Hæstiréttur íslands
Mál nr. 56/2024
Lykilorð
- Meðalganga
- Aukameðalganga
- Lögvarðir hagsmunir
Reifun
Dómur Hæstaréttar
1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen, Karl Axelsson, Skúli Magnússon og fyrrverandi hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Ingveldur Einarsdóttir.
2. Í þessum þætti málsins eru til úrlausnar kröfur meðalgönguáfrýjenda, Búsældar ehf., Kaupfélags Skagfirðinga svf. og Neytendasamtakanna, samkvæmt meðalgöngustefnum þeirra 7. janúar 2025 um að þeim verði heimilað að ganga inn í málið fyrir Hæstarétti. Af hálfu meðalgönguáfrýjenda Búsældar ehf. og Kaupfélags Skagfirðinga svf. er einnig gerð krafa um málskostnað úr hendi meðalgöngustefnda Innness ehf. Þá gerir meðalgönguáfrýjandi Neytendasamtökin kröfu um málskostnað úr hendi meðalgöngustefnda Samkeppniseftirlitsins.
3. Meðalgöngustefndi Samkeppniseftirlitið gerir ekki athugasemdir við að meðalgangan verði heimiluð en krefst málskostnaðar úr hendi meðalgönguáfrýjanda Neytendasamtakanna. Að öðru leyti hefur þessi meðalgöngustefndi ekki uppi kröfur í þessum þætti málsins.
4. Meðalgöngustefndi Innnes ehf. tekur ekki afstöðu til þess hvort fallast eigi á kröfur um meðalgöngu en krefst málskostnaðar úr hendi meðalgönguáfrýjenda Búsældar ehf. og Kaupfélags Skagfirðinga svf.
5. Meðalgöngustefndi Samkeppniseftirlitið, sem er áfrýjandi í efnisþætti málsins, skaut málinu til Hæstaréttar 20. desember 2024 með kröfu um sýknu af kröfum meðalgöngustefnda Innness ehf. auk málskostnaðar. Meðalgöngustefndi Innnes ehf., sem er stefndi í efnisþætti málsins, krefst fyrir sitt leyti staðfestingar hins áfrýjaða dóms auk málskostnaðar.
6. Af hálfu meðalgönguáfrýjenda Búsældar ehf. og Kaupfélags Skagfirðinga svf. er þess krafist í efnisþætti málsins að dómur verði felldur í samræmi við kröfur meðalgöngustefnda Samkeppniseftirlitsins. Af hálfu meðalgönguáfrýjanda Neytendasamtakanna er þess hins vegar krafist að fallist verði á kröfur meðalgöngustefnda Innness ehf.
7. Kröfur meðalgönguáfrýjenda um að ganga inn í málið voru teknar til dóms eða ákvörðunar að loknum munnlegum málflutningi 27. mars 2025.
Málsatvik
8. Hinn 21. mars 2024 voru samþykkt á Alþingi lög nr. 30/2024 um breytingu á búvörulögum nr. 99/1993 (framleiðendafélög). Þau voru birt í Stjórnartíðindum 5. apríl sama ár. Með 2. gr. þeirra var tekin upp í búvörulög ný grein, 71. gr. A. Í 1. mgr. hennar segir að þrátt fyrir ákvæði samkeppnislaga sé framleiðendafélögum samkvæmt 5. gr. laganna heimilt að sameinast, gera með sér samkomulag um verkaskiptingu milli afurðastöðva að því er varðar framleiðslu einstakra kjötafurða og hafa með sér annars konar samstarf til þess að halda niðri kostnaði við framleiðslu, geymslu og dreifingu kjötvara. Í 2. mgr. greinarinnar eru gerðar í fjórum stafliðum tilteknar kröfur til þeirra félaga sem nýta sér heimild 1. mgr. en ekki er ástæða til að rekja þær sérstaklega.
9. Með bréfi 8. júlí 2024 fór meðalgöngustefndi Innnes ehf. fram á að meðalgöngustefndi Samkeppniseftirlitið gripi inn í háttsemi framleiðendafélaga án þess þó að tiltekin félög væru nafngreind. Kom þar fram að „ákveðin slík félög“ ynnu þá stundina að því að sameinast og skipta á milli sín verkefnum og viðhafa samstilltar aðgerðir og samráð, allt í andstöðu við samkeppnislög.
10. Þessu erindi hafnaði meðalgöngustefndi Samkeppniseftirlitið með bréfi 26. júlí 2024. Í því voru raktar fyrrgreindar breytingar á búvörulögum sem sagðar voru hafa tekið gildi 6. apríl sama ár. Væri ljóst af ákvæðum breytingalaganna að undanþáguheimildir þeirra tækju til framleiðendafélaga, samtaka þeirra og svokallaðra kjötafurðastöðva. Þá var vísað til þess að 7. júlí 2024 hefði verið tilkynnt um að hluthafar Kjarnafæðis Norðlenska hf. hefðu samþykkt tilboð meðalgönguáfrýjanda Kaupfélags Skagfirðinga svf. í allt að 100% hlutafjár hlutafélagsins. Hefði komið fram í tilkynningunni að kaupin væru möguleg vegna undanþáguheimilda breytingalaganna. Af þessu væri ljóst að fyrirtæki sem féllu undir heimildirnar hefðu þegar ákveðið að nýta sér þær.
11. Í áðurnefndu bréfi meðalgöngustefnda Samkeppniseftirlitsins til meðalgöngustefnda Innness ehf. kom einnig fram að stofnunin hefði gert alvarlegar athugasemdir við þær heimildir sem kveðið væri á um í lögum nr. 30/2024, bæði til Alþingis og matvælaráðherra. Hins vegar væri stofnunin bundin af lögunum og væri það því ekki lengur á valdsviði hennar að grípa til íhlutunar gagnvart háttsemi framleiðendafélaga. Áréttað var að það væri heldur ekki á valdsviði hennar að leggja mat á stjórnskipulegt gildi laga eða hvort þau gengju gegn skuldbindingum ríkisins samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. samnefnd lög nr. 2/1993. Af þessum sökum myndi stofnunin ekki aðhafast frekar vegna erindis fyrirtækisins. Í bréfinu var þó tekið fram að erindið yrði tekið til meðferðar að nýju kæmust dómstólar að þeirri niðurstöðu að lög nr. 30/2024 hefðu ekki „lögformlegt gildi“.
12. Svo sem vikið var að í umræddu bréfi stofnunarinnar til meðalgöngustefnda Innness ehf. liggur fyrir að í framhaldi af gildistöku laga nr. 30/2024 og breytingum sem gerðar voru með þeim á búvörulögum gerði meðalgönguáfrýjandi Kaupfélag Skagfirðinga svf. kauptilboð 4. júlí 2024 í allt að 100% hlutafjár í Kjarnafæði Norðlenska hf. Daginn eftir samþykkti meðalgönguáfrýjandi Búsæld ehf. tilboðið en það mun þá hafa verið eigandi 43,1% hlutafjár í félaginu. Tilkynnt var opinberlega um viðskiptin 7. sama mánaðar. Ekki er um það deilt að meðalgönguáfrýjandi Kaupfélag Skagfirðinga svf. og Kjarnafæði Norðlenska, sem nú er einkahlutafélag, eru bæði framleiðendafélög í skilningi 5. gr. búvörulaga.
13. Meðalgöngustefndi Innnes ehf. höfðaði mál þetta gegn meðalgöngustefnda Samkeppniseftirlitinu 8. ágúst 2024 og krafðist þess að fyrrgreind ákvörðun þess 26. júlí það ár yrði felld úr gildi. Að kröfu þess fyrrnefnda sætti málið flýtimeðferð eftir ákvæðum XIX. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Með héraðsdómi 18. nóvember sama ár var fallist á kröfu félagsins. Svo sem nánar er rakið í forsendum hins áfrýjaða dóms var sú niðurstaða einkum á því byggð að fyrrgreind breyting á búvörulögum hefði ekki fullnægt þeim áskilnaði 44. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 að ekkert lagafrumvarp megi samþykkja fyrr en það hafi verið rætt við þrjár umræður á Alþingi. Þar sem breytingin hefði ekki lagagildi stæði hún því ekki í vegi að meðalgöngustefndi Samkeppniseftirlitið tæki erindi félagsins 8. júlí 2024 til úrlausnar í samræmi við lögbundið hlutverk sitt. Bæri því að fella ákvörðun stofnunarinnar úr gildi.
14. Degi eftir uppkvaðningu héraðsdóms, eða 19. nóvember 2024, ritaði meðalgöngustefndi Samkeppniseftirlitið Kjarnafæði Norðlenska ehf. bréf þar sem fram kom að stofnunin hefði til athugunar hvernig bregðast ætti við dóminum. Var því beint til fyrirtækisins að stöðva þegar í stað hvers konar aðgerðir eða háttsemi sem farið gæti gegn 10., 12. eða 17. gr. a samkeppnislaga nr. 44/2005 og stofnast hefði til á grundvelli ákvæða í lögum nr. 30/2024. Einnig sagði í bréfinu að hefði fyrirtækið ráðist í samruna eða hvers konar samstarf á grundvelli heimilda samkvæmt lögum nr. 30/2024 væri lagt fyrir það að varðveita allar upplýsingar og gögn sem varpað gætu ljósi á þá háttsemi. Í því sambandi var vakin athygli á ákvæðum samkeppnislaga um stjórnvaldssektir og refsingar einstaklinga. Þá var fyrirtækinu gefinn á því kostur til 25. nóvember 2024 að koma á framfæri sjónarmiðum sínum um hvernig bregðast skyldi við dóminum.
15. Meðalgöngustefndi Samkeppniseftirlitið sendi 22. nóvember 2024 fyrirsvarsmönnum meðalgönguáfrýjanda Búsældar ehf. tölvubréf þar sem fram kom að stofnuninni hefði borist ábending um að skipulagður hefði verið hluthafafundur til slita á félaginu. Fylgdi bréfinu fyrrgreint bréf sem áður hafði verið sent Kjarnafæði Norðlenska ehf. Tekið var fram að það hefði einnig verið sent meðalgönguáfrýjanda Kaupfélagi Skagfirðinga svf. Var óskað eftir upplýsingum um fyrirhugaðan hluthafafund og slit á félaginu „þrátt fyrir dóm héraðsdóms um gildi undanþágu búvörulaga og tilmæli okkar til kjötafurðastöðva um að láta af öllum aðgerðum að svo stöddu“.
16. Að öðru leyti er vísað til lýsingar málsatvika í hinum áfrýjaða dómi.
Helstu röksemdir meðalgönguáfrýjenda
17. Meðalgönguáfrýjandi Búsæld ehf. telur sér heimilt, að virtum þeim sjálfstæðu og brýnu hagsmunum sem félagið hafi að lögum af úrslitum málsins, að ganga inn í það fyrir Hæstarétti með aukameðalgöngu, sbr. 20. gr. laga nr. 91/1991. Gildandi réttarframkvæmd beri með sér að aðili sem hafi slíkra hagsmuna að gæta geti stefnt sér til meðalgöngu fyrir æðri dómi, án tillits til þess hvort hann hafi verið aðili máls á lægra dómstigi.
18. Þessi meðalgönguáfrýjandi vísar til þess að hann hafi sem stærsti hluthafi í Kjarnafæði Norðlenska hf. selt meðalgönguáfrýjanda Kaupfélagi Skagfirðinga svf. allt hlutafé sitt með kaupsamningi 19. september 2024 að undangengnu kauptilboði 4. júlí það ár. Kjarnafæði Norðlenska og téður meðalgönguáfrýjandi séu framleiðendafélög í skilningi 5. gr. búvörulaga eins og þeim hafi verið breytt með lögum nr. 30/2024. Afhending og greiðsla kaupverðs hafi farið fram samhliða undirritun kaupsamningsins. Ganga verði út frá að krafa meðalgöngustefnda Samkeppniseftirlitsins um íhlutun af hálfu stofnunarinnar taki meðal annars til framangreindra lögskipta. Standi hinn áfrýjaði dómur óhaggaður muni hann hafa beina þýðingu fyrir þessi lögskipti, þar á meðal í formi íhlutunar þessa meðalgöngustefnda um gildi samrunans. Því sé um að ræða talsverðar lögfylgjur fyrir meðalgönguáfrýjanda. Ekki þurfi að fjölyrða um þá verulegu fjárhagslegu hagsmuni sem undir séu fyrir hann.
19. Meðalgönguáfrýjandi Kaupfélag Skagfirðinga svf. vísar til þess að málið eigi upphaf sitt í erindi meðalgöngustefnda Innness ehf. til meðalgöngustefnda Samkeppniseftirlitsins 8. júlí 2024 eða degi eftir að fréttir birtust um hin fyrirhuguðu kaup félagsins á öllum hlutum í Kjarnafæði Norðlenska hf. Af þessu verði varla annað ráðið en að meðalgöngustefndi Innnes ehf. hafi haft umrædd kaup í huga við kvörtun sína til stofnunarinnar. Ákvörðun hennar 26. sama mánaðar verði vart skilin á annan veg en að kaupin hefðu verið tilkynningarskyld á grundvelli 17. gr. samkeppnislaga ef ekki væri fyrir 71. gr. A búvörulaga. Með sama hætti verði að líta svo á að íhlutun af hálfu þessa meðalgöngustefnda komi til greina verði hinn áfrýjaði dómur staðfestur. Meðalgönguáfrýjandinn telur mikilvægt í ljósi fyrri afstöðu stofnunarinnar til umræddra breytinga á búvörulögum að sér gefist kostur á að halda fram málsástæðum til stuðnings sýknukröfu hennar af fullri einurð. Með vísan til þessa telur hann ljóst að hann hafi brýna og sjálfstæða hagsmuni af úrslitum málsins og þau skipti hann því máli að lögum.
20. Meðalgönguáfrýjandi Neytendasamtökin byggja á því að efnisleg niðurstaða málsins skipti þau máli að lögum og því sé þeim nauðsynlegt að ganga inn í það til að vernda rétt félagsmanna sinna. Neytendasamtökin séu frjáls félagasamtök sem unnið hafi að hagsmunum neytenda hér á landi frá árinu 1953. Samkvæmt 3. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 hafi félög eða samtök heimild til málshöfðunar ef slíkur málarekstur samrýmist tilgangi þeirra. Meðalgönguáfrýjandinn vísar sérstaklega til þess að samkvæmt 1. gr. samkeppnislaga skuli markmiðum laganna náð með því að stuðla að heilbrigðu samkeppnisumhverfi til hagsbóta fyrir neytendur. Einnig er vísað til 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. samnefnd lög nr. 62/1994, um rétt til aðgangs að dómstólum.
21. Í ljósi þess að hvorugur meðalgöngustefndu hefur mótmælt kröfum meðalgönguáfrýjenda um að ganga inn í málið er ekki tilefni til að reifa sérstaklega sjónarmið þeirra.
Niðurstaða
22. Samkvæmt 20. gr. laga nr. 91/1991 er þriðja manni heimilt að ganga inn í mál annarra ef úrslit þess skipta hann máli að lögum. Skal hann þá stefna báðum eða öllum upphaflegu aðilunum og gera kröfu um að sér verði leyfð meðalgangan og dæmt sakarefnið eða dómur annars felldur þannig að réttur hans verði verndaður. Eiga ákvæði greinarinnar einnig við um meðferð máls fyrir Hæstarétti samkvæmt 190. gr., sbr. 166. gr. laganna.
23. Sú regla sem nú kemur fram í 20. gr. laga nr. 91/1991 var fyrst lögfest efnislega með 50. gr. laga nr. 85/1936 um meðferð einkamála í héraði. Í athugasemdum við frumvarp til síðargreindu laganna um þá grein er skilið á milli aðalmeðalgöngu og aukameðalgöngu en sú aðgreining styðst einnig við lokaorð greinarinnar. Í samræmi við þetta var í athugasemdunum sérstaklega vikið að aukameðalgöngu sem þeirri aðstöðu þegar þriðji maður krefst þess ekki að sér verði dæmdur réttur sá sem um er deilt í máli heldur aðeins að ekkert verði ákveðið í dómi sem skert geti rétt hans lagalega eða raunverulega. Var í því sambandi tekið fram að úrslit máls gætu haft „raunverulega þýðingu“ fyrir þriðja mann á ýmsan veg þótt dómur yrði ekki beinlínis bindandi fyrir hann. Einnig var af þessu tilefni áréttað að það yrði að vera verkefni dómstóla hverju sinni að meta hvort aðilar dómsmáls þyrftu að sæta því að þriðji aðili gengi með þessum hætti inn í mál þeirra.
24. Af þessu verður dregin sú ályktun að kröfum til hagsmuna þriðja manns við aukameðalgöngu verði ekki að fullu jafnað til þeirra sem gerðar eru til aðila dómsmáls um lögvarða hagsmuni af kröfugerð hans, sbr. einkum þau rök sem liggja til grundvallar ákvæðum 25. gr. laga nr. 91/1991. Fremur getur hér verið rétt að líta til þeirra hagsmuna sem taldir hafa verið nægilegir þegar aðila er stefnt til réttargæslu samkvæmt 1. mgr. 21. gr. laganna. Má hér til hliðsjónar vísa til þeirra atvika sem uppi voru í dómum Hæstaréttar 8. janúar 1992 í máli nr. 504/1991 sem birtur er í dómasafni réttarins það ár á bls. 17, 13. janúar 2004 í máli nr. 1/2004 og 19. febrúar 2014 í máli nr. 80/2014. Samrýmist það þessu viðhorfi að þriðji maður hafi ekki heimild á grundvelli aukameðalgöngu til að hafa uppi málsástæðu til stuðnings kröfu málsaðila sem sá vill ekki sjálfur halda fram, sbr. til dæmis dóma Hæstaréttar 10. desember 2009 í máli nr. 664/2009 og 24. janúar 2011 í máli nr. 638/2010.
25. Framangreint haggar því þó ekki að meðalgöngumaður verður að hafa sjálfstæða og brýna hagsmuni af úrslitum máls, sbr. til dæmis dóm Hæstaréttar 24. október 1958 í máli nr. 95/1957 sem birtur er í dómasafni réttarins það ár á bls. 651. Ber við mat á því að horfa meðal annars til þess hvort honum séu aðrar leiðir færar við gæslu hagsmuna sinna. Einnig er ljóst að ákvörðun um hvort heimila beri aukameðalgöngu ræðst mjög af atvikum og aðstæðum hverju sinni, ekki síst hvort hún sé réttlætanleg í ljósi eðlis hagsmuna þess sem eftir henni sækist að teknu tilliti til þess óhagræðis sem hún kann að valda við meðferð máls. Í því sambandi getur haft þýðingu hvort aðilar málsins leggist gegn meðalgöngu þótt það ráði ekki úrslitum.
Um heimild meðalgönguáfrýjenda Búsældar ehf. og Kaupfélags Skagfirðinga svf. til meðalgöngu
26. Ákvörðun meðalgöngustefnda Samkeppniseftirlitsins 26. júlí 2024 beindist hvorki að meðalgönguáfrýjendum né voru þeir aðilar að því stjórnsýslumáli sem leitt var til lykta með henni. Hins vegar er til þess að líta að erindi meðalgöngustefnda Innness ehf. sem varð tilefni ákvörðunarinnar var beint til stofnunarinnar 8. sama mánaðar eða degi eftir að tilkynnt hafði verið um samruna meðalgönguáfrýjanda Kaupfélags Skagfirðinga svf. og Kjarnafæðis Norðlenska hf. Fyrr er rakið að síðargreinda félagið var að verulegu leyti í eigu meðalgönguáfrýjanda Búsældar ehf.
27. Svo sem áður greinir hafði í téðu erindi meðalgöngustefnda Innness ehf. verið kallað eftir aðgerðum meðalgönguáfrýjanda Samkeppniseftirlitsins vegna þeirrar stöðu sem upp væri komin á samkeppnismarkaði með mikilvægar neytendavörur. Var vísað til þess að ákveðin framleiðendafélög samkvæmt 5. gr. búvörulaga ynnu þá stundina að því að sameinast, skipta á milli sín verkefnum og viðhafa samstilltar aðgerðir og samráð, allt í andstöðu við ákvæði samkeppnislaga. Óumdeilt er að meðalgönguáfrýjandi Kaupfélag Skagfirðinga svf. og Kjarnafæði Norðlenska hf. voru slík félög. Í umræddu bréfi meðalgöngustefnda Samkeppniseftirlitsins, þar sem erindi meðalgöngustefnda Innness ehf. var synjað, var sérstaklega vísað til samruna þessara félaga og tekið fram að beiðni um aðgerðir kynni að vera tekin fyrir á ný kæmust dómstólar að þeirri niðurstöðu að lög nr. 30/2024 hefðu ekki „lögformlegt gildi“.
28. Áður er rakið að degi eftir uppsögu héraðsdóms í málinu, þar sem ákvörðun meðalgöngustefnda Samkeppniseftirlitsins 26. júlí 2024 var felld úr gildi, sendi stofnunin Kjarnafæði Norðlenska bréf þar sem fram kom að hún hefði til athugunar hvernig bregðast ætti við dóminum. Var því meðal annars beint til fyrirtækisins að stöðva þegar í stað hvers konar aðgerðir eða háttsemi sem farið gæti gegn nánar tilteknum ákvæðum samkeppnislaga og stofnast hefði til á grundvelli laga nr. 30/2024. Einnig var vakin athygli á ákvæðum samkeppnislaga um stjórnvaldssektir og refsingar og fyrirtækinu veittur fimm daga frestur til að koma á framfæri sjónarmiðum sínum um hvernig bregðast skyldi við.
29. Af gögnum málsins verður ráðið að umrætt bréf meðalgöngustefnda Samkeppniseftirlitsins hafi fáeinum dögum síðar einnig verið sent meðalgönguáfrýjendum Kaupfélagi Skagfirðinga svf. og Búsæld ehf., auk þess sem óskað var upplýsinga frá síðarnefnda félaginu um fyrirhugaðan hluthafafund og slit „þrátt fyrir dóm héraðsdóms um gildi undanþágu búvörulaga og tilmæli okkar til kjötafurðastöðva um að láta af öllum aðgerðum að svo stöddu“.
30. Við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti kom fram af hálfu meðalgöngustefnda Samkeppniseftirlitsins að einu framleiðendafélögin sem ákveðið hefðu að sameinast í framhaldi af gildistöku laga nr. 30/2024 væru meðalgönguáfrýjandi Kaupfélag Skagfirðinga svf. og Kjarnafæði Norðlenska. Liti stofnunin svo á að meðalgöngustefndi Innnes ehf. hefði beint erindi sínu til stofnunarinnar beinlínis í tilefni af þeim samruna sem tilkynnt hefði verið um degi áður en það barst. Af hennar hálfu var því einnig lýst yfir að mjög líklegt væri að rannsókn yrði hafin á samrunanum ef hinn áfrýjaði dómur yrði staðfestur.
31. Meðalgöngustefndi Samkeppniseftirlitið hefur heimild að lögum til að ógilda samruna fyrirtækja telji stofnunin að hann hindri virka samkeppni með því að markaðsráðandi staða eins eða fleiri þeirra verði til eða slík staða styrkist eða verði til þess að samkeppni á markaði raskist að öðru leyti með umtalsverðum hætti, sbr. 17. gr. c samkeppnislaga. Ekki leikur vafi á því að gildi samruna meðalgönguáfrýjanda Kaupfélags Skagfirðinga svf. og Kjarnafæðis Norðlenska hefur verulega fjárhagslega þýðingu fyrir téðan meðalgönguáfrýjanda svo og meðalgönguáfrýjanda Búsæld ehf. sem seljanda hlutafjár í Kjarnafæði Norðlenska.
32. Í ljósi alls þessa verður að telja nægilega fram komið að efnisleg úrslit málsins hafi verulega þýðingu fyrir afstöðu meðalgöngustefnda Samkeppniseftirlitsins til þess hvort rannsókn verði hafin á grundvelli samkeppnislaga vegna samrunans. Verður að skilja málatilbúnað stofnunarinnar á þá leið að verði hinum áfrýjaða dómi hrundið og fallist á kröfu hennar um sýknu telji hún sér ekki heimilt að grípa til slíkra aðgerða. Verði hinn áfrýjaði dómur hins vegar staðfestur sé mjög líklegt að hafin verði rannsókn á samrunanum. Sem fyrr segir kann það meðal annars að leiða til ógildingar hans.
33. Til þess er einnig að líta að þótt meðalgönguáfrýjendum Búsæld ehf. og Kaupfélagi Skagfirðinga svf. muni gefast kostur á að gæta hagsmuna sinna við þær aðstæður að meðalgöngustefndi Samkeppniseftirlitið ákveði að hefja rannsókn á samrunanum á grundvelli samkeppnislaga er það fyrst og fremst í máli þessu sem tekin verða af tvímæli um lagagrundvöll slíkra athafna stofnunarinnar. Í ljósi almennt viðurkenndra viðmiða um fordæmisgildi dóma Hæstaréttar myndu sjónarmið þessara meðalgönguáfrýjenda um slík atriði í hugsanlegu síðara dómsmáli því hafa takmarkaða þýðingu. Þótt meðalgöngustefndi Samkeppniseftirlitið hafi skotið héraðsdómi til Hæstaréttar og krefjist þess efnislega að hann verði felldur úr gildi bera atvik málsins með sér að hagsmunir stofnunarinnar og þessara meðalgönguáfrýjenda fari ekki að öllu leyti saman þannig að staða þeirra síðarnefndu sé fyllilega tryggð að þessu leyti.
34. Í ljósi atvika, meðal annars framkominna viðbragða meðalgöngustefnda Samkeppniseftirlitsins við héraðsdómi, verður ekki talið að kröfur þessara meðalgönguáfrýjenda um að ganga inn í málið hafi komið fram of seint eða þær muni raska meðferð þess úr hófi. Er þá einnig horft til þess að hvorugur upphaflegra málsaðila hefur sérstaklega mótmælt þeim kröfum. Athugast í því tilliti að sjónarmið um að málsástæður meðalgönguáfrýjenda gangi í sumum atriðum lengra en meðalgöngustefnda Samkeppniseftirlitsins heyra til efnislegrar úrlausnar málsins.
35. Samkvæmt öllu framangreindu liggur nægilega fyrir að meðalgönguáfrýjendur Búsæld ehf. og Kaupfélag Skagfirðinga svf. eiga sjálfstæðra og brýnna hagsmuna að gæta af úrslitum málsins. Þá eru ekki fram komin atriði sem mæla sérstaklega gegn því að þeim verði heimiluð meðalganga samkvæmt 20. gr., sbr. 166. og 190. gr. laga nr. 91/1991. Verður því fallist á kröfur þeirra um að þeim sé heimilt að ganga inn í málið.
Um heimild meðalgönguáfrýjanda Neytendasamtakanna til meðalgöngu
36. Svo sem einnig á við um framangreinda meðalgönguáfrýjendur var meðalgönguáfrýjandi Neytendasamtökin ekki aðili að því stjórnsýslumáli sem lyktaði með ákvörðun meðalgöngustefnda Samkeppniseftirlitsins 26. júlí 2024 og deilt er um í efnisþætti málsins. Hins vegar er ekkert komið fram um að það geti ráðist af úrslitum máls þessa hvort hafið yrði stjórnsýslumál af hálfu þessa meðalgöngustefnda sem samtökin yrðu aðilar að.
37. Þótt það samræmist tilgangi meðalgönguáfrýjanda að styðja við efniskröfu meðalgöngustefnda Innness ehf. verður honum við þessar aðstæður, að óbreyttum lögum, því aðeins heimiluð meðalganga að einhver eða einhverjir félagsmanna hans eigi sjálfstæðra og brýnna hagsmuna að gæta af niðurstöðu málsins þannig að hún skipti þá máli að lögum, sbr. grunnrök 3. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Verður ekki litið svo á að þessi skilyrði fyrir meðalgöngu þriðja manns séu ósamrýmanleg 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar eða 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.
38. Þótt efnisleg úrslit málsins kunni að varða hagsmuni neytenda með almennum hætti er ekki á því byggt af hálfu meðalgönguáfrýjanda að með meðalgöngu sinni hyggist hann gæta sjálfstæðra hagsmuna félagsmanna sinna, eins eða fleiri. Samkvæmt þessu fullnægir krafa meðalgönguáfrýjanda Neytendasamtakanna ekki því skilyrði 20. gr., sbr. 166. og 190. gr. laga nr. 91/1991, að úrslit dómsmáls skipti þann sem sækir um meðalgöngu máli að lögum. Verður því hafnað kröfu þessa meðalgönguáfrýjanda um að honum sé heimilt að ganga inn í málið.
39. Eins og málið liggur fyrir eru ekki efni til að dæma meðalgöngustefnda Samkeppniseftirlitinu málskostnað úr hendi meðalgönguáfrýjanda Neytendasamtakanna en ekki er gerð krafa um málskostnað úr þeirra hendi af hálfu annarra aðila. Verður þessi meðalgönguáfrýjandi látinn sjálfur bera sinn kostnað af málinu. Ákvörðun um málskostnað annarra bíður efnislegrar úrlausnar málsins.
Dómsorð:
Synjað er kröfu meðalgönguáfrýjanda Neytendasamtakanna um meðalgöngu.
Meðalgönguáfrýjendum Búsæld ehf. og Kaupfélagi Skagfirðinga svf. er heimilt að ganga inn í málið.
Málskostnaður dæmist ekki.