Hæstiréttur íslands

Mál nr. 54/2024

Veiðifélag Eystri-Rangár (Guðjón Ármannsson lögmaður)
gegn
Dagmar Sigríði Lúðvíksdóttur, Einari Lúðvíkssyni (Jón Sigurðsson lögmaður) og Dóru Lúðvíksdóttur (Hulda Rós Rúriksdóttir lögmaður)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Aðildarhæfi
  • Samaðild
  • Kröfugerð
  • Vanreifun
  • Lögvarðir hagsmunir
  • Ómerking úrskurðar Landsréttar

Reifun

Kærður var úrskurður Landsréttar þar sem máli V á hendur E, DS og D var vísað frá héraðsdómi á þeim grundvelli að V skorti aðildarhæfi þar sem miða yrði við að félagið starfaði sem deild í Veiðifélagi Rangæinga án samþykkta og því hafi skort lögmætan grundvöll fyrir starfsemi þess. Hæstiréttur féllst ekki á að málatilbúnaður V um aðildarhæfi, aðild eða önnur atriði málsins væri vanreifaður. Hæstiréttur taldi ljóst að V uppfyllti hvorki kröfur eldri né gildandi laga um lax- og silungsveiði nr. 61/2006 til að teljast veiðifélag. Hins vegar væri ekki vafa undirorpið að V hefði stöðu deildar í Veiðifélagi Rangæinga. Við mat á því hvort að V nyti aðildarhæfis samkvæmt 1. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 leit Hæstiréttur til þess að V hefði sett sér sérstakar samþykktir þar sem kveðið væri á um hlutverk og verkefni, stjórn, reikningsskil og fleira. V væri skráður lögaðili í fyrirtækjaskrá Skattsins, hefði haft undir höndum umfangsmikinn rekstur, væri með sjálfstæð reikningsskil og bæri endanlega ábyrgð á eigin fjárskuldbindingum. Taldi Hæstiréttur engan vafa vera á því að V gæti borið réttindi og skyldur að lögum og nyti því aðildarhæfis. Þá féllst Hæstiréttur ekki á að leigutaki árinnar og veiðiréttareigendur ættu óskipt réttindi með sóknaraðila í skilningi 18. gr. laga nr. 91/1991, þrátt fyrir að þeir gætu átt beina eða óbeina hagsmuni af málshöfðuninni. Hið sama átti við um samaðild til varnar, en þótt fyrir lægi að E, DS og D ættu jarðir þær sem málið varðaði með öðrum lutu efniskröfur V að tilteknum athöfnum þeirra en ekki annarra og vörðuðu ekki eignarrétt að jörðunum. Gæti efnisdómur í málinu ekki bundið aðra sameigendur þeirra samkvæmt 1. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991. Loks var ekki fallist á að V skorti lögvarða hagsmuni af kröfu sinni eða hefði skort málshöfðunarheimild. Var hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir Landsrétt að taka málið til efnislegrar meðferðar.

Dómur Hæstaréttar

1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen, Karl Axelsson, Sigurður Tómas Magnússon og Skúli Magnússon.

2. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru sem barst Landsrétti 12. desember 2024 en Hæstarétti degi síðar. Kærumálsgögn bárust réttinum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Landsréttar 28. nóvember sama ár þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum var vísað frá héraðsdómi. Kæruheimild er í a-lið 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

3. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og málið tekið til efnislegrar meðferðar Landsréttar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar fyrir Hæstarétti úr hendi varnaraðila.

4. Varnaraðilar Einar Lúðvíksson og Dagmar Sigríður Lúðvíksdóttir krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og þeim dæmdur kærumálskostnaður fyrir Hæstarétti úr hendi sóknaraðila.

5. Varnaraðili Dóra Lúðvíksdóttir hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

6. Samkvæmt ákvörðun réttarins var málið flutt munnlega 11. febrúar 2025.

Ágreiningsefni

7. Þær efniskröfur sóknaraðila sem eftir standa í málinu eru í fyrsta lagi að varnaraðilum verði bannað með dómi að hindra umferð sóknaraðila og veiðimanna á vélknúnum ökutækjum eftir akvegum um land jarðanna Bakkavallar, Vallarhjáleigu og sameignarland Árgilsstaða 1 og 2 að veiðisvæðum 8 og 9 í Eystri-Rangá. Í öðru lagi lúta dómkröfur sóknaraðila að því að varnaraðilum verði bannað að hindra aðgengi sóknaraðila að þremur sleppitjörnum í sameignarlandi Árgilsstaða 1 og 2 sem og stöðva vatnsrennsli að þeim og eyðileggja þær eða koma í veg fyrir nýtingu þeirra að öðru leyti. Héraðsdómur féllst á þessar kröfur sóknaraðila.

8. Sóknaraðili höfðaði málið upphaflega jafnframt til staðfestingar á lögbannsgerð en héraðsdómur sýknaði varnaraðila af þeirri kröfu og unir sóknaraðili við þá niðurstöðu. Landsréttur vísaði málinu hins vegar frá héraðsdómi á þeim grundvelli að sóknaraðila skorti aðildarhæfi þar sem miða yrði við að hann starfaði sem deild í Veiðifélagi Rangæinga án samþykkta og skorti því lögmætan grundvöll fyrir starfsemi sinni.

9. Fyrir Hæstarétti liggur að leysa úr hvort málið er tækt til efnisdóms, þar á meðal um hvort sóknaraðili njóti aðildarhæfis samkvæmt 1. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991, hvort um vanreifun sé að ræða af hans hálfu, meðal annars um aðild og aðildarhæfi, hvort málatilbúnaður hans sé nægilega skýr og glöggur, hvort skilyrði 18. gr. laganna um skyldubundna samaðild til sóknar og varnar séu uppfyllt og loks hvort sóknaraðili hafi lögvarinna hagsmuna að gæta í málinu.

Málsatvik

10. Veiðifélag Rangæinga á sér langa sögu. Það mun áður hafa borið nafnið Veiði- og fiskræktarfélag Rangæinga. Samþykktir fyrir Veiðifélag Rangæinga voru staðfestar af landbúnaðarráðuneytinu, birtar í Stjórnartíðindum 21. janúar 1977 og komu í stað samþykkta frá árinu 1955. Óumdeilt er að í samþykktunum frá árinu 1977 kom fram að félagið starfaði í deildum. Skyldi hver deild sjá um ráðstöfun veiði á því svæði sem hún tæki til með þeim takmörkunum sem aðalfundur félagsins setti. Í samþykktunum kom fram að ein deildin næði yfir Eystri-Rangá ásamt fiskgengum ám og lækjum sem í hana féllu.

11. Stofnfundur sóknaraðila, Veiðifélags Eystri-Rangár, var haldinn 10. nóvember 1991 og þar samþykkt tillaga að samþykktum. Samkvæmt 2. grein var félagssvæðið frá ósi Eystri-Rangár við Þverá að Tungufossi, Stokkalæk og Fiská að Heybandsfossi. Í 3. grein kom fram að verkefni þess væri ræktun göngufisks á félagssvæðinu með sleppingu laxa- og sjóbirtingsseiða og öðrum umbótum sem hentuðu á hverjum tíma, svo sem gerð sleppitjarna, gerð fiskvega, fjölgun veiðistaða, vegalagning að veiðistöðum og gerð leigusamninga fyrir félagssvæðið eða annan rekstur þess. Þá kom þar fram að félagið tæki til allrar veiði á félagssvæðinu. Á fundinum var sóknaraðila kosin fimm manna stjórn í samræmi við samþykktirnar. Óumdeilt er að hann hefur síðan annast öll framangreind verkefni. Þá liggur fyrir að varnaraðili Einar var einn hvatamanna að stofnun sóknaraðila og lengst af framkvæmdastjóri.

12. Nýjar samþykktir fyrir Veiðifélag Rangæinga voru staðfestar af landbúnaðarráðuneytinu og birtar í Stjórnartíðindum 1. mars 1994. Þar er í 3. grein mælt fyrir um að félagið starfi í deildum og stofna skuli sérstök félög sem fari með veiði hvert á sínu svæði í samræmi við samþykktir Veiðifélags Rangæinga. Deildirnar annist nauðsynlega ræktun til viðhalds góðri fiskgengd og útleigu á veiði. Veiðifélagið sjái hins vegar um sameiginleg verkefni sem ráðast þurfi í. Fram kemur í 4. grein að aðalfundir félagsins og aðrir fundir séu fulltrúafundir og fulltrúar kosnir árlega hjá hverri deild. Í 10. grein er meðal annars mælt fyrir um að Veiðifélag Eystri-Rangár sé ein fimm deilda í félaginu.

13. Í málinu liggja fyrir gögn um samskipti sóknaraðila og varnaraðila í maí 2021 um umferð vélknúinna ökutækja um jarðir og lönd sem þau eiga í sameign með öðrum og liggja að Eystri-Rangá, svo og um sleppitjarnir á því landi. Þar kom meðal annars fram af hálfu varnaraðila Einars og Dóru að þau teldu notkun sóknaraðila á sleppitjörnunum óheimila svo og umferð veiðimanna á vélknúnum farartækjum. Því til viðbótar lýsti varnaraðili Einar því yfir í tölvubréfi 28. maí 2021 að þau væru að setja upp læst hlið í landi Bakkavallar og í framhaldinu yrðu sleppitjarnir sléttaðar út en þegar væri búið að loka fyrir inntak í tjörn á svæði 8. Í tölvubréfi til sóknaraðila sama dag staðfesti varnaraðili Dagmar að hún væri samþykk öðrum varnaraðilum um það sem komið hefði fram í samskiptum við sóknaraðila. Í kjölfarið fékk sóknaraðili 1. júlí 2021 lagt lögbann við þeirri háttsemi sem varnaraðilar höfðu boðað.

14. Með réttarstefnu 7. júlí 2021 krafðist sóknaraðili staðfestingar á fyrrnefndu lögbanni og jafnframt að varnaraðilum yrði bönnuð sú háttsemi sem það laut að.

15. Á aðalfundi sóknaraðila 28. ágúst 2021 mun hafa verið gengið frá nýjum samþykktum og þær að svo búnu sendar Fiskistofu til staðfestingar. Með ákvörðun 17. febrúar 2022 synjaði hún beiðni um staðfestingu þeirra, einkum með þeim rökum að Veiðifélag Rangæinga væri starfandi í sama umdæmi og tæki til sömu veiðiréttarhafa og tilgreindir væru í nýjum samþykktum sóknaraðila. Ekki væri lagt mat á hvort til greina kæmi að afmarka umdæmi veiðifélags með þeim hætti sem þar væri gert. Sóknaraðili hefur ekki nýtt heimild til að skjóta ákvörðuninni til æðra stjórnvalds. Umræddar samþykktir hafa ekki verið lagðar fram í málinu og ekki verið byggt á að þær hafi tekið gildi.

Málsástæður

Helstu málsástæður sóknaraðila

16. Sóknaraðili byggir á því að hann sé sjálfstætt félag og njóti aðildarhæfis. Hann hafi með höndum margvíslega starfsemi, meðal annars á grundvelli laga nr. 61/2006. Hann sé skráður sem sjálfstæður lögaðili í fyrirtækjaskrá Skattsins í flokknum P3-Veiðifélag og með eigin kennitölu. Hann sé með sjálfstæðan fjárhag, með á þriðja hundruð milljónir króna í árlegar tekjur og eigi verðmætar eignir. Hann starfi á grundvelli eigin samþykkta og lúti sérstakri stjórn sem kjörin sé á aðalfundi félagsins. Þá hafi landbúnaðarráðuneytið staðfest og látið birta í Stjórnartíðindum árið 1999 sérstaka arðskrá fyrir Eystri-Rangá. Loks hafi hann átt aðild að málum fyrir Hæstarétti á árunum 2003 og 2011.

17. Sóknaraðili byggir aðallega á því að hann starfi í raun sem sjálfstætt veiðifélag þar sem hann sjái alfarið um ráðstöfun veiðiréttar, skipulag veiði, ræktun, sölu á seiðum og lögskipti við leigutaka á veiðisvæði Eystri-Rangár, svo og öll helstu verkefni veiðifélags samkvæmt lögum nr. 61/2006. Til vara byggir hann á því að jafnvel þótt litið yrði svo á að hann sé aðeins deild innan Veiðifélags Rangæinga en ekki veiðifélag í skilningi laganna komi það ekki í veg fyrir aðildarhæfi hans, enda geti deildir innan félaga átt aðild að dómsmáli ef þær eru nægilega sjálfstæðar svo sem raunin sé í hans tilviki. Í því sambandi er vísað til dóms Hæstaréttar 9. nóvember 2022 í máli nr. 18/2022 og framangreindra atriða um skipulag, starfsemi og sjálfstæði sóknaraðila, meðal annars um fjárhag hans og rekstur. Sóknaraðili telur höfnun Fiskistofu á að staðfesta samþykktir hans engu breyta um aðildarhæfi hans.

18. Sóknaraðili mótmælir þeirri forsendu hins kærða úrskurðar að aðild hans að málinu hafi í engu verið reifuð eða rökstudd. Vísar hann til þess að í stefnu til héraðsdóms hafi sérstaklega verið vikið að aðildarhæfi með hliðsjón af tilvist og grundvelli starfsemi hans. Málatilbúnaður sé jafnframt skýr um hvers vegna hann eigi aðild að málinu. Hann hafi gert samninga um leigu veiðiréttar í Eystri-Rangá og því gengist undir skuldbindingar um að tryggja aðgengi veiðimanna að veiðistöðum í ánni. Þá sé það meðal verkefna hans að viðhalda góðri fiskgengd á félagssvæðinu og stuðla að sjálfbærri nýtingu fiskistofna en öll fiskgengd í ánni grundvallist á fiskirækt í sleppitjörnum. Þá byggir sóknaraðili á því að málatilbúnaður hans um önnur atriði sé skýr og glöggur, meðal annars um kröfugerð og lögvarða hagsmuni.

19. Sóknaraðili telur ekki þörf á samaðild sóknarmegin í málinu og verði málinu því ekki vísað frá dómi á grundvelli 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991. Hann hafi sjálfstæða skyldu til að hlutast til um að hin leigðu veiðiréttindi séu fyrir hendi, tryggja aðgengi að veiðistöðum og ræktunarstarf í ánni. Þá sé hann bær að lögum til að koma fram fyrir hönd veiðiréttarhafa í dómsmáli sem lúti að hagsmunum þeirra enda fari hann með ráðstöfun veiðiréttar á svæðinu. Ekki hafi verið þörf á aðild leigutaka veiðiréttarins enda lúti dómkröfur ekki að samningi við hann og geti ekki haft neikvæð áhrif á réttindi hans. Sóknaraðili eigi því sjálfstæðan rétt til að fá leyst úr dómkröfum sínum.

20. Hvað varðar skyldu til samaðildar til varnar byggir sóknaraðili á að dómkröfur hans lúti eingöngu að því að varnaraðilum verði bannaðar tilteknar athafnir og þær séu hafðar uppi gegn þeim að gefnu tilefni. Kröfum sé beint að þeim einum og þeir geti efnt skylduna upp á sitt eindæmi. Dómur í málinu muni ekki mæla fyrir um rétt eða skyldur sameigenda varnaraðila heldur eingöngu binda þá sem aðild eigi að því, sbr. 1. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991. Ekki sé um að ræða óskipta skyldu varnaraðila og sameigenda þeirra í skilningi 18. gr. laganna.

21. Sóknaraðili telur bersýnilegt að hann eigi lögvarða hagsmuni af því að fá leyst úr dómkröfum sínum enda séu miklir fjárhagslegir hagsmunir fólgnir í því að veiðimenn komist að veiðistöðum í ánni og að tryggja fiskigengd.

Helstu málsástæður varnaraðila

22. Varnaraðilar Einar og Dagmar vísa einkum til ákvörðunar Fiskistofu 17. febrúar 2022 um synjun staðfestingar á samþykktum fyrir sóknaraðila en í henni felist um leið staðfesting þess að sóknaraðili sé ekki veiðifélag samkvæmt lögum nr. 61/2006. Sóknaraðili hafi unað þeirri ákvörðun með því að kæra hana ekki til matvælaráðuneytisins. Það verði í engu leitt af samþykktum Veiðifélags Rangæinga að sóknaraðili sé rekinn sjálfstætt. Þar komi fram að sóknaraðili sé deild í félaginu, að það sjái um sameiginleg verkefni sem ráðast þurfi í og samþykktir deilda megi ekki stangast á við lög eða samþykktir þess. Vísa beri málinu frá dómi af þeirri ástæðu að sóknaraðila skorti aðildarhæfi, sbr. 1. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.

23. Þau telja einnig að skilyrðum 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991 sé ekki fullnægt í málinu. Stefnukröfur nái til akvega og sleppitjarna innan jarðanna Bakkavallar, Vallarhjáleigu og sameignarlands Árgilsstaða 1 og 2. Dánarbú Lúðvíks Gizurarsonar, sem þau leiði rétt sinn frá, eigi einungis hlut í sumum af þeim jörðum og löndum og því eigi þau óskipt réttindi og beri óskipta skyldu með sameigendum sínum að hverri jörð og sameignarlandi, sbr. 1. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991. Sameigendunum hafi ekki verið stefnt til að gæta hagsmuna sinna og sé því skylt að vísa málinu frá dómi.

24. Þá telja þessir varnaraðilar að skilyrði samaðildar til sóknar séu ekki uppfyllt, enda hafi sóknaraðili ekki sýnt fram á að hann eigi þau réttindi sem dómkröfur nái til eða hafi ótvíræða hagsmuni af því að fá dóm um þær. Þau telja að leigutaki, veiðiréttarhafar og aðrir landeigendur hafi þurft að eiga aðild svo að skilyrði 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991 væru uppfyllt.

25. Loks byggja þessir varnaraðilar á því að vísa beri málinu frá dómi vegna skorts á lögvörðum hagsmunum sóknaraðila, sbr. 24. og 25. gr. laga nr. 91/1991, og sökum þess að dómkröfur séu óskýrar og málatilbúnaður vanreifaður, meðal annars um aðild, aðildarhæfi og lögvarða hagsmuni, sbr. d- til g-liði 1. mgr. 80. gr. sömu laga.

Niðurstaða

Um vanreifun á aðildarhæfi og aðild

26. Eitt af skilyrðum þess að mál sé tækt til efnismeðferðar fyrir dómstólum er að aðilar þess séu aðildarhæfir en samkvæmt 1. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 getur aðili dómsmáls verið hver sá einstaklingur, félag eða stofnun sem getur átt réttindi eða borið skyldur að landslögum. Um aðild til sóknar í einkamáli gildir enn fremur að sá einn getur með réttu höfðað mál sem er rétthafi að þeim hagsmunum sem leitað er úrlausnar um. Skortur á aðildarhæfi svo og vanreifun á aðildarhæfi og aðild leiðir til frávísunar máls án kröfu.

27. Í stefnu til héraðsdóms eru færð rök fyrir aðildarhæfi sóknaraðila og að hann sé rétthafi að þeim hagsmunum sem hann freistar að verja með kröfugerð sinni. Þar er gerð grein fyrir stofnun hans, samþykktum og arðskrá en einnig eldri og yngri samþykktum Veiðifélags Rangæinga, þar sem meðal annars hafi verið mælt fyrir um að sóknaraðili væri félag sem væri ein af deildum veiðifélagsins. Ekki var tilefni til að gera á því stigi málsins nánari grein fyrir aðildarhæfi hans.

28. Eftir að varnir um að sóknaraðili hefði ekki aðildarhæfi sem veiðifélag komu fram hefur hann fært frekari rök fyrir aðildarhæfi sínu. Í greinargerð til Hæstaréttar hefur hann meðal annars byggt á því til vara að þótt hann yrði ekki talinn veiðifélag heldur aðeins deild í veiðifélagi í skilningi laga nr. 61/2006 nyti hann samt sem áður aðildarhæfis. Sóknaraðili hefur því til stuðnings lagt fram fjölda skjala. Umfjöllun hans um þessa frávísunarástæðu hefur þannig verið í samræmi við það sem tilefni var til undir rekstri málsins.

29. Í stefnu til héraðsdóms gerði sóknaraðili nægilega grein fyrir hlutverki sínu og hvernig dómkröfurnar samræmdust því hlutverki hans að tryggja aðgang veiðimanna að Eystri-Rangá og fiskgengd í ánni. Sóknaraðili hefur því reifað nægilega með hvaða hætti hann teljist rétthafi að þeim hagsmunum sem hann leitar úrlausnar um.

30. Samkvæmt þessu er ekki tilefni til að vísa málinu frá héraðsdómi á þeim grundvelli að málatilbúnaður sóknaraðila um aðildarhæfi, aðild eða önnur atriði málsins séu vanreifuð. Þá hafa varnaraðilar ekki fært fyrir því haldbær rök að dómkröfur sóknaraðila séu svo óskýrar að vísa beri þeim frá dómi.

Um skilyrði aðildarhæfis

31. Í dómaframkvæmd hafa almennt ekki verið gerðar strangar kröfur til þess að félag geti notið aðildarhæfis nema fyrirmæli í lögum standi því í vegi. Í dómi Hæstaréttar 16. desember 2005 í máli nr. 514/2005 var til dæmis ekki vefengd sú niðurstaða héraðsdóms að gera yrði þá kröfu til almenns félags að um væri að ræða einhvers konar skipulagða samvinnu einstaklinga sem stofnað hefði verið til í ákveðnum tilgangi. Félag yrði því óhjákvæmilega að styðjast við einhvers konar stofnsamþykkt eða ígildi hennar þar sem kveðið væri á um eðli þessarar samvinnu, svo sem grunnskipulag hennar, stjórn og fyrirsvar. Hæstiréttur taldi á hinn bóginn að fundargerð í gestabók, sem lögð hafði verið fram fyrir réttinum, gæti talist ígildi stofnsamþykktar fyrir það félag sem um var að ræða og þar með nægilega fram komið að það uppfyllti skilyrði 1. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.

32. Í ljósi þess að samþykktir sóknaraðila hafa ekki hlotið staðfestingu Fiskistofu sem samþykktir fyrir veiðifélag kemur til skoðunar hvort það leiði til þess að sóknaraðili njóti ekki aðildarhæfis.

33. Fyrir liggur að Veiðifélag Rangæinga var stofnað á undan sóknaraðila. Samkvæmt fyrrgreindum samþykktum þess frá árinu 1977 nær félagssvæðið meðal annars yfir svæðið sem sóknaraðili starfar á. Í samþykktunum var gert ráð fyrir að starfrækt væri sérstök deild innan veiðifélagsins um veiði í Eystri-Rangá. Það var í samræmi við fyrirmæli þágildandi laga um lax- og silungsveiði, þar sem gert var ráð fyrir að í samþykktum veiðifélags mætti ákveða að það starfaði í deildum enda tæki hver deild yfir tiltekið veiðivatn eða hluta vatns og ráðstafaði veiði í sínu umdæmi með þeim takmörkunum sem aðalfundur setti. Ekki var þar kveðið á um félagsform, stjórn eða rekstur slíkra deilda.

34. Eftir stofnun sóknaraðila árið 1991 voru nýjar samþykktir Veiðifélags Rangæinga staðfestar af landbúnaðarráðherra. Í þeim sagði að félagið starfaði deildaskipt og skyldi stofna sérstök félög sem færu með veiðimál hvert á sínu svæði í samræmi við samþykktir fyrrnefnda félagsins. Deildirnar skyldu annast nauðsynlega ræktun til viðhalds góðri fiskgengd og útleigu á veiði. Í samþykktunum var „Veiðifélag Eystri-Rangár“ nefnt sem ein þessara deilda.

35. Um umdæmi veiðifélaga er nú fjallað í 38. gr. laga nr. 61/2006 en þar segir í 2. mgr. að Fiskistofa skuli ákveða umdæmi veiðifélags að höfðu samráði við veiðiréttarhafa á væntanlegu félagssvæði. Í 39. gr. sömu laga eru ákvæði um stofnun veiðifélags en þar segir meðal annars í 3. mgr. að á stofnfundi skuli setja veiðifélagi samþykktir. Í 4. mgr. greinarinnar segir að í samþykktum veiðifélags megi ákveða að félag skuli starfa í deildum, enda taki hver deild yfir tiltekið veiðivatn eða hluta vatns. Hver deild ráðstafi þá veiði í sínu umdæmi með þeim skilyrðum sem aðalfundur félagsins setji. Í 6. mgr. greinarinnar segir að hafi veiðifélag ekki sett sér lögmætar samþykktir geti Fiskistofa sett því samþykktir sem gildi þar til lögmætar samþykktir hafi verið settar af félaginu sjálfu. Loks segir í ákvæði nr. II til bráðabirgða að samþykktum einstakra veiðifélaga skuli breytt til samræmis við fyrirmæli og reglur laganna, í síðasta lagi innan árs frá gildistöku þeirra.

36. Samkvæmt framansögðu og með vísan til fyrrnefndrar ákvörðunar Fiskistofu 17. febrúar 2022 er ljóst að þegar til sóknaraðila var stofnað var fyrir hendi veiðifélag sem náði meðal annars yfir svæði hans. Enda þótt ekki sé annað komið fram en að Veiðifélag Rangæinga sé í reynd óvirkt og ekki hafi verið gerður reki að því að breyta samþykktum þess, að því leyti sem það var nauðsynlegt vegna laga nr. 61/2006, eru þær samþykktir enn í gildi eins og fram kemur í fyrrnefndri ákvörðun Fiskistofu. Gildir þá einu þótt það fyrirkomulag sem þar er lagt til grundvallar og byggist á þátttöku valinna fulltrúa einstakra veiðifélagsdeilda standist ekki áskilnað laga nr. 61/2006 en ákvæði þeirra eru ófrávíkjanleg.

37. Samþykktir annarra deilda Veiðifélags Rangæinga hafa verið samþykktar af Fiskistofu og virðist nokkurs ósamræmis gæta í þeim efnum af hálfu stjórnvaldsins. Ekki hafa þó verið gerðar ráðstafanir af hálfu Fiskistofu eða veiðiréttarhafa til að endurskoða umdæmi veiðifélaga í fiskihverfinu. Hvað sem líður nafni sóknaraðila og skráningu hans sem lögaðila með rekstrarformið veiðifélag hjá fyrirtækjaskrá Skattsins er samkvæmt framansögðu ljóst að hann uppfyllir hvorki kröfur eldri né gildandi laga um lax- og silungsveiði til að teljast veiðifélag í skilningi þeirra.

38. Þarf þá að taka afstöðu til þess hvort sóknaraðili teljist, þrátt fyrir að vera ekki veiðifélag í skilningi laga nr. 61/2006, almennt félag eða nægilega sjálfstæð deild innan veiðifélags sem geti notið aðildarhæfis.

39. Svo sem áður greinir bera samþykktir Veiðifélags Rangæinga frá árinu 1977 með sér að starfrækt skyldi sérstök deild innan félagsins fyrir veiðiréttareigendur í Eystri-Rangá. Í samþykktum sama veiðifélags frá árinu 1994 var jafnframt gert ráð fyrir að sóknaraðili, sem þá hafði verið stofnaður, væri ein af fimm deildum veiðifélagsins. Þar sem eldri og yngri lög um lax- og silungsveiði heimila slíka deildaskiptingu veiðifélaga og að þeim væru falin verkefni og heimildir sem veiðifélög hafa samkvæmt lögunum er ekki vafa undirorpið að sóknaraðili hefur þrátt fyrir nafn sitt og skráningu hjá fyrirtækjaskrá stöðu deildar í Veiðifélagi Rangæinga í skilningi laga nr. 61/2006. Breytir sú staðreynd að Fiskistofa hafi hvorki staðfest samþykktir Veiðifélags Rangæinga né sóknaraðila ekki þeirri stöðu sóknaraðila. Sama á við þótt samþykktir veiðifélagsins hafi ekki verið lagaðar að lögum nr. 61/2006 þrátt fyrir fyrirmæli þar um í fyrrnefndu bráðabirgðaákvæði.

40. Í fyrrnefndum dómi Hæstaréttar í máli nr. 18/2022 var fjallað um hvort deild innan íþróttafélags nyti aðildarhæfis. Þar kemur fram að dómaframkvæmd hafi þróast á þann veg að deildir og einingar innan félaga, stofnana og fyrirtækja njóti almennt ekki aðildarhæfis heldur sé það á hendi þess lögaðila sem þær eru hluti af. Sá lögaðili þurfi þannig að eiga aðild að dómsmáli um hagsmuni sem snúi að tiltekinni deild eða einingu innan hans. Á hinn bóginn sé til þess að líta að ekki verði hjá því komist að meta allt að einu hvert og eitt tilvik með atviksbundnum hætti enda setji 1. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 aðildarhæfi þær takmarkanir einar að viðkomandi aðili geti átt réttindi eða borið skyldur að landslögum. Þannig kunni þau tilvik að finnast þar sem skipulag, starfsemi og sjálfstæði deilda eða eininga innan félaga, stofnana eða fyrirtækja sé með þeim hætti að þær teljist njóta aðildarhæfis í dómsmáli. Í dóminum var litið til þess hvort umræddri deild hefðu verið settar sérstakar samþykktir, hvort hún hefði rekstrarlegt sjálfstæði, sjálfstæðan fjárhag og sérstakan ársreikning. Jafnframt hvort hún nyti sjálfstæðis um ráðstöfun eigna og bæri endanlega ábyrgð á fjárskuldbindingum.

41. Eins og áður er fram komið mæla lög nr. 61/2006 ekki fyrir um rekstrarform deilda innan veiðifélaga eða stöðu þeirra gagnvart veiðifélagi en gera hins vegar ráð fyrir tilvist þeirra og að þau geti farið með hluta þeirra verkefna sem veiðifélögum eru falin. Þá eru engin ákvæði í eldri eða yngri samþykktum Veiðifélags Rangæinga sem setja rekstrarformi deilda félagsins sérstakar skorður. Af 3. og 11. grein yngri samþykkta verður þvert á móti ráðið að gert sé ráð fyrir að deildir geti starfað sem sérstök félög með eigin samþykktir og sjálfstæðar stjórnir. Þær fari með veiðimál hvert á sínu svæði, annist nauðsynlega ræktun til að viðhalda góðri fiskgengd og útleigu á veiði. Veiðifélagið annist aftur á móti sameiginleg verkefni sem ráðast þurfi í. Ekkert í samþykktum veiðifélagsins gerir þannig ráð fyrir öðru en að fjárhagur og rekstur þess og deildanna sé aðskilinn að öðru leyti en því að deildirnar taki þátt í kostnaði við sameiginleg verkefni eftir mati á kostnaðarhlutfalli enda sé samið um greiðslur áður en framkvæmdir hefjist.

42. Sóknaraðili hefur sett sér sérstakar samþykktir sem hann starfar eftir. Þar er kveðið á um hlutverk og verkefni, aðalfund, stjórn og verkefni hennar, reikningsskil og fleira. Önnur gögn málsins sýna að hann hefur sinnt þeim verkefnum sem samþykktir hans og Veiðifélags Rangæinga gera ráð fyrir. Hann er skráður sem lögaðili í fyrirtækjaskrá Skattsins með eigin kennitölu, hefur haft með höndum umfangsmikinn rekstur, annast útleigu á veiði og gert ýmiss konar samninga við einkaaðila og opinbera aðila. Þá hefur sóknaraðili haft starfsfólk á launaskrá, er skráður eigandi fasteigna, er með sjálfstæð reikningsskil og ber endanlega ábyrgð á eigin fjárskuldbindingum. Þannig hafa opinberir aðilar í reynd viðurkennt tilvist sóknaraðila sem sjálfstæðrar lögpersónu og dómstólar ekki gert athugasemdir við aðildarhæfi hans, sbr. dóma Hæstaréttar 9. október 2003 í máli nr. 118/2003 og 3. nóvember 2011 í máli nr. 453/2009. Þótt sóknaraðili hafi, eins og áður er rakið, ekki stöðu veiðifélags samkvæmt lögum nr. 61/2006 leikur samkvæmt framansögðu enginn vafi á því að hann getur borið réttindi og skyldur að lögum og nýtur því aðildarhæfis í dómsmáli.

Um skyldu til samaðildar til sóknar og varnar

43. Í 1. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991 segir að eigi fleiri en einn óskipt réttindi eða beri óskipta skyldu þá eigi þeir óskipta aðild. Jafnframt segir í 2. mgr. greinarinnar að ef þeim sem bera óskipta skyldu er ekki öllum veittur kostur á að svara til sakar skuli vísa máli frá dómi. Það sama eigi við ef þeir sem eigi óskipt réttindi sæki ekki mál í sameiningu, að því leyti sem krafa er höfð uppi um hagsmuni einhvers þeirra sem eigi ekki aðild að því.

44. Samkvæmt því sem áður er rakið gera samþykktir Veiðifélags Rangæinga ráð fyrir starfsemi sóknaraðila sem deildar í félaginu og í 3. grein þeirra er mælt fyrir um að deildirnar annist nauðsynlega ræktun til viðhalds góðri fiskgengd, svo og útleigu á veiði. Sem fyrr segir heimiluðu eldri lög um lax- og silungsveiði slíka deildaskiptingu veiðifélags og í 4. mgr. 39. gr. laga nr. 61/2006 er nú gert ráð fyrir að deildir í veiðifélagi geti, mæli samþykktir svo fyrir, tekið yfir tiltekið veiðivatn eða hluta þess og ráðstafað veiði í sínu umdæmi með þeim skilyrðum sem aðalfundur félagsins setur.

45. Á grundvelli framangreinds fyrirkomulags mæla samþykktir sóknaraðila fyrir um hlutverk hans hvað varðar fiskrækt og ráðstöfun veiði í Eystri-Rangá neðan Tungufoss. Fyrir liggur að hann hefur um áratugaskeið ráðstafað veiði á svæði sínu með samningum við leigutaka og annast ræktunarstarf, meðal annars með þeim hætti að útbúa sleppitjarnir fyrir laxaseiði. Dómkröfum sóknaraðila sem eftir standa í málinu er ætlað að tryggja í skjóli ákvæða laga nr. 61/2006 aðgengi veiðimanna á vélknúnum ökutækjum að veiðistöðum í ánni, svo og áframhaldandi ræktunarstarf í þágu leigutaka og veiðiréttarhafa. Þótt leigutaki árinnar og veiðiréttareigendur geti átt beina eða óbeina hagsmuni af málshöfðuninni verður ekki litið svo á að þeir eigi óskipt réttindi með sóknaraðila í skilningi 18. gr. laga nr. 91/1991. Getur sóknaraðili því haft uppi efniskröfur sínar í málinu án samaðildar þeirra til sóknar.

46. Af dómkröfum sóknaraðila verður ráðið að hann beini kröfum sínum um bann við tilteknum athöfnum að varnaraðilum á þeim grundvelli að þau hafi í bréfum til hans boðað að þau hygðust hindra aðgengi að tilteknum sleppitjörnum, slétta þær út og stöðva umferð að ánni með læstum hliðum. Þótt fyrir liggi að varnaraðilar eigi með öðrum þær jarðir og lönd sem hér um ræðir er efniskröfum sóknaraðila aðeins beint að tilteknum athöfnum þeirra en ekki annarra og varða þær ekki eignarrétt að umræddum jörðum. Dómkröfur sóknaraðila lúta þannig ekki að sameiginlegri skyldu varnaraðila og sameigenda þeirra og geta varnaraðilar án þátttöku þeirra efnt þá skyldu sem dómur sóknaraðila í hag hefði í för með sér. Getur efnisdómur í málinu ekki bundið aðra sameigendur varnaraðila samkvæmt 1. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991. Verður málinu því ekki vísað frá dómi á grundvelli 18. gr. laganna.

Um skort sóknaraðila á lögvörðum hagsmunum og málshöfðunarheimild

47. Í samræmi við 4. mgr. 39. gr. laga nr. 61/2006 er í gildandi samþykktum Veiðifélags Rangæinga mælt fyrir um að það starfi deildaskipt og sérstök félög fari með veiðimál hvert á sínu svæði í samræmi við samþykktir veiðifélagsins. Eins og fram hefur komið er í samþykktum sóknaraðila mælt fyrir um að verkefni hans séu meðal annars ræktun göngufisks á félagssvæðinu með sleppingu laxa- og sjóbirtingsseiða, gerð sleppitjarna og fiskvega, fjölgun veiðistaða, vegalagning að þeim og gerð leigusamninga fyrir félagssvæðið eða annan rekstur þess. Þessi ákvæði samþykktanna eru í samræmi við samþykktir Veiðifélags Rangæinga og lög nr. 61/2006. Óumdeilt er að sóknaraðili hefur annast öll framangreind verkefni. Þegar litið er til þessa og dómkrafna sóknaraðila hefur hann sýnt fram á að með þeim sé hann að gæta lögvarinna hagsmuna sinna.

48. Loks hafa varnaraðilar borið brigður á að stjórn sóknaraðila hafi verið bær til að taka ákvörðun um málshöfðunina þar sem sakarefnið sé þess eðlis að aðalfundur hafi einn getað tekið hana. Þegar litið er til tilefnis málshöfðunarinnar og þeirra aðkallandi hagsmuna sem henni var ætlað að tryggja verður ekki fallist á þessa málsástæðu varnaraðila.

49. Samkvæmt öllu framansögðu er ekki tilefni til að vísa málinu frá héraðsdómi. Hinn kærði úrskurður verður því felldur úr gildi og málinu vísað aftur til Landsréttar til efnislegrar meðferðar.

50. Rétt er að varnaraðilar, Einar og Dagmar, greiði óskipt sóknaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir. Málskostnaður fellur niður hvað varðar varnaraðila Dóru Lúðvíksdóttur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og málinu vísað aftur til Landsréttar til efnislegrar meðferðar.

Varnaraðilar, Einar Lúðvíksson og Dagmar Lúðvíksdóttir, greiði óskipt sóknaraðila, Veiðifélagi Eystri-Rangár, 1.000.000 króna í kærumálskostnað fyrir Hæstarétti. Varnaraðila Dóru Lúðvíksdóttur er ekki gert að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti.