Hæstiréttur íslands

Mál nr. 55/2022

A16 fasteignafélag ehf. (Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður)
gegn
Hróbjarti Jónatanssyni og Sjóvá-Almennum tryggingum hf. (Kristín Edwald lögmaður)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Viðurkenningarkrafa
  • Lögmaður
  • Skaðabætur
  • Lögvarðir hagsmunir
  • Vanreifun
  • Frávísunardómur staðfestur

Reifun

Kærður var dómur Landsréttar þar sem máli A ehf. á hendur H og S hf. var vísað frá héraðsdómi. Ágreiningur málsins fyrir Hæstarétti laut að því hvort A ehf. hefði lögvarða hagsmuni af því að fá efnisdóm í máli um viðurkenningu á óskiptri bótaskyldu H og S hf. vegna lögmannsstarfa H fyrir A ehf. Í dómi Hæstaréttar kom fram að þar sem málatilbúnaður A ehf. um ætlaða lögvarða hagsmuni hans í skilningi 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 væri ekki í samræmi við áskilnað e-liðar 1. mgr. 80. gr. laganna yrði niðurstaða hins kærða dóms staðfest.

Dómur Hæstaréttar

1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen og Sigurður Tómas Magnússon og Helgi I. Jónsson fyrrverandi hæstaréttardómari.

2. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. nóvember 2022 en kærumálsgögn bárust réttinum 18. sama mánaðar. Kærður er dómur Landsréttar 28. október 2022 þar sem máli sóknaraðila var vísað frá héraðsdómi. Kæruheimild er í a-lið 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

3. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði dómur verði felldur úr gildi og að Landsrétti verði gert að taka málið til efnislegrar meðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar úr hendi beggja varnaraðila fyrir Hæstarétti.

4. Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða dóms og kærumálskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Ágreiningsefni

5. Fyrir Hæstarétti lýtur ágreiningur aðila að því hvort sóknaraðili hefur lögvarða hagsmuni af því að fá efnisdóm í máli um viðurkenningu á óskiptri bótaskyldu beggja varnaraðila vegna lögmannsstarfa varnaraðilans Hróbjarts Jónatanssonar fyrir sóknaraðila. Á því er byggt að til bótaskyldu lögmannsins hafi stofnast þar sem hann hafi ekki lýst kröfu sóknaraðila um ógreidda leigu og sameiginlegan kostnað samkvæmt leigusamningum til slitastjórnar LBI hf. án ástæðulausra tafa. Leiddi það til þess að kröfunni var hafnað vegna vanlýsingar með dómi Hæstaréttar 14. júní 2016 í máli nr. 341/2016.

6. Niðurstaða hins kærða dóms byggðist á því að sóknaraðili væri ekki talinn hafa leitt nægar líkur að því að hann hefði orðið fyrir tjóni vegna vanlýsingarinnar. Þar með hefði hann ekki sýnt fram á að skilyrðum 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um lögvarða hagsmuni væri fullnægt og var málinu vísað frá héraðsdómi af þeim sökum.

Málsatvik

7. Hinn 16. september 2009 var undirritaður samningur milli sóknaraðila sem leigusala og Landsbanka Íslands hf. sem leigutaka um leigu á 3., 4. og 5. hæð fasteignarinnar Austurstrætis 16 í Reykjavík. Samkvæmt grein 2.1 skyldi leigutími hefjast 1. október 2009 og væri alls 36 mánuðir. Um fjárhæð leigu kom fram í grein 4.1 að hún væri 2.000 krónur á mánuði fyrir hvern fermetra. Hið leigða væri alls 1.260 fermetrar og leiga á mánuði því 2.520.000 krónur. Sú fjárhæð væri verðtryggð og skyldi fylgja „neysluvöruvísitölu“ með nánar tilgreindum hætti. Í samningnum kom jafnframt fram í grein 4.3 að frá 1. október 2010 væri leigusala og leigutaka heimilt að óska endurskoðunar á leigufjárhæð til hækkunar. Enn fremur var tiltekið í grein 6 að leigutaki skyldi annast tilgreindan kostnað við viðhald og í grein 7 að leigutaki skyldi greiða nánar tilgreindan rekstrarkostnað.

8. Degi síðar, 17. september 2009, var undirritaður annar samningur milli sömu aðila um leigu Landsbanka Íslands hf. á 2. hæð í sama húsi. Samkvæmt grein 2.1 var leigutíminn 12 mánuðir frá 1. október 2009 og skyldi ljúka 30. september 2010 án sérstakrar uppsagnar. Um leigufjárhæð kom fram í grein 4.1 að hún væri 2.000 krónur á mánuði fyrir hvern fermetra. Hið leigða væri alls 420 fermetrar og leiga á mánuði því 840.000 krónur. Að öðru leyti var þessi samningur efnislega hliðstæður samningnum frá 16. september 2009 um réttindi og skyldur leigusala og leigutaka.

9. Með framangreindum samningum tók Landsbanki Íslands hf. því á leigu 2. til 5. hæð fasteignarinnar að Austurstræti 16. Heildarstærð hins leigða var tilgreind 1.680 fermetrar og mánaðarleg leiga alls 3.360.000 krónur sem skyldi hækka með fyrrgreindum hætti.

10. Samkvæmt gögnum málsins varð verulegur ágreiningur milli sóknaraðila og Landsbanka Íslands hf. um réttar efndir fyrrgreindra leigusamninga. Í tölvubréfi 17. desember 2010 frá starfsmanni bankans til þáverandi fyrirsvarsmanns sóknaraðila sagði að komið hefði í ljós að stærð hins leigða samkvæmt fasteignamati væri alls 1.610 fermetrar en ekki 1.680 fermetrar eins og samningarnir kváðu á um. Þá var því haldið fram að félagið hefði ofgreitt hússjóðsgjöld með nánar tilgreindum hætti. Í tölvubréfinu var krafist endurgreiðslu á hluta þegar greiddrar húsaleigu og á hússjóðsgjöldum sem sóknaraðili varð ekki við.

11. Af gögnum málsins verður ráðið að í kjölfar þessara samskipta hafi orðið hlé á greiðslum frá Landsbanka Íslands hf. á grundvelli leigusamninganna. Með tölvubréfi 8. mars 2011 frá fyrrgreindum starfsmanni bankans til þáverandi fyrirsvarsmanns sóknaraðila var tilkynnt að bankinn myndi frá 1. janúar 2011 greiða leigu sem tæki mið af þeirri forsendu að stærð hins leigða væri 1.610 fermetrar.

12. Með greiðsluáskorun 16. ágúst 2011 gerði Jón Þór Ólason, lögmaður á lögmannsstofunni Jónatansson & Co, kröfu fyrir hönd sóknaraðila um greiðslu gjaldfallinnar leigu samkvæmt leigusamningunum. Auk þess kom þar fram það mat sóknaraðila að stærð hins leigða væri allt að 141 fermetra umfram það sem samningarnir kváðu á um. Þessari kröfu hafnaði Landsbanki Íslands hf. með bréfi 22. sama mánaðar.

13. Með tölvubréfi starfsmanns Landsbanka Íslands hf. 10. október 2011 til fyrrnefnds lögmanns var gerð grein fyrir útreikningum Eignamyndunar ehf. þess efnis að hið leigða húsnæði væri minna en leigusamningarnir kváðu á um eða alls 1.577,4 fermetrar. Með bréfi 13. sama mánaðar tilkynnti Landsbanki Íslands hf. umræddum lögmanni að meðan ágreiningur væri um stærð hins leigða myndi bankinn greiða sóknaraðila húsaleigu miðað við þá mælingu.

14. Með tölvubréfi 13. mars 2012 staðfesti lögmaðurinn Jón Þór Ólason, fyrir hönd sóknaraðila, að frá og með 1. janúar 2012 skyldu greiðslur samkvæmt leigusamningunum berast til Frjálsa fjárfestingabankans hf. Fram kom að sóknaraðili myndi semja um ágreining við Landsbanka Íslands hf. vegna eldri leigugreiðslna.

15. Hinu leigða húsnæði var skilað 2. október 2012. Með innheimtubréfi 8. desember sama ár krafðist sóknaraðili vangoldinna leigugreiðslna miðað við leigusamninga aðila, auk dráttarvaxta og innheimtuþóknunar, og áskildi sér að auki rétt til að krefjast hærra leigugjalds þar sem hið leigða hefði í raun verið stærra en samningar aðila kváðu á um. Í svarbréfi Landsbanka Íslands hf. 14. sama mánaðar var innheimtunni mótmælt með vísan til ágreinings um stærð hins leigða. Jafnframt hefði bankinn greitt ýmis gjöld og viðhaldskostnað umfram skyldu og teldi sóknaraðila vera í skuld við sig af þeirri ástæðu. Ekki varð af frekari samskiptum milli aðila um uppgjör vegna samninganna.

16. Sóknaraðili beindi 13. febrúar 2015 kröfulýsingu til slitastjórnar Landsbanka Íslands hf., sem þá bar heitið LBI hf., vegna ógreiddrar kröfu að höfuðstól 21.522.478 krónur sem hann taldi leiða af húsaleigusamningum þeirra. Kröfulýsingin var undirrituð af Eiríki Guðlaugssyni, lögmanni og fulltrúa á lögmannsstofunni Jónatansson & Co, og kemur þar fram að hún væri send „v/ Hróbjarts Jónatanssonar hrl.“. Með bréfi til sóknaraðila 23. sama mánaðar tilkynnti slitastjórn LBI hf. að hún hefði ákveðið að hafna kröfunni með öllu. Vísað var til þess að hún væri vanreifuð og fullnægði ekki skilyrðum 2. og 3. mgr. 117. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Ekki fengist séð á hvaða forsendum mætti byggja meinta greiðsluskyldu LBI hf. eða önnur grundvallaratriði í mati á réttmæti kröfunnar eins og hún væri sett fram og rökstudd. Auk þess lægi ekki fyrir að grunnskilyrði 5. töluliðar 118. gr. laganna væru uppfyllt.

17. Með því að ekki tókst að jafna ágreining aðila var honum beint til héraðsdóms. Með dómi Hæstaréttar 14. júní 2016 í máli nr. 341/2016 var því hafnað að krafan kæmist að við slit LBI hf. þar sem sóknaraðili hefði ekki sýnt fram á að henni hefði verið lýst án ástæðulausra tafa í samræmi við áskilnað 5. töluliðar 118. gr. laga nr. 21/1991.

18. Með bréfi lögmanns sóknaraðila 21. maí 2019 til lögmannsstofunnar Jónatansson & Co var því lýst yfir að sú háttsemi að lýsa fyrrgreindri kröfu ekki án ástæðulausra tafa hefði falið í sér skaðabótaskylda háttsemi. Sóknaraðili ætti því kröfu á hendur varnaraðilanum Hróbjarti vegna þessa. Þá gerði sóknaraðili með bréfi 15. júlí 2019 einnig kröfu um viðurkenningu á bótaskyldu varnaraðilans Sjóvár-Almennra trygginga hf. vegna starfsábyrgðartryggingar varnaraðilans Hróbjarts. Báðir varnaraðilar höfnuðu kröfunum. Í kjölfarið áttu sér stað frekari samskipti milli aðila um réttmæti kröfunnar. Sóknaraðili höfðaði síðan mál þetta á hendur varnaraðilum 29. apríl 2020.

Niðurstaða

19. Mál þetta er höfðað til viðurkenningar á skaðabótaskyldu varnaraðila vegna tjóns sem sóknaraðili telur sig hafa orðið fyrir vegna þess athafnaleysis varnaraðilans Hróbjarts Jónatanssonar lögmanns að lýsa ekki kröfu um ógreidda leigu og sameiginlegan kostnað fyrir hönd sóknaraðila til slitastjórnar LBI hf. án ástæðulausra tafa.

20. Í 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 er mælt fyrir um heimild til að leita dóms um viðurkenningu á skaðabótaskyldu, án tillits til þess hvort unnt væri að leita dóms sem mætti fullnægja með aðför. Þessi heimild er þó háð því skilyrði að sá sem höfðar mál hafi lögvarða hagsmuni af því að fá leyst úr kröfu sinni. Áskilnaður ákvæðisins um lögvarða hagsmuni hefur í dómum Hæstaréttar verið skýrður svo að sá sem höfðar mál til viðurkenningar á skaðabótaskyldu verði að leiða nægar líkur að því að hann hafi orðið fyrir tjóni af nánar tilgreindu tilefni, geri grein fyrir því í hverju tjón hans felist og hver tengsl þess séu við atvik máls.

21. Samkvæmt e-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 skal í stefnu til héraðsdóms greina svo glöggt sem verða má málsástæður sem stefnandi byggir málsókn sína á, svo og önnur atvik sem þarf að greina til þess að samhengi málsástæðna verði ljóst, en þessi lýsing skal vera gagnorð og svo skýr að ekki fari milli mála hvert sakarefnið er.

22. Fyrir liggur að slitastjórn LBI hf. hafnaði kröfu sóknaraðila að öllu leyti vegna vanreifunar með vísan til að þar hefði skort tilgreiningu á forsendum meintrar greiðsluskyldu LBI hf. og önnur grundvallaratriði um mat á réttmæti kröfunnar. Sem fyrr segir kom ágreiningur aðila um hana ekki til efnislegrar úrlausnar dómstóla vegna vanlýsingar.

23. Sóknaraðila er eins og áður greinir heimilt samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 að leita viðurkenningardóms um skaðabótaskyldu. Í því felst þó ekki að vikið verði frá áskilnaði 1. mgr. 80. gr. laganna um tilgreiningu á kröfum og málsástæðum í stefnu og skýrleika málatilbúnaðar að öðru leyti þegar sóknaraðili markar málinu grundvöll og leiðir líkur að því að hann hafi orðið fyrir tjóni. Má um það til hliðsjónar vísa til dóms Hæstaréttar 25. nóvember 2009 í máli nr. 600/2009.

24. Í héraðsdómsstefnu er hvergi leitast við að setja fram með skýrum hætti í hverju hið ætlaða tjón felist. Í kafla um málsástæður er einungis vísað til þess almennum orðum að höfuðstóll kröfu sóknaraðila nemi „að minnsta kosti fjárhæð kröfunnar um leiguna að frádregnum innborgunum, eins og lýst er í dómi Hæstaréttar frá 14. júní 2016 í máli nr. 341/2016, en auk dráttarvaxta frá því að kröfu hans var hafnað af dómstólum.“ Af þeim dómi verður þó ráðið að krafan sem þar er lýst sé margþætt og lúti bæði að ógreiddri leigu og ógreiddri hlutdeild LBI hf. í sameiginlegum kostnaði vegna hússins sem einnig var deilt um í málinu. Auk þess er óljóst hvort í stefnu er vísað til kröfu um leigu sem byggist á einhliða ákvörðun sóknaraðila um að leiguhúsnæðið hafi verið stærra en fram kom í leigusamningum eða hvort byggt er á þeim fermetrafjölda sem tilgreindur var í þeim samningum, en þar ber verulega á milli.

25. Þá liggur fyrir í málinu að sóknaraðili framseldi Dróma hf. / Frjálsa fjárfestingarbankanum hf. rétt til að taka við öllum leigugreiðslum frá LBI hf. frá 1. janúar 2012. Samkomulag þar um er ekki meðal gagna málsins og því óljóst hvaða réttindi samkvæmt leigusamningunum sóknaraðili framseldi. Í málsgögnum kemur þó fram að sóknaraðili hygðist semja við LBI hf. um ágreining vegna eldri greiðslna. Samkvæmt dómkröfu sóknaraðila í máli því sem var til úrlausnar í fyrrnefndum dómi Hæstaréttar krafðist hann engu að síður leigu og hlutdeildar í sameiginlegum kostnaði vegna hússins til 1. september 2012 að frádregnum innborgunum.

26. Enn fremur skortir á að sóknaraðili hafi í stefnu gert skýra grein fyrir forsendum að baki því ætlaða tjóni sem hann telur varnaraðilann Hróbjart hafa valdið sér með fyrrgreindu athafnaleysi. Hefði enn frekar verið ástæða til þess þar sem fyrir liggja umfangsmikil gögn um samskipti milli aðila vegna ágreinings þeirra um réttar efndir leigusamninganna. Þar má nefna að sóknaraðili gerði þrívegis sundurliðaða fjárkröfu á hendur Landsbanka Íslands hf. vegna húsaleigu og sameiginlegs kostnaðar: í greiðsluáskorun vegna ógreiddrar leigu 16. ágúst 2011, í innheimtubréfi 8. desember 2012 og í kröfulýsingu til LBI hf. 13. febrúar 2015.

27. Vegna þeirrar vanreifunar sem hér hefur verið lýst gengur málatilbúnaður sóknaraðila í berhögg við fyrrgreind lagafyrirmæli um gerð stefnu. Úr þeim annmörkum verður ekki bætt undir rekstri máls enda miðast varnir í héraði við málið eins og það var við þingfestingu þess. Þar sem málatilbúnaður sóknaraðila um ætlaða lögvarða hagsmuni hans í skilningi 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 er ekki í samræmi við áskilnað e-liðar 1. mgr. 80. gr. laganna verður niðurstaða hins kærða dóms staðfest.

28. Eftir þessum úrslitum og með vísan til 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður sóknaraðila gert að greiða varnaraðilum kærumálskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði dómur er staðfestur.

Sóknaraðili, A16 fasteignafélag ehf., greiði varnaraðilum, Hróbjarti Jónatanssyni og Sjóvá-Almennum tryggingum hf., hvorum fyrir sig, 250.000 krónur í kærumálskostnað fyrir Hæstarétti.