Hæstiréttur íslands
Mál nr. 24/2025
Lykilorð
- Lán
- Neytendalán
- Vextir
- Banki
- Skuldabréf
- Ósanngjarnir samningsskilmálar
- Neytendur
- EES-samningurinn
- Ógilding samnings
Reifun
Dómur Hæstaréttar
1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen, Ólafur Börkur Þorvaldsson, Sigurður Tómas Magnússon og Skúli Magnússon.
2. Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 14. apríl 2025. Hann krefst þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur. Til vara krefst hann þess að dómkröfur gagnáfrýjenda verði stórlega lækkaðar. Í báðum tilvikum krefst hann þess að gagnáfrýjendum verði gert að greiða sér málskostnað fyrir Landsrétti og Hæstarétti.
3. Gagnáfrýjendur áfrýjuðu málinu upphaflega 11. apríl 2025 en ekki varð af þingfestingu þess og áfrýjuðu þau að nýju fyrir sitt leyti 23. júlí 2025. Þau krefjast þess að aðaláfrýjandi greiði þeim 337.022 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 29. mars 2021 til greiðsludags. Til vara krefjast þau þess að aðaláfrýjandi greiði þeim 268.892 krónur auk dráttarvaxta frá 29. mars 2021 til greiðsludags. Þá krefjast þau málskostnaðar á öllum dómstigum en fyrir Hæstarétti eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.
Ágreiningsefni
4. Ágreiningur aðila lýtur að skilmála veðskuldabréfs sem gagnáfrýjendur gáfu út til aðaláfrýjanda 3. janúar 2017 og fjallar um hvernig breytilegir vextir af verðtryggðu húsnæðisláni þeirra skyldu ákveðnir. Deilt er um hvort skilmálinn sé ólögmætur og ógildur, einkum hvort hann uppfylli kröfur laga nr. 33/2013 um neytendalán um að tilgreina skuli á skýran og hnitmiðaðan hátt skilyrði og málsmeðferð við breytingar á útlánsvöxtum láns. Þá er deilt um hvort skilmálinn sé ósanngjarn í skilningi 36. og 36. gr. c laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Aðila greinir auk þess á um hvernig beri að skýra ákvæði laga þessara í ljósi Evróputilskipana um neytendavernd, nánar tiltekið tilskipunar 2008/48/EB um lánasamninga fyrir neytendur og tilskipunar 93/13/EBE um ósanngjarna skilmála í neytendasamningum.
5. Með hinum áfrýjaða dómi Landsréttar 13. febrúar 2025 í máli nr. 333/2023 var aðaláfrýjandi sýknaður af kröfum gagnáfrýjenda og var það sama niðurstaða og í héraðsdómi.
6. Áfrýjunarleyfi var veitt 10. apríl 2025, með ákvörðun Hæstaréttar nr. 2025-38 og 39, á þeim grunni að dómur í málinu kynni að hafa verulegt almennt gildi.
7. Að undangengnu erindi réttarins til aðaláfrýjanda 4. nóvember 2025 lagði hann fram 7. sama mánaðar gögn að baki ákvörðunum sínum um vaxtabreytingar á tilteknu tímabili.
Málsatvik
8. Gagnáfrýjendur undirrituðu veðskuldabréf 3. janúar 2017 þegar þau tóku íbúðalán hjá aðaláfrýjanda. Yfirskrift skjalsins var íbúðalán II, verðtryggt veðskuldabréf með breytilegum vöxtum og greiðslujöfnun. Afborganir skyldu reiknast á grundvelli jafngreiðsluaðferðar (annuitets). Lánsfjárhæð var 5.390.000 krónur en lánstími 25 ár og tveir mánuðir. Fyrsti gjalddagi var 1. mars 2017. Lánið naut veðtryggingar í íbúðarhúsnæði gagnáfrýjenda. Grunnvextir samkvæmt skuldabréfinu voru breytilegir en skráðir 3,65% á bréfið. Að auki bar lánið fast 1,1% vaxtaálag þannig að vextir námu samtals 4,75% við undirritun.
9. Áður en gagnáfrýjendur undirrituðu skuldabréfið voru þeim afhent ýmis gögn með upplýsingum því tengdum. Þar á meðal undirrituðu þau móttöku skjals 2. janúar 2017 með heitinu Staðlaðar upplýsingar um evrópsk neytendalán sem byggt var á fyrirmynd í II. viðauka við tilskipun 2008/48/EB um lánasamninga fyrir neytendur. Þar komu fram upplýsingar um helstu eiginleika og skilmála væntanlegs láns, þar á meðal um heimildir aðaláfrýjanda til að breyta vöxtum.
10. Um heimild aðaláfrýjanda til vaxtabreytinga var fjallað í 1. tölulið skilmála skuldabréfsins sem var svohljóðandi:
Af höfuðstól skuldar þessarar ber skuldara að greiða breytilega vexti íbúðalána Arion banka að viðbættu föstu vaxtaálagi samkvæmt ofangreindu. Vextir eru reiknaðir af höfuðstól skuldar þessarar eins og hann er á hverjum tíma. Grunnvextir lánsins eru breytilegir og er Arion banka heimilt að breyta grunnvöxtum breytist þeir þættir sem vextirnir byggjast á. Við ákvarðanir á breytilegum vöxtum íbúðalána Arion banka er horft til breytinga á ávöxtunarkröfu verðtryggðra skuldabréfa útgefinna m.a. af Íbúðalánasjóði, bönkum og fjármálastofnunum á Íslandi, ríkissjóði Íslands eða sveitarfélögum, breytinga á fjármögnunarkostnaði, rekstrarkostnaði, smásöluálagningu bankans og álagningu bankans vegna útlánaáhættu. Fjármögnunarkostnaður bankans ræðst annars vegar af arðsemiskröfu eigin fjár og hins vegar af kostnaði við aðra fjármögnun bankans. Hlutfallið milli þessara tveggja þátta er breytilegt og ræðst meðal annars af ákvörðunum opinberra yfirvalda. Fjármögnunarkostnaður er metinn á vaxtaákvörðunardegi. Með rekstrarkostnaði er átt við rekstrarkostnað bankans eins og er hann áætlaður fram í tímann á vaxtaákvörðunardegi, miðað við síðasta uppgjör bankans. Með smásöluálagningu er átt við álagningu bankans eins og markaðsaðstæður gefa tilefni til. Með álagningu vegna útlánaáhættu er átt við mat bankans á framtíðargreiðslufalli og mat á tjóni bankans vegna framtíðargreiðslufalls sambærilegra og/eða hliðstæðra lána, sem byggir meðal annars á fyrri reynslu bankans. Vaxtabreytingardagar eru um mánaðamót, en vaxtabreytingar eru að jafnaði tilkynntar með 30 daga fyrirvara. Áskilur bankinn sér rétt til að breyta vöxtum með skemmri fyrirvara, að því marki sem slíkar breytingar leiða af þáttum sem bankinn hefur ekki stjórn á. Samkvæmt ofangreindu verða vextir lánsins ávallt í samræmi við þá vexti sem gilda gagnvart nýjum sambærilegum og/eða hliðstæðum lánum. Þegar grunnvextir lánsins eru ákveðnir eru þeir þættir sem mynda vextina metnir sjálfstætt. Í kjölfarið er tekin ákvörðun um hvort aðstæður gefi tilefni til breytinga á vöxtunum. Getur breyting hvers þáttar um sig gefið tilefni til breytinga á vöxtunum. […]
11. Á grundvelli skilmálans breytti aðaláfrýjandi vöxtum lánsins sjö sinnum. Þeir voru fyrst hækkaðir úr 4,75% í 4,99% 12. desember 2018 að meðtöldu vaxtaálagi og héldust óbreyttir til 4. júní 2019 er þeir lækkuðu í 4,69%. Eftir það lækkaði aðaláfrýjandi vextina fimm sinnum, síðast 11. desember 2020 í 3,64% með föstu vaxtaálagi. Stóðu vextir lánsins þar þegar gagnáfrýjendur greiddu það upp 29. mars 2021.
12. Í málinu liggur fyrir að hefðu vextir haldist óbreyttir, eða 4,75% eins og þeir voru þegar gagnáfrýjendur undirrituðu skuldabréfið, til þess tíma sem lánið var greitt upp hefðu þau þurft að greiða hærri fjárhæð í vexti en raunin varð.
Málsástæður
Helstu málsástæður gagnáfrýjenda
13. Gagnáfrýjendur byggja á því að skilmáli um breytilega vexti í stöðluðu veðskuldabréfi aðaláfrýjanda sem veiti honum einhliða heimild til að breyta vaxtastigi lánsins sé ósanngjarn. Hann geymi hvorki skýr viðmið sem breytingar á vöxtum geti byggst á né lýsingu á aðferð aðaláfrýjanda við að ákveða þær. Auk þess hafi aðaláfrýjandi gert skarpa breytingu á framkvæmd sinni við vaxtabreytingar og aukið markaðsálag verulega. Þessir efnislegu ágallar skilmálans leiði til þess að hann uppfylli ekki kröfur um gagnsæi samkvæmt f-lið 2. mgr. 12. gr. laga nr. 33/2013 og sé ósanngjarn í skilningi 36. gr. c laga nr. 7/1936. Hann sé því bæði ólögmætur og ógildur.
14. Gagnáfrýjendur benda á að tilvísun skilmálans til ávöxtunarkröfu verðtryggðra skuldabréfa sé mjög víðtæk og geti þróast með ólíkum hætti vegna atvika. Fjármögnunarkostnaður vísi bæði til vaxtakjara sem bankanum bjóðist og markmiða hans um afkomu í rekstri. Rekstrarkostnaður sé með öllu óskilgreindur og vísi til upplýsinga sem neytandi hafi ekki aðgang að. Óvíst sé hvað átt er við með smásöluálagningu en bankinn virðist áskilja sér að breyta vöxtum með vísan til stefnu hans um hagnað í rekstri. Að endingu feli tilvísun til álagningar bankans vegna útlánaáhættu í sér að öll áhætta vegna vanskila almennra viðskiptavina hans færist yfir á lántaka.
15. Enn fremur benda gagnáfrýjendur á að skilmálinn veiti aðaláfrýjanda víðtækt og opið mat á þeim þáttum sem litið sé til við vaxtaákvarðanir og viðmiðin séu í raun ekki tæmandi talin. Þá komi þar ekkert fram um vægi einstakra þátta eða aðferð við vaxtaákvarðanir. Þetta jafngildi því að aðaláfrýjandi hafi sjálfdæmi um ákvörðun vaxtabreytinga. Af nýjum gögnum sem lögð hafi verið fram fyrir Hæstarétti sé þar að auki ljóst að aðaláfrýjandi hafi ekki farið að skilyrðum skilmálans við vaxtabreytingar á láni þeirra.
16. Staðhæfing gagnáfrýjenda um að skilmálinn sé ósanngjarn byggist á að hann sé í andstöðu við 36. gr. c laga nr. 7/1936, sbr. 3. gr. tilskipunar 93/13/EBE. Hann sé ekki á skýru og skiljanlegu máli samkvæmt 36. gr. b sömu laga og 5. gr. tilskipunarinnar og uppfylli ekki kröfu um efnislegt gagnsæi samningsskilmála neytendaláns. Þau vísa einkum til ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins 23. maí 2024 í sameinuðum málum E-13/22 og E-1/23 um atriði sem beri að líta til við mat á því hvort samningur sé ósanngjarn og hvað sé fólgið í kröfum tilskipunarinnar um góða trú, gagnsæi og jafnvægi í skilmálum um fasteignalán. Ótvírætt sé að skilmálinn tilgreini ekki afdráttarlausar ástæður vaxtabreytinga og ómögulegt fyrir neytanda að ganga úr skugga um að framkvæmd aðaláfrýjanda fylgi viðmiðum hans. Þá hafi gagnáfrýjendur í reynd borið alla áhættu í viðskiptunum, ekki aðeins markaðsáhættu heldur einnig áhættu tengda afkomu og rekstrarmarkmiðum aðaláfrýjanda.
17. Gagnáfrýjendur halda því einnig fram að skilmálinn brjóti gegn f-lið 2. mgr. 12. gr. laga nr. 33/2013, sbr. f-lið 2. mgr. 10. gr. tilskipunar 2008/48/EB, vegna ófullnægjandi tilgreiningar skilyrða og málsmeðferðar við vaxtabreytingar. Í fyrsta lagi tilgreini hann ekki skýr og hnitmiðuð skilyrði fyrir vaxtabreytingum. Í annan stað lýsi skilmálinn ekki með skýrum og hnitmiðuðum hætti virkni þeirrar aðferðar sem beitt er til að ákvarða eða reikna út vexti. Í þriðja lagi geti viðmiðunarvextir skilmálans ekki talist settir fram með skýrum og hnitmiðuðum hætti sem leiði til umtalsverðs ójafnræðis aðila. Gagnáfrýjendur benda á að skilmálinn sé hliðstæður þeim sem fjallað var um í dómi Hæstaréttar 14. október 2025 í máli nr. 55/2024. Eins og í þeim dómi beri að skýra umrætt ákvæði laga nr. 33/2013 í ljósi gagnsæiskröfu tilskipunar 2008/48/EB eins og hún hafi birst í dómaframkvæmd Evrópudómstólsins og ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins 23. maí 2024 í máli E-4/23.
18. Þar sem hinn umþrætti samningsskilmáli sé ógildur af framangreindum ástæðum beri að beita 5. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Aðaláfrýjanda beri því að endurgreiða þá fjárhæð sem hann hafi ranglega haft af gagnáfrýjendum vegna ólögmætra vaxta. Því sé krafist endurgreiðslu fjárhæðar sem þau hafi greitt umfram skyldu á því tímabili sem krafan tekur til og að útreikningur miðist við 1. mgr. 18. gr., sbr. 4. gr. laga nr. 38/2001.
19. Gagnáfrýjendur hafna því að krafan sé fyrnd. Hún hafi stofnast þegar lánið var greitt upp 29. mars 2021 og skuldasambandi aðila lauk. Teljist fyrningarfrestur í fyrsta lagi frá þeim degi, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda. Í aðalkröfu sé tekið mið af ofgreiðslum allt frá lántökudegi en varakrafa taki mið af því að ofgreiðslur sem gagnáfrýjendur inntu af hendi fyrir 8. desember 2018 séu fallnar niður vegna fyrningar.
Helstu málsástæður aðaláfrýjanda
20. Aðaláfrýjandi tekur fram að gagnáfrýjendur hafi ekki byggt á málsástæðum um framkvæmd vaxtabreytinga í héraðsdómsstefnu og þær komist því ekki að á efri dómstigum.
21. Aðaláfrýjandi byggir á því að í 1. tölulið skilmála skuldabréfsins um breytilega vexti komi nægilega fram öll þau atriði sem fyrirmæli f-liðar 2. mgr. 12. gr. laga nr. 33/2013 áskilja. Gagnáfrýjendur túlki ákvæðið þannig að það geri mun strangari kröfur en felist í orðum þess, en slíkar takmarkanir á samningsfrelsi verði að eiga skýra stoð í lögum. Þannig líti gagnáfrýjendur ranglega svo á að „málsmeðferð“ feli í sér kröfu um fastmótaða reiknireglu og að um „skilyrði“ vaxtabreytinga gildi sama krafa og um viðmiðunarvexti og vísitölur, en þessi aðgreining komi meðal annars fram í 2. mgr. 13. gr. laga nr. 33/2013. Mikilvægt sé að þau lög taki til tveggja gerða lána með breytilegum vöxtum sem lúti ekki sömu reglum. Annars vegar lána sem byggist á vísitölum eða viðmiðunarvöxtum þar sem uppfylla þurfi meðal annars kröfur um sannreynanleika. Hins vegar lána sem byggist ekki á slíkum þáttum en óumdeilanlegt sé að það eigi við um lánið sem sé undir í málinu.
22. Hefði vilji löggjafans staðið til þess að í f-lið 2. mgr. 12. gr. laga nr. 33/2013 fælist krafa um tilgreiningu á hlutfallslegu vægi viðmiða og reiknireglu við vaxtabreytingar hefði þurft að orða það sérstaklega í ákvæðinu. Það væri meðal annars ljóst af lögskýringargögnum með lögum nr. 118/2016 um fasteignalán þar sem vísað hefði verið til gildandi réttar um skýringu laga nr. 33/2013. Þar hafi meðal annars komið fram að áfram mætti ákveða vaxtabreytingar með hliðsjón af tilteknum breytum, svo sem fjármögnunar- eða rekstrarkostnaði. Enn fremur sé ljóst að staðhæfingar gagnáfrýjenda um skýringu á tilskipun 2008/48/EB eigi ekki stoð í framkvæmd Evrópudómstólsins.
23. Skýrleikakrafa laga nr. 33/2013 lúti að þeim þáttum skilmálans sem hann setur fram sem grundvöll vaxtabreytinga en ekki hverri og einni vaxtaákvörðun. Skilyrði f-liðar 2. mgr. 12. gr. laga séu uppfyllt með því að í skilmálanum séu taldir með tæmandi hætti fimm þættir sem heimili breytingu á útlánsvöxtum auk þess sem þar kom fram skýr og hnitmiðuð lýsing á hverjum þeirra. Að þessu leyti sé skilmálinn í veigamiklum atriðum ólíkur þeim sem var til umfjöllunar í dómi Hæstaréttar í máli nr. 55/2024.
24. Enn fremur tilgreini skilmálinn þá málsmeðferð við vaxtabreytingar að þær séu að jafnaði tilkynntar með 30 daga fyrirvara sem geti þó verið skemmri þegar vextir eru lækkaðir. Þá séu vaxtaákvörðunarþættirnir metnir sjálfstætt og í kjölfarið ákveðið hvort aðstæður gefi tilefni til breytinga. Lög nr. 33/2013 geri ekki þá kröfu að lánveitandi þurfi að gera grein fyrir vinnuferlum sínum við vaxtaákvarðanir í skilmálum lána.
25. Aðaláfrýjandi hafnar því að skilmálinn í láni gagnáfrýjenda sé ósanngjarn og geti ekki talist bindandi fyrir þau vegna óskýrleika og efnisannmarka. Hann sé á skýru og skiljanlegu máli samkvæmt 36. gr. b laga nr. 7/1936 en annmarki á því leiði auk þess ekki til ógildingar, heldur sé þar um túlkunarreglu að ræða eins og ákvæðið verði skýrt í ljósi 5. gr. tilskipunar 93/13/EBE.
26. Þá andmælir aðaláfrýjandi því að skilmálinn stríði gegn góðum viðskiptaháttum og raski til muna jafnvægi milli réttinda og skyldna samningsaðila neytanda til tjóns. Gagnáfrýjendur hafi verið í góðri samningsstöðu og átt úr ýmsum kostum að velja. Þau hafi fengið ítarlegar upplýsingar samkvæmt 7. gr. laga nr. 33/2013 í aðdraganda lántökunnar og þeim hafi verið tryggður réttur til að ákveða einhliða að ganga frá samningnum en aðaláfrýjandi hafi aftur á móti enga slíka heimild haft. Loks hafi verulega þýðingu að vaxtabreytingar lánsins hafi nær einungis verið gagnáfrýjendum til hagsbóta enda hafi vextir verið lækkaðir frá þeim upphafsvöxtum sem samið var um. Þannig verði að fara fram heildarmat á öllum þáttum sem leiði í ljós að skilmáli lánsins um vaxtabreytingar hafi ekki verið gagnáfrýjendum í óhag.
27. Jafnvel þótt skilmálinn yrði talinn ólögmætur sé ljóst að gagnáfrýjendur hafi greitt lægri vexti en leitt hefði af upphaflega umsaminni vaxtaprósentu, 4,75%. Þau hafi þó ekki haldið því fram að hún hafi verið ósanngjörn eða ólögmæt. Því komi ekki til álita að beita 18. gr. laga nr. 38/2001 á þeim grundvelli að þau hafi ranglega ofgreitt vexti eða að ákveða skuli vexti samkvæmt 4. gr. sömu laga. Þá tekur aðaláfrýjandi fram að skilyrði endurgreiðslu ofgreidds fjár séu ekki uppfyllt. Að auki séu allar kröfur sem gagnáfrýjendur hafi greitt meira en fjórum árum fyrir málshöfðun fyrndar á grundvelli laga nr. 150/2007.
Löggjöf
28. Í málinu reynir einkum á skýringu eftirfarandi ákvæða laga og Evróputilskipana sem teknar hafa verið upp í EES-samninginn og hafa að markmiði að auka neytendavernd.
Lög nr. 33/2013 um neytendalán og tilskipun 2008/48/EB um lánasamninga fyrir neytendur
29. Þegar umrætt skuldabréf var gefið út 3. janúar 2017 giltu lög nr. 33/2013 um neytendalán einnig um fasteignalán. Þau lög innleiddu tilskipun 2008/48/EB um lánasamninga fyrir neytendur. Þótt fasteignalán falli ekki undir gildissvið tilskipunarinnar, sbr. a-lið 2. mgr. 2. gr. hennar, ákvað Alþingi engu að síður að lögin skyldu taka til slíkra lána. Um það var í greinargerð með frumvarpi til laganna tekið fram að aðildarríkjum væri heimilt að fella fleiri tegundir lánasamninga undir gildissvið landslaga en tilgreindar væru í tilskipuninni.
30. Í 12. gr. laganna er fjallað um form samninga sem þau taka til og hvaða upplýsingar skuli koma fram í lánssamningi. Í 2. mgr. ákvæðisins eru talin upp í 22 stafliðum atriði sem skulu „á skýran og hnitmiðaðan hátt“ koma fram í lánssamningi. Sérstaka þýðingu fyrir mat á skilmálum samnings aðila málsins hefur f-liður 2. mgr. um ákvörðun útlánsvaxta. Hann er svohljóðandi:
útlánsvextir, skilyrði um beitingu þeirra og, ef við á, vísitala eða viðmiðunarvextir sem geta haft áhrif á upphaflega útlánsvexti, svo og tímabil, skilyrði og málsmeðferð við breytingu á útlánsvöxtum; gildi mismunandi útlánsvextir við mismunandi aðstæður skal veita áðurnefndar upplýsingar um þá alla.
31. Hliðstæð fyrirmæli um að upplýsa skuli neytanda um skilyrði og málsmeðferð við breytingu á útlánsvöxtum koma fram í f-lið 4. mgr. 7. gr. laga nr. 33/2013 sem fjallar um upplýsingar áður en samningur er gerður.
32. Ekki kemur fram í lögskýringargögnum um þessi ákvæði laga nr. 33/2013 hvað sé fólgið í orðunum „á skýran og hnitmiðaðan hátt“ og „skilyrði og málsmeðferð“ breytinga á útlánsvöxtum. Ótvírætt er þó að með þessum lagaákvæðum var innleitt efnislega samhljóða ákvæði f-liðar 2. mgr. 10. gr. tilskipunar 2008/48/EB um upplýsingagjöf til neytenda varðandi lánasamninga með breytilegum útlánsvöxtum.
33. Í 31. og 32. lið formálsorða tilskipunar 2008/48/EB er varpað ljósi á markmið ákvæða um skyldu til að veita neytanda upplýsingar og hvernig þau skuli framkvæmd. Tekið er fram að til að neytandi geti þekkt réttindi sín og skyldur samkvæmt lánssamningi skuli allar nauðsynlegar upplýsingar koma þar fram á skýran og hnitmiðaðan hátt. Til að tryggja fullt gagnsæi skuli veita neytandanum upplýsingar um útlánsvexti, bæði áður en gengið er til samninga og þegar lánssamningurinn er gerður. Á þeim tíma sem samningsbundin tengsl standa yfir skuli enn fremur upplýsa neytandann um breytingar sem verða á breytilegum útlánsvöxtum og breytingar á greiðslum af þeim sökum.
34. Þótt fyrrgreint orðalag um „skilyrði og málsmeðferð“ hafi fyrst komið inn í löggjöf um neytendalán í lögum nr. 33/2013 hefur allt frá setningu fyrstu laga um neytendalán nr. 30/1993, sem meðal annars innleiddu þágildandi Evróputilskipanir 87/102/EBE og 90/88/EBE á sviði neytendalána, verið gert ráð fyrir heimildum til að semja um breytilega vexti lána. Þannig var í 9. gr. laga nr. 30/1993, sbr. lög nr. 121/1994, mælt fyrir að þótt lög kvæðu á um að neytandi skyldi fá upplýsingar um vexti eða fjárhæðir þar sem vextir væru meðtaldir kæmi það ekki í veg fyrir að aðilar gætu samið um að vextir væru að nokkru eða öllu leyti breytilegir. Skyldi þá greint frá vöxtum eins og þeir væru á þeim tíma sem upplýsingarnar væru gefnar, tilgreint með hvaða hætti vextirnir væru breytilegir og við hvaða aðstæður þeir breyttust.
Lög nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga og tilskipun 93/13/EBE um ósanngjarna skilmála í neytendasamningum
35. Í 36. og 36. gr. c laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, sbr. lög nr. 14/1995, eru meðal annars tilgreindar eftirfarandi heimildir til ógildingar á samningi:
36. gr.
Samningi má víkja til hliðar í heild eða að hluta, eða breyta, ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig, sbr. þó 36. gr. c. Hið sama á við um aðra löggerninga.
Við mat skv. 1. mgr. skal líta til efnis samnings, stöðu samningsaðilja, atvika við samningsgerðina og atvika sem síðar komu til.
36. gr. c.
Ákvæði 36. gr. gilda um samninga skv. 1. mgr. 36. gr. a. þó með þeim breytingum sem leiðir af 2. og 3. mgr.
Við mat á því hvort samningur skv. 1. mgr. sé ósanngjarn skal líta til atriða og atvika sem nefnd eru í 2. mgr. 36. gr., m.a. skilmála í öðrum samningi sem hann tengist. Þó skal eigi taka tillit til atvika sem síðar komu til, neytanda í óhag.
Samningur telst ósanngjarn stríði hann gegn góðum viðskiptaháttum og raski til muna jafnvægi milli réttinda og skyldna samningsaðila, neytanda í óhag. Ef slíkum skilmála er vikið til hliðar í heild eða að hluta, eða breytt, skal samningurinn að kröfu neytanda gilda að öðru leyti án breytinga verði hann efndur án skilmálans.
36. Þá er tekið fram í 36. gr. b að skriflegur samningur skuli vera á skýru og skiljanlegu máli og komi upp vafi um merkingu hans skuli túlka hann neytandanum í hag.
37. Fyrrgreind breytingalög nr. 14/1995 voru sett til að innleiða tilskipun 93/13/EBE um ósanngjarna skilmála í neytendasamningum. Í greinargerð með frumvarpinu var lýst með hvaða hætti ákvæði þess stefndu að aukinni neytendavernd og jafnframt því markmiði að samræma löggjöf EES-ríkjanna um vissa ósanngjarna samningsskilmála í neytendasamningum, einkum í stöðluðum skilmálum.
38. Ákvæði laga nr. 14/1995 innleiddu ákvæði í 3., 5. og 6. gr. tilskipunarinnar. Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. hennar telst samningsskilmáli þannig ósanngjarn, þrátt fyrir skilyrði um góða viðskiptahætti, ef hann veldur umtalsverðu ójafnvægi réttinda og skyldna samningsaðila neytanda til tjóns. Þá kemur fram í 5. gr. að samningar með skriflegum skilmálum skuli orðaðir á skýru, skiljanlegu máli og í vafatilvikum gildi sú túlkun sem neytendum komi best. Þá skulu aðildarríki samkvæmt 1. mgr. 6. gr. hennar mæla fyrir um að ósanngjarnir skilmálar í neytendasamningi séu samkvæmt landslögum þeirra ekki bindandi fyrir neytendur og samningurinn verði áfram bindandi fyrir aðila ef hann getur haldið gildi sínu að öðru leyti án ósanngjörnu skilmálanna.
Niðurstaða
Um málatilbúnað gagnáfrýjenda
39. Gagnáfrýjendur höfðuðu mál þetta til heimtu fjárkröfu sem þau telja sig hafa eignast á hendur aðaláfrýjanda þar sem skilmáli um vaxtabreytingar láns sem þau tóku hjá honum hafi verið ólögmætur og ógildur.
40. Fyrir Hæstarétti lagði aðaláfrýjandi fram ný gögn um forsendur að baki ákvörðunum sínum um þær sjö breytingar sem gerðar voru á vöxtum af láni gagnáfrýjenda og lýst hefur verið. Gagnáfrýjendur halda því fram að gögnin leiði í ljós að breytingarnar hafi ekki byggst á viðmiðum skilmálans og verðlagningarlíkan sem þar sé lýst vísi til annarra þátta á borð við „innri vexti“ og „jaðarvaxtakostnað“.
41. Í héraðsdómstefnu byggðu gagnáfrýjendur ekki á því að einstakar ákvarðanir um vaxtabreytingar hefðu verið í andstöðu við skilmála lánsins. Var meginmálsástæðan að baki fjárkröfu þeirra að efnislegir annmarkar skilmálans hefðu verið slíkir allt frá undirritun samningsins að hann hefði verið ólögmætur og ógildur án tillits til hvernig aðaláfrýjandi nýtti sér síðar heimild sína til að breyta vöxtum lánsins. Verður í ljósi framangreinds að fallast á það sjónarmið aðaláfrýjanda að málsástæður gagnáfrýjenda sem lúta að lögmæti framkvæmdar vaxtabreytinga eða tilteknum ákvörðunum séu of seint fram komnar.
Um lögmæti skilmálans
42. Meginmálsástæða gagnáfrýjenda sem lýtur að lögmæti áðurgreinds skilmála samkvæmt lögum nr. 33/2013 um neytendalán er að hann uppfylli ekki fyrirmæli f-liðar 2. mgr. 12. gr. laganna um skyldur lánveitanda til að upplýsa lántaka með skýrum og hnitmiðuðum hætti í samningi um skilyrði og málsmeðferð við breytingu á útlánsvöxtum. Enn fremur vísa þau til dóms Hæstaréttar í máli nr. 55/2024 um þær gagnsæiskröfur sem lögin feli í sér og um túlkun ákvæðisins í ljósi f-liðar 2. mgr. 10. gr. tilskipunar 2008/48/EB um lánasamninga fyrir neytendur, svo og ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins í máli E-4/23. Þá vísa þau til dóma Evrópudómstólsins um tengsl þessara reglna við fyrirmæli tilskipunar 93/13/EBE um ósanngjarna skilmála í neytendasamningum um hvenær skilmáli teljist ósanngjarn og ógildur.
43. Við mat á þýðingu fyrrgreinds hæstaréttardóms í máli nr. 55/2024 við úrlausn þessa máls er fyrst til þess að líta að lagagrundvöllur skilmála láns sem þar var til úrlausnar var annar en í þessu máli. Í dóminum var talið að skilmáli láns um breytingar á útlánsvöxtum, sem meðal annars hafði að geyma tilvísanir til vísitölu og viðmiðunarvaxta, uppfyllti ekki gagnsæiskröfur 1. mgr. 34. gr. laga nr. 118/2016 um fasteignalán til neytenda eins og ákvæðið varð skýrt í ljósi 24. gr. tilskipunar 2014/17/ESB um lánssamninga fyrir neytendur í tengslum við íbúðarhúsnæði. Sú tilskipun jók kröfur um gagnsæi gagnvart neytendum við gerð slíkra lánasamninga svo sem meðal annars verður ráðið af 67. lið formálsorða hennar. Þá bætti hún við þeim sérstöku skilyrðum í 24. gr. að þegar um er að ræða samning um lán með breytilegum vöxtum sem byggjast á vísitölum eða viðmiðunarvöxtum skuli slíkir þættir vera skýrir, aðgengilegir, hlutlægir og sannreynanlegir.
44. Lög nr. 118/2016 höfðu ekki tekið gildi þegar samningur aðila var undirritaður og eiga því ekki við um atvik málsins. Gildir þá einu þótt 34. gr. laganna sæki að hluta fyrirmynd sína til laga nr. 33/2013 og tilskipunar 2008/48/EB. Enn fremur er til þess að líta að í ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins í sameinuðum málum E-13/22 og E-1/23 voru ákvæði tilskipunarinnar túlkuð í ljósi gagnsæiskrafna 24. gr. tilskipunar 2014/17/ESB. Í dómi Hæstaréttar í áðurnefndu máli nr. 55/2024 voru kröfur 34. gr. laga nr. 118/2016 til skilmála fasteignalána einnig skýrðar í ljósi beggja tilskipana. Engin samsvarandi skilyrði um breytilega útlánsvexti fasteignalána og nú koma fram í 24. gr. tilskipunar 2014/17/ESB voru hins vegar í íslenskum lögum þegar gagnáfrýjendur undirrituðu samning sinn við aðaláfrýjanda.
45. Í annan stað er til þess að líta að umræddur skilmáli hefur ekki að geyma tilvísanir til vísitölu og viðmiðunarvaxta eins og átti við í því máli sem lauk með fyrrnefndum dómi réttarins. Er í því tilliti ekki fallist á að breytingar á ávöxtunarkröfu verðtryggðra skuldabréfa útgefinna meðal annars af Íbúðalánasjóði, bönkum og fjármálastofnunum á Íslandi, ríkissjóði Íslands eða sveitarfélögum sem vísað er til í skilmálanum falli undir viðmiðunarvexti í skilningi 13. gr. laga nr. 33/2013 eins og það hugtak er skýrt í greinargerð með frumvarpi sem varð að þeim lögum. Andstætt því sem átti að hluta til við í hæstaréttarmáli nr. 55/2024 verður lögmæti skilmálans ekki metið á slíkum grundvelli. Loks er skilmáli sá sem hér er til umfjöllunar settur fram með ólíkum og ítarlegri hætti en sá sem var til úrlausnar í umræddu hæstaréttarmáli. Verður nú nánar vikið að þýðingu þess.
46. Í 31. og 32. lið formálsorða tilskipunar 2008/48/EB kemur fram að svo neytandi geti þekkt réttindi sín og skyldur samkvæmt lánssamningi skuli koma þar fram allar nauðsynlegar upplýsingar á skýran og hnitmiðaðan hátt. Til að tryggja fullt gagnsæi skuli veita honum upplýsingar um útlánsvexti bæði áður en gengið er til samninga og þegar lánssamningurinn er gerður. Þá skuli upplýsa neytandann um breytingar sem verði á breytilegum útlánsvöxtum og greiðslum af þeim sökum. Á þessum markmiðum hvíla fyrirmæli f-liðar 2. mgr. 10. gr. tilskipunarinnar sem er innleidd í samhljóða ákvæði f-liðar 2. mgr. 12. gr. laga nr. 33/2013 á þann veg að í lánssamningi skuli koma fram á skýran og hnitmiðaðan hátt skilyrði og málsmeðferð við breytingu á útlánsvöxtum.
47. Eins og áður greinir er í umræddum skilmála tekið fram að aðaláfrýjanda sé heimilt að breyta grunnvöxtum lánsins og við slíkar ákvarðanir sé horft til fimm þátta: 1) breytinga á ávöxtunarkröfu verðtryggðra skuldabréfa útgefinna meðal annars af Íbúðalánasjóði, bönkum og fjármálastofnunum á Íslandi, ríkissjóði Íslands eða sveitarfélögum, 2) breytinga á fjármögnunarkostnaði, 3) breytinga á rekstrarkostnaði, 4) breytinga á smásöluálagningu bankans og 5) breytinga á álagningu bankans vegna útlánaáhættu. Hvert framangreindra skilyrða er útskýrt frekar í eftirfarandi texta skilmálans. Auk þess er þar tekið fram að vextir lánsins verði þó ávallt í samræmi við þá vexti sem gilda gagnvart nýjum sambærilegum og/eða hliðstæðum lánum bankans.
48. Hvað varðar málsmeðferð við ákvörðun um vaxtabreytingar er í skilmálanum vísað til þess að þær séu að jafnaði tilkynntar lántaka með 30 daga fyrirvara. Jafnframt kemur þar fram að þegar grunnvextir láns séu ákveðnir séu þeir þættir sem mynda vextina metnir sjálfstætt. Í kjölfarið sé tekin ákvörðun um hvort aðstæður gefi tilefni til breytinga á vöxtunum. Geti breyting hvers þáttar um sig gefið tilefni til vaxtabreytinga.
49. Hvorki í lögum nr. 33/2013, tilskipun 2008/48/EB né skýringargögnum þeim tengdum er nánar lýst hvað sé efnislega fólgið í áskilnaði um skilyrði og málsmeðferð í tengslum við ákvarðanir um breytingar á útlánsvöxtum. Þá má geta þess að þeir dómar Evrópudómstólsins sem gagnáfrýjendur hafa vísað til veita ekki sérstaka leiðsögn um hvernig túlka skuli þessi orð f-liðar 2. mgr. 10. gr. tilskipunar 2008/48/EB.
50. Við nánari skýringu þessara orða verður að líta til almennrar gagnsæiskröfu laganna og tilskipunarinnar og þá hvort þær upplýsingar sem koma fram í skilmálanum teljast nægilega skýrar og hnitmiðaðar. Kröfu þessa um gagnsæi verður einnig að skýra með hliðsjón af þeirri túlkunarreglu sem kemur fram í 36. gr. b laga nr. 7/1936, sbr. 5. gr. tilskipunar 93/13/EBE, þess efnis að skriflegur samningur við neytanda skuli vera á skýru og skiljanlegu máli en komi upp vafi um merkingu skuli túlka hann neytandanum í hag.
51. Við mat á skýrleika skilmálans ber fyrst að líta til þess munar sem er á efni og framsetningu hans og þess sem var til umfjöllunar í hæstaréttarmáli nr. 55/2024. Í þeim síðarnefnda voru skilyrði vaxtabreytinga ekki talin upp með tæmandi hætti heldur nokkur viðmið sem „meðal annars“ gátu orðið grundvöllur vaxtabreytinga en eitt þeirra var „og/eða öðrum ófyrirséðum kostnaði“. Loks endaði talning skilmálans á orðunum „o.s.frv.“ sem fól í sér opna og þar með ófyrirsjáanlega heimild stefnda til vaxtabreytinga.
52. Í ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins í máli E-4/23 kom fram um skýringu f-liðar 2. mgr. 10. gr. tilskipunar 2008/48/EB að til að tryggja fullt gagnsæi og að neytandi geti gert sér grein fyrir réttindum sínum og skyldum þurfi að tilgreina með tæmandi hætti öll skilyrði fyrir breytingu útlánsvaxta. Þá séu kröfur sem ákvæðið gerir til upplýsinga í lánssamningi ekki uppfylltar ef þar er að finna almenna tilvísun til ófyrirséðrar hækkunar á kostnaði lánveitanda eða annarra skilyrða fyrir breytingu útlánsvaxta sem lánveitanda er ókunnugt um. Af þessari ástæðu var skilmálinn í reynd talinn fela í sér opna og þar með ófyrirsjáanlega heimild bankans til að ákveða vaxtabreytingar einhliða. Í umræddum dómi Hæstaréttar var sami samningsskilmáli til skoðunar og fjallað hafði verið um í ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins. Verður ráðið af forsendum dómsins að fyrrgreindur annmarki hafi haft verulega þýðingu um þá niðurstöðu að hann var talinn ólögmætur.
53. Svo sem áður greinir eru skilyrði vaxtabreytinga í fyrirliggjandi skilmála talin upp með tæmandi hætti í fimm liðum. Eitt þeirra vísar til „breytinga á ávöxtunarkröfu verðtryggðra skuldabréfa útgefinna m.a. af Íbúðalánasjóði, bönkum og fjármálastofnunum á Íslandi, ríkissjóði Íslands eða sveitarfélögum“. Orðalagið „m.a.“ felur þó aðeins í sér nánari útlistun á tilteknu skilyrði fyrir vaxtabreytingu án þess að opnað sé fyrir það að bætt sé við öðrum sjálfstæðum viðmiðum vaxtabreytinga. Sama á við um sambærilegt orðalag skilmálans vegna nánari skýringar á hugtökunum „fjármögnunarkostnaður“ og „álagning vegna útlánahættu“.
54. Samkvæmt framangreindu eru skilyrði fyrir vaxtabreytingum talin með fullnægjandi hætti upp í skilmálanum í samræmi við f-lið 2. mgr. 12. gr. laga nr. 33/2013. Um þau fyrirmæli ákvæðisins að getið sé um málsmeðferð við breytingu vaxta í skilmála samningsins ber að líta til þess að í honum kemur fram við hvaða tímamark vaxtabreytingar eru ákveðnar og jafnframt að þær skuli að jafnaði tilkynntar lántökum með ákveðnum fyrirvara. Lántökum til hagsbóta geta vaxtalækkanir þó verið ákveðnar með skemmri fyrirvara. Þá er því lýst að þegar grunnvextir lánsins eru ákveðnir séu þeir þættir sem mynda vextina metnir sjálfstætt. Jafnframt sé þá tekin ákvörðun um hvort aðstæður gefi tilefni til breytinga á vöxtunum. Verður hvorki séð af orðum fyrrgreinds ákvæðis f-liðar, lögskýringargögnum með lögum nr. 33/2013 né hliðstæðu ákvæði tilskipunar 2008/48/EB að gerðar séu ríkari kröfur til skilmála en þarna koma fram til lýsingar á málsmeðferð við ákvörðun um vaxtabreytingar. Er því ekki fallist á með gagnáfrýjendum að fyrir hendi sé annmarki á skilmálanum í þessu tilliti.
55. Þótt efni skilmálans uppfylli samkvæmt framangreindu hlutlægt séð kröfur f-liðar 2. mgr. 12. gr. laga nr. 33/2013 stendur eftir að skera úr um hvort upplýsingar þessar séu settar fram á nægilega skýran og hnitmiðaðan hátt samkvæmt upphafsorðum 2. mgr. 12. gr. laganna, eins og ákvæðið verður meðal annars skýrt í ljósi 36. gr. b laga nr. 7/1936.
56. Í ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins í máli E-4/23 var fjallað um samsvarandi ákvæði tilskipunar 2008/48/EB og 5. gr. tilskipunar 93/13/EB, sbr. einkum 38. til 42. lið álitsins. Þar kemur fram að til að uppfylla kröfur um að texti skriflegs samnings sé á skýru og skiljanlegu máli verði upplýsingar sem þar koma fram að vera lausar við hvers kyns mótsagnir sem hlutlægt séð gætu verið fallnar til að villa um fyrir almennum neytanda, sem telst sæmilega vel upplýstur og sæmilega athugull og forsjáll, varðandi umfang réttinda hans og skyldna samkvæmt samningnum. Til að tryggja fullt gagnsæi, gera neytendum kleift að bera saman mismunandi tilboð og gera sér grein fyrir réttindum sínum og skyldum samkvæmt samningnum þurfi að tilgreina með tæmandi hætti öll skilyrði fyrir breytingu útlánsvaxta. Til að tryggja fullt gagnsæi og ná markmiðum 5. og 10. gr. tilskipunar 2008/48/EB þurfi því að tilgreina öll skilyrðin, bæði á stöðluðu eyðublaði samkvæmt tilskipuninni og í samningnum.
57. Þegar skilmálinn í láni gagnáfrýjenda er skoðaður í þessu ljósi er fyrst til þess að líta að textinn er á skýru og skiljanlegu máli. Þá er þar að finna frekari útskýringar á hvað er fólgið í hverju og einu skilyrðanna sem þar eru talin upp með tæmandi hætti. Ekki er fallist á með gagnáfrýjendum að orðfæri skilmálans sé úr hófi tyrfið eða hann geymi hugtök sem séu opin eða illskiljanleg. Efni skilmálans mátti því vera skiljanlegt gagnáfrýjendum sem sæmilega vel upplýstum og athugulum neytendum sem hugðu á lántöku vegna fasteignakaupa og gerði þeim kleift að bera sama mismunandi tilboð og kosti á lánamarkaði, eins og er eitt meginmarkmið fyrirmæla laga nr. 33/2013 varðandi upplýsingagjöf til lántaka.
58. Þess er einnig að gæta að gagnáfrýjendur fengu, áður en þau undirrituðu lánssamning við aðaláfrýjanda, afhentar fyrir fram allar upplýsingar um eiginleika samningsins á sérstöku eyðublaði samkvæmt 7. gr. laga nr. 33/2013 byggðu á fyrirmynd II. viðauka við tilskipun 2008/48/EB.
59. Loks ber að leysa úr þeirri málsástæðu gagnáfrýjenda að þau hafi ekki getað kynnt sér nánari virkni aðferðarinnar sem notuð var við breytingu á vöxtum og vægi einstakra þátta hafi verið óljóst. Um þetta verður tekið undir með aðaláfrýjanda að skylda til að veita slíkar upplýsingar verður ekki leidd af gagnsæiskröfu laga nr. 33/2013, orðum f-liðar 2. mgr. 12. gr., skýringargögnum með þeim eða tilskipun 2008/48/EB. Af lögunum eða tilskipuninni verður ekki heldur leidd skylda lánveitanda til að kynna fyrir fram nákvæmar reglur um ferli ákvarðana við breytingar á útlánsvöxtum.
60. Þótt í fyrrgreindum ráðgefandi álitum EFTA-dómstólsins hafi verið vísað til þess að lánaskilmálar, til viðbótar vísitölum og viðmiðunarvöxtum, sem ekki uppfylla skilyrði um að vera „skýrir, aðgengilegir, hlutlægir og sannreynanlegir“ kunni að skerða réttarstöðu neytandans með tilliti til gagnsæis ber að hafa í huga að álitin byggðust sem fyrr segir á öðrum lagagrundvelli en hér á við.
61. Þegar allt framangreint er virt verður ekki fallist á kröfu gagnáfrýjenda um að skilmáli í samningi þeirra við aðaláfrýjanda fari í bága við þær kröfur um gagnsæi neytendalána sem leiddar verða af f-lið, 2. mgr. 12. gr. laga nr. 33/2013 eins og ákvæðið verður skýrt með hliðsjón af f-lið 2. mgr. 10. gr. tilskipunar 2008/48/EB.
Um mat á því hvort skilmálinn sé ósanngjarn
62. Þótt skilmálinn í samningi aðila uppfylli samkvæmt framangreindu gagnsæiskröfur laga nr. 33/2013, eins og þau verða meðal annars skýrð með hliðsjón af 36. gr. b laga nr. 7/1936, ber að leysa sjálfstætt úr þeirri málsástæðu gagnáfrýjenda að hann sé engu að síður ósanngjarn í skilningi 36. gr. c sömu laga. Því þarf að fara fram atviksbundið mat á því hvort skilmálinn stríði gegn góðum viðskiptaháttum og raski til muna jafnvægi milli réttinda og skyldna aðila gagnáfrýjendum í óhag. Við það mat verður að líta heildstætt til allra aðstæðna við samningsgerðina og efnis samnings aðila á því tímamarki sem hann var gerður.
63. Gagnáfrýjendur vísa til ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins í málum E-13/22 og E-1/23 um skýringu á hvað teljist ósanngjarn samningsskilmáli í skilningi 3. gr. tilskipunar nr. 93/13/EBE. Samkvæmt því séu hugtök sem skilmálinn vísi til á borð við „fjármögnunarkostnað“ og „rekstrarkostnað“ bæði opin og eðli máls samkvæmt ósannreynanleg fyrir almennan neytanda. Afleiðingar skilmálans fyrir fjárhagsstöðu þeirra séu ófyrirsjáanlegar og ákvörðunarvald um vaxtabreytingar einhliða í höndum aðaláfrýjanda. Það stríði gegn góðum viðskiptaháttum og raski til muna jafnvægi milli réttinda og skyldna samningsaðila þeim í óhag og því beri að ógilda skilmálann í heild sinni.
64. Ekki verður séð að aðaláfrýjandi hafi nýtt sér aðstöðumun við samningsgerðina svo farið hafi verið gegn góðum viðskiptaháttum. Á grundvelli upplýsinga sem gagnáfrýjendur fengu fyrir fram hjá aðaláfrýjanda um eiginleika lánsins og heimild til vaxtabreytinga var þeim kleift að bera saman mismunandi valkosti á lánamarkaði og átta sig í meginatriðum á fjárhagslegum skuldbindingum sínum því samfara. Ekki er fram komið að vaxtakjör af láninu hafi verið til muna lakari en almennt voru í boði eða skilmálinn sem slíkur verulega frábrugðinn þeim sem tíðkuðust hjá öðrum fjármálastofnunum, gagnáfrýjendum til óhagræðis. Verður því ekki fallist á aðaláfrýjandi hafi ekki verið í góðri trú við gerð samningsins eða skilmálinn andstæður góðum viðskiptaháttum.
65. Um jafnvægi milli aðila við samningsgerðina er þess fyrst að gæta að það felst í eðli láns með breytilegum vöxtum að ekki getur verið fullkomlega fyrirsjáanlegt fyrir lántaka hverjar fjárhagslegar afleiðingar samnings munu verða. Til þess er að líta að fyrirsjáanleiki lána með föstum vöxtum er jafnan verðlagður sérstaklega vegna aukinnar áhættu lánveitanda. Lán með breytilegum og eftir atvikum lægri vöxtum geta þannig verið valkostur á lánamarkaði og til hagsbóta fyrir neytanda. Við þær aðstæður er komið til móts við hagsmuni lántaka með því að breytingar á vöxtum séu aðeins heimilar á grundvelli gildra ástæðna sem fram koma í lánssamningi og jafnframt öðrum gögnum við samningsgerðina þannig að hann geti í meginatriðum gert sér grein fyrir fjárhagslegri þýðingu skuldbindingar sinnar til framtíðar og borið saman við aðra kosti á lánamarkaði.
66. Samkvæmt framangreindu verður sú krafa því ekki leidd af 36. gr. c laga nr. 7/1936 varðandi jafnvægi milli samningsaðila að fyllilega þurfi að vera fyrirsjáanlegt hvaða vexti lántaki muni greiða af láni til framtíðar þegar kröfur um lögmæti skilmála eru að öðru leyti uppfylltar, sbr. einkum áðurgreindar kröfur laga nr. 33/2013 til gagnsæis. Með sama hætti felst ekki í ákvæðinu áskilnaður um að í skilmála um breytilega vexti skuli lýst ófrávíkjanlegri aðferð við ákvörðun nýrra vaxta eða reikniformúlu.
67. Samkvæmt þessu er ekki fallist á að sjálfkrafa hafi talist ósanngjarnt að aðaláfrýjandi tæki einhliða ákvörðun um vaxtabreytingar á grundvelli viðmiða sem að einhverju leyti væru matskennd og ætti þá einnig mat um vægi þeirra innbyrðis. Í því sambandi hefur þýðingu að samkvæmt skilmálanum skyldu vextir lánsins ávallt vera í samræmi við þá vexti sem giltu gagnvart nýjum sambærilegum eða hliðstæðum lánum. Hvað sem leið einhliða mati aðaláfrýjanda við vaxtaákvarðanir var þannig tryggt að vextir af láni gagnáfrýjenda yrðu aldrei hærri en vextir af nýjum lánum hjá aðaláfrýjanda sem tóku mið af aðstæðum á samkeppnismarkaði hverju sinni.
68. Að lokum ber að horfa til þess að við samningsgerð aðila voru gagnáfrýjendum tryggð ákveðin mótvægisúrræði vegna áðurgreinds ófyrirsjáanleika sem óhjákvæmilega er fólginn í láni með breytilegum vöxtum. Annars vegar var aðaláfrýjanda skylt að tilkynna um vaxtabreytingar með 30 daga fyrirvara, sbr. einnig 2. mgr. 13. gr. laga nr. 33/2013. Hins vegar gátu gagnáfrýjendur einhliða nýtt sér rétt til uppgreiðslu lánsins án kostnaðar, sbr. einnig c-lið 5. mgr. 18. gr. laganna. Er þá haft í huga að lántaki á þess jafnan kost að endurfjármagna lán á virkum markaði þar sem fjármálafyrirtæki og lífeyrissjóðir keppa sín á milli.
69. Af þessu verður ráðið að fyrirkomulagið hafi falið í sér ákveðna áhættu fyrir aðaláfrýjanda við ákvarðanir um vaxtabreytingar til framtíðar, það er að gagnáfrýjendur greiddu lán sitt upp og leituðu annarra kosta á lánamarkaði í stað þess að una ákvörðun aðaláfrýjanda um vaxtabreytingar. Með því að gagnáfrýjendur nýttu sér uppgreiðsluheimild sína og greiddu lánið upp er sýnt að hún hafi verið raunhæft úrræði og þessi áhætta aðaláfrýjanda af uppgreiðslu því raunhæf. Við mat á hvort nægilegt jafnvægi hafi verið milli samningsaðila er jafnframt til þess að líta að aðaláfrýjandi naut ekki sambærilegrar heimildar og gagnáfrýjendur til að segja samningnum upp.
70. Sem fyrr greinir er ekki sjálfgefið að úrslitum ráði um mat á hvort samningsskilmáli telst sanngjarn að lántaka standi til boða að greiða upp lán án kostnaðar, sbr. áðurnefndan dóm Hæstaréttar í máli nr. 55/2024. Atvik í því máli voru þó í mikilvægum atriðum önnur en hér þar sem samningsskilmáli um breytilega vexti var ólögmætur með tilliti til gagnsæiskrafna laga nr. 118/2016 um fasteignalán. Gat uppgreiðsluheimild lántaka við þær aðstæður ekki bætt fyrir eða rýmt út þeim annmarka á skilmálanum. Í máli þessu horfir á hinn bóginn svo við að skilmáli lánsins um breytilega vexti uppfyllti áskilnað laga nr. 33/2013 um gagnsæi. Mátti gagnáfrýjendum því sem sæmilega upplýstum og athugulum neytendum vera ljóst á hvaða forsendum breytingar kynnu að vera gerðar á vöxtum lánsins og hvaða þýðingu þær hefðu fyrir fjárhagslegar skuldbindingar þeirra.
71. Þótt niðurstaða um sanngirni skilmála samkvæmt 36. gr. c laga nr. 7/1936 byggist fyrst og fremst á mati atvika við samningsgerð verður ekki fram hjá því litið að hinn umdeildi skilmáli samnings aðila leiddi í sex af sjö tilvikum til ákvörðunar um vaxtalækkun á láninu sem var gagnáfrýjendum í hag. Við lok samningssambands milli aðila voru vextirnir þannig komnir niður fyrir umsamið vaxtastig við gerð samningsins. Svo sem áður greinir er lögmæti einstakra ákvarðana aðaláfrýjanda um vaxtabreytingar utan sakarefnis málsins. Gagnáfrýjendum eru hins vegar tæk úrræði að lögum til að láta reyna á lögmæti slíkra ákvarðana og ber þá meðal annars að horfa til þess að umræddan skilmála ber að skýra þeim í hag samkvæmt 36. gr. b laga nr. 7/1936 og 5. gr. tilskipunar nr. 93/13/EBE.
72. Að öllu framangreindu virtu verður ekki fallist á að skilmáli um breytilega vexti í lánssamningi gagnáfrýjenda og aðaláfrýjanda hafi valdið umtalsverðu ójafnvægi réttinda og skyldna milli samningsaðila, gagnáfrýjendum í óhag í skilningi 36. gr. c laga nr. 7/1936 svo að hann beri að ógilda. Verður því staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sýknu aðaláfrýjanda af fjárkröfu gagnáfrýjenda.
73. Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður.
74. Gagnáfrýjendur njóta gjafsóknar í málinu fyrir Hæstarétti. Um gjafsóknarkostnað þeirra fer eins og í dómsorði greinir.
75. Það athugast að í dómsorði hins áfrýjaða dóms var aðaláfrýjandi sýknaður af fjárkröfu gagnáfrýjenda í stað þess að mælt væri fyrir um, eins og venja stendur til, að héraðsdómur ætti að vera óraskaður um sömu niðurstöðu. Aftur á móti tók Landsréttur enga afstöðu til málskostnaðar í héraði þótt þar fyrir dómi væru af hálfu beggja aðila hafðar uppi kröfur um málskostnað á því dómstigi. Aðaláfrýjandi, sem dæmdur var málskostnaður í héraði, unir þessu og gerir ekki kröfu að því leyti hér fyrir dómi. Af þeirri ástæðu kemur ekki til álita að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður gagnáfrýjenda, Eyþórs Skúla Jóhannessonar og Elínborgar Jóhannesdóttur, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns þeirra Grétars Dórs Sigurðssonar, 2.000.000 króna.