Hæstiréttur íslands

Mál nr. 32/2021

Birkir Leósson (Jóhannes Karl Sveinsson lögmaður)
gegn
D&T sf. (Ólafur Eiríksson lögmaður)

Lykilorð

  • Starfslok
  • Sameignarfélag
  • Samningur
  • Ógilding samnings
  • Hagnaðarhlutdeild
  • Málskostnaður
  • Aðfinnslur

Reifun

Ágreiningur málsins laut að kröfum B vegna innlausnar eignarhluta hans í D sf. samhliða starfslokum hans hjá Deloitte ehf. á árinu 2017 og hlutdeildar í hagnaði D sf. vegna þess reikningsárs þegar innlausn hluta hans fór fram. B byggði á því að um innlausnina skyldi fara eftir ákvæðum laga nr. 50/2007 þar sem hann væri hvorki bundinn af samkomulagi A-félagsmanna 14. nóvember 2013, sem hefði verið fellt úr gildi með nýjum samningum sem tóku gildi 1. júní 2017, né af síðastnefndum samningum enda hefði hann ekki undirritað þá fyrir sitt leyti. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að sýkna D sf. af kröfum B. Í dómi Hæstaréttar kom fram að ákvæði í samkomulaginu 14. nóvember 2013 yrðu ekki skýrð á þann veg að mismunandi reglur hafi átt að gilda á hverjum tíma um félagsmenn D sf. eftir því hvaða breytingar hver og einn þeirra samþykkti. Við þær breytingar á samkomulagi félagsmanna sem tóku gildi 1. júní 2017 hefði verið farið að þeim reglum sem félagsmenn höfðu áður samþykkt um hvernig því skyldi breytt. B hefði verið A-félagsmaður í D sf. og gengist með skýrum hætti undir að breytingar yrðu gerðar á samkomulagi þeirra með auknum meirihluta atkvæða. Var því fallist á með D sf. að um innlausn á eignarhluta B færi eftir þeim samningum sem tóku gildi 1. júní 2017 en í málinu lá fyrir að tvö skuldabréf hefðu verið gefin út til B í samræmi við það. Staðfest var niðurstaða hins áfrýjaða dóms að engin efni væru til að ógilda fyrrgreindar samningsskuldbindingar á grundvelli ógildingarreglna samningaréttar. Þá var D sf. jafnframt sýknað af kröfum B annars vegar vegna hlutdeildar í höfuðstól félagsins sem hefði myndast vegna eftirstæðs hagnaðar tilgreind reikningsár og hins vegar vegna hlutdeildar í tilgreindum fjárfestingarstyrk. Var D sf. því sýknað af kröfum B um frekari greiðslur vegna innlausnar á eignarhluta hans í félaginu. Loks var talið að um rétt B til hagnaðarhlutdeildar færi eftir þeim samningum sem tóku gildi 1. júní 2017 og því féllst Hæstiréttur á kröfu B um viðurkenningu á rétti til 235/3975 hlutdeildar í hagnaði D sf. reikningsárið 1. júní 2017 til 31. maí 2018 í réttu hlutfalli við þann tíma sem hann naut stöðu eiganda í D sf. frá 1. júní 2017 til 1. janúar 2018.

Dómur Hæstaréttar

1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen, Karl Axelsson og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 28. júlí 2021. Hann krefst þess aðallega að stefnda verði gert að greiða sér 135.109.881 krónu með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. janúar 2018 til greiðsludags. Til vara krefst hann þess að stefnda verði gert að greiða sér 14.411.928 krónur með sömu vöxtum og í aðalkröfu. Jafnframt krefst áfrýjandi þess að viðurkenndur verði réttur hans til 1/18 hlutdeildar í hagnaði stefnda vegna tímabilsins 1. júní 2017 til 1. janúar 2018, en til vara vegna tímabilsins 1. júní 2017 til 1. nóvember sama ár og að viðurkennd verði bótaskylda stefnda á tjóni áfrýjanda sem hlaust af því að eignarhlutur hans var innleystur 1. nóvember 2017 í stað 1. janúar 2018. Að því frágengnu krefst hann viðurkenningar á rétti til 235/3975 hlutdeildar í hagnaði stefnda reikningsárið 1. júní 2017 til 31. maí 2018 í réttu hlutfalli við þann tíma sem hann naut réttinda sem eigandi eignarhluta í stefnda frá 1. júní 2017 til 1. janúar 2018, en til þrautavara frá 1. júní 2017 til 1. nóvember sama ár og að viðurkennd verði bótaskylda stefnda á tjóni áfrýjanda sem hlaust af því að eignarhlutur hans var innleystur 1. nóvember 2017 í stað 1. janúar 2018. Loks krefst hann málskostnaðar á öllum dómstigum.

3. Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Ágreiningsefni

4. Ágreiningur málsins lýtur að kröfum áfrýjanda vegna innlausnar eignarhluta hans í stefnda samhliða starfslokum hans hjá Deloitte ehf. á árinu 2017. Áfrýjandi krefst þess að innlausn eignarhluta hans fari fram á grundvelli laga nr. 50/2007 um sameignarfélög og jafnframt hlutdeildar í hagnaði stefnda vegna þess reikningsárs sem var yfirstandandi þegar innlausn hluta hans fór fram og þar miðað við að hann hafi verið A-félagsmaður fram til 1. janúar 2018. Verði uppgjör hagnaðar þrátt fyrir það miðað við 1. nóvember 2017 byggir áfrýjandi á því að stefndi hafi þannig valdið honum tjóni með saknæmri og ólögmætri háttsemi.

5. Í dómi héraðsdóms, sem staðfestur var með hinum áfrýjaða dómi, var stefndi sýknaður af öllum kröfum áfrýjanda. Í héraði beindi áfrýjandi kröfum sínum einnig að Deloitte ehf. vegna ógreidds orlofs og með dómi héraðsdóms var félagið dæmt til að greiða áfrýjanda 58.941 krónu auk vaxta. Kom sú niðurstaða ekki til endurskoðunar í Landsrétti.

6. Áfrýjunarleyfi var veitt á þeim grundvelli að dómur í málinu gæti haft fordæmisgildi meðal annars um stöðu félagsmanns í sameignarfélagi sem ekki samþykkir breytingar á félagssamningi og hvort um réttarstöðu hans fari þá eftir eldri félagssamningi sem felldur hefur verið úr gildi, yngri samningi eða lögum nr. 50/2007, sbr. 3. málslið 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í ákvörðun Hæstaréttar um leyfið sagði jafnframt að ástæða væri til að ætla að dómur Landsréttar væri bersýnilega rangur um ákvörðun málskostnaðar, sbr. 4. málslið sama lagaákvæðis.

Málsatvik

7. Áfrýjandi er löggiltur endurskoðandi og hóf störf hjá forvera Deloitte-samstæðunnar árið 1983. Fram til ársins 2017 fór starfsemi samstæðunnar á Íslandi fram í tveimur félögum. Annars vegar í stefnda sem er skráð sameignarfélag og hins vegar í einkahlutafélaginu Deloitte sem er dótturfélag stefnda. Við starfslok áfrýjanda var í gildi ráðningarsamningur hans við Deloitte ehf. frá ágúst 2009 og var áfrýjandi jafnframt A-félagsmaður í stefnda.

8. Í stofnsamningi stefnda 26. september 2015, sem leysti af hólmi stofnsamning 1. júní 2005, segir í grein 2 að tilgangur félagsins sé eignarhald um hlutabréf, önnur verðbréf og eignir í sameiginlegri eigu félagsmanna sem tengjast rekstri á sviði endurskoðunar, bókhalds og ráðgjafar svo og tengdum eignum. Í grein 3 segir að stofnframlag félagsmanna skiptist í hluti A- og B-félagsmanna. Samkvæmt grein 4 geta félagsmenn þeir einir verið sem eru fastráðnir starfsmenn samstæðu félagsins samkvæmt ráðningarsamningi en heimilt er að bæta við nýjum félagsmönnum að fengnu samþykki allra A-félagsmanna eða stjórnar félagsins samkvæmt samþykktum. Í grein 8 segir að samþykki allra A-félagsmanna þurfi til þess meðal annars að breyta tilgangi félagsins eða ákvæðum félagssamnings um hlutdeild manna í félaginu eða jafnrétti þeirra á milli. Samsvarandi ákvæði var í stofnsamningi stefnda 1. júní 2005.

9. A-félagsmenn höfðu gert með sér samkomulag 14. nóvember 2013 um „ýmis atriði í samskiptum sín á milli, sem ekki koma fram í sameignarfélagssamningi og stofnsamningi félagsins eða ráðningarsamningum við A-félagsmenn“ en það leysti af hólmi samkomulag félagsmanna sama efnis frá 16. september 2005. Í samkomulaginu 14. nóvember 2013 var fjallað um störf A-félagsmanna fyrir félagið, skiptingu hagnaðar, inn- og útgönguverð, breytingar á eignaraðild og ráðningu forstjóra. Í grein 12 samkomulagsins sagði að því yrði aðeins breytt að breytingar hlytu samþykki 4/5 hluta atkvæða á A-félagsmannafundi í félaginu.

10. Í stofnsamningum stefnda frá 2005 og síðar 2015 eru samkvæmt framansögðu samhljóða fyrirmæli um hvernig tilteknum atriðum verði breytt með samþykki allra A-félagsmanna, sbr. grein 8 beggja samninganna. Í fyrrgreindu samkomulagi A-félagsmanna 14. nóvember 2013 er hins vegar að finna reglu sem mælir fyrir um heimildir 4/5 hluta A-félagsmanna til að breyta því.

11. Árin 2015 og 2016 fóru fram viðræður stjórnenda Deloitte á Íslandi um erlent samstarf. Virðist sem mótuð hafi verið sú stefna að einungis eitt aðildarfélag væri á tilteknum landsvæðum sem færi með yfirstjórn þeirra Deloitte-félaga sem þar væru. Í þeim tilgangi yrði meðal annars stofnað félagið Deloitte NWE LLP sem skráð yrði á Bretlandi og því ætlað að verða aðildarfélag alþjóðafélags Norðvestur-Evrópu í stað beinnar aðildar fyrri félaga á sama svæði. Á aðalfundi stefnda og Deloitte ehf. 24. september 2016 kynnti formaður stjórnar stefnda og Deloitte ehf. að hann hefði sótt sex samráðsfundi erlendis vegna „Nordic og NWE samstarfs“. Væru helstu málefni fram undan meðal annars „NWE vegferðin“, útfærsla á einingakerfi og eigenda- og hluthafamál. Á fundi eigenda 3. október 2016 var samþykkt að veita formanni stjórnar stefnda og Deloitte ehf. umboð til að framkvæma allar aðgerðir og undirrita öll nauðsynleg gögn fyrir hönd eigenda í tengslum við ákvörðun sem send hafði verið til þeirra 26. september sama ár um heimild til framkvæmda á svonefndu Project-Gold verkefni og málefnum því tengdu.

12. Á hluthafafundi 30. maí 2017 var lagður fram svokallaður hluthafasamningur Deloitte NWE, stefnda og A-félagsmanna til undirritunar með vísan til fundar 3. október 2016 og umboðs stjórnar til breytinga. Jafnframt voru þar bornar undir atkvæði breytingar sem gerðar höfðu verið á samkomulagi A-félagsmanna 14. nóvember 2013 og þær samþykktar með fimmtán atkvæðum af sextán en enginn greiddi atkvæði gegn þeim. Tók fyrrgreindur hluthafasamningur og breytingar á samkomulagi gildi 1. júní 2017. Ágreiningslaust er að áfrýjandi skrifaði ekki undir framangreind skjöl en það gerðu aðrir A-félagsmenn stefnda. Í fundargerð var meðal annars bókað um óánægju áfrýjanda við afgreiðslu tiltekins liðar á fundinum. Í tölvupósti til stjórnar og annarra eigenda stefnda 16. sama mánaðar gerði áfrýjandi athugasemd við fyrrgreinda bókun enda hefði óánægja hans verið mun víðtækari en þar kæmi fram. Hann hefði ekkert samþykkt á fundinum og ekki skrifað undir neinn þeirra samninga sem þar voru lagðir fram.

13. Áfrýjandi fundaði með forstjóra og formanni stjórnar stefnda og Deloitte ehf. í byrjun júní 2017 meðal annars vegna afstöðu áfrýjanda til fyrrgreindra samninga. Í tölvupósti forstjóra 29. sama mánaðar kom fram að útbúin hefðu verið tvö skuldabréf vegna sérgreinds höfuðstóls og innlausnar á eignarhlut áfrýjanda í stefnda auk þess sem vísað var til þess að áfrýjandi hefði á fyrrgreindum fundi hallast að því að gerast B-félagsmaður. Þessu hafnaði áfrýjandi með tölvupósti næsta dag. Vísaði hann til fyrri samskipta og áréttaði að hann myndi aldrei sætta sig við verri kjör en A-félagsmaður. Jafnframt gerði áfrýjandi athugasemdir við að laun hans hjá Deloitte ehf. hefðu verið lækkuð til samræmis við laun B-félagsmanna. Það var í kjölfarið leiðrétt og fékk áfrýjandi greidd laun sem A-félagsmaður til starfsloka.

14. Áfrýjandi sagði upp störfum hjá Deloitte ehf. 1. júlí 2017 með sex mánaða fyrirvara og krafðist samhliða innlausnar á eignarhlut sínum með sama fresti. Í ítarlegu bréfi sama dag til A-félagsmanna mótmælti hann því að fá ekki úthlutað einingum í upphafi reikningsárs sem hófst 1. júní eins og aðrir A-félagsmenn í samræmi við reglur um einingakerfi stefnda. Í tölvupósti til formanns stjórnar stefnda og Deloitte ehf. 9. ágúst 2017 sendi áfrýjandi tillögu um úthlutun sama fjölda hagnaðareininga fyrir reikningsárið 2017-2018 og reikningsárið 2016-2017 enda væri hann enn A-félagsmaður og þótt hann hefði tilkynnt útgöngu væri ekki með öllu útilokað að hann drægi hana til baka. Því ætti hann rétt á úthlutun hagnaðareininga til jafns við aðra A-félagsmenn. Á fundi eigenda 17. sama mánaðar var fyrrgreind tillaga áfrýjanda borin undir atkvæði og felld. Í fundargerð var jafnframt bókað eftir áfrýjanda að verulegir ágallar væru á kynntum ársreikningi Deloitte ehf., meðal annars að styrkur frá alþjóðafélagi Deloitte væri þar ekki tekjufærður heldur skráður sem langtímaskuld. Í tölvupósti 22. ágúst 2017 til formanns stjórnar stefnda áréttaði áfrýjandi að hann ætti að njóta hlunninda A-félagsmanna meðan hann væri enn í þeirra hópi og í tölvupósti 12. september sama ár til formanns stjórnar stefnda og Deloitte ehf. sagði að áfrýjandi hefði þrisvar reynt án árangurs að fá úthlutað einingum fyrir reikningsárið 2017-2018 eða önnur sambærileg kjör svo að honum væri unnt að draga uppsögn sína til baka.

15. Á aðalfundi stefnda 16. september 2017 voru meðal annars til umræðu tillögur áfrýjanda um úthlutun 235 NWE-eininga fyrir reikningsárið 2017-2018 og til vara að aðalfundur samþykkti að greiða honum út sérgreindan höfuðstól hans. Fyrri tillögu áfrýjanda var vísað frá en sú seinni felld. Í fundargerð var bókað að um úthlutun NWE-eininga fyrir reikningsárið 2017-2018 færi samkvæmt sameignarfélagssamningi félagsins Deloitte NWE frá 1. júní 2017. Samkvæmt honum væri ákvörðun um úthlutun eininga í höndum stjórnar þess félags. Eigendafundur stefnda væri því ekki bær til að taka ákvarðanir um úthlutun eininga fyrir reikningsárið 2017-2018.

16. Meðal gagna málsins eru drög að samkomulagi 16. október 2017 um starfslok áfrýjanda og innlausn eignarhluta hans í stefnda. Í tölvupósti áfrýjanda 19. sama mánaðar til formanns stjórnar og forstjóra stefnda kom fram að sumt í drögunum væri þvert á það sem rætt hefði verið á fundum aðila. Meðal annars kæmi ekki til greina að innlausn eignarhluta áfrýjanda færi fram fyrr en 31. janúar 2018 enda hefði uppsögn hans og innlausnarkrafa miðast við þann tíma sem og ráðningarsamband hans við stefnda. Sex mánaða uppsagnarfrestur hefði verið í samræmi við reglur laga um sameignarfélög og reglur stefnda og gæti hann ekki samþykkt að láta af störfum í lok október. Auk þess ætti hann að halda fullum réttindum allt til 31. janúar 2018 hvort sem hann léti af störfum á þeim tíma eða fyrr að ósk félagsins. Áfrýjandi áréttaði fyrrgreinda afstöðu sína í tölvupósti til formanns stjórnar og forstjóra stefnda 21. október 2017. Í svari forstjóra 24. sama mánaðar kom fram að eins og rætt hefði verið á fyrri fundum væri gengið út frá því að áfrýjandi léti af störfum 31. október 2017. Áfrýjandi svaraði 30. sama mánaðar að hann myndi láta af störfum daginn eftir. Það breytti þó engu um að ráðningarsamningur hans gilti til 31. janúar 2018 um allt annað en vinnuframlag og yrði hann áfram A-félagsmaður til þess tíma.

17. Í bréfi forstjóra stefnda og Deloitte ehf. 1. nóvember 2017 til áfrýjanda sem bar heitið „Tilkynning um starfslok hjá Deloitte ehf. og innlausn eignarhluta í D&T sf.“ var áfrýjanda tilkynnt um innlausn eignarhluta hans í stefnda. Var þar boðað að greiðslur til áfrýjanda yrðu gerðar upp með tveimur skuldabréfum. Annars vegar að fjárhæð 21.487.000 krónur vegna innlausnar á stofnfjárhluta og hins vegar 25.414.000 krónur vegna innlausnar á sérgreindum höfuðstól. Þá skyldi áfrýjandi njóta arðs að fullu vegna reikningsársins sem lauk 31. maí 2017 samkvæmt ákvörðun aðalfundar 16. september 2017 en ekki vegna reikningsársins sem hófst 1. júní 2017, sem sagt var vera til samræmis við samninga og reglur félagsins og stefnda. Ekki var óskað eftir vinnuframlagi áfrýjanda eftir 31. október sama ár.

18. Í bréfi forstjóra Deloitte ehf. og stefnda 2. nóvember 2017 var vísað til fundar með áfrýjanda daginn áður þar sem áfrýjandi hafði neitað viðtöku bréfs um starfslok og skuldabréfanna og af þeim sökum myndi Deloitte ehf. varðveita frumrit skuldabréfanna fyrir hönd áfrýjanda. Fyrrgreindu uppgjöri var mótmælt af áfrýjanda með bréfi 9. sama mánaðar.

Lagaumhverfi

19. Í málinu reynir einkum á skýringu félagssamnings sameignarfélags og þýðingu laga nr. 50/2007 í því sambandi, einkum um hvenær unnt er að víkja frá þeim með félagssamningi. Því er rétt að fjalla nánar um lögin að því marki sem nauðsynlegt er fyrir sakarefni málsins.

20. Með lögunum voru í fyrsta skipti settar reglur um sameignarfélög hér á landi. Uppbygging þeirra er með þeim hætti að I. kafli hefur að geyma almennar reglur, í II. kafla er fjallað um stofnun sameignarfélaga og ábyrgð félagsmanna, í III. kafla um stjórnkerfi og réttarstöðu félagsmanna og IV. kafli hefur að geyma reglur um meðferð fjármuna sameignarfélaga og fyrirsvar. Í V. kafla er fjallað um breytingar á félagsaðild, í VI. kafla um félagsslit og skipti, í VII. kafla er að finna reglu um skaðabótaábyrgð og reglur um skráningu sameignarfélaga eru í VIII. kafla. Í 3. gr. laganna segir að ákvæði III. kafla þeirra um stjórnkerfi og réttarstöðu félagsmanna eigi við nema kveðið sé á um annað í félagssamningi. Þar segir jafnframt að önnur ákvæði laganna séu ófrávíkjanleg nema annað sé tekið fram.

21. Í almennum athugasemdum í greinargerð með frumvarpi til laga nr. 50/2007 segir að markmið með setningu laganna sé að setja reglur um sameignarfélög sem séu til þess fallnar að skýra réttarstöðuna einkum þegar ekki liggi fyrir ákvæði í samningi sem taki á viðkomandi álitaefni. Séu lögin að meginreglu til frávíkjanleg og þá einkum þær reglur sem lúta að innra skipulagi og sambandi félagsmanna innbyrðis og gagnvart félaginu. Reglur um réttarsamband félagsins út á við, þar á meðal ábyrgð félagsins og félagsmanna á skuldbindingum þess og skráningu í firmaskrá, séu hins vegar almennt ófrávíkjanlegar. Þá sé ekki stefnt að því að setja tæmandi reglur um hvert einasta álitaefni sem hugsanlega geti risið heldur miðað við að löggjöfin takmarkist við ákveðin efni sem séu þar með grundvallarreglur um einkenni sameignarfélaga, stofnun þeirra, ábyrgð, ákvarðanatöku, réttarstöðu félagsmanna, meðferð fjármuna, breytingar á félagsaðild, félagsslit, skaðabótaábyrgð og skráningu sameignarfélaga. Það hafi verið einn höfuðkostur sameignarfélagaformsins að um stofnun þeirra, skipulag og innri málefni hafi ríkt samningsfrelsi og stefnt væri að því að tryggja það áfram meðal annars um innri málefni sameignarfélaga.

22. Í II. kafla laga nr. 50/2007 er fjallað um félagssamninga í 7. gr. Í athugasemdum við ákvæðið í greinargerð með frumvarpi til laganna segir að skylt sé að undirrita skriflegan félagssamning um skráð sameignarfélag og að lágmarkskröfur séu að auki gerðar um efni hans. Þá sé ekkert því til fyrirstöðu að sameignarfélagi verði jafnframt settar sérstakar samþykktir sem teljast þá hluti félagssamnings. Í 2. mgr. 7. gr. er að finna þau atriði sem að lágmarki skulu koma fram í félagssamningi. Í greinargerðinni segir að þótt ekki sé gert ráð fyrir miklum kröfum um efni félagssamnings sé mikilvægt að vanda vel til hans og útfæra í samræmi við þá starfsemi og samstarf sem félaginu sé ætlað að mynda ramma um. Þar á meðal eru reglur um skiptingu hagnaðar og taps, viðurlög við vanefndum sem og úrsögn eða brottvikningu félagsmanna en ákvæði frumvarpsins séu að mestu frávíkjanleg hvað þessa þætti varðar. Þá segir um 3. mgr. 7. gr. að í félagssamningi megi kveða á um skilyrði breytinga á honum bæði um form og efni. Ef ekki eru ákvæði í félagssamningi um breytingar þurfi allir félagsmenn að samþykkja þær með skriflegri undirritun sinni.

23. Í V. kafla laganna um breytingar á félagsaðild er fjallað um innlausnarverð í 33. gr. Það er ákveðið á grundvelli verðmætis félags á þeim tíma sem sex mánaða uppsagnarfrestur samkvæmt 32. gr. rennur út en bæði fyrrgreind lagaákvæði eru frávíkjanleg. Þá er í 44. gr. fjallað um skaðabótaskyldu vegna tjóns félags, einstakra félagsmanna eða annarra af völdum félagsmanns, stjórnarmanns, framkvæmdastjóra eða skilanefndarmanns. Fyrrgreind regla á einnig við um tjón félagsmanns vegna brota á ákvæðum laganna eða félagssamningi.

Niðurstaða

Úrlausn Landsréttar um kröfu stefnda um málskostnað

24. Í hinum áfrýjaða dómi var kröfum stefnda lýst. Krafðist hann sýknu af kröfum áfrýjanda og einungis málskostnaðar fyrir Landsrétti en gerði ekki kröfu um að héraðsdómur yrði staðfestur. Engu að síður staðfesti Landsréttur ákvæði héraðsdóms um greiðslu málskostnaðar þar fyrir dómi, auk þess sem áfrýjanda var gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Landsrétti sem var ákveðinn 1.000.000 króna. Með þessu fór Landsréttur út fyrir kröfur stefnda í andstöðu við 1. mgr. 111. gr. laga nr. 91/1991.

25. Hér fyrir dómi gerir stefndi þá kröfu að hann verði sýknaður af öllum kröfum áfrýjanda og honum verði gert að greiða sér málskostnað fyrir Hæstarétti. Hann hefur ekki gert kröfu um staðfestingu á dómi Landsréttar og því felst hvorki í kröfugerð hans krafa um málskostnað fyrir héraðsdómi né Landsrétti. Eins og kröfugerð stefnda er háttað fyrir Hæstarétti kemur fyrrgreindur ágalli á dómi Landsréttar því ekki í veg fyrir að lagður verði efnisdómur á málið hér fyrir dómi, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 23. september 1999 í máli nr. 17/1999.

Krafa vegna innlausnar eignarhluta áfrýjanda

26. Áfrýjandi krefst þess að innlausnarverð eignarhluta hans í stefnda fari eftir ákvæðum laga nr. 50/2007 þar sem sé hvorki bundinn af samkomulagi A-félagsmanna 14. nóvember 2013 né þeim samningum sem tóku gildi 1. júní 2017. Af hálfu stefnda er því hafnað og byggt á því að áfrýjandi hafi fengið greitt að fullu í samræmi við fyrrnefnt samkomulag A-félagsmanna en til vara eftir þeim samningum sem tóku gildi 1. júní 2017.

27. Í hinum áfrýjaða dómi var fallist á að við ákvörðun um innlausnarverð eignarhluta áfrýjanda í stefnda skyldi farið eftir fyrrgreindu samkomulagi A-félagsmanna 14. nóvember 2013 sem áfrýjandi hefði samþykkt með undirritun sinni og um það vísað til meginreglu samningaréttar um skuldbindingargildi samninga. Þá var tekið fram að áfrýjandi hefði ekki samþykkt fyrir sitt leyti neinn þeirra nýju samninga sem tóku gildi 1. júní 2017.

28. Stefndi er skráð sameignarfélag en eins og fyrr greinir er tilgangur þess eignarhald um hlutabréf, önnur verðbréf og eignir í sameiginlegri eigu félagsmanna sem tengjast rekstri á sviði endurskoðunar, bókhalds og ráðgjafar svo og tengdum eignum og er þar fyrst og fremst um að ræða eignarhald á Deloitte ehf. Vegna fyrirmæla 7. gr. laga nr. 50/2007 er nauðsynlegt að fjalla nánar um þá samninga sem félagsmenn stefnda gerðu um skipulag og stjórnun félagsins og um samskipti félagsmanna innbyrðis og lýst var að framan. Þar er annars vegar um að ræða stofnsamning 26. september 2015 og hins vegar samkomulag A-félagsmanna 14. nóvember 2013.

29. Í stofnsamningi 26. september 2015, sem tók við af stofnsamningi 1. júní 2005, er meðal annars fjallað um félagsmenn og framlög þeirra, stjórnskipulag félagsins, reikninga og endurskoðun og uppsögn og slit samnings. Segir þar í grein 8 að áskilið sé samþykki allra félagsmanna meðal annars til að breyta tilgangi félags að verulegu leyti eða breyta ákvæðum félagssamnings um hlutdeild í félagi eða jafnrétti þeirra á milli. Í samkomulagi A-félagsmanna 14. nóvember 2013 er fjallað um störf þeirra fyrir félagið, inn- og útgönguverð og breytingar á eignaraðild. Segir þar í grein 12 að því verði ekki breytt nema með samþykki 4/5 hluta atkvæða á fundi A-félagsmanna.

30. Með fyrrgreindum stofnsamningi 26. september 2015 og samkomulagi A-félagsmanna 14. nóvember 2013 var rekstrarfyrirkomulag stefnda formgert sem og samskipti félagsmanna innbyrðis. Geymdu þau efnisreglur um réttindi og skyldur félagsmanna þar sem að nokkru var vikið frá reglum laga nr. 50/2007 þar með talið í grein 12 í fyrrgreindu samkomulagi A-félagsmanna. Rétt er að líta svo á að samkomulagið hafi falið í sér efnislega viðbót við stofnsamning stefnda 2005 sem breyttist ekki hvað þetta varðar með nýjum stofnsamningi 2015 og ekki á því byggt í málinu. Verður samkvæmt framansögðu litið svo á samkomulagið feli í sér nánari útfærslu stofnsamnings sem félagsmönnum hafi verið heimilt að semja um sín í milli og teljist því hluti félagssamnings stefnda.

31. Þegar deilt er um skýringu og gildissvið félagssamninga sameignarfélaga verður að líta til þess að samningsfrelsi er almennt um skipulag þeirra og innri málefni, þar á meðal um réttindi félagsmanna innbyrðis. Eigendur sameignarfélaga bera ábyrgð á skuldbindingum þeirra og er því rík trúnaðarskylda milli eigenda innbyrðis og gagnvart félagi enda byggist rekstur þess á gagnkvæmu trausti félagsmanna. Tilgangur og skipulag stefnda er með þeim hætti að félaginu er ætlað að móta ramma um tiltekið rekstrarfyrirkomulag þar sem fjöldi A-félagsmanna kann að taka breytingum. Hafa félagsmenn samið svo um að útganga félagsmanns fari eftir nánar tilteknum reglum sem endurspegla fyrrgreint rekstrarfyrirkomulag, sbr. 4. mgr. 33. gr. laga nr. 50/2007. Þá er óumdeilt að þau ákvæði sem tóku gildi 1. júní 2017 eru efnislega óbreytt um innlausn eignarhluta við útgöngu félagsmanna frá því sem fram kom í samkomulagi A-félagsmanna 14. nóvember 2013. Þá liggur fyrir að gefin hafa verið út tvö skuldabréf til áfrýjanda í samræmi við það.

32. Í þeim breytingum sem gerðar voru 30. maí 2017 á samkomulagi A-félagsmanna fólst meðal annars að stefndi varð sjálfur aðili að því. Í grein 2.4 í hinu nýja samkomulagi segir jafnframt að A-félagsmenn samþykki að gerður verði hluthafasamningur (Shareholders‘ Agreement for Deloitte ehf.) 1. júní 2017 milli stefnda og félagsins NWE LLP sem gildi um stjórnun stefnda og Deloitte ehf. og endurspegla skyldi svonefndan NWE-sameignarfélagssamning. Sá samningur er frá 1. júní 2017 eins og áður greinir og er á milli stefnda, meðeigenda stefnda og Deloitte NWE. Í málinu er óumdeilt að við þessar breytingar var farið eftir grein 12 fyrrgreinds samkomulags A-félagsmanna 14. nóvember 2013 en ekki grein 8 í stofnsamningi stefnda 26. september 2015. Jafnframt liggur fyrir að áskilinn meirihluti A-félagsmanna samþykkti breytinguna á fundi 30. maí 2017 auk þess sem A-félagsmenn stefnda að áfrýjanda frátöldum undirrituðu allir samningana í kjölfarið.

33. Í grein 2.3 í samkomulagi A-félagsmanna 1. júní 2017 er fjallað um þýðingu fyrrgreindra breytinga gagnvart félagsmönnum. Þar segir meðal annars að hluthafasamningurinn og NWE-sameignarfélagssamningurinn leysi af hólmi og felli úr gildi alla fyrri sameignarfélagssamninga svo og alla aðskilda samninga um stefnda að frátöldum stofnsamningi stefnda sem gildi aðeins um innlend málefni. Þar með tóku nýrri samningar við af eldri samningum um stefnda sem eftirleiðis gilda um innbyrðis samband og ábyrgð félagsmanna. Eftir þessar breytingar voru því í gildi fjórir samningar sem máli skipta við úrlausn málsins: Stofnsamningur stefnda 26. september 2015, samkomulag A-félagsmanna stefnda, hluthafasamningur og NWE-sameignarfélagssamningur en síðastgreindir þrír samningar giltu frá og með 1. júní 2017.

34. Að öllu framangreindu gættu verður grein 12 í samkomulagi A-félagsmanna 14. nóvember 2013 ekki skýrð á þann veg að mismunandi reglur hafi átt að gilda á hverjum tíma um félagsmenn stefnda eftir því hvaða breytingar hver og einn þeirra samþykkti. Verður þvert á móti ráðið að í henni hafi falist heimild til fráviks frá 3. mgr. 7. gr. laga nr. 50/2007 um breytingar á félagssamningi. Sætti sú heimild ekki öðrum takmörkunum en þeirri sem leiðir af skaðabótareglu 44. gr. laganna. Jafnframt er áréttað að um réttarstöðu félagsmanna stefnda innbyrðis skiptu stofnsamningur og samkomulag A-félagsmanna stefnda meginmáli enda áttu félagsmenn mikið undir því að í rekstri félagsins og við stjórnun væri farið eftir þeim reglum sem þeir höfðu sjálfir mótað um skipulag og starfsemi þess. Verður því ekki fallist á með stefnda að um réttarstöðu áfrýjanda gagnvart stefnda gildi áfram samkomulag A-félagsmanna 14. nóvember 2013 sem samkvæmt framansögðu hafði verið fellt úr gildi samkvæmt þeim reglum sem félagsmenn höfðu sjálfir sett sér í þeim efnum.

35. Að framangreindri niðurstöðu fenginni verður að leysa úr því hvort fylgja eigi 33. gr. laga nr. 50/2007 um innlausn á eignarhlut áfrýjanda eins og hann heldur fram eða hvort áfrýjandi hafi verið bundinn af þeim samningum sem tóku gildi 1. júní 2017 eins og byggt er á til vara af hálfu stefnda.

36. Eins og rakið hefur verið myndaði stofnsamningur stefnda 26. september 2015 og samkomulag A-félagsmanna 14. nóvember 2013 ramma um þau málefni sem eigendur stefnda höfðu komið sér saman um við rekstur félagsins og um lögskipti sín á milli. Við þær breytingar á samkomulagi félagsmanna sem tóku gildi 1. júní 2017 var farið að þeim reglum sem félagsmenn höfðu áður samþykkt um hvernig því skyldi breytt enda var áfrýjandi eftir sem áður A-félagsmaður í stefnda og hafði gengist með skýrum hætti undir að breytingar yrðu gerðar á samkomulagi þeirra með auknum meirihluta atkvæða. Án þess að það ráði úrslitum bera gögn málsins jafnframt með sér að áfrýjandi var áfram við störf hjá Deloitte ehf. eftir samþykki nýju samninganna fram til 31. október 2017 þegar hann lét af störfum að beiðni fyrirsvarsmanna stefnda. Í samskiptum áfrýjanda við þá kom ítrekað fram að hann teldi sig vera A-félagsmann og ætti að njóta allra þeirra réttinda sem félagsaðild fylgdu. Þá funduðu áfrýjandi og fyrirsvarsmenn stefnda um stöðu hans í félaginu og athugasemdir hans við þá samninga sem tóku gildi 1. júní 2017. Jafnframt má ráða af gögnum málsins að á þessum fundum hafi án árangurs verið reynt að leysa úr þeim ágreiningi sem upp var kominn. Auk þess tók áfrýjandi þátt í félagsfundum stefnda eftir 1. júní 2017 að því er virðist án athugasemda af hálfu annarra félagsmanna.

37. Samkvæmt framansögðu verður því fallist á að um innlausn á eignarhluta stefnda fari eftir þeim samningum sem tóku gildi 1. júní 2017. Þá er staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms að engin efni séu til að fallast á að þær aðstæður hafi verið uppi í aðdraganda eða við starfslok áfrýjanda haustið 2017 sem leiði til ógildingar fyrrgreindra samningsskuldbindinga á grundvelli þeirra ógildingarreglna samningaréttar sem byggt var á af hálfu áfrýjanda.

38. Að öllu framangreindu gættu verður ekki fallist á aðalkröfu áfrýjanda um greiðslu 135.109.881 krónu vegna innlausnar á hlutum í stefnda sem byggð er á lögum nr. 50/2007.

39. Áfrýjandi hefur einnig krafist greiðslu samtals 14.411.928 krónur í tengslum við innlausn hluta hans í stefnda. Annars vegar vegna hlutdeildar áfrýjanda í höfuðstól stefnda sem hafi myndast vegna eftirstæðs hagnaðar reikningsáranna 2012-2013 til 2016-2017 sem haldið hafi verið eftir í stefnda í stað þess að greiða hann út til A-félagsmanna. Hins vegar vegna 1/17 hlutdeildar í fjárfestingarstyrk að frádreginni 20% tekjuskattsskuldbindingu sem alþjóðafélag Deloitte hafi greitt Deloitte ehf. í gegnum Deloitte Nordic.

40. Fyrst verður leyst úr kröfu áfrýjanda um hlutdeild í eftirstæðum hagnaði stefnda vegna fyrrgreindra reikningsára. Meðal skjala málsins eru ódagsettar reglur stefnda ,,um hagnaðarskiptingu – einingakerfi“. Reglurnar kveða á um hvernig úthluta skuli hagnaðareiningum og er þar tekið fram að einingakerfið byggist í grunninn á því kerfi sem var í gildi árin 2005 til 2016, þó í samhengi við kerfi þau sem væru í gildi hjá Deloitte félögum á Norðurlöndunum. Segir í reglunum að stjórn geti lagt til að greiða ekki út allan hagnað sem úthlutað er samkvæmt þeim ,,og/eða halda eftir ákveðnu hlutfalli af úttekt allra hluthafa” í stefnda sem víkjandi láni. Í síðarnefnda tilvikinu greiðist höfuðstóll lánsins út þegar hluthafi selur hlut sinn í félaginu nema stjórn eða meðeigendafundur taki ákvörðun um að greiða höfuðstólinn fyrr. Þar segir jafnframt að tillögur stjórnar um að halda hagnaði eftir í félaginu sem höfuðstól eða arði sem víkjandi láni yrðu lagðar fram með hliðsjón af markmiðum stjórnar um eiginfjármyndun hjá félaginu.

41. Orðalag fyrrgreindra reglna gefur til kynna að stjórn félagsins sé ætlað tiltekið hlutverk við ákvörðun um hvort halda eigi eftir tilgreindu hlutfalli hagnaðar í stefnda sem víkjandi láni. Ekki liggur fyrir að stjórn hafi tekið slíka ákvörðun í skilningi fyrrgreindra reglna. Gögn málsins, þar á meðal fundargerð stjórnar 3. apríl 2017, benda auk þess til að stjórn hafi tekið frá 20 hundraðshluta hagnaðar hvers árs til að mæta útstreymi vegna breytinga á eigendahópi, sbr. grein 6.15 í hluthafasamningi frá 1. júní 2017. Þegar af þeirri ástæðu verður ekki fallist á kröfu áfrýjanda um hlutdeild í hagnaði sem haldið var eftir vegna reikningsáranna 2012-2013 til og með 2016-2017.

42. Þá verður jafnframt með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms, sem var skipaður sérfróðum meðdómsmanni, að sýkna stefnda af kröfu áfrýjanda um hlutdeild í fyrrgreindum fjárfestingarstyrk. Hefur ekkert komið fram í málinu sem hnekkt getur þeirri niðurstöðu hins áfrýjaða dóms að tekjufæra mætti styrkinn í stað þess að færa hann meðal langtímaskuldbindinga dótturfélagsins Deloitte ehf.

43. Samkvæmt því sem að framan er rakið verður stefndi sýknaður af kröfum áfrýjanda um frekari greiðslur vegna innlausnar á eignarhluta hans í stefnda.

Krafa um rétt til hagnaðarhlutdeildar

44. Áfrýjandi gerir kröfu um viðurkenningu á rétti til hagnaðar stefnda vegna hluta reikningsársins 2017-2018. Aðal- og varakrafa hans vegna hagnaðarhlutdeildar eru byggðar á lögum nr. 50/2007.

45. Með hliðsjón af því sem að framan er rakið fer um rétt áfrýjanda til hagnaðarhlutdeildar eftir þeim samningum sem tóku gildi 1. júní 2017 en ekki lögum nr. 50/2007. Samkvæmt því er aðal- og varakröfu vegna hagnaðarhlutdeildar hafnað.

46. Með þrautavara- og þrautaþrautavarakröfu krefst áfrýjandi viðurkenningar á 235/3975 hluta hagnaðar stefnda frá 1. júní 2017 til 31. maí 2018 í réttu hlutfalli við þann tíma sem hann var A-félagsmaður. Annars vegar tímabilið 1. júní 2017 til 1. janúar 2018 og hins vegar 1. júní til 1. nóvember 2017 og er þá jafnframt krafist viðurkenningar bótaskyldu stefnda þar sem innlausn hluta átti sér stað 1. nóvember 2017 í stað 1. janúar 2018. Er um þetta byggt á þeim samningum stefnda sem tóku gildi 1. júní 2017. Fallist er á niðurstöðu hins áfrýjaða dóms um að málsástæða áfrýjanda þar að lútandi fái komist að í málinu.

47. Óumdeilt er að með hluthafasamningi sem tók gildi 1. júní 2017 var félagsmönnum stefnda veittur réttur til hlutdeildar í arðgreiðslum á því ári sem þeir láta af störfum hjá stefnda ólíkt þeirri reglu sem gilti samkvæmt samkomulagi A-félagsmanna 14. nóvember 2013. Í hluthafasamningnum er fjallað um uppgjör hagnaðar áfrýjanda og kveðið á um að reikningsár samstæðunnar sé 1. júní til 31. maí. Stefndi fái hagnað einkahlutafélagsins sem síðan sé úthlutað til eigenda samkvæmt nánar tilgreindum reglum. Hagnaði er ekki skipt jafnt heldur tekur úthlutun mið af ákveðnum einingafjölda sem byggist meðal annars á forsendum um frammistöðu.

48. Í grein 5.2 segir að framkvæmd ákvörðunar um úthlutun hagnaðar af hálfu stefnda skuli vera í höndum stjórnar og árlegs aðalfundar stefnda eftir því sem við eigi en ákvörðun um hagnað fari alfarið eftir þeim reglum sem greini í NWE-sameignarfélagssamningum, sbr. grein 5.1. Stjórn þess félags taki ákvörðun hvort og hvernig úthluta skuli hagnaði í formi svonefndra NWE-eininga til félagsmanna en stjórn stefnda sé falið að framkvæma úthlutunina.

49. Í grein 5.3 hluthafasamningsins segir að þegar meðeigandi hefur ekki notið eignaraðildar allt síðastliðið reikningsár skuli útreikningi heildarþóknunar og hagnaðarhlutdeildar frá stefnda háttað eins og greinir í NWE-sameignarfélagssamningnum. Þá kemur fram í grein 12.1 í NWE-sameignarfélagssamningnum að hlutdeild meðeiganda í hagnaði NWE-samstæðunnar á tilteknu reikningsári skuli safnast upp á jafnan hátt á viðkomandi tímabili á daglegum grundvelli. Sé meðeigandi ekki eigandi allt reikningsárið skal hlutdeild hans í hagnaði að hámarki nema þeirri fjárhæð sem safnaðist upp þann hluta reikningsársins sem hann var meðeigandi.

50. Stefndi hefur vísað til fyrrgreindra ákvæða og byggir á að réttur áfrýjanda til hagnaðarhlutdeildar fyrir reikningsárið 2017–2018 geti ekki orðið til fyrr en stjórn Deloitte NWE veiti honum þann rétt í samræmi við NWE-sameignarfélagssamninginn en fyrir liggi að svo var ekki í tilviki áfrýjanda. Þá sé jafnframt liðinn sá 60 daga frestur sem eigandi hafi til að gera athugasemdir við úthlutun NWE-eininga, sbr. grein 11.8 í NWE-sameignarfélagssamningnum.

51. Hvað sem líður málatilbúnaði stefnda liggur fyrir að hann fylgdi ekki gagnvart áfrýjanda þeim reglum um hagnaðarúthlutun sem að framan eru raktar og fjallað er um í hluthafasamningi og NWE-sameignarfélagssamningi þar sem stjórn stefnda hefur nánar tilgreint hlutverk. Er þá meðal annars litið til þess að áfrýjandi bar í tvígang upp tillögu um úthlutun sér til handa vegna reikningsársins 2017-2018 á fundi eigenda stefnda þar sem tillagan var felld í fyrra skiptið og vísað frá í það seinna. Verður því ekki borið við nú af hálfu stefnda að krafa áfrýjanda hafi fallið niður fyrir tómlæti eða að henni sé beint að röngum aðila, en fyrir liggur jafnframt að stjórn stefnda hefði verið rétt að koma sjónarmiðum áfrýjanda á framfæri við stjórn Deloitte NWE, sbr. grein 11.6 NWE-sameignarfélagssamningsins. Þá er heldur ekki fallist á að réttur áfrýjanda til úthlutunar hagnaðar hafi fallið niður af öðrum ástæðum, enda verður honum ekki kennt um að stefndi hafi ekki fylgt þeim reglum sem fram koma í hluthafasamningi um arðsúthlutun til félagsmanna stefnda með því að sniðganga áfrýjanda.

52. Áfrýjandi krefst viðurkenningar á rétti til 235/3975 hlutdeildar í hagnaði stefnda reikningsárið 1. júní 2017 til 31. maí 2018 í réttu hlutfalli við þann tíma sem hann naut stöðu eiganda í stefnda frá 1. júní 2017 til 1. janúar 2018. Fyrrgreind hlutdeild mun samsvara þeim einingum sem áfrýjandi fékk á fyrra reikningsári en af hálfu stefnda hefur þeirri viðmiðun ekki verið mótmælt sérstaklega. Tímabilið miðast við þann sex mánaða uppsagnarfrest sem mælt er fyrir um í grein 6.18 í hluthafasamningi þó þannig að áfrýjandi hefur krafist þess að miðað verði við 1. janúar 2018. Verður fallist á framangreinda þrautavarakröfu áfrýjanda en ekkert liggur fyrir annað en að í viðurkenningarkröfu áfrýjanda felist að við framkvæmd útreiknings verði farið að gildandi reglum þar á meðal um frádrátt vegna annarra greiðslna.

53. Það athugast að fyrir munnlegan flutning málsins í Hæstarétti var því beint til lögmanna að leggja fram þýðingar þeirra skjala á íslensku sem þeir byggðu málatilbúnað sinn á, sbr. 10. gr. laga nr. 91/1991, en gögn málsins voru í verulegum mæli lögð fram á erlendu tungumáli án þess að þau hefðu verið þýdd á rétt þingmál, sbr. 1. og 3. mgr. fyrrnefnds ákvæðis. Er þetta aðfinnsluvert.

54. Eftir þessum úrslitum og með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefnda gert að greiða áfrýjanda hluta málskostnaðar hans á öllum dómstigum sem ákveðinn er í einu lagi eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Viðurkenndur er réttur áfrýjanda, Birkis Leóssonar, til 235/3975 hlutdeildar í hagnaði stefnda, D&T sf., reikningsárið 1. júní 2017 til 31. maí 2018 í réttu hlutfalli við þann tíma sem áfrýjandi naut réttinda sem eigandi í stefnda frá 1. júní 2017 til 1. janúar 2018.

Hinn áfrýjaði dómur skal að öðru leyti vera óraskaður um annað en málskostnað.

Stefndi greiði áfrýjanda samtals 1.500.000 krónur í málskostnað á öllum dómstigum.