Hæstiréttur íslands
Mál nr. 59/2022
Lykilorð
- Kærumál
- Kæruheimild
- Frávísun frá Hæstarétti
Reifun
Dómur Hæstaréttar
1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen, Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.
2. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. desember 2022 sem barst réttinum 12. sama mánaðar en kærumálsgögn bárust 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Landsréttar 25. nóvember 2022 í máli nr. 676/2022 þar sem málinu var vísað frá Landsrétti. Um kæruheimild er vísað til a-liðar 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 3. mgr. 64. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.
3. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði ómerktur og málinu vísað á ný til Landsréttar til löglegrar meðferðar. Til vara er þess krafist að dómkvaddur verði einn hæfur og óvilhallur matsmaður til að leggja sérfræðilegt mat á forsjárhæfni hennar. Þá krefst hún þess að kærumálskostnaður verði greiddur úr ríkissjóði eins og ekki væri um gjafsóknarmál að ræða.
4. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði staðfestur en til vara að varakröfu sóknaraðila verði vísað frá Hæstarétti.
Málsatvik
5. Varnaraðili höfðaði mál á hendur sóknaraðila 31. ágúst 2022 til sviptingar forsjár tveggja dætra hennar, sbr. a- og d-lið 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga. Í þinghaldi 12. september sama ár lagði sóknaraðili fram matsbeiðni þess efnis að dómkvaddur yrði einn hæfur og óvilhallur matsmaður til að leggja mat á forsjárhæfni hennar með vísan til IX. kafla laga nr. 91/1991, einkum 61. gr. laganna, sbr. og 3. mgr. 42. gr. barnalaga nr. 76/2003. Þá krafðist hún þess að ríkissjóður stæði straum af kostnaði við matið með vísan til 42. gr. barnalaga.
6. Með úrskurði héraðsdóms var kröfu sóknaraðila um dómkvaðningu matsmanns hafnað. Vísað var til þess að fyrir lægju tvö möt sálfræðinga á forsjárhæfni sóknaraðila. Taldi dómurinn að ekki væru annmarkar á þeim þannig að þörf væri á að endurtaka matið. Því væri sú gagnaöflun tilgangslaus til sönnunar, sbr. 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 og til þess fallin að tefja málsmeðferð í andstöðu við 53. gr. b barnaverndarlaga.
7. Sóknaraðili skaut úrskurði héraðsdóms til Landsréttar með kæru 2. nóvember 2022 og krafðist þess að matsmaður yrði dómkvaddur. Með hinum kærða úrskurði var málinu vísað frá Landsrétti þar sem kæruheimild væri ekki fyrir hendi.
Niðurstaða
8. Samkvæmt 3. mgr. 64. gr. barnaverndarlaga sæta úrskurðir Landsréttar í málum sem rekin eru eftir XI. kafla laganna kæru til Hæstaréttar ef til þess stendur heimild í 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Þar segir í a-lið að dómsathafnir Landsréttar um frávísun frá héraðsdómi eða Landsrétti sæti kæru til Hæstaréttar ef ekki er um að ræða staðfestingu á slíkri dómsathöfn héraðsdóms.
9. Með hinum kærða úrskurði var vísað frá Landsrétti máli vegna ágreinings undir rekstri málsins í héraði um hvort aflað yrði matsgerðar dómkvadds manns. Slík dómsathöfn sætir ekki kæru til Hæstaréttar enda verður að skýra kæruheimildina í a-lið 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 þannig að hún sé bundin við dómsathöfn sem felur í sér endanlegar lyktir dómsmáls, svo sem frávísun á málinu sjálfu frá dómi í heild sinni eða að hluta til, en taki ekki til ágreinings um málsmeðferð undir rekstri máls. Samkvæmt þessu verður málinu vísað frá Hæstarétti.
10. Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur en um gjafsóknarkostnað sóknaraðila fyrir Hæstarétti fer eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.
Allur gjafsóknarkostnaður sóknaraðila, A, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Leifs Runólfssonar, 250.000 krónur.