Hæstiréttur íslands

Mál nr. 22/2025

A (Berglind Svavarsdóttir lögmaður)
gegn
B (Sævar þór Jónsson lögmaður)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjárslit
  • Opinber skipti
  • Óvígð sambúð
  • Kröfugerð

Reifun

Kærður var úrskurður Landsréttar þar sem leyst var úr ágreiningi A og B um skiptingu á söluandvirði fasteignar við opinber skipti til fjárslita milli þeirra. Með hinum kærða úrskurði var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að skipta söluandvirði fasteignarinnar að frádregnum áhvílandi skuldum þannig að 55% kæmu í hlut A en 45% í hlut B. Fyrir Hæstarétti laut ágreiningur aðila að beitingu síðari málsliðar 2. mgr. 109. gr. laga nr. 20/1991 en A byggði á því að úrskurður héraðsdóms sem staðfestur var með hinum kærða úrskurði hefði verið í ósamræmi við greinina. Byggði A á því að samkvæmt 2. mgr. 109. gr. laga nr. 20/1991 hefði borið að draga frá eignarhluta hvors um sig helmingshlut hvors þeirra í eftirstöðvum lána sem hvíldu á eigninni. Í niðurstöðu Hæstaréttar var vísað til þess að áhvílandi skuldir á eigninni hefðu hvílt í jöfnum hlutum á A og B. Með því að draga skuldirnar í heild sinni frá söluverðinu og skipta síðan hreinni eign á milli aðila hefði ekki verið tekið tillit til þess munar sem var á eignarhlutum þeirra andspænis jafnri ábyrgð á skuldum sem hvíldu á eigninni. Í stað þess hefði borið að skipta söluandvirði eftir reglum 109. gr. laga nr. 20/1991 í þeim hlutföllum komist hafði verið að niðurstöðu um í hinum kærða úrskurði en draga að því búnu helmingshlut hvors þeirra í áhvílandi skuldum eignarinnar frá hlut hvors um sig. Var krafa A því tekin til greina.

Dómur Hæstaréttar

1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Karl Axelsson, Sigurður Tómas Magnússon og Skúli Magnússon.

2. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. febrúar 2025 en kærumálsgögn bárust réttinum 27. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Landsréttar 7. þess mánaðar þar sem leyst var úr ágreiningi aðila um skiptingu á söluandvirði fasteignar við opinber skipti til fjárslita milli þeirra.

3. Sóknaraðili krefst þess að viðurkennt verði að frá 55% hlut hans í söluandvirði fasteignarinnar […] í Reykjavík verði dreginn helmingshlutur skulda sem hvíldu á eigninni og gerðar voru upp við sölu hennar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar fyrir Landsrétti og Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt fyrir Hæstarétti.

4. Varnaraðili kærði úrskurð Landsréttar fyrir sitt leyti 6. mars 2025. Hún krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar um annað en málskostnað. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar fyrir Landsrétti og Hæstarétti.

Ágreiningsefni

5. Málið lýtur að ágreiningi aðila við opinber skipti til fjárslita milli þeirra í kjölfar þess að þau slitu óvígðri sambúð sinni. Einkum hafa þau deilt um skiptingu söluandvirðis fasteignarinnar […] sem þau keyptu meðan á sambúðinni stóð. Auk þess hafa þau gert kröfur hvort á hendur öðru um endurgjald vegna hagnýtingar eignarinnar eftir slit sambúðar. Þá hefur varnaraðili krafist þess að sóknaraðila verði gert að greiða þóknun skiptastjóra.

6. Í úrskurði héraðsdóms 29. nóvember 2024 var komist að þeirri niðurstöðu að skipta bæri hreinu söluandvirði fasteignarinnar, það er að frádregnum áhvílandi skuldum og kostnaði, þannig að 55% kæmu í hlut sóknaraðila en 45% í hlut varnaraðila. Þá var vísað frá dómi kröfu sóknaraðila um viðurkenningu á því að hann ætti rétt til endurgjalds úr hendi varnaraðila vegna búsetu hennar á eigninni eftir slit sambúðar og kröfu varnaraðila um að sóknaraðila yrði gert að greiða þóknun skiptastjóra.

7. Með hinum kærða úrskurði var úrskurður héraðsdóms staðfestur. Einnig var vísað frá Landsrétti kröfu varnaraðila um endurgjald vegna afnota sóknaraðila af fasteigninni eftir að sambúðinni lauk.

8. Kæruleyfi í málinu var veitt 1. apríl 2025, með ákvörðun réttarins nr. 2025-25, á þeim grunni að dómur í því gæti haft fordæmisgildi um beitingu síðari málsliðar 2. mgr. 109. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Kæruleyfið var því bundið við það atriði. Verða málsatvik og málsástæður aðila raktar hér í framhaldinu að því marki sem efni eru til miðað við það sakarefni sem er til úrlausnar.

Málsatvik

9. Málsaðilar stofnuðu til óvígðrar sambúðar árið 2012. Fyrir hana átti sóknaraðili tvö börn, dóttur fædda […] og son fæddan […], og varnaraðili dóttur, fædda […]. Þau eignuðust síðan son árið […]. Aðilar slitu sambúðinni en ber ekki saman um hvort það hafi verið á árinu 2018 eða 2019. Við sambúðarslitin seldu þau fasteign sem þau áttu að jöfnum hlut og keyptu í kjölfarið hvort sína fasteignina.

10. Aðilar hófu aftur óvígða sambúð […] 2021. Í kjölfarið seldu þau bæði fasteignir sínar og keyptu [...] það ár saman, í jöfnum hlutum, fasteignina […] í Reykjavík. Afsal til þeirra fyrir eigninni var gefið út [...] 2022. Um var að ræða parhús sem mun hafa verið fokhelt og lóð ófrágengin. Kaupverð eignarinnar nam 79.500.000 krónum og var það einkum fjármagnað með söluandvirði fyrrgreindra fasteigna aðila og láni frá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Fyrir því gáfu aðilar út veðskuldabréf 30. september 2021 að fjárhæð 45.000.000 króna. Þetta lán var síðar gert upp með tveimur nýjum lánum frá sama lánveitanda samkvæmt veðskuldabréfum 19. ágúst 2022, annars vegar að fjárhæð 12.000.000 króna og hins vegar 28.300.000 krónur. Lán þessi tóku aðilar óskipt og er ágreiningslaust með þeim að þau hafi átt að greiða lánin að jöfnu.

11. Hinn [...] 2022 lauk dánarbússkiptum eftir föður sóknaraðila og fékk hann rúmar 29 milljónir króna í arf. Þeim fjármunum mun að verulegu leyti hafa verið ráðstafað til framkvæmda á umræddri fasteign aðila.

12. Í [...] 2023 slitu aðilar sambúð sinni. Að kröfu varnaraðila var ákveðið með úrskurði héraðsdóms [...] sama ár að fram færu opinber skipti til fjárslita milli þeirra. Undir þeim skiptum var áðurnefnd fasteign þeirra seld [...] það ár og nam söluandvirðið 139.000.000 króna. Við sölu eignarinnar voru gerð upp fyrrgreind veðskuldabréf 19. ágúst 2022.

13. Með bréfi skiptastjóra 15. febrúar 2024 var vísað til úrlausnar héraðsdóms ágreiningi aðila um skiptingu söluandvirðis fasteignarinnar og kröfum þeirra á hendur hvort öðru um að endurgjald vegna afnota af eigninni kæmi til uppgjörs við skiptin.

Málsástæður aðila

14. Sóknaraðili heldur því fram að úrskurður héraðsdóms, sem staðfestur var með hinum kærða úrskurði, hafi verið í ósamræmi við 2. mgr. 109. gr. laga nr. 20/1991. Hann telur að samkvæmt því ákvæði beri að draga frá eignum hvors aðila um sig þær skuldir sem viðkomandi hafi gengist undir. Í samræmi við þetta og málatilbúnað sóknaraðila hafi borið að draga frá eignarhluta hvors um sig í fasteigninni […] helmingshlut hvors þeirra í eftirstöðvum lána sem hvíldu á henni. Þannig hafi í tilviki sóknaraðila átt að draga helming lánanna frá 55% hlut hans í eigninni og í tilviki varnaraðila sömu fjárhæð frá 45% hlut hennar í andvirðinu miðað við þá skiptingu sem lögð hafi verið til grundvallar í hinum kærða úrskurði.

15. Sóknaraðili bendir á að hlutur hans í söluandvirði eignarinnar verði um tveimur milljónum króna lægri en ella með því að draga lán er hvíldu á eigninni frá heildarsöluandvirði og skipta því síðan milli aðila í fyrrgreindum hlutföllum. Þá bendir sóknaraðili á að varnaraðili hafi ekki byggt á því að fara ætti með lánin á þennan veg við skiptingu söluandvirðisins.

16. Varnaraðili heldur því fram að sóknaraðili hafi ekki haft uppi kröfu um að draga ætti hlutdeild aðila í sameiginlegum lánum frá „ákvarðaðri eignarhlutdeild hvors um sig“. Þvert á móti hafi sóknaraðili krafist þess að til frádráttar kæmi „helmingshlutdeild“ í lánum eins og þau voru uppgerð við sölu fasteignarinnar án tillits til þinglýstra eignarheimilda eða þeirrar eignarhlutdeildar sem yrði ákveðin. Niðurstaða Landsréttar hafi því verið í samræmi við kröfugerð sóknaraðila og hann ráðstafað sakarefninu hvað þetta varðar. Við þetta séu dómstólar bundnir og geti samkvæmt 1. mgr. 111. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála ekki farið út fyrir kröfugerð aðila, sbr. 2. mgr. 131. gr. laga nr. 20/1991. Þess utan telur varnaraðili að niðurstaða á lægri dómstigum hafi að þessu leyti verið í samræmi við 2. mgr. 109. gr. síðastgreindra laga.

Niðurstaða

17. Kæra sóknaraðila barst Landsrétti 20. febrúar 2025. Kæran ásamt beiðni um kæruleyfi barst síðan Hæstarétti 22. sama mánaðar. Kærumálsgögn voru afhent Hæstarétti 27. þess mánaðar eða innan vikufrests samkvæmt 2. mgr. 171. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 3. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991. Frestur varnaraðila til að skila greinargerð rann því út viku síðar eða 6. mars, sbr. 1. mgr. 172. gr. laga nr. 91/1991. Þann dag barst Landsrétti gagnkæra varnaraðila og kom hún því tímanlega fram, sbr. 5. mgr. 174. gr. og 3. mgr. 177. gr. laganna. Um þetta má benda á dóma Hæstaréttar 1. febrúar 2013 í máli nr. 33/2013 og 5. mars 2015 í máli nr. 89/2015.

18. Með hinum kærða úrskurði var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að hreint söluandvirði fasteignarinnar […], það er söluverð að frádregnum áhvílandi skuldum og kostnaði, skyldi skipt þannig milli aðila að 55% kæmu í hlut sóknaraðila en 45% í hlut varnaraðila. Eins og fyrr segir er hér fyrir dómi aðeins til úrlausnar hvort sú aðferð að draga eftirstöðvar skulda sem hvíldu á eigninni frá söluverðinu í heild sinni og skipta eftirstöðvunum að svo búnu milli aðila í umræddum hlutföllum sé í samræmi við 2. mgr. 109. gr. laga nr. 20/1991.

19. Samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 20/1991 skal við opinber skipti til fjárslita milli hjóna eða sambýlisfólks greina á milli þeirra eigna sem tilheyra hvorum aðila fyrir sig og þeirra sem tilheyra þeim í sameiningu. Eins skal farið með skuldir hvors um sig og þær skuldir sem beinast að þeim báðum í senn. Í 2. mgr. greinarinnar segir því næst að þegar ákveðið er hvað hvor aðili eigi að fá í sinn hlut skuli lagt saman varðandi hvorn þeirra fyrir sig verðmæti eigna, sem tilheyra honum einum, og verðmæti hlutdeildar hans í því sem hann á í sameign með gagnaðilanum. Frá þessari heildareign hvors um sig skal síðan dregin fjárhæð skulda, sem beinast að hvoru þeirra, ásamt hlutdeild hvors í sameiginlegum skuldum. Þá stendur í 4. mgr. greinarinnar að eigi annar aðilinn eignir umfram skuldir skuli hrein eign hans koma til skipta milli þeirra beggja eftir því sem leitt verður af reglum um fjármál hjóna eða sambýlisfólks.

20. Í skýringum við 109. gr. laga nr. 20/1991 í greinargerð með frumvarpi til laganna kom fram að ákvæðið byggðist á því að hvor aðilinn um sig ætti rétt á því að fá fyrst í stað reiknaða sér til handa fjárhæð af andvirði sinna eigin eigna á móti sínum eigin skuldum og yrði þá talið með andvirði hlutdeildar hans í sérstökum sameignum aðilanna og hlutdeild hans í sameiginlegum skuldum þeirra, sbr. 2. mgr. greinarinnar. Ef andvirði eigna væri meira en næmi skuldum hans ætti hann rétt á að fá sér reiknaða þá hlutdeild í hreinu eigninni sem leiddi eftir atvikum af reglum um fjármál hjóna eða sambýlisfólks, sbr. 4. mgr. greinarinnar, en gagnaðila hans yrði þá færð sín hlutdeild í þeirri hreinu eign eftir sömu reglum. Yrði sú millifærsla aðilanna gagnkvæm ef þeir ættu báðir eignir umfram skuldir. Með þessum hætti væri reiknaður tölulegur stofn handa hvorum aðilanum um sig.

21. Eins og áður greinir var í hinum kærða úrskurði staðfest niðurstaða héraðsdóms um að skipta söluandvirði fasteignarinnar að frádregnum áhvílandi skuldum þannig að 55% kæmu í hlut sóknaraðila en 45% í hlut varnaraðila. Er sú niðurstaða sem fyrr segir ekki til endurskoðunar hér. Áhvílandi skuldir á eigninni hvíldu hins vegar í jöfnum hlutum á málsaðilum. Með því að draga skuldirnar í heild sinni frá söluverðinu og skipta síðan hreinni eign á milli aðila var ekki tekið tillit til þess munar sem var á eignarhlutum þeirra andspænis jafnri ábyrgð á skuldum sem hvíldu á eigninni. Niðurstaðan var því í ósamræmi við þá meginreglu að sambúðarfólk beri aðeins ábyrgð á eigin skuldum en ekki skuldum sambúðarmaka. Í stað þessa bar að skipta söluandvirði eftir reglum 109. gr. laga nr. 20/1991, eins og kröfugerð sóknaraðila tók frá öndverðu mið af, en meðferð skulda að þessu leyti var hluti af því ágreiningsefni sem skiptastjóri beindi til meðferðar fyrir dómi.

22. Samkvæmt þessu ber að skipta söluandvirði umræddrar fasteignar milli aðila í fyrrgreindum hlutföllum en draga að því búnu helmingshlut hvors þeirra í áhvílandi skuldum eignarinnar frá hlut hvors um sig. Krafa sóknaraðila þess efnis verður því tekin til greina á þann veg sem í dómsorði greinir.

23. Það athugast að í málinu gerði sóknaraðili þá kröfu að hlutur hans í söluandvirði fasteignar aðila yrði umfram það sem leiddi af þinglýstu eignarhaldi. Í því ljósi hefði að réttu lagi átt, á grundvelli lokamálsliðar 3. mgr. 122. gr. laga nr. 20/1991, að ákveða aðild málsins í héraði með öndverðum hætti. Við meðferð málsins hefur þetta þó ekki komið að sök.

24. Eftir atvikum er rétt að málsaðilar beri sinn kostnað af málinu á öllum dómstigum. Um gjafsóknarkostnað sóknaraðila fer eftir því sem segir í dómsorði.

Dómsorð:

Við opinber skipti til fjárslita milli sóknaraðila, A, og varnaraðila, B, skal skipta söluandvirði fasteignarinnar […] í Reykjavík þannig að 55% komi í hlut sóknaraðila og 45% í hlut varnaraðila. Til frádráttar af hlut hvors þeirra um sig skal draga helmingshlut hvors þeirra í skuldum sem hvíldu á eigninni.

Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fyrir Landsrétti og Hæstarétti fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður sóknaraðila fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 600.000 krónur.