Hæstiréttur íslands

Mál nr. 11/2023

Reykjavíkurborg (Ebba Schram lögmaður)
gegn
A (Agnar Þór Guðmundsson lögmaður)

Lykilorð

  • Skaðabætur
  • Slysatrygging
  • Líkamstjón
  • Kjarasamningur
  • Gjafsókn
  • Sératkvæði

Reifun

A varð fyrir líkamstjóni á árinu 2018 þegar ekið var á hann á gangbraut við Ánanaust. A var á slysdegi starfsmaður R. Aðilar höfðu gert með sér samgöngusamning sem fól í sér að A gekkst undir að notast við vistvænan samgöngumáta á leið til og frá vinnu. Fyrir lá að A kaus að ganga til vinnu en hlaupa frá vinnustað til heimilis. Ágreiningslaust var að A var vanur að hlaupa rúmlega níu kílómetra langa leið heim sem lá frá vinnustað hans í Laugardal að göngustíg á Sæbraut, meðfram Sæbraut, Geirsgötu og Mýrargötu, út á Eiðsgranda að Eiðistorgi og þaðan að heimili sínu við Hagamel. Deildu aðilar um hvort R bæri að greiða A bætur á grundvelli reglna sem gilda um slys starfsmanna R utan starfs eða reglna sem gilda um slys sem starfsmenn verða fyrir í starfi og þá hvort A hefði verið á eðlilegri leið milli vinnustaðar og heimilis þegar slysið varð í skilningi reglna um slys sem starfsmenn verða fyrir í starfi. Í dómi Hæstaréttar kom fram að gefa yrði þeim sem kjósa að hlaupa eða ganga milli vinnustaðar og heimilis svigrúm til að velja sér leið sem henti þeim ferðamáta, enda yrði þeim áskilnaði ekki fundinn staður í reglum um slys sem starfsmenn R verða fyrir í starfi að velja beri stystu eða beinustu leið. Því svigrúmi væru þó sett ákveðin mörk. Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að þegar leið A væri metin hafi hún ekki verið úr hófi löng, þegar tekið væri mið af því að hann hafi kosið að hlaupa á göngu- og hlaupastígum fremur en gangstéttum umferðargatna. Ekkert rof hafi orðið á ferð hans og hann færst svo nálægt heimili sínu þegar slysið varð að hann hafi átt hlutfallslega stutta veglengd eftir. Hafi sú leið sem A hljóp þegar hann varð fyrir slysinu því talist til eðlilegrar leiðar í skilningi reglnanna, óháð því hvort sá hluti leiðar sem hann átti eftir ófarinn rúmaðist allur innan þess. Var því fallist á kröfur A á hendur R.

Dómur Hæstaréttar

1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen, Ingveldur Einarsdóttir og Karl Axelsson.

2. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 14. febrúar 2023 og krefst sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar fyrir Landsrétti og Hæstarétti.

3. Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt.

Ágreiningsefni

4. Stefndi varð fyrir varanlegu líkamstjóni vegna slyss 15. október 2018 þegar ekið var á hann á gangbraut við Ánanaust í Reykjavík. Hann var starfsmaður áfrýjanda á slysdegi og sem slíkur var hann slysatryggður allan sólarhringinn á grundvelli kjarasamningsbundinna slysatrygginga. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort greiða beri honum bætur á grundvelli reglna sem gilda um slys borgarstarfsmanna utan starfs eða reglna sem gilda um slys sem starfsmenn verða fyrir í starfi. Nánar tiltekið er deilt um hvort stefndi hafi verið á eðlilegri leið milli vinnustaðar og heimilis í skilningi síðargreindu reglnanna þegar hann slasaðist.

5. Með héraðsdómi var áfrýjandi sýknaður af kröfu stefnda. Aftur á móti var krafa stefnda tekin til greina með hinum áfrýjaða dómi Landsréttar 11. nóvember 2022 og áfrýjandi dæmdur til að greiða honum 5.699.867 krónur með nánar tilgreindum vöxtum.

6. Áfrýjunarleyfi í málinu var veitt 13. febrúar 2023, með ákvörðun Hæstaréttar nr. 2022-159, á þeim grundvelli að dómur í því gæti haft fordæmisgildi um það hvenær slysatryggður starfsmaður teldist vera á eðlilegri leið frá vinnustað til heimilis.

Málsatvik

7. Á slysdegi var stefndi í fullu starfi sem deildarstjóri á […] sem er í Laugardal í Reykjavík en heimili hans var að Hagamel […] í vesturbæ Reykjavíkur.

8. Aðilar höfðu 13. september 2018 undirritað samgöngusamning þar sem sagði í 1. grein að starfsmaður gengist undir að ferðast ekki með einkabíl eða vélknúnu farartæki til og frá vinnu en skyldi þess í stað notast við vistvænan samgöngumáta að jafnaði þrisvar til fjórum sinnum í viku miðað við 100% starf. Með vistvænum samgöngum væri átt við allan ferðamáta annan en að ferðast með einkabíl eða vélknúnum farartækjum, svo sem að ganga, hjóla eða nota almenningssamgöngur. Samningurinn gilti í eitt ár frá 1. september 2018 og var uppsegjanlegur af hálfu beggja aðila.

9. Stefndi kaus að jafnaði að ganga til vinnu en hlaupa frá vinnustað að heimili sínu. Ágreiningslaust er að leiðin sem stefndi kaus að hlaupa er rúmlega níu kílómetra löng og liggur frá […] við Gullteig að göngustíg á Sæbraut. Þaðan hljóp hann meðfram Sæbraut, Geirsgötu og Mýrargötu, út á Eiðsgranda að Eiðistorgi og að því búnu í vesturbæ að heimili sínu við Hagamel. Slysið varð á leið stefnda til norðurs yfir gangbraut við Ánanaust er hann fór yfir götuna á grænu gönguljósi. Hann var þá að koma af Mýrargötu en þangað hafði hann hlaupið venju samkvæmt frá Sæbraut.

10. Stefndi var fluttur á sjúkrahús með sjúkrabifreið og greindist þar með fjöláverka. Samkvæmt matsgerð 19. febrúar 2020 sem aflað var til að meta afleiðingar slyssins var miski talinn vera 33 stig og varanleg örorka 20%. Með tölvubréfi 25. febrúar 2020 fór stefndi fram á bætur frá áfrýjanda á grundvelli reglna nr. sl-1/90 um skilmála slysatryggingar starfsmanna áfrýjanda samkvæmt kjarasamningum samkvæmt lögum nr. 94/1986 vegna slysa sem starfsmenn verða fyrir í starfi. Með bréfi 2. mars 2020 hafnaði áfrýjandi því að bætur yrðu gerðar upp á grundvelli reglna nr. sl-1/90. Að mati áfrýjanda væri um að ræða slys í frítíma sem gera bæri upp á grundvelli reglna nr. sl-2/90 um skilmála slysatryggingar starfsmanna áfrýjanda vegna slysa sem starfsmenn verða fyrir utan starfs. Stefndi hefði verið kominn alllangt frá heimili sínu er hann lenti í slysinu við Ánanaust og samkvæmt skjáskoti úr síma hans hefði hann enn átt töluverða leið ófarna að heimili sínu, meðal annars með viðkomu í öðru sveitarfélagi. Því hafnaði stefndi í tölvubréfi 12. mars sama ár þar sem hann benti á að slysið hefði átt sér stað á leið hans frá vinnustað að heimili og á þeirri leið væri hann tryggður fyrir slysum eins og um slys sem starfsmaður verður fyrir í starfi væri að ræða.

11. Stefnda voru greiddar bætur á grundvelli reglna nr. sl-2/90 vegna slysa sem starfsmenn verða fyrir utan starfs 19. mars 2020 en hann tók við þeim með þeim fyrirvara að hann hefði sannanlega verið á eðlilegri leið frá vinnustað að heimili þegar slysið varð. Hann teldi sig því eiga rétt á bótum samkvæmt reglum nr. sl-1/90 og áskildi sér rétt til að bera ágreininginn undir dómstóla. Stefndi höfðaði í kjölfarið mál þetta 9. nóvember 2020.

Kjarasamningur og reglur nr. sl-1/90 og sl-2/90.

12. Á slysdegi gilti kjarasamningur áfrýjanda og starfsmannafélags Reykjavíkur 1. maí 2015 til 31. mars 2019 um kaup og kjör stefnda. Samkvæmt grein 8.1 samningsins skulu starfsmenn slysatryggðir allan sólarhringinn fyrir dauða eða vegna varanlegrar örorku. Um trygginguna gildi mismunandi bótafjárhæðir og skilmálar eftir því hvort starfsmaður verður fyrir slysi í starfi eða utan starfs. Um skilmála trygginganna gilda fyrrgreindar reglur nr. sl-1/90 og sl-2/90 samþykktar af borgarráði 5. júní 1990.

13. Í 1. grein reglna nr. sl-1/90 segir að skilmálar slysatryggingar borgarstarfsmanna samkvæmt kjarasamningum og öðrum hliðstæðum kjaraákvörðunum sem teknar séu lögum samkvæmt séu tvenns konar. Annars vegar viðkomandi skilmálar sem gildi um slys sem starfsmaður verði fyrir í starfi sínu í skilningi 4. greinar reglnanna. Hins vegar skilmálar sem gildi um slys sem starfsmaður verði fyrir utan starfsins, sbr. reglur sl-2/90, sem settar séu samhliða reglunum, um skilmála slysatryggingar borgarstarfsmanna samkvæmt kjarasamningum vegna slysa sem starfsmenn verði fyrir utan starfs.

14. Í 4. grein reglna nr. sl-1/90 sem fjallar um gildissvið þeirra segir að trygging samkvæmt reglunum taki til slysa sem sá sem tryggður er verði fyrir í starfi sínu eða á eðlilegri leið frá heimili til vinnustaðar síns og frá vinnustað til heimilis.

15. Í 4. grein reglna nr. sl-2/90 segir meðal annars að trygging samkvæmt reglunum taki til slysa sem sá sem er tryggður verði fyrir utan starfs síns, þar með talið á útkallsvakt, í veikindafjarvistum og í orlofi. Þá segir í 2. tölulið 7. gr. reglnanna að tryggingin nái til slysa er verði við almennar íþróttaiðkanir, með ákveðnum takmörkunum sem þar eru tilgreindar.

16. Tryggingarfjárhæð fyrir varanlega örorku vegna slyss utan starfs námu á slysdegi að hámarki 7.664.162 krónum en vegna slyss í starfi voru hámarksbætur 20.220.343 krónur samkvæmt kjarasamningi Reykjavíkurborgar og Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar.

Helstu málsástæður aðila

Málsástæður áfrýjanda

17. Áfrýjandi bendir á að stefndi hafi sett fram nýja málsástæðu fyrir Landsrétti þess efnis að verði ekki fallist á að heimleið hans hafi verið eðlileg leið frá vinnustað til heimilis hafi stefndi í öllu falli enn verið á eðlilegri leið frá vinnustað til heimilis er slysið varð. Þessari málsástæðu hafi áfrýjandi hafnað í greinargerð til Landsréttar auk þess sem henni hafi verið mótmælt við munnlegan flutning málsins þar með vísan til 5. mgr. 101. og 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Áfrýjandi telur að í þessari málsástæðu hljóti að felast að í raun skipti ekki máli á hvaða leið stefndi var þegar slys varð, svo fremi að hann hafi þá enn verið á eðlilegri leið frá vinnu og heim til sín. Í þessu felist að hluti leiðar milli vinnu og heimilis geti talist eðlilegur þótt leiðin í heild sinni sé það ekki. Áfrýjandi byggir á því að slík túlkun fái ekki staðist þar sem ráðið verði af orðalagi 4. greinar reglna nr. sl-1/90 að leiðin sem um ræði hverju sinni þurfi að vera eðlileg í heild sinni. Með hinni nýju málsástæðu sé grundvelli málsins raskað þar sem málatilbúnaður stefnda hafi þar til hin nýja málsástæða var sett fram miðast við að tæplega 10 kílómetra löng hlaupaleið hans milli vinnu og heimilis teldist eðlileg milli þessara tveggja staða í skilningi 4. greinar reglna nr. sl-1/90.

18. Verði fallist á að umrædd málsástæða komist að er á því byggt að þegar slysið varð hafi stefndi verið á leið norður yfir götuna Ánanaust og að fjarlægjast heimili sitt enda að fara í átt frá því. Til þess að leið frá vinnu að heimili geti talist eðlileg þurfi að miða við það sem almennt geti talist vera eðlileg leið. Þar sem um sé að ræða reglur sem gildi um skilmála slysatrygginga sem séu hluti kjarasamningsbundinna réttinda starfsfólks þurfi að byggja á almennum hlutlægum mælikvarða við túlkun á hugtakinu eðlileg leið. Jafnvel þótt ekki þurfi að vera um að ræða beina eða stystu leið sé ljóst að hún þurfi að vera nauðsynlegur liður í för starfsmanns milli vinnustaðar og heimilis. Megintilgangur slysatryggingar samkvæmt reglum nr. sl-1/90 sé að tryggja starfsfólk áfrýjanda fyrir þeim hættum sem bundnar séu við framkvæmd vinnu og við eðlilega leið milli vinnustaðar og heimilis þar sem slíkar ferðir séu nauðsynlegur þáttur í rækslu starfans. Sú hlaupaleið sem stefndi hafi farið frá vinnustað sínum hafi ekki verið liður í nauðsynlegri ferð hans milli vinnustaðar og heimilis. Þvert á móti hafi falist í henni heilsurækt eða persónulegt val hans á leið.

19. Áfrýjandi segir að ekki sé á valdi stefnda að ákveða að sú leið sem hann valdi teljist vera eðlileg í skilningi 4. greinar reglna nr. sl-1/90 einungis af þeirri ástæðu að hún hafi verið venjubundin fyrir hann. Stefndi hafi ekki farið yfir Ánanaust til að komast nær heimili sínu heldur þvert á móti til þess að halda áfram heilsurækt sinni enn fjær frá heimili sínu en hann var þá þegar kominn. Þegar af þeirri ástæðu geti stefndi ekki hafa verið á eðlilegri leið frá vinnustað að heimili og þaðan af síður enn verið á eðlilegri leið milli umræddra tveggja staða er slysið varð.

20. Jafnframt bendir áfrýjandi á að tilvitnaðar reglur um slysatryggingar starfsmanna áfrýjanda hafi ekki verið settar einhliða enda séu þær háðar samþykki beggja aðila. Þá séu reglur nr. sl-1/90 og sl-2/90 hluti af kjarasamningsbundnum réttindum. Því beri að túlka reglurnar eins og hvert annað ákvæði kjarasamnings.

Málsástæður stefnda

21. Stefndi kveður áfrýjanda ekki hafa mótmælt þeirri málsástæðu að stefndi hafi í það minnsta enn verið á eðlilegri leið er hann hóf för sína yfir Ánanaust fyrr en við munnlegan flutning málsins fyrir Landsrétti. Í hinum áfrýjaða dómi hafi þess verið getið að mótmæli áfrýjanda við hinni ætluðu nýju málsástæðu hafi ekki verið að finna í greinargerð hans til Landsréttar.

22. Stefndi bendir á að ágreiningur málsins hafi frá upphafi snúist um hvort slysið hafi orðið á eðlilegri leið hans frá vinnu til heimilis. Í 4. grein reglna nr. sl-1/90 sé ekki gerð frekari grein fyrir því hvað orðasambandið feli í sér í skilningi fyrrgreindra reglna. Með túlkun sinni á ákvæðinu hafi áfrýjandi búið til íþyngjandi skilyrði sem þó sé ekki kveðið á um í því og þannig gert tilraun til þess að þrengja túlkun hins matskennda orðalags. Þá hafnar stefndi því að grundvelli málsins sé raskað með þeirri röksemdafærslu að sá hluti leiðar þar sem slysið varð hafi í það minnsta verið eðlilegur. Grundvöllur málsins sé enn sá sami, málið snúist um túlkun á því hvað sé eðlileg leið til og frá vinnu. Ekki sé unnt að fallast á með áfrýjanda að eðlileg leið þurfi hverju sinni að vera liður í nauðsynlegri ferð starfsmanns milli vinnustaðar og heimilis. Ekkert í ákvæði 4. greinar áskilji nauðsynlega ferð sem skilgreiningaratriði í hugtakinu eðlileg leið.

23. Stefndi bendir á að val á hlaupaleið hans eftir stígum hafi miðast við hækkun leiðar, þrengsli hennar, umferð og umferðarhávaða auk svifryksmengunar seinni part dags. Til þess að halda áfram ferð sinni hlaupandi heim hafi honum verið nauðsynlegt og eðlilegt að fara yfir á gönguljósum yfir Ánanaust til þess að komast á göngustíg sem liggi meðfram sjónum í áttina að hringtorgi þar sem Hringbraut, Eiðsgrandi og Ánanaust mætist. Þegar slysið varð hafi stefndi því einmitt verið að færast nær heimili sínu og hafi því uppfyllt það skilyrði sem áfrýjandi nefni meginmarkmið þeirrar leiðar sem starfsmenn velji, að starfsmaður sé að færast nær heimili sínu en ekki fjær því.

24. Stefndi kveður að túlka beri reglur nr. sl-1/90 sér í vil hvað sem líður íþyngjandi túlkunarreglum áfrýjanda. Í því sambandi bendir hann á að þær hafi verið settar einhliða af hálfu áfrýjanda. Hann bendir einnig á að niðurstaða hins áfrýjaða dóms feli ekki í sér að stefndi njóti ótakmarkaðrar tryggingarverndar á grundvelli reglnanna enda megi draga þá ályktun af forsendum dómsins að niðurstaðan hefði orðið önnur ef stefndi hefði slasast þegar hann var farinn að fjarlægjast heimili sitt. Stefndi hafi slasast á þeim hluta leiðarinnar er hann var að færast nær heimili sínu. Þá telur hann ekki skipta máli hvert hann hafi ætlað að hlaupa umrætt sinn heldur ráði úrslitum að hann slasaðist á leið sinni yfir Ánanaust á eðlilegri leið heim til sín.

25. Enn fremur bendir stefndi á að það sé rangt sem fram komi hjá áfrýjanda að stefndi hefði getað haldið sig sunnan megin götunnar. Rétt sé að hluta þeirrar leiðar sem var sunnan megin hafi verið gangstétt en óslitinn göngustígur hafi ekki verið sunnan megin við Ánanaust á slysdegi. Hann telur því ósannað að á þeim degi er slysið varð hafi gönguleið verið sunnan megin við Ánanaust.

Niðurstaða

26. Af hálfu áfrýjanda hefur verið á því byggt að stefndi hafi sett fram nýja málsástæðu fyrir Landsrétti um að hann hafi í öllu falli enn verið á eðlilegri leið frá vinnustað til heimilis er slysið varð. Landsréttur hafnaði því í hinum áfrýjaða dómi að um nýja málsástæðu væri að ræða.

27. Í stefnu málsins má finna þessari málsástæðu stað þar sem því er mótmælt að þýðingu eigi að hafa að stefndi hafi enn átt „eftir að hlaupa nokkurn spöl að heimili sínu þegar slysið átti sér stað“ og að ekki verði séð af 4. grein reglna nr. sl-1/90 að þýðingu hafi hvort stutt sé eftir af leiðinni eða ekki þegar slys verði. Málsástæðan sem sett var fram í greinargerð stefnda til Landsréttar að „þegar slysið átti sér stað hafði hann ekki hafið þann hluta leiðarinnar sem héraðsdómur taldi til óeðlilegrar, heldur var hann enn á eðlilegri leið á þeim tímapunkti“ og að ekki hefði úrslitaþýðingu í málinu hvert hann ætlaði sér að fara næst rúmaðist fyllilega innan þeirrar málsástæðu sem sett var fram í stefnu með framangreindum hætti. Þá er fallist á með Landsrétti að árétting málsástæðunnar í greinargerð stefnda til réttarins um að hann hafi „í það minnsta enn verið á eðlilegri leið“ þegar slysið varð sé í eðlilegu samhengi við þá málsástæðu hans í öndverðu að slysið hafi orðið á eðlilegri leið heim frá vinnu og henni hafi verið teflt fram sem andsvari við áherslum í héraðsdómi. Samkvæmt þessu var ekki um að ræða nýja málsástæðu stefnda í málinu sem ekki fékk komist að í Landsrétti.

28. Ekki er ágreiningur um að stefndi eigi rétt til slysabóta úr hendi áfrýjanda og hafa honum þegar verið greiddar bætur að fjárhæð 3.479.139 krónur á grundvelli reglna nr. sl-2/90 sem gilda um slys borgarstarfsmanna utan starfs. Stefndi telur á hinn bóginn að honum beri að fá slysabætur á grundvelli reglna nr. sl-1/90. Eins og fyrr hefur verið rakið segir í 4. grein þeirra að tryggingin taki til slysa sem sá sem tryggður er verður fyrir í starfi sínu eða á eðlilegri leið frá heimili til vinnustaðar síns og frá vinnustað til heimilis. Fallist er á þá niðurstöðu hins áfrýjaða dóms með vísan til forsendna hans að túlka beri ákvæði skilmálanna eins og um ákvæði kjarasamnings sé að ræða þar sem fyrst skuli leitast við að beita eðlilegri orðskýringu áður en hugað verði að öðrum skýringarleiðum.

29. Af hálfu áfrýjanda er því haldið fram að sú leið sem stefndi hljóp hafi „ekki getað talist vera eðlileg leið frá vinnustað að heimili hans hvort sem er í heild eða að hluta“. Hún hafi ekki talist vera nauðsynlegur liður í för stefnda á fyrrgreindri leið hans.

30. Liggur þá fyrir dóminum að skýra hvað teljist „eðlileg leið“ milli heimilis og vinnustaðar í skilningi 4. greinar reglna nr. sl-1/90. Við þá skýringu þarf að líta til ýmissa þátta svo sem að eðlileg leið ökumanns milli vinnustaðar og heimilis getur verið ólík þeirri sem eðlileg getur talist fyrir gangandi vegfaranda og að sama skapi getur eðlileg leið hlaupandi eða hjólandi manns verið ólík þeirri sem eðlileg getur talist fyrir þann sem er gangandi. Þá getur skýring orðasambandsins eðlileg leið einnig verið háð því hvort hindranir eru á þeim leiðum sem starfsmaður ekur, hleypur, gengur eða hjólar um. Veður og færð geta einnig skipt máli þegar metið er hvort starfsmaður sé á eðlilegri leið milli vinnustaðar og heimilis.

31. Verður í orðasambandinu bein leið eða eðlileg leið ekki talin felast skylda fyrir starfsmann til þess að velja stystu leið milli heimilis og vinnustaðar. Má um það vísa til dóms Hæstaréttar 4. október 2018 í máli nr. 434/2017 þar sem starfsmaður hafði valið að aka um tvöfalt lengri leið en þá sem styst var milli vinnustaðar og heimilis en deilt var um hvort starfsmaðurinn hefði ekið beina leið. Samkvæmt dómi réttarins var hann talinn njóta verndar tryggingar á grundvelli ákvæðis kjarasamnings um slysatryggingu starfsmanna „af völdum slyss við vinnu eða á beinni leið til og frá vinnu“. Í dómi Hæstaréttar 23. febrúar 2017 í máli nr. 388/2017 kom jafnframt til skoðunar hvort slíkt rof hefði orðið á leið starfsmanns frá vinnustað til heimilis að ekki yrði talið að hann hefði verið á eðlilegri leið í skilningi 4. gr. reglna nr. 30/1990 um skilmála slysatryggingar ríkisstarfsmanna samkvæmt kjarasamningum vegna slysa sem starfsmenn verða fyrir í starfi. Í málinu hafði því verið haldið fram að tilgangur þessarar tryggingar væri ekki að veita starfsmanni vernd þegar hann sinnti einkaerindum, svo sem að taka eldsneyti, fara í banka eða verslun. Í dómi réttarins kom fram að það væri nauðsynlegur og eðlilegur þáttur í akstri bifreiðar frá vinnustað að heimili að kaupa eldsneyti og ætti starfsmaðurinn því rétt á bótum úr slysatryggingunni eins og krafa hennar laut að.

32. Af framangreindum tveimur dómum Hæstaréttar má ráða að máli getur skipt við skýringu orðasambandsins eðlileg leið í skilningi 4. greinar reglna nr. sl-1/90 hvort rof hefur orðið á leið starfsmanns milli vinnustaðar og heimilis og ef svo er hvað hefur valdið því rofi. Jafnframt má ráða af þessum dómum að við skýringu orðasambandsins geti skipt máli hversu langur tími hefur liðið frá því að starfsmaður yfirgefur vinnustað þar til slys verður og að gefa megi starfsmanni ákveðið svigrúm við val á leið með tilliti til aðstæðna, sbr. fyrrgreindan dóm réttarins í máli nr. 434/2017.

33. Sem fyrr greinir höfðu málsaðilar 13. september 2018 gert með sér samgöngusamning þar sem stefndi gekkst undir að notast við vistvænan samgöngumáta til og frá vinnu að jafnaði þrisvar til fjórum sinnum í viku, svo sem að ganga, hjóla eða notast við almenningssamgöngur. Þá er jafnframt óumdeilt að sú leið sem stefndi var vanur að hlaupa var rúmlega níu kílómetra löng, en af gögnum málsins má ráða að stysta leið milli vinnustaðar og heimilis stefnda var um helmingi styttri. Samkvæmt hlaupaforriti hans tók það hann 40 til 45 mínútur að hlaupa þessa leið að heimili sínu. Á slysdegi hafði stefndi hlaupið frá vinnustað sínum við Gullteig um Sæbraut, meðfram henni á göngu- og hjólastíg fram hjá Hörpu og áfram vestur, fram hjá hafnarsvæðinu og niður að Ánanaustum. Þar ætlaði hann sér yfir götuna á göngu- og hlaupastíg norðan megin við Ánanaust þegar ekið var á hann. Af gögnum málsins verður ráðið að sunnan megin við Ánanaust hafi ekki verið óslitinn göngu- eða hlaupastígur þegar slys átti sér stað.

34. Gefa verður þeim sem kjósa að hlaupa eða ganga milli vinnustaðar og heimilis svigrúm til að velja sér leið sem hentar þeim ferðamáta enda verður þeim áskilnaði sem fyrr segir ekki fundinn staður í slysatryggingum samkvæmt reglum nr. sl-1/90 að velja beri stystu eða beinustu leið milli þessara tveggja staða. Það svigrúm er þó ekki takmarkalaust.

35. Þegar leiðin sem stefndi hljóp á slysdegi milli vinnustaðar og heimilis er metin var hún ekki úr hófi löng, þegar tekið er mið af því að hann kaus að hlaupa fremur á göngu- og hlaupastígum en gangstéttum umferðargatna. Hann hafði hlaupið sleitulaust frá vinnustað sínum og ætlaði sér heim án þess að fyrirhugað væri nokkurt rof þar á. Þá hafði stefndi færst svo nálægt heimili sínu þegar slysið varð að hann átti hlutfallslega stutta vegalengd eftir þangað, sé miðað við heildarlengd leiðarinnar frá vinnustað að heimili hans. Samkvæmt öllu framangreindu féll sú leið sem stefndi hljóp á slysdegi innan þess sem talist getur „eðlileg leið“ í skilningi 4. greinar reglna nr. sl-1/90 þegar ekið var á hann, óháð því hvort sá hluti leiðar sem hann átti eftir ófarinn og hann hugðist hlaupa er slys varð, rúmist allur innan þess sem talist getur eðlileg leið í skilningi 4. greinar reglnanna. Að þessu virtu verður slys stefnda fellt undir 4. grein reglna nr. sl-1/90 og hinn áfrýjaði dómur staðfestur um kröfu stefnda. Þá verða staðfest ákvæði hins áfrýjaða dóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað stefnda.

36. Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður áfrýjanda gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði sem renni í ríkissjóð, sbr. 4. mgr. 128. gr. laga nr. 91/1991.

37. Um gjafsóknarkostnað stefnda fyrir Hæstarétti fer eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Reykjavíkurborg, greiði stefnda, A, 1.000.000 króna í málskostnað fyrir Hæstarétti sem renni í ríkissjóð.

Allur gjafsóknarkostnaður stefnda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, 1.000.000 króna.

Sératkvæði

Benedikts Bogasonar og Karls Axelssonar

1. Við erum sammála niðurstöðu meirihluta dómenda um að ekki hafi falist ný málsástæða í þeim málatilbúnaði stefnda fyrir Landsrétti að hann hafi í öllu falli enn verið á eðlilegri leið frá vinnustað til heimilis er slys það varð hvers afleiðingar deilt er um í málinu. Þá erum við sammála meirihlutanum um það að 4. grein reglna nr. sl-1/90 um skilmála slysatryggingar starfsmanna áfrýjanda vegna slysa sem starfsmenn verða fyrir í starfi skuli túlka eins og um ákvæði kjarasamnings sé að ræða en ekki einhliða skilmála samda af áfrýjanda. Við erum hins vegar ósammála þeirri niðurstöðu meirihlutans að þegar stefndi varð fyrir umræddu slysi 15. október 2018 hafi hann verið á eðlilegri leið frá vinnustað til heimilis og því beri að gera upp bætur vegna slyssins á grundvelli reglna nr. sl-1/90.

2. Í málinu er ágreiningslaust að stefndi sameinaði heimferð sína úr vinnu líkamsrækt sem fram fór með þeim hætti að hann hljóp frá […] í Laugardal og niður á Sæbraut. Samkvæmt gögnum málsins hljóp hann því næst meðfram Sæbraut, Geirsgötu og Mýrargötu, út á Eiðsgranda inn í sveitafélagið Seltjarnarnes, að Eiðistorgi og þaðan aftur til baka inn í vesturbæ Reykjavíkur að heimili sínu við Hagamel. Þá er ekki umdeilt að þessi leið er helmingi lengri en stysta göngu- eða hlaupaleið á milli vinnustaðar og heimilis stefnda.

3. Ef litið er til tilgangs 4. greinar reglna nr. sl-1/90 verður lagt til grundvallar að tryggingarvernd, samkvæmt reglunni, sé ætlað að tryggja starfsmann á leið hans frá heimili til vinnu, meðan á vinnu stendur og síðan á leið úr vinnu til heimilis. Felur reglan því í sér rýmkun frá því sem alla jafnan fellur undir vinnuslys í hefðbundinni merkingu þess hugtaks. Helgast það af því að ferð starfsmanns til og frá vinnu er nauðsynleg forsenda þess að starf verði yfirhöfuð innt af hendi. Hins vegar er ekki tilefni til þess að túlka umrædda reglu rýmra en leiðir af þessum skilningi og er þess þá jafnframt að gæta að þegar vernd samkvæmt reglum nr. sl-1/90 sleppir tekur við slysatrygging á grundvelli reglna nr. sl-2/90 um skilmála slysatryggingar starfsmanna áfrýjanda vegna slysa sem starfsmenn verða fyrir utan starfs.

4. Við mat á því hvað teljist eðlileg leið í skilningi 4. greinar reglna nr. sl-1/90 verður að meginstefnu lagður til grundvallar almennur og hlutlægur mælikvarði. Ætlaðar venjur viðkomandi starfsmanns við val á leið geta því ekki ráðið úrslitum þó svo að slíkt geti ásamt öðru haft þýðingu við atvikabundið mat. Þá er þess að gæta að í málinu liggur ekki annað fyrir um val stefnda á ákjósanlegustu hlaupaleið milli umræddra staða en framburður hans sjálfs þar um. Er þá jafnframt til þess að líta að starfsmaður sem að vinnudegi loknum kýs að reka önnur erindi áður en haldið er heim, til dæmis með viðkomu á líkamsræktarstöð, er ekki slysatryggður á grundvelli reglna nr. sl-1/90 heldur reglna nr. sl-2/90, í þessu samhengi 2. töluliðar 7. greinar þeirra þar sem fram kemur að tryggingin taki til slysa starfsmanns sem verði við almennar íþróttaiðkanir.

5. Komi ekki annað til telst eðlileg leið í skilningi 4. greinar reglna nr. sl-1/90 því greiðfærasta leiðin til að komast á milli umræddra staða sem jafnframt má alla jafnan ekki rjúfa í öðrum tilgangi. Má hér benda á dóm Hæstaréttar 4. október 2018 í máli nr. 434/2017. Í því máli var akandi starfsmanni ætlað nokkuð mat við val á leið, meðal annars vegna umferðarþunga, og hann talinn njóta verndar tryggingar á grundvelli ákvæðis kjarasamnings um slysatryggingu starfsmanna „af völdum slyss við vinnu eða á beinni leið til eða frá vinnu“, þó að beinasta leið hefði í reynd ekki verið farin. Í dómi Hæstaréttar 23. febrúar 2017 í máli nr. 388/2016 var starfsmaður talinn vera á eðlilegri leið frá vinnustað til heimilis í skilningi reglna nr. 30/1990 um skilmála slysatryggingar ríkisstarfsmanna samkvæmt kjarasamningum vegna slysa sem starfsmenn verða fyrir í starfi, þótt hann ryfi för til þess að kaupa eldsneyti enda lagt til grundvallar í dóminum að bifreiðin hefði verið eldsneytislítil. Á sama tíma og tilvitnaðir dómar ætla hinum slysatryggða starfsmanni málefnalegt svigrúm til þess að víkja frá beinustu leið milli vinnustaðar og heimilis er jafn ljóst að það svigrúm er hvorki án takmarkana né valkvætt.

6. Við mat á eðlilegri leið á milli vinnustaðar stefnda í […] í Laugardal og heimilis hans að Hagamel […] er til þess að líta að óumdeilt er að beinasta leið fyrir gangandi eða hlaupandi vegfaranda víkur talsvert frá þeirri leið sem stefndi valdi sér. Slík leið lægi í gegnum miðbæ Reykjavíkur og er nokkurra kosta völ við útfærslu hennar. Má í því sambandi líta til þeirrar leiðar sem stefndi kaus að fara á leið sinni til vinnu að morgni sem hann fór gangandi og var að vegalengd um helmingur heimleiðarinnar. Þó svo stefnda væri ætlað svigrúm af fyrrnefndum toga má ljóst vera að eftir að hafa hlaupið Sæbraut og Geirsgötu var hann kominn nokkuð úr beinustu leið til heimilis síns. Allt að einu kaus hann ekki að fara upp Ægisgötu þegar að henni kom og síðan Hofsvallagötu heim, en sú leið sýnist þá hafa legið beint við, heldur hljóp áfram Mýrargötu norður að Ánanaustum. Á þeim kafla var hann í öllu falli ekki að nálgast heimili sitt. Þegar hann síðan verður fyrir slysinu er hann á leið norður yfir umferðagötuna Ánanaust og var þá sannarlega að fjarlægjast heimili sitt. Liggur jafnframt fyrir að ástæða þess að stefndi kaus að fara yfir Ánanaust var sá tilgangur hans að halda áfram hlaupum með því að hlaupa út á Seltjarnarnes áður en hann hlypi heim á leið. Þá samræmast áform hans um að fara yfir tvær af mestu umferðargötum í vesturbæ Reykjavíkur og Seltjarnarness, Ánanaust og Eiðisgranda, ekki þeirri staðhæfingu hans að val á heimleið hafi meðal annars tekið mið af því að fara yfir sem fæstar umferðargötur.

7. Ljóst er að val stefnda á leið heim umræddan dag tók fyrst og fremst mið af þeim persónulegu áformum hans að stunda líkamsrækt í frítíma sínum með því að hlaupa rúmlega níu kílómetra. Verður jafnframt ráðið af gögnum málsins að stefndi hugðist þvera Ánanaust í norðurátt í þeim tilgangi að halda áfram þeirri líkamsrækt. Því verður fallist á það með áfrýjanda að með því að fara lengri leið en nauðsynlegt var og fjarlægast þannig heimili sitt hafi stefndi verið að sinna einkaerindum. Sú leið sem hann kaus að fara var því ekki nauðsynlegur liður í ferð hans á milli vinnustaðar og heimilis. Að því gættu en þó þegar af þeirri ástæðu hvar slysið varð var stefndi á umræddum stað kominn af eðlilegri leið á milli vinnustaðar síns og heimilis í skilningi 4. greinar reglna nr. sl-1/90. Hafa bætur til stefnda vegna slyss hans því réttilega verið gerðar upp á grundvelli reglna nr. sl-2/90.

8. Að öllu framangreindu virtu teljum við að sýkna beri áfrýjanda af kröfum stefnda í málinu en að fella beri málskostnað niður á öllum dómsstigum.