Hæstiréttur íslands

Mál nr. 54/2022

A (Jónas Þór Jónasson lögmaður)
gegn
Brimi hf. (Jóhannes Bjarni Björnsson lögmaður)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Áfrýjunarstefna
  • Aðild
  • Ómerking

Reifun

Kærður var úrskurður Landsréttar þar sem máli A á hendur B hf. var vísað frá Landsrétti. Undir rekstri málsins í héraði höfðu orðið þau mistök að ranglega var skipt um nafn stefnda. Hæstiréttur vísaði til þess að ekki væri við neinar skráðar lagareglur eða fordæmi að styðjast við úrlausn þess hvaða réttarfarslegar afleiðingar þessi augljósu mistök við rekstur málsins í héraði ættu að hafa. Við þessar aðstæður væri rétt að velja þá leið við úrlausn um þennan réttarfarsannmarka sem líklegust væri til að stuðla að því að efnislega rétt niðurstaða fengist. Í dómi Hæstaréttar kom fram að enda þótt útilokað hefði verið að leggja efnisdóm á málið í Landsrétti eftir að framangreind mistök við meðferð málsins voru komin í ljós yrði að líta svo á að þar sem A hefði augljóslega verið réttur aðili málsins fyrir Landsrétti og ekki getað áfrýjað málinu gegn öðru félagi en því sem sýknað var í héraði hefði Landsrétti borið að ómerkja dóm héraðsdóms og málsmeðferðina í héraði frá og með að nafni stefnda var ranglega breytt í B hf. Samkvæmt því voru hinn kærði úrskurður Landsréttar og dómur héraðsdóms ómerktir og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar frá og með þinghaldi 17. desember 2020 og dómsálagningar að nýju.

Dómur Hæstaréttar

1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen, Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 3. nóvember 2022 en kærumálsgögn bárust réttinum 10. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Landsréttar 21. október 2022 þar sem máli sóknaraðila var vísað frá Landsrétti. Kæruheimild er í a-lið 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

3. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að Landsrétti verði gert að taka málið til meðferðar á ný. Til vara krefst hann þess að dómur héraðsdóms og öll meðferð málsins frá og með þinghaldi 17. desember 2020 verði ómerkt og málinu vísað aftur til héraðsdóms til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju. Þá krefst sóknaraðili kærumálskostnaðar fyrir Hæstarétti.

4. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og að sóknaraðila verði gert að greiða honum kærumálskostnað fyrir Hæstarétti.

Ágreiningsefni

5. Með hinum kærða úrskurði var málinu vísað frá Landsrétti með þeim rökum að sóknaraðili hefði stefnt röngum aðila fyrir réttinn en fyrir slíkri breytingu á aðild væri engin lagastoð og yrði aðild málsins, gegn mótmælum varnaraðila, ekki leiðrétt með bókun í þingbók. Einn dómari skilaði sératkvæði og taldi að ómerkja bæri héraðsdóm og málsmeðferð í héraði frá og með 17. desember 2020 og vísa málinu aftur til héraðsdóms.

6. Ágreiningur málsaðila fyrir Hæstarétti lýtur að því hvaða afleiðingar það skuli hafa að ranglega var skipt um nafn á stefnda undir rekstri málsins í héraði.

Málsatvik

7. Sóknaraðili höfðaði mál þetta 4. júní 2020 á hendur Útgerðarfélagi Reykjavíkur hf., kt. 410998-2629, Fiskislóð 14, Reykjavík, til greiðslu kröfu um óskert staðgengilslaun vegna óvinnufærni af völdum vinnuslyss í júní 2016. Fyrirsvarsmaður félagsins var sagður Magnús Helgi Árnason, formaður stjórnar þess. Þegar slysið varð bar hlutafélagið sem hann vann hjá nafnið Brim en nafni þess mun hafa verið breytt í Útgerðarfélag Reykjavíkur hf. með tilkynningu til fyrirtækjaskrár 14. september 2018. Sóknaraðili beindi málsókn sinni af þeirri ástæðu að því félagi.

8. Félagið HB Grandi hf. mun hafa tilkynnt fyrirtækjaskrá 15. ágúst 2019 að nafni þess hefði verið breytt í Brim hf. Það félag hefur kennitöluna 541185-0389.

9. Við fyrstu fyrirtöku málsins í héraðsdómi 17. desember 2020, eftir að stefndi hafði skilað greinargerð, færði héraðsdómari sem þá fór með málið til bókar í þingbók: „Lögmenn upplýsa að nafni stefnda hafi verið breytt og heiti nú Brim hf. og er heiti málsins breytt í samræmi við það.“ Þá var bókað að af hálfu stefnanda hefði sótt þing Jónas Þór Jónasson lögmaður en af hálfu stefnda Diljá Catherine Þiðriksdóttir lögmaður vegna Jóhannesar Bjarna Björnssonar lögmanns.

10. Þegar málið var næst tekið fyrir í héraðsdómi 22. janúar 2021 hafði því verið úthlutað til annars dómara sem fór með málið eftir það. Jóhannes Bjarni Björnsson lögmaður sótti þá sjálfur þing í málinu af hálfu stefnda og annaðist síðar munnlegan flutning þess í héraði. Í þingbók málsins í héraði er nafn stefnda sagt vera Brim hf. allt frá þingfestingu þess. Þá er í héraðsdómi vísað til þess að nafni stefnda hafi verið breytt í Brim hf. og í dómsorði kemur fram að Brim hf. sé sýknað af kröfu stefnanda.

11. Sóknaraðili skaut málinu til Landsréttar 13. júlí 2021 og beindi áfrýjuninni að Brimi hf., kt. 541185-0389, Norðurgarði 1, Reykjavík. Fyrirsvarsmaður félagsins fyrir Landsrétti var sagður Kristján Þórarinn Davíðsson, formaður stjórnar þess. Lögmaður sá sem áður gætti hagsmuna stefnda í héraði gætti hagsmuna varnaraðila fyrir Landsrétti.

Niðurstaða

12. Óumdeilt er að nafni Brims hf., kt. 410998-2629, hafði verið breytt í Útgerðarfélag Reykjavíkur hf. þegar málið var höfðað. Í stefnu beindi sóknaraðili því kröfu sinni réttilega að félaginu og óumdeilt er að kennitala, heimilisfang og fyrirsvar þess var þar tilgreint með réttum hætti. Þær breytingar sem síðar voru gerðar á heiti stefnda í héraði voru hins vegar gerðar fyrir mistök.

13. Enda þótt ráða megi af endurriti úr þingbók að nafn stefnda í málaskrá hafi frá upphafi verið Brim hf. verður að leggja til grundvallar að hið rétta sé það sem héraðsdómari færði til bókar í þingbók 17. desember 2020, það er að lögmenn hafi upplýst að nafni stefnda hafi verið breytt í Brim hf. og að heiti málsins hafi þá verið breytt í samræmi við það. Af þessari bókun og síðari aðkomu lögmanns stefnda, sem jafnframt hefur farið með málið af hálfu varnaraðila fyrir Landsrétti og Hæstarétti, verður ráðið að lögmenn beggja málsaðila hafi dregið þá röngu ályktun af breytingu á nafni HB Granda hf. í Brim hf. að það félag væri hið sama og Útgerðarfélag Reykjavíkur hf. sem áður hafði heitið Brim hf. Það athugast að lögmaður stefnda í héraði gerði ekki athugasemdir við að málið væri eftir þessa röngu nafnabreytingu rekið á hendur öðru félagi en hann hafði tekið til varna fyrir.

14. Við mat á því hvaða afleiðingar framangreind mistök sem gerð voru í þinghaldi 17. desember 2020 eigi að hafa í réttarfarslegu tilliti er ljóst að í stað þess að héraðsdómur leysti úr kröfu á hendur stefnda málsins, Útgerðarfélagi Reykjavíkur hf., var leyst úr kröfunni á hendur öðrum lögaðila, félaginu Brimi hf., sem ekki hafði verið stefnt í málinu. Framangreind mistök sem ekki voru leiðrétt undir rekstri málsins í héraði fólu þannig ekki eingöngu í sér að stefndi gengi eftir það undir röngu nafni heldur var málið eftir það rekið varnarmegin í nafni annars félags og það sýknað af kröfum sóknaraðila. Með hliðsjón af þessum afleiðingum verður að líta svo á að málið hafi frá 17. desember 2020 verið rekið á hendur röngum aðila í héraði.

15. Ekki er við neinar skráðar lagareglur eða fordæmi að styðjast við úrlausn þess hvaða réttarfarslegar afleiðingar þessi augljósu mistök við rekstur málsins í héraði sem komu í ljós við áfrýjun þess til Landréttar eigi að hafa. Við þessar aðstæður er rétt að velja þá leið við úrlausn um þennan réttarfarsannmarka sem líklegust er til að stuðla að því að efnislega rétt niðurstaða fáist í málinu.

16. Ljóst er að sóknaraðili var réttur aðili málsins fyrir Landsrétti og að hann áfrýjaði málinu á hendur Brimi hf. í samræmi við það að hlutafélag með því nafni var sýknað af kröfum hans í héraði. Þau mistök sem gerð voru við meðferð málsins í héraði urðu enn bersýnilegri eftir áfrýjun málsins þar sem tilgreining á kennitölu, heimili og fyrirsvarsmanni varnaraðila var önnur í áfrýjunarstefnu en í stefnu til héraðsdóms. Enda þótt útilokað hafi verið að leggja efnisdóm á málið í Landsrétti eftir að framangreind mistök við meðferð málsins í héraði voru komin í ljós verður að líta svo á að þar sem sóknaraðili var augljóslega réttur aðili málsins fyrir Landsrétti og gat ekki áfrýjað málinu gegn öðru félagi en því sem var sýknað í héraði hafi ekki verið rétt að vísa málinu frá Landsrétti. Þess í stað bar Landsrétti að ómerkja hinn áfrýjaða héraðsdóm og málsmeðferðina í héraði frá og með 17. desember 2020 til þess að unnt væri að ná fram niðurstöðu í málinu á hendur réttum aðila.

17. Samkvæmt framansögðu er óhjákvæmilegt að ómerkja hinn kærða úrskurð og héraðsdóm í málinu og vísa málinu heim í hérað til löglegrar meðferðar frá og með 17. desember 2020 og dómsálagningar þar að nýju. Um slíkar lyktir vísast til dóms Hæstaréttar 4. júní 2019 í máli nr. 5/2019.

18. Rétt er að kærumálskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður Landsréttar og dómur héraðsdóms eru ómerktir og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar frá og með þinghaldi 17. desember 2020 og dómsálagningar að nýju.

Kærumálskostnaður í Hæstarétti fellur niður.