Hæstiréttur íslands

Mál nr. 53/2023

A (Jón Sigurðsson lögmaður)
gegn
íslenska ríkinu (Soffía Jónsdóttir lögmaður)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Kröfugerð
  • Málsforræði

Reifun

Kærð var dómsathöfn Landsréttar um að vísa frá héraðsdómi kröfu A að fjárhæð 1.747.350 krónur vegna ætlaðs tjóns hans af búferlaflutningum í tilefni af niðurlagningu stöðu. Í dómi Hæstaréttar var vísað til þess að kröfugerð í einkamálum væri í meginatriðum háð vilja aðila máls og með henni væri sakarefni þess ráðstafað. Hvað sem málatilbúnaði og málsástæðum A leið að öðru leyti var krafa hans um fjártjón sundurliðuð með nákvæmum hætti í stefnu til héraðsdóms með útreikningi á mánaðarlaunum til tuttugu og fjögurra mánaða auk kröfu um miskabætur. Þótt A hafi vísað til þess í stefnu að hann kynni að verða fyrir tjóni vegna búferlaflutninga var þar ekki að finna fjárkröfu sem svaraði til slíks tjóns. Fjárkrafa A sem fyrst var reifuð tölulega í bókun sem lögð var fram í þinghaldi 13. desember 2021, að fjárhæð 1.747.360 krónum, var reist á ætluðum kostnaði sóknaraðila vegna búferlaflutninga en samhliða lækkaði A kröfu um bætur vegna fjárhagslegs atvinnutjóns. Um flutningskostnaðinn var í bókuninni vísað til gagna sem lögð höfðu verið fram og vörðuðu kostnað sem til hafði verið stofnað eftir málshöfðun. Þannig var krafan reist á öðrum atvikum en upphafleg krafa vegna fjárhagslegs atvinnutjóns sem byggðist eingöngu á missi launatekna. Að öllu framangreindu virtu var staðfest ákvæði hins kærða dóms um frávísun kröfunnar frá héraðsdómi.

Dómur Hæstaréttar

1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen, Ingveldur Einarsdóttir og Karl Axelsson.

2. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. nóvember 2023 sem barst réttinum 17. sama mánaðar en kærumálsgögn bárust réttinum 22. þess mánaðar. Kærð er dómsathöfn Landsréttar 3. nóvember 2023 í máli nr. 459/2022 um að vísa frá héraðsdómi kröfu sóknaraðila að fjárhæð 1.747.350 krónur vegna ætlaðs tjóns hans af búferlaflutningum. Kæruheimild er í a-lið 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

3. Sóknaraðili krefst þess að ákvæði dóms Landsréttar um frávísun málsins að hluta verði fellt úr gildi og lagt fyrir réttinn að taka þann þátt málsins til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar fyrir Hæstarétti.

4. Varnaraðili krefst þess að staðfest verði niðurstaða Landsréttar í frávísunarþætti málsins og kærumálskostnaður dæmdur fyrir Hæstarétti.

Ágreiningsefni

5. Fyrir Hæstarétti lýtur ágreiningur aðila að því hvort krafa sóknaraðila að fjárhæð 1.747.350 krónur vegna ætlaðs tjóns hans af búferlaflutningum, sem fram kom í breyttri kröfugerð sóknaraðila og bókað var um í þinghaldi undir rekstri málsins í héraði 13. desember 2021, rúmist innan upphaflegrar kröfugerðar í stefnu til héraðsdóms.

6. Hið kærða ákvæði dóms Landsréttar byggðist á því að umþrætta kröfu hafi ekki verið að finna í stefnu málsins. Gegn mótmælum varnaraðila kæmist hún því ekki að í málinu og var vísað frá héraðsdómi.

Málsatvik

7. Í stefnu til héraðsdóms krafðist sóknaraðili þess að varnaraðila yrði gert að greiða sér 23.149.824 krónur í bætur fyrir fjártjón og miska auk nánar tilgreindra vaxta vegna uppsagnar hans úr starfi hjá B.

8. Málsgrundvelli fjártjónskröfunnar var meðal annars lýst svo í stefnu að bætur fyrir uppsögn samhliða ólögmætri niðurlagningu starfs ætti ekki að ákveða með sama hætti og bætur fyrir missi launa í uppsagnarfresti heldur bæri að ákveða þær að álitum. Uppsögn sóknaraðila hefði leitt til mikils fjárhagslegs tjóns samhliða tekjutapi. Honum myndi reynast erfitt að fá annað starf við hæfi og hann sæi fram á að þurfa að flytjast búferlum frá Akureyri þar sem hann hefði starfað hjá stofnuninni til að geta fengið nýtt starf við hæfi. Enn fremur vísaði sóknaraðili til dómaframkvæmdar um að fjártjónsbætur að álitum væru ákveðnar mun hærri í slíkum tilvikum. Þá voru í stefnu reifuð sjónarmið að baki miskabótakröfu.

9. Kröfufjárhæð var í stefnu sundurliðuð sem fjártjóns- og miskabótakrafa. Um fjártjónskröfuna sagði að hún tæki mið af launum sóknaraðila síðastliðna mánuði áður en honum var sagt upp störfum. Enn fremur að gerð væri krafa um greiðslu fébóta vegna ólögmætrar niðurlagningar á starfi og samhliða uppsögn í 24 mánuði umfram það tímabil sem launagreiðslur varnaraðila til sóknaraðila náðu til. Þá sagði að heildarfjártjónskrafa næmi því „24 x 839.576 kr. = 20.149.824“. Krafa um miskabætur næmi 3.000.000 króna.

10. Sem fyrr segir breytti sóknaraðili kröfugerð sinni, með bókun sem hann lagði fram í þinghaldi 13. desember 2021, á þann veg að hann krefðist þess að varnaraðila yrði gert að greiða sér 6.786.512 krónur auk nánar tilgreindra vaxta. Fram kom að sóknaraðili hefði notið greiðslna úr atvinnuleysistryggingasjóði í júní, júlí og ágúst 2021 auk þess sem hann hefði byrjað í nýju starfi í Reykjavík 1. september sama ár. ,,Fjártjónstímabil“ bótakröfu hans styttist þannig úr 24 mánuðum í fjóra mánuði auk þeirrar lækkunar sem kom til vegna greiðslna úr atvinnuleysistryggingasjóði. Að teknu tilliti til þessa næmu eftirstöðvar ,,fjárhagslegs atvinnutjóns“ sóknaraðila 2.039.162 krónum.

11. Í bókuninni kom einnig fram sundurliðuð krafa vegna kostnaðar við flutninga sóknaraðila frá Akureyri til Reykjavíkur árið 2021, að samtölu 1.747.350 krónur. Í rökstuðningi fyrir henni vísaði sóknaraðili til þess að fjártjónsbætur að álitum væru ákveðnar hærri í tilvikum þar sem fallist hefði verið á bætur vegna kostnaðar sem leitt hefði af flutningum. Krafa sóknaraðila um miskabætur var óbreytt.

12. Í þinghaldinu 13. desember 2021 var bókað um mótmæli varnaraðila við kröfu sóknaraðila um kostnað vegna flutninga sem nýrri og of seint fram kominni. Væri þeirrar kröfu ekki getið í stefnu þar sem sundurliðaður væri útreikningur krafna sóknaraðila.

13. Með héraðsdómi var fallist á allar kröfur sóknaraðila. Um andmæli varnaraðila við breyttri kröfugerð segir í héraðsdómi að ekki yrði fallist á andmælin þar sem ítarlega væri fjallað um forsendur nefndrar kröfugerðar í stefnu.

14. Með dómi Landsréttar var kröfu vegna tjóns af búferlaflutningum vísað frá héraðsdómi en varnaraðili að öðru leyti sýknaður af kröfum sóknaraðila.

Niðurstaða

15. Kröfugerð í einkamálum er í meginatriðum háð vilja aðila máls og með henni er sakarefni þess ráðstafað. Aðilar hafa forræði á því hvort mál verður höfðað, úr hvaða kröfum er leyst og á hvaða röksemdum, sönnunargögnum og staðreyndum úrslit máls velta. Það leiðir svo af 1. mgr. 111. gr. laga nr. 91/1991 að dómari má almennt ekki fara út fyrir kröfur aðila í dómi nema með samþykki þeirra. Á hinn bóginn geta aðilar einhliða fallið frá kröfum eða dregið úr þeim. Þá leiðir það af 2. mgr. 111. gr. laga nr. 91/1991 að dómari megi ekki byggja niðurstöðu sína á öðrum málsástæðum en þeim sem aðilar halda berum orðum fram.

16. Hvað sem málatilbúnaði og málsástæðum sóknaraðila leið að öðru leyti var krafa hans um fjártjón í málinu sundurliðuð með nákvæmum hætti í stefnu með útreikningi á mánaðarlaunum til tuttugu og fjögurra mánaða. Engan fyrirvara er þar að finna þess efnis að innan þeirrar kröfufjárhæðar hafi átt að rúmast annað fjártjón sem sóknaraðili taldi sig hafa orðið fyrir. Því til viðbótar krafðist hann miskabóta ákveðinnar fjárhæðar. Með umræddri bókun 13. desember 2021 var krafa um bætur vegna fjártjóns lækkuð vegna þess að sóknaraðili hafði tekið við nýju starfi í september 2021 og notið greiðslna úr atvinnuleysistryggingasjóði frá júní til júlí 2021.

17. Fjárkrafa sóknaraðila sem fyrst var reifuð tölulega í tilvitnaðri bókun og lögð var fram í þinghaldi 13. desember 2021, að fjárhæð 1.747.360 krónum, er reist á ætluðum kostnaði sóknaraðila vegna búferlaflutninga. Um flutningskostnaðinn var í bókuninni vísað til gagna sem lögð höfðu verið fram við síðustu fyrirtöku í málinu 18. október sama ár og vörðuðu kostnað sem til hafði verið stofnað eftir málshöfðun. Þannig er þessi krafa reist á öðrum atvikum en upphafleg krafa vegna fjárhagslegs atvinnutjóns sem byggðist eingöngu á missi launatekna.

18. Þótt sóknaraðili hafi vísað til þess í stefnu að hann kynni að verða fyrir tjóni vegna búferlaflutninga er þar ekki að finna fjárkröfu sem svarar til slíks tjóns. Er sú krafa, sem fyrr segir, skýrlega afmörkuð við beint ætlað launatap sóknaraðila og brestur samkvæmt því samhengi málsástæðna og hinnar tölulegu kröfugerðar sem fram kom í stefnu. Sóknaraðila var í lófa lagið að reisa með skýrari hætti fjárkröfu á tjóni vegna búferlaflutninga í öndverðu en kaus þess í stað að vísa til þess að slíkt tjón kynni að verða.

19. Samkvæmt 2. málslið 1. mgr. 111. gr. laga nr. 91/1991 skal vísa frá dómi kröfu sem ekki kemur fram í stefnu nema stefndi hafi samþykkt að hún kæmist að án þess. Í sama þinghaldi og bókunin var lögð fram, 13. desember 2021, óskaði varnaraðili eftir því að bókað yrði að kröfugerð sóknaraðila væri mótmælt sem nýrri og of seint fram kominni.

20. Að öllu framangreindu virtu er staðfest ákvæði hins kærða dóms um frávísun kröfunnar frá héraðsdómi.

21. Rétt er að aðilar beri hvor sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Staðfest er niðurstaða hinnar kærðu dómsathafnar um að vísa frá héraðsdómi kröfu sóknaraðila, A, að fjárhæð 1.747.350 krónur vegna ætlaðs tjóns hans af búferlaflutningum.

Kærumálskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.