Hæstiréttur íslands
Mál nr. 38/2025
Lykilorð
- Kærumál
- Börn
- Forsjá
- Meðdómsmaður
- Úrskurður Landsréttar felldur úr gildi
Reifun
Dómur Hæstaréttar
1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen, Sigurður Tómas Magnússon og Skúli Magnússon.
2. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. maí 2025 en kærumálsgögn bárust réttinum 5. júní sama ár. Kærður er úrskurður Landsréttar 15. maí 2025 þar sem héraðsdómur í málinu var ómerktur og því vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og málinu vísað til efnislegrar úrlausnar fyrir Landsrétti. Þá krefst hann kærumálskostnaðar fyrir Hæstarétti eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.
3. Varnaraðili gerir ekki kröfur fyrir Hæstarétti.
Ágreiningsefni
4. Í málinu deila aðilar um forsjá sonar síns og hvernig háttað skuli lögheimili hans, umgengni og meðlagsgreiðslum. Undir rekstri þess í héraði var dómkvaddur sálfræðingur til að meta aðstæður aðila og barnsins, forsjárhæfni aðila, tengsl barnsins við þau, afstöðu barnsins til búsetu og umgengni og hvernig best yrði háttað umgengni við það foreldri sem ekki fengi forsjá. Eftir að matsgerðin lá fyrir var fallist á beiðni sóknaraðila um dómkvaðningu tveggja yfirmatsmanna. Dómkvaddir voru sálfræðingur og geðlæknir en þess hafði verið beiðst að við mat á forsjárhæfni yrði lagt fyrir aðila persónuleikapróf og skimað fyrir geðröskunum og persónuleikaröskunum. Niðurstöður matsgerðanna tveggja voru ekki samhljóða og gerðu yfirmatsmenn ýmsar athugasemdir við framkvæmd undirmats. Í kjölfarið kvaddi héraðsdómari til setu í dómi tvo sérfróða meðdómsmenn, sálfræðing og geðlækni.
5. Landsréttur komst að þeirri niðurstöðu í hinum kærða úrskurði að ótvírætt væri að sérkunnáttu hefði verið þörf til að taka afstöðu til forsjárhæfni aðila, einkum með hliðsjón af niðurstöðum matsgerðanna tveggja. Eins og málið lægi fyrir hefðu þó ekki verið efni til að kveðja til tvo sérfróða meðdómsmenn til setu í dóminum, sálfræðing og geðlækni, enda lyti sérkunnátta þeirra beggja að sama atriði, það er forsjárhæfni aðila. Þótt yfirmat hefði verið unnið af sálfræðingi og geðlækni væri ekkert í niðurstöðum þess sem kallað hefði á þessa skipan dómsins. Í því sambandi væri til þess að líta að yfirmatið hefði eðli sínu samkvæmt falið í sér endurmat á þeim atriðum sem hinn dómkvaddi sálfræðingur hefði áður metið og ekki hefði reynt þar á atriði sem kölluðu á dómkvaðningu geðlæknis.
6. Kæruleyfi var veitt í málinu 26. júní 2025, með ákvörðun réttarins nr. 2025-104, á þeim grunni að úrlausn um kæruefnið gæti haft fordæmisgildi, sbr. 3. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Niðurstaða
7. Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 91/1991 getur héraðsdómari kvatt til einn meðdómsmann með viðeigandi kunnáttu ef deilt er um staðreyndir sem bornar eru fram sem málsástæður og dómari telur þurfa slíka þekkingu til að leysa úr þeim. Einnig er heimilt að kveðja til tvo sérfróða meðdómsmenn ef dómari telur þurfa sérkunnáttu í dómi á fleiri en einu sviði.
8. Fallist er á með Landsrétti að eins og á stóð hafi ekki verið nauðsynlegt að kveðja til setu í dómi í héraði tvo sérfróða meðdómsmenn á þeim grunni að þörf væri á sérkunnáttu í dómi á fleiru en einu sviði til að leysa úr ágreiningi aðila.
9. Samkvæmt langri dómaframkvæmd leiðir það almennt til ómerkingar héraðsdóms ef sérfróður meðdómsmaður hefur ekki verið kvaddur til setu í dómi þegar þörf hefur verið talin á sérfræðiþekkingu til að leysa úr ágreiningi, enda er skortur á sérfræðiþekkingu í slíkum tilvikum til þess fallinn að hafa áhrif á niðurstöðu málsins, sbr. dóm Hæstaréttar 31. maí 2023 í máli nr. 50/2022. Undantekningar frá þessari dómaframkvæmd er þó að finna í dómum Hæstaréttar 1. nóvember 2001 í máli nr. 31/2001 og 17. september 2009 í máli nr. 38/2009 en í báðum málum var deilt var um forsjá barna.
10. Aftur á móti varðar það almennt ekki ómerkingu þótt sérfróður meðdómsmaður hafi verið kallaður til að ástæðulausu þótt það kunni að sæta aðfinnslu á æðra dómstigi. Er þá haft í huga að þátttaka slíks dómara í meðferð máls er að jafnaði ekki til þess fallin að hafa áhrif á niðurstöðu þess ef ekki hefur reynt á sérkunnáttu hans, sbr. til dæmis dóma Hæstaréttar 16. júní 1994 í máli nr. 221/1991 sem birtur er í dómasafni réttarins það ár á bls. 1397 og 9. desember 2024 í máli nr. 51/2024. Sambærileg rök hníga að því að það eigi almennt ekki að varða ómerkingu þótt dómari hafi ranglega metið sakarefni með þeim hætti að þörf væri á tveimur sérfróðum meðdómsmönnum í stað eins, á þeim grunni að sérkunnáttu væri þörf í dómi á fleiri en einu sviði. Verður þeirri aðstöðu ekki jafnað til þess þegar tveir sérfræðingar á sama sviði hafa verið kallaðir til sem sérfróðir meðdómsmenn, svo sem háttaði til í dómi Hæstaréttar 27. febrúar 2019 í máli nr. 26/2018.
11. Eins og fram kemur í dómi Hæstaréttar 11. nóvember 2021 í máli nr. 21/2021 verður að játa héraðsdómara nokkurt svigrúm við mat á því hvort sérkunnáttu á fleiri en einu sviði sé þörf við skipan dóms. Getur því ekki skilyrðislaust varðað ómerkingu dóms án kröfu að gengið hafi verið lengra en ýtrustu efni voru til með því að kveðja til setu í dómi tvo sérfræðinga, hvorn á sínu sviði. Verður þá einnig að líta til þess að mat héraðsdómara á þörf á sérfróðum meðdómsmönnum fer fram fyrir aðalmeðferð máls meðal annars á grundvelli sérfræðilegra gagna sem aðilar reisa málatilbúnað sinn á og þannig áður en fyllilega er ljóst með hvaða hætti muni reyna á sérkunnáttu við endanlega úrlausn.
12. Svo sem áður greinir lýtur mál þetta einkum að ágreiningi aðila um forsjá og lögheimili barns en samkvæmt 4. mgr. 38. gr. barnalaga nr. 76/2003 skal flýta meðferð slíkra mála. Eins og atvikum er háttað verður ekki séð að skipan dóms í héraði hafi verið til þess fallin að hafa áhrif á niðurstöðu málsins. Að þessu athuguðu og með hliðsjón af öllu framansögðu var ekki nægilegt tilefni til að ómerkja dóm héraðsdóms og vísa málinu aftur heim í hérað. Hinn kærði úrskurður verður því felldur úr gildi og málinu vísað aftur til Landsréttar til efnislegrar meðferðar.
13. Kærumálskostnaður fyrir Hæstarétti verður ekki dæmdur. Um gjafsóknarkostnað sóknaraðila fyrir Hæstarétti fer eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og málinu vísað aftur til Landsréttar til efnislegrar meðferðar.
Kærumálskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður sóknaraðila, B, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, Skúla Sveinssonar, 300.000 krónur.