Hæstiréttur íslands

Mál nr. 16/2024

Þórður Már Jóhannesson (Arnar Þór Stefánsson lögmaður) og Sólveig Guðrún Pétursdóttir (Ragnar Halldór Hall lögmaður)
gegn
Lyfjablómi ehf. (Jón Þór Ólason lögmaður)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Hæfi dómara
  • Vanhæfi

Reifun

Staðfestur var úrskurður Landsréttar þar sem öllum dómurum réttarins var gert að víkja sæti í máli. Hæstiréttur vísaði til þess að í Landsrétti væri náið samstarf á milli allra dómara réttarins. Hæstiréttur tók fram að vanhæfi eins dómara við áfrýjunardómstól leiddi ekki sjálfkrafa til þess að aðrir dómarar teldust vanhæfir. Samkvæmt f-lið 5. gr. laga nr. 91/1991 ylli það vanhæfi dómara ef hann tengdist eða hefði tengst vitni í máli með sama hætti og segði í d-lið sömu greinar. Rökin að baki þessari hæfisreglu væru að dómari gæti þurft að leggja mat á trúverðugleika framburðar vitnis og slík tengsl dómarans við vitni væru hlutlægt séð til þess fallin að efast mætti með réttu um óhlutdrægni hans við það mat. Í málinu væri landsréttardómarinn vitni og í greinargerðum fyrir Landsrétti væri vísað til framburðar dómarans og skjala sem voru talin stafa frá honum. Hæstiréttur taldi að þótt ekki væri augljóst að við úrlausn málsins myndi reyna á að dómarar Landsréttar þyrftu að leggja mat á sönnunargildi og trúverðugleika framburðar landsréttardómarans væri ekki unnt að útiloka það. Með vísan til raka að baki vanhæfisreglu g-liðar 5. gr. laga nr. 91/1991 og grunnraka að baki reglu f-liðar sömu greinar var talið að sú aðstaða að einn dómari Landsréttar hefði verið vitni í málinu í héraði væri til þess fallin að draga mætti óhlutdrægni annarra dómara við Landsrétt með réttu í efa.

Dómur Hæstaréttar

1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen, Ingveldur Einarsdóttir, Karl Axelsson og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 15. mars 2024 en kærumálsgögn bárust réttinum 21. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Landsréttar 5. sama mánaðar í máli nr. 566/2022 þar sem allir dómarar Landsréttar viku sæti í málinu. Sóknaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefjast þau hvort um sig kærumálskostnaðar úr hendi varnaraðila fyrir Hæstarétti.

3. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og sóknaraðilum gert að greiða kærumálskostnað.

4. Í máli þessu hefur varnaraðili uppi skaðabótakröfu á hendur sóknaraðilum vegna tjóns sem hann telur sig hafa orðið fyrir vegna ólögmætrar og saknæmrar háttsemi þeirra. Varnaraðili telur að sóknaraðili, Þórður Már, hafi beitt skipulegum og alvarlegum blekkingum gagnvart sér vegna fjárfestinga sinna í Þúfubjargi ehf., síðar Gnúpi fjárfestingafélagi hf. Varnaraðili hafi verið blekktur til að kaupa 50% hlut í verðlausu félagi, Þúfubjargi ehf., 16. október 2006 fyrir 800.000.000 króna. Jafnframt hafi röngum og villandi upplýsingum verið haldið að hluthöfum í árshlutareikningi og kynningarefni á hluthafafundi Gnúps fjárfestingafélags hf. 10. ágúst 2007 sem hafi orðið til þess að áfrýjandi lagði fram 1.500.000.000 króna vegna hlutafjáraukningar í félaginu í nóvember 2007.

5. Landsréttardómarinn Aðalsteinn E. Jónasson starfaði sem innanhússlögmaður hjá Gnúpi fjárfestingafélagi hf. frá október 2006 fram í ársbyrjun 2008. Hann stýrði meðal annars hluthafafundum í félaginu 16. október 2006 og 11. nóvember 2007, tók þátt í að undirbúa þá og las yfir skjöl sem undirrituð voru á þeim. Aðalsteinn gaf skýrslu fyrir héraðsdómi sem vitni í málinu.

6. Samkvæmt 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. 8. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, ber öllum réttur til að fá úrlausn um réttindi sín og skyldur fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli. Í greinargerð með frumvarpi til þeirra segir að skilyrði ákvæðisins um óhlutdrægan dómstól feli í sér áskilnað um að dómari í máli þurfi að vera hlutlaus og að aðilar njóti jafnræðis að því leyti, en það sæki fyrirmynd til 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.

7. Í c-lið 5. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála er kveðið á um að dómari sé vanhæfur til að fara með mál ef hann hefur borið vitni eða verið kvaddur til að bera vitni um atvik þess af réttmætu tilefni. Óumdeilt er að Aðalsteinn E. Jónasson bar vitni í málinu af réttmætu tilefni og að hann sé vanhæfur til að fara með málið.

8. Samkvæmt f-lið 5. gr. laga nr. 91/1991 veldur það vanhæfi dómara ef hann tengist eða hefur tengst vitni í máli með sama hætti og segir í d-lið, það er að hann hefur verið maki vitnis, skyldur því eða mægður í beinan legg eða að öðrum lið til hliðar eða tengdur með sama hætti vegna ættleiðingar. Grunnrök að baki þessari vanhæfisreglu eru að dómari getur þurft að leggja mat á trúverðugleika framburðar vitnis og slík tengsl dómarans við vitni eru hlutlægt séð til þess fallin að efast má með réttu um óhlutdrægni hans við það mat.

9. Niðurstaða hins kærða úrskurðar var að allir dómarar Landsréttar skyldu víkja sæti í málinu á grundvelli g-liðar 5. gr. laga nr. 91/1991 vegna starfstengsla þeirra við Aðalstein. Úrskurðurinn var kveðinn upp af varaforseta Landsréttar í samræmi við 2. mgr. 25. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla, sbr. 1. mgr. 22. gr. sömu laga.

10. Í g-lið 5. gr. laga nr. 91/1991 er mælt fyrir um að dómari sé vanhæfur til að fara með mál ef fyrir hendi eru önnur atvik eða aðstæður en þau sem talin eru upp í stafliðum a til f í 5. gr. sem fallin eru til þess að draga megi óhlutdrægni hans með réttu í efa. Þegar lagt er mat á hæfi dómara til að fara með mál verður að gæta að því að tilgangur hæfisreglna er ekki einungis að tryggja að dómari sitji ekki í máli nema hann sé óhlutdrægur gagnvart bæði aðilum máls og efni þess heldur einnig að tryggja traust aðilanna jafnt sem almennings til dómstóla með því að fyrirbyggja að dómari standi að úrlausn máls í tilviki þar sem réttmæt tortryggni gæti risið um óhlutdrægni hans. Sé réttmætur vafi um óhlutdrægni dómara er óhjákvæmilegt að hann víki sæti í máli, sbr. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar 22. apríl 2015 í máli nr. 511/2014 og 1. júní 2017 í máli nr. 90/2016.

11. Í dómaframkvæmd Hæstaréttar hefur verið litið til skýringa Mannréttindadómstóls Evrópu við úrlausn þess hvort dómari telst óvilhallur í skilningi 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmálans, sbr. til dæmis dóm Hæstaréttar 1. mars 2023 í máli nr. 40/2022. Er þar greint á milli athugunar er miðar að því að ganga úr skugga um hvaða viðhorf hafa ráðið hjá dómara í tilteknu máli (huglægur mælikvarði) og hvort fyrir hendi eru hlutlæg atriði sem gefa réttmætt tilefni til að draga í efa að dómari sé óvilhallur (hlutlægur mælikvarði).

12. Samkvæmt hinum huglæga mælikvarða um hæfi dómara verður um persónulega afstöðu hans að gera ráð fyrir að hann sé hæfur til meðferðar máls nema sýnt sé fram á hið gagnstæða. Af hálfu sóknaraðila hefur því ekki verið haldið fram að aðrir dómarar Landsréttar en Aðalsteinn E. Jónasson hafi þá persónulegu afstöðu til málsaðila eða sakarefnis málsins að hæfi þeirra verði af þeirri ástæðu með réttu dregið í efa.

13. Þegar meta skal hvort draga má óhlutdrægni annarra dómara Landsréttar með réttu í efa ber jafnframt að líta til þess út frá hlutlægum mælikvarða hvort fyrir hendi eru sýnileg ytri atvik eða aðstæður sem gefi réttmætt tilefni til að óttast megi um óhlutdrægni þeirra við úrlausn málsins. Ekki er nægilegt að þeir sjálfir telji sig óhlutdræga heldur verður ásýnd dómstóls að vera með þeim hætti að ekki sé uppi réttmætur vafi um óhlutdrægni dómara.

14. Atvik eða aðstæður sem leitt geta til vanhæfis dómara samkvæmt g-lið 5. gr. laga nr. 91/1991 verða ekki talin með tæmandi hætti. Meðal þess eru aðstæður sem eru á mörkum þess að falla undir stafliði a til f í greininni, sbr. til dæmis dóm Hæstaréttar 18. september 2003 í máli nr. 472/2002. Ýmis önnur tengsl dómara við málsaðila, fyrirsvarsmenn þeirra og sakarefni málsins geta einnig valdið vanhæfi samkvæmt þessari reglu. Gerðar hafa verið ríkari kröfur að þessu leyti á síðari áratugum og því hafa eldri úrlausnir minna vægi við það mat nú, sbr. áðurgreindan dóm Hæstaréttar í máli nr. 40/2022.

15. Til úrlausnar er hvort sú aðstaða að einn dómari Landsréttar er vanhæfur til meðferðar málsins á grundvelli c-liðar 5. gr. laga nr. 91/1991 þar sem hann var vitni í málinu fyrir héraðsdómi sé fallin til að draga óhlutdrægni allra annarra dómara réttarins með réttu í efa.

16. Í Landsrétti er dómur að jafnaði skipaður þremur dómurum réttarins. Þótt dómurum sé að meginstefnu skipað í deildir og þeir starfi því mismikið saman að úrlausn dómsmála er skipan deilda háð breytingum og málum jafnframt úthlutað án tillits til deildaskiptingar. Náið samstarf er því milli allra dómara réttarins. Aðalsteinn hefur verið dómari við Landsrétt í rúm sex ár og má því ætla að hann hafi starfað með öllum dómurum réttarins.

17. Ekki hefur verið talið að vanhæfi eins dómara við áfrýjunardómstól leiði sjálfkrafa til þess að aðrir dómarar þar teljist af þeim sökum einnig vanhæfir. Sé dómari við slíkan dómstól á hinn bóginn aðili máls leiðir það til þess að aðrir dómarar þar teljist vanhæfir til að fara með málið, sbr. til dæmis dóm Hæstaréttar 5. febrúar 2021 í máli nr. 9/2020. Hið sama hefur verið talið eiga við þegar maki eins dómara er aðili máls. Ekki er hins vegar sjálfgefið að vanhæfi eins dómara af öðrum orsökum leiði til vanhæfis allra samdómara, svo sem ef vanhæfið skapast vegna fjarlægari tengsla en að framan greinir.

18. Sem fyrr segir var landsréttardómarinn vitni í málinu en auk þess eru meðal gagna þess skjöl sem stafa frá honum. Í héraðsdómi var aðeins vísað almennt til framburðar vitna sem talinn var hafa takmarkað sönnunargildi í ljósi þess að ríflega 15 ár væru liðin frá málsatvikum og skýrslur vitna hvorki svo glöggar né hnitmiðaðar að tilteknar ályktanir yrðu af þeim dregnar. Í greinargerð varnaraðila til Landsréttar var hins vegar vísað sérstaklega til framburðar dómarans til stuðnings tiltekinni fullyrðingu. Þá var í greinargerð annars sóknaraðilans til Landsréttar vísað til skjala sem talin voru stafa frá dómaranum og jafnframt til framburðar hans í héraði sem talinn var styðja tiltekna staðhæfingu sóknaraðilans.

19. Þótt ekki sé augljóst að við úrlausn málsins muni reyna á að dómarar Landsréttar þurfi að leggja mat á sönnunargildi og trúverðugleika framburðar landsréttardómarans er ekki unnt að útiloka það. Með vísan til framangreindra raka að baki vanhæfisreglu g-liðar 5. gr. laga nr. 91/1991 og þeirra grunnraka sem búa samkvæmt framansögðu að baki reglu f-liðar sömu greinar er sú aðstaða að einn dómari Landsréttar var vitni í málinu í héraði til þess fallin að draga má óhlutdrægni annarra dómara við Landsrétt með réttu í efa. Hinn kærði úrskurður verður því staðfestur.

20. Sóknaraðilum verður gert að greiða óskipt varnaraðila kærumálskostnað eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðilar, Þórður Már Jóhannesson og Sólveig Guðrún Pétursdóttir, greiði óskipt varnaraðila, Lyfjablómi ehf., 400.000 krónur í kærumálskostnað fyrir Hæstarétti.