Hæstiréttur íslands

Mál nr. 12/2025

Ákæruvaldið (Hrafnhildur M. Gunnarsdóttir saksóknari)
gegn
Finni Inga Einarssyni (Karl Georg Sigurbjörnsson lögmaður),
(Einar Gautur Steingrímsson réttargæslumaður )

Lykilorð

  • Kynferðisbrot
  • Nauðgun
  • Sönnun
  • Sönnunarfærsla
  • Einkaréttarkrafa
  • Ómerking dóms Landsréttar að hluta
  • Heimvísun að hluta

Reifun

F var ákærður fyrir nauðgun samkvæmt 1. og 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa með ólögmætri nauðung og með því að neyta aflsmunar haft önnur kynferðismök en samræði við A án samþykkis með því að hafa stungið getnaðarlim sínum í munn hennar þar sem hún sat á salerni og gat ekki spornað við verknaðinum sökum ölvunar. Héraðsdómur hafði sýknað F af sakargiftum en með hinum áfrýjaða dómi var hann sakfelldur fyrir þá háttsemi sem honum var gefin að sök í ákæru og refsing hans ákveðin fangelsi í tvö ár og sex mánuði. Hæstiréttur taldi enga þá ágalla hafa verið á rannsókn lögreglu að ákæranda hafi ekki með réttu verið fært að ákveða hvort sækja skyldi F til sakar og byggja á henni fyrir dómi, sbr. 1. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008. Í dómi Hæstaréttar kom fram að nægilega yrði ráðið af dómi Landsréttar að niðurstaða um sakfellingu hefði verið byggð á heildstæðu mati á sönnunargögnum og við það mat farið að meginreglum 108. og 109. gr. laga nr. 88/2008. Væri ekkert komið fram um að ágallar hefðu verið á aðferð Landsréttar við mat á sönnun. Þá lægju ekki fyrir aðrir annmarkar á meðferð málsins í Landsrétti eða samningu dómsins sem leitt gætu til ómerkingar hans. Væri niðurstaða Landsréttar um sakfellingu F reist á heildstæðu mati á sönnunargögnum, meðal annars sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi sem ekki yrði endurskoðað fyrir Hæstarétti. Var niðurstaða Landsréttar staðfest um þá háttsemi sem F var þar sakfelldur fyrir, heimfærslu hennar til refsiákvæða og refsingu F. Um einkaréttarkröfu brotaþola sem dæmd hafði verið efnislega í Landsrétti tók Hæstiréttur fram að samkvæmt 2. málslið 3. mgr. 196. gr. laga nr. 88/2008 hefði krafa brotaþola fyrir Landsrétti á grundvelli 5. mgr. 193. gr. laganna ekki getað tekið til annars en ómerkingar og heimvísunar ákvæðis héraðsdóms um frávísun einkaréttarkröfunnar. Einkaréttarkrafan hefði því verið dæmd efnislega í Landsrétti í andstöðu við lagafyrirmæli og því óhjákvæmilegt að ómerkja dóminn að því leyti. Með hliðsjón af sjónarmiðum að baki 2. mgr. 208. gr. og 4. mgr. 225. gr. laga nr. 88/2008 var jafnframt ómerkt ákvæði héraðsdóms um frávísun kröfunnar og henni vikið til meðferðar í héraðsdómi í sérstöku einkamáli í samræmi við 175. gr. laga nr. 88/2008.

Dómur Hæstaréttar

1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Skúli Magnússon.

2. Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 3. mars 2025 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Ákæruvaldið krefst þess að niðurstaða Landsréttar um sakfellingu ákærða verði staðfest og refsing hans þyngd.

3. Ákærði krefst aðallega sýknu. Til vara krefst hann vægustu refsingar sem lög leyfa og að einkaréttarkröfu brotaþola verði frávísað en til þrautavara að hann verði dæmdur til vægustu refsingar sem lög leyfa og sýknaður af einkaréttarkröfu.

4. Brotaþoli, A, krefst þess aðallega að vísað verði frá Hæstarétti kröfu ákærða um að „bótakröfu verði frávísað“ en ella að sýknað verði af henni. Til vara krefst hún þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur um miskabætur en að því frágengnu að héraðsdómur verði ómerktur hvað kröfu hennar varðar og málinu að því leyti heimvísað til héraðsdóms.

Ágreiningsefni

5. Með ákæru héraðssaksóknara 13. apríl 2023 var ákærða gefin að sök nauðgun með því að hafa að kvöldi laugardagsins […] 2022 á salerni í […] í Reykjavík, með ólögmætri nauðung og með því að neyta aflsmunar haft önnur kynferðismök en samræði við brotaþola án samþykkis. Ákærða var nánar tiltekið gefið að sök að hafa stungið getnaðarlim sínum í munn brotaþola þar sem hún sat á salerni og notfært sér að hún gat ekki spornað við verknaðinum sökum ölvunar. Brotið var talið varða við 1. og 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

6. Brotaþoli krafði ákærða um 2.000.000 króna miskabætur auk nánar tilgreindra vaxta.

7. Með héraðsdómi 11. janúar 2024 var ákærði sýknaður af kröfum ákæruvalds og einkaréttarkröfu brotaþola vísað frá dómi. Með hinum áfrýjaða dómi 28. nóvember sama ár var ákærði hins vegar sakfelldur fyrir nauðgun og dæmdur til tveggja ára og sex mánaða fangelsisvistar. Þá var fallist á miskabótakröfu brotaþola og ákærði dæmdur til greiðslu alls sakarkostnaðar í héraði og áfrýjunarkostnaðar, þar með talið þóknunar skipaðs réttargæslumanns brotaþola.

8. Áfrýjunarleyfi í málinu var veitt 28. febrúar 2025, með ákvörðun Hæstaréttar nr. 2024-16. Þar kom fram að samkvæmt 4. málslið 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála skyldi verða við ósk ákærðs manns, sem sýknaður er af ákæruefni í héraðsdómi en sakfelldur fyrir Landsrétti, um leyfi til áfrýjunar nema Hæstiréttur teldi ljóst að áfrýjun myndi ekki verða til þess að breyta dómi Landsréttar. Þar sem slíku yrði ekki slegið föstu yrði beiðnin samþykkt. Einnig væri til þess að líta að Landsréttur hefði lagt efnisdóm á skaðabótakröfu brotaþola þótt henni hefði verið vísað frá héraðsdómi.

Málsatvik

9. Lögreglu barst tilkynning skömmu fyrir miðnætti að kvöldi […] 2022 um ætlaða nauðgun í […]. Í skýrslu lögreglu sagði að í samtali við brotaþola á vettvangi hefði meðal annars komið fram að hún hefði verið á árshátíð þar á vegum fyrirtækis sem hún starfaði hjá. Hún hefði drukkið nokkuð mikið af áfengi og verið að dansa en síðan þurft að fara á salerni. Hún hefði girt niður um sig og sest á klósett en þá hefði eiginmaður nafngreindrar samstarfskonu hennar komið að henni, dregið getnaðarlim sinn út um buxnaklauf og sett upp í hana. Við það hefði hún kúgast og ælt en uppgangurinn farið á sokkabuxur og skó hennar. Hún hefði síðar gengið út af salerninu, leitað þar ásjár hjá konu og þær gefið sig fram við öryggisvörð. Hún gat lýst manninum og klæðnaði hans. Við eftirgrennslan lögreglu kom í ljós að ákærði var eiginmaður umræddrar samstarfskonu. Lögregla tók skýrslu af brotaþola síðar um nóttina.

10. Ákærði sem hafði verið á sömu árshátíð var handtekinn sömu nótt fyrir utan […]. Hann hefur bæði við skýrslugjöf hjá lögreglu og fyrir dómi kannast við að hafa komið inn á salernið til brotaþola og rætt við hana en hefur frá upphafi neitað sök.

11. Sýni sem tekin voru af getnaðarlim ákærða og innanverðum nærbuxum hans voru send til rannsóknar hjá Landsmiðstöð fyrir réttarrannsóknir (NFC) í Svíþjóð og þau greind með DNA-greiningaraðferðum. Niðurstöður rannsóknar á stroksýni af lim ákærða leiddu í ljós blöndu DNA-sniða frá að minnsta kosti tveimur einstaklingum. Það snið sem var í meirihluta í sýninu reyndist vera eins og DNA-snið brotaþola en það sem var í minnihluta eins og DNA-snið ákærða sjálfs. Greining á sýni af innanverðri framhlið nærbuxna ákærða leiddi einnig í ljós blöndu DNA-sniða frá að minnsta kosti tveimur einstaklingum. Það snið sem var í meirihluta reyndist vera eins og DNA-snið brotaþola en það sem var í minnihluta ólíkt DNA-sniði ákærða og varð því ekki rakið til hans. Við frumrannsókn á sýni úr munnholi brotaþola komu í ljós stakar sáðfrumur en magn þeirra var hins vegar ekki nægilegt til DNA-greiningar. Engar sáðfrumur komu fram við frumskoðun á sýnum frá tungu, vörum eða kinnum brotaþola.

12. Um málsatvik vísast nánar til héraðsdóms og hins áfrýjaða dóms Landsréttar.

Röksemdir ákærða og ákæruvalds

Helstu röksemdir ákæruvalds

13. Af hálfu ákæruvalds er vísað til þess að niðurstaða Landsréttar um sakfellingu ákærða hafi byggst á heildstæðu mati á sönnunargögnum, þar á meðal rökstuddu mati á trúverðugleika framburðar ákærða og brotaþola þar sem meðal annars hafi verið horft til innra samræmis framburðar þeirra og ytra samræmis við önnur gögn málsins. Ákæruvaldið telur enga ágalla á þeirri aðferð sem beitt hafi verið við sönnunarmat í málinu.

14. Niðurstaða Landsréttar um sakfellingu ákærða hafi einkum byggst á framburði brotaþola sem bæði héraðsdómur og Landsréttur hafi metið trúverðugan og studdan framburði vitna sem rætt hafi við hana á vettvangi og borið um frásögn hennar af atvikinu og slæmt ástand. Aftur á móti hafi framburður ákærða verið ótrúverðugur að mati héraðsdóms og Landsréttar, meðal annars vegna misræmis milli framburðar hans hjá lögreglu og fyrir dómi. Þá hafi verið litið til niðurstöðu DNA-rannsóknar um að lífsýni úr brotaþola hefðu fundist í sýnum sem tekin hefðu verið af getnaðarlim ákærða og innanverðri framhlið nærbuxna hans.

15. Í hinum áfrýjaða dómi hafi einnig verið tekin afstaða til annarra meginatriða í málsvörn ákærða, meðal annars þess að ekki hafi fundist æla á fötum og skóm hans þrátt fyrir frásögn brotaþola um að hún hafi kastað upp eftir að hafa fengið getnaðarlim hans upp í sig. Jafnframt hafi verið tekin afstaða til þeirrar varnar ákærða að ekki hafi fundist sæðisblettir á innanverðum nærbuxum hans þrátt fyrir að sáðfrumur hefðu greinst í sýni úr munnholi brotaþola. Loks hafi Landréttur hafnað röksemdum ákærða um snertismit.

16. Ákæruvaldið bendir á að þótt hvorki sérfræðingur tæknideildar lögreglu né sænskur réttarrannsóknarfræðingur sem rannsakað hafi lífssýnin hafi viljað útiloka að yfirfærsla erfðaefnis úr brotaþola á getnaðarlim og nærbuxur ákærða hefði getað orðið með snertismiti frá höku brotaþola, verði framburður þeirra ekki skilinn á annan veg en að þau hafi talið þá skýringu ákærða ólíklega. Framburður réttarrannsóknarfræðingsins fyrir Landsrétti hafi skýrt nánar hvað átt sé við í rannsóknargögnum með því að erfðaefni frá brotaþola hafi verið í meirihluta í sýnunum í ríkulegu magni. Styrkur og magn þess í sýnunum bendi til þess að um hafi verið að ræða yfirfærslu frá einhvers konar líkamsvessa svo sem munnseyti. Því hafi Landsréttur réttilega hafnað skýringum ákærða um snertismit.

17. Þegar horft sé til framburðar brotaþola sem hafi verið afdráttarlaus frá upphafi um að það hafi verið ákærði sem braut gegn henni sem og annarra gagna málsins og þá einkum niðurstöðu DNA-rannsóknar telur ákæruvaldið þau atriði sem ákærði vísi til ekki þess eðlis að skynsamlegur vafi sé uppi um að hann hafi verið að verki. Ákæruvaldið tekur undir forsendur og niðurstöður Landsréttar um hvað teljist sannað um háttsemi ákærða umrætt sinn.

Helstu röksemdir ákærða

18. Varnir ákærða fyrir Hæstarétti byggjast á því að með hliðsjón af gögnum málsins, rannsókn lögreglu og framburði aðila hafi ákæruvaldi ekki tekist að sýna fram á sekt hans og vísar hann um það til 108. og 109. gr. laga nr. 88/2008. Því sé niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sakfellingu röng.

19. Ákærði telur að Landsrétti hafi verið óheimilt að byggja niðurstöðu sína á framburði sænsks réttarrannsóknarfræðings fyrir dóminum að því leyti sem framburðurinn hafi ekki haft stoð í niðurstöðum DNA-rannsóknar. Ákærði hafi ekki haft tök á að halda uppi fullnægjandi vörnum gegn framburðinum sem lotið hafi að magni og styrkleika erfðaefnis frá brotaþola í sýnum af getnaðarlim og nærbuxum hans.

20. Ákærði byggir á því að ástæða þess að erfðaefni frá brotaþola hafi fundist í fyrrgreindum sýnum sé að hann hafi snert höku brotaþola og erfðaefnið þannig borist á hendur hans. Í kjölfarið hafi hann farið og pissað en við það hafi erfðaefnið borist af höndum hans á getnaðarlim og innanverðar nærbuxur. Sérfræðingur lögreglu hafi í framburði sínum fyrir dómi ekki getað útilokað að um snertismit hafi verið að ræða með framangreindum hætti.

21. Þá byggir ákærði á því að sú staðreynd að æla hafi ekki fundist á fötum hans og skóm útiloki að hann hafi getað verið á salerninu þegar brotaþoli kastaði upp enda hefði hann þá ekki getað komist undan því að fá á sig æluslettur. Ákærði vísar auk þess til framburðar tveggja vitna sem borið hafi fyrir dómi að brotaþoli hafi lýst því að hún hefði bæði ælt á sig sjálfa og ákærða í beinu framhaldi af brotinu.

22. Enn fremur vísar ákærði til þess að sæðisfrumur hafi fundist í sýni sem tekið hafi verið úr munnholi brotaþola. Hann vísar til stinningarvandamála sinna og vottorðs læknis þar um og jafnframt þess að brotaþoli hafi bæði borið að honum hafi ekki orðið sáðfall og neitað því að hafa haft einhvers konar kynmök fyrir brotið. Ekkert sæði hafi fundist í sýni úr nærbuxum ákærða og tæknimaður lögreglu hafi í framburði fyrir dómi talið útilokað að sæðið sem fannst í munnholi brotaþola gæti stafað frá honum. Því hljóti sæðið að stafa frá öðrum en honum.

23. Ákærði telur framangreind sönnunargögn útiloka sekt sína. Landsréttur hafi því dregið rangar ályktanir við sönnunarmat og ekki gætt að þeirri meginreglu sakamálaréttarfars að allan vafa beri að meta ákærða í hag.

24. Ákærði vísar loks til þess að lögregla hafi ekki sinnt lagaskyldu sinni til að rannsaka málið eins og henni bar. Vísar hann um það til niðurstöðu héraðsdóms um að ekki hafi farið fram myndsakbending, framburður hans ekki rannsakaður og skýrsla ekki tekin af eiginkonu hans.

Niðurstaða

Um formhlið málsins

1) Um endurskoðun á niðurstöðu Landsréttar

25. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 er unnt að óska eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja landsréttardómi til Hæstaréttar til að fá endurskoðun á niðurstöðum sem byggðar eru á mati á sönnunargildi annarra gagna en munnlegs framburðar fyrir héraðsdómi eða Landsrétti. Í 5. mgr. 215. gr. laganna er tekið fram að ekki sé heimilt að veita leyfi til að áfrýja dómi Landsréttar til Hæstaréttar til endurskoðunar á mati Landsréttar á sönnunargildi munnlegs framburðar.

26. Hins vegar er samkvæmt d-lið 1. mgr. 215. gr. laganna unnt að óska eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja landsréttardómi til þess að fá ómerkingu á héraðsdómi og landsréttardómi og heimvísun máls. Þá er samkvæmt e-lið sömu málsgreinar unnt að óska eftir slíku til að fá frávísun máls frá héraðsdómi og Landsrétti. Þessa hefur ákærði þó ekki óskað.

27. Ákærði hefur aðallega krafist sýknu af kröfum ákæruvalds en til vara vægustu refsingar sem lög framast leyfa. Varnir hans fyrir Hæstarétti lúta að því að ákæruvaldi hafi ekki tekist að sýna fram á sekt hans. Því sé niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sakfellingu röng. Hann vísar jafnframt til þess að lögregla hafi ekki sinnt lagaskyldu sinni til að rannsaka málið eins og henni bar.

28. Þrátt fyrir málatilbúnað ákærða ber Hæstarétti að eigin frumkvæði að taka til skoðunar hvort annmarkar hafi verið á rannsókn málsins svo og málsmeðferð í héraði eða fyrir Landsrétti, þar á meðal aðferð við sönnunarmat eða rökstuðning í áfrýjuðum dómi, sem teljast fallnir til að hafa áhrif á niðurstöðu þess. Slíkir annmarkar geta leitt til þess að leyfi til áfrýjunar skuli veita, sbr. d-lið 1. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008, og eftir atvikum til frávísunar máls frá héraðsdómi eða ómerkingar dóms og heimvísunar máls, sbr. meðal annars dóma Hæstaréttar 15. október 2020 í máli nr. 16/2020 og 18. febrúar 2021 í máli nr. 30/2020.

2) Um rannsókn lögreglu

29. Samkvæmt 145. gr. laga nr. 88/2008 athugar ákærandi þegar hann hefur fengið gögn máls í hendur og gengið úr skugga um að rannsókn sé lokið hvort sækja skuli sakborning til sakar eða ekki. Ef hann telur það sem fram er komið ekki nægilegt eða líklegt til sakfellis lætur hann við svo búið standa en ella höfðar hann mál á hendur sakborningi samkvæmt 152. gr., sbr. þó 146. gr. laganna.

30. Af rannsókn málsins, sem ítarlegar upplýsingar liggja fyrir um í gögnum þess, verður ekki annað ráðið en að gætt hafi verið fyrirmæla 2. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008 um að þeir sem rannsaki sakamál skuli vinna að því að hið sanna og rétta komi í ljós og gæta jafnt að þeim atriðum sem horfa til sýknu og sektar. Þessi gögn bera jafnframt með sér að fylgt hafi verið fyrirmælum 1. mgr. 54. gr. laganna um það sem rannsaka skal.

31. Samkvæmt 1. mgr. 110. gr. laga nr. 88/2008 er það fyrst og fremst hlutverk ákæruvalds að afla sönnunargagna í sakamáli en ákærði getur þó einnig aflað slíkra gagna, þar á meðal boðað vitni til skýrslutöku á dómþingi, sbr. 1. mgr. 120. gr. og 1. mgr. 165. gr. laganna, telji hann ástæðu til.

32. Ákærði hefur ekki fært rök að því að eiginkona hans hefði getað borið um atvik sem þýðingu gátu haft við rannsókn málsins. Ekkert liggur fyrir um að hún hafi verið vitni að atvikum sem máli kunna að skipta en ákærði óskaði ekki eftir því að hún gæfi skýrslu við meðferð málsins fyrir dómi. Þá er ekkert fram komið um að myndsakbendingar hafi verið þörf við rannsókn málsins, sérstaklega í ljósi þess að brotaþoli benti lögreglu strax á eiginmann nafngreindrar samstarfskonu sinnar sem ætlaðan geranda. Auk þess verður ekki annað séð en að rannsókn lögreglu hafi meðal annars beinst að réttmæti framburðar ákærða í ljósi framburðar vitna og annarra sönnunargagna.

33. Á rannsókn lögreglu voru samkvæmt framansögðu engir þeir ágallar að ákæranda hafi ekki með réttu verið fært að ákveða hvort sækja skyldi ákærða til sakar og byggja á henni málatilbúnað fyrir dómi, sbr. 1. mgr. 53. gr. sömu laga. Því er ekki tilefni til að vísa málinu frá héraðsdómi af sjálfsdáðum.

3) Um málsmeðferð og aðferð við sönnunarmat í hinum áfrýjaða dómi

34. Nægilega verður ráðið af hinum áfrýjaða dómi að niðurstaða um sakfellingu ákærða hafi verið byggð á heildstæðu mati á sönnunargögnum málsins, þar á meðal rökstuddu mati á trúverðugleika ákærða og brotaþola og sönnunargildi munnlegs framburðar þeirra í ljósi munnlegs framburðar vitna og annarra sönnunargagna. Við þetta heildstæða mat var sérstaklega litið til þýðingar niðurstöðu rannsóknar á DNA-sýnum. Í dóminum var jafnframt tekin fullnægjandi afstaða til allra þeirra meginvarna sem ákærði hefur teflt fram um atriði sem hann telur sýna fram á sakleysi sitt eða varpa slíkum vafa á sekt sína að ákæruvaldi hafi ekki lánast sönnun um þá refsiverðu háttsemi sem honum er gefin að sök.

35. Við þetta heildstæða mat var farið að meginreglum 108. og 109. gr. laga nr. 88/2008 sem mæla fyrir um sönnunarbyrði ákæruvalds og að meta skuli hvort nægileg sönnun sem ekki verði vefengd með skynsamlegum rökum sé fram komin um hvert það atriði sem varðar sekt og ákvörðun viðurlaga við broti.

36. Samkvæmt framansögðu er ekkert fram komið um að ágallar hafi verið á aðferð Landsréttar við mat á sönnun um þá háttsemi ákærða sem lýst er í ákæru og þau atriði sem máli gátu skipt við hið heildstæða sönnunarmat sem niðurstaða réttarins er reist á og áður hefur verið gerð grein fyrir. Þá liggja ekki fyrir aðrir annmarkar á meðferð málsins í Landsrétti eða við samningu dómsins sem leitt geta til ómerkingar hans og heimvísunar málsins til nýrrar meðferðar fyrir Landsrétti.

Um sönnun fyrir sekt ákærða, heimfærslu brots og refsingu

37. Hæstarétti er þröngur stakkur skorinn við endurskoðun á sönnunarmati Landsréttar að því leyti sem það byggist á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar ákærða og vitna fyrir dómi sem hluta af heildarmati á sönnun, enda ekki heimilt að veita leyfi til áfrýjunar á dómi Landsréttar til Hæstaréttar til endurskoðunar á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar, sbr. 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008.

38. Svo sem áður greinir var ákærði með hinum áfrýjaða dómi sakfelldur fyrir nauðgun. Sú niðurstaða var reist á heildstæðu mati á framkomnum sönnunargögnum, meðal annars sönnunargildi munnlegs framburðar ákærða og brotaþola fyrir dómi sem samkvæmt framansögðu verður ekki endurskoðað efnislega fyrir Hæstarétti. Að því gættu verður staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um þá háttsemi sem ákærði er þar sakfelldur fyrir.

39. Háttsemi ákærða er í ákæru heimfærð til 1. og 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga. Með 3. gr. laga nr. 61/2007 um breyting á almennum hegningarlögum var efni 194. gr. laganna um nauðgun rýmkað verulega með því að kynferðisleg misneyting sem áður var refsiverð samkvæmt 196. gr. laganna var skilgreind sem nauðgun í nýrri 2. mgr. 194. gr. þeirra. Það ákvæði var síðan rýmkað enn frekar með lögum nr. 16/2018 um breyting á almennum hegningarlögum með því að sú háttsemi að beita blekkingum eða notfæra sér villu viðkomandi um aðstæður var bætt við verknaðarlýsingu ákvæðisins.

40. Háttsemi sem felld er undir hvort heldur 1. eða 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga telst samkvæmt framansögðu nauðgun og eru refsimörk ákvæðanna þau sömu. Eins og 2. mgr. 194. gr. er orðuð felur ákvæðið í sér viðbótarverknaðarlýsingu við 1. mgr. greinarinnar. Þegar háttsemi hefur verið heimfærð til bæði 1. og 2. mgr. í ákæru hefur í dómaframkvæmd Hæstaréttar verið fjallað sjálfstætt um hvort háttsemi sem lýst er í ákæru og telst sönnuð falli að verknaðarlýsingu hvorrar málsgreinar um sig og brot eftir atvikum heimfærð undir þær báðar, sbr. til dæmis dóm Hæstaréttar 28. apríl 2016 í máli nr. 748/2015.

41. Þar sem niðurstaða hins áfrýjaða dóms um heimfærslu háttsemi ákærða til beggja refsiákvæðanna fær stoð í dómaframkvæmd Hæstaréttar og er efnislega meðal annars reist á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi sem ekki verður endurskoðað fyrir Hæstarétti verður heimfærsla háttseminnar til refsiákvæða í hinum áfrýjaða dómi staðfest með vísan til forsendna hans.

42. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður jafnframt staðfest niðurstaða hans um refsingu ákærða.

Um einkaréttarkröfu brotaþola

43. Í tilkynningu ákærða til ríkissaksóknara þar sem óskað var áfrýjunar málsins til Hæstaréttar sagði meðal annars að ákærði óskaði áfrýjunar í heild sinni og áfrýjun tæki til a- til c-liða 1. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Í tilkynningunni var þess á hinn bóginn ekki getið að leitað væri endurskoðunar á einkaréttarkröfu samkvæmt XXVI. kafla laganna sem dæmd hefði verið að efni til í Landsrétti, sbr. 3. mgr. sömu lagagreinar.

44. Samkvæmt 2. mgr. 217. gr. laganna var nauðsynlegt skilyrði þess að um kröfuna yrði fjallað hér fyrir dómi að í umsókninni væri tekið nákvæmlega fram í hvaða skyni áfrýjað væri og hverjar dómkröfur ákærða væru, þar á meðal varðandi kröfur samkvæmt XXVI. kafla laganna. Af þessum sökum kemur krafa ákærða um endurskoðun á dæmdri einkaréttarkröfu í Landsrétti ekki til úrlausnar fyrir Hæstarétti nema að því leyti sem réttinum er skylt að taka afstöðu til hennar án kröfu, sbr. dóm réttarins 27. október 2016 í máli nr. 400/2016.

45. Héraðsdómur sýknaði ákærða af kröfum ákæruvalds og í samræmi við það var einkaréttarkröfu brotaþola vísað af sjálfsdáðum frá dómi eins og mælt er fyrir í 2. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008.

46. Í samræmi við heimild í 5. mgr. 193. gr. laga nr. 88/2008, eins og þeim var breytt með lögum nr. 61/2022, gat brotaþoli án kæru komið að kröfu um ómerkingu og heimvísun hvað einkaréttarkröfuna varðaði við meðferð hins áfrýjaða máls fyrir Landsrétti eftir fyrirmælum 4. mgr. 199. gr., d-liðar 2. mgr. og 4. mgr. 201. og 203. gr. laganna.

47. Í greinargerð brotaþola til Landsréttar krafðist hún endurskoðunar á niðurstöðu héraðsdóms um einkaréttarkröfuna með þeim hætti að hún gerði kröfu um að ákærði yrði dæmdur til að greiða sér 2.000.000 króna auk vaxta og þóknunar réttargæslumanns.

48. Samkvæmt 2. málslið 3. mgr. 196. gr. laga nr. 88/2008 gat krafa brotaþola um endurskoðun Landsréttar á héraðsdómi á grundvelli 5. mgr. 193. gr. laganna ekki tekið til annars en ómerkingar og heimvísunar ákvæðis héraðsdóms um frávísun einkaréttarkröfunnar en ekki til þess að hún yrði dæmd efnislega, enda hafði héraðsdómur ekki tekið efnislega afstöðu til kröfunnar.

49. Þar sem Landsréttur sakfelldi ákærða samkvæmt ákæru og komst þannig að gagnstæðri niðurstöðu en héraðsdómur sem sýknað hafði ákærða var Landsrétti samkvæmt framansögðu óheimilt að taka einkaréttarkröfuna til efnislegrar meðferðar en bar eins og á stóð þrátt fyrir kröfugerð brotaþola að ómerkja héraðsdóm hvað frávísun hennar varðaði. Jafnframt bar Landsrétti samkvæmt fyrirmælum 2. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 að víkja þeirri kröfu til meðferðar í héraðsdómi í sérstöku einkamáli í samræmi við ákvæði 175. gr. laganna. Einkaréttarkrafa brotaþola getur því ekki að réttu lagi komið til efnislegrar úrlausnar Hæstaréttar samhliða áfrýjun ákærða á niðurstöðu Landsréttar um sakfellingu hans.

50. Samkvæmt þessu liggur fyrir að einkaréttarkrafan var dæmd efnislega í Landsrétti í andstöðu við þau lagafyrirmæli sem vísað hefur verið til að framan. Með því að dómur Landsréttar um sakfellingu ákærða verður staðfestur er óhjákvæmilegt að ómerkja þau ákvæði dómsins sem lúta að einkaréttarkröfunni. Með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem 2. mgr. 208. gr. og 4. mgr. 225. gr. laga nr. 88/2008 byggjast á verður ákvæði héraðsdóms um frávísun kröfunnar jafnframt ómerkt og henni vikið til meðferðar í héraðsdómi í sérstöku einkamáli í samræmi við ákvæði 175. gr. laganna.

Um sakarkostnað og fleira

51. Ákvæði hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað verða staðfest að öðru leyti en um þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola.

52. Ákærða verður gert að greiða áfrýjunarkostnað málsins fyrir Hæstarétti, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, sem ákveðin eru með virðisaukaskatti eins og segir í dómsorði.

53. Í ljósi niðurstöðu málsins um einkaréttarkröfu brotaþola verður ákærði ekki dæmdur til að greiða þóknun réttargæslumanns hennar á öllum dómstigum sem hluta af sakarkostnaði heldur greiðist hún úr ríkissjóði eins og segir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður um annað en einkaréttarkröfu brotaþola, A, og sakarkostnað.

Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur að því er varðar einkaréttarkröfu brotaþola og jafnframt ákvæði héraðsdóms um frávísun þeirrar kröfu og er þeim hluta málsins vísað aftur heim í hérað til löglegrar meðferðar í samræmi við 175. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og dómsálagningar að nýju.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað eru staðfest að öðru leyti en um þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola.

Þóknun réttargæslumanns brotaþola fyrir héraðsdómi og Landsrétti, Gunnhildar Pétursdóttur lögmanns, 1.744.800 krónur, og réttargæslumanns brotaþola fyrir Hæstarétti, Einars Gauts Steingrímssonar lögmanns, 334.800 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

Ákærði, Finnur Ingi Einarsson, greiði annan áfrýjunarkostnað fyrir Hæstarétti, samtals 1.339.744 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Karls Georgs Sigurbjörnssonar lögmanns, 1.171.800 krónur.