Hæstiréttur íslands

Mál nr. 38/2023

Nestak ehf. (Hjördís Halldórsdóttir lögmaður)
gegn
Húsasmiðjunni ehf. (Marteinn Másson lögmaður)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Kaupsamningur
  • Kröfugerð
  • Viðurkenningarkrafa
  • Lögvarðir hagsmunir

Reifun

Kært var ákvæði í dómi Landsréttar þar sem viðurkenningarkröfu N ehf. var vísað frá héraðsdómi í heild sinni. Í dómi Hæstaréttar var vísað til þess að kröfugerð N ehf. fyrir héraðsdómi um viðurkenningu á skaðabótaskyldu hefði verið svo skýr og ákveðin að unnt hefði verið að taka hana óbreytta upp í dómsorð. Komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að á málatilbúnaði N ehf. hefðu ekki verið neinir þeir annmarkar sem gátu hamlað H ehf. að taka til varna. Þá taldist N ehf. hafa leitt nægar líkur að því að félagið hefði orðið fyrir beinu tjóni vegna hugsanlegra vanefnda H ehf. til að teljast hafa lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um viðurkenningarkröfuna. Var því fellt úr gildi ákvæði í dómi Landsréttar um frávísun viðurkenningarkröfu N ehf. frá héraðsdómi og lagt fyrir Landsrétt að taka kröfuna til efnismeðferðar.

Dómur Hæstaréttar

1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir, Ólafur Börkur Þorvaldsson, Karl Axelsson og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. júní 2023 sem barst réttinum 3. júlí sama ár en kærumálsgögn bárust 6. þess mánaðar. Kært er ákvæði í dómi Landsréttar 23. júní 2023 í máli nr. 121/2022 um frávísun á hluta dómkrafna sóknaraðila frá héraðsdómi. Kæruheimild er í a-lið 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

3. Sóknaraðili krefst þess að ákvæði dómsins um frávísun verði fellt úr gildi og lagt fyrir Landsrétt að taka til efnismeðferðar kröfu sóknaraðila um að viðurkennd verði með dómi skaðabótaskylda varnaraðila vegna beins tjóns sem sóknaraðili telur sig hafa orðið fyrir vegna vanefnda varnaraðila á kaupsamningi þeirra 28. apríl 2018. Þá krefst sóknaraðili kærumálskostnaðar úr hendi varnaraðila.

4. Varnaraðili krefst þess að staðfest verði ákvæði dóms Landsréttar um frávísun á kröfu sóknaraðila. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Ágreiningsefni

5. Sóknaraðili höfðaði málið á hendur varnaraðila með tvíþættri kröfugerð. Krafðist hann þess annars vegar að viðurkennd yrði skaðabótaskylda varnaraðila vegna beins tjóns sem sóknaraðili taldi sig hafa orðið fyrir vegna vanefnda varnaraðila á kaupsamningi aðila 28. apríl 2018 og hins vegar að varnaraðila yrði gert að endurgreiða sóknaraðila tilgreinda fjárhæð sem hann taldi sig hafa ofgreitt vegna viðskiptanna en til vara lægri fjárhæð.

6. Með héraðsdómi 26. nóvember 2021 var fallist á viðurkenningarkröfu sóknaraðila að hluta til með því að viðurkennd var skaðabótaskylda varnaraðila vegna afhendingardráttar en hann sýknaður af kröfu um viðurkenningu á skaðabótaskyldu vegna galla. Jafnframt var varakrafa sóknaraðila um endurgreiðslu tekin til greina.

7. Eins og áður segir var viðurkenningarkröfu sóknaraðila vísað frá héraðsdómi í heild sinni með dómi Landsréttar. Niðurstaða héraðsdóms um fjárkröfu sóknaraðila var hins vegar staðfest.

Málsatvik

8. Málsatvik eru þau að sóknaraðili, sem er verktaki, tók að sér með samningi 28. mars 2018 að reisa netaverkstæði í Neskaupstað fyrir Fasteignafélagið Miðhús ehf. Nánar tiltekið fólst verkið í því að reisa hús fyrir veiðarfæri, verkstæði, skrifstofur og starfsmannaaðstöðu. Um var að ræða stálgrindarhús með risþaki á steyptum grunni. Í verkáætlun var gert ráð fyrir því að verkið hæfist 17. júlí 2018 með því að grind yrði reist en framkvæmdum yrði að fullu lokið 1. mars 2019. Verklaun samkvæmt samningnum námu 685.070.565 krónum.

9. Í aðdraganda þess að sóknaraðili tók að sér verkið óskaði hann með tölvubréfi 13. nóvember 2017 eftir tilboði frá varnaraðila í efni í einangrað stálgrindarhús auk annars efnis fyrir bygginguna sem nánar var tilgreint. Varnaraðili sendi sóknaraðila tilboð sitt með tölvubréfi 13. desember sama ár og hljóðaði það samtals upp á 150.467.894 krónur. Nokkur samskipti urðu með aðilum í kjölfarið en þeir gerðu síðan með sér kaupsamning um efnið 28. apríl 2018. Í samningnum kom fram að varnaraðili ætti að afhenda stálgrindina og svokallaðar samlokueiningar 16 til 18 vikum eftir að borist hefði greiðsla á 25% af kaupverði til staðfestingar á pöntun en sú greiðsla hafði þegar verið innt af hendi áður en samningurinn var gerður. Lokaafhending á efninu mun hafa farið fram dagana 7. og 8. október 2019.

10. Milli aðila reis ágreiningur um inntak kaupsamningsins og deildu þeir meðal annars um hvort tilboð varnaraðila hefði falið í sér allt stál sem þurft hafi í bygginguna, þar með talið svokallað „secondary“-stál, og hvort kaupverðið ætti að ráðast af því efnismagni sem var afhent. Þá deildu þeir um hver bæri ábyrgð á afhendingardrætti og hvort umframþyngd stáls sem var afhent fæli í sér galla. Loks var ágreiningur með aðilum um uppgjörið en sóknaraðili taldi sig hafa ofgreitt fyrir hið selda eins og áður getur.

Niðurstaða

11. Svo sem rakið hefur verið gerði sóknaraðili þá kröfu á hendur varnaraðila að viðurkennd yrði skaðabótaskylda varnaraðila vegna beins tjóns sem sóknaraðili hefði beðið af vanefndum varnaraðila á kaupsamningi 28. apríl 2018. Í stefnunni var þessi krafa reist á afhendingardrætti á hinu selda auk þess sem greiðslan hefði verið gölluð. Héraðsdómur féllst á að varnaraðili bæri ábyrgð á afhendingardrættinum en taldi að ekki hefði verið um galla að ræða. Tók dómsorðið mið af þessu þannig að skaðabótaskylda var viðurkennd vegna vanefndar sem fólst í afhendingardrætti en sýknað var af kröfu vegna galla. Varnaraðili áfrýjaði dóminum og sóknaraðili einnig fyrir sitt leyti. Með gagnáfrýjun hafði hann uppi sömu viðurkenningarkröfu og í héraði. Byggði hann sem fyrr á því að vanefndir af hálfu varnaraðila hefðu bæði falist í afhendingardrætti og galla.

12. Samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 getur aðili sem hefur lögvarða hagsmuni af því að skorið verði úr um tilvist eða efni réttinda eða réttarsambands leitað viðurkenningardóms um kröfu sína. Áskilnaður ákvæðisins um lögvarða hagsmuni hefur í dómaframkvæmd Hæstaréttar verið skýrður svo að sá sem höfðar mál til viðurkenningar á skaðabótaskyldu verði að leiða nægar líkur að því að hann hafi orðið fyrir tjóni, gera grein fyrir því í hverju það hafi falist og hver tengsl þess séu við þau atvik sem bótaábyrgð er reist á. Um þetta má meðal annars vísa til 20. liðar í dómi réttarins 19. desember 2022 í máli nr. 55/2022.

13. Algengt er að mál sé höfðað eftir heimild 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 til viðurkenningar á skaðabótaskyldu. Á það einkum við um skaðabætur utan samninga, svo sem vegna líkamstjóns, en þekkist einnig þegar krafist er skaðabóta vegna vanefnda á samningum. Með þessu móti er unnt að fá leyst úr ágreiningi um bótaskyldu án þess að afla þurfi gagna til að afmarka fjárkröfu. Verði ekki fallist á að skylda sé fyrir hendi hafa aðilar sparað sér kostnað sem leitt getur af slíkri gagnaöflun. Fyrir því er venja að látið sé við það sitja að gera kröfu um viðurkenningu á bótaskyldu utan samninga án þess að tekið sé fram í dómkröfunni sjálfri á hvaða bótagrundvelli hún sé gerð og án þess að því sé lýst nánar í hverju tjónið felst. Þessum þáttum sakarefnis þarf síðan að gera grein fyrir með lýsingu á þeim málsástæðum sem krafan er reist á. Með sama hætti er ekki nauðsynlegt vegna kröfu um viðurkenningu á bótaskyldu innan samninga að tilgreina í kröfunni sjálfri þá vanefnd sem samningsaðili telur sig hafa þolað en gera verður grein fyrir henni í stefnu málsins.

14. Samkvæmt d-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 skal í stefnu greina svo glöggt sem verða má dómkröfur stefnanda og er þá meðal annars nefnd í dæmaskyni viðurkenning „á tilteknum réttindum“. Þessi fyrirmæli hafa í dómaframkvæmd verið skilin þannig að kröfugerð þurfi að vera svo ákveðin og ljós að unnt sé að taka hana óbreytta upp sem ályktunarorð í dómsniðurstöðu. Kröfugerð stefnanda hefur því að geyma þá mynd sem hann sjálfur óskar eftir að verði niðurstaða málsins. Jafnframt gildir sú regla samkvæmt e-lið sömu málsgreinar að koma skuli fram í stefnu málsástæður sem stefnandi byggir málsókn sína á, svo og önnur atvik sem þarf að greina til þess að samhengi málsástæðna verði ljóst. Skal þessi lýsing vera gagnorð og svo skýr að ekki fari milli mála hvert sakarefnið er. Þessi fyrirmæli leiða af reglum réttarfars um skýran og afdráttarlausan málatilbúnað og þjóna meðal annars þeim tilgangi að stefndi geti greiðlega tekið til varna.

15. Kröfugerð sóknaraðila fyrir héraðsdómi um viðurkenningu á skaðabótaskyldu var svo skýr og ákveðin að hana hefði verið unnt að taka upp óbreytta í dómsorð ef á hana hefði verið fallist. Þá var unnt með dómi að ganga skemur en krafan hljóðaði með því að takmarka viðurkenningu á skaðabótaskyldu við afhendingardrátt ef ekki var talið að greiðslan væri gölluð, eins og gert var í héraðsdómi. Á þá niðurstöðu gat sóknaraðili síðan látið reyna með því að hafa uppi kröfu sína óbreytta undir áfrýjun til Landsréttar, svo sem hann gerði með gagnáfrýjun sinni þar fyrir dómi. Á þessum málatilbúnaði sóknaraðila sem skilmerkilega var lýst í stefnu voru engir þeir annmarkar sem hamlað gátu varnaraðila að taka til varna í málinu.

16. Eins og áður greinir átti verki því sem sóknaraðili tók að sér að vera lokið 1. mars 2019 en hann mun ekki hafa fengið efni til verksins frá varnaraðila fyrr en í október sama ár. Sóknaraðili heldur því fram að dráttur á verkinu hafi valdið honum auknum launakostnaði vegna þeirra starfsmanna sem ráðnir voru til verksins en þeir hafi verið án verkefna umræddan tíma þar sem stál vantaði til framkvæmda. Þá hafi verkið orðið erfiðara en ella vegna veðurs þar sem það dróst fram eftir vetri í stað þess að vera unnið að sumarlagi. Samhliða þessu hafi fallið til aukinn stjórnunarkostnaður vegna samskipta við varnaraðila og framleiðanda stálsins, auk fundarsetu og eftirreksturs gagnvart varnaraðila. Enn fremur hafi kostnaður fallið til við að halda uppi aðstöðu og tækjum á verkstað lengur en gert hafi verið ráð fyrir. Að því er varðar tjón vegna galla bendir sóknaraðili á að hann hafi þurft að greiða fyrir meira magn af stáli en tilgreint hafði verið í samningi aðila að þyrfti til verksins. Að öllu þessu virtu hefur sóknaraðili leitt nægar líkur að því að hann hafi orðið fyrir beinu tjóni vegna hugsanlegra vanefnda varnaraðila til að hann teljist hafa lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um viðurkenningarkröfuna.

17. Samkvæmt framansögðu verður ákvæði í dómi Landsréttar um frávísun viðurkenningarkröfu sóknaraðila frá héraðsdómi fellt úr gildi og lagt fyrir Landsrétt að taka þá kröfu til efnismeðferðar.

18. Varnaraðila verður gert að greiða sóknaraðila kærumálskostnað eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Fellt er úr gildi ákvæði í dómi Landsréttar um frávísun frá héraðsdómi á kröfu sóknaraðila, Nestaks ehf., um viðurkenningu á skaðabótaskyldu varnaraðila, Húsasmiðjunnar ehf., vegna beins tjóns sóknaraðila vegna ætlaðra vanefnda varnaraðila á kaupsamningi þeirra 28. apríl 2018.

Varnaraðili greiði sóknaraðila 500.000 krónur í kærumálskostnað fyrir Hæstarétti.