Hæstiréttur íslands

Mál nr. 48/2024

Guðjón Egill Ingólfsson, Gunnar Ólafur Bjarnason, Helga Hauksdóttir, Halldór Kristján Ingólfsson, Ingunn Hinriksdóttir, Lára Valgerður Ingólfsdóttir, Ólafur Gunnarsson, Þórhildur Hrönn Ingólfsdóttir og Valfríður Möller (Ásgeir Þór Árnason lögmaður)
gegn
Felix von Longo-Liebenstein, Nýja húsinu Ófeigsfirði, Guðrúnu Sveinbjörnsdóttur, Gunnari Gauki Magnússyni, Halldóru Hrólfsdóttur, Hallvarði E. Aspelund, Haraldi Sveinbjörnssyni, Pétri Guðmundssyni, Valdimar Steinþórssyni, Þóru Hrólfsdóttur, Halldóri Árna Gunnarssyni, Sverri Geir Gunnarssyni, Þórunni Hönnu Gunnarsdóttur (Friðbjörn E. Garðarsson lögmaður), Sæmörk ehf. (enginn), Ásdísi Gunnarsdóttur, Guðrúnu Önnu Gunnarsdóttur, Sigríði Gunnarsdóttur, Svanhildi Guðmundsdóttur (Heiðar Ásberg Atlason lögmaður), Ásdísi Virk Sigtryggsdóttur, Karli Sigtryggssyni og Sigríði Sveinsdóttur (Vífill Harðarson lögmaður)
og til réttargæslu Fornaseli ehf. (enginn) og íslenska ríkinu (Andri Andrason lögmaður)

Lykilorð

  • Landamerki
  • Sönnun
  • Samaðild
  • Sameign
  • Lögskýring
  • Sératkvæði

Reifun

Ágreiningur aðila laut að landamerkjum jarðarinnar Drangavíkur í Árneshreppi gagnvart jörðunum Engjanesi, Ófeigsfirði og Laugalandi. Með hinum áfrýjaða dómi voru viðurkennd nánar tilgreind landamerki á milli Engjaness og Drangavíkur en ekki var talið að síðarnefnda jörðin ætti merki að jörðunum Ófeigsfirði og Laugalandi. Stefnendur í héraði voru eigendur 74,5% Drangavíkur en að áfrýjun þeirra til Landsréttar og Hæstaréttar stóðu 61% eigenda jarðarinnar og var öðrum eigendum hennar stefnt til að þola dóm af hálfu sameigenda sinna en þeir tóku undir málatilbúnað annarra stefndu í málinu. Hæstiréttur taldi að 4. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála gæti samkvæmt efni sínu ekki átt við um yfirlýsingar þeirra sem stefnt væri til að þola dóm þannig að þær væru bindandi fyrir áfrýjendur. Aðilar voru sammála um að leggja landamerkjabréf jarðanna Drangavíkur og Engjaness til grundvallar niðurstöðu í málinu. Kjarni ágreinings aðila laut að því hvernig bæri að skýra tilvísun landamerkjabréfanna til Eyvindarfjarðarár og hver hefðu verið upptök árinnar á ritunartíma þeirra. Hæstiréttur taldi bréfin afar fáorð um mörk inn til landsins og að nauðsynlegt væri að horfa til annarra heimilda en bréfanna sjálfra. Þær geymdu lýsingu sem nota mætti við mat á merkjum jarðanna, staðháttum sem og upplýsingum um notkun landsins. Þá var að teknu tilliti til staðhátta og venju á viðkomandi svæði líkt og í hinum áfrýjaða dómi miðað við að með orðunum „eptir hæstu fjallsbrún“ í landamerkjabréfi Engjaness væri átt við vatnaskil. Við úrlausn málsins var einnig lagt til grundvallar með vísan til ýmissa ritaðra heimilda um staðhætti og korta sem gerð voru nærri landamerkjabréfunum í tíma að Eyvindarfjarðará hefði á ritunartíma bréfanna komið upp í tveimur kvíslum norðarlega á Ófeigsfjarðarheiði þaðan sem hún hefði runnið í farvegi til sjávar. Jafnframt var talið að Efra- og Neðra Eyvindarfjarðarvatn hefðu ekki tekið að myndast fyrr en Drangajökull tók að hopa upp úr árinu 1914. Að þessu virtu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms var hann staðfestur um landamerki jarðanna Drangavíkur og Engjaness.

Dómur Hæstaréttar

1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Skúli Magnússon og Helgi I. Jónsson fyrrverandi hæstaréttardómari.

2. Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 1. nóvember 2024. Þeir krefjast þess að viðurkennt verði að landamerki jarðarinnar Drangavíkur gagnvart Engjanesi og Ófeigsfirði í Árneshreppi og Laugalandi í Strandabyggð séu sem hér segir:

Aðalkrafa

Milli Drangavíkur og Engjaness: Um línu sem dregin er úr ósi Eyvindarfjarðarár (Punktur 1) þar sem hún rennur úr Eyvindarfjarðarvatni með eftirfarandi hnitum samkvæmt Ísnet 93-staðli:

  1. 370325 m 625654 m
  2. 370496 m 627150 m
  3. 370786 m 627511 m

og þaðan um eftirfarandi hnitapunkta:

      04. 371041 m 627676 m
      03.  373877 m 629158 m
      02.  375840 m 630555 m
     20/01. 376616 m 629809 m

og þaðan þvert á fjöru á sjó út

Milli Drangavíkur og Ófeigsfjarðar um línu sem dregin er úr ósi Eyvindarfjarðarár (Punktur 1) til suðvesturs að mörkum gagnvart Laugalandi um merkjapunkta með eftirfarandi hnitum:

1. 370325 m 625654 m  7. 366163 m 621971 m  13. 362859 m 619448 m 
2. 370172 m 624656 m  8. 365074 m 621039 m  14. 362046 m 618952 m 
3. 369531 m 624424 m  9. 364847 m 620217 m  15. 361880 m 618952 m 
4. 368528 m 623477 m  10. 363911 m 620226 m  16. 361520 m 618909 m 
5. 367383 m 623347 m  11. 363185 m 620078 m 
6. 366631 m 622439 m  12. 363104 m 619924 m 
 

Milli Drangavíkur og Laugalands um línu sem dregin er úr punkti 16 (A) (hnit X 361520, Y 618909 m) við mörk Ófeigsfjarðar og þaðan norður að þjóðlendumörkum við Drangajökul um punkta með eftirfarandi hnitum:

17. 361597 m 619583 m  21. 361136 m 620352 m  25. 360908 m 622361 m 
18. 361398 m 619748 m  22. 361068 m 620958 m  26. 360930 m 622718 m 
19. 361392 m 619759 m  23. 361126 m 621244 m  27. 360898 m 622888 m 
20. 361289 m 619916 m  24. 360988 m 621759 m  28. 360641 m 623455 m 
 

Gagnvart stefndu Ásdísi Gunnarsdóttur, Guðrúnu Önnu Gunnarsdóttur, Sigríði Erlu Gunnarsdóttur, Svanhildi Guðmundsdóttur, Ásdísi Virk Sigtryggsdóttur, Karli Sigtryggssyni og Sigríði Sveinsdóttur, sameigendum áfrýjenda að Drangavík, er þess krafist að þeim verði gert að þola dóm í samræmi við aðalkröfu áfrýjenda.

Varakrafa

Gagnvart stefndu eigendum Ófeigsfjarðar er gerð sú varakrafa að viðurkennt verði að landamerki milli Drangavíkur og Ófeigsfjarðar liggi frá ósi Eyvindarfjarðarár við Eyvindarfjarðarvatn, punkti 1 (hnit X 370325, Y 625654), þaðan eftir syðstu kvíslum og vötnum að merkjum Laugalands um eftirfarandi hnitapunkta:

2. 368345 m 625358 m  6. 367343 m 624860 m  10. 367091 m 624717 m 
3. 368027 m 625274 m  7. 367223 m 624956 m  11. 367070 m 624618 m 
4. 367877 m 625382 m  8. 367145 m 624978 m  12. 367076 m 624414 m 
5. 367625 m 625280 m  9. 367091 m 624939 m  13. 366895 m 624255 m 
14. 366955 m 623808 m  29. 364766 m 621709 m  44. 363054 m 621130 m 
15. 366976 m 623565 m  30. 364707 m 621666 m  45. 362858 m 620960 m 
16. 366195 m 623006 m  31. 364707 m 621586 m  46. 362818 m 620716 m 
17. 366029 m 622974 m  32. 364449 m 621441 m  47. 362587 m 620720 m 
18. 365905 m 622751 m  33. 364379 m 621365 m  48. 362530 m 620664 m 
19. 365911 m 622658 m  34. 364257 m 621335 m  49. 362623 m 620376 m 
20. 365815 m 622547 m  35. 364240 m 621441 m  50. 362600 m 620273 m 
21. 365725 m 622481 m  36. 364184 m 621388 m  51. 362666 m 620141 m 
22. 365318 m 622404 m  37. 364105 m 621394 m  52. 362567 m 620095 m 
23. 365295 m 622231 m  38. 363704 m 621262 m  53. 362567 m 619989 m 
24. 365282 m 621967 m  39. 363628 m 621203 m  54. 362621 m 619726 m 
25. 365127 m 621924 m  40. 363476 m 621226 m 55. 362609 m 619295 m 
26. 365060 m 621854 m  41. 363394 m 621199 m  56. 362046 m 618952 m 
27. 364988 m 621828 m  42. 363331 m 621282 m  57. 361880 m 618952 
28. 364842 m 621715 m  43. 363232 m 621295 m 
 

og síðan í punkt 16 (A) á merkjum Laugalands (hnit X:361520, Y:618909).

Gagnvart stefndu Ásdísi Gunnarsdóttur, Guðrúnu Önnu Gunnarsdóttur, Sigríði Erlu Gunnarsdóttur, Svanhildi Guðmundsdóttur, Ásdísi Virk Sigtryggsdóttur, Karli Sigtryggssyni og Sigríði Sveinsdóttur, sameigendum áfrýjenda að Drangavík, er þess krafist að þeim verði gert að þola dóm í samræmi við varakröfu áfrýjenda.

Loks gera áfrýjendur þá kröfu að stefndu verði óskipt gert að greiða þeim málskostnað fyrir Hæstarétti og Landsrétti en stefndu eigendum Engjaness og Ófeigsfjarðar verði einnig gert að greiða óskipt áfrýjendum málskostnað fyrir héraðsdómi.

3. Stefndu Felix von Longo-Liebenstein, Nýja húsið Ófeigsfirði, Guðrún Sveinbjörnsdóttir, Gunnar Gaukur Magnússon, Halldóra Hrólfsdóttir, Hallvarður E. Aspelund, Haraldur Sveinbjörnsson, Pétur Guðmundsson, Valdimar Steinþórsson, Þóra Hrólfsdóttir, Halldór Árni Gunnarsson, Sverrir Geir Gunnarsson og Þórunn Hanna Gunnarsdóttir krefjast þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur og áfrýjendum gert að greiða þeim óskipt málskostnað fyrir Hæstarétti auk álags.

4. Stefndu Ásdís Gunnarsdóttir, Guðrún Anna Gunnarsdóttir, Sigríður Gunnarsdóttir og Svanhildur Guðmundsdóttir krefjast þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur og áfrýjendum gert að greiða þeim óskipt málskostnað fyrir Hæstarétti auk álags.

5. Stefndu Ásdís Virk Sigtryggsdóttir, Karl Sigtryggsson og Sigríður Sveinsdóttir krefjast þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur og áfrýjendum gert að greiða þeim óskipt málskostnað fyrir Hæstarétti.

6. Stefnda Sæmörk ehf. hefur ekki látið málið til sín taka.

7. Réttargæslustefndi íslenska ríkið krefst þess að málskostnaðarákvörðun Landsréttar gagnvart sér verði staðfest og áfrýjendum gert að greiða sér málskostnað fyrir Hæstarétti.

8. Réttargæslustefndi Fornasel ehf. hefur ekki látið málið til sín taka.

9. Við meðferð málsins fyrir Hæstarétti komust aðilar að samkomulagi um sameiginleg merki frá hnitapunkti 3 í A-lið aðalkröfu áfrýjenda og þaðan til austurs að hnitapunkti 20 í kröfunni.

Ágreiningsefni

10. Í málinu er deilt um landamerki jarðarinnar Drangavíkur í Árneshreppi á Ströndum. Annars vegar um mörk hennar gagnvart jörðinni Engjanesi og hins vegar gagnvart jörðunum Ófeigsfirði og Laugalandi. Áfrýjendur eru eigendur 61% Drangavíkur og beina þeir kröfum sínum til suðurs að eiganda Engjaness og 12 eigendum Ófeigsfjarðar, Sæmörk ehf. eiganda Laugalands í vestri, svo og sjö sameigendum sínum að Drangavík sem eiga 39% jarðarinnar, en þrír þeirra voru í hópi tólf stefnenda málsins í héraði. Kjarni ágreinings aðila lýtur að því hvernig beri að túlka landamerkjabréf jarðanna Drangavíkur og Engjaness frá árinu 1890, hvernig beri að skýra tilvísun þeirra til Eyvindarfjarðarár og hver hafi verið upptök árinnar á ritunartíma bréfanna.

11. Með hinum áfrýjaða dómi var héraðsdómur staðfestur um að landamerki Drangavíkur næðu ekki lengra inn til landsins en að tilgreindu hornmarki milli Engjaness, Drangavíkur og Dranga í 475 metra háan hnúk norðan og austan við Kringluvatn. Var sú niðurstaða í samræmi við kröfur eiganda Engjaness í gagnsök í héraði.

12. Áfrýjunarleyfi var veitt 31. október 2024 með ákvörðun Hæstaréttar nr. 2024-110 á þeim grunni að úrslit málsins gætu haft verulegt almennt gildi, meðal annars um sameign, samaðild og túlkun á 4. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þá kynni niðurstaða Landsréttar um ákvörðun málskostnaðar að vera í ósamræmi við lög.

13. Málið var tekið fyrir 23. september 2025 og fór þá fram stafræn vettvangsskoðun á landsvæðinu.

Málsatvik

14. Um landamerki jarðanna Drangavíkur, Engjaness, Ófeigsfjarðar og Dranga í Árneshreppi á Ströndum liggja fyrir ýmsar heimildir allt frá Landnámabók. Þar á meðal eru landamerkjabréf frá árinu 1890 sem aðilar vísa til ásamt öðru til stuðnings kröfum sínum.

15. Fyrirliggjandi heimildir um jarðirnar Engjanes og Drangavík benda til þess að landnytjar þeirra og hlunnindi hafi í áranna rás að langmestu leyti verið bundin við svæðið næst sjó, svo sem vegna reka, eggjatekju, dúntekju, selveiði og fiskveiði auk nytja á landi til hefðbundins búskapar nærri bæjarstæðum. Þá mun ágreiningssvæðið fyrst og fremst hafa verið nýtt til sumarbeitar fyrir sauðfé. Ráða má af gögnum málsins að búrekstrarskilyrði til landnytja á báðum jörðunum hafi einatt verið lítilfjörleg.

16. Í kjölfar landamerkjalaga nr. 5/1882 voru gerð landamerkjabréf fyrir jarðir á þrætusvæðinu og voru þau þinglesin án athugasemda 2. júlí 1890. Aðilar miða við efni bréfanna um lýsingar á merkjum en túlka þau á mismunandi vegu, bæði með tilliti til samanburðar á orðalagi þeirra og annarra gagna. Landamerkjabréf Drangavíkur og Engjaness eru fátækleg að efni til þegar inn til landsins dregur. Landamerkjabréf Dranga og Ófeigsfjarðar lýsa hins vegar merkjum inn til landsins með orðalaginu „svo langt sem vötnum hallar“.

17. Í bréfi Drangavíkur 2. júlí 1890 er merkjum jarðarinnar lýst svo:

„Milli Dranga er Drangatangi vid sjóinn sjónhending af lægsta Skardatindinum á vördu þá sem er á Klettunum skammt fyrir ofan sjóinn og svo eptir þeirri línu til sjóar. En milli Drangavíkur og Engjanes er Þrælskleif og nordanverdu kúpóttur klettur og varda beint upp af honum. Kálhólmar 3 med Ædarvarpi.“

18. Í bréfi Engjaness 2. júlí 1890 segir:

„Hornmark milli Engjanes og Drangavíkur er Þrælskleif, þadan beint til fjalls, svo eptir hæstu fjallsbrún ad Eyvindarfjardará en hún ræður merkjum til sjóar milli Engjaness og Ófeigsfjardar.“

19. Landamerkjabréf fyrir Ófeigsfjörð er hálfu ári eldra en bréf Drangavíkur og Engjaness en því var eins og hinum bréfunum þinglýst 2. júlí 1890. Þar segir:

„Land jardarinnar er frá Helgaskjóli og nordur ad Eyvindarfjardará og eru þar skír landamerki, fram til fjalls á Ófeigsfjördur svo langt sem vötnum hallar að Ófeigsfjarðarlandi og liggur því undir Ófeigsfjörð allur Húsadalur og allur Sýrárdalur út á Seljanesmúla ad vördum þeim, sem skilja milli Ófeigsfjardar og Seljaneslands. Á sjó á Ófeigsfjördur út þangað til Helgaskjól er ad bera í landamerkjavördu, sem þar er uppi á múlanum, þ.e. Ófeigsfjörður á nokkuð lengra á sjó úteptir en á landi.“

20. Landamerkjabréf fyrir Dranga frá 24. maí 1890 sem var þinglýst 2. júlí sama ár hljóðar svo:

„Land jarðarinnar að norðanverðu við bæjinn er norður að Bjarnafjarðará og eru þar skír landamerki milli Skjaldabjarnarvíkur og Dranga. Að sunnanverdu við bæjinn eiga Drangar land yzt út í Drangatanga nfl. sjónhendingu af lægsta Skarðatindinum í vörðu þá, sem er á klettunum skammt fyrir ofan sjóinn og svo eptir þeirri línu til sjávar. Til fjalls á jörðin land svo langt sem vötnum hallar ad láglendi hennar.“

21. Íslenska ríkið mun árið 1958 hafa selt Guðjóni Guðmundssyni hreppstjóra jörðina Engjanes á grundvelli laga nr. 39/1956 um heimild til sölu jarðeigna í opinberri eigu en hún hafði komist undir forræði ríkisins með lögum nr. 50/1907 um sölu kirkjujarða. Guðjón ráðstafaði síðar jörðinni með arfi til sonarsonar síns Ólafs Ingólfssonar, látins eiginmanns stefndu Svanhildar Guðmundsdóttur, og afsalaði hann jörðinni 6. nóvember 2006 til núverandi eiganda hennar, stefnda Felix von Longo-Liebenstein.

22. Í umsögn sýslumanns Strandasýslu vegna sölunnar árið 1958 sagði að jörðin hefði verið í eyði um langan aldur en verið nytjuð af ýmsum í Árneshreppi. Engar líkur væru til þess að jörð þessi kæmist í ábúð og yrði hún vart nytjuð af öðrum en þeim sem byggju í hreppnum. Af sama tilefni var jörðinni lýst með sambærilegum hætti í umsögn frá landnámsstjóra. Tún gæfu af sér 20 hesta og heyja mætti 40 hesta í úthaga. Ræktunarskilyrði væru engin á jörðinni en hún hefði reka og selveiði og væru með taldar þær nytjar sem hún gæti gefið. Það gæti ekki komið til mála að endurbyggja jörð þessa, enda hefði aldrei frá árinu 1700 verið varanleg ábúð þar þótt öðru hverju hefðu verið gerðar tilraunir til að festa á jörðinni byggð.

23. Eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi og héraðsdómi hefur jörðinni Drangavík einatt verið lýst sem meiri að dýrleika en jörðinni Engjanesi. Hún var þó gæðalítil eins og Engjanes og helstu kostir hennar trjáreki, dúntekja og selveiði. Drangavík er í gögnum jafnan tiltekin sem sérstök jörð en eftir að árferði versnaði hér á landi var jörðin ekki ætíð byggð. Hún lagðist í eyði vegna harðinda í byrjun 18. aldar en komst síðar aftur í byggð. Síðast var búið á henni árið 1947. Jörðin var um aldir í eigu kirkjunnar en var á árinu 1953 seld hlutafélaginu Sögun á Eyri við Ingólfsfjörð til nýtingar á rekaviði. Því félagi var slitið árið 1982 og í kjölfarið var jörðinni skipt milli hluthafa í réttu hlutfalli við eign þeirra í félaginu.

24. Á 19. öld og allt fram á miðja 20. öld mátti sjá í skjölum að vísað væri til jarðanna Engjaness og Drangavíkur undir nafni þeirrar síðarnefndu. Þó var um tvær aðskildar jarðir að ræða í eigu sitthvorrar kirkjustofnunarinnar þar til þær voru seldar eins og áður greinir. Merki jarðanna hafa ekki verið glögg en oftar en einu sinni kemur fram í gömlum skjölum og skrám að þau séu ágreiningslaus. Svo virðist sem ekki hafi risið ágreiningur um þau fyrr en árið 2019 við meðferð óbyggðanefndar á landsvæðinu. Af því tilefni lýstu nokkrir eigenda Drangavíkur kröfum um landamerki með sambærilegum hætti og gert er í málinu.

25. Til stendur að reisa svonefnda Hvalárvirkjun á Ströndum og tekur áhrifasvæði hennar meðal annars til lands þess sem deilt er um. Undirbúningur vegna virkjunarinnar hefur staðið um árabil með tilheyrandi kynningum á raski sem fylgir slíkri framkvæmd. Af hálfu nokkurra áfrýjenda voru gerðar athugasemdir við samþykki deiliskipulags Árneshrepps 27. júlí 2018 og matsskýrslu Hvalárvirkjunar sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 18. október sama ár. Báru athugasemdir þeirra ekki með sér að þau hefðu lögvarða hagsmuni sem eigendur lands innan áhrifasvæðis virkjunarinnar heldur sem eigendur lóða úr jörðinni Eyri í Ingólfsfirði.

26. Jörðin Drangar var friðlýst 13. desember 2021. Í friðlýsingartillögu fyrir hana, sem auglýst var 21. júní 2019 ásamt hnitasettu korti, kemur fram að bæði Engjanes og Drangavík eigi land að sunnanverðu landi Dranga. Hornmark Dranga, Engjaness og Drangavíkur sé í 475 metra háum hnúk norðan og austan við Kringluvatn. Þetta er sama hnitmark og eigandi Engjaness tekur mið af við lýsingu á landi sínu.

27. Að öðu leyti en að framan greinir er vísað til héraðsdóms og hins áfrýjaða dóms um málavexti og lýsingar á gögnum, svo sem sóknar- og sýslulýsingum og kortum sem við sögu koma.

Málsástæður

Helstu málsástæður áfrýjenda

28. Áfrýjendur reisa kröfur sínar einkum á því að túlka beri landamerkjabréf jarðanna Drangavíkur og Engjaness þannig að upptök Eyvindarfjarðarár séu og hafi á ritunartíma bréfanna verið við Eyvindarfjarðarvatn.

29. Áfrýjendur telja langsótt að með orðinu fjallsbrún í landamerkjabréfi fyrir Engjanes sé átt við vatnaskil. Nærtækara sé að velja hæsta hluta fjalls eða þann hluta þess sem hæst beri, séð frá tilteknum stað. Orðin „eptir hæstu fjallsbrún“ í landamerkjabréfinu verði því ekki skýrð sem vatnaskil, eins og Landsréttur hafi gert með vísan til gagna frá Veðurstofu Íslands sem séu heldur ekki einhlít um vatnaskil á Drangavíkurfjalli, að virtum hæðarlínum. Þegar litið sé til vesturs frá vörðu ofan Þrælskleifar megi greina fleiri en ein vatnaskil á fjallinu og ekki verði ályktað að höfundar landamerkjabréfanna hafi haft í huga allt vatnasvið Eyvindarfjarðarár, enda verði að gera ráð fyrir að landið hafi að minnsta kosti meirihluta ársins verið meira eða minna undir snjó á ritunartíma bréfanna.

30. Við meðferð málsins fyrir Hæstarétti leggja áfrýjendur áherslu á að Landsréttur hafi ranglega beitt 4. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991 með því að líta til yfirlýsinga sameigenda þeirra í hópi stefndu og leggja alla sönnunarbyrði á herðar áfrýjendum. Slík skýring á ákvæðinu sé í andstöðu við rétt þeirra til réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi og friðhelgi eignarréttar, sbr. 70. og 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.

31. Niðurstöðu hins áfrýjaða dóms um að landamerki Engjaness, Drangavíkur og Dranga liggi saman í 475 metra háum hnúk norðan og austan við Kringluvatn telja áfrýjendur úr lausu lofti gripna og eigi hún sér enga stoð í landamerkjabréfi Engjaness, enda fari merkjalína samkvæmt dóminum aldrei „ad Eyvindarfjardará“. Engin heimild eða vísbending sé um að Engjanes liggi að Dröngum. Landamerkjabréf Engjaness hafi ekki verið undirritað fyrir hönd þáverandi eiganda Dranga og heldur ekki landamerkjabréf Dranga fyrir hönd eiganda Engjaness. Hafi þó sami maður, J.J. Thorarensen, eigandi Skjaldabjarnarvíkur, verið umboðsmaður fyrir bæði Drangavík og Engjanes. Skýr fyrirmæli hafi verið í landamerkjalögunum frá árinu 1882 um að eigendur aðliggjandi jarða skyldu undirrita landamerkjabréf svo að þinglýsing þeirra héldi gildi gagnvart aðliggjandi jörðum. Þá komi fram í afsali 7. maí 1921 vegna sölu hálfrar jarðarinnar Ófeigsfjarðar að milli Drangavíkur og Ófeigsfjarðar ráði Eyvindarfjarðará frá sjó til upptaka.

32. Áfrýjendur vísa til þess að í eldri heimildum sé ekki að finna upplýsingar um afmörkun jarðarinnar Engjaness. Í landamerkjabréfi hennar sé ekki vísað til landsvæðis sem nái allt norður og vestur að jaðri Drangajökuls eða að vatnaskilum gagnvart Dröngum. Merkjum inn til landsins sé ekki lýst að öðru leyti en svo að fjallsbrún ráði frá Þrælskleif eftir Drangavíkurfjalli og þaðan að Eyvindarfjarðará sem ráði svo aftur merkjum til sjávar. Hvorki verði skýrlega séð til hvaða fjallsbrúnar sé vísað né heldur sé vísað til jökuljaðars eða vatnaskila á fjalli. Því verði að leggja til grundvallar að í landamerkjabréfinu sé lýst svæði sem afmarkist af fjallsbrúninni norðan og vestan Eyvindarfjarðardals og í Eyvindarfjarðará þar sem hún renni úr Eyvindarfjarðarvatni. Ofan við vatnið liggi og hafi legið margar ónefndar kvíslar úr heiðarvötnum en ekki Eyvindarfjarðará.

33. Áfrýjendur mótmæla því að miða skuli öll landmörk jarða austan Drangajökuls að meginstefnu við vatnaskil. Fyrir liggi að landmörk Skjaldabjarnarvíkur og Dranga séu um Bjarnarfjarðará og landamerki Engjaness og Ófeigsfjarðar um Eyvindarfjarðará neðan Eyvindarfjarðarvatns.

34. Verði ekki talið augljóst að merki Drangavíkur og Engjaness sé að finna á þeim stað þar sem hamrabelti Drangavíkur renni til heiðarlanda við ós Eyvindarfjarðarár samkvæmt framangreindu telja áfrýjendur að enn fremur beri að líta til staðhátta og nýtingar á svæðinu sem lítt hafi náð inn til landsins. Málið lúti að eignarrétti á meginhluta Drangavíkurfjalls en nafnið eitt gefi til kynna að fjallið tilheyri Drangavík. Auk þess sé hentug för upp fjallið um dalverpi ofan víkurinnar er nefnist Drangavíkurdalur en slíku sé ekki að heilsa ef farið er frá Engjanesi. Landmörk séu náttúruleg og enginn annar staður geti svarað til lýsingar landamerkjabréfa á raunverulegum skurðpunkti jarðanna en þar sem hæsta fjallsbrún Drangavíkurfjalls mætir Eyvindarfjarðará.

35. Loks telja áfrýjendur að ákvörðun Landsréttar um málskostnað hafi verið andstæð lögum. Eigendur 14,5% Drangavíkur hafi fengið felldan niður málskostnað í héraði sem þeim hafði verið gert að greiða óskipt með áfrýjendum samkvæmt héraðsdómi án þess að þeir hefðu áfrýjað dóminum.

Helstu málsástæður stefndu Felix Von Longo-Liebenstein, eiganda Engjaness, Nýja hússins Ófeigsfirði, Guðrúnar Sveinbjörnsdóttur, Gunnars Gauks Magnússonar, Halldóru Hrólfsdóttur, Hallvarðar E. Aspelund, Haraldar Sveinbjörnssonar, Péturs Guðmundssonar, Valdimars Steinþórssonar, Þóru Hrólfsdóttur, Halldórs Árna Gunnarssonar, Sverris Geirs Gunnarssonar og Þórunnar Hönnu Gunnarsdóttur, eigenda Ófeigsfjarðar

36. Stefndu byggja á því að beita skuli 4. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991 við þær aðstæður þegar eignarréttur sé óskiptur og takmarkist af rétti meðeigenda og landslögum. Þetta hafi réttilega verið gert í hinum áfrýjaða dómi í samræmi við réttarfarsreglur og hvorki í andstöðu við regluna um frjálst sönnunarmat né stjórnarskrá eða mannréttindasáttmála Evrópu.

37. Stefndu telja að áfrýjendur hafi haft vitneskju um landamerki Drangavíkur og nágrannajarða hennar og að vatnaskil réðu almennt merkjum jarða á Ströndum. Þá hafi vitnið Ásgeir Gunnar Jónsson, eiginmaður stefndu Guðrúnar Önnu Guðmundsdóttur, gert kort af Drangavík árið 1993 samkvæmt leiðbeiningum eigenda um að vatnaskil réðu merkjum þar eins og almennt á Ströndum. Því til viðbótar hafi óbyggðanefnd staðfest tilvist þessarar almennu reglu.

38. Stefndu vísa einnig til þess að við gerð matsskýrslu framkvæmdaraðila Hvalárvirkjunar 17. nóvember 2017, sem tekin var saman af Verkfræðistofunni Verkís, þar sem áfrýjandi Guðjón Egill Ingólfsson hafi starfað á þessum tíma, hafi verið miðað við landamerki og eignarhald í öllum meginatriðum í samræmi við kröfugerðir stefndu. Jafnframt hafi kæra hans og nokkurra annarra áfrýjenda vegna deiliskipulags 27. júlí 2018 og matsskýrslu fyrir virkjunina ekki borið með sér að þau hafi talið sig eigendur lands sem að hluta til sé ætlað henni.

39. Stefndu benda á að engum samtímaheimildum sé til að dreifa um að Eyvindarfjarðará eigi upptök sín í fossi sem fellur úr Eyvindarfjarðarvatni og að áin sé nafnlaus þar fyrir ofan. Þvert á móti styðji lýsing séra Sigurðar Gíslasonar á Árnessókn frá árinu 1852 hið gagnstæða, sem og kort danska herforingjaráðsins eftir mælingar og kortagerð á árunum 1913 og 1914 um upptök árinnar úr tveimur meginkvíslum norðarlega í Ófeigsfjarðarheiði, annarri í vatni rétt sunnan Drangajökuls og renni hún í skýrum farvegi þaðan og til sjávar. Greinargerð Náttúruverndarstofnunar um stærð Drangajökuls í lok 19. aldar styðji þetta einnig en hún samræmist sýslulýsingum 1744 til 1749 og Ferðabókum Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar 1752 til 1757 sem og korti af Strandasýslu teiknuðu á árabilinu 1720 til 1727.

40. Stefndu andmæla því að ekki hafi verið ritað undir landamerkjabréf Dranga af hálfu Engjaness. Hafi J.J. Thorarensen ritað undir bréfið með tilvísuninni „eigandi Skbvíkur og ful. fyrir Drangavík“ en skammstöfunin „ful.“ vísi til umboðs. Um hafi verið að ræða umboð vegna bæði Engjaness og Drangavíkur, enda gjarnan vísað til þeirra beggja undir nafni Drangavíkur.

41. Þá komi skýrt fram í athugasemdalausri friðlýsingartillögu fyrir jörðina Dranga að bæði Engjanes og Drangavík eigi land að sunnanverðu landi Dranga. Við þessa friðlýsingu skuli miða en þar komi fram að hornmark jarðanna Dranga, Engjaness og Drangavíkur sé í 475 metra háum hnúk norðan og austan við Kringluvatn.

42. Stefndu taka fram að krafa í gagnsök í héraði lúti einungis að landamerkjum milli Engjaness og Drangavíkur en hæsta fjallsbrún (vatnaskil) ráði merkjum jarðanna. Eyvindarfjarðará ráði síðan merkjum milli Engjaness og Ófeigsfjarðar eins og skýrt komi fram í landamerkjabréfi og örnefnaskrá Drangavíkur. Því sé ekki undarlegt að gagnkröfulínan liggi langt frá Eyvindarfjarðará. Hins vegar séu engar kröfur gerðar á hendur eiganda Dranga og ekki sé ágreiningur milli eigenda Dranga, Engjaness og Ófeigsfjarðar um landamerki.

43. Stefndu halda því fram að túlkun áfrýjenda á orðinu fjallsbrún, sem klettabrún langt suður af háfjallinu, stríði gegn almennum málskilningi og landfræðilegum aðstæðum svo sem vörðunni sem standi í hæsta punkti Drangavíkurfjalls á vatnaskilum milli Drangavíkur og Engjaness. Órökrétt sé að telja vörðuna hafa komið til sem leiðarvísi um hvar Þrælskleif sé að finna enda sé Þrælskleif niður við sjó. Þá telja stefndu að greiðfærara sé að ganga upp Drangavíkurfjall frá Engjanesi samkvæmt nánar tilgreindri leið.

44. Um álag á málskostnað vísa stefndu til þess að málarekstur áfrýjenda sé tilhæfulaus og viðhafður í því skyni að tefja eða koma í veg fyrir virkjunarframkvæmdir.

Helstu málsástæður stefndu Ásdísar Gunnarsdóttur, Guðrúnar Önnu Gunnarsdóttur, Sigríðar Gunnarsdóttur og Svanhildar Guðmundsdóttur, eigenda 25,5% jarðarinnar Drangavíkur

45. Þessi stefndu taka undir málatilbúnað annarra stefndu og þá einnig um álag á málskostnað. Leggja þau áherslu á að allir núverandi eigendur Drangavíkur reki eignarhald sitt á jörðinni til arfs frá eigendum Sögunar hf. Málarekstur áfrýjenda sé í fullkominni óþökk annarra eigenda jarðarinnar og hinn áfrýjaði dómur sé bæði í samræmi við gögn og það sem fyrri eigendur jarðarinnar og eigendur nágrannajarða hafi talið rétt um landamerki.

Helstu málsástæður stefndu Ásdísar Virkar Sigtryggsdóttur, Karls Sigtryggssonar og Sigríðar Sveinsdóttur, eigenda 13,5% jarðarinnar Drangavíkur

46. Þessi stefndu, sem voru í hópi stefnenda í héraði, taka undir málsástæður annarra stefndu. Þau vísa sérstaklega til þess að áfrýjendur hafi kynnt fyrir þeim hugmyndir um að fá úr því skorið hver væru mörk Drangavíkur gagnvart aðliggjandi jörðum án fjárhagslegrar áhættu fyrir þau. Á hinn bóginn hefðu þau ekki gert sér grein fyrir því að í þessu fælust málaferli gegn ættingjum og sameigendum að Drangavík. Þegar það hafi komið í ljós hafi þau leitast við að draga sig út úr málinu enda ekki talið sig hafa gefið lögmanni áfrýjenda skýrt umboð til málaferlanna.

47. Loks vísa þessi stefndu til þess að kröfur þeirra fyrir Landsrétti hafi kveðið á um staðfestingu héraðsdóms að öðru leyti en um málskostnað. Hefði það verið gert í ljósi þess að forvígismenn áfrýjenda hefðu áður lýst því yfir við stefndu að þau myndu ekki þurfa að bera kostnað vegna meðferðar málsins í héraði.

Niðurstaða

Um samaðild samkvæmt 4. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991

48. Stefnendur málsins í héraði voru upphaflega tólf talsins og sameigendur 74,5% jarðarinnar Drangavíkur. Aðrir sameigendur jarðarinnar stóðu ekki að málsókninni. Þeim var því í aðalsök stefnt til að þola dóm í málinu í samræmi við dómkröfur áfrýjenda.

49. Einungis níu af þeim eigendum Drangavíkur sem stóðu að málsókn í héraði, eigendur 61% jarðarinnar, áfrýjuðu héraðsdómi til Landsréttar en eigendur 13,5% hennar, stefndu Ásdís Virk Sigtryggsdóttir, Karl Sigtryggsson og Sigríður Sveinsdóttir, stóðu ekki að áfrýjuninni. Af þeirri ástæðu tók áfrýjunin til þeirra með kröfu um að þeim yrði gert að þola dóm í samræmi við kröfur áfrýjenda.

50. Í 4. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991 segir að þegar kröfur eða yfirlýsingar þeirra sem eiga óskipta aðild eru ósamrýmanlegar skuli telja aðilana alla bundna við þá kröfu eða yfirlýsingu sem er gagnaðila hagkvæmust, nema sýnt sé að hún sé röng eða þann sem setti hana fram hafi sér að ósekju skort vitneskju um málsatvik eða stöðu sína að lögum. Lögskýringargögn með ákvæðinu og fyrirrennara þess í 2. mgr. 46. gr. laga nr. 85/1936 um meðferð einkamála í héraði víkja ekki sérstaklega að þeirri aðstöðu þegar þeim sem eiga óskipta aðild er stefnt til varnar af sameigendum sínum og hvaða þýðingu yfirlýsingar hinna síðarnefndu hafa í því samhengi.

51. Hluti stefndu í máli þessu eru sameigendur áfrýjenda að jörðinni Drangavík og bar nauðsyn til að stefna þeim til að þola dóm um landamerki jarðarinnar á grundvelli skyldubundinnar samaðildar samkvæmt 2. mgr. 18. gr. nr. 91/1991. Á hinn bóginn verður ekki talið að regla 4. mgr. ákvæðisins geti átt við um sönnun með þeim hætti sem lagt er til grundvallar bæði í héraði og í hinum áfrýjaða dómi.

52. Þar sem þeir í hópi stefndu sem eru sameigendur að jörðinni Drangavík eru þannig gagnaðilar áfrýjenda í málinu getur 4. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991 samkvæmt efni sínu ekki átt við um yfirlýsingar þeirra þannig að þær séu bindandi fyrir áfrýjendur. Verður að skýra ákvæðið með þeim hætti að það vísi til þeirrar aðstöðu þegar þeir sem eiga óskipta aðild standa sameiginlega að málshöfðun. Með sama hætti geta ákvæði 45. gr. eða 1. mgr. 50. gr. laganna ekki átt við í þessu tilliti. Hvað sem því líður kunna yfirlýsingar þessara stefndu í hópi sameigenda að Drangavík um málsatvik eftir atvikum að hafa þýðingu við mat á sönnun í málinu.

Um skýringu landamerkjabréfa

53. Aðilar eru sammála um að leggja landamerkjabréf jarðanna Drangavíkur og Engjaness til grundvallar niðurstöðu í málinu. Þá er óumdeilt að eftir gerð bréfanna á árinu 1890 voru engir samningar gerðir sem breyttu mörkum milli jarðanna. Þess skal getið að fyrir Hæstarétti gerðu áfrýjendur og stefndu með sér samkomulag sem fól í sér að tilteknar kröfulínur þeirra eftir Drangavíkurfjalli falla nú saman.

54. Landamerkjabréf jarðanna tveggja eru afar fáorð um mörk inn til landsins, enda er hið umdeilda landsvæði ekki þeim kostum búið að einhver sérstök verðmæti hafi á ritunartíma þeirra falist í eignarrétti að því. Virðist tilkall áfrýjenda til landsins raunar ekki hafa komið fram fyrr en á árinu 2019 í tengslum við meðferð óbyggðanefndar vegna svæðis við suðausturhluta Drangajökuls í máli nr. 1/2019 og við deilur vegna svonefndrar Hvalárvirkjunar.

55. Þegar lýsingar í landamerkjabréfum eru bæði óljósar og tilgreina ekki til fulls merki jarða verður að líta til sambærilegra sjónarmiða við afmörkun þeirra og þegar svo háttar til að landamerkjabréf skortir. Af þeim sökum verður meðal annars að horfa til annarra heimilda en bréfanna sjálfra er hafa að geyma lýsingu sem nota má við mat á merkjum jarðanna, staðháttum, upplýsingum um notkun landsins eða afstöðu vitna og aðila til þess.

56. Landsvæðið austan og sunnan Drangajökuls var í ágúst 2022 tekið til meðferðar hjá óbyggðanefnd á grundvelli heimildar í 7. mgr. 10. gr. laga nr. 58/1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, sbr. 4. gr. laga nr. 34/2020, og lýsti réttargæslustefndi íslenska ríkið kröfu um þjóðlendu á stórum hluta þess svæðis sem ágreiningur máls þessa lýtur að. Með úrskurði óbyggðanefndar 17. október 2024 í máli nr. 4/2023 var komist að þeirri niðurstöðu að ekki væru þjóðlendur á svæðinu. Um það var vísað til þess að svæðið sem nefndin hefði til umfjöllunar væri allt innan merkja jarða samkvæmt fyrirliggjandi heimildum sem bentu ekki til að munur hefði verið á eignarréttarlegri stöðu lands innan merkjanna. Væri ágreiningssvæðið umlukið eignarlöndum á allar hliðar sem væru mjög sambærileg gróðurfarslega en engu að síður eignarlönd að undanskildum Drangajökli. Þótti það styðja niðurstöðu um að svæðið skyldi ekki teljast þjóðlenda.

57. Ekki verður fullyrt um tilurð jarðanna Drangavíkur og Engjaness. Þó hefur dýrleiki Drangavíkur að jafnaði verið meiri en Engjaness. Jafnframt virðist sem heitið Drangavík hafi í einhverjum tilvikum í skjölum verið notað um báðar jarðirnar. Þær hafa heldur ekki alltaf verið í byggð en þó frekar Drangavík. Í Jarðatali Jóns Johnsens frá árinu 1847 kemur til að mynda fram að árið 1805 hafi Engjanes verið beitiland frá Drangavík og þá er þess getið í umsögn sýslumanns Strandasýslu um sölu jarðarinnar árið 1956 að hún hafi verið í eyði um langan tíma en nytjuð af ýmsum í Árneshreppi.

58. Við túlkun orða landamerkjabréfa jarðanna deila aðilar annars vegar um hvar fjallsbrún Drangavíkurfjalls endar og hins vegar hvort og þá hvaða stað sé átt við með orðunum „ad Eyvindarfjardará“. Frá sjó talið ber landamerkjabréf Engjaness með sér að mörk jarðarinnar og Drangavíkur liggi að vörðu ofan Þrælskleifar og fari þaðan eftir „hæstu fjallsbrún ad Eyvindarfjardará“.

59. Ef einungis er litið til árinnar eins og hún rennur og þeirra vatna sem nú eru á hinu umþrætta svæði má til samanburðar líta til orða landamerkjabréfs vegna Ófeigsfjarðar þar sem sama orðalag er notað um mörk jarðarinnar að Eyvindarfjarðará eða frá Helgaskjóli og norður „ad Eyvindarfjardará og þar eru skír landamerki“. Bendir sú lýsing til þess að átt sé við mörkin alveg að ánni en ekki í átt að henni. Sama orðalag er síðan notað í landamerkjabréfi fyrir Dranga við lýsingu á mörkum jarðarinnar við Skjaldabjarnarvík sem sögð eru liggja „norður ad Bjarnafjardará” og eru þar talin skýr landamerki milli þessara tveggja jarða.

60. Um hvernig staðið var að undirritun á landamerkjabréf Dranga og Engjaness skal tekið fram að J.J. Thorarensen ritaði undir bæði bréfin eftir umboði frá eiganda Drangavíkur. Er þess þá að gæta eins og fram er komið að gjarnan var vísað til beggja jarðanna Drangavíkur og Engjaness undir nafni þeirrar fyrrnefndu.

61. Í málum þar sem deilt hefur verið um hugtakið „fjallsbrún“ í landamerkjabréfi hefur Hæstiréttur lagt til grundvallar að átt sé við vatnaskil, sbr. dóm réttarins 20. október 2016 í máli nr. 59/2016. Þó er ekki unnt að líta svo á að túlka beri slíkt orðalag fortakslaust á þennan máta heldur verður eins og að framan greinir að fara fram atviksbundið mat þar sem meðal annars er tekið tillit til staðhátta og venju á viðkomandi svæði. Eins og lagt er til grundvallar í hinum áfrýjaða dómi hefur á svæðinu umhverfis Drangajökul verið miðað við að með orðum eins og „eptir hæstu fjallsbrún“ í landamerkjabréfi Engjaness sé átt við vatnaskil. Þá verður ekki annað ráðið en að sama viðmið sé notað í landamerkjabréfum nærliggjandi jarða um að vatnaskil ráði merkjum. Að þessu fengnu má í því samhengi vísa til lýsingar Árnessóknar frá árinu 1852 sem getið er um í Sóknalýsingum Vestfjarða um að Drangavíkurfjall sé geysihátt klettafjall er liggi suður og útsuður fram undir eystri sporðinn á Drangajökli og Ófeigsfjarðarheiði og fylgi norðurmörk Engjaness vatnaskilum á Drangavíkurfjalli norðan Eyvindarfjarðar allt vestur að jaðri jökulsins.

62. Þá er til þess að líta að áform um friðlýsingu Dranga á Ströndum sem óbyggðs víðernis voru fyrst auglýst 18. febrúar 2019 og öðru sinni 21. júní sama ár. Með áformunum fylgdi hnitasett kort þar sem glöggt kemur fram að bæði Engjanes og Drangavík eigi land að sunnanverðu landi Dranga. Hornmark Dranga, Engjaness og Drangavíkur er þar markað í 475 metra háum hnúk norðan og austan við Kringluvatn. Hefur stefndi Felix von Longo-Liebenstein lýst því yfir að þetta sé sama hnitmark og hann taki mið af í dómkröfu sinni.

63. Við úrlausn málsins ber að leggja til grundvallar kort sem unnið var á vegum danska herforingjaráðsins á árunum 1913 og 1914, enda samræmist það mjög öðrum rituðum heimildum um staðhætti. Voru þá aðeins liðin 24 ár frá gerð umræddra landamerkjabréfa og nýtur ekki við gagna um vatnafar á svæðinu sem unnin voru nær landamerkjabréfunum í tíma. Samkvæmt kortinu kemur Eyvindarfjarðará upp í tveimur kvíslum norðarlega á Ófeigsfjarðarheiði þaðan sem hún rennur í farvegi til sjávar. Þá er á vinnukortum herforingjaráðsins heldur ekki að finna vötn í líkingu við Efra- og Neðra Eyvindarfjarðarvatn eins og nú koma fram á kortum um vatnasvið Eyvindarfjarðarár. Þess í stað er áin merkt bæði fyrir ofan og neðan foss þann sem áfrýjendur vilja miða við að upptök árinnar séu og hafi verið.

64. Þegar litið er lengra aftur frá gerð landamerkjabréfanna ber einnig að geta korts af Strandasýslu sem varðveitt er á Þjóðskjalasafni Íslands og er samkvæmt skrá safnsins talið vera frá árunum 1720 til 1727. Þar er Eyvindarfjarðará dregin í farvegi frá upptökum í Drangajökli til sjávar eins og á herforingjaráðskortinu án þess að vötn séu merkt á þeirri leið þótt á korti þessu séu merkt inn tvö önnur vötn, Kringluvatn og Meyjarvatn. Auk þess er framangreind sóknarlýsing Árnessóknar frá árinu 1852 mjög til stuðnings ályktun sem dregin verður af herforingjaráðskortinu þar sem Eyvindarfjarðará er lýst sem miklu vatnsfalli og illu yfirferðar er eigi upptök sín í smákvíslum á norðanverðri Ófeigsfjarðarheiði og renni norðan af heiðinni og þaðan sunnan Drangavíkurfjalls og Engjaness og til austurs út í Eyvindarfjörð. Hvað varðar lýsingar á vatnafari við Drangajökul fyrr á tímum ber og að geta sýslulýsingar Strandasýslu á árunum 1744 til 1749 sem kveður á um að Eyvindarfjarðará eigi upptök sín í Drangajökli. Greinargerð Náttúruverndarstofnunar um náttúrufar í Árneshreppi á Ströndum, þar sem vikið er að stærð Drangajökuls í lok 19. aldar, styður þetta einnig og samrýmist sýslulýsingunni svo og framangreindu korti af Strandasýslu, gerðu laust eftir árið 1720.

65. Samkvæmt framansögðu verður að telja að Eyvindarfjarðará hafi við gerð landamerkjabréfa jarðanna árið 1890 runnið eins og lýst er á herforingjaráðskortinu. Eins og lagt er til grundvallar í hinum áfrýjaða dómi verður jafnframt talið að Efra- og Neðra Eyvindarfjarðarvatn hafi ekki tekið að myndast fyrr en Drangajökull tók að hopa upp úr árinu 1914.

66. Eftir öllu framansögðu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um landamerki jarðanna Drangavíkur og Engjaness.

Um málskostnað

67. Stefndu Ásdís Virk Sigtryggsdóttir, Karl Sigtryggsson og Sigríður Sveinsdóttir, eigendur 13,5% jarðarinnar Drangavíkur, var í héraði gert að greiða málskostnað óskipt með áfrýjendum. Svo sem greinir í dómi Landsréttar féllu aðrir stefndu við meðferð málsins þar fyrir dómi frá kröfu um málskostnað í héraði á hendur þeim en þau höfðu við áfrýjun málsins gengið til liðs við fyrrum gagnaðila sína. Höfðu stefndu forræði á ráðstöfun sakarefnis að því leyti, sbr. 45. gr. laga nr. 91/1991. Að því sögðu verða staðfest ákvæði hins áfrýjaða dóms um málskostnað.

68. Eftir úrslitum málsins verður áfrýjendum gert að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjendur Guðjón Egill Ingólfsson, Gunnar Ólafur Bjarnason, Helga Hauksdóttir, Halldór Kristján Ingólfsson, Ingunn Hinriksdóttir, Lára Valgerður Ingólfsdóttir, Ólafur Gunnarsson, Þórhildur Hrönn Ingólfsdóttir og Valfríður Möller greiði óskipt stefndu Felix von Longo-Liebenstein, Nýja húsinu Ófeigsfirði, Guðrúnu Sveinbjörnsdóttur, Gunnari Gauki Magnússyni, Halldóru Hrólfsdóttur, Hallvarði E. Aspelund, Haraldi Sveinbjörnssyni, Pétri Guðmundssyni, Valdimar Steinþórssyni, Þóru Hrólfsdóttur, Halldóri Árna Gunnarssyni, Sverri Geir Gunnarssyni og Þórunni Hönnu Gunnarsdóttur 3.500.000 krónur, stefndu Ásdísi Gunnarsdóttur, Guðrúnu Önnu Gunnarsdóttur, Sigríði Gunnarsdóttur og Svanhildi Guðmundsdóttur 1.200.000 krónur, stefndu Ásdísi Virk Sigtryggsdóttur, Karli Sigtryggssyni og Sigríði Sveinsdóttur 1.200.000 krónur og réttargæslustefnda íslenska ríkinu 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Sératkvæði

Ólafs Barkar Þorvaldssonar og Skúla Magnússonar

1. Við tökum undir lýsingu málsatvika í atkvæði meirihlutans svo og umfjöllun um skýringu 4. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og þýðingu hennar fyrir sakarefnið. Einnig erum við samþykkir þeirri forsendu meirihlutans að úrlausn málsins velti fyrst og fremst á túlkun landamerkjabréfa jarðanna Drangavíkur, Engjaness og Ófeigsfjarðar sem öllum var þinglýst sama dag 2. júlí 1890. Hins vegar erum við ósammála meirihlutanum um nánari túlkun bréfanna í ljósi staðhátta á svæðinu og þeirra gagna sem veitt geta vísbendingar að þessu leyti.

2. Líkt og fjallað er um í atkvæði meirihlutans benda gögn málsins til að hagnýting lands á því svæði sem aðilar deila um hafi verið engin eða afar takmörkuð í gegnum tíðina. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum mun jörðin Drangavík hafa verið numin af Þorvaldi Ásvaldssyni og líkast til síðar en fram fóru landnám þeirra Eyvindar, Ófeigs og Ingólfs Herröðarsona til suðurs og Skjalda-Bjarnar Herfinnssonar til norðurs. Verður þannig ráðið að téður Þorvaldur hafi átt bú sitt að Dröngum sem ótvírætt var í landnámi Skjalda-Bjarnar og hann hafi því þegið land sitt að hluta frá honum. Hins vegar verður ekkert fullyrt um hvort land Þorvaldar hafi einnig náð til nyrsta hluta landnáms Eyvindar, það er svæðisins norðan Eyvindarfjarðarár þar sem nú er Engjanes.

3. Engar heimildir eru um nánari afdrif landnáms Eyvindar eða jörð með því nafni. Fyrstu heimildir um jörðina Engjanes eru hins vegar úr máldaga Stafholtskirkju árið 1140. Í atkvæði meirihlutans er því haldið til haga að í sumum skjölum sé heitið Drangavík notað yfir báðar jarðir, það er Drangavík og Engjanes. Þá benda önnur gögn málsins, til dæmis tilvitnun í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1706, til þess að Engjanes hafi sjaldnast verið í byggð heldur löngum nýtt frá Drangavík. Einnig bera síðari tíma gögn með sér að frá 1700 hafi aldrei verið varanleg ábúð á jörðinni þótt öðru hverju hafi verið gerðar tilraunir til að festa á henni byggð, sbr. til að mynda umsögn sýslumanns Strandasýslu vegna sölu jarðarinnar 1958 til Guðjóns Guðmundssonar hreppstjóra á grunni laga nr. 39/1956 um heimild til sölu jarðeigna í opinberri eigu. Á hinn bóginn er Drangavík í gögnum einatt tiltekin sem sérstök jörð en eftir að árferði versnaði hér á landi var hún þó ekki ætíð byggð. Fór hún þannig í eyði fyrir harðinda sakir í byrjun 18. aldar en komst síðar aftur í byggð.

4. Í sömu átt ganga gögn málsins um dýrleika jarðanna. Verður af þeim dregin sú ályktun að verðmæti Engjaness hafi löngum verið lítið og í öllu falli miklum mun minna en nágrannajarðarinnar Drangavíkur.

5. Samkvæmt þessu er ekkert fram komið í málinu um að Engjanes sé landnámsjörð eða eigendur hennar geti með einhverjum hætti talið til landsréttinda sem leidd verði af fyrrnefndu landnámi Eyvindar Herröðarsonar. Verða því takmarkaðar ályktanir dregnar af fyrirliggjandi upplýsingum um landnámssögu svæðisins. Þá styðja gögn málsins um nytjar og dýrleika jarðanna Engjaness og Drangavíkur síður en svo þá ályktun að sú fyrrnefnda eigi umfram þá síðarnefndu land upp í eða að brún Drangajökuls.

6. Svo sem áður greinir ræðst úrlausn málsins fyrst og fremst af túlkun landamerkjabréfa jarðanna þriggja sem næst verður vikið að. Í því efni er fyrst til þess að líta að á ritunartíma bréfanna giltu landamerkjalög nr. 5/1882 og voru bréfin gerð að fyrirmælum þeirra. Samkvæmt 3. gr. laganna var eigandi eða umráðamaður hverrar jarðar skyldur til að skrásetja nákvæma lýsingu landamerkja jarðar sinnar eins og hann vissi þau réttust. Merkjalýsinguna skyldi hann meðal annarra sýna hverjum þeim er land ætti til móts við hann og skyldu þeir rita á lýsinguna samþykki sitt, hver fyrir sína jörð, nema þeir álitu hana eigi rétta. Samkvæmt 5. gr. laganna skyldi sýslumaður grennslast eftir á manntalsþingi hvort ákvæðum 1. til 4. gr. laganna hefði verið fullnægt. Var það því meðal annars skilyrði þinglýsingar landamerkjabréfs á manntalsþingi eftir 4. gr. laganna að fullnægt hefði verið áskilnaði um áritun eigenda eða umráðamanna aðliggjandi jarða.

7. Fyrir liggur að landamerkjabréf þriggja fyrrgreindra jarða var öllum þinglýst á manntalsþingi 2. júlí 1890. Landamerkjabréf Engjaness ber með sér að hafa verið áritað af umráðamanni jarðarinnar Drangavíkur og jarðareiganda Ófeigsfjarðar. Hins vegar er þar ekki að finna áritun eiganda eða umráðamanns jarðarinnar Dranga. Mælir þetta eindregið gegn því að litið hafi verið svo á að merki Engjaness fylgdu vatnaskilum frá Drangavíkurfjalli að Drangajökli eða lægu að merkjum Dranga. Hins vegar samrýmist þessi áritun eigenda nágrannajarða Engjaness því að jörðin hafi verið lukin af þeim, það er jörðunum Drangavík og Ófeigsfirði. Hér verður einnig að hafa í huga að af öðrum landamerkjabréfum um jarðir á Ströndum verður ekki annað ráðið en að þess hafi einatt verið gætt að geta þar um staðfestingu eigenda nágrannajarða í samræmi við fyrirmæli 4. gr. laganna.

8. Í landamerkjabréfi jarðarinnar Engjaness er merkjum hennar lýst svo að hornmark milli hennar og Drangavíkur sé „Þrælskleif, þadan beint til fjalls, svo eptir hæstu fjallsbrún ad Eyvindafjardará en hún ræður merkjum til sjóar milli Engjaness og Ófeigsfjardar“. Ef þetta landamerkjabréf jarðarinnar er borið saman við bréf hinna tveggja hefur það þá sérstöðu að í því er merkjum lýst sem samfelldri línu frá sjó eftir hæstu fjallsbrún „ad Eyvindarfjardará“ sem aftur rennur í sjó fram. Andstætt þessu er í landamerkjabréfi Drangavíkur aðeins að finna lýsingu á merkjum jarðarinnar út við ströndina án þess að vikið sé að endimörkum hennar inn til lands eða upp til fjalla.

9. Í bréfi Ófeigsfjarðar er land jarðarinnar sagt ná frá Helgaskjóli „og nordur ad Eyvindafjardará og eru þar skír landamerki, fram til fjalls á Ófeigsfjördur svo langt sem vötnum hallar að Ófeigsfjarðarlandi“. Andstætt því sem á við um Engjaness ber bréfið þannig með sér að Ófeigsfjörður eigi land upp til fjalls allt til vatnaskila án þess að þau séu nánar tilgreind. Við frekari samanburð á merkjalýsingum í bréfum vegna jarða norðan og austan Drangajökuls sést einnig að hið sama orðalag er notað í landamerkjabréfi fyrir Dranga um lýsingu á mörkum jarðarinnar við Skjaldabjarnarvík sem sögð eru liggja „norður að Bjarnafjarðará“ og eru þar talin skýr landamerki milli þessara tveggja jarða. Hlýtur lýsing á þessa leið eðli málsins samkvæmt að þýða að merki nái alveg að viðkomandi á sem svo ráði merkjum. Sé horft suður frá viðurkenndu hornmarki milli Drangavíkur og Dranga í námunda við Kringluvatn sem eigandi Engjaness miðar við í kröfugerð sinni verður því þar af leiðandi ekki fundinn staður að merki komi að Eyvindarfjarðará né öðru kennileiti við hana.

10. Af öllu framangreindu verður ekki dregin önnur ályktun en að jörðin Engjaness hafi við ritun landamerkjabréfanna alfarið verið talin afmarkast af þeirri samfelldu línu sem lýst er í bréfi jarðarinnar og þá þannig að jörðin ætti ekki frekara landsvæði upp til fjalla en sem því næmi. Verður því ekki séð að við ritun bréfanna þriggja árið 1890 hafi jörðin verið talin eiga land upp í Drangajökul eða að honum. Er þá einnig horft til þess að samkvæmt staðháttum getur slík túlkun ekki komið heim og saman við það afdráttarlausa orðalag að merki fari „eptir hæstu fjallsbrún ad Eyvindarfjardará“. Gildir þá einu hvort hæsta fjallsbrún er miðuð við hamrabelti Eyvindarfjarðar megin í Drangavíkurfjalli eða vatnaskil á fjallinu svo sem aðilar eru sammála um.

11. Að fenginni þessari niðurstöðu kemur næst til skoðunar hvar hæsta fjallsbrún í bréfi Engjaness teljist koma „ad Eyvindarfjarðará“.

12. Svo sem áður greinir skilur Eyvindarfjarðará milli jarðanna Engjaness og Ófeigsfjarðar og er sérstaklega tekið fram í bréfi þeirrar síðargreindu að um sé að ræða „skír landamerki“. Einnig ber orðalagið með sér að þegar sleppi þessu afdráttarlausa merki, það er ánni, og komið sé „fram til fjalls“ eigi jörðin land „svo langt sem vötnum hallar að Ófeigsfjarðarlandi“.

13. Fyrir liggur að vestan við svonefnt Eyvindarfjarðarvatn er ekki um einn afgerandi farveg Eyvindarfjarðarár að ræða heldur fleiri kvíslar sem renna í vatnið. Samkvæmt sóknarlýsingu Árnessóknar frá 1852 rennur Eyvindarfjarðará fyrir sunnan Drangavíkurfjall og Engjanes til austurs, út í Eyvindarfjörð. Einnig kemur þar fram að áin renni ofan af Ófeigsfjarðarheiði norðanverðri og hafi þar upptök sín í smákvíslum. Samræmist þessi lýsing því að vestan við umrætt vatn sé einungis að finna upptök Eyvindarfjarðarár en ekki afgerandi árfarveg. Athugast í því tilliti að í landamerkjabréfum Engjaness og Ófeigsfjarðar er ekki vísað til slíkra upptaka ár, smákvísla eða tiltekinnar kvíslar, eins og vænta mætti ef merki væru miðuð við slíka staðhætti. Í bréfi Engjaness segir þannig að merki fylgi hæstu fjallsbrún „ad Eyvindarfjarðará“. Í landamerkjabréfi Ófeigsfjarðar er einnig tekið fram að merki við Eyvindarfjarðará séu „skír“ og samræmist það því illa að þar sé miðað við ána í óljósum upptökum sínum.

14. Í korti danska herforingjaráðsins af svæðinu er Eyvindarfjarðará aðeins tilgreind neðan og austan lítils stöðuvatns og merkt inn á kortið ásamt fossi úr því. Svarar þessi staðsetning til svonefnds Eyvindarfjarðarvatns án þess að tiltekin kvísl eða kvíslar vestar og ofan þess séu tilgreindar með því heiti. Samræmist þetta þeirri landfræðilegu staðreynd sem áður getur að ekki er um einn afgerandi farveg árinnar að ræða fyrr en hún fellur úr vatninu niður í Eyvindarfjarðardal. Síðar útgefin kort sem fyrir liggja í málinu eru sama merki brennd. Verður samkvæmt þessu ekki önnur ályktun dregin af takmarkaðri kortasögu svæðisins en að fyrst megi tala um Eyvindarfjarðará þar sem hún rennur úr Eyvindafjarðarvatni.

15. Vestan og ofan Eyvindarfjarðarvatns er ekki að finna greinilega fjallsbrún heldur hæðótt landslag allt að brún Drangajökuls. Sé vatnaskilum á Drangavíkurfjalli fylgt vestur fyrir umrætt vatn er því ekki um nein kennileiti að ræða sem unnt er að fylgja „ad Eyvindarfjarðará“ í samræmi við fyrirmæli landamerkjabréfsins. Styrkir allt þetta þá niðurstöðu að líta beri svo að í hið „skíra“ landamerki sem vísað er til í landamerkjabréfi Ófeigsfjarðar sé áin þar sem hún rennur í einum farvegi úr umræddu vatni niður í Eyvindarfjarðardal en þar vestan af og fram til fjalls eigi jörðin land svo langt sem vötnum hallar að Ófeigsfjarðarlandi, svo sem segir í bréfinu. Gildir einu um þessa niðurstöðu þótt staðhættir á svæðinu hafi vafalaust breyst nokkuð í aldanna rás, Eyvindarfjarðarvatn stækkað samfara hopun Drangajökuls og ný vötn eða tjarnir myndast vestan við vatnið.

16. Samkvæmt því sem nú hefur verið rakið verður að miða úrlausn málsins við að merki jarðarinnar Engjaness fylgi efstu fjallsbrún, það er vatnaskilum, frá óumdeildri vörðu á Drangavíkurfjalli að útfalli Eyvindafjarðarár í umræddu stöðuvatni. Að frágenginni þeirri niðurstöðu koma merki Drangavíkur inn til landsins til nánari skoðunar.

17. Í atkvæði meirihlutans er rakin umfjöllun óbyggðanefndar um hið umdeilda svæði og sú niðurstaða hennar að það teljist innan eignarlanda jarða, sbr. úrskurð óbyggðanefndar 17. október 2024 í máli nr. 4/2023. Í úrskurðinum kemur fram að ætla megi að minni ástæða hafi þótt til að lýsa merkjum jarða til fjalla samanborið við merki gagnvart aðliggjandi jörðum á láglendi. Í því sambandi er vísað til þeirrar útbreiddu venju að vatnaskil og hæstu brúnir fjalla hafi ráðið þegar fjöllin mynduðu skýr landamerki af náttúrunnar hendi. Er þá einnig vísað til þess að jaðar Drangajökuls hafi verið talinn afmarka land með svo glöggum hætti að ekki hafi þótt þörf á því að fjalla sérstaklega um það í landamerkjabréfum. Í samræmi við þetta lagði nefndin til grundvallar að eignarland jarða á hinu umdeilda svæði næði allt að þjóðlendulínu við brún Drangajökuls. Hefur ríkið ekki leitast við að fá þessari niðurstöðu hnekkt með dómi.

18. Þegar þetta er haft í huga og horft er til atvika málsins að öðru leyti verður að leggja til grundvallar að jaðar Drangajökuls hafi verið talinn fela í sér svo augljóst náttúrulegt merki inn til landsins að ekki þarfnaðist sérstakrar umfjöllunar í landamerkjabréfi Drangavíkur. Verður einnig að telja rökrétt við túlkun bréfsins að miðað sé við að norðanverð merki jarðarinnar til fjalla fylgi suðurmörkum Dranga allt að jökulbrún. Styður það þessa niðurstöðu að landamerkjabréf Drangavíkur er áritað af eiganda Dranga andstætt bréfi Engjaness svo sem áður er rakið.

19. Samkvæmt öllu framangreindu teljum við að fallast beri á málatilbúnað áfrýjenda í öllu verulegu. Með hliðsjón af niðurstöðu meirihlutans eru þó ekki efni til að taka frekari afstöðu til kröfugerðar þeirra eða annarra aðila.