Hæstiréttur íslands

Mál nr. 52/2024

Samskip hf. (Hörður Felix Harðarson lögmaður)
gegn
Samkeppniseftirlitinu (Gizur Bergsteinsson lögmaður)

Lykilorð

  • Samkeppni
  • Lögvarðir hagsmunir
  • Aðild
  • Stjórnvaldsákvörðun

Reifun

S hf. höfðaði mál á hendur SE til ógildingar á úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála í máli 1/2021 þar sem kæru S hf. var vísað frá áfrýjunarnefndinni. S hf. byggði kæru sína til nefndarinnar á því að með þeirri ákvörðun SE sem fólst í gerð sáttar SE og E hf. hefði E hf. meðal annars skuldbundið sig til þess að hætta viðskiptalegu sambandi við S hf. Hæstiréttur staðfesti niðurstöðu hins áfrýjaða dóms og taldi S hf. ekki njóta aðildar til að kæra umræddan hluta sáttar SE og E hf. til áfrýjunarnefndar samkeppnismála. Hæstiréttur tók fram að sáttir væru eitt af lögbundnum úrræðum samkeppnisyfirvalda við framkvæmd samkeppnislaga og að SE yrði að geta treyst því að sátt fæli í sér endanlegar lyktir máls gagnvart fyrirtæki og að það grípi til þeirra aðgerða sem það hefur skuldbundið sig til. Ekki væri unnt að skilja þessar skuldbindingar frá öðrum ákvæðum sáttar. Hins vegar gæti samningsfrelsi fyrirtækja sem gera sátt við SE ekki vikið til hliðar ófrávíkjanlegum réttarreglum. Sáttin haggaði þannig ekki lögbundnum skyldum E hf. samkvæmt 11. gr. samkeppnislaga um bann við misnotkun á markaðsráðandi stöðu. Þá væru S hf. tæk úrræði að lögum teldi hann E hf. brjóta gegn bannákvæðum samkeppnislaga.

Dómur Hæstaréttar

1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen, Sigurður Tómas Magnússon og Skúli Magnússon.

2. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 10. desember 2024. Hann krefst þess að úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála 2. desember 2021 í máli nr. 1/2021 verði felldur úr gildi og stefnda gert að greiða sér málskostnað á öllum dómstigum.

3. Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Ágreiningsefni

4. Aðilar málsins deila um hvort áfrýjandi geti með kæru til áfrýjunarnefndar samkeppnismála krafist ógildingar á 3. mgr. 3. gr. sáttar sem Eimskipafélag Íslands hf. og tengd félög (hér eftir nefnd Eimskip) gerðu við stefnda 16. júní 2021 vegna brota á 10. og 19. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005 og 53. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samningsins). Með því ákvæði sáttarinnar skuldbatt Eimskip sig meðal annars til að hætta viðskiptalegu samstarfi við áfrýjanda. Áfrýjunarnefndin vísaði kærunni frá með úrskurði 2. desember 2021 í máli nr. 1/2021 þar sem áfrýjandi teldist ekki hafa lögvarða hagsmuni af úrlausn þess. Um væri að ræða samráðsmál þar sem annar aðila hefði viðurkennt brot sitt en þætti áfrýjanda í sömu rannsókn væri ólokið.

5. Með héraðsdómi 18. nóvember 2022 var fallist á kröfu áfrýjanda um ógildingu úrskurðar áfrýjunarnefndar samkeppnismála. Með hinum áfrýjaða dómi var komist að öndverðri niðurstöðu.

6. Áfrýjunarleyfi var veitt 10. desember 2024, með ákvörðun Hæstaréttar nr. 2024-129, á þeim grunni að dómur í málinu gæti haft fordæmisgildi, einkum um réttaráhrif stjórnvaldssáttar á sviði samkeppnisréttar á þriðja aðila og möguleika hans á að bera gildi ákvæða í slíkri sátt sem kynnu að varða hagsmuni hans undir áfrýjunarnefnd samkeppnismála.

Málsatvik

7. Haustið 2013 hóf stefndi rannsókn á því hvort áfrýjandi og tengd félög annars vegar og Eimskip hins vegar hefðu haft með sér ólögmætt samráð á árunum 2008 til 2013 og þannig brotið gegn 10. gr. samkeppnislaga og 53. gr. EES-samningsins. Áður höfðu afmörkuð tilvik ætlaðs samráðs félaganna verið til rannsóknar. Hún tók til háttsemi fyrirtækjanna á mörkuðum fyrir sjóflutninga, landflutninga, flutningsmiðlun og tengda þjónustu. Þá voru einnig til rannsóknar ætluð brot gegn 19. gr. samkeppnislaga.

8. Stefndi sendi félögunum tvö andmælaskjöl. Í hinu fyrra, 6. júní 2018, var komist að þeirri frumniðurstöðu að félögin hefðu með nánar tilteknum hætti haft með sér samfellt og ólögmætt samráð á rannsóknartímabilinu og brotið gegn 10. gr. samkeppnislaga og 53. gr. EES-samningsins. Áfrýjandi og Eimskip tjáðu sig ekki um fyrra andmælaskjalið heldur báru því við að þau hygðust setja fram sjónarmið sín í heild sinni þegar seinna andmælaskjal stefnda lægi fyrir. Það skjal sendi stefndi 13. desember 2019 og veitti félögunum frest til 1. apríl 2020 til að koma á framfæri athugasemdum. Þar kom fram að frummat stefnda væri óbreytt. Til álita kæmi einnig að beita heimild 16. gr. samkeppnislaga og beina fyrirmælum eða skilyrðum til áfrýjanda og Eimskips til að bregðast við ætluðum brotum. Þá var félögunum einnig gefinn kostur á að tjá sig um þörf á slíkum skilyrðum eða fyrirmælum svo og um efni þeirra.

9. Athugasemdir áfrýjanda við andmælaskjölin bárust stefnda í þrennu lagi. Hinn 12. júní 2020 við fyrri hluta andmælaskjalsins, 19. sama mánaðar við síðari hluta þess og 31. ágúst sama ár við efnisþátt málsins ásamt athugasemdum við málsmeðferð og ályktanir um ætluð brot gegn 19. gr. samkeppnislaga og XV. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þar var meðal annars eindregið hafnað því frummati stefnda að fyrirtækið hefði brotið gegn 10. gr. samkeppnislaga og 53. gr. EES-samningsins.

10. Sumarið 2021 óskaði Eimskip eftir viðræðum við stefnda um hvort unnt væri að ljúka málinu með sátt. Þær leiddu til undirritunar sáttar milli Eimskips og Samkeppniseftirlitsins 16. júní 2021 þar sem félagið viðurkenndi brot gegn 10. og 19. gr. samkeppnislaga og 53. gr. EES-samningsins með því að hafa viðhaft ólögmætt samráð af ýmsu tagi við áfrýjanda um árabil á mörkuðum fyrir sjóflutninga, landflutninga, flutningsmiðlun og tengda þjónustu og að hafa ekki veitt nauðsynlegar eða réttar upplýsingar eða afhent gögn í þágu rannsóknar stefnda.

11. Í sáttinni fólst einnig að Eimskip skuldbatt sig með 3. mgr. 3. gr. hennar til að grípa til tiltekinna aðgerða til að vinna gegn frekari brotum og stuðla að aukinni samkeppni, yfirfara alla samninga sína við önnur fyrirtæki í flutningaþjónustu til að tryggja að þeir væru í samræmi við samkeppnislög og hætta öllu viðskiptalegu samstarfi við áfrýjanda svo og önnur fyrirtæki í hvers konar flutningaþjónustu ef áfrýjandi ætti í samstarfi við þau. Þetta skyldi þó ekki gilda ef Eimskip gæti sýnt stefnda fram á að eðli viðkomandi samstarfs væri með þeim hætti að ekki væri hætta á röskun á samkeppni milli Eimskips og áfrýjanda. Til viðbótar féllst Eimskip á að greiða einn og hálfan milljarð króna í stjórnvaldssekt. Með undirritun sáttarinnar lauk málinu gagnvart Eimskipi.

12. Áfrýjandi kærði 13. júlí 2021 til áfrýjunarnefndar samkeppnismála þá ákvörðun stefnda 16. júní 2021 sem fólst í gerð sáttarinnar við Eimskip. Var þess krafist að fyrrgreind 3. mgr. 3. gr. hennar yrði felld úr gildi. Svo sem áður greinir vísaði áfrýjunarnefndin kærunni frá með úrskurði 2. desember 2021 í máli nr. 1/2021. Áfrýjandi höfðaði mál þetta í kjölfarið.

13. Í júní og júlí 2021 fóru fram viðræður milli áfrýjanda og stefnda og á fundi 6. júlí féllst stefndi á ósk áfrýjanda um að hefja formlegar sáttaviðræður. Þeim var slitið 26. sama mánaðar. Rannsókn stefnda á ætluðum brotum áfrýjanda sætti áframhaldandi stjórnsýslumeðferð sem lauk með ákvörðun stefnda 8. september 2023 í máli nr. 33/2023. Þar var Samskipum Holding BV og áfrýjanda gert að greiða óskipt fjóra milljarða króna í stjórnvaldssekt vegna brota gegn 10. gr. samkeppnislaga og 1. mgr. 53. gr. EES-samningsins og 200 milljónir króna í stjórnvaldssekt vegna brota gegn 19. gr. samkeppnislaga. Þá hafði grein 5.2 í ákvörðuninni að geyma nánar tilgreind fyrirmæli til stefnda, samhljóða fyrirmælum í áðurnefndri 3. mgr. 3. gr. sáttar Eimskips og stefnda. Áfrýjandi skaut málinu til áfrýjunarnefndar samkeppnismála sem í úrskurði 19. mars 2025 í máli nr. 7/2023 gerði áfrýjanda að greiða 2,3 milljarða króna sekt vegna brota gegn 10. gr. samkeppnislaga og 1. mgr. 53. gr. EES-samningsins, svo og 100 milljóna króna sekt vegna brota gegn 19. gr. laganna.

14. Eftir að ákvörðun stefnda nr. 33/2023 lá fyrir hefur áfrýjandi verið í samskiptum við hann og óskað eftir skýringum og leiðbeiningum. Hefur áfrýjandi einkum kallað eftir nánari skýringum á fyrirmælum í grein 5.2 en greinin er eins og áður segir samhljóða 3. mgr. 3. gr. sáttar Eimskips við stefnda.

Málsástæður

Helstu málsástæður áfrýjanda

15. Áfrýjandi byggir á að hann eigi lögvarinna hagsmuna að gæta af því að geta látið reyna á lögmæti 3. mgr. 3. gr. sáttar stefnda og Eimskips með kæru til áfrýjunarnefndar samkeppnismála. Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. samkeppnislaga sæti ákvarðanir stefnda kæru til nefndarinnar. Þar sé ekki skilgreint hverjir geti átt kæruaðild og hinu sama gegni um stjórnsýslulög. Það ráðist því af mati á hagsmunum hverju sinni hvort viðkomandi teljist eiga lögvarinna hagsmuna að gæta af úrlausn máls en niðurstaðan þurfi að varða hann sérstaklega og verulega og aðgreina hann með þeim hætti frá öðrum. Þá hafi fyrirtækjum verið játuð víðtæk kæruaðild í samkeppnismálum, einkum þegar í hlut hafi átt fyrirtæki á sama markaði, sbr. dóm Hæstaréttar 19. júní 2003 í máli nr. 83/2003.

16. Áfrýjandi hafi einstaklega, beina og lögvarða hagsmuni af úrlausn um hvort 3. mgr. 3. gr. sáttarinnar standist lög enda hafi hún að geyma skilyrði sem lúti með beinum hætti að samnings- og atvinnufrelsi hans. Áfrýjandi sé helsti keppinautur Eimskips á þeim mörkuðum sem sáttin taki til sem séu fákeppnismarkaðir þar sem Eimskip hafi mjög sterka stöðu. Í skilyrðum sáttarinnar felist ekki eingöngu niðurstaða um að Eimskip láti af ætlaðri ólögmætri háttsemi heldur sé lagt bann við því að félagið eigi í hvers kyns viðskiptum við áfrýjanda að viðlögðum sektum. Áfrýjandi hafi einnig verulega samkeppnisréttarlega hagsmuni af því að fá úr því skorið hvort 3. mgr. 3. gr. sáttarinnar samræmist markmiðum og efni samkeppnislaga og stjórnsýsluréttar. Það leiði ekki af 10. gr. samkeppnislaga að hvers kyns viðskipti milli keppinauta séu ólögmæt. Eimskip sé í einstakri yfirburðarstöðu og með synjun þess á beiðni um þjónustu geti falist mikil aðgangshindrun að markaði og tjón fyrir keppinauta sem geti verið í andstöðu við 11. gr. samkeppnislaga. Eimskipi sé samkvæmt sáttinni skylt að synja áfrýjanda um hvers kyns viðskipti eða þjónustu einungis með þeirri undantekningu að Eimskip sannfæri stefnda um að viðskipti séu ekki til þess fallin að raska samkeppni. Það skilyrði sáttarinnar sé hvorki í samræmi við 10. né 11. gr. samkeppnislaga.

17. Áfrýjandi telur það ekki hafa úrslitaþýðingu þótt hann hafi ekki verið beinn aðili að sáttinni og að hún teljist ekki formlega skuldbindandi fyrir hann. Afleiðingar skilyrðanna séu þær sömu og ef þeim væri beint að áfrýjanda enda sé hann sérstaklega tilgreindur í 3. mgr. 3. gr. sáttarinnar auk þeirra flutningafyrirtækja sem hann sé í viðskiptum við. Sátt Eimskips og stefnda feli í sér bindandi og endanlega ákvörðun sem ekki komi til endurskoðunar í sama stjórnsýslumáli að því er lýtur að þætti áfrýjanda. Meðferð þess stjórnsýslumáls sem leiddi til ákvörðunar nr. 33/2023 í máli áfrýjanda skipti engu máli í þessu tilliti enda breyti niðurstaða þess ekki fyrrgreindum skilyrðum í sátt stefnda og Eimskips.

18. Áfrýjandi byggir einnig á að með hinum áfrýjaða dómi hafi stjórnarskrárvarin réttindi hans verið skert. Í 3. mgr. 3. gr. sáttarinnar felist skerðing á atvinnufrelsi hans, sbr. 75. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Þá beri að túlka samkeppnislög í samræmi við EES-rétt, sbr. 3. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið sem og dómaframkvæmd EFTA-dómstólsins og Evrópudómstólsins. Til viðbótar leiði af 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 2. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. samnefnd lög nr. 62/1994, að áfrýjandi teljist saklaus af ávirðingum stefnda um ætluð brot uns sekt hans hafi verið sönnuð með endanlegum dómi. Ólíkt Eimskipi hafi áfrýjandi ekki viðurkennt sök enda ávirðingar á hendur honum rangar. Hann eigi skilyrðislausan rétt til að höfða mál fyrir dómstólum til ógildingar á úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála. Þá hafi birting heitis áfrýjanda í sáttinni 16. júní 2021 falið í sér bindandi og endanlega stjórnvaldsákvörðun sem tekið hafi með beinum hætti til áfrýjanda og hafi haft takmarkandi áhrif á starfsemi hans og atvinnufrelsi þótt hann stæði utan sáttarinnar.

Helstu málsástæður stefnda

19. Stefndi byggir á því að áfrýjandi hafi ekki lögvarinna hagsmuna að gæta af því að fá úrlausn áfrýjunarnefndar samkeppnismála um þær skuldbindingar sem Eimskip bauð fram í sáttinni 16. júní 2021. Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. f samkeppnislaga sé stefnda heimilt með samþykki málsaðila að ljúka máli með sátt hafi hann gerst brotlegur við ákvæði laganna. Samkvæmt ákvæðinu getur fyrirtæki viðurkennt brot, samþykkt að greiða sekt og skuldbundið sig til að grípa til aðgerða til að uppræta ólögmætt samráð og efla samkeppni. Slíkar skuldbindingar séu því þýðingarmiklar og þótt þær geti haft áhrif á hagsmuni keppinautar í ólögmætu samráði sem enn sé til rannsóknar eigi hann ekki rétt á að tjá sig um þær við gerð sáttar sem hann sé ekki aðili að.

20. Ákvæði 3. mgr. 3. gr. sáttar Eimskips og stefnda 16. júní 2021 hafi að geyma skuldbindingar sem fyrirtækið hafi boðið fram að eigin frumkvæði í því skyni að koma í veg fyrir frekari brot og stuðla að aukinni samkeppni. Til viðbótar sé þar gerður sá fyrirvari að þau eigi ekki við þegar ekki er talin hætta á að samstarf fyrirtækja raski samkeppni. Áfrýjandi hafi einnig átt þess kost að tjá sig um möguleg fyrirmæli sem kæmu til álita að beina til samráðsfyrirtækjanna til að tryggja samkeppni á grundvelli 16. gr. samkeppnislaga en ekki gert það. Hvati fyrirtækis til að viðurkenna ólögmætt samráð yrði auk þess að engu ef önnur samráðsfyrirtæki gætu kært ákvæði sáttar um skuldbindingu um að eiga ekki í viðskiptalegu samstarfi við önnur samráðsfyrirtæki. Þá verði að meta sáttaumleitanir fyrirtækis með heildstæðum hætti. Skuldbindingar sem þau bjóði fram í því skyni að koma í veg fyrir frekari brot og stuðla að aukinni samkeppni verði ekki slitnar frá öðrum ákvæðum sáttar. Stefndi verði að geta treyst því að fyrirtæki grípi til þeirra aðgerða sem það hafi skuldbundið sig til með gerð sáttar.

21. Áfrýjandi eigi jafnframt enga hagsmuni af því að skorið sé úr um hvort 3. mgr. 3. gr. sáttarinnar samræmist markmiðum og efni samkeppnislaga eða efnisreglum stjórnsýsluréttar. Það sé eðli sáttar að með henni takist viðkomandi fyrirtæki á hendur ákveðnar skuldbindingar óháð bannreglum samkeppnislaga og því sé með sáttinni bönnuð ýmis háttsemi sem ella hefði verið heimil, sbr. dóm Hæstaréttar 10. september 2015 í máli nr. 28/2015. Þá geti sátt tekið til athafna fyrirtækis sem ekki sé aðili að henni, sbr. dóm Hæstaréttar 27. nóvember 2014 í máli nr. 112/2014. Ekki skipti máli þótt áfrýjandi telji Eimskip vera sinn helsta keppinaut á markaði sem kunni að teljast fákeppnismarkaður. Þótt keppinautum samrunaaðila sé í ákveðnum tilvikum heimilt að kæra ákvæði sáttar sem samrunaaðilar geri við stefnda sé slík heimild ekki fyrir hendi þegar um sé að ræða einhliða skuldbindingar fyrirtækja í sátt sem gerð sé í tilefni af rannsókn stefnda í samráðsmáli. Auk þess víki skuldbindingar Eimskips í sáttinni ekki til hliðar þeim lagaskyldum sem hvíli á fyrirtækinu samkvæmt 10. og 11. gr. samkeppnislaga.

22. Þá byggir stefndi á því að málsástæður áfrýjanda um ætlað brot á atvinnufrelsi hans samkvæmt 75. gr., réttindum hans samkvæmt 70. gr. stjórnarskrárinnar, svo og 2. mgr. 6. mgr. mannréttindasáttmála Evrópu séu þýðingarlausar. Loks séu heimildir framkvæmdastjórnar ESB annars vegar og stefnda hins vegar til að gera sátt í máli þar sem til rannsóknar sé ólögmætt samráð fyrirtækja gjörólíkar og því sé takmarkaða leiðsögn að finna í EES-rétti.

Niðurstaða

23. Í máli þessu reynir á hvort fyrirtæki sem er til rannsóknar stefnda vegna ætlaðs samráðsbrots sé heimilt á grundvelli 1. mgr. 9. gr. samkeppnislaga að kæra tiltekið ákvæði sáttar sem gerð er við annað fyrirtæki sem er til rannsóknar í sama máli. Byggir áfrýjandi á að honum sé heimilt að kæra sátt Eimskips til áfrýjunarnefndar samkeppnismála að því leyti sem sáttin varði hagsmuni hans.

24. Sáttaúrræði kom inn í samkeppnislög með lögum nr. 52/2007 en fyrir þann tíma hafði því verið beitt á grundvelli reglna stefnda um málsmeðferð nr. 880/2005. Í greinargerð með frumvarpi til fyrrgreindra laga var tekið fram að sáttir væru ekki einhliða ákvarðanir stjórnvalds heldur kæmu málsaðilar einnig að þeim. Því væri sátt bindandi fyrir aðila þegar hann hefði samþykkt hana og staðfest efni hennar með undirskrift sinni. Með 8. gr. laga nr. 103/2020 komst sáttaákvæði 17. gr. f samkeppnislaga í núverandi horf þegar bætt var við það tveimur málsgreinum. Í greinargerð með frumvarpi að lögunum var áréttað að sátt væri bindandi fyrir málsaðila þegar hann hefði samþykkt og staðfest efni hennar með undirskrift sinni. Á sama hátt væri sátt bindandi fyrir stefnda enda væri hún stjórnvaldsákvörðun í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Henni yrði aðeins breytt á grundvelli reglna stjórnsýsluréttar um afturköllun ákvörðunar, endurupptöku máls eða sérstakra lagaheimilda.

25. Í gerð sáttar á grundvelli samkeppnislaga felst samkvæmt framansögðu að stefndi og fyrirtæki eru sammála um að nánar tiltekin fyrirmæli séu til þess fallin að leysa það samkeppnisréttarlega álitamál sem er fyrir hendi, svo sem vegna ætlaðs brots gegn bannreglum samkeppnislaga. Með sátt má þannig koma í veg fyrir tiltekna samkeppnishamlandi háttsemi fyrirtækis framvegis auk þess sem brot á sátt getur orðið sjálfstætt tilefni álagningar stjórnvaldssektar, sbr. h-lið 1. mgr. 37. gr. samkeppnislaga. Af þessu leiðir að sátt telst bindandi fyrir aðila hennar og felur í sér endanlegar lyktir máls fyrir þá. Þetta er þó ekki því til fyrirstöðu að aðili skjóti til dómstóla ágreiningi um nánari túlkun þeirra skuldbindinga sem í henni felast eða ætluð brot hans gegn sátt, sbr. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar 26. febrúar 2025 í máli nr. 25/2024 og 10. september 2015 í máli nr. 28/2015.

26. Ekki er til einhlítur mælikvarði um hverjir eigi aðild að stjórnsýslumáli. Í máli þessu reynir í fyrsta sinn á það álitaefni hvort fyrirtæki sem var þátttakandi í ætluðu ólögmætu samráði geti kært til áfrýjunarnefndar samkeppnismála hluta sáttar annars fyrirtækis í sömu rannsókn sem hefur gengist við samráðsbroti og gert sátt við stefnda í því skyni að ljúka rannsókn hvað sig varðar.

27. Samkvæmt grein 2.1 núgildandi leiðbeininga um málsmeðferð fyrir áfrýjunarnefnd samkeppnismála 12. apríl 2022 hafa þeir heimild til að skjóta málum til nefndarinnar sem ákvarðanir stefnda samkvæmt samkeppnislögum eða reglum settum samkvæmt þeim beinast að eða hafa aðra lögvarða hagsmuni af úrlausn máls. Þá hefur almennt verið talið að skýra eigi aðildarhugtak stjórnsýsluréttar rúmt þannig að ekki sé einungis átt við þá sem eiga beina aðild að máli heldur einnig þá sem hafa óbeinna hagsmuna að gæta, sbr. til dæmis dóm Hæstaréttar 19. júní 2003 í máli nr. 83/2003. Einnig liggur fyrir að áfrýjunarnefnd samkeppnismála hefur í framkvæmd sinni fallist á aðild fyrirtækis fyrir nefndinni ef það starfar á sama markaði og annað fyrirtæki í málum um samruna eða vegna misnotkunar á markaðsráðandi stöðu.

28. Meðan rannsókn stefnda á ætluðu samráði áfrýjanda og Eimskips stóð yfir viðurkenndi Eimskip sem fyrr segir brot sín og gerði sátt við stefnda 16. júní 2021. Á því hafði félagið forræði og var hún bindandi fyrir það eins og jafnframt kemur skýrt fram í sáttinni. Þá liggur fyrir að bæði áfrýjandi og Eimskip höfðu stöðu aðila við rannsókn á ætluðu samráði þessara fyrirtækja. Við áframhaldandi rannsókn stefnda á ætluðum brotum áfrýjanda gafst honum auk þess kostur á að koma á framfæri andmælum við fyrirhugaðar aðgerðir á grundvelli 16. gr. samkeppnislaga. Rannsókninni lauk með ákvörðun nr. 33/2023 í máli áfrýjanda þar sem sett voru hliðstæð fyrirmæli og þau sem er að finna í 3. mgr. 3. gr. sáttar Eimskips. Voru þau fyrirmæli staðfest með úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála 19. mars 2025 í máli áfrýjanda nr. 7/2023.

29. Áfrýjandi hefur byggt á því að ákvæði 3. mgr. 3. gr. sáttar Eimskips varði hann sérstaklega. Hann hefur þó ekki haldið því fram að Eimskipi eða öðrum sem þetta ákvæði sáttarinnar tekur til sé almennt skylt að eiga við hann viðskipti heldur vísað til þess að Eimskip geti í skjóli hennar neitað honum um viðskipti á mörkuðum þar sem fyrirtækið sé með yfirburða- eða einokunarstöðu. Slík neitun geti falið í sér brot gegn samkeppnislögum, einkum 11. gr. laganna.

30. Við gerð sáttar samkvæmt 17. gr. f samkeppnislaga er stefndi meðal annars bundinn af lögmætisreglu stjórnsýsluréttar. Þá er til þess að líta að sáttir eru eitt af lögbundnum úrræðum samkeppnisyfirvalda við framkvæmd samkeppnislaga. Verður stefndi að geta treyst því að sátt vegna samráðs feli í sér endanlegar lyktir máls gagnvart fyrirtæki og það grípi til þeirra aðgerða sem það hefur skuldbundið sig til. Þær skuldbindingar sem fyrirtæki gengst þannig undir til að koma í veg fyrir frekari brot og stuðla að virkri samkeppni verða því að jafnaði ekki skildar frá öðrum ákvæðum sáttar. Hins vegar getur samningsfrelsi fyrirtækja sem stefndi gerir sátt við ekki náð til þess að vikið sé frá ófrávíkjanlegum réttarreglum. Eins og staðfest hefur verið af stefnda getur sáttin 16. júní 2021 því ekki haggað lögbundnum skyldum Eimskips á grundvelli bannreglna samkeppnislaga, svo sem 11. gr. laganna um misnotkun á markaðsráðandi stöðu. Til þess er jafnframt að líta að í máli þessu eru ekki til úrlausnar hugsanleg brot Eimskips gegn fyrrgreindu ákvæði í skjóli umræddrar sáttar.

31. Að framangreindu virtu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms er fallist á með stefnda að áfrýjandi njóti ekki aðildar til að kæra umræddan hluta sáttar Eimskips til áfrýjunarnefndar samkeppnismála. Sú niðurstaða kemur þó ekki í veg fyrir að hann geti beint kvörtun til stefnda telji hann Eimskip brjóta gegn bannákvæðum samkeppnislaga í ákveðnum tilvikum eða vegna annarra atriða sem þeim kunna að tengjast. Eru honum þá tæk úrræði að lögum til að beina kvörtun til stefnda og eftir atvikum skjóta ákvörðun hans þar að lútandi til áfrýjunarnefndar samkeppnismála.

32. Samkvæmt framansögðu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur.

33. Með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 er rétt að hvor málsaðili beri sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur er staðfestur.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.