Hæstiréttur íslands

Mál nr. 2/2022

Ákæruvaldið (Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari)
gegn
Guðberg Þórhallssyni (Vilhjálmur Þ. Á. Vilhjálmsson lögmaður) og Rúnari Má Sigurvinssyni (Þórir Júlíusson lögmaður),
(Ólafur Örn Svansson lögmaður einkaréttarkröfuhafa )

Lykilorð

  • Ákæra
  • Umboðssvik
  • Mútur
  • Peningaþvætti
  • Hlutdeild
  • Lögskýring
  • Skilorð
  • Upptaka
  • Einkaréttarkrafa
  • Skaðabætur
  • Frávísun frá héraðsdómi að hluta

Reifun

G var ákærður fyrir hlutdeild í umboðssvikum samkvæmt 249. gr. almennra hegningarlaga, mútugreiðslur samkvæmt 1. mgr. 264. gr. a laganna og peningaþvætti samkvæmt 1. mgr., sbr. 2. mgr. 264. gr. laganna og R fyrir umboðssvik, mútuþægni samkvæmt 2. mgr. 264. gr. a laganna og peningaþvætti. Hæstiréttur vísaði til þess að í dómi Landsréttar segði um þá háttsemi sem ákærðu var gefin að sök samkvæmt I kafla ákæru að sannað þætti svo ekki yrði vefengt með skynsamlegum rökum að ákærðu hefðu, að frumkvæði R, haft samráð um að hann myndi í krafti stöðu sinnar hjá I ohf. sjá til þess að félagið keypti aðgangsmiða í bílastæðahlið af félagi G, B ehf., í júní 2015 og mars 2016 á miklu hærra verði en eðlilegt gat talist. Hæstiréttur staðfesti þá niðurstöðu Landsréttar að sakfella R fyrir brot gegn 249. gr. almennra hegningarlaga og G fyrir brot gegn sama ákvæði, sbr. 1. mgr. og 4. mgr. 22. gr. sömu laga. Með dómi Landsréttar var R sakfelldur fyrir brot gegn 2. mgr. 264. gr. a almennra hegningarlaga en G sýknaður af broti gegn 1. mgr. ákvæðisins með vísan til þess að sönnun lægi fyrir um að það hefði verið R en ekki G sem hafi átt frumkvæði að samráði þeirra. Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að þeirri skýringu ákvæðis 1. mgr. 264. gr. a sem lögð var til grundvallar í dómi Landsréttar, að máli skipti hvor ákærðu hafi átt frumkvæði að samráði þeirra, yrði hvorki fundin stoð í orðalagi 1. mgr. 264. gr. a né lögskýringargögnum. Var því staðfest niðurstaða Landsréttar um sakfellingu R fyrir brot gegn 2. mgr. 264. gr. a almennra hegningarlaga en G sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. ákvæðisins. Ákærðu var jafnframt gefið að sök peningaþvætti samkvæmt 1. mgr., sbr. 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga. Við flutning málsins fyrir Hæstarétti féll ákæruvaldið frá þeim hluta ákærukaflans er laut að nýtingu ávinnings. Eftir stóð að G var þannig einungis gefið að sök að hafa aflað sér ávinnings af brotum sínum og R. Hæstiréttur vísað til þess að í ákæru væri ekki að finna nánari lýsingu á því í hverju sú öflun fjárvinnings fólst umfram það sem fólst í auðgunarbroti ákærða. Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að ágallar á ákæru fyrir peningaþvætti að því er varðaði G væru svo verulegir að óhjákvæmilegt væri að vísa þeim kafla frá héraðsdómi, sbr. c-lið 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008. Varðandi R vísaði Hæstiréttur til þess að í ákæru væri gerð grein fyrir því í hverju viðbótarathafnir hans við öflun ávinnings fólust eftir fullframningu frumbrotanna. Var því staðfest niðurstaða Landsréttar um sakfellingu R fyrir brot gegn 1. mgr., sbr. 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga. Refsing G var ákveðin 15 mánaða fangelsi en fullnustu 12 mánaða hennar frestað skilorðsbundið í tvö ár en refsing R ákveðin 18 mánaða fangelsi en fullnustu 15 mánaða hennar frestað skilorðsbundið í tvö ár. Þá voru R og G dæmdir til að greiða I ohf. óskipt skaðabætur og nánar tilgreindar eignir þeirra gerðar upptækar með vísan til 69. gr. almennra hegningarlaga og skyldi andvirði upptækra verðmæta verða varið til greiðslu skaðabótakröfu I ohf., sbr. 2. mgr. 69. gr. e laganna.

Dómur Hæstaréttar

1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen, Karl Axelsson og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 20. desember 2021. Ákæruvaldið krefst þess að ákærðu verði sakfelldir samkvæmt ákæru og að refsing þeirra verði þyngd. Jafnframt er þess krafist að niðurstaða Landsréttar um upptöku eigna verði staðfest. Við aðalmeðferð málsins fyrir Hæstarétti féll ákæruvaldið frá þeirri lýsingu á háttsemi í ákærukafla II er varðar peningaþvætti að ákærðu hafi nýtt sér ávinning að tiltekinni fjárhæð.

3. Ákærði Guðberg krefst aðallega frávísunar á ákærukafla II A er varðar peningaþvætti en til vara sýknu. Hann krefst sýknu af ákærukafla I. Verði ekki fallist á frávísunar- og sýknukröfur krefst hann þess að sér verði ákveðin vægasta refsing sem lög leyfa. Jafnframt krefst hann þess að upptökukröfum ákæruvaldsins verði hafnað. Þá krefst hann frávísunar á einkaréttarkröfu Isavia ohf. Til vara krefst hann sýknu af kröfunni og til þrautavara að hún verði lækkuð um þá fjárhæð sem hann hefur þegar greitt til Isavia ohf. Ef fallist verður á upptökukröfu ákæruvaldsins og einkaréttarkröfu Isavia ohf. er þess krafist að upptækir fjármunir verði nýttir til greiðslu á kröfu Isavia ohf., sbr. 1. mgr. 69. gr. e almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

4. Ákærði Rúnar krefst aðallega frávísunar á ákærukafla II B er varðar peningaþvætti en til vara sýknu. Hann krefst sýknu af ákærukafla I. Verði ekki fallist á frávísunar- og sýknukröfur krefst hann þess að sér verði ákveðin vægasta refsing sem lög leyfa. Jafnframt krefst hann þess að upptökukröfum ákæruvaldsins verði hafnað. Þá krefst hann frávísunar á einkaréttarkröfu Isavia ohf. Til vara krefst hann sýknu af kröfunni og til þrautavara að hún verði lækkuð. Ef fallist verður á upptökukröfu ákæruvaldsins og einkaréttarkröfu Isavia ohf. er þess krafist að upptækir fjármunir verði nýttir til greiðslu á kröfu Isavia ohf., sbr. 1. mgr. 69. gr. e almennra hegningarlaga.

5. Af hálfu einkaréttarkröfuhafa, Isavia ohf., er þess krafist að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur um einkaréttarkröfu. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Ágreiningsefni

6. Með ákæru héraðssaksóknara 10. október 2019 voru ákærðu gefin að sök mútubrot, umboðssvik og peningaþvætti á árunum 2015 og 2016.

7. Í kafla I í ákæru voru ákærða Guðberg gefnar að sök mútugreiðslur og hlutdeild í umboðssvikum í störfum sínum sem eiganda, stjórnarmanns og framkvæmdastjóra hjá Boðtækni ehf. Ákærða Rúnari var gefin að sök mútuþægni og umboðssvik í starfi sínu sem þjónustustjóri hjá Isavia ohf. Þetta hafi verið gert á þann hátt að ákærði Guðberg borgaði eða lét borga ákærða Rúnari, án réttmæts tilkalls hans, samtals 3.485.250 krónur í formi þriggja greiðslna frá Boðtækni ehf. til félags ákærða Rúnars, Unique Chillfresh Iceland ehf. Fékk ákærði Guðberg þannig ákærða Rúnar í tvö skipti til að koma því til leiðar, í bága við starfsskyldur hans, að Isavia ohf. greiddi miklu hærra verð en eðlilegt gæti talist fyrir aðgangsmiða í bílastæðahlið sem félagið keypti af Boðtækni ehf., annars vegar í júní 2015 og hins vegar í mars 2016.

8. Í ákæru segir að í aðdraganda fyrri viðskiptanna hefðu ákærðu haft samráð um að ákærði Rúnar myndi í krafti stöðu sinnar hjá Isavia ohf. sjá til þess að félagið keypti aðgangsmiðana á hinu óeðlilega háa verði og skyldi ávinningur af því skiptast jafnt milli ákærða Rúnars og Boðtækni ehf. Ákærði Rúnar samþykkti síðar innan Isavia ohf., í báðum neðangreindum viðskiptum, reikninga Boðtækni ehf. til Isavia ohf. vegna miðakaupanna.

9. Í viðskiptum í júní 2015 hafi Isavia ohf. keypt samtals 760.000 aðgangsmiða af Boðtækni ehf. og greitt fyrir hvern miða annars vegar 5,5 krónur (45.000 miðar) og hins vegar 8,1 krónu (715.000 miðar). Miðana hafi Boðtækni ehf. keypt af þýskum framleiðanda þeirra á 6,1 evru fyrir hverja 1000 miða eða um 0,91 krónu fyrir hvern miða á þáverandi gengi. Í sama mánuði hafi Unique Chillfresh Iceland ehf. gefið út tvo reikninga til Boðtækni ehf., 16. og 30. júní 2015, þann fyrri að fjárhæð 1.000.000 króna auk virðisaukaskatts en hinn að fjárhæð 885.250 krónur auk virðisaukaskatts. Báðir reikningarnir hafi verið áritaðir um að vera fyrir „ráðgjöf“. Boðtækni ehf. greiddi þá með bankamillifærslum 6. og 14. júlí 2015.

10. Í viðskiptum í mars 2016 hafi Isavia ohf. keypt á ný samtals 760.000 aðgangsmiða af Boðtækni ehf. og greitt fyrir hvern þeirra 8,3 krónur. Miðana hafi Boðtækni ehf. keypt af þýskum framleiðanda þeirra á 5,9 evrur fyrir hverja 1000 miða eða um 0,83 krónur fyrir hvern miða á þáverandi gengi. Unique Chillfresh Iceland ehf. hafi svo gefið út reikning til Boðtækni ehf. 4. apríl sama ár, að fjárhæð 1.600.000 krónur auk virðisaukaskatts. Reikningurinn hafi verið áritaður um að vera fyrir „ráðgjöf“. Boðtækni ehf. hafi greitt hann samdægurs með bankamillifærslu.

11. Þá segir í ákæru að fyrrgreindir þrír reikningar Unique Chillfresh Iceland ehf. til Boðtækni ehf. hafi ekki byggst á raunverulegum lögmætum viðskiptum milli félaganna heldur hafi þeir einungis verið yfirvarp fyrir mútugreiðslur til ákærða Rúnars að áðurnefndri fjárhæð, 3.485.250 krónur. Eftirstöðvar ávinnings af brotum ákærðu megi samanlagt áætla að minnsta kosti um 4.546.790 krónur sem hafi orðið eftir hjá Boðtækni ehf.

12. Framangreind brot ákærða Guðbergs voru talin varða við 1. mgr. 264. gr. a og 249. gr., sbr. 1. mgr. og 4. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga, og brot ákærða Rúnars talin varða við 249. gr. og 2. mgr. 264. gr. a sömu laga.

13. Í kafla II A var ákærða Guðberg gefið að sök peningaþvætti með því að hafa aflað félagi sínu Boðtækni ehf. ávinnings af brotum sínum og ákærða Rúnars samkvæmt ákærukafla I og nýtt þann ávinning, sem megi áætla að minnsta kosti um 4.546.790 krónur, í rekstri félagsins.

14. Í kafla II B var ákærða Rúnari gefið að sök peningaþvætti með því að hafa í gegnum félag sitt Unique Chillfresh Iceland ehf., með þeim hætti sem lýst var í ákærukafla I, aflað og nýtt sér ávinning að fjárhæð 3.485.250 krónur af brotum samkvæmt ákærukafla I. Þessi brot ákærðu voru samkvæmt ákæru talin varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga.

15. 15. Í ákæru var þess krafist að ákærðu yrðu dæmdir til refsingar og upptöku á eignum þeirra eftir ákvæðum VII. kafla A almennra hegningarlaga, sbr. einkum 69. gr. og 1. mgr. 69. gr. b, þannig að ákærði Guðberg sætti upptöku á 4.546.790 krónum sem teljast hluti af andvirði eignarhluta hans í fasteigninni […] og ákærði Rúnar sætti upptöku á 3.485.250 krónum sem teljast hluti af andvirði eignarhluta hans í fasteigninni […].

16. Jafnframt gerir Isavia ohf. bótakröfu í málinu en hún hefur tekið breytingum undir rekstri málsins svo sem síðar verður rakið.

17. Ákærði Guðberg var með héraðsdómi 23. júlí 2020 sakfelldur fyrir peningaþvætti og hlutdeild í umboðssvikum en sýknaður af mútubroti, sbr. 1. mgr. 264. gr. a almennra hegningarlaga. Refsing hans var ákveðin fangelsi í níu mánuði en fullnustu hennar frestað í tvö ár. Ákærði Rúnar var með sama dómi sakfelldur fyrir umboðssvik og peningaþvætti en sýknaður af mútubroti, sbr. 2. mgr. 264. gr. a almennra hegningarlaga. Refsing hans var ákveðin fangelsi í tólf mánuði en níu mánuðum refsingarinnar frestað skilorðsbundið í tvö ár. Þá var ákærðu gert að greiða óskipt einkaréttarkröfu Isavia ohf. að fjárhæð 8.868.500 krónur auk vaxta og dráttarvaxta, en hún hafði verði lögð fram í breyttri mynd við aðalmeðferð málsins. Þá féllst héraðsdómur á upptökukröfu vegna ávinnings brotanna.

18. Með hinum áfrýjaða dómi var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að sýkna ákærða Guðberg af broti gegn 1. mgr. 264. gr. a almennra hegningarlaga en ákærði Rúnar sakfelldur fyrir mútuþægni, samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins. Að öðru leyti staðfesti Landsréttur niðurstöðu héraðsdóms um sakfellingu ákærðu fyrir þau hegningarlagabrot sem þeim eru gefin að sök. Einkaréttarkrafa Isavia ohf. var lækkuð í 8.032.040 krónur eða sem nam virðisaukaskatti sem lagður hafði verið á reikninga Unique Chillfresh Iceland ehf. til Boðtækni ehf. Þá staðfesti Landsréttur niðurstöðu héraðsdóms um upptökukröfu en rétt þótti að andvirði upptækra verðmæta yrði varið til greiðslu einkaréttarkröfu, sbr. 1. mgr. 69. gr. e almennra hegningarlaga. Staðfest var ákvæði héraðsdóms um refsingu ákærða Guðbergs en refsing ákærða Rúnars þyngd og honum gert að sæta fangelsi í 15 mánuði og fullnustu 12 mánaða af refsingunni frestað skilorðsbundið.

19. Með ákvörðun Hæstaréttar 10. desember 2021, nr. 2021-277, var veitt leyfi til að áfrýja málinu til réttarins. Í ákvörðuninni sagði að úrlausn þess, meðal annars um beitingu 264. gr. a almennra hegningarlaga og um ákvörðun viðurlaga, kynni að hafa verulega almenna þýðingu í skilningi 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

20. Ágreiningur málsins lýtur að heimfærslu á háttsemi ákærðu til refsiákvæða, meðal annars um túlkun á 264. gr. a almennra hegningarlaga um mútubrot og ákvæðum 1. mgr., sbr. 2. mgr. 264. gr. laganna um sjálfsþvætti sem og um ákvörðun viðurlaga þegar sakfellt er samhliða fyrir frumbrot og peningaþvættisbrot.

Málsatvik

21. Samkvæmt gögnum málsins stofnuðu ákærði Guðberg og eiginkona hans einkahlutafélagið Boðtækni í febrúar 2002.

22. Ákærði Rúnar hóf störf sem þjónustustjóri hjá Isavia ohf. 11. mars 2014 en var sagt upp störfum 19. apríl 2016 af ástæðum ótengdum málinu. Hann stofnaði einkahlutafélagið Unique Chillfresh Iceland 8. apríl 2014 og hefur frá stofnun félagsins verið stjórnarmaður og framkvæmdastjóri þess.

23. A, starfsmaður Boðtækni ehf., sendi 2. febrúar 2015 tölvupóst til ákærða Rúnars og innti hann eftir hvort hann mætti fyrir hönd Boðtækni ehf. gera honum tilboð í miða í aðgangshlið að bílastæðum Isavia ohf. við Keflavíkurflugvöll. Í kjölfarið áttu sér stað samskipti þeirra á milli og með tölvupósti 23. mars 2015 sendi fyrrnefndur A ákærða Rúnari tilboð þar sem boðið var verð frá 2,19 til 2,59 krónur fyrir hvern miða. Með tölvupósti 7. apríl 2015 pantaði ákærði Rúnar fyrir hönd Isavia ohf. 60.000 einfalda hvíta miða hjá Boðtækni ehf. sem höfðu verið keyptir af fyrirtæki í Tékklandi. Hver miði var seldur Isavia ohf. á 2,69 krónur auk virðisaukaskatts en miðarnir reyndust ekki henta. Samkvæmt gögnum málsins hóf A þá að leita fyrir sér með kaup á miðum frá öðrum framleiðanda og fór svo að Boðtækni ehf. keypti 760.000 miða frá þýskum framleiðanda á 90 aura hvern miða. Boðtækni ehf. seldi Isavia ohf. miðana, annars vegar 45.000 miða á 5,50 krónur hvern miða og hins vegar 715.000 miða á 8,10 krónur stykkið, eins og fram kemur í reikningi Boðtækni ehf. til Isavia ohf. 30. júní 2015. Síðar seldi Boðtækni ehf. Isavia ohf. á ný samtals 760.000 miða en á 8,30 krónur hvern miða eins og greinir í reikningi 30. mars 2016. Miðana hafði Boðtækni ehf. keypt af sama framleiðanda og áður á um 83 aura miðann.

24. Í gögnum málsins er að finna tölvubréf frá Isavia ohf. þar sem lýst er leiðbeiningum til handa þeim sem þurfa að samþykkja reikninga til félagsins. Þar segir að svokallaður ábyrgðaraðili „í línu“ staðfesti með samþykki sínu að kostnaður samkvæmt reikningi skuli borinn af viðkomandi deild eða verkefni, að varan eða þjónustan hafi verið móttekin, að rétt magn sé á reikningi, að einingaverð sé rétt og greining kostnaðar rétt skráð.

25. Í minnisblaði frá fjármálasviði Isavia ohf. um samþykki reikninga og ábyrgð uppáskriftaraðila kemur fram að uppáskriftarkerfi félagsins sé á tiltekinni vefslóð og hafi hver uppáskriftaraðili sitt notendanafn og aðgangsorð. Almenna reglan sé að tveir aðilar skrifi upp á hvern reikning, annar „í línu“ og hinn „í haus“. Sá sem kaupi inn, verkefnisstjóri ákveðinna verkefna eða deildarstjóri þeirrar deildar sem innkaupin tilheyri, samþykki línur. Framkvæmdastjóri þess sviðs sem kostnaðinn beri eða sá starfsmaður sem hann feli umsjón og ábyrgð á samþykki kostnaðar samþykki reikningana í heild sinni „í haus“. Með því staðfesti ábyrgðaraðili að rétt hafi verið staðið að innkaupum, þau séu innan rekstraráætlunar og fjárheimild sé til staðar.

26. Í framburði ákærða Rúnars fyrir héraðsdómi kom fram að hann hefði haft mannaforráð í starfi sínu. Hann kvaðst hafa samþykkt reikninga vegna framangreindra kaupa Isavia ohf. á miðunum „í línu“ í kerfum Isavia ohf. Hann kvað svokallaðan ábyrgðaraðila, sem var yfirmaður hans, B, einnig hafa þurft að samþykkja reikningana „í haus“ í kerfum Isavia ohf. til að þess að þeir yrðu greiddir.

27. Í framburði fyrrgreindrar B fyrir héraðsdómi kom fram að hún hefði ekki getað samþykkt þá reikninga sem málið varðar í kerfum Isavia ohf. fyrr en ákærði Rúnar hefði verið búinn að samþykkja þá „í línu“. Hún kvaðst ekki muna sérstaklega eftir þeim reikningum sem málið varðaði. Gríðarlega mikið magn af reikningum hefði farið um hendur hennar og upphæð umræddra reikninga ekki verið þannig að hún skæri sig úr.

28. Í bréfi A, til Isavia ohf. 29. júní 2017 bar hann fram ásakanir á hendur Boðtækni ehf. og ákærða Rúnari í tengslum við kaup Isavia ohf. á miðum í umrædd aðgangshlið að bílastæðum. Leiddi það til þess að Isavia ohf. kærði ákærða Rúnar og „ótilgreinda forsvarsmenn Boðtækni ehf.“ með bréfi til héraðssaksóknara 25. júlí 2017.

29. Samkvæmt framburði A fyrir héraðsdómi voru miðar þýska félagsins ekki dýrari í innkaupum en þeir miðar sem Boðtækni ehf. hafði fengið áður frá hinu tékkneska félagi. Um ástæðu þess að verðið til Isavia ohf. fyrir þýsku miðana hefði þrátt fyrir það verið miklu hærra en það sem félagið hefði áður borgað fyrir tékknesku miðana sagði hann að eftir að hann hefði upplýst ákærða Rúnar um að Boðtækni ehf. gæti boðið nýju miðana á sama verði og þá fyrri hefði ákærði Rúnar hringt í sig. Þar hefði Rúnar reifað tillögu um að hann myndi fyrir hönd Isavia ohf. samþykkja mun hærra verð en A legði til fyrir hönd Boðtækni ehf. gegn því að ákærði Rúnar fengi hluta af því verði sem Isavia ohf. myndi greiða. Vitnið A kvaðst hafa bent ákærða Rúnari á að ræða þetta við ákærða Guðberg. Ákærðu hefðu síðan hist á fundi þar sem þetta hafi verið reifað og það komið fram hjá ákærða Rúnari að hann gæti réttlætt vissa álagningu í krónum talið. Jafnframt hefðu á fundinum verið ræddar hugmyndir um hvernig skipta skyldi ágóða af mismuni á innkaupsverði miðanna og söluverði þeirra til Isavia ohf. Þar hefði einnig verið lagt til að vitnið A fengi 500.000 krónur í sinn hlut en hann kvaðst aldrei hafa farið fram á slíka greiðslu og ekki þegið hana. Ákærðu hafa báðir hafnað þessum framburði vitnisins A en framburður þeirra allra er rakinn ítarlega í héraðsdómi.

30. Við húsleit héraðssaksóknara í húsakynnum Boðtækni ehf. 27. ágúst 2018 fannst í möppu merktri Isavia, undir möppu merktri viðskiptamenn í tölvukerfi fyrirtækisins, Excel-skjal sem bar yfirskriftina verð.xlsx. Það var stofnað 16. júní 2015 og síðast vistað og prentað 14. júlí sama ár. Í skjalinu er að finna útreikninga. Fyrst útreikninga þar sem talan 2,25 er lögð til grundvallar og niðurstaðan er 1.687.500 krónur. Síðan koma útreikningar miðað við 5,5 krónur margfaldaðar með 45.000 og 8,1 krónu margfaldaða með 705.000. Þá er tilgreind skipting þessara upphæða á milli Boðtækni ehf. (1.885.250 krónur), Rúnars (1.885.250 krónur) og að síðustu A (500.000 krónur).

31. Eins og fyrr segir gaf félag ákærða Rúnars, Unique Chillfresh Iceland ehf., út reikning að fjárhæð 1.000.000 króna auk virðisaukaskatts til Boðtækni ehf. 16. júní 2015, reikning að fjárhæð 885.250 krónur auk virðisaukaskatts 30. sama mánaðar og loks reikning að fjárhæð 1.600.000 krónur auk virðisaukaskatts 4. apríl 2016. Reikningarnir voru samkvæmt efni sínu vegna ráðgjafar.

32. Landsréttur lagði mat á trúverðugleika framburðar vitnisins A og beggja ákærðu og taldi framburð vitnisins trúverðugan um atvik málsins auk þess sem hann ætti sér stoð í gögnum málsins. Á hinn bóginn mat Landsréttur framburð ákærðu beggja ótrúverðugan um þau atvik er ákæruefni lýtur að.

33. Um umboðssvik ákærða Rúnars og hlutdeild ákærða Guðbergs í þeim brotum sagði í dómi Landsréttar að samkvæmt framburði fyrrgreinds vitnis B hefði ákærði Rúnar haft heimild til að kaupa miða í aðgangshliðin. Hún hefði samþykkt umrædda reikninga í kjölfar þess að ákærði Rúnar hefði samþykkt þá. Af framburði hennar mætti ráða að það hefði gerst án þess að ákærði hefði verið í einhverjum sérstökum samskiptum við hana vegna þeirra. Landsréttur taldi að það lægi því fyrir að ákærði Rúnar hefði, óháð innanhússreglum Isavia ohf. um samþykki reikninga, í reynd verið í aðstöðu til að skuldbinda félagið til kaupa á miðunum. Samþykki hans á reikningunum hefði leitt til þess að Isavia ohf. hefði orðið skuldbundið til að kaupa miðana. Með þessari háttsemi hefði hann misnotað aðstöðu sína hjá félaginu. Var því fallist á þá niðurstöðu héraðsdóms að háttsemin væri réttilega heimfærð undir 249. gr. almennra hegningarlaga og 1. mgr., sbr. 4. mgr. 22. gr. sömu laga að því er varðaði hlutdeild ákærða Guðbergs.

34. Í niðurstöðu Landsréttar um mútubrot ákærðu var fallist á að sönnun lægi fyrir um að það hefði verið ákærði Rúnar en ekki ákærði Guðberg sem hefði átt frumkvæði að samráði þeirra á milli. Samkvæmt því yrði ekki fallist á að það hefði verið ákærði Guðberg sem hefði „fengið“ ákærða Rúnar „til að gera eitthvað eða láta eitthvað ógert“ með þeim hætti sem lýst væri í 1. mgr. 264. gr. a almennra hegningarlaga. Var því niðurstaða héraðsdóms um sýknu hans af því broti staðfest. Um brot ákærða Rúnars gegn 2. mgr. 264. gr. a almennra hegningarlaga sagði hins vegar að hann hefði misnotað aðstöðu sína hjá Isavia ohf. til að koma því til leiðar að hann öðlaðist ólögmætan ávinning í gegnum félag sitt Unique Chillfresh Iceland ehf. Yrði að líta svo á að með þessari háttsemi hefði hann heimtað, tekið við eða látið lofa sér eða öðrum ávinningi sem hann hefði ekki átt tilkall til og með því gert eitthvað sem falið hafi í sér brot gegn starfsskyldum hans hjá Isavia ohf. Samkvæmt því yrði háttsemi hans heimfærð undir verknaðarlýsingu 2. mgr. 264. gr. a almennra hegningarlaga og hann sakfelldur fyrir brot gegn ákvæðinu.

35. Af hálfu einkaréttarkröfuhafa hefur verið lögð fram greiðslukvittun frá ákærða Guðberg, um að hann hafi 2. nóvember 2021 greitt 6.216.043 krónur sem hann kvað vera „sinn hluta“ í einkaréttarkröfu Isavia ohf.

Málatilbúnaður aðila

Helstu röksemdir ákæruvalds

36. Ákæruvaldið kveður sakfellingu ákærðu samkvæmt ákæruköflum I og II ekki koma til endurskoðunar fyrir Hæstarétti þar sem rétturinn geti ekki endurmetið sönnunargildi munnlegs framburðar ákærðu og vitna sem sakfelling byggi að miklu leyti á. Sýkna Landsréttar af broti ákærða Guðbergs gegn 1. mgr. 264. gr. a almennra hegningarlaga byggist einvörðungu á túlkun réttarins á umræddu ákvæði og refsiskilyrðum þess sem ákæruvaldið leiti eftir að fá hnekkt með áfrýjun málsins. Þá freisti það þess að fá þyngda refsingu þá sem ákveðin var með hinum áfrýjaða dómi.

37. Þá telur ákæruvaldið rökstuðning hins áfrýjaða dóms um sýknu ákærða Guðbergs ekki standast. Af rökstuðningi dómsins megi ráða þann skilning að í tilvikum eins og þessum geti annaðhvort sá sem býður mútur eða sá sem óskar eftir þeim talist hafa framið brot gegn 264. gr. a laganna en ekki þeir báðir. Það sé ekki rétt túlkun á ákvæðinu en ljóst sé að það eigi að taka til brota beggja, annars vegar þess sem greiðir mútur og hins vegar þess sem taki við þeim. Ákæruvaldið vísar til þess að brotið sé tjónsbrot með fullframningarstig fært fram. Í samkomulagi ákærðu hljóti að felast gagnkvæmt loforð um að gera eitthvað eða inna eitthvað af hendi en ekki skipti máli hver eigi frumkvæði að slíku samkomulagi.

38. Ákæruvaldið tekur fram að fá fordæmi séu um túlkun spillingarákvæða almennra hegningarlaga og ekki hafi áður reynt á túlkun 264. gr. a almennra hegningarlaga, sbr. 4. gr. laga nr. 125/2003 um mútubrot og breytingarlög við það ákvæði. Þá sé nauðsynlegt að kveðið sé á um í dómi Hæstaréttar hver skuli vera hæfileg refsing fyrir frumbrot og peningaþvættisbrot þegar sakfellt sé fyrir bæði brotin.

Helstu röksemdir ákærða Guðbergs

39. Ákærði Guðberg gerir ýmsar athugasemdir við mat Landsréttar á trúverðugleika munnlegs framburðar vitna og ákærðu. Einkum eru gerðar athugasemdir við mat Landsréttar á trúverðugleika munnlegs framburðar vitnisins A og ákærðu. Ákærði bendir á að ekkert tengi hann við þá háttsemi sem hann er borinn sökum um nema frásögn vitnisins A.

40. Þá hafnar ákærði því að hafa gerst sekur um hlutdeild í umboðssvikum þar sem ákærði Rúnar hafi ekki verið í aðstöðu til að skuldbinda Isavia ohf. og ákærði Guðberg ekki með réttu getað litið svo á að ákærði Rúnar hefði vald til að skuldbinda félagið. Það hafi einungis verið framkvæmdastjórn Isavia ohf. sem hafi átt að samþykkja eða synja um greiðslu umþrættra reikninga frá Boðtækni ehf., eins og skráðar samþykkisreglur Isavia ohf. beri skýrlega með sér.

41. Varðandi mútubrot ákærða tekur hann undir röksemdir Landsréttar um sýknu af því broti. Ef talið verði að ákærði hafi gerst sekur um umboðssvik er á því byggt að ákvæði 1. mgr. 249. gr. almennra hegningarlaga tæmi sök gagnvart 264. gr. a laganna. Jafnframt krefst ákærði þess að ákæru um peningaþvætti verði vísað frá héraðsdómi þar sem ekkert liggi fyrir um hvaða athafnir hans hafi komið til eftir ætluð frumbrot hans. Um frávísun á þessum kafla ákærunnar vísar hann einkum til dóms Hæstaréttar 2. mars 2022 í máli nr. 46/2021.

42. Ákærði byggir á að einkaréttarkrafa Isavia ohf. sé vanreifuð og hafi tekið margvíslegum breytingum undir rekstri málsins. Upphafleg krafa hafi verið verulega vanreifuð og breytingar á henni fyrir héraðsdómi einnig. Ekki hafi verið sýnt fram á tjón enda liggi ekki fyrir hvort verð miðanna hafi verið óeðlilegt eða hvað skyldi teljast eðlilegt verð. Ekki sé unnt að gera vægari kröfur til sönnunar á tjóni þegar hafðar séu uppi skaðabótakröfur í sakamáli en þegar slíkar kröfur séu hafðar uppi í einkamáli.

Helstu röksemdir ákærða Rúnars

43. Ákærði Rúnar byggir á að háttsemi sín falli ekki að verknaðarlýsingu 249. gr. almennra hegningarlaga þar sem hann hafi ekki verið í aðstöðu eða með umboð til að binda Isavia ohf. til að greiða óeðlilega hátt verð í viðskiptum. Ákærði telur niðurstöðu Landsréttar að þessu leyti ranga bæði með hliðsjón af innri reglum Isavia ohf. og í ljósi munnlegs framburðar í málinu.

44. Um sakfellingu fyrir brot gegn 2. mgr. 264. gr. a almennra hegningarlaga vísar ákærði Rúnar til þess að bæði héraðsdómur og Landsréttur hafi talið sannað að ákærði Guðberg hefði ekki átt frumkvæði að þeirri háttsemi sem ákært er fyrir, líkt og byggt er á í ákæru. Þannig hafi verið komist að þeirri niðurstöðu að ákærði Guðberg hafi ekki boðið honum mútur og leiði það óhjákvæmilega til þess að hann hafi ekki þegið þær. Ekki gangi upp að ætlaður mútugjafi sé sýknaður en mútuþegi sakfelldur. Því sé háttsemi ákærða Rúnars ekki réttilega heimfærð til 2. mgr. 264. gr. a laganna.

45. Þá krefst ákærði þess að ákærukafla II um peningaþvætti samkvæmt 264. gr. almennra hegningarlaga verði vísað frá dómi þar sem ekki sé með neinum hætti gerð grein fyrir því í ákæru í hvaða athöfnum ákærða meint peningaþvætti hafi falist. Þetta standist ekki kröfur c-liðar 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008, sbr. einnig 180. gr. laganna og vísar ákærði jafnframt til fyrrgreinds dóms Hæstaréttar í máli nr. 46/2021.

Löggjöf

Mútugreiðslur og mútuþægni

46. Með 4. gr. laga nr. 125/2003 um breytingar á almennum hegningarlögum og lögum um refsiábyrgð lögaðila vegna mútugreiðslna og hryðjuverka var nýju ákvæði bætt við almenn hegningarlög. Það er í 264. gr. a og var 1. mgr. svohljóðandi á þeim tíma sem sú háttsemi sem lýst er í ákæru átti sér stað:

Hver sem gefur, lofar eða býður manni, sem stjórnar fyrirtæki í atvinnurekstri, þar á meðal fyrirtæki að hluta eða í heild í opinberri eigu, eða innir af hendi störf á vegum þess, gjöf eða annan ávinning, sem hann á ekki tilkall til, í þágu hans eða annarra, til að fá hann til að gera eitthvað eða láta eitthvað ógert í bága við starfsskyldur hans skal sæta fangelsi allt að 3 árum, eða sektum, ef málsbætur eru.

Í 2. mgr. greinarinnar sagði:

Ef maður, sem stjórnar fyrirtæki í atvinnurekstri, þar á meðal fyrirtæki að hluta eða í heild í opinberri eigu, eða innir af hendi störf á vegum þess, heimtar, tekur við eða lætur lofa sér eða öðrum gjöfum eða öðrum ávinningi, sem hann á ekki tilkall til, og gerir með því eitthvað eða lætur eitthvað ógert í bága við starfsskyldur sínar, skal sæta fangelsi allt að 3 árum, eða sektum, ef málsbætur eru.

47. Með 2. gr. laga nr. 66/2018 var ákvæðinu meðal annars breytt á þann veg að refsing samkvæmt 1. mgr. 264. gr. a var hækkuð í allt að fimm ár en samkvæmt 2. mgr. í allt að sex ár. Þessi eða aðrar breytingar á ákvæðinu hafa ekki þýðingu fyrir sakarefni máls þessa.

48. Með fyrrgreindum lögum nr. 125/2003 var ráðist í breytingar á almennum hegningarlögum í því skyni að unnt yrði að fullgilda samning á sviði refsiréttar um spillingu, svonefndan spillingarsamning sem samþykktur var í Strassborg 27. janúar 1999. Fram að gildistöku laganna höfðu almenn hegningarlög ekki að geyma almennt refsiákvæði um mútur.

49. Í almennum athugasemdum við frumvarpið sem varð að lögum nr. 125/2003 segir að í kjölfar samnings um baráttu gegn mútugreiðslum til erlendra opinberra starfsmanna í alþjóðlegum viðskiptum, sem samþykktur var í París 17. desember 1997, hafi verið gerð breyting á 109. gr. almennra hegningarlaga. Hún hafi meðal annars falið í sér að mútugreiðslur til erlendra opinberra starfsmanna og starfsmanna alþjóðastofnana hafi verið gerðar refsiverðar. Þá kemur fram í athugasemdunum að spillingarsamningurinn sé víðtækari en fyrrgreindur mútusamningur, einkum að því leyti að sá fyrrnefndi fjalli bæði um refsiábyrgð mútugjafa og mútuþega í tengslum við innlenda og erlenda starfsemi, í öðru lagi kveði hann á um að mútubrot í tengslum við starfsemi einkaaðila í viðskiptalífi skuli lýst refsiverð og í þriðja lagi felist í honum skuldbinding um að lýsa refsiverða háttsemi sem tengist mönnum sem haft geti áhrif á ákvarðanatöku opinberra starfsmanna. Nauðsynlegt sé að gera breytingar á íslenskri refsilöggjöf vegna þeirra skuldbindinga sem felist í samningnum. Meðal þeirra breytinga sem talin var þörf á að gera var að kveðið yrði á um í almennum hegningarlögum að mútugreiðslur og mútuþægni í starfsemi einkaaðila í viðskiptalífi væru refsiverðar.

50. Í 7. gr. spillingarsamningsins, sem ber yfirskriftina mútuboð innan einkageirans, er kveðið svo á um að samningsaðilar skuli setja lagaákvæði um að það teljist refsiverð háttsemi samkvæmt landslögum að lofa, bjóða eða veita, með beinum eða óbeinum hætti, einstaklingi sem stýrir fyrirtæki innan einkageirans eða gegnir hvaða stöðu sem er innan þess, óviðeigandi ávinning, honum eða einhverjum öðrum til handa, í því skyni að hann hafi uppi tiltekna háttsemi eða láti eitthvað ógert, hvort tveggja í bága við skyldustörf sín.

51. Í 8. gr. spillingarsamningsins, sem ber heitið mútuþága innan einkageirans, segir að samningsaðilar skuli setja lagaákvæði um að það teljist refsiverð háttsemi samkvæmt landslögum þegar einstaklingur sem stýrir fyrirtæki innan einkageirans eða gegnir hvaða stöðu sem er innan þess sækist eftir eða þiggi, með beinum eða óbeinum hætti, óviðeigandi ávinning, honum eða einverjum öðrum til handa, eða þiggi boð um slíkan ávinning eða loforð um hann í því skyni að hann hafi uppi tiltekna háttsemi eða láti eitthvað ógert, hvort tveggja í bága við skyldustörf sín.

52. Í athugasemdum við 4. gr. frumvarpsins kemur fram að með því sé lagt til að lögfest verði almennt refsiákvæði í XXVII. kafla almennra hegningarlaga um mútugreiðslur og mútuþægni í tengslum við starfsemi einkaaðila í viðskiptalífi og væri ákvæðinu ætlað að fullnægja skuldbindingum samkvæmt 7. og 8. gr. spillingarsamningsins. Í fyrri málsgrein ákvæðisins sé kveðið á um mútugreiðslur og um mútuþægni í þeirri síðari.

53. Í athugasemdum við 4. gr. kemur jafnframt fram að gerður sé áskilnaður um að óréttmæt ívilnun miði að því að viðkomandi stjórnandi eða starfsmaður geri eitthvað eða láti eitthvað ógert í bága við starfsskyldur sínar. Þessi áskilnaður um brot á starfsskyldum tengist þeim hagsmunum sem ákvæðinu er ætlað að vernda, það er þeim almenna trúnaði og heiðarleika sem viðkomandi beri að sýna í störfum sínum gagnvart fyrirtækinu. Þá er tekið fram að brot á starfsskyldum sé ekki bundið við brot á ákvæðum í ráðningarsamningi eða skráðum starfsreglum og geti því einnig náð til brota á óskráðum en viðteknum viðhorfum um heiðarleika í samskiptum og trúnað í starfi. Þannig fari móttaka óréttmæts ávinnings oft fram með leynd og án samþykkis yfirmanns og sé því til þess fallin að brjóta trúnað og fara í bága við hagsmuni fyrirtækis.

Umboðssvik

54. Í 249. gr. almennra hegningarlaga segir að ef maður, sem fengið hefur aðstöðu til þess að gera eitthvað sem annar maður verður bundinn við eða hefur fjárreiður fyrir aðra á hendi, misnotar þessa aðstöðu sína varði það fangelsi allt að tveimur árum. Ef sakir eru mjög miklar megi þyngja refsingu í allt að sex ára fangelsi. Í greinargerð með frumvarpi til laganna kemur meðal annars fram að ákvæðið um misnotkun aðstöðu, til að gera eitthvað sem annar maður verður bundinn við, eigi ekki einungis við um umboð heldur og aðra raunverulega aðstöðu til þess að gera eitthvað er bindur annan mann.

Peningaþvætti

55. Í 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga er kveðið á um að hver sem tekur við, nýtir eða aflar sér eða öðrum ávinnings af broti á lögunum eða af refsiverðu broti á öðrum lögum, eða meðal annars umbreytir slíkum ávinningi, flytur hann, sendir, geymir, aðstoðar við afhendingu hans, leynir honum eða upplýsingum um uppruna hans, eðli, staðsetningu eða ráðstöfun ávinnings skuli sæta fangelsi allt að sex árum. Þá segir í 2. mgr., sem fjallar um svokallað sjálfsþvætti, að sá sem framið hefur frumbrot og fremur jafnframt brot samkvæmt 1. mgr. skuli sæta sömu refsingu og þar greinir og ákvæði 77. gr. laganna gildi þá eftir því sem við eigi.

56. Gildissvið 264. gr. almennra hegningarlaga var fært til núverandi horfs með lögum nr. 149/2009 og tekur það til ávinnings af öllum refsiverðum brotum. Um tilurð og skýringu ákvæðisins í þeirri mynd, sbr. 7. gr. laga nr. 149/2009, hefur ítarlega verið fjallað í dómum Hæstaréttar, meðal annars dómi 25. mars 2021 í máli nr. 29/2020 og fyrrgreindum dómi réttarins í máli nr. 46/2021 en að auki í dómum réttarins 13. apríl 2022 í málum nr. 33–35/2021. Við túlkun einstakra verknaðarþátta verði að horfa til þess að peningaþvætti sé í megindráttum hver sú starfsemi sem lýtur að því að fela uppruna og eiganda fjár sem er ávinningur af brotastarfsemi. Meginmarkmiðið sé að gera háttsemina refsiverða og höggva að rótum afbrota með því að uppræta aðalhvata þeirra, þann ávinning sem af þeim kann að leiða.

Upptaka eigna

57. Í 69. gr. almennra hegningarlaga segir að gera megi upptækan ávinning af broti eða fjárhæð sem svari til hans í heild eða að hluta. Sama gildi um muni sem keyptir eru fyrir ávinning eða komið hafi í stað hans. Þegar ekki sé unnt að færa fullar sönnur á fjárhæð ávinnings sé heimilt að áætla fjárhæðina. Í 1. mgr. 69. gr. b kemur fram að gera megi upptæk verðmæti að hluta eða í heild sem tilheyri einstaklingi sem gerst hafi sekur um brot þegar brotið er til þess fallið að hafa í för með sér verulegan ávinning og það getur varðað að minnsta kosti sex ára fangelsi.

58. Í 1. mgr. 69. gr. e laganna er kveðið svo á um að hafi einhver beðið tjón við brot megi ákveða að nýta andvirði upptækra verðmæta til greiðslu á skaðabótakröfu viðkomandi og í 2. mgr. ákvæðisins er kveðið svo á um að hafi dómfelldi greitt skaðabætur til brotaþola í slíkum tilvikum eftir uppkvaðningu dóms skuli lækka þá fjárhæð sem gerð er upptæk í sama hlutfalli.

Niðurstaða

59. Í hinum áfrýjaða dómi sagði um þá háttsemi sem ákærðu er gefin að sök samkvæmt I. kafla ákæru að sannað þætti svo að ekki yrði vefengt með skynsamlegum rökum að ákærðu hefðu, að frumkvæði ákærða Rúnars, haft samráð um að hann myndi í krafti stöðu sinnar hjá Isavia ohf. sjá til þess að félagið keypti aðgangsmiða í bílastæðahlið af Boðtækni ehf. í júní 2015 og mars 2016 á miklu hærra verði en eðlilegt gat talist. Þá hefðu þeir náð samkomulagi um að skipta með sér þeim ávinningi sem næðist á þann hátt svo sem nánar væri tilgreint í ákæru. Teldist jafnframt hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærðu hefðu gert þetta í auðgunarskyni, sbr. 243. gr. almennra hegningarlaga.

60. Að því gættu að mat hins áfrýjaða dóms á sönnunargildi munnlegs framburðar ákærðu og vitna verður ekki endurskoðað fyrir Hæstarétti, sbr. 2. mgr. 225. gr. laga nr. 88/2008, kemur þessu næst til skoðunar heimfærsla umræddrar háttsemi til þeirra ákvæða almennra hegningarlaga sem tilgreind eru í ákæru. Verður þá fyrst tekin afstaða til þess hvort brot ákærða Rúnars verði heimfært til 249. gr. almennra hegningarlaga og brot ákærða Guðbergs til 249. gr. sbr. 1. mgr. og 4. mgr. 22. gr. laganna.

Umboðssvik og hlutdeild í þeim

61. Umboðssvik fela í sér einhliða og ólögmæta misnotkun aðstöðu eða trúnaðar til þess að gera eitthvað eða láta eitthvað ógert sem annar maður eða lögaðili verður bundinn við, enda sé verkið unnið af ásetningi og í auðgunarskyni. Einkennandi fyrir umboðssvikabrot er að með þeim er brugðist trausti og trúnaði þess aðila sem veitt hefur geranda umboð, heimild eða aðra aðstöðu til einstakra fjárhagsráðstafana eða fjárhagsskuldbindinga í þágu aðilans. Brotið felur í sér þrjú efnisatriði. Í fyrsta lagi að gerandi hafi verið í aðstöðu til að skuldbinda annan aðila, í öðru lagi að hann hafi misnotað aðstöðu sína og í þriðja lagi að ráðstöfunin hafi valdið tjóni eða í öllu falli haft í för með sér verulega fjártjónshættu.

62. Niðurstaða Landsréttar um hvort háttsemi ákærðu fellur að verknaðarlýsingu 249. gr. almennra hegningarlaga og 243. gr. laganna um auðgunarásetning er jöfnum höndum byggð á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar ákærðu og vitna svo og þeim sýnilegu sönnunargögnum sem fyrir liggja. Í máli þessu er þetta sönnunarmat samþætt og verður því ekki endurskoðað fyrir Hæstarétti, sbr. 2. mgr. 225. gr. laga nr. 88/2008.

63. Ákærði Rúnar verður samkvæmt framangreindu sakfelldur fyrir brot gegn 249. gr. almennra hegningarlaga en ákærði Guðberg fyrir brot gegn sama refsiákvæði, sbr. 1. mgr. og 4. mgr. 22. gr. sömu laga.

Mútugreiðslur og mútuþægni

64. Í ákæru eru fyrrgreind brot ákærðu jafnframt heimfærð undir 264. gr. a almennra hegningarlaga. Brot ákærða Guðbergs er heimfært undir 1. mgr. þeirrar lagagreinar en brot ákærða Rúnars undir 2. mgr.

65. Í niðurstöðu Landsréttar um mútubrot ákærðu sagði að fallist væri á að sönnun lægi fyrir um að það hefði verið ákærði Rúnar en ekki ákærði Guðberg sem hafi átt frumkvæði að samráði þeirra. Samkvæmt því yrði ekki fallist á að það hefði verið ákærði Guðberg sem hefði „fengið“ ákærða Rúnar „til að gera eitthvað eða láta eitthvað ógert“ með þeim hætti sem lýst væri í 1. mgr. 264. gr. a almennra hegningarlaga. Var því niðurstaða héraðsdóms um sýknu ákærða Guðbergs af því broti staðfest. Jafnframt sagði að sannað væri að ákærðu hefðu að frumkvæði ákærða Rúnars haft samráð um að hann myndi í krafti stöðu sinnar hjá Isavia ohf. sjá til þess að félagið keypti aðgangsmiða af Boðtækni ehf. í júní 2015 og mars 2016 á miklu hærra verði en eðlilegt gat talist fyrir aðgangsmiða í bílastæðahlið félagsins og þeir hafi náð samkomulagi um að skipta með sér þeim ávinningi sem náðist á þann hátt sem nánar væri tilgreint í ákæru. Eins og rakið hefur verið sætir þetta sönnunarmat hins áfrýjaða dóms ekki endurskoðun fyrir Hæstarétti.

66. Með því að talið var sannað samkvæmt hinum áfrýjaða dómi að ákærðu hefðu haft samráð um að ákærði Rúnar myndi koma því til leiðar að Isavia ohf. keypti tilgreinda aðgangsmiða af félagi ákærða Guðbergs, Boðtækni ehf., á miklu hærra verði en eðlilegt gat talist og að þeir hafi samið um að skipta með sér ávinningi af þeirri háttsemi liggur fyrir að ákærði Guðberg lofaði ákærða Rúnari ávinningi sem hann átti ekki réttmætt tilkall til með það að markmiði að fá ákærða Rúnar til að aðhafast í bága við starfsskyldur sínar. Í samningi þeirra fólst gagnkvæmt loforð um að ákærði Rúnar samþykkti reikninga Boðtækni ehf. og ákærði Guðberg greiddi ákærða Rúnari þann ávinning sem hann áskildi sér og greinir í ákæru. Brot ákærðu var fullframið jafnskjótt og hið gagnkvæma samkomulag þeirra komst á.

67. Ákvæði 1. mgr. 264. gr. a almennra hegningarlaga verður samkvæmt framangreindu skýrt með hliðsjón af markmiðum spillingarsamningsins og orðalagi 7. gr. hans, sem haft var til hliðsjónar við setningu ákvæðisins, að refsivert sé að lofa, bjóða eða veita einstaklingi sem stýrir fyrirtæki innan einkageirans, eða gegnir hvaða stöðu sem er innan þess, óviðeigandi ávinning, honum eða einhverjum öðrum til handa ,,í því skyni að hann hafi uppi tiltekna háttsemi eða láti eitthvað ógert”, í bága við skyldustörf sín. Að því virtu verður þeirri skýringu ákvæðisins sem lögð er til grundvallar í hinum áfrýjaða dómi, að máli skipti hvor ákærðu hafi átt frumkvæði að samráði þeirra, hvorki fundin stoð í orðalagi 1. mgr. 264. gr. a né í lögskýringargögnum.

68. Samkvæmt framangreindu verður háttsemi ákærða Guðbergs heimfærð til 1. mgr. 264. gr. a almennra hegningarlaga og hann sakfelldur fyrir brot gegn ákvæðinu og jafnframt staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um heimfærslu brots ákærða Rúnars til 2. mgr. 264. gr. a laganna og sakfellingu hans samkvæmt því.

Peningaþvætti

69. Í II. kafla ákæru er ákærðu gefið að sök peningaþvætti. Við flutning málsins fyrir Hæstarétti féll ákæruvaldið frá þeim hluta ákærukaflans er lýtur að nýtingu ávinnings. Eftir þá breytingu stendur að ákærði Guðberg sé ákærður „fyrir peningaþvætti með því að hafa aflað félagi sínu Boðtækni ehf. ávinnings af brotum sínum og ákærða Rúnars samkvæmt ákærukafla I ... sem má áætla að minnsta kosti 4.546.790 krónur“.

70. Eftir samsvarandi breytingu á kröfugerð ákæruvalds varðandi ákærða Rúnar er honum gefið að sök peningaþvætti „með því að hafa í gegnum félag sitt Unique Chillfresh Iceland ehf., með þeim hætti sem lýst er í ákærukafla I, aflað ... sér ávinnings að fjárhæð 3.485.250 krónur af brotum samkvæmt ákærukafla I“. Um háttsemina er þannig vísað til I. kafla ákæru og hún heimfærð undir 1. mgr., sbr. 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga.

71. Ákvæði 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga, sem leggur refsingu við því þegar maður þvættar ávinning af eigin broti, hefur ekki að geyma sjálfstæða verknaðarlýsingu heldur vísar bæði um lýsingu á verknaði og refsimörk til hins almenna peningaþvættisákvæðis 1. mgr. greinarinnar. Þar er talin upp ýmis sú háttsemi sem felld er undir peningaþvætti, þar á meðal að taka við, nýta eða afla sér eða öðrum ávinnings af broti á lögunum eða af refsiverðu broti á öðrum lögum. Samkvæmt því getur það meðal annars varðað refsingu sem sjálfsþvætti að afla sér ávinnings eða nýta ávinning af eigin broti.

72. Eins og rakið er í fyrrgreindum dómi Hæstaréttar í máli nr. 33/2021, sem fjallaði um ákæru vegna auðgunarbrota og peningaþvættis, reynir á samspil frumbrots og peningaþvættisbrots þegar sjálfsþvætti er talið felast í að nýta eða afla sér ávinnings af eigin broti og frumbrotið er auðgunarbrot. Sameiginlegum verknaðarþætti allra auðgunarbrota er lýst í 243. gr. almennra hegningarlaga en þar segir að fyrir slík brot skuli því aðeins refsa að þau hafi verið framin í auðgunarskyni.

73. Í dóminum var sú háttsemi að hafa nýtt sér ávinning af auðgunarbrotum talin fela í sér sjálfstætt brot samkvæmt 1. mgr., sbr. 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga „sem ekki gat komið til fyrr en eftir fullframningu auðgunarbrotanna“. Var í dóminum ekki fallist á að þau brot gegn 1. mgr. 247. gr. og 249. gr. almennra hegningarlaga sem þar voru til umfjöllunar tæmdu sök gagnvart 264. gr. laganna.

74. Sú háttsemi sem ákærða Guðberg er gefin að sök í II. kafla A ákærunnar felur í sér sjálfstætt brot sem ekki gat komið til fyrr en eftir fullframningu auðgunar- og mútubrota hans og þá með tilgreindri háttsemi sem bar að lýsa í ákæru, sbr. c-lið 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008. Þegar ákæra er á því byggð að ákærði hafi gerst sekur um auðgunarbrot og eftirfarandi háttsemi sem falist hafi í að afla sér ávinnings af auðgunarbroti þannig að um brotasamsteypu teljist vera að ræða er nauðsynlegt að tilgreina í ákæru svo nákvæmlega sem unnt er í hverju sú háttsemi var fólgin eftir fullframningu auðgunarbrots sem talin er fela í sér peningaþvætti. Í II. kafla A ákæru er ákærða Guðberg einungis gefið að sök, eftir þá breytingu sem gerð hefur verið á þessum ákærukafla, að hafa aflað sér ávinnings af brotum sínum og ákærða Rúnars samkvæmt ákærukafla I. Þar er hins vegar ekki að finna nánari lýsingu á því í hverju sú öflun fjárvinnings fólst umfram það sem fólst í auðgunarbroti ákærða og þar með engin lýsing á frekari athöfnum hans sem fallið gætu undir 1. mgr., sbr. 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga. Samkvæmt þessu var í ákæru aðeins lýst öflun þeirra fjármuna sem auðgunarbrot ákærða laut að sem lið í lýsingu þess brots en ekki lýst nánar öflun fjárvinnings í peningaþvættisbroti ákærða. Að þessu virtu eru ágallar á II. kafla A ákæru svo verulegir að óhjákvæmilegt er að vísa þeim kafla frá héraðsdómi, sbr. c-lið 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008.

75. Ákærða Rúnari er gefið að sök í II. kafla B ákæru að hafa aflað sér ávinnings að tilgreindri fjárhæð í gegnum félag sitt Unique Chillfresh Iceland ehf., með þeim hætti sem lýst er í ákærukafla I, sem samkvæmt framansögðu verður að líta á sem hluta af lýsingu á peningaþvættisbrotinu. Þar er gerð grein fyrir því í hverju viðbótarathafnir ákærða við öflun ávinnings fólust eftir fullframningu frumbrotanna. Viðbótarathöfnum ákærða Rúnars sem tengdust fyrrnefndu félagi að því er varðaði öflun ávinnings var þannig lýst með fullnægjandi hætti í ákæru. Verður staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sakfellingu hans vegna brots á 1. mgr., sbr. 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga.

Ákvörðun refsingar

76. Ákærði Guðberg hefur samkvæmt framangreindu verið sakfelldur fyrir hlutdeild í umboðssvikum og mútubrot og ákærði Rúnar fyrir umboðssvik, peningaþvætti og mútubrot. Við ákvörðun refsingar þeirra verður horft til þess að hvorugur hefur áður gerst sekur um refsiverða háttsemi. Jafnframt verður litið til þess hvernig ákvæði 264. gr. a almennra hegningarlaga hljóðaði fyrir gildistöku laga nr. 66/2018 en auk þess ber að líta til þeirra mikilvægu hagsmuna sem ákvæðinu er ætlað að vernda, sbr. 1. tölulið 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga og þess hversu styrkur og einbeittur vilji beggja ákærðu bjó að baki háttsemi þeirra, sbr. 6. tölulið sömu málsgreinar. Þá verður refsing ákærðu ákveðin með hliðsjón af 77. gr. laganna en þau refsiákvæði sem ákærðu hafa gerst brotlegir gegn tæma ekki sök hvert gagnvart öðru.

77. Í ljósi framangreinds er refsing ákærða Guðbergs ákveðin 15 mánaða fangelsi en fullnustu 12 mánaða hennar frestað skilorðsbundið og hún felld niður að tveimur árum liðnum haldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

78. Refsing ákærða Rúnars er ákveðin 18 mánaða fangelsi en fullnustu 15 mánaða hennar frestað skilorðsbundið og hún felld niður að tveimur árum liðnum haldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

Upptökukröfur

79. Ákæruvaldið hefur krafist þess að tilgreindar eignir ákærðu verði gerðar upptækar, einkum með vísan til 69. gr. og 1. mgr. 69. gr. b almennra hegningarlaga.

80. Við ákvörðun um hvort orðið skal við þeirri kröfu er þess að gæta að ákveðin skilyrði þurfa að vera uppfyllt til þess að unnt sé að fallast á hana. Hina almennu heimild til upptöku er að finna í 69. gr. almennra hegningarlaga en samhliða henni má beita 69. gr. b laganna þar sem fram kemur að gera megi upptæk verðmæti að hluta eða í heild sem tilheyri einstaklingi sem gerst hafi sekur um brot. Skilyrði er annars vegar að brotið sé til þess fallið að hafa í för með sér verulegan ávinning og hins vegar að það varði að minnsta kosti sex ára fangelsi.

81. Ákærði Rúnar hefur verið sakfelldur fyrir umboðssvik, peningaþvætti og mútubrot og ákærði Guðberg hefur verið fundinn sekur um hlutdeild í umboðssvikum og mútubrot. Samkvæmt 1. málslið 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga má gera upptækan ávinning af broti eða fjárhæð sem svarar til hans í heild eða hluta en hið síðarnefnda hefur verið nefnt jafnvirðisupptaka. Samkvæmt því er skilyrðum 69. gr. laganna til þess að heimilt sé að fallast á upptökukröfu ákæruvalds fullnægt. Er því fallist á þá niðurstöðu hins áfrýjaða dóms að tilgreindar fjárhæðir sem teljast hluti af andvirði eignarhluta ákærðu í fasteignum þeirra verði gerðar upptækar sem nemur fjárhæð ávinnings ákærðu af brotunum en að andvirði upptækra verðmæta verði varið til greiðslu skaðabótakröfu Isavia ohf., sbr. 1. mgr. 69. gr. e almennra hegningarlaga, en ákærðu bera óskipta ábyrgð á greiðslu kröfunnar. Til lækkunar þeirrar fjárhæðar sem gerð er upptæk kemur þó sú fjárhæð sem ákærði Guðberg greiddi inn á kröfuna 2. nóvember 2021, sbr. 2. mgr. 69. gr. e laganna.

Einkaréttarkrafa

82. Með upphaflegri einkaréttarkröfu Isavia ohf. 18. mars 2019 var þess krafist að ákærðu yrðu óskipt dæmdir til greiðslu skaðabóta samtals að fjárhæð 12.521.800 krónur auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu „af kr. 3.994.600 frá tjónsdegi 30. júní 2015, af kr. 4.263.600 frá tjónsdegi 30. mars 2016 og af kr. 4.263.600 frá tjónsdegi 23. mars 2017 þar til mánuður er liðinn frá birtingu kröfunnar”. Þá var krafist dráttarvaxta af heildarfjárhæðinni samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags.

83. Í þingbók héraðsdóms 16. júní 2020 var bókað að við upphaf málflutnings hafi lögmaður einkaréttarkröfuhafa lagt fram breytta kröfugerð félagsins. Þar var þess krafist að ákærðu yrðu dæmdir óskipt til að greiða Isavia ohf. skaðabætur að fjárhæð 8.868.500 krónur „auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af kr. 4.270.500 frá tjónsdegi 30. júní 2015 og af kr. 4.598.000 frá tjónsdegi 30. mars 2016 þar til mánuður er liðinn frá birtingu kröfunnar.” Dráttarvaxtakrafa var óbreytt frá upphaflegri kröfugerð.

84. Með hinum áfrýjaða dómi voru ákærðu dæmdir til greiða Isavia ohf. óskipt skaðabætur að fjárhæð 8.032.040 krónur auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 4.270.500 krónum frá 30. júní 2015 til 30. mars 2016 en af 8.032.040 krónum frá þeim degi til 5. maí 2019 en dráttarvöxtum af þeirri fjárhæð samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Fyrir Hæstarétti krefst Isavia ohf. staðfestingar þessarar niðurstöðu Landsréttar.

85. Ákærðu krefjast báðir frávísunar á skaðabótakröfunni en til vara sýknu af henni.

86. Samkvæmt nýju skjali sem lagt hefur verið fyrir Hæstarétt hefur ákærði Guðberg greitt 6.216.043 krónur sem hann kveður vera helming kröfunnar miðað við 2. nóvember 2021. Kröfur hans um frávísun skaðabótakröfunnar frá héraðsdómi og til vara sýknu af henni samrýmast ekki fyrirvaralausri greiðslu hans á hluta kröfunnar.

87. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms er staðfest sú niðurstaða að ákærðu hafi með þeirri háttsemi sem þeir hafa verið sakfelldir fyrir bakað sér óskipta skaðabótaábyrgð á 8.032.040 króna tjóni Isavia ohf. Á hinn bóginn breytti einkaréttarkröfuhafi vaxtahluta kröfunnar til hækkunar frá upphaflegri kröfugerð og er hann að auki ekki settur fram með nægilega skýrum hætti. Verður kröfu um vexti eftir 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 því sjálfkrafa vísað frá héraðsdómi vegna vanreifunar. Dráttarvextir verða hins vegar dæmdir af höfuðstól kröfunnar frá 5. maí 2019 til greiðsludags eins og gerð er krafa um. Til frádráttar kemur innborgun ákærða Guðbergs eins og nánar greinir í dómsorði.

88. Ákvæði hins áfrýjaða dóms um málskostnað til handa einkaréttarkröfuhafa er staðfest. Ákærðu greiði honum óskipt málskostnað við að halda kröfu sinni fram fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði, sbr. 3. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008.

Sakarkostnaður og áfrýjunarkostnaður

89. Ákvæði hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað skal vera óraskað.

90. Ákærðu greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðra verjenda sinna sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Vísað er frá héraðsdómi II. kafla A ákæru.

Ákærði, Guðberg Þórhallsson, sæti fangelsi í 15 mánuði en fresta skal fullnustu 12 mánaða af refsingu hans og skal sá hluti hennar falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði, Rúnar Már Sigurvinsson, sæti fangelsi í 18 mánuði en fresta skal fullnustu 15 mánaða af refsingu hans og skal sá hluti hennar falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærðu greiði Isavia ohf. óskipt 8.032.040 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af þeirri fjárhæð frá 5. maí 2019 til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun á kröfuna 2. nóvember 2021 að fjárhæð 6.216.043 krónur. Ákvæði hins áfrýjaða dóms um málskostnað einkaréttarkröfuhafa skal vera óraskað. Ákærðu greiði Isavia ohf. óskipt 400.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Ákærði Rúnar sæti upptöku á 3.485.250 krónum sem teljast hluti af andvirði eignarhluta hans í fasteigninni […] að því marki sem nægir til greiðslu eftirstöðva skaðabótakröfu Isavia ohf.

Ákærði Guðberg sæti upptöku á 4.546.790 krónum sem teljast hluti af andvirði eignarhluta hans í fasteigninni […] að því marki sem nægir til greiðslu eftirstöðva skaðabótakröfu Isavia ohf.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað skal vera óraskað.

Ákærði Rúnar greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Þóris Júlíussonar lögmanns, 1.240.000 krónur.

Ákærði Guðberg greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Vilhjálms Þ. Á. Vilhjálmssonar lögmanns, 1.240.000 krónur.

Ákærðu greiði óskipt annan áfrýjunarkostnað, samtals 206.388 krónur.