Hæstiréttur íslands

Mál nr. 14/2025

Ákæruvaldið (Margrét Unnur Rögnvaldsdóttir saksóknari)
gegn
Ásbirni Þórarni Sigurðssyni (Magnús Óskarsson lögmaður) og Bessa Karlssyni (Unnsteinn Örn Elvarsson lögmaður),
(Guðmundur Ágústsson réttargæslumaður )

Lykilorð

  • Kynferðisbrot
  • Nauðgun
  • Samverknaður
  • Samning dóms
  • Sönnun
  • Sönnunarfærsla
  • Dráttur á máli
  • Ómerkingarkröfu hafnað
  • Stjórnarskrá
  • Mannréttindasáttmáli Evrópu

Reifun

Á og B voru ákærðir fyrir nauðgun með því að hafa í félagi og með ofbeldi og ólögmætri nauðung haft önnur kynferðismök en samræði við A án hennar samþykkis með því að Á hefði haldið höndum hennar föstum, rifið endurtekið í hár hennar og tekið hana hálstaki og slegið nokkrum sinnum í andlitið en Á og B skipst á að stinga fingrum sínum í munn hennar, sett getnaðarlimi sína í munn hennar og þvingað hana til að hafa munnmök við þá báða. Héraðsdómur hafði sýknað Á og B af sakargiftum en með hinum áfrýjaða dómi voru þeir sakfelldir fyrir þá háttsemi sem þeim var gefin að sök í ákæru og refsing þeirra ákveðin fangelsi í þrjú ár. Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að skýrsla A fyrir Landsrétti um fjarfundarbúnað í hljóði og mynd þar sem hún var stödd erlendis hefði farið fram í samræmi við heimild 4. mgr. 116. gr. laga nr. 88/2008. Var ekki fallist á að með þessu hefði verið brotið gegn rétti Á og B til réttlátrar málsmeðferðar samkvæmt 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Var ómerkingu á þessum grundvelli því hafnað. Jafnframt var höfð uppi krafa um ómerkingu dóms Landsréttar á þeim grunni að ekki hefði verið tekin afstaða til allra varna þeirra. Hæstiréttur tók fram að sá annmarki væri á dómi Landsréttar að ekki væri vikið að vörnum Á og B sem lutu að niðurstöðum greiningar á DNA-sniði í stroksýnum sem tekin voru af getnaðarlimum þeirra þar sem ekkert DNA-snið sem svaraði til brotaþola fannst. Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að ekki væri um að ræða slíkt atriði við sönnunarmatið að það leiddi þegar til þeirrar niðurstöðu að sök væri ósönnuð. Var ekki talið um slíkan annmarka á rökstuðningi dómsins að ræða að varðað gæti ómerkingu hans. Þá var ekki talið að aðrir annmarkar væru á hinum áfrýjaða dómi sem leitt gætu til ómerkingar hans. Hæstiréttur tók fram að niðurstaða Landsréttar um sakfellingu Á og B væri reist á heildstæðu mati á öllum sönnunargögnum og þá einkum sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi sem ekki yrði endurmetið af Hæstarétti. Var hinn áfrýjaði dómur staðfestur um sakfellingu Á og B og um refsingu þeirra.

Dómur Hæstaréttar

1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Ólafur Börkur Þorvaldsson, Sigurður Tómas Magnússon og Skúli Magnússon.

2. Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 11. mars 2025 í samræmi við yfirlýsingu ákærðu um áfrýjun. Ákæruvaldið krefst þess að staðfest verði niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sakfellingu beggja ákærðu og refsing þeirra þyngd.

3. Ákærðu krefjast þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur en til vara að þeir verði sýknaðir af kröfum ákæruvaldsins. Til þrautavara er krafist vægustu refsingar.

4. Brotaþoli, A, krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms að því er varðar einkaréttarkröfu hennar.

Ágreiningsefni

5. Með ákæru héraðssaksóknara 30. mars 2023 var ákærðu gefin að sök nauðgun með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 8. mars 2020 á þáverandi heimili ákærða Ásbjörns að […] í Hafnarfirði, í félagi og með ofbeldi og ólögmætri nauðung, haft önnur kynferðismök en samræði við brotaþola án hennar samþykkis. Nánar var háttseminni lýst þannig að ákærði Ásbjörn hefði haldið höndum brotaþola föstum, rifið endurtekið í hár hennar og tekið hana hálstaki og slegið nokkrum sinnum í andlitið en ákærðu skipst á að stinga fingrum sínum í munn hennar, sett getnaðarlimi sína í munn hennar og þvingað hana til að hafa munnmök við þá báða. Meðan á þessu stóð hefðu ákærðu þuklað á brjóstum hennar innanklæða og kynfærum hennar utanklæða og eftir að ákærðu létu af þessari háttsemi sinni hefðu þeir þvingað hana til að taka inn kókaín. Afleiðingar af þessu hefðu verið að brotaþoli hlaut þreifieymsli í hársverði og yfir vöðvum á hálsi beggja vegna og marbletti á vinstri upphandlegg. Í ákærunni var þessi háttsemi talin varða við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

6. Með héraðsdómi 3. nóvember 2023 voru ákærðu sýknaðir af því broti sem þeim var gefið að sök og einkaréttarkröfu brotaþola vísað frá dómi. Ákærðu voru hins vegar sakfelldir fyrir brotið með hinum áfrýjaða dómi 5. desember 2024 og hvorum þeirra gert að sæta fangelsi í þrjú ár. Jafnframt var héraðsdómur ómerktur að því er varðaði einkaréttarkröfuna og þeim hluta málsins vísað aftur heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju.

7. Áfrýjunarleyfi í málinu var veitt 6. mars 2025, með ákvörðun Hæstaréttar nr. 2025-19, á þeim grunni að ákærðu hefðu verið sýknaðir í héraði en sakfelldir fyrir Landsrétti. Í ákvörðuninni kom fram að samkvæmt 4. málslið 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála skyldi orðið við ósk ákærðs manns sem sýknaður hefði verið í héraði en sakfelldur fyrir Landsrétti um leyfi til áfrýjunar nema Hæstiréttur teldi ljóst að áfrýjun myndi ekki verða til að breyta dómi. Þar sem slíku yrði ekki slegið föstu var beiðni um áfrýjunarleyfi samþykkt.

Málsatvik og málsmeðferð

8. Rannsókn málsins hófst eftir að lögreglu barst tilkynning aðfaranótt sunnudagsins 8. mars 2020 um ætlað kynferðisbrot gegn brotaþola fyrr um nóttina. Lögreglumenn fóru að heimili brotaþola og hittu hana fyrir ásamt foreldrum sínum. Þar greindi brotaþoli lögreglumönnum frá því að ákærðu hefðu brotið gegn henni á heimili ákærða Ásbjörns. Hefði brotaþoli verið þar í samkvæmi ásamt báðum ákærðu, D, sambýliskonu ákærða Ásbjörns, og E. Eftir að hafa rætt við lögreglu á heimili sínu fór brotaþoli snemma um morguninn til rannsóknar á neyðarmóttöku vegna kynferðisbrota á bráðamóttöku Landspítala í Fossvogi. Í læknisvottorði 18. desember 2020 um skoðun brotaþola á neyðarmóttöku í umrætt sinn kom fram að væg eymsli hefðu verið við þreifingu á hársverði, ekki sjáanlegir áverkar á hálsi en eymsli við þreifingu yfir vöðvum á hálsi beggja vegna. Hálshreyfingar hefðu verið eðlilegar og ekki sjáanlegur áverki á bringu eða baki en marblettir á vinstri upphandlegg.

9. Í kjölfar þess að hafa rætt við brotaþola á heimili hennar fór lögregla á heimili ákærða Ásbjörns þar sem hann og ákærði Bessi voru handteknir. Jafnframt hittust þar fyrir fyrrgreindar D og E. Samskipti á vettvangi við konurnar voru tekin upp á búkmyndavél lögreglumanns en hluti af því sem þar kom fram er rakið í hinum áfrýjaða dómi í liðum 21 til 24.

10. Í kjölfar handtöku ákærðu fór fram á þeim réttarlæknisfræðileg rannsókn síðar um morguninn sem fólst meðal annars í að taka stroksýni af getnaðarlimum þeirra. Við greiningu á sýni frá ákærða Bessa fannst ekkert DNA-snið sem hægt var að samkenna við einstakling en í sýni ákærða Ásbjörns fannst ekki DNA-snið sem svaraði til brotaþola. Hins vegar fundust tvö löng ljósleit hár í nærbuxum ákærða Bessa. Samkvæmt skýrslu tæknideildar lögreglu var annað í strengnum vinstra megin á framhlið en hitt lá lóðrétt fyrir miðju á innanverðri framhlið. Við skoðun í smásjá hefði komið í ljós að rót var á báðum hárunum og hún á „anagen“-stigi hárvaxtar sem benti til að hárunum hefði verið kippt úr hársverði. Við DNA-greiningu á hárunum hjá Landsmiðstöð fyrir réttarrannsóknir (NFC) í Svíþjóð kom í ljós að DNA-snið þeirra var eins og snið brotaþola.

11. Ákærðu hafa báðir staðfastlega neitað sök frá upphafi rannsóknar lögreglu og við meðferð málsins fyrir dómi. Brotaþoli hefur hins vegar hjá lögreglu og fyrir dómi borið þá sökum. Frásögn ákærðu og framburði brotaþola og annarra vitna er lýst í héraðsdómi og hinum áfrýjaða dómi. Fyrir Landsrétti gáfu ákærðu, brotaþoli og þrjú vitni viðbótarskýrslu, auk þess sem horft var á upptökur af skýrslum af ákærðu, brotaþola og nokkrum vitnum í héraði. Í hinum áfrýjaða dómi eru þessar skýrslur skilmerkilega raktar. Í héraðsdómi eru einnig reifuð gögn málsins um andlega heilsu brotaþola.

Röksemdir ákærðu og ákæruvalds

Helstu röksemdir ákærðu

12. Ákærðu krefjast ómerkingar hins áfrýjaða dóms á þeim grundvelli að brotaþoli hafi ekki komið fyrir Landsrétt til að gefa viðbótarskýrslu heldur hafi hún gert það um fjarfundarbúnað þar sem hún var stödd, væntanlega á hótelherbergi á Spáni. Ákærðu vísa til þess að skýrslutaka með því móti sé undantekning frá meginreglu sakamálaréttarfars um milliliðalausa málsmeðferð og sönnunarfærslu fyrir dómi. Eins og hér standi á hafi verið fyrir fram ljóst að skýrsla brotaþola gæti ráðið úrslitum í málinu eða í öllu falli vegið þungt. Því hafi þessi háttur á skýrslu hennar í jafn alvarlegu máli verið alls ófullnægjandi og hún að réttu lagi átt að gefa skýrslu í dómsal Landsréttar. Ákærðu benda á að þeir hafi lýst því yfir fyrir aðalmeðferð málsins í Landsrétti að þeir teldu rétt að hún mætti fyrir réttinn til skýrslugjafar auk þess sem þeir gerðu athugasemd við að brotaþoli hefði ekki gefið skýrsluna að viðstöddum ræðismanni Íslands á svæðinu.

13. Ákærði Bessi reisir kröfu sína um ómerkingu einnig á því að Landsréttur hafi ekki fjallað um fjölmargar málsvarnir ákærðu sem meðal annars hafi komið fram í greinargerðum þeirra til Landsréttar. Þannig sé ekkert fjallað um að DNA-rannsókn málsins hafi ekki leitt í ljós þá ætluðu atlögu og atburðarás sem fram komi í ákæru. Jafnframt sé ekkert tillit tekið til þess að atvik hafi átt sér stað á skömmum tíma í lítilli íbúð án þess að viðstaddir yrðu þess varir. Þá hafi Landsréttur ekki fjallað um að læknisfræðileg gögn beri ekki með sér að brotaþoli hafi hlotið áverka sem svari til lýsingar í ákæru eða framburðar hennar. Loks hafi ekkert verið vikið að því í hinum áfrýjaða dómi að sérfræðingur tæknideildar lögreglu hafi lýst því fyrir héraðsdómi að ætla mætti að lífsýni frá brotaþola hefðu fundist á ákærðu og borið að hugsanlega hefðu hár frá henni borist af höndum ákærða Bessa á nærföt hans þegar hann fór á salernið.

14. Ákærðu telja að gegn neitun þeirra sé ósannað að þeir hafi framið það brot sem þeim er gefið að sök. Halda þeir því fram að hvorki munnlegur frumburður í málinu né þau læknisfræðilegu gögn og lífsýni sem málatilbúnaður ákæruvalsins styðst við bendi til sektar þeirra. Þannig hafi ekki í læknisvottorði verið getið um áverka á brotaþola sem renni stoðum undir sakargiftir. Þá hafi þau fjölmörgu lífsýni sem tekin voru við rannsókn málsins ekki stutt málatilbúnað ákæruvaldsins heldur bendi þau þvert á móti til öndverðrar niðurstöðu.

15. Ákærðu leggja áherslu á að þeir hafi komið hreint fram allt frá upphafi rannsóknar málsins og svarað greiðlega öllum spurningum. Samræmi sé í frásögn þeirra af atburðum kvöldsins. Í því sambandi leggja þeir áherslu á að þeir hafi hvorki haft ástæðu né tækifæri til að samræma framburð sinn. Þeir hafi verið handteknir um nóttina skömmu eftir samskipti sín við brotaþola og þegar í kjölfarið yfirheyrðir hvor í sínu lagi.

Helstu röksemdir ákæruvalds

16. Ákæruvaldið andmælir kröfu ákærðu um ómerkingu hins áfrýjaða dóms á þeim grundvelli að skýrslutaka af brotaþola fyrir Landsrétti hafi farið fram um fjarfundarbúnað. Fyrir hendi sé skýr lagaheimild til að standa þannig að skýrslugjöf fyrir dómi, sbr. 4. mgr. 116. gr. laga nr. 88/2008, svo sem ákvæðinu hafi verið breytt með lögum nr. 53/2024. Í því sambandi bendir ákæruvaldið á að skýrslutakan hafi farið fram beint og milliliðalaust í hljóði og mynd og brotaþoli verið sýnileg öllum í réttarsalnum. Hún hafi gert grein fyrir persónuupplýsingum sínum og enginn vafi leiki á því að hún hafi gefið skýrsluna. Hún hafi verið í einrúmi og ekki orðið fyrir neinni truflun eða áhrifum af nokkru tagi. Þá skipti engu þótt ræðismaður hafi ekki verið viðstaddur meðan hún gaf skýrsluna. Enn fremur hafi verjendur ákærðu átt þess kost að leggja spurningar fyrir brotaþola og það hafi verjandi ákærða Bessa gert. Skýrslutakan hafi því verið í fullu samræmi við 4. mgr. 116. gr. laga nr. 88/2008. Loks bendir ákæruvaldið á að hvorugur ákærðu hafi við meðferð málsins hreyft andmælum við tilhögun skýrslutökunnar ef frá er talið að þeir lýstu því yfir í tölvubréfi til réttarins fyrir aðalmeðferð að þeir teldu rétt að brotaþoli mætti fyrir dóm til að gefa skýrslu.

17. Ákæruvaldið andmælir því að Landsréttur hafi komist að niðurstöðu án þess að taka viðhlítandi tillit til þeirra varna sem ákærðu höfðu uppi í málinu. Telur ákæruvaldið að rétturinn hafi komist að niðurstöðu sinni um sakfellingu ákærðu að undangengnu vönduðu mati á sönnunargögnum málsins. Sönnunarmat hafi verið lögum samkvæmt og enginn annmarki á því sem gæti hafa haft áhrif á úrlausn málsins.

18. Ákæruvaldið hafnar því að ekki hafi verið færð viðhlítandi sönnun fyrir sakargiftum á hendur ákærðu. Tekur ákæruvaldið fram að Landsréttur hafi reist sönnunarmat sitt um sekt ákærðu á sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi sem ekki verði endurskoðað fyrir Hæstarétti, sbr. 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá andmælir ákæruvaldið því að læknisfræðileg gögn og lífsýni renni ekki stoðum undir sakargiftir. Þannig sé í læknisvottorði greint frá áverka á upphandlegg brotaþola og eymslum við þreifingu. Einnig hafi hár frá brotaþola fundist í nærbuxum ákærða Bessa.

Niðurstaða

Um formhlið málsins

1) Skýrsla brotaþola fyrir Landsrétti

19. Svo sem fram er komið gaf brotaþoli skýrslu fyrir Landsrétti um fjarfundarbúnað í hljóði og mynd þar sem hún var stödd erlendis. Telja ákærðu að þessi háttur á skýrslutökunni hafi verið ófullnægjandi og þá sérstaklega þegar haft sé í huga vægi skýrslunnar og alvarleiki málsins. Af þeim sökum beri að ómerkja hinn áfrýjaða dóm.

20. Samkvæmt 4. mgr. 116. gr. laga nr. 88/2008, svo sem ákvæðinu var breytt með lögum nr. 53/2024, getur dómari ákveðið ef vitni er statt fjarri þingstað að skýrsla verði tekin af því á dómþingi í gegnum fjarfundarbúnað með hljóði og mynd, enda leiki ekki að mati dómara vafi á auðkenni vitnis og tryggt þyki að það geti gefið skýrslu án utanaðkomandi þrýstings eða truflunar. Þessi heimild gildir einnig um skýrslugjöf vitna fyrir Landsrétti, sbr. 210. gr. laganna.

21. Heimild 4. mgr. 116. gr. laganna tók upphaflega til skýrslutöku í gegnum síma eða annað fjarskiptatæki og var takmörkuð á þann veg að henni yrði ekki beitt ef ætla mætti að úrslit máls gætu ráðist af framburði vitnisins, svo sem fram kom í lokamálslið ákvæðisins. Tímabundin heimild til að víkja frá þessu, að því er varðaði skýrslu um fjarfundarbúnað í hljóði og mynd, var þó veitt meðan heimsfaraldur kórónuveiru gekk yfir, sbr. lög nr. 32/2020, 121/2020, 136/2021 og 98/2023. Heimildin varð svo varanleg með fyrrgreindum breytingalögum nr. 53/2024. Í skýringum við þetta ákvæði laganna í greinargerð sem fylgdi frumvarpi til þeirra var áréttað að dómari gæti ákveðið að skýrslugjöf vitnis færi fram um fjarfundarbúnað með hljóði og mynd og ætti það við hvort heldur sem ætla mætti að framburður vitnisins gæti ráðið úrslitum máls eður ei.

22. Í málinu liggur fyrir að verjendum ákærða var kynnt fyrir aðalmeðferð málsins að fyrirhugað væri að brotaþoli gæfi skýrslu um fjarfundarbúnað í hljóði og mynd. Einnig liggur fyrir að sá búnaður var að öllu leyti fullnægjandi til að brotaþoli gæfi skýrslu sína. Áttu bæði ákæruvaldið og verjendur kost á að leggja spurningar fyrir brotaþola og var hún sýnileg öllum þeim sem í dómsalnum voru. Þá lék ekki vafi á auðkenni brotaþola og ekkert bendir til að hún hafi orðið fyrir utanaðkomandi þrýstingi eða truflun af nokkru tagi. Loks skiptir engu þótt ræðismaður Íslands þar sem brotaþoli gaf skýrsluna hafi ekki verið viðstaddur enda hafði ekki verið tekin ákvörðun þar að lútandi heldur því aðeins verið hreyft af réttargæslumanni brotaþola að hún myndi gefa skýrsluna á skrifstofu ræðismannsins.

23. Samkvæmt framansögðu fór skýrslutakan fram í samræmi við heimild 4. mgr. 116. gr. laga nr. 88/2008. Á það verður ekki fallist með ákærðu að með þessu hafi verið brotið gegn rétti þeirra til réttlátrar málsmeðferðar samkvæmt 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Má til hliðsjónar benda á að Mannréttindadómstóll Evrópu hefur ekki talið það eitt að fjarfundarbúnaður hafi verið notaður við meðferð máls fyrir dómi brjóta gegn þessum rétti, sbr. til hliðsjónar dóm 8. október 2024 í máli nr. 20440/18, Severin gegn Rúmeníu, sjá liði 87 til 94.

24. Í samræmi við það sem hér hefur verið rakið verður hafnað kröfu ákærðu um ómerkingu hins áfrýjaða dóms á þessum grundvelli.

2) Aðferð við sönnunarmat og rökstuðningur í hinum áfrýjaða dómi

25. Ákærði Bessi hefur jafnframt krafist þess að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur af þeirri ástæðu að þar hafi ekki verið tekin afstaða til allra þeirra varna sem hann hafði uppi í málinu. Lúta þessi atriði að sönnun og rökstuðningi dómsins þar um. Við flutning málsins fyrir Hæstarétti tók verjandi ákærða Ásbjörns undir þessar röksemdir án þess þó að gera kröfu um ómerkingu dómsins á þessum grundvelli. Hvað sem því líður ber Hæstarétti að taka til skoðunar að eigin frumkvæði hvort annmarkar hafi verið á meðferð málsins fyrir Landsrétti, þar á meðal aðferð við sönnunarmat eða rökstuðning í áfrýjuðum dómi, sem voru fallnir til að hafa áhrif á niðurstöðu þess.

26. Samkvæmt 2. mgr. 225. gr. laga nr. 88/2008 getur Hæstiréttur ekki endurmetið niðurstöðu áfrýjaðs dóms í sakamáli um mat á sönnunargildi munnlegs framburðar. Í samræmi við þetta verður ekki veitt leyfi til að áfrýja dómi Landsréttar til Hæstaréttar til endurskoðunar á mati réttarins á sönnunargildi munnlegs framburðar, sbr. 5. mgr. 215. gr. laganna. Ef annmarkar eru á hinn bóginn á málsmeðferð, þar með talið á aðferð við sönnunarmat eða rökstuðningi í dómi, sem fallnir eru til að hafa áhrif á niðurstöðu hans verður leyfi til áfrýjunar veitt, sbr. d-lið 1. mgr. 215. gr. laganna. Slíkir annmarkar geta eftir atvikum leitt til ómerkingar dóms og heimvísunar máls, sbr. dóma Hæstaréttar 15. október 2020 í máli nr. 16/2020, 18. febrúar 2021 í máli nr. 30/2020, 18. mars 2021 í máli nr. 34/2020, 29. janúar 2025 í máli nr. 33/2024, 26. mars 2025 í máli nr. 47/2024 og 14. október 2025 í máli nr. 12/2025. Ef fallist yrði á fyrrgreindar röksemdir ákærða Bessa, sem ákærði Ásbjörn hefur tekið undir, leiddi það að réttu lagi til ómerkingar hins áfrýjaða dóms.

27. Sá annmarki er á rökstuðningi Landsréttar að þar var ekki vikið að vörnum ákærðu sem lúta að niðurstöðum greiningar á DNA-sniði í stroksýnum sem tekin voru af getnaðarlimum þeirra. Svo sem áður greinir voru við rannsókn málsins hjá lögreglu tekin slík sýni af ákærðu en við greiningu þeirra fannst ekki DNA-snið sem svaraði til brotaþola og ekkert snið í tilviki ákærða Bessa. Við aðalmeðferð málsins í héraði kom fyrir dóminn til skýrslugjafar BS, sérfræðingur hjá tæknideild lögreglu. Greindi hann frá því í vætti sínu að umrædd niðurstaða útilokaði hvorki né staðfesti nokkuð um atvik máls. Nánar spurður sagði hann að ágætislíkur væru á því að lífsýni fyndust á getnaðarlim skömmu eftir munnmök að því gefnu að viðkomandi hefði ekki náð að þrífa sig. Þetta væri þó ekki öruggt.

28. Að framansögðu virtu var hér ekki um að ræða slíkt atriði við sönnunarmatið að það leiddi þegar til þeirrar niðurstöðu að sök væri ósönnuð. Þótt ekki hafi verið sérstaklega tekið fram í hinum áfrýjaða dómi að niðurstaða umræddrar rannsóknar fengi ekki haggað heildarmati á sönnunargögnum málsins var ekki um slíkan annmarka á rökstuðningi dómsins að ræða að varðað geti ómerkingu hans, sbr. til hliðsjónar fyrrgreindan dóm réttarins í máli nr. 33/2024.

29. Þá er því haldið fram af hálfu ákærðu að Landsréttur hafi ekki fjallað um að læknisfræðileg gögn beri ekki með sér að brotaþoli hafi hlotið áverka í samræmi við það brot sem ákærðu er gefið að sök. Eins og áður greinir kom fram í læknisvottorði 18. desember 2020 vegna skoðunar á brotaþola á neyðarmóttöku Landspítalans að væg eymsli hefðu verið við þreifingu á hársverði hennar og við þreifingu yfir vöðvum á hálsi beggja vegna auk þess sem hún hefði verið með marbletti á vinstri upphandlegg. Að þessu leyti fær framburður brotaþola stoð í vottorðinu og er það lagt til grundvallar í ákæru um afleiðingar brotanna sem ákærðu eru gefin að sök. Að því gættu verður heldur ekki talið að varðað geti ómerkingu dómsins þótt í röksemdum hans hafi ekki verið vikið sérstaklega að þessu atriði við sönnunarmat enda það ekki til þess fallið að hafa áhrif á niðurstöðu málsins.

30. Að öllu framangreindu gættu verður hinn áfrýjaði dómur ekki ómerktur.

Um efnishlið málsins

31. Með hinum áfrýjaða dómi voru ákærðu sakfelldir fyrir nauðgun með því að hafa haft önnur kynferðisbrot en samræði við brotaþola. Þessi niðurstaða var reist á heildstæðu mati Landsréttar á öllum sönnunargögnum og þá einkum sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi. Það mat verður ekki endurmetið af Hæstarétti eins og áður er vikið að, sbr. 2. mgr. 225. gr. laga nr. 88/2008. Í samræmi við þetta hefur Hæstiréttur ítrekað tekið fram í dómum að réttinum sé þröngur stakkur skorinn við endurskoðun á sönnunarmati Landsréttar að þessu leyti.

32. Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um sakfellingu ákærðu fyrir brot gegn 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga.

Um ákvörðun refsingar og önnur atriði

33. Við ákvörðun refsingar ákærðu ber að virða til þyngingar að brot þeirra var framið á sérstaklega sársaukafullan og meiðandi hátt gagnvart brotaþola, sbr. c-lið 195. gr. almennra hegningarlaga. Eins og rakið er í 45. lið hins áfrýjaða dóms ber jafnframt að líta til þess að brotin beindust gegn ungri stúlku sem var ein og undir áhrifum áfengis þar sem hún var gestur á heimili ákærða Ásbjörns. Ákærðu voru tæpum áratug eldri en hún og áttu alls kostar við hana varnarlausa. Þá unnu þeir verkið í sameiningu en það horfir til refsiþyngingar, sbr. 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Auk þess ber að líta til þeirra atriða sem talin eru í 1. mgr. þeirrar greinar svo sem gert var í hinum áfrýjaða dómi. Ákærðu eiga sér engar málsbætur en líta ber til þess að hvorugur þeirra hefur áður hlotið refsidóm sem áhrif hefur þegar refsing er ákveðin.

34. Svo sem nánar er rakið í liðum 47 til 49 í hinum áfrýjaða dómi varð verulegur dráttur á rannsókn málsins hjá lögreglu og útgáfu ákæru. Fór það í bága við 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, síðari málslið 2. mgr. 18. gr. og síðari málslið 2. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008. Í samræmi við dómaframkvæmd ber að líta til þessara tafa ákærðu til hagsbóta.

35. Að öllu því virtu sem hér hefur verið rakið verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur um refsingu ákærðu. Þá verða ákvæði hans um einkaréttarkröfu brotaþola og sakarkostnað staðfest.

36. Í samræmi við 1. mgr. 235. gr. og 1. og 2. mgr. 236. gr. laga nr. 88/2008 verður ákærðu gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar á meðal málsvarnarlaun skipaðra verjenda sinna og þóknun réttargæslumanns brotaþola sem ákveðin verða með virðisaukaskatti, eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Ásbjörn Þórarinn Sigurðsson, greiði málsvarnarlaun verjanda síns, Magnúsar Óskarssonar lögmanns, 1.171.800 krónur.

Ákærði, Bessi Karlsson, greiði málsvarnarlaun verjanda síns, Unnsteins Arnar Elvarssonar lögmanns, 1.171.800 krónur.

Ákærðu greiði óskipt annan áfrýjunarkostnað málsins fyrir Hæstarétti, samtals 565.498 krónur, þar með talin þóknun réttargæslumanns brotaþola, Guðmundar Ágústssonar lögmanns, 334.800 krónur.