Hæstiréttur íslands
Mál nr. 50/2022
Lykilorð
- Fjarskipti
- Fjölmiðill
- Stjórnvaldsákvörðun
- Stjórnvaldssekt
- Ómerking dóms Landsréttar
- Ómerking héraðsdóms
- Heimvísun
Reifun
Dómur Hæstaréttar
1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Karl Axelsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon.
2. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 10. október 2023. Hann krefst þess aðallega að ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar nr. 10/2018 verði felld úr gildi í heild sinni, til vara að 6. töluliður ákvörðunarinnar um álagningu stjórnvaldssektar á áfrýjanda verði felldur úr gildi en til þrautavara að sektarfjárhæð verði lækkuð. Þá krefst hann óskipt málskostnaðar úr hendi stefndu, að Mílu hf. frátalinni, á öllum dómstigum.
3. Stefnda Míla hf. tekur undir kröfur áfrýjanda um annað en málskostnað og krefst þess jafnframt að málskostnaður verði felldur niður milli sín og áfrýjanda.
4. Stefndu Fjarskiptastofa, Sýn ehf. og Ljósleiðarinn ehf. krefjast hvert fyrir sig staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Ágreiningsefni
5. Ágreiningur málsins lýtur að ákvörðun stefndu Póst- og fjarskiptastofnunar, nú Fjarskiptastofu, nr. 10/2018 frá 3. júlí 2018. Með henni var áfrýjanda gerð 9.000.000 króna sekt vegna brots gegn 5. mgr. 45. gr. laga nr. 38/2011 um fjölmiðla. Í ákvörðuninni segir að brot áfrýjanda hafi staðið yfir frá 1. október 2015 þegar ólínuleg myndmiðlun sjónvarpsefnis fjölmiðlaveitu hans varð einungis möguleg með því að tengjast IPTV-kerfi hans og jafnframt aðeins yfir fjarskiptanet stefndu Mílu hf. Fyrrnefndur þáttur málsins var þar nefndur Vodafone-þáttur og sá síðarnefndi GR-þáttur.
6. Áfrýjunarleyfi var veitt 10. október 2022, með ákvörðun Hæstaréttar nr. 2022-105, á þeim grundvelli að dómur í málinu gæti haft fordæmisgildi um skýringu 5. mgr. 45. gr. laga nr. 38/2011.
7. Með tölvubréfi 28. apríl 2023 mæltist rétturinn til þess að málflytjendur huguðu sérstaklega að því hvort dómur Landsréttar fullnægði kröfum f-liðar 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 3. og 4. mgr. 164. gr. sömu laga.
Helstu málavextir
8. Málavextir eru raktir í hinum áfrýjaða dómi. Eins og þar kemur fram rekur áfrýjandi bæði fjölmiðlaveitu og fjarskiptastarfsemi. Fjölmiðlaveitan samanstendur af Sjónvarpi Símans (áður SkjárEinn) sem annars vegar sendir út sjónvarpsdagskrá eða línulega myndmiðlun og hins vegar efnisveitunni Sjónvarp Símans Premium eða ólínulegri myndmiðlun eða myndmiðlun eftir pöntun. Þá stundar áfrýjandi fjarskiptastarfsemi bæði á smásölu- og heildsölustigi og starfrækir IPTV-sjónvarpsdreifikerfi sem býður meðal annars upp á framangreinda þjónustuþætti Sjónvarps Símans. Áfrýjandi var jafnframt móðurfélag stefndu Mílu hf. sem starfrækir umfangsmestu fjarskiptanet á heildsölumarkaði hér á landi.
9. Á þeim tíma sem um ræðir rak Fjarskipti hf., nú stefndi Sýn hf., fjölmiðlaveitu og fjarskiptastarfsemi undir heitinu Vodafone auk þess sem félagið rak ólínulegu efnisveituna Vodafone Play. Árið 2017 keypti félagið tilteknar eignir og rekstur 365 miðla ehf., þar með taldar sjónvarpsstöðvarnar Stöð 2 og Stöð 2 Sport, sem og ólínulegu efnisveituna Stöð 2 Maraþon Now. Auk þess starfrækir félagið einnig IPTV-sjónvarpsdreifikerfi í samkeppni við áfrýjanda.
10. Stefndi Ljósleiðarinn ehf., áður Gagnaveita Reykjavíkur ehf., á og rekur stærsta ljósleiðarakerfið (FTTH) á höfuðborgarsvæðinu og á í samkeppni við stefndu Mílu hf. á sviði grunnneta fjarskipta.
11. Með hinni umdeildu ákvörðun nr. 10/2018 var komist að þeirri niðurstöðu að áfrýjandi hefði brotið gegn 5. mgr. 45. gr. laga nr. 38/2011. Ágreiningi í Vodafone-þætti málsins var þar lýst þannig að frá og með hausti 2015 hefði viðskiptavinum sjónvarpsþjónustu Vodafone ekki staðið til boða ólínuleg myndmiðlun sjónvarpsefnis áfrýjanda eins og raunin var fyrir þann tíma. Þeir notendur sem hefðu kosið að kaupa aðgang að slíkri þjónustu hefðu því þurft að vera í viðskiptum við áfrýjanda. Í GR-þætti málsins fólst ætlað brot áfrýjanda í því að hafa ekki boðið upp á ólínulega myndmiðlun á kerfi Gagnaveitu Reykjavíkur ehf., nú stefnda Ljósleiðarans ehf., heldur aðeins á kerfum dótturfélagsins stefndu Mílu hf. og nokkrum öðrum staðbundnum fjarskiptanetum á landsbyggðinni. Þeir notendur sem hefðu kosið að nýta sér ljósleiðaranet Gagnaveitu Reykjavíkur ehf., nú Ljósleiðarans ehf., á höfuðborgarsvæðinu og annars staðar á starfssvæði hennar hefðu því ekki átt kost á að nálgast umrædda ólínulega myndmiðlun nema þá með því að kaupa einnig aðgang að VDSL eða ljósleiðaratengingum stefndu Mílu hf.
Úrlausn héraðsdóms og Landsréttar
12. Áfrýjandi krafðist þess fyrir héraðsdómi að umdeild ákvörðun nr. 10/2018 yrði felld úr gildi. Með héraðsdómi var komist að þeirri niðurstöðu að ákvæði 5. mgr. 45. gr. laga nr. 38/2011 yrði ekki skýrt svo þröngt að það tæki einungis til ákvarðana fjölmiðlaveitu vegna línulegrar miðlunar efnis. Þá var hafnað þeirri málsástæðu að ákvæðið tæki ekki til þeirrar aðstöðu þegar fjölmiðlaveita beinir fjarskiptaviðskiptum á heildsölumarkaði að tengdu fjarskiptafyrirtæki. Markmið ákvæðisins væri þó ekki að koma á óbeinni skyldu einnar fjölmiðlaveitu til að heimila annarri fjölmiðlaveitu ólínulega dreifingu eða sölu á efni sem fyrrnefnda fjölmiðlaveitan hefði tryggt sér rétt yfir. Ágreiningslaust væri að áfrýjandi og stefnda Sýn hf. væru hvort tveggja í senn fjölmiðlaveita og fjarskiptafyrirtæki í skilningi laga nr. 38/2011 og starfræktu bæði efnisveitur sem byðu upp á ólínulega miðlun sjónvarpsefnis. Þótt rekstur IPTV-kerfis í þeim tilgangi að dreifa myndefni teldist strangt til tekið til fjarskiptaþjónustu í skilningi nefndra laga væri engu að síður ljóst að rekstur slíks kerfis væri óaðskiljanlegur þáttur í rekstri þeirrar efnisveitu sem viðskiptamaður fengi aðgang að með því að kaupa áskrift og tengjast kerfinu. Þjónaði hlutaðeigandi kerfi þannig í reynd aðeins þeim tilgangi að gera aðgang viðskiptamanna að tiltekinni efnisveitu mögulegan.
13. Í héraðsdómi var jafnframt lagt til grundvallar að sú fjarskiptaþjónusta sem látin væri viðskiptamanni í té með IPTV-kerfi áfrýjanda væri „óveruleg miðað við þá fjölmiðlaþjónustu sem áskrift eða kaup á aðgangi að efnisveitu hafa að meginmarkmiði“. Um Vodafone-þátt málsins vísaði héraðsdómur til þess að ekki yrði ráðið af lögum og lögskýringargögnum að það væri stefna löggjafans að fjölmiðlaveita ætti afleiddan rétt til heildsölukaupa á efni annarra fjölmiðlaveitna og ólínulegrar miðlunar þess í gegnum eigin IPTV-kerfi og notendaviðmót. Ákvæði 5. mgr. 45. gr. laga nr. 38/2011 yrði ekki skýrt svo rúmt að það næði yfir það tilvik. Hefði ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar því skort fullnægjandi heimild í lögum að því er varðaði þann þátt málsins. Hins vegar var fallist á niðurstöðu stjórnvaldsins í GR-þætti málsins. Í því ljósi var stjórnvaldssektin ákveðin 7.000.000 króna.
14. Með dómi Landsréttar var sýknað af kröfu áfrýjanda um ógildingu á ákvörðun nr. 10/2018. Kom fram í dóminum að áfrýjandi hefði ,,fullframið brot gegn 5. mgr. 45. gr. laga nr. 38/2011“ með því að hafa sem fjölmiðlaveita í skilningi 14. töluliðar 2. gr. laganna beint viðskiptum þeirra sem vildu kaupa af honum aðgang að efnisveitunni „Sjónvarpi Símans Premium“ til tengds fjarskiptafyrirtækis, stefndu Mílu hf., enda hefði ekki verið unnt að kaupa fyrrgreint efni nema yfir fjarskiptanet félagsins. Brot áfrýjanda hefði verið ótvírætt og enn staðið yfir þegar ákvörðun nr. 10/2018 var tekin í júlí 2018. Á þeim tíma hefðu ekki tekist samningar um sanngjarnan og eðlilegan aðgang að fjarskiptaneti stefnda Gagnaveitu Reykjavíkur ehf., nú Ljósleiðarans ehf., svo að fyrirtækið gæti miðlað efni úr efnisveitu áfrýjanda með sambærilegum hætti og á sambærilegum kjörum og stefndi Míla hf.
15. Með vísan til framangreinds var í dómi Landsréttar fallist á forsendur og efnislega niðurstöðu ákvörðunar Póst- og fjarskiptastofnunar nr. 10/2018 að því er varðaði „bæði svonefndan „Vodafone-þátt“ og „GR þátt“ málsins.“ Því var ekki talið efni til að hrófla við mati stjórnvaldsins á fjárhæð sektarinnar.
Niðurstaða
16. Í áskilnaði f-liðar 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991 felst að dómari skuli færa rök fyrir niðurstöðu sinni á grundvelli málatilbúnaðar aðila. Í 3. mgr. 164. gr. sömu laga segir meðal annars að dómar Landsréttar skuli vera rökstuddir. Þar skuli greina frá kröfum aðila eftir því sem þörf er á svo að niðurstaða verði skýr. Ef og að því leyti sem niðurstöðu héraðsdóms er breytt skuli það rökstutt í dómi Landsréttar en fallist Landsréttur á niðurstöðu héraðsdóms en ekki á röksemdir fyrir henni geti hann greint frá rökum sínum eftir því sem þurfa þyki. Í 4. mgr. 164. gr. laganna segir að um dóma Landsréttar gildi að öðru leyti ákvæði 114. gr. þeirra eftir því sem við geti átt.
17. Eins og rakið er í héraðsdómi og hinum áfrýjaða dómi hefur áfrýjandi byggt kröfur sínar um ógildingu hinnar umdeildu ákvörðunar nr. 10/2018 á þeim grunni að 5. mgr. 45. gr. laga nr. 38/2011 taki einungis til flutningsréttar að sjónvarpsútsendingum (línulegri miðlun). Ákvæðið taki hins vegar ekki til aðgangs að sjónvarpsefni til myndmiðlunar sem fjölmiðlaveita bjóði, án tillits til þess viðtækis sem er notað til móttöku efnisins og án tillits til þess hvort greiða þurfi fyrir efnið þannig að notandi geti horft á dagskrárliði í heild eða að hluta þegar hann svo kjósi og að sérstakri beiðni hans á grundvelli efnisskrár fjölmiðlaveitu sem notandi geti sjálfur stýrt (ólínuleg miðlun). Ákvörðunin brjóti í bága við jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar, hæfisreglur hafi verið brotnar við töku hennar sem og rannsóknarregla stjórnsýsluréttar auk þess sem áfrýjandi hafi haft réttmætar væntingar um að háttsemi hans væri lögum samkvæm meðal annars vegna ákvörðunar Samkeppniseftirlitsins nr. 20/2015. Í öllu falli hafi háttsemi áfrýjanda ekki brotið gegn 5. mgr. 45. gr. laga nr. 38/2011 í því tilviki að ákvæðið verði skýrt með þeim hætti að það nái til ólínulegrar miðlunar efnis. Þá hafi skort heimild til að leggja á stjórnvaldssekt vegna ætlaðs brots gegn fyrrgreindu ákvæði þar sem sektarheimild 3. mgr. 54. gr. taki eingöngu til brots á flutningsrétti, sbr. einnig o-lið 1. mgr. 56. gr. laganna.
18. Í hinum áfrýjaða dómi voru hvorki teknar til úrlausnar málsástæður áfrýjanda um ætlaðan ágalla á málsmeðferð við töku ákvörðunar nr. 10/2018 né vísað til forsendna héraðsdóms um hann. Þá laut rökstuðningur Landsréttar eingöngu að GR-þætti málsins en sem fyrr segir var fallist á þann hluta ákvörðunar nr. 10/2018 í dómi héraðsdóms. Í dómi Landsréttar var aftur á móti ekki að finna rökstuðning um Vodafone-þátt málsins sem þó var sérstök ástæða til þar sem með dómi Landsréttar var snúið niðurstöðu héraðsdóms að því leyti og laut áfrýjun jafnframt að honum. Er slík almenn tilvísun í dómi til forsendna og efnislegrar niðurstöðu stjórnsýsluákvörðunarinnar ófullnægjandi rökstuðningur fyrir niðurstöðu auk þess sem látið var hjá líða að gera sjálfstæða grein fyrir því að hvaða marki ekki var fallist á niðurstöðu héraðsdóms um síðastnefndan þátt málsins, sbr. 6. málslið 3. mgr. 164. gr. laga nr. 91/1991.
19. Að öllu framangreindu gættu fullnægir dómur Landsréttar ekki þeim kröfum sem gerðar eru til rökstuðnings í dómi fyrir niðurstöðu um sönnunar- og lagaatriði samkvæmt f-lið 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 3. og 4. mgr. 164. gr. sömu laga. Vegna þessa væru efni til að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og vísa málinu til Landsréttar til aðalmeðferðar og dómsálagningar á ný ef ekki kæmi annað til sem um ræðir hér á eftir.
20. Sem fyrr segir var niðurstaða héraðsdóms um Vodafone-þátt málsins meðal annars á því reist að umfang fjarskiptaþjónustu áfrýjanda væri óverulegt miðað við þá þjónustu sem áskrift eða kaup á aðgangi hefðu að meginmarkmiði. Á þeirri málsástæðu hafði þó ekki verið byggt af hálfu áfrýjanda. Með því að héraðsdómari fór út fyrir þann grundvöll sem aðilar mörkuðu málinu upphaflega og reisti niðurstöðu sína á þessu atriði við úrlausn málsins var grundvelli þess raskað verulega.
21. Til viðbótar er þess að gæta að aðalkrafa áfrýjanda lýtur að ógildingu ákvörðunar nr. 10/2018 um álagningu stjórnsýslusektar vegna ætlaðs brots gegn 5. mgr. 45. gr. laga nr. 38/2011. Byggir hann meðal annars á því að ákvæðið taki aðeins til línulegrar miðlunar sjónvarpsefnis. Þá er af hálfu stefndu Fjarskiptastofu byggt á að ástand það sem skapaðist með ætluðu broti áfrýjanda hafi staðið frá 1. október 2015 og því ekki lokið með samningum annars vegar við stefndu Gagnaveitu Reykjavíkur ehf., nú Ljósleiðarinn ehf., og hins vegar við stefndu Sýn hf. Mat á báðum þessum atriðum útheimtir öðrum þræði sérfræðilega þekkingu. Má hér einnig líta til þess að sú ákvörðun sem krafist er ógildingar á stafar frá sérfræðistjórnvaldi á sviði fjarskipta, sem ber við töku ákvarðana að leita álits annars sérfræðistjórnvalds, fjölmiðlanefndar, í samræmi við 2. mgr. 46. gr. laga nr. 38/2011.
22. Eins og hér hefur verið rakið fór meðferð málsins úr skorðum fyrir héraðsdómi. Verður að ætla að það hafi meðal annars verið vegna skorts á sérfræðilegri þekkingu í dómi á umhverfi fjarskipta í skilningi laga nr. 38/2011 og samspili þeirra við reglur um fjölmiðlaveitur. Að virtu því sem að framan greinir var embættisdómara ekki fært að leiða til lykta öll ágreiningsatriði málsins á grunni almennrar þekkingar sinnar, menntunar eða lagaþekkingar heldur var þvert á móti þörf sérkunnáttu í dómi til að leysa úr málinu. Héraðsdómara bar því að kveðja til sérfróðan mann til dómstarfa samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 91/1991 til að leggja mat á gögn málsins. Er um að ræða galla á meðferð þess í héraði sem ekki var unnt að bæta úr með því að kveðja til setu sérfróðan mann í Landsrétti, sbr. 2. gr. a sömu laga.
23. Að öllu framangreindu virtu verður að ómerkja hinn áfrýjaða dóm sem og héraðsdóm í málinu og vísa því heim í hérað til löglegrar meðferðar.
24. Málskostnaður fyrir Hæstarétti verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur og héraðsdómur í máli þessu eru ómerktir og er því vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.