Hæstiréttur íslands
Mál nr. 46/2024
Lykilorð
- Líkamstjón
- Skaðabætur
- Viðurkenningarkrafa
- Fasteign
- Ábyrgðartrygging
- Sönnun
- Sératkvæði
Reifun
Dómur Hæstaréttar
1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen, Karl Axelsson og Sigurður Tómas Magnússon.
2. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 25. október 2024. Hann krefst þess að viðurkennd verði óskipt bótaskylda stefndu vegna líkamstjóns sem hann varð fyrir 5. mars 2018 í slysi á lóð stefndu Heklu hf. Þá krefst hann þess að stefndu verði óskipt gert að greiða sér málskostnað á öllum dómstigum.
3. Stefndu krefjast aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Til vara er þess krafist að viðurkenningarkrafa áfrýjanda verði einungis tekin til greina að hluta og málskostnaður fyrir Hæstarétti látinn falla niður.
4. Dómarar gengu á vettvang 18. mars 2025.
Ágreiningsefni
5. Aðila greinir á um hvort stefndu beri bótaábyrgð á ætluðu tjóni áfrýjanda af völdum slyss sem hann varð fyrir á göngu um athafnasvæði stefndu Heklu hf. Nánar tiltekið voru atvik með þeim hætti að slá í sjálfvirku hliði sem ætlað var að takmarka umferð ökutækja fór niður úr lóðréttri stöðu og lenti á höfði áfrýjanda í þann mund sem hann gekk í gegnum það. Þá er deilt um ábyrgð áfrýjanda sjálfs á því að umrætt slys varð. Loks er ágreiningur um hvort áfrýjandi hafi við þingfestingu málsins gert nægilega líklegt að hann hafi orðið fyrir tjóni sem rekja megi til slyssins og hafi þannig lögvarða hagsmuni af því að höfða viðurkenningarmál.
6. Fallist var á viðurkenningarkröfu áfrýjanda á hendur stefndu með héraðsdómi sem skipaður var sérfróðum meðdómsmönnum. Meðstefndu í héraði, Securitas ehf. og tryggingafélag öryggisfyrirtækisins, voru hins vegar sýknaðir og undi áfrýjandi þeirri niðurstöðu. Með hinum áfrýjaða dómi, sem skipaður var sérfróðum meðdómsmanni, voru stefndu einnig sýknaðir af kröfu áfrýjanda.
7. Áfrýjunarleyfi var veitt 24. október 2024, með ákvörðun Hæstaréttar nr. 2024-109, á þeim grunni að úrslit málsins gætu haft verulegt almennt gildi um efnisatriði þess.
Málsatvik
8. Mál þetta á rætur að rekja til þess að áfrýjandi kom 5. mars 2018 um klukkan 17.48 gangandi frá Brautarholti í Reykjavík að fasteign stefndu Heklu hf. við Laugaveg. Hann gekk um akstursleið sem liggur að verkstæðisinngangi á baklóð og áfram austur með því en þaðan til norðurs að inngangsdyrum við Laugaveg. Á umræddri leið var sjálfvirkt hlið sem ætlað var að hindra gegnumakstur um svæðið. Sláin í hliðinu var uppi þegar áfrýjandi kom gangandi að því. Þegar hann nálgaðist hliðið byrjaði sláin að fara niður og lenti á höfði hans í þann mund er hann fór um það.
9. Áfrýjandi mun í kjölfarið hafa farið með leigubifreið á bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi en samkvæmt læknisvottorði var hann kominn þangað klukkan 18.03. Hann var þá með svima og ógleði og kastaði upp. Hann lýsti jafnframt dofa í vinstri hluta andlits. Kúla sást ofan á höfði hans framan til og svolítil bólga og eymsli við þreifingu undir vinstra auga yfir kinnboga þeim megin. Hann var greindur með heilahristing en rannsóknir leiddu hvorki í ljós beináverka né blæðingu innan höfuðkúpu. Við endurkomu 20. mars 2018 greindi hann frá því að flest einkenni væru að hverfa hægt og rólega en hann væri áfram með höfuðverk vinstra megin og meðal annars þrýsting í eyrum. Hann nefndi einnig breytingar á sjónsviði, svima og jafnvægisleysi.
10. Í málinu liggur fyrir vottorð yfirlæknis á endurhæfingardeild Landspítalans 10. nóvember 2021 þar sem segir að áfrýjandi hafi gengist undir mat og meðferð hjá lækni á göngudeild Grensásdeildar. Hann hafi við slysið fengið heilahristing og glímt við nokkuð langvinn einkenni. Hann hafði þá ekki komið þangað síðan í nóvember 2019. Vottorðinu fylgdu göngudeildarnótur 19. júní og 30. október 2018 og 19. nóvember 2019. Samkvæmt þeim var áfrýjandi greindur með eftirheilahristingsheilkenni. Þar var jafnframt lýst sjúkrasögu hans, einkennum, áhrifum á daglegt líf, skoðun lækna svo og áætlunum og ráðleggingum þeirra.
11. Umrætt hlið var keypt, sett upp og virkjað árið 2015 af Securitas hf. sem sér um öryggismál á athafnasvæði stefndu Heklu hf. Hliðið er með svokallaða CE-vottun um að það standist grunnkröfur samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/42/EB um vélbúnað.
12. Áfrýjandi leitaði tveimur dögum eftir slysið til gæðastjóra stefndu Heklu hf. og fékk að skoða myndskeið úr eftirlitsmyndavél sem sýndi tildrög þess. Áfrýjandi tók upp á síma hluta af myndskeiðinu og er upptakan meðal gagna málsins.
13. Stefnda Hekla hf. var með ábyrgðartryggingu hjá Vátryggingafélagi Íslands hf. þegar slysið varð. Lögmaður áfrýjanda krafðist þess 13. júní 2018 að vátryggingafélagið viðurkenndi bótaskyldu en þeirri kröfu var hafnað 10. janúar 2019.
14. Málið var upphaflega höfðað á hendur Heklu hf. og Vátryggingafélagi Íslands hf. Vátryggingastarfsemi tryggingafélagsins færðist til VÍS trygginga hf. 1. janúar 2025 með leyfi Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands. Tók síðargreinda félagið þá við öllum réttindum og skyldum þess fyrra. Til samræmis við það hefur aðild málsins varnarmegin fyrir Hæstarétti verið breytt þannig að VÍS tryggingar hf. koma í stað Vátryggingafélags Íslands hf.
Málsástæður
Helstu málsástæður áfrýjanda
15. Áfrýjandi byggir á því að öll skilyrði fyrir öflun viðurkenningardóms um bótaskyldu stefndu séu uppfyllt. Tjón hans sé afleiðing af saknæmri og ólögmætri háttsemi stefndu Heklu hf. og starfsmanna félagsins sem vanrækt hafi að tryggja fullnægjandi öryggi hliðsins og umhverfi þess. Það hafi ekki uppfyllt öryggiskröfur sem gera verði á svæði þar sem búast megi við umferð gangandi fólks. Ekki hafi verið fyrir hendi fullnægjandi viðvaranir eða aðrar ráðstafanir gerðar til að koma í veg fyrir slys. Um bótaskyldu stefndu vísar áfrýjandi til almennu skaðabótareglunnar og reglna um skaðabótaábyrgð fasteignareigenda.
16. Áfrýjandi bendir á að beita beri ströngu sakarmati um ábyrgð fyrirtækja í atvinnurekstri sem laði til sín fólk og reki búnað sem sé hættulegur en engu að síður notaður á svæði þar sem gera megi ráð fyrir umferð viðskiptavina og annarra gangandi vegfarenda. Ríkastar kröfur um aðstæður og búnað innan húss og utan verði að gera til þeirra sem eigi eða hafi umráð yfir fasteignum sem nýttar séu til verslunar- eða þjónustustarfsemi. Á þeim hvíli rík aðgæslu- og athafnaskylda og þeim beri að haga útbúnaði sem tengist fasteigninni, svo sem á lóð hennar, með þeim hætti að hann skapi ekki hættu fyrir gangandi vegfarendur sem eigi erindi á fasteignina eða leið um hana.
17. Áfrýjandi hafi ætlað að sækja sér þjónustu hjá stefndu Heklu hf. og nýtt sér eðlilega umferðarleið fyrir gangandi vegfarendur. Engar viðvaranir hafi verið við hliðið. Sláin hafi verið uppi þegar hann hafi komið að því og í þeirri stöðu hafi hún í engu verið frábrugðin fjölda nálægra fánastanga. Sláin hafi verið lengi uppi í senn. Áfrýjandi telur að stefndu Heklu hf. hefði verið í lófa lagið að setja upp varúðarskilti eða gera aðrar ráðstafanir sem komið hefðu í veg fyrir slysið. Það hafi stefnda raunar gert eftir slysið.
18. Í lögum og reglugerðum sé að finna ýmsar öryggiskröfur sem gerðar séu til eigenda lóða og mannvirkja. Vísar áfrýjandi sérstaklega til laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum sem hann telur einnig eiga við um svæði sem almenningur venji komur sínar á. Þá vísar hann til 4. gr. reglugerðar nr. 1005/2009 um vélar og tæknilegan búnað svo og I. viðauka hennar. Jafnframt vísar hann til 9. gr. reglna og leiðbeininga Vinnueftirlitsins nr. 492/1987 um öryggisbúnað véla. Loks vísar hann til greina 6.2.2, 7.1.1, 12.1.1 og 12.10.3 í byggingarreglugerð nr. 112/2012.
Helstu málsástæður stefndu
19. Stefndu telja að áfrýjandi hafi ekki gert nægilega líklegt að hann hafi orðið fyrir tjóni vegna umrædds óhapps. Því sé ekki fullnægt áskilnaði 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um að hann hafi lögvarða hagsmuni af því að leita viðurkenningardóms. Í stefnu hafi ætluðu líkamstjóni áfrýjanda ekki verið lýst og ekki tiltekið hverjar afleiðingar slyssins hafi verið. Þá hafi læknisfræðileg gögn sem lögð hafi verið fram við þingfestingu ekki varpað ljósi á afleiðingar slyssins með réttum hætti. Stefndu telja að með síðar framlögðum gögnum þar um hafi grundvöllur málatilbúnaðar áfrýjanda tekið miklum breytingum en það hafi gert þeim erfitt um vik að taka til varna með markvissum hætti.
20. Stefndu telja að gera verði greinarmun á svæðum sem viðskiptavinir eru sérstaklega boðnir á og svæðum sem gera megi ráð fyrir að einhverjir muni fara um þótt þeir eigi ekki beint erindi. Þá verði kröfur til ráðstafana og öryggis að taka mið af aðstæðum. Stefndu vísa til þess að sönnunarbyrði um saknæmar aðstæður hvíli á áfrýjanda. Það eigi ekki að hafa áhrif á sönnunarbyrði þótt fallist verði á að sakarmat sé strangt þegar um sé að ræða eiganda atvinnuhúsnæðis sem bjóði þangað viðskiptavinum. Áfrýjandi verði að bera halla af skorti á sönnun um virkni hliðsins en honum hafi verið í lófa lagið að afla matsgerðar eða annarra tiltækra gagna um það. Hliðið sé enn til staðar og stillingum þess hafi ekki verið breytt.
21. Stefndu telja að áfrýjandi hafi ekki axlað þá sönnunarbyrði sem á honum hvíli. Gögn sem hann hafi lagt fram um önnur sjálfvirk hlið feli ekki í sér sönnun um að umrætt hlið hafi verið ranglega stillt, vanvirkt eða óvenjulega hættulegt. Þá hafi ekki verið hlutverk sérfróðra meðdómsmanna í héraði og Landsrétti að rannsaka aðstæður eða leggja mat á búnað sem engin gögn hafi legið fyrir um. Í því ljósi mótmæla stefndu sérstaklega lýsingu á aðstæðum og tillögum að mögulegum úrbótum sem komið hafi fram í rökstuðningi fyrir niðurstöðu héraðsdóms.
22. Stefndu telja að áfrýjandi hafi ekki sýnt fram á að hliðið og virkni þess hafi brotið í bága við skráðar hátternisreglur. Því verði að ganga út frá að háttsemi stefndu Heklu hf. hafi ekki verið saknæm. Þá hafi háttsemin ekki verið saknæm samkvæmt viðmiðum sem eigi við þegar skráðra hátternisreglna njóti ekki við. Stefnda Hekla hf. hafi mátt ætla að hliðið væri öruggt þar sem það hafi verið CE-merkt, keypt af viðurkenndum sérfræðingum í öryggismálum og búið tvöföldum öryggisbúnaði. Auk þess hafi aldrei áður orðið slys á fólki við hliðið og ekkert bent til þess að búast mætti við slysum.
23. Stefndu benda á að engin augljós hætta hafi stafað af hliðinu. Ósannað sé að það hafi lokast óvenjulega hratt eða verið óvenju lengi uppi. Hvorki seljandi né framleiðandi hliðsins hafi ráðlagt frekari búnað en þann sem verið hafi til staðar. Þá telja stefndu að viðvörunarskiltum sé aðeins ætlað að vekja athygli á hættu sem ekki blasi við. Hliðið hafi verið málað rautt og hvítt í varúðarskyni og engum hefði átt að dyljast tilvist þess og að það gæti lokast hvenær sem væri. Ósannað sé og ólíklegt að viðvörunarskilti hefðu komið í veg fyrir slysið.
24. Stefndu byggja sýknukröfu og kröfu um lækkun dómkrafna áfrýjanda jafnframt á eigin sök hans. Lögð er áhersla á að áfrýjandi hafi gengið rakleiðis í gegnum hlið með slá í uppréttri stöðu, utan alfaraleiðar um bílastæði og ökuleið að baki verslunar- og iðnaðarhúsnæðis í stað þess að nota gönguleið fram hjá hliðinu.
Niðurstaða
25. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms standa ekki rök til að vísa málinu frá héraðsdómi á þeim grundvelli að ekki sé fullnægt skilyrðum 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 til að leita viðurkenningardóms um bótaskyldu stefndu.
26. Forsenda þess að krafa áfrýjanda á hendur stefndu nái fram að ganga er að stefnda Hekla hf. teljist bera skaðabótaábyrgð á tjóni hans á grundvelli sakarreglunnar. Sönnunarbyrði um að sá sem krafinn er um skaðabætur hafi sýnt af sér saknæma og ólögmæta háttsemi hvílir almennt á tjónþola. Í tilviki fasteigna ber þó jafnframt við sakarmat að líta sérstaklega til þess sem nú verður rakið.
27. Í dómaframkvæmd hefur verið talið að almennt verði að leggja ríka skyldu á eigendur eða umráðamenn fasteigna þar sem rekin er verslunar- eða þjónustustarfsemi sem laðar að viðskiptavini að gera ráðstafanir sem sanngjarnar mega teljast til að tryggja öryggi þeirra. Slík skylda hefur verið talin ná til öryggisbúnaðar fasteigna, jafnt innan dyra sem utan, svo og á gönguleiðum að og frá henni, sbr. til dæmis dóma Hæstaréttar 8. júní 2006 í máli nr. 517/2005 og 13. mars 2008 í máli nr. 419/2007. Talin hafa verið sérstök rök fyrir bótaábyrgð ef slys hefur áður hlotist af búnaði án þess að gripið væri til aðgerða til að forða slíkum slysum, sbr. dóm Hæstaréttar 12. nóvember 2015 í máli nr. 71/2015.
28. Á hitt ber að líta að í dómum Hæstaréttar hefur strangara sakarmati aðeins verið beitt gagnvart fasteignareiganda hafi fasteign hans verið talin búa yfir sérstökum hættueiginleikum þannig að varasamara væri að fara um hana en ýmis önnur mannvirki sem á vegi manna verða að því gefnu að eðlileg aðgát sé höfð, sbr. dóma Hæstaréttar 5. júní 2003 í máli nr. 516/2002 og 30. september 2010 í máli nr. 716/2009.
29. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður ekki fallist á að stefnda Hekla hf. hafi með uppsetningu og notkun hliðsins brotið gegn þeim skráðu hátternis- og varúðarreglum sem áfrýjandi hefur vísað til.
30. Verður þá tekið til skoðunar hvort stefnda Hekla hf. hafi með notkun hliðsins brotið gegn óskráðum hátternisreglum um skyldu fasteignareiganda til að gera ráðstafanir sem sanngjarnar mega teljast til að tryggja öryggi þeirra sem fara um athafnasvæði hans og með því sýnt af sér saknæma háttsemi.
31. Óumdeilt er að áfrýjandi varð fyrir því að slá í sjálfvirku hliði sem er á akstursleið um baklóð á verslunar- og þjónustuhúsnæði stefndu Heklu hf. lenti á höfði hans í þann mund sem hann gekk í gegnum hliðið. Hliðið mun hafa verið þannig stillt að um hálf mínúta leið frá því að ekið var um það og þar til það lokaðist. Af upptöku úr öryggismyndavél er ljóst að sláin var uppi þegar áfrýjandi kom gangandi í átt að hliðinu en byrjaði að síga þegar hann bar þar að. Óljóst er hvort áfrýjandi gerði sér grein fyrir að hann var að ganga í gegnum slíkt hlið en ráða má af upptökunni að hann áttaði sig ekki á að sláin var á niðurleið. Hliðið er búið tvöföldum öryggisbúnaði. Óumdeilt er að sláin stöðvaðist og lyftist upp ef ljósgeisli milli hliðstólpanna, um hálfan metra frá jörðu, var rofinn og að það sama gerðist ef sláin lenti á fyrirstöðu. Hvorug þessara öryggisráðstafana kom þó í veg fyrir að hún lenti á höfði áfrýjanda.
32. Fyrir liggur að stefnda Hekla hf. beinir viðskiptavinum sínum einkum að inngöngudyrum húsnæðis síns við Laugaveg, hvort sem er vegna kaupa á bifreiðum eða þjónustu við þær. Á baklóðinni, þar sem áfrýjandi hugðist ganga um, eru aðeins útakstursdyr frá verkstæði. Aðkoma að athafnasvæði stefndu Heklu hf. frá Brautarholti, þeim megin sem áfrýjandi kom gangandi, er eingöngu um akstursleið og er umræddu sjálfvirku hliði ætlað að takmarka umferð um hana. Engin gangbraut er meðfram akstursleiðinni en unnt er að ganga fram hjá hliðinu og strax aftur út á akstursleiðina. Um hana er síðan unnt að ganga til austurs og síðan norðurs og komast þannig að hliðardyrum á austurhlið hússins eða eftir atvikum að inngöngudyrum við Laugaveg.
33. Til þess er að líta að bakhlið athafnasvæðis stefndu Heklu hf. er ekki lokuð gangandi vegfarendum. Stefnda gat almennt vænst þess að viðskiptavinir og gangandi vegfarendur sæju sér hag í að stytta sér leið í gegnum athafnasvæðið þessa leið. Hins vegar liggur fyrir að stefnda Hekla hf. beinir almennt ekki viðskiptavinum sínum þá leið að verslunar- og þjónustustarfsemi sinni sem áfrýjandi kaus að fara og hafði raunar freistað þess að takmarka umferð bifreiða um hana með sjálfvirka hliðinu. Eru þær aðstæður og rök því ekki að öllu leyti fyrir hendi í máli þessu sem strangt sakarmat fasteignaeigenda byggist á.
34. Áfrýjandi ber sem fyrr segir sönnunarbyrði um að slysið hafi orðið vegna saknæmrar og ólögmætrar háttsemi eða athafnaleysis stefndu Heklu hf. Hann hefur ekki aflað neinna sérfræðilegra sönnunargagna um hliðið og mögulega ágalla á eiginleikum þess, virkni, stillingum, viðhaldi eða aðra sérstaka hættueiginleika sem tengjast notkun þess. Hliðið er enn í notkun og áfrýjandi hefur ekki sýnt fram á að virkni eða stillingum þess hafi verið breytt. Honum var því í lófa lagið að afla slíkra sönnunargagna og reisa á þeim málsástæður. Þar sem málsástæður áfrýjanda voru ekki studdar slíkum gögnum var ekki tilefni til að kveðja sérfróða meðdómsmenn til setu í dómi í héraði og Landsrétti. Niðurstaða dómsmáls verður heldur ekki reist á athugunum sérfróðs meðdómsmanns við vettvangsgöngu og ályktunum sem af þeim eru dregnar um hættueiginleika og mögulegar úrbætur ef þær eiga sér ekki stoð í gögnum máls, sbr. dóma Hæstaréttar 6. nóvember 2003 í máli nr. 152/2003 og 1. apríl 2004 í máli nr. 379/2003.
35. Áfrýjandi hefur samkvæmt framansögðu ekki sýnt fram á með matsgerð eða öðrum hætti að hliðið hafi verið ranglega stillt, að það hafi verið bilað eða að viðhaldi þess hafi verið áfátt. Þá hefur hann ekki sýnt fram á að virkni þess hafi skapað hættu umfram önnur slík hlið eða að önnur tegund sjálfvirkra hliða hefði hentað betur við þær aðstæður sem eru á athafnasvæði stefndu Heklu hf. en um slík atriði ber hann sönnunarbyrði. Á þetta meðal annars við um þann tíma sem tók hliðið að lokast, hversu hratt sláin fór niður og um þær öryggisráðstafanir sem ætlað var að tryggja að hliðið ylli vegfarendum ekki tjóni.
36. Í ljósi þess að hliðið var keypt, sett upp, stillt og virkjað af öryggisfyrirtæki og var með svokallaða CE-merkingu hafði stefnda Hekla hf. enga ástæðu til að ætla annað en að hliðið væri með fullnægjandi öryggisbúnað sem kæmi í veg fyrir að sérstök hætta stafaði af því. Þá hafði stefnda Hekla hf. enga ástæðu til að ætla að það hentaði ekki þeim aðstæðum sem voru á athafnasvæðinu. Þess utan munu ekki áður hafa hlotist óhöpp af notkun hliðsins.
37. Hvað sem framangreindu líður er ljóst að öryggisbúnaður hliðsins kom ekki í veg fyrir að áfrýjandi fengi slána í höfuðið þegar hann gekk í gegnum það. Hliðið reyndist því ekki hættulaust. Hins vegar er til þess að líta að áfrýjandi hefur ekki sýnt fram á að hættueiginleikarnir hafi verið meiri en svo að hreina óhappatilviljun hafi þurft til að öryggisbúnaðurinn kæmi ekki í veg fyrir slys af því tagi sem hann varð fyrir.
38. Verður þá tekið til skoðunar hvort stefndu geti borið bótaábyrgð vegna skorts á varúðarmerkingum við hliðið.
39. Til þess að bótaskylda verði lögð á stefndu Heklu hf. vegna skorts á varúðarmerkingum verður áfrýjandi að sýna fram á að í ljósi allra aðstæðna hafi verið tilefni til þess að koma þeim upp, að stefndu Heklu hf. hafi verið það ljóst eða mátt vera það ljóst að slíkra merkinga væri þörf og jafnframt að líklegt væri að slíkar merkingar hefðu komið í veg fyrir að áfrýjandi yrði fyrir slánni.
40. Fyrir liggur að hliðið er nokkuð áberandi þegar að því er komið, jafnvel þótt slá þess sé uppi. Þegar komið er að því úr þeirri átt sem áfrýjandi kom gangandi blasir við á vinstri hönd stólpi með vélarhúsi hliðsins, málaður hvítur og rauður og er sláin fest við hann en til hægri staur sem tekur við henni þegar hún fer niður. Sláin er einnig máluð rauð og hvít. Úr þeirri átt sem áfrýjandi kom er rauði liturinn þó ekki sýnilegur þegar sláin er uppi fyrr en komið er nokkuð nærri hliðinu. Við hliðið eða á akstursleið framan við það voru hins vegar engar varúðarmerkingar.
41. Sjálfvirk hlið af ýmsu tagi eru orðin afar algeng í borgarumhverfinu. Enda þótt ekkert verði fullyrt um hvort áfrýjandi hafi gert sér grein fyrir því að hann væri að ganga í gegnum slíkt hlið verður ekki fram hjá því litið að umgjörð þess var samkvæmt framansögðu með þeim hætti að stefnda Hekla hf. mátti gera ráð fyrir að gangandi vegfarandi yrði hliðsins var jafnvel þótt sláin væri uppi.
42. Enda þótt svo virðist sem einfalt og tiltölulega ódýrt hefði verið að koma upp varúðarmerkingum við hliðið er til þess að líta að hættueiginleikar þess voru ekki svo verulegir eða fyrirsjáanlegir að stefndu Heklu hf. hefði mátt vera ljóst að tilefni væri til að setja upp merkingar til að vara gangandi vegfarendur við. Verður stefndu Heklu hf. því ekki metið til sakar að hafa ekki komið upp slíkum merkingum. Kemur því ekki til sérstakrar skoðunar hvort líklegt sé að varúðarmerkingar við hliðið hefðu komið í veg fyrir slysið.
43. Samkvæmt framansögðu verður ekki talið að stefnda Hekla hf. hafi mátt vita um sérstaka hættueiginleika hliðsins og með hliðsjón af aðstæðum að öðru leyti verður ekki fallist á með áfrýjanda að stefnda Hekla hf. hafi vanrækt að grípa til þeirra ráðstafana sem sanngjarnar mega teljast til að tryggja öryggi þeirra sem leið áttu um athafnasvæðið. Því er ekki tilefni til að beita svo ströngu sakarmati í málinu að bótaábyrgð verði lögð á stefndu á ætluðu líkamstjóni áfrýjanda sem rakið verður til óhappatilviljunar.
44. Að öllu framangreindu virtu verða stefndu sýknuð af kröfum áfrýjanda.
45. Í ljósi atvika málsins þykir rétt að málskostnaður falli niður á öllum dómstigum.
Dómsorð:
Stefndu, Hekla hf. og VÍS tryggingar hf., eru sýkn af kröfum áfrýjanda, A.
Málskostnaður á öllum dómstigum fellur niður.
Sératkvæði
Ásu Ólafsdóttur og Bjargar Thorarensen
1. Við erum sammála niðurstöðu meirihluta dómenda um að ekki standi rök til að vísa málinu frá héraðsdómi enda fullnægt skilyrðum 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála til að leita viðurkenningardóms um bótaskyldu stefndu. Við erum hins vegar ósammála þeirri niðurstöðu að ekki hafi verið sýnt fram á að stefndu Heklu hf. hafi ekki mátt vera ljóst að tilefni væri til að gera ráðstafanir til að vara gangandi vegfarendur við hættu af sjálfvirku hliði á lóð hennar.
2. Eins og fram kemur í atkvæði meirihlutans hvíla ríkar skyldur á eigendum og umráðamönnum fasteigna þar sem rekin er verslun eða þjónusta til að gera ráðstafanir sem sanngjarnar mega teljast til að tryggja öryggi þeirra sem þar eiga leið um. Er slík skylda talin ná til öryggisbúnaðar fasteignar, jafnt innan dyra sem utan, svo og á gönguleiðum að og frá henni. Um það má til hliðsjónar vísa til dóma Hæstaréttar 13. mars 2008 í máli nr. 419/2007, 8. júní 2006 í máli nr. 517/2005 og 21. mars 1996 í máli nr. 419/1994 sem birtur er á bls. 1002 í dómasafni réttarins það ár.
3. Slys áfrýjanda varð á baklóð stefndu Heklu hf. við byggingu sem hýsir þjónustu- og verslunarstarfsemi fyrirtækisins. Við teljum að í því efni skipti ekki máli að stefnda hafi beint viðskiptavinum sínum að inngöngudyrum húsnæðis síns við Laugaveg á norðurhlið byggingarinnar. Ljóst er að áfrýjandi, sem kom gangandi úr suðurátt frá Skipholti niður Brautarholt að bakhlið byggingarinnar, valdi umtalsvert styttri gönguleið að inngangi á Laugavegi með því að ganga yfir bílastæði á lóð stefndu Heklu hf. þar sem umferð gangandi vegfarenda var ekki bönnuð. Gat stefnda Hekla hf. almennt vænst þess að bæði viðskiptavinir og aðrir vegfarendur sæju sér hag í að stytta sér leið með þessum hætti. Eru aðstæður í málinu því ekki fallnar til að draga úr því stranga sakarmati sem fyrr er lýst og lýtur að skyldum stefndu Heklu hf. til að tryggja öryggi búnaðar við fasteignina þegar sá búnaður gat skapað hættu.
4. Fyrir liggur að vegna hættueiginleika hins sjálfvirka hliðs var við uppsetningu þess gætt ýmissa öryggisatriða svo sem rakið er í gögnum málsins. Þótt stefnda Hekla hf. haldi því fram að hún hafi ekki ætlað annað en að hliðið væri með fullnægjandi öryggisbúnað er ljóst að sá búnaður kom ekki í veg fyrir að sláin féll fyrirvaralaust á höfuð áfrýjanda er hann fór um hliðið.
5. Umrædd hliðslá, sem er um fjögurra metra löng, stendur í uppréttri stöðu í um það bil hálfa mínútu áður en hún fer niður aftur og leggst þá á staur þétt upp við steinvegg á lóðamörkum athafnasvæðis stefndu Heklu hf. Þegar gengið er úr suðurátt frá Skipholti og horft er á slána upprétta sjást engar rauðar merkingar á henni. Þannig féll hún inn í umhverfi sitt eins og aðstæður voru þegar slysið varð og var mjög áþekk fánastöng í útliti en á þeim tíma stóðu fimm fánastangir meðfram lóðamörkum hægra megin við hliðið. Gat sláin því auðveldlega dulist vegfarendum sem gengu niður Brautarholtið og var ekki áberandi gagnvart áfrýjanda. Þegar komið er að hliðinu er vegfarendum ekki beint að neinni gönguleið sem er aðeins möguleg vinstra megin við stólpa með vélarhúsi hliðsins. Við þann stólpa er bifreiðum lagt í bílastæði sem vegfarandi þarf að fara þétt upp að gangi hann fram hjá hliðinu. Við hliðið eða á akbrautinni framan við það voru á þessum tíma engar merkingar til að vekja athygli á hliðinu og mögulegum hættueiginleikum þess eða hinni þröngu gönguleið fram hjá því.
6. Verður að ætla, eins og aðstæður voru á lóð stefndu Heklu hf. þegar slysið varð, að umbúnaður hliðsins hafi verið með þeim hætti að áfrýjandi hafi ekki gert sér grein fyrir því að hann gekk um það. Þannig hefðu varúðarmerkingar á borð við skilti í sjónhæð fyrir gangandi vegfarendur til að vekja athygli á hliðslánni, eða hljóð- eða ljósmerki, getað varað við þeirri hættu sem stafaði af henni uppréttri þegar áfrýjandi nálgaðist í þann mund sem hún féll úr lóðréttri stöðu niður á höfuð hans. Slíkar varúðarmerkingar hefðu útheimt litla fyrirhöfn og kostnað. Þegar litið er til hættueiginleika hliðsins verður stefndu Heklu hf. metið til sakar að hafa vanrækt að grípa til slíkra ráðstafana sem sanngjarnar mega teljast til að tryggja öryggi þeirra sem leið áttu um athafnasvæði hennar.
7. Við teljum því að eins og atvik þessa máls liggja fyrir skuli viðurkenna bótaskyldu stefndu Heklu hf. og VÍS trygginga hf. vegna líkamstjóns sem áfrýjandi hlaut af völdum slyss á lóð stefndu, Heklu hf., 5. mars 2018 og að stefndu skuli greiða málskostnað á öllum dómstigum.