 23572/07. Þá var dómurum fært af ákærunni einni að gera sér grein fyrir hvað varnaraðili var sakaður um og hvernig telja mætti þá háttsemi refsiverða. Með ákærunni var því lagður fullnægjandi grundvöllur að málinu þannig að taka mætti það til efnislegrar meðferðar.

22. Samkvæmt þessu voru ekki efni til að vísa málinu frá dómi á þeim grunni að ákæra uppfyllti ekki kröfur c-liðar 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008. Verður hinn kærði dómur því felldur úr gildi og málinu vísað til Landsréttar til efnismeðferðar.

23. Í ljósi þessarar niðurstöðu eru ekki efni til að dæma kærumálskostnað, sbr. 3. mgr. 238. gr. laga nr. 88/2008 eða ákveða verjanda þóknun sérstaklega fyrir þennan þátt málsins, sbr. 1. málslið 2. mgr. 38. gr. laga nr. 88/2008.

Dómsorð:

Hinn kærði dómur er felldur úr gildi og lagt fyrir Landsrétt að taka málið til efnismeðferðar.

Sératkvæði Ásu Ólafsdóttur

1. Eins og fram kemur í atkvæði meirihluta dómenda var varnaraðila með ákæru lögreglustjórans á Suðurnesjum 28. maí 2024 gefið að sök „peningaþvætti með því að hafa á tímabilinu 6. mars 2024 til 11. mars 2024 tekið við samtals 21.125 evrum í reiðufé frá óþekktum aðila eða aðilum en ákærða gat ekki dulist að um væri að ræða ávinning af refsiverðum brotum“. Þá kemur fram í ákæru að varnaraðili hafi verið með reiðuféð í vörslum sínum, annars vegar 20.000 evrur faldar í farangri og hins vegar 1.125 evrur í veski, þegar hann var handtekinn í Flugstöð Leifs Eiríkssonar 11. mars 2024 á leið til áfangastaðar erlendis. Þá kom fram að með háttsemi sinni hefði hann móttekið ávinning af refsiverðum brotum, geymt hann, flutt og leynt svo og upplýsingum um uppruna, eðli, staðsetningu og ráðstöfun hans

2. Í málinu er deilt um hvort ákæran sé svo greinargóð og skýr að varnaraðili geti ráðið af henni hvaða háttsemi hann er sakaður um og hvaða ákvæði refsilaga hann er talinn hafa gerst brotlegur við. Byggir varnaraðili á því að þótt ekki þurfi að gera nákvæmlega grein fyrir því hvert sé ætlað frumbrot, tegund þess eða heiti í ákæru fyrir peningaþvætti verði allt að einu að gera þá lágmarkskröfu að ákæra sé þannig úr garði gerð að af henni sé unnt að draga einhverja ályktun um hvaða frumbrot sé byggt á að liggi peningaþvættisbroti til grundvallar. Að öðrum kosti geti hann ekki tekið til varna um þann hluta málatilbúnaðar ákæruvalds.

3. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008 skal greina í ákæru svo glöggt sem verða má hver sú háttsemi er sem ákært er út af, hvar og hvenær brot er framið, heiti þess að lögum og aðra skilgreiningu og loks heimfærslu þess til laga. Í dómaframkvæmd Hæstaréttar hafa þessi fyrirmæli verið skýrð svo að lýsing á háttsemi sem ákærða er gefin að sök í ákæru verði að vera svo greinargóð og skýr að hann geti ráðið af henni hvaða háttsemi hann er sakaður um og hvaða ákvæði refsilaga hann er talinn hafa gerst brotlegur við. Mega ekki vera slík tvímæli um hverjar sakargiftir eru að með réttu verði ákærða talið torvelt að taka afstöðu til þeirra og halda uppi vörnum. Að þessu leyti verður ákæra að vera svo skýr að dómara sé kleift af henni einni að gera sér grein fyrir hvað ákærði er sakaður um og hvernig sú háttsemi verður talin refsiverð. Ákæra verður því að leggja viðhlítandi grundvöll að saksókn svo að dómur verði lagður á mál í samræmi við hana enda verður ákærði ekki sakfelldur fyrir aðra hegðun en þar greinir, sbr. 1. mgr. 180. gr. laga nr. 88/2008. Það veltur síðan á atvikum máls og eðli brots hvaða nánari kröfur verða gerðar samkvæmt framansögðu til skýrleika ákæru. Jafnframt má líta til d-liðar 1. mgr. 152. gr. laganna þar sem segir að í ákæru skuli greina svo glöggt sem verða má röksemdir sem málsókn er byggð á, ef þörf krefur, svo sem ef mál er flókið eða umfangsmikið en röksemdafærsla skuli þá vera gagnorð og svo skýr að ekki fari á milli mála hverjar sakargiftir eru.

4. Þá ber samkvæmt 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 1. og 3. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sérhverjum þeim sem borinn er sökum um refsiverða háttsemi réttur til að fá úrlausn um ákæru á hendur sér með réttlátri málsmeðferð innan hæfilegs tíma fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli. Þá má hvorki dæma ákærða fyrir aðra hegðun en þá sem í ákæru greinir né heldur dæma aðrar kröfur á hendur honum, sbr. 180. gr. laga nr. 88/2008. Á nægilegum skýrleika ákæru í þessa veru ber ákæruvaldið óskoraða ábyrgð.

5. Eins og rakið er í hinum kærða dómi felst í verknaðarlýsingu 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga áskilnaður um að ávinningur stafi af refsiverðu broti, annaðhvort samkvæmt almennum hegningarlögum eða öðrum lögum. Koma þurfi fram í ákæru að ávinningur sem ákært er vegna stafi af refsiverðu broti en hvorki nákvæm tilgreining á frumbroti né hvaða tegund eða heiti brots er um að ræða. Þá sé það ekki skilyrði refsiábyrgðar samkvæmt 264. gr. almennra hegningarlaga að færðar séu sönnur á brot sem ávinningur verði rakinn til.

6. Í dómi Landsréttar er jafnframt rakið að í dómaframkvæmd um peningaþvættisbrot hafi verið miðað við að takist ákæruvaldi að sanna tengsl ákærða við refsiverð brot sem ávinningur kann að tengjast sé fullnægjandi til sakfellingar að ákæruvaldið færi sönnur á að útilokað sé að ávinningurinn sé til kominn á lögmætan hátt, sbr. dóm Hæstaréttar 25. nóvember 2021 í máli nr. 28/2021. Við þær aðstæður færist sönnunarbyrði um lögmæti ávinnings yfir á ákærða. Eins og kemur fram í hinum kærða dómi er forsenda þess þá ávallt að fullnægjandi upplýsingar liggi fyrir í máli um frumbrot og einhver tengsl ákærða við það. Í þessu felst að varnir ákærða þurfa að lúta að slíkum atriðum.

7. Í ákæru í máli þessu er ekki að finna tilvísun til ætlaðs frumbrots né heldur fylgja henni röksemdir sem þó er heimilt á grundvelli d-liðar 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008. Auk þess á varnaraðili sér engan sakaferil og þar með talin eldri sakamál sem gætu tengst sakarefni þessa máls. Til viðbótar liggur ekkert heldur fyrir um tengsl hans við aðila sem gerst hafa sekir um refsilagabrot. Hlutu þær aðstæður að auka kröfur til skýrleika ákæru þannig að eitthvað verði ráðið af henni um ætluð frumbrot. Þá er einnig til þess að líta að ákæruvaldinu var í lófa lagið að haga ákæru með þeim hætti að nægilegs skýrleika væri gætt að þessu leyti.

8. Úr þessum grundvallarágalla á ákæru verður ekki bætt við efnismeðferð málsins sem jafnframt torveldar verulega möguleika varnaraðila á að halda uppi vörnum. Þetta tel ég því að eigi að leiða til frávísunar ákærunnar þegar á þessu stigi málsmeðferðar.

9. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða dóms tel ég því að staðfesta eigi hann.