Hæstiréttur íslands

Mál nr. 3/2025

Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari)
gegn
X (Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson lögmaður),
(Hannes J. Hafstein lögmaður einkaréttarkröfuhafa )

Lykilorð

  • Manndráp
  • Ásetningur
  • Neyðarvörn

Reifun

X var ákærður fyrir manndráp samkvæmt 211. gr. almennra hegningarlaga og gefið að sök að hafa svipt A lífi með því að stinga hann tvisvar sinnum í vinstri síðu með hnífi með þeim afleiðingum að ytri mjaðmarslagæð fór í sundur og olli umfangsmiklu blóðtapi sem leiddi til dauða hans. Með dómi Landsréttar var X sýknaður af refsikröfu ákæruvaldsins með vísan til 2. mgr. 12. gr. almennra hegningarlaga. Í dómi Hæstaréttar kom fram að í málinu fléttaðist sönnun um refsivert athæfi saman við sönnun um skilyrði fyrir hlutrænni refsileysisástæðu. Í hinum áfrýjaða dómi hefði verið talið sannað að um mjög óvenjulegar aðstæður hefði verið að ræða þar sem A hefði ráðist á X með hnífi auk þess að hafa veitt X áverka með hættulegri verknaðaraðferð í upphafi árásarinnar, sem ekki hefði verið afstaðin þegar A hlaut þá áverka sem leiddu hann til dauða. Við mat á sönnun hefði Landsréttur litið til aðstæðna eins og þær horfðu við X sem og aðdraganda að atlögu A. Komst Landsréttur að þeirri niðurstöðu að X hefði verið skelfdur eða forviða í skilningi 2. mgr. 12. gr. almennra hegningarlaga þannig að hann hefði ekki fullkomlega getað gætt sín og farið út fyrir takmörk neyðarvarnar af þeim sökum. Hæstiréttur tók fram að þessi niðurstaða hins áfrýjaða dóms hefði í öllu verulegu verið byggð á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar sem ekki yrði endurmetið fyrir Hæstarétti, sbr. 2. mgr. 225. gr. laga nr. 88/2008. Var því staðfest niðurstaða Landsréttar um sýknu X af refsikröfu ákæruvaldsins fyrir brot gegn 211. gr. almennra hegningarlaga.

Dómur Hæstaréttar

1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen, Karl Axelsson og Skúli Magnússon.

2. Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 6. janúar 2025. Ákæruvaldið krefst þess að ákærði verði sakfelldur fyrir manndráp samkvæmt 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og dæmdur til refsingar.

3. Ákærði krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur um sýknu hans, til vara að honum verði ekki gerð refsing og þrautavara að hann verði dæmdur til vægustu refsingar sem lög leyfa en verði fangelsisrefsing dæmd verði hún skilorðsbundin að öllu leyti. Jafnframt krefst hann staðfestingar hins áfrýjaða dóms um frávísun einkaréttarkrafna en til vara að þær verði lækkaðar.

4. Af hálfu einkaréttarkröfuhafa, B og C, er þess krafist að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur um kröfur þeirra og þeim hluta málsins vísað til Landsréttar til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju. Þá krefjast þau þess að ákærða verði gert að greiða þeim málskostnað eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.

Ágreiningsefni

5. Með ákæru héraðssaksóknara 24. ágúst 2023 var ákærða gefið að sök manndráp með því að hafa aðfaranótt 3. október 2022 í íbúð á […] svipt A lífi með því að stinga hann tvisvar sinnum í vinstri síðu með hnífi með þeim afleiðingum að ytri mjaðmarslagæð fór í sundur og olli umfangsmiklu blóðtapi sem leiddi til dauða hans. Í ákæru var þessi háttsemi talin varða við 211. gr. almennra hegningarlaga. Með ákæru lögreglustjórans á Norðurlandi eystra 15. september 2023 voru ákærða jafnframt gefin að sök umferðarlagabrot.

6. Með héraðsdómi 9. janúar 2024 var ákærði sakfelldur fyrir brot gegn 211. gr. almennra hegningarlaga og fyrrgreind umferðarlagabrot og honum gerð átta ára fangelsisrefsing. Með hinum áfrýjaða dómi 31. október 2024 var ákærði hins vegar sýknaður af refsikröfu ákæruvaldsins vegna brots gegn 211. gr. almennra hegningarlaga með vísan til 2. mgr. 12. gr. laganna. Þá var hann einnig sýknaður af ákæru um umferðarlagabrot og unir ákæruvaldið þeirri niðurstöðu.

7. Áfrýjunarleyfi í málinu var veitt 30. desember 2024, með ákvörðun Hæstaréttar nr. 2024-150. Þar kom fram að úrlausn þess kynni að hafa verulega almenna þýðingu meðal annars um túlkun og beitingu 2. mgr. 12. gr. almennra hegningarlaga og samspil ákvæðisins við 1. tölulið 1. mgr. 74. gr. laganna.

Málsatvik

8. Málsatvikum er lýst í héraðsdómi og þar er rakinn framburður ákærða og vitna auk þess sem aðstæðum á vettvangi er lýst. Eins og þar kemur fram barst lögreglu tilkynning 3. október 2022 klukkan 2.39 um hnífsstungu í húsi á […]. Þegar lögregla kom á vettvang mætti hún tveimur vegfarendum sem sögðust hafa séð konu í mikilli geðshræringu koma út úr húsinu. Þau hefðu farið inn í íbúð í húsinu að beiðni Neyðarlínunnar og hafið endurlífgunartilraunir á brotaþola. Sögðust þau hafa séð ætlaðan geranda liggja í rúmi í svefnherbergi með stungusár á læri. Þegar lögregla kom á vettvang lá brotaþoli á eldhúsgólfi og endurlífgunartilraunir sjúkraflutningamanna stóðu yfir. Báru þær ekki árangur og lést brotaþoli vegna þeirra áverka sem hann hafði hlotið.

9. Brotaþoli og eiginkona hans, F, bjuggu á […]. Daginn áður hafði hún farið að […] þar sem fyrir voru ákærði og eigandi íbúðarinnar, kona sem þau bæði þekktu. Kunningi brotaþola kom um kvöldið í íbúðina, meðal annars til að fá F með sér að […] en án árangurs. Nokkru síðar mun brotaþoli hafa komið í sömu erindagjörðum. Þegar hann kom inn í íbúðina hafi hún og ákærði setið við eldhúsborð og urðu þá í framhaldinu orðaskipti milli ákærða og brotaþola.

10. Í hinum áfrýjaða dómi var talið sannað með framburði ákærða, sem væri í samræmi við framburð F hjá lögreglu, að brotaþoli hefði átt upptök að átökunum. Nánar tiltekið hefði brotaþoli fyrirvaralaust dregið upp hníf, sem hann hafði komið með á vettvang og huldi í buxnastreng sínum, og ráðist á ákærða. Mætti ráða af gögnum málsins að brotaþoli hefði lagt ítrekað með hnífnum til ákærða og stungið hann í læri og vinstri kinn. Í kjölfarið hefðu þeir tekist á um hnífinn. Í hinum áfrýjaða dómi var jafnframt talið sannað að ákærði hefði náð taki á hnífnum meðan á átökunum stóð og tvívegis beint honum í síðu brotaþola. Átökunum hefði lokið með því að brotaþoli hefði hnigið niður og ákærði skriðið í burtu.

11. Á vettvangi fannst blóðugur eldhúshnífur sem mældist 32 cm að lengd með 20 cm löngu blaði. Samkvæmt DNA-rannsókn reyndist blóðið á honum bæði vera úr brotaþola og ákærða.

Röksemdir ákærða og ákæruvalds

Helstu röksemdir ákæruvalds

12. Af hálfu ákæruvalds er tekið undir þá ályktun Landsréttar að brotaþoli hafi átt upptökin að átökum hans og ákærða. Hins vegar sé niðurstaða um sýknu ekki í samræmi við mat réttarmeinafræðings á atvikum málsins með hliðsjón af áverkum brotaþola. Réttarmeinafræðingur hafi talið að hefði brotaþoli haldið um hnífinn þegar hann stakkst í síðu hans hefði hann þurft að vinda upp á hægri hönd sína og beina hnífnum hliðlægt að vinstri síðu sinni niður og fram á við í átt að nafla á sama tíma og ákærði þrýsti hendi hans í sömu stefnu. Þetta hefði þurft að gerast tvisvar sinnum í átökum þeirra. Þá hefði samkvæmt mati hans ekkert komið fram sem benti til að hnífurinn hefði stungist í brotaþola í átökum um hann.

13. Ákæruvaldið tekur undir þá ályktun héraðsdóms að aðstæður hafi ekki verið með þeim hætti að um neyðarvörn hafi verið að ræða á því tímamarki þegar ákærði stakk brotaþola tvívegis. Ákærði hafi frá upphafi neitað að hafa stungið brotaþola. Hann hafi hins vegar enga skýringu gefið á því hvernig áverkar brotaþola væru tilkomnir á sama tíma og framburður hans um upphaf og lyktir atviksins hafi verið skýr. Því sé eyða í frásögn hans þegar komi að því að lýsa þessu grundvallaratriði. Því hafi hvorki verið um neyðarvörn að ræða samkvæmt 1. mgr. 12. gr. almennra hegningarlaga né hafi ákærði farið út fyrir takmörk leyfilegrar neyðarvarnar samkvæmt 2. mgr. greinarinnar. Hann hafi hvorki lýst þeim aðstæðum sem knúðu hann til að beita neyðarvörn né þeim verknaði sem fólst í henni.

14. Ákærði hafi gerst sekur um manndráp með því að hafa af ásetningi stungið brotaþola í tvígang eftir að hann náði hnífnum af honum með þeim afleiðingum að brotaþoli hafi hlotið bana af. Rökstuðningur í hinum áfrýjaða dómi sé óljós um ásetning ákærða til manndráps. Í dómi Landsréttar komi fram að miða verði við að ákærði hafi verið skelfdur eða forviða þegar hnífurinn stakkst í síðu brotaþola. Ákærði hafi þó ekki borið fyrir sig eða reynt að sýna fram á að hann hafi verið svo skelfdur eða forviða er hann beitti hnífnum gegn brotaþola að hann hafi ekki getað fullkomlega gætt sín, sbr. 2. mgr. 12. gr. almennra hegningarlaga. Vörn hans hafi takmarkast við að hann hafi haft hugann við að afvopna brotaþola.

15. Ákvæði 2. mgr. 12. gr. almennra hegningarlaga snúi að mati á huglægu ástandi þess sem fari út fyrir takmörk leyfilegrar neyðarvarnar og sé um einstaklingsbundnar ástæður að ræða. Áskilið sé tvöfalt orsakasamband um að ólögmæt árás hafi leitt til þess að gerandi varð svo skelfdur eða forviða að hann hafi ekki fullkomlega getað gætt sín og farið út fyrir leyfileg takmörk neyðarvarnar af þeim sökum. Ekki hafi verið sýnt fram á með framburði ákærða, vitna eða öðrum gögnum að svo hafi verið ástatt um ákærða í umrætt sinn. Ekki nægi að leggja almennt mat á þær aðstæður sem ákærði hafi verið í. Sýna verði fram á að svo hafi sannarlega verið í tilviki ákærða en það hafi ekki verið rökstutt í hinum áfrýjaða dómi. Af þeim sökum beri að sakfella ákærða fyrir manndráp. Hins vegar beri að líta til ákvæðis 4. töluliðar 1. mgr. 74. gr. almennra hegningarlaga við ákvörðun refsingar hans líkt og gert hafi verið í héraðsdómi.

Helstu röksemdir ákærða

16. Af hálfu ákærða er byggt á því að framburður hans hafi verið staðfastur, trúverðugur og á einn veg um öll aðalatriði málsins. Brotaþoli hafi komið með hníf innanklæða og ráðist fyrirvaralaust á ákærða og að tilefnislausu. Brotaþoli hafi stungið hann í andlit og læri og hann auk þess hlotið áverka á höndum við að verjast frekari stungum. Þessi atlaga verði með vísan til dómaframkvæmdar og heilbrigðrar skynsemi ekki túlkuð á annan veg en að hugur brotaþola hafi staðið til þess að svipta ákærða lífi.

17. Við þessar aðstæður hafi ákærði þurft óvænt og skyndilega að berjast fyrir lífi sínu og hugsanlega annarra sem þar hafi verið staddir. Hann hafi afdráttarlaust neitað sök og ítrekað hafnað því að hafa stungið brotaþola enda viti hann ekki hvernig áverkar hans hafi komið til. Hlutverk ákæruvaldsins sé að sýna fram á að hann hafi haft ásetning til að bana brotaþola og ekki verði gerð sú krafa til hans að sanna sakleysi sitt. Það hafi verið hörmulegt óhapp að brotaþoli lét lífið þegar ákærði greip til varna til að bjarga lífi sínu. Því verði hann ekki sakfelldur fyrir manndráp enda ekki um ásetning til þess að ræða samkvæmt 18. gr. almennra hegningarlaga.

18. Ákærði byggir einnig á að skilyrði neyðarvarnar séu uppfyllt, sbr. 1. mgr. 12. gr. almennra hegningarlaga. Varnir hans hafi verið nauðsynlegar til að bregðast við árás brotaþola enda hafi Landsréttur lagt til grundvallar að um eina atburðarás hafi verið að ræða og varnir ekki hættulegri en árásin. Þá komi fram í 2. mgr. 12. gr. laganna að ekki skuli refsa manni hafi hann farið út fyrir takmörk leyfilegrar neyðarvarnar og ástæða þess sé að hann hafi orðið svo skelfdur eða forviða að hann hafi ekki getað fullkomlega gætt sín. Í framburði ákærða hjá lögreglu og fyrir dómi hafi ítrekað komið fram að hann hafi verið skelkaður og hræddur um líf sitt. Í hinum áfrýjaða dómi hafi verið komist að þeirri niðurstöðu að svo hafi verið ástatt um ákærða þegar brotaþoli hafi ítrekað og með ofsafengnum hætti veist að honum með hnífnum. Sú niðurstaða hafi einkum byggst á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar sem ekki verði endurskoðað af Hæstarétti.

Niðurstaða

19. Sem fyrr segir kom brotaþoli vopnaður hnífi í íbúðina á […] þar sem ákærði dvaldi og stakk hann nánast fyrirvaralaust með hnífi. Ákærði hlaut við árásina stungu í læri og í vinstri kinn þannig að tönn brotnaði. Í kjölfarið urðu átök þar sem þeir tókust á um hnífinn og lauk þeim með því að brotaþoli lét lífið.

20. Ákærði hefur staðfastlega neitað því að hafa stungið brotaþola og kveðst ekki vita hvernig áverkar hans komu til. Byggir hann á því að skilyrði neyðarvarnar samkvæmt 1. mgr. 12. gr. almennra hegningarlaga hafi verið uppfyllt en ella beri að sýkna hann af refsikröfu ákæruvaldsins samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar.

21. Samkvæmt 1. mgr. 12. gr. almennra hegningarlaga er það verk refsilaust sem menn vinna af neyðarvörn. Um skilyrði neyðarvarnar er þar tekið fram að verk þurfi að vera nauðsynlegt til þess að verjast eða afstýra ólögmætri árás sem er byrjuð eða vofir yfir enda hafi ekki verið beitt vörnum sem séu augsýnilega hættulegri en árásin og tjón það sem af henni mátti vænta gaf ástæðu til.

22. Af skýringu fyrrgreinds ákvæðis leiðir meðal annars að sé unnt að afstýra ólögmætri árás með öðrum hætti en beinni valdbeitingu geti verknaður ekki helgast af neyðarvörn. Hið sama eigi við þegar árás er afstaðin. Til viðbótar þurfi aðferð við neyðarvörn að vera forsvaranleg enda megi ekki beita vörnum sem séu augsýnilega hættulegri en árásin og tjón það sem af henni mátti vænta gaf ástæðu til. Um þetta sagði meðal annars í greinargerð með frumvarpi til almennra hegningarlaga að sá munur sem gerður var á ýtrustu og einfaldri neyðarvörn í 41. gr. hegningarlaga frá 25. júní 1869 væri felldur á brott og dómstólum ætlað meira frjálsræði til mats á því hvort beitt væri hættulegri vörnum en ástæða væri til. Mörg atriði kæmu þar til athugunar, svo sem eðli og hættustig árásar, aðferðin við neyðarvarnarverk, hættan af slíku verki, eðli eða mikilvægi þeirra hagsmuna sem væru í húfi, huglæg afstaða og persónulegir hagir árásarmanns eða árásarþola, tilefni árásar og fleira. Þannig væri horft til þess hvernig varnaraðgerð horfði við geranda miðað við aðstæður þegar hún væri framkvæmd. Þá þyrfti huglæg afstaða þess sem beitir neyðarvörn að vera með þeim hætti að hún samsvaraði ásetningskröfum til refsiverðs verknaðar.

23. Í 2. mgr. 12. gr. almennra hegningarlaga segir að hafi maður farið út fyrir takmörk leyfilegrar neyðarvarnar samkvæmt 1. mgr. greinarinnar og ástæða til þess er sú að hann hafi orðið svo skelfdur eða forviða að hann gat ekki fullkomlega gætt sín skuli honum ekki refsað. Samkvæmt þessum orðum ákvæðisins er áskilið tvöfalt orsakasamband svo að verknaður sé refsilaus. Hin ólögmæta árás verður í fyrsta lagi að hafa leitt til þess að gerandi hafi orðið svo skelfdur eða forviða að hann gat ekki fullkomlega gætt sín. Í öðru lagi er áskilið að hann hafi af þeim sökum farið út fyrir takmörk leyfilegrar neyðarvarnar.

24. Í héraðsdómi var með vísan til mats réttarlækna talið að áverkar brotaþola væru til komnir fyrir ásetningsverk. Hefði ákærði stungið brotaþola tvívegis af ásetningi með þeim afleiðingum að hann hlaut bana. Gögn málsins bentu til að ákærði hefði náð undirtökum í átökunum í kjölfar árásar brotaþola. Ákærði hefði náð haldi á hnífnum og beitt honum gegn óvopnuðum manni en nokkur aflsmunur hefði verið með þeim ákærða í hag. Ekkert lægi fyrir um að aðstæður hefðu þá verið með þeim hætti að verknaðurinn hefði verið ákærða nauðsynlegur til að verjast lífshættulegri árás og því ekki sýnt fram á að skilyrði neyðarvarnar væru uppfyllt.

25. Í hinum áfrýjaða dómi var vísað til niðurstöðu héraðsdóms um að gögn málsins bæru með sér að brotaþoli hefði átt upptök að átökunum og ákærði varist hinni ólögmætu árás hans. Hún hefði verið óvænt og lífshættuleg og hending ein ráðið því að ekki fór verr fyrir ákærða. Árásinni hefði ekki verið lokið og ekkert bent til hlés á henni þegar ákærði beitti vörnum sem þó hefðu augsýnilega verið hættulegri en árásin og tjón sem af henni mátti vænta gaf ástæðu til. Áverkarnir hefðu orðið í átökum þeirra tveggja og var talið hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hefði náð hnífnum meðan á þeim stóð og beint honum í síðu brotaþola í tvígang þótt honum væri ljóst að stungurnar gætu verið lífshættulegar. Því ættu skilyrði neyðarvarnar samkvæmt 1. mgr. 12. gr. almennra hegningarlaga ekki við. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms er sú niðurstaða staðfest.

26. Í hinum áfrýjaða dómi var á hinn bóginn talið sannað að ákærði hefði verið skelfdur eða forviða í skilningi 2. mgr. 12. gr. almennra hegningarlaga og ekki gætt sín af þeim sökum. Var hann því sýknaður af refsikröfu ákæruvaldsins. Í því tilliti er sá munur á niðurstöðum héraðsdóms og hins áfrýjaða dóms að í þeim fyrrnefnda er í reynd miðað við að sjálfstæð röð atburða hafi hafist er ákærði náði hnífnum af brotaþola og yfirhöndinni í átökum þeirra. Í hinum áfrýjaða dómi er hins vegar lagt til grundvallar að um eina samfellda atburðarás hafi verið að ræða sem að lokum leiddi til dauða brotaþola. Var um það einkum litið til framburðar ákærða sem var metinn trúverðugur að teknu tilliti til þeirra atvika og aðstæðna sem ráða mátti af gögnum málsins.

27. Í málatilbúnaði ákæruvaldsins er á því byggt að þessi niðurstaða hins áfrýjaða dóms fái ekki staðist þar sem skilyrði 2. mgr. 12. gr. almennra hegningarlaga um tvöfalt orsakasamhengi séu ekki uppfyllt. Í samræmi við þetta telur ákæruvaldið að ekki liggi fyrir að stungur ákærða hafi komið til vegna þess að hann hafi verið skelfdur eða forviða í skilningi 2. mgr. 12. gr. laganna þannig að hann hafi ekki fullkomlega getað gætt sín og farið út fyrir leyfileg takmörk neyðarvarnar af þeim sökum. Þvert á móti hafi ákærði verið búinn að ná undirtökum í átökunum þegar hann náði hnífnum og þá ákveðið að leggja til brotaþola líkt og miðað hafi verið við í dómi héraðsdóms.

28. Þegar skorið er úr um hvort skilyrði 2. mgr. 12. gr. almennra hegningarlaga teljast uppfyllt skiptir samkvæmt þessu verulegu máli hvort um var að ræða samfellda röð atvika sem leiddi til dauða brotaþola eða hvort rof varð á atburðarásinni með því að ákærði hafi afvopnað hann, náð yfirhöndinni í átökunum og þá ákveðið að leggja til hans með hnífnum. Með hliðsjón af skilyrði 18. gr. laganna um ásetning er við mat á þessu horft til þess hvernig atvik og aðstæður á vettvangi horfðu við ákærða í umrætt sinn.

29. Samkvæmt 108. gr. laga nr. 88/2008 hvílir á ákæruvaldinu sönnunarbyrði um sekt ákærða og atvik sem telja má honum í óhag. Leiðir þegar af þeim orðum að sönnunarbyrði ákæruvalds nær ekki til þess að hnekkja staðhæfingu ákærða um atvik sem horft gætu honum til refsileysis, sbr. til dæmis dóma Hæstaréttar 2. nóvember 2000 í máli nr. 248/2000 og 11. september 2014 í máli nr. 233/2014.

30. Hér háttar svo til að sönnun um refsivert athæfi fléttast saman við sönnun um skilyrði fyrir hlutrænni refsileysisástæðu. Niðurstaða hins áfrýjaða dóms um hvort tveggja byggist að verulegu leyti á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar ákærða sem ekki verður endurmetið fyrir Hæstarétti, sbr. 2. mgr. 225. gr. laga nr. 88/2008, sbr. til hliðsjónar dóm réttarins 21. júní 2023 í máli nr. 8/2023. Þetta á jafnt við um endurskoðun á slíku mati að því er varðar hlutræna þætti verknaðar og huglæga afstöðu ákærða en niðurstaða slíks mats getur eftir atvikum haft þýðingu um sakfellingu, heimfærslu til refsiákvæða eða hvort skilyrðum hlutrænna refsileysisástæðna er mætt.

31. Ef annmarkar eru á hinn bóginn á málsmeðferð, þar á meðal aðferð við sönnunarmat í dómi, sem teljast fallnir til að hafa áhrif á niðurstöðu máls geta þeir eftir atvikum leitt til ómerkingar og heimvísunar máls, sbr. fyrrgreindan dóm Hæstaréttar í máli nr. 8/2023 og þá dóma sem þar er vísað til.

32. Niðurstaða Landsréttar um sönnun í þessum þætti málsins byggist samkvæmt framansögðu bæði á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar ákærða fyrir dómi og samanburði við skýrslur hans hjá lögreglu, skýrslur vitna og sýnileg sönnunargögn, þar á meðal réttarmeinafræðileg gögn og rannsókn lögreglu á vettvangi. Ekki eru fyrir hendi þeir ágallar á sönnunarmatinu að þessu leyti sem máli geta skipt við það heildstæða mat sem niðurstaða hins áfrýjaða dóms er reist á. Eru því ekki efni til að ómerkja dóminn af þeim sökum.

33. Eins og að framan er rakið var talið sannað í hinum áfrýjaða dómi að um mjög óvenjulegar aðstæður hefði verið að ræða þar sem brotaþoli hefði ráðist á ákærða með hnífi sem hann bar innan klæða og beitti fyrirvaralaust gegn honum óvopnuðum á dvalarstað hans. Jafnframt hefði brotaþoli veitt ákærða áverka með hættulegri verknaðaraðferð í upphafi árásarinnar sem ekki hefði verið afstaðin þegar brotaþoli hlaut þá áverka sem leiddu hann til dauða.

34. Við mat á sönnun leit Landsréttur til aðstæðna eins og þær horfðu við ákærða í umrætt sinn sem og aðdraganda að atlögu brotaþola. Komist var að þeirri niðurstöðu að ákærði hefði verið skelfdur eða forviða í skilningi 2. mgr. 12. gr. almennra hegningarlaga þannig að hann hefði ekki fullkomlega getað gætt sín og farið út fyrir takmörk neyðarvarnar af þeim sökum. Þessi niðurstaða hins áfrýjaða dóms var í öllu verulegu byggð á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar sem ekki verður endurmetið fyrir Hæstarétti, sbr. 2. mgr. 225. gr. laga nr. 88/2008.

35. Að þessu virtu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms er staðfest niðurstaða hans um sýknu ákærða af refsikröfu ákæruvaldsins fyrir brot gegn 211. gr. almennra hegningarlaga. Ákvæði dómsins um sakarkostnað í héraði og fyrir Landsrétti eru staðfest.

36. Í 2. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008 segir meðal annars að sé ákærði sýknaður með dómi án þess að það hafi verið vegna þess að hann sé talinn ósakhæfur skuli dómari vísa kröfu samkvæmt 1. eða 2. mgr. 172. gr. laganna af sjálfsdáðum frá dómi. Í máli þessu er sýkna ákærða af refsikröfu reist á hlutrænni refsileysisástæðu 2. mgr. 12. gr. almennra hegningarlaga. Verður því staðfest sú niðurstaða hins áfrýjaða dóms að vísa einkaréttarkröfum frá héraðsdómi sem og niðurstaða hans um málskostnað einkaréttarkröfuhafa. Þá er ekki fallist á kröfur þeirra á hendur ákærða um greiðslu málskostnaðar fyrir Hæstarétti en um gjafsóknarkostnað lögmanns einkaréttarkröfuhafa fer eins og í dómsorði greinir.

37. Allur sakarkostnaður vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir réttinum sem ákveðin eru með virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður um sýknu ákærða, X, af kröfu ákæruvaldsins um refsingu samkvæmt ákæru 24. ágúst 2023.

Staðfest er niðurstaða hins áfrýjaða dóms um frávísun einkaréttarkrafna B og C frá héraðsdómi.

Niðurstaða hins áfrýjaða dóms um málskostnað einkaréttarkröfuhafa er staðfest. Málskostnaður fellur niður fyrir Hæstarétti.

Staðfest er ákvæði hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað. Sakarkostnaður fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, Vilhjálms H. Vilhjálmssonar lögmanns, 1.171.800 krónur.

Allur gjafsóknarkostnaður einkaréttarkröfuhafa fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns þeirra, Hannesar J. Hafstein, 400.000 krónur.