Hæstiréttur íslands
Mál nr. 55/2024
Lykilorð
- Lán
- Vextir
- Banki
- Ósanngjarnir samningsskilmálar
- Ógilding samnings að hluta
- Neytendur
- EES-samningurinn
- EFTA-dómstóllinn
- Ráðgefandi álit
Reifun
Dómur Hæstaréttar
1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen, Ólafur Börkur Þorvaldsson, Sigurður Tómas Magnússon og Skúli Magnússon og Þorgeir Örlygsson fyrrverandi hæstaréttardómari.
2. Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 18. desember 2024. Þau krefjast þess í fyrsta lagi að viðurkennt verði með dómi að skilmáli um breytilega vexti í 2. tölulið í veðskuldabréfi nr. 4278 sem þau gáfu út 21. janúar 2021, upphaflega að fjárhæð 57.610.000 krónur, til viðurkenningar á skuld við stefnda sé ógildur. Í öðru lagi að viðurkennt verði með dómi að stefnda hafi verið óheimilt að hækka vaxtafót skuldar áfrýjenda samkvæmt veðskuldabréfinu með tilkynningum um vaxtabreytingar 30. maí, 5. september og 22. október 2021. Í þriðja lagi krefjast áfrýjendur þess að stefndi greiði þeim sameiginlega 84.418 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þingfestingardegi til greiðsludags.
3. Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms.
4. Fyrir Hæstarétti hafa aðilar fallið frá kröfum um málskostnað á báðum dómstigum.
5. Eftir að málið var flutt fyrir Hæstarétti og dómtekið 7. maí 2025 ákvað rétturinn 27. sama mánaðar að fá afstöðu aðila til nánar tilgreindra atriða og jafnframt veita þeim kost á að leggja fram gögn af því tilefni til 14. ágúst. Var málið flutt að nýju fyrir Hæstarétti 16. september 2025 og tekið til dóms.
Ágreiningsefni
6. Ágreiningur aðila lýtur að skilmála veðskuldabréfs sem áfrýjendur gáfu út til stefnda og fjallar um hvernig breytilegir óverðtryggðir húsnæðislánavextir af láni þeirra eru ákveðnir. Deilt er um hvort skilmálinn sé ólögmætur og ógildur, einkum hvort hann uppfylli kröfur um gagnsæi samkvæmt 34. gr. laga nr. 118/2016 um fasteignalán til neytenda og teljist ósanngjarn í skilningi 36. og 36. gr. c laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, svo og um réttaráhrif þess. Aðila greinir þar á hvort og þá hvernig beri að skýra lagaákvæði þessi í ljósi Evróputilskipana um neytendavernd á sviði lánasamninga, nánar tiltekið tilskipanir 2014/17/ESB um lánssamninga fyrir neytendur í tengslum við íbúðarhúsnæði og 2008/48/EB um lánasamninga fyrir neytendur, svo og um þýðingu tilskipunar 93/13/EBE um ósanngjarna skilmála í neytendasamningum.
7. Með héraðsdómi 12. nóvember 2024 var stefndi sýknaður af öllum kröfum áfrýjenda á þeim grunni að 1. mgr. 34. gr. laga nr. 118/2016 hefði ekki sömu merkingu og 24. gr. tilskipunar 2014/17/ESB. Var skilmálinn hvorki talinn í ósamræmi við 1. mgr. 34. laga nr. 118/2016 né ósanngjarn samkvæmt 36. og 36. gr. c laga nr. 7/1936.
8. Leyfi til að áfrýja héraðsdómi í málinu beint til Hæstaréttar var veitt 18. desember 2024, með ákvörðun réttarins nr. 2024-164, á þeim grunni að dómur í því gæti haft fordæmisgildi um beitingu réttarreglna og verulega samfélagslega þýðingu að öðru leyti. Jafnframt var talið að ekki væru þær aðstæður fyrir hendi sem kæmu í veg fyrir að leyfi yrði veitt til að áfrýja málinu beint til Hæstaréttar, sbr. 1. mgr. 175. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Málsatvik
9. Áfrýjendur undirrituðu veðskuldabréf 21. janúar 2021 í tilefni af lántöku þeirra hjá stefnda til kaupa á fasteign. Í veðskuldabréfinu kom fram að þau fengju að láni 57.610.000 krónur til 480 mánaða með fyrsta gjalddaga 1. mars 2021. Einnig kom fram í undirfyrirsögn bréfsins að um væri að ræða óverðtryggt húsnæðislán, jafngreiðslulán með breytilegum vöxtum. Upphaflegur vaxtafótur lánsins var 3,4% ársvextir.
10. Áður en áfrýjendur undirrituðu skuldabréfið afhenti stefndi þeim staðlað upplýsingablað um lán með breytilegum óverðtryggðum húsnæðislánavöxtum. Tekið var fram hverjir væru helstu eiginleikar þess og skilmálar, þar á meðal hvernig breytilegir óverðtryggðir húsnæðislánavextir væru ákveðnir og um rétt lántaka til að falla frá samningnum eða greiða upp lánið. Einnig fengu áfrýjendur frá stefnda almenna samantekt Neytendastofu 16. júlí 2018 um áhrif verðlags og breytilegra vaxta á höfuðstól og greiðslubyrði lána.
11. Samkvæmt 1. tölulið skilmála skuldabréfsins skyldi skuldin endurgreiðast með jöfnum greiðslum vaxta og afborgana. Þar sem vextir væru breytilegir áskildi lánveitandi sér rétt til að endurreikna lánið við hverja vaxtabreytingu og/eða skilmálabreytingu miðað við breyttar forsendur og miðuðust þá afborganir við vexti eins og þeir væru á degi endurútreiknings. Vaxtabreytingar gætu leitt til hækkunar eða lækkunar hverrar greiðslu og hefðu þar af leiðandi áhrif á heildarendurgreiðslu lánsins.
12. Í 1. málslið 2. töluliðar skilmálanna var tekið fram að af höfuðstól skuldarinnar eins og hann væri á hverjum tíma bæri að greiða breytilega óverðtryggða húsnæðislánavexti eins og þeir væru ákveðnir á hverjum tíma og birtir í vaxtatöflu af stefnda. Í 2. málslið voru síðan með svofelldum hætti talin upp þau viðmið sem ákvarðanir um vaxtabreytingar byggðust á:
Vextir Íslandsbanka hf. á láni þessu og breytingar á þeim taka meðal annars mið af breytingum á fjármögnunarkostnaði (lánskjörum) bankans, rekstrarkostnaði, opinberum álögum og/eða öðrum ófyrirséðum kostnaði, stýrivöxtum Seðlabanka Íslands, breytingum á vísitölu neysluverðs o.s.frv.
13. Í 3. til 7. málslið töluliðarins var nánar rakið hvernig ákvarðanir um breytingar á vöxtum væru teknar og vægi framangreindra þátta:
Ákvarðanir um breytingar á vöxtum eru teknar af fagnefnd innan bankans í umboði yfirstjórnar. Nefndin skoðar einkum þróun á þeim kostnaðarþáttum sem að framan eru taldir og metur hvort breytingar á þeim gefi tilefni til breytinga á útlánsvöxtum. Hlutfall framangreindra þátta í ákvörðun um breytingar á vöxtum er breytilegt og ræðst meðal annars af ákvörðunum opinberra aðila og markaðsaðstæðum hverju sinni. Við vaxtabreytingar eru allir þessir þættir metnir saman og/eða hver um sig. Hafi orðið breyting á einhverjum þessara þátta þegar vaxtaendurskoðun láns fer fram, hvort sem um er að ræða lán með föstum eða breytilegum vöxtum, getur það leitt til þess að vöxtum verði breytt, hvort sem er til hækkunar eða lækkunar. […]
14. Vextir voru hækkaðir þrisvar sinnum á því tímabili sem krafa áfrýjenda tekur til, 1. júní 2021 úr 3,4% í 3,65%, 7. október í 3,8% og loks 1. desember sama ár í 3,95%. Áfrýjendum var tilkynnt um vaxtahækkanir í samræmi við lánaskilmála 30. maí, 5. september og 22. október 2021. Á vefsíðu stefnda var hverju sinni einnig birt tilkynning um breytingar á vöxtum og þá með vísan til þess að þær væru gerðar í kjölfar ákvarðana Seðlabanka Íslands um breytingar á stýrivöxtum.
15. Í kjölfar spurninga sem Hæstiréttur beindi til aðila, eins og áður kom fram, lagði stefndi fram fundargerðir efnahagsnefndar bankans þar sem fram koma þær forsendur sem lagðar voru til grundvallar fyrrgreindum ákvörðunum um vaxtabreytingar svo og síðari ákvörðunum.
Ráðgefandi álit
16. Undir rekstri málsins í héraði var með úrskurði 13. desember 2022 leitað ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins. Lagði héraðsdómur eftirfarandi spurningu fyrir dómstólinn:
Samræmist það tilskipun 2014/17/ESB, sbr. einkum 24. gr. tilskipunarinnar, og eftir atvikum f. lið 2. mgr. 10. gr. tilskipunar 2008/48/EB, sbr. 19. lið formálsorða tilskipunar 2014/17/ESB, að í skilmálum fasteignaláns neytanda, þar sem vextir eru breytilegir, komi fram að vaxtabreytingar taki meðal annars mið af rekstrarkostnaði og öðrum ófyrirséðum kostnaði.
17. EFTA-dómstóllinn leysti samtímis úr hliðstæðri spurningu í öðru máli sem laut að skilmálum Landsbankans hf. um breytilega vexti af óverðtryggðu íbúðaláni og beint hafði verið til hans samkvæmt úrskurði Landsréttar 31. október 2022 í máli nr. 558/2022. Veitti EFTA-dómstóllinn ráðgefandi álit með dómi 23. maí 2024 í sameinuðum málum E-13/22 og E-1/23. Samandregið voru svör EFTA-dómstólsins við spurningunum þessi:
1. A-liður 24. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2014/17/ESB frá 4. febrúar 2014 um lánssamninga fyrir neytendur í tengslum við íbúðarhúsnæði myndi glata virkni sinni ef aðrir þættir sem notaðir eru til viðbótar vísitölum eða viðmiðunarvöxtum við útreikning útlánsvaxta væru, frá upphafi, undanskildir mati á gagnsæi skilmála. Kröfur 24. gr. um skýrleika, aðgengileika, hlutlægni og sannreynanleika eiga því alltaf við þegar vísitala eða viðmiðunarvextir eru notaðir til að reikna útlánsvexti.
2. Það er ósamrýmanlegt 24. gr. tilskipunar 2014/17 ef skilmálar og upplýsingarnar sem neytanda eru veittar samkvæmt fasteignalánasamningi eru ekki formlega og málfræðilega skiljanlegar, eða gera ekki hinum almenna neytanda sem telst sæmilega vel upplýstur og sæmilega athugull og forsjáll kleift að skilja þá tilteknu aðferð sem beitt er við ákvörðun útlánsvaxtanna, og, þar sem það á við, samspil þess fyrirkomulags við fyrirkomulag sem mælt er fyrir í öðrum skilmálum þannig að neytandinn verði í aðstöðu til að meta fjárhagslegar afleiðingar samningsins fyrir sig.
3. Til að uppfylla kröfuna um gagnsæi samningsskilmála sem kveður á um breytilega vexti í fasteignalánasamningi verður að túlka 5. gr. tilskipunar ráðsins 93/13/EBE frá́ 5. apríl 1993 um ósanngjarna skilmála í neytendasamningum með þeim hætti að ekki aðeins skuli slíkur skilmáli vera formlega og málfræðilega skiljanlegur, heldur einnig gera hinum almenna neytanda, sem telst sæmilega vel upplýstur og sæmilega athugull og forsjáll, kleift að skilja þá tilteknu aðferð sem beitt er við ákvörðun vaxtanna þannig að hann verði í aðstöðu til að meta, út frá skýrum, hlutlægum og skiljanlegum viðmiðum, hinar mögulega umtalsverðu afleiðingar slíks skilmála á fjárhagslegar skuldbindingar sínar. Það er landsdómstóls að skera úr um hvort fjármálastofnun hafi veitt neytanda nægar upplýsingar til að hann hafi getað kynnt sér tiltekna virkni aðferðarinnar sem notuð er við útreikning vaxtanna, og, þegar við á, samspil þess fyrirkomulags við fyrirkomulag sem mælt er fyrir um í öðrum samningsskilmálum.
4. Það er landsdómstóls að skera úr um, með hliðsjón af málavöxtum og þeim viðmiðum sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 3. gr. og 5. gr. tilskipunar 93/13, hvort skilmálar samnings um fasteignalán með breytilegum vöxtum uppfylli kröfur tilskipunarinnar um góða trú, jafnvægi og gagnsæi. Mat á því hvort samningsskilmáli sé óréttmætur skal taka tillit til þess hvers konar vörur eða þjónustu samningurinn varðar, meðal annars að litið sé til sérstöðu fasteignalánasamninga og þeirrar ríku neytendaverndar sem um þá gilda, eins og ráða má bæði af dómaframkvæmd í tengslum við tilskipun 93/13 og gagnsæiskröfum tilskipunar 2014/17.
5. Skilmálar eins og þeir sem deilt er um í málunum sem rekin eru fyrir landsdómstólnum verða að teljast óréttmætir samkvæmt 1. mgr. 3. gr. tilskipunar 93/13 ef þeir valda umtalsverðu ójafnvægi réttinda og skyldna milli samningsaðila samkvæmt samningnum, neytanda til tjóns. Það er landsdómstólanna að skera úr um hvort svo sé.
6. Í málunum sem rekin eru fyrir þeim er það landsdómstólanna að meta hvort ógilding óréttmætra skilmála í þeim fasteignalánasamningum sem um ræðir sé líkleg til að koma í veg fyrir að samningarnir geti haldið gildi sínu. Komi ógilding slíkra skilmála í veg fyrir að samningur geti haldið gildi sínu er það jafnframt í höndum landsdómstólanna að skipta hinum óréttmætu skilmálum út fyrir skilmála í samræmi við ákvæði landsréttar og kemur 1. mgr. 7. gr. tilskipunar 93/13 ekki í veg fyrir það. Ef umræddir samningar geta hins vegar haldið gildi sínu án umræddra skilmála heimilar 1. mgr. 6. gr. tilskipunarinnar þó ekki landsdómstólum að skipta hinum óréttmætu skilmálum út fyrir skilmála í samræmi við ákvæði landsréttar.
18. Sama dag og þessi dómur EFTA-dómstólsins gekk kvað hann upp annan dóm í máli E-4/23, Neytendastofa gegn Íslandsbanka hf. Þar er meðal annars fjallað um hvort sami skilmáli í fasteignalánum stefnda standist áskilnað f-liðar 2. mgr. 10. gr. tilskipunar 2008/48/EB um lánasamninga fyrir neytendur. Verður nánar vikið að þeim dómi síðar eftir því sem úrlausn málsins gefur tilefni til.
Málsástæður
Helstu málsástæður áfrýjenda
19. Áfrýjendur byggja á því að 2. töluliður skilmála í stöðluðu veðskuldabréfi stefnda sem veiti lánveitanda einhliða heimild til vaxtabreytinga sé óskýr og ósanngjarn. Hann geymi hvorki skýr viðmið um grundvöll breytinga á vöxtum né aðferð stefnda við ákvörðun um vaxtabreytingar. Skilmálinn uppfylli ekki kröfur um gagnsæi samkvæmt lögum nr. 118/2016 og sé ósanngjarn samkvæmt 36. gr. c laga nr. 7/1936. Því sé hann ólögmætur og ógildur.
20. Áfrýjendur telja að eini þáttur skilmálans sem talist geti skýrt afmarkaður séu stýrivextir Seðlabanka Íslands þótt óljóst sé hvenær og hvernig stefndi beiti þeim við vaxtaákvarðanir sínar. Tilvísun í skilmálunum til fjármögnunarkostnaðar og rekstrarkostnaðar og vægi þeirra þátta við vaxtabreytingar sé óljóst. Orðin „opinberar álögur“ megi skilja svo að stefndi geti velt auknum kostnaði vegna skattlagningar á lántaka í formi vaxtahækkana. Þá virðist vísitala neysluverðs miðast við opinbera vísitölu sem hægt sé að staðreyna en þó óljóst með hvaða hætti hún hafi áhrif á vaxtabreytingar. Loks sé vísað til annars ófyrirséðs kostnaðar sem galopni ákvæðið og veiti stefnda heimild til að velta hvers konar nýjum kostnaði sem falli til í rekstri bankans yfir á lántaka.
21. Enn fremur benda áfrýjendur á að þættir sem áhrif hafi við vaxtaákvarðanir séu ekki tæmandi taldir þegar litið sé til þeirra orða skilmálans að breytingar á vöxtum taki „meðal annars mið af þeim“. Þá ljúki talningunni með orðunum „o.s.frv.“ en þannig hafi stefndi heimild sína til vaxtabreytinga opna í báða enda.
22. Áfrýjendur taka fram að ekkert komi fram í skilmálanum um vægi einstakra þátta við vaxtaákvarðanir eða þá aðferð sem beitt sé til að reikna út vextina. Þetta jafngildi því að stefndi hafi sjálfdæmi um kostnað sem neytanda sé gert að greiða. Það sé andstætt fyrirmælum fyrri málsliðar 34. gr. laga nr. 118/2016 um að lánveitanda sé einungis heimilt að notast við viðmiðunarvexti sem séu skýrir, aðgengilegir, hlutlægir og unnt að sannreyna, bæði fyrir aðila samnings og Neytendastofu. Greinin byggist á 24. gr. tilskipunar 2014/17/ESB sem setji sömu skilyrði. Líta beri til skýringa þessa ákvæðis tilskipunarinnar í ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins. Af þessu leiðir að stefndi geti ekki byggt á hinum ólögmæta skilmála. Þá uppfylli hann ekki heldur kröfur síðari málsliðar 1. mgr. 34. gr. um að greina skuli frá skilyrðum og málsmeðferð við breytingu á vöxtum. Mótmælt er röksemdum stefnda um að ákvæðið sé sérregla í andstöðu við markmið tilskipana um fasteignalán og neytendalán um gagnsæi.
23. Áfrýjendur halda því einnig fram að stefndi hafi ekki uppfyllt skyldur sínar um upplýsingagjöf til lántaka samkvæmt III. kafla laga nr. 118/2016, þar á meðal 16. gr. þeirra.
24. Áfrýjendur byggja jafnframt á að skilmálinn sé ósanngjarn samkvæmt 36. gr. c laga nr. 7/1936, sbr. ákvæði tilskipunar 93/13/EBE. Í ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins í sameinuðum málum E-13/22 og E-1/23 sé útskýrt hvað sé fólgið í kröfum tilskipunarinnar um góða trú, gagnsæi og jafnvægi í skilmálum samninga um fasteignalán. Ljóst sé að stefndi hafi ekki verið í góðri trú, enda hafi Neytendastofa gert athugasemdir við óskýrleika skilmálans árið 2019. Neytandi sé ekki í aðstöðu til að skilja hvaða aðferð sé beitt við ákvörðun vaxta og meta út frá skýrum og skiljanlegum viðmiðum fjárhagslegar afleiðingar slíks skilmála.
25. Í ljósi framangreindra röksemda beri að viðurkenna að hinn umþrætti skilmáli um breytilega vexti sé ekki bindandi fyrir áfrýjendur. Fram komi í 3. mgr. 36. gr. c laga nr. 7/1936 að sé skilmála vikið til hliðar í heild eða hluta eða breytt skuli samningurinn að kröfu neytanda gilda að öðru leyti án breytinga verði hann efndur án skilmálans. Staða áfrýjenda skuli því vera eins og skilmálinn hefði aldrei verið til staðar. Verði ekki fallist á að samningurinn geti haldið gildi sínu án skilmálans beri að láta lán áfrýjenda bera vexti sem Seðlabanki Íslands ákveði, sbr. 1. mgr. 18. gr. og 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001. Dómstólum sé hins vegar ekki heimilt að breyta efni ósanngjarns samningsskilmála svo sem staðfest hafi verið í framkvæmd Evrópudómstólsins um skýringu á ákvæðum tilskipunar 93/13/EBE.
26. Um fjárkröfu sína vísa áfrýjendur til 5. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001 um að kröfuhafa beri að endurgreiða þá fjárhæð sem hann hafi ranglega haft af skuldara vegna ólögmætra vaxta. Þau krefjast endurgreiðslu á þeirri fjárhæð sem þau hafi greitt umfram skyldu á því tímabili sem krafan taki til vegna óheimilla vaxtahækkana og miða útreikning sinn við að lánið hefði frá upphafi borið vexti samkvæmt 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001.
Helstu málsástæður stefnda
27. Stefndi tekur fram að ákvæði laga nr. 118/2016 eigi við um veðskuldabréf það sem deilt sé um í málinu og óumdeilt að lögin taki mið af ákvæðum tilskipunar 2014/17/ESB. Á hinn bóginn sé ljóst að þegar áfrýjendur gáfu út veðskuldabréfið 21. janúar 2021 hefði ekki verið búið að taka tilskipunina upp í EES-samninginn. Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar þar um hafi ekki tekið gildi fyrr en 1. nóvember sama ár. Af því leiði að 24. gr. tilskipunarinnar gildi ekki um skuldabréfið og íslenskir dómstólar séu ekki bundnir af því við úrlausn málsins að skýra lög nr. 118/2016 í samræmi við hana.
28. Stefndi telur að staðfesta eigi niðurstöðu hins áfrýjaða dóms enda séu skilmálar skuldabréfs áfrýjenda um breytilega vexti í fullu samræmi við lög nr. 118/2016. Af 34. gr. þeirra leiði að breytilegir vextir geti verið tvenns konar. Annars vegar sé í fyrri málslið 1. mgr. 34. gr. fjallað um fasteignalán þar sem vextir breytist í samræmi við viðmiðunargengi, vísitölur eða viðmiðunarvexti. Þar sé lánveitanda aðeins heimilt að notast við slíka þætti sem séu skýrir, aðgengilegir og unnt að sannreyna. Hins vegar sé í síðari málslið greinarinnar fjallað um lán þar sem breytingar á vöxtum byggist á ákvörðunum lánveitanda og séu ekki tengdar við fyrrgreinda þætti. Þar sé einungis gerð sú krafa að í samningi um fasteignalán skuli greint frá skilyrðum og málsmeðferð við breytingu á vöxtum.
29. Stefndi bendir á að hann hafi fullnægt upplýsingaskyldu sinni. Einnig sé skýrt tekið fram í veðskuldabréfinu að greiða eigi af höfuðstól skuldarinnar breytilega óverðtryggða húsnæðislánavexti eins og þeir séu ákveðnir á hverjum tíma og birtir í vaxtatöflu stefnda. Þá sé lýst þeim þáttum sem vextirnir og breytingar á þeim taki mið af. Enn fremur sé gerð grein fyrir málsmeðferð við vaxtabreytingar.
30. Stefndi tekur fram að ákvæði tilskipunar 2014/17/ESB séu ekki sambærileg 34. gr. laga nr. 118/2016 um fasteignalán til neytenda. Ákvæði hliðstætt síðari málslið 1. mgr. 34. gr. laganna sé ekki að finna í tilskipuninni. Því hafi ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins takmarkaða þýðingu við úrlausn málsins. Staðfesta beri þá niðurstöðu hins áfrýjaða dóms að skýringar á íslenskum lögum til samræmis við EES-samninginn geti aldrei leitt til þess að litið verði fram hjá orðalagi lagaákvæðis sem sé ósambærilegt EES-reglu um efnið. Sú lögskýring að fella alla samninga um fasteignalán til neytenda undir skilyrði fyrri málsliðar 1. mgr. 34. gr. laga nr. 118/2016 geti ekki rúmast innan ótvíræðs orðalags síðari málsliðar greinarinnar.
31. Þá telur stefndi að ekki séu skilyrði til að ógilda 2. tölulið skilmála veðskuldabréfsins á grundvelli 36. eða 36. gr. c laga nr. 7/1936. Áfrýjendur hafi sjálfir valið að taka umrætt lán hjá stefnda. Á því tímabili sem krafa þeirra taki til hafi vextir á láninu verið lægri en ef þau hefðu í upphafi tekið lán með föstum vöxtum. Neytendum hafi aldrei staðið til boða lán hjá stefnda með föstum vöxtum til 40 ára. Auk þess geti áfrýjendur samkvæmt 6. tölulið í skilmálum lánsins greitt það upp hvenær sem er án kostnaðar og tekið nýtt fasteignalán. Ekki sé skylt við slíkar aðstæður að framkvæma nýtt lánshæfis- og greiðslumat lántaka, sbr. 1. mgr. 23. gr. laga nr. 118/2016, en með þeirri skipan sé neytendum veittur raunhæfur kostur á að taka ný lán með hagstæðari kjörum.
32. Stefndi byggir á því að allar breytingar á vöxtum af láni áfrýjenda hafi verið gerðar í kjölfar ákvarðana Seðlabanka Íslands um hækkun stýrivaxta. Stefndi hafi breytt vöxtum á óverðtryggðum húsnæðislánum með breytilegum vöxtum fjórtán sinnum frá því að lánið var tekið og þar til gögn þar um voru lögð fyrir héraðsdóm. Í níu tilvikum hafi stefndi hækkað vexti jafn mikið og stýrivextir Seðlabankans höfðu verið hækkaðir en í fimm tilvikum hafi vextirnir verið hækkaðir minna. Eftir það hafi stefndi lækkað vexti fimm sinnum og í öllum tilvikum jafn mikið og stýrivextir Seðlabanka Íslands. Auk þess hafi vextir af láni áfrýjenda fylgt vaxtakjörum á markaði og geti því ekki talist ósanngjarnir eða andstæðir góðri viðskiptavenju. Þannig hafi vextir stefnda á óverðtryggðum húsnæðislánum með breytilegum vöxtum breyst með mjög svipuðum hætti og vextir annarra banka á hliðstæðum lánum.
33. Samkvæmt öllu þessu telur stefndi ljóst að skilmáli um ákvörðun vaxta á láni áfrýjenda geti ekki talist ósanngjarn eða andstæður góðri viðskiptavenju. Áfrýjendum hafi mátt vera ljós áhætta af því að gangast undir skyldu til greiðslu vaxta sem háðir væru einhliða ákvörðun bankans á grundvelli viðmiða sem talin voru upp í skilmála 2. töluliðar skuldabréfsins. Skilmálinn sé skýr og hafi hvorki raskað til muna jafnvægi í samningssambandi aðila né verði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig.
Löggjöf
34. Í málinu reynir einkum á skýringu eftirfarandi ákvæða laga og Evróputilskipana sem teknar hafa verið upp í EES-samninginn og stefna að því að auka neytendavernd.
Lög nr. 118/2016 um fasteignalán til neytenda og tilskipun 2014/17/ESB um lánssamninga fyrir neytendur í tengslum við íbúðarhúsnæði
35. Lög nr. 118/2016 tóku gildi 1. apríl 2017. Þau fjalla um veitingu fasteignalána til neytenda í atvinnuskyni og í þeim voru tekin upp efnisákvæði tilskipunar 2014/17/ESB um lánssamninga fyrir neytendur í tengslum við íbúðarhúsnæði. Fyrir setningu þeirra giltu lög nr. 33/2013 um neytendalán um allar lánveitingar til neytenda í atvinnuskyni, einnig um fasteignalán. Þau innleiddu tilskipun 2008/48/EB um lánasamninga fyrir neytendur svo sem nánar verður rakið síðar.
36. Í 34. gr. laga nr. 118/2016 er ákvæði um lán með breytilegum vöxtum og er 1. mgr. svohljóðandi:
Ef í samningi um fasteignalán er kveðið á um að byggt sé á viðmiðunargengi, vísitölum eða viðmiðunarvöxtum við ákvörðun breytilegra vaxta er lánveitanda aðeins heimilt að notast við viðmiðunargengi, vísitölur eða viðmiðunarvexti sem eru skýrir, aðgengilegir, hlutlægir og unnt að sannreyna, bæði fyrir aðila samnings og Neytendastofu. Byggist ákvörðun um breytingu á vöxtum ekki á viðmiðunargengi, vísitölum eða viðmiðunarvöxtum skal í samningi um fasteignalán greint frá skilyrðum og málsmeðferð við breytingu á vöxtum.
37. Í skýringum við ákvæðið í greinargerð með frumvarpi til laganna var tekið fram að það byggðist á 24. gr. tilskipunar 2014/17/ESB að því er varðaði lán með breytilegum vöxtum. Þá sagði að ekki væri ætlað að ákvæðið hefði veruleg áhrif hér á landi en það kvæði á um að aðeins væri heimilt að notast við í samningi um fasteignalán viðmiðunargengi, vísitölur eða viðmiðunarvexti sem væru skýrir, aðgengilegir, hlutlægir og sannreynanlegir, bæði fyrir aðila samnings og Neytendastofu. Um síðari málslið 1. mgr. ákvæðisins sagði síðan:
Rétt er að taka fram að ákvæðið kemur ekki í veg fyrir að lánveitendur geti kveðið á um í samningi um fasteignalán að breyting á vöxtum sé ákveðin af lánveitanda með hliðsjón t.d. af fjármögnunarkostnaði eða rekstrarkostnaði. Sé vaxtabreyting byggð á slíkum viðmiðum ber lánveitanda að taka það skýrlega fram og útskýra við hvaða aðstæður vextir kunna að breytast. Enda segir í lokamálslið 1. mgr. að greina skuli frá skilyrðum og málsmeðferð við breytingu á vöxtum byggist ákvörðun um breytingu á vöxtum ekki á viðmiðunarvöxtum. Málsliðurinn byggist á f-lið 4. mgr. 7. gr. laga nr. 33/2013, um neytendalán. Hér er því lagt til að sömu reglur eigi við og samkvæmt gildandi rétti hvað varðar þær upplýsingar sem lánveitandi skal veita neytanda um við hvaða aðstæður vextir geti breyst.
38. Fyrrgreind tilskipun 2014/17/ESB um lánssamninga fyrir neytendur í tengslum við íbúðarhúsnæði var felld inn í EES-samninginn 8. maí 2019 með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 125/2019. Ákvörðunin tók gildi 1. nóvember 2021.
39. Samkvæmt 15. lið formálsorða tilskipunar 2014/17/ESB er markmið hennar að tryggja að neytendur sem gera lánssamninga sem tengjast fasteignum njóti víðtækrar verndar. Þá er tekið fram í 19. lið formálsorðanna að með tilliti til réttaröryggis eigi reglur Sambandsins á sviði lánssamninga sem tengjast íbúðarhúsnæði að vera í samræmi við og koma til fyllingar öðrum gerðum þess, einkum á sviði neytendaverndar og fjárhagslegs eftirlits.
40. Í 24. gr. tilskipunarinnar er svohljóðandi ákvæði um lán með breytilegum vöxtum:
Ef lánssamningurinn er lán með breytilegum vöxtum skulu aðildarríki tryggja að:
a) allar vísitölur eða viðmiðunarvextir, sem er beitt við útreikning á útlánsvöxtunum, séu skýrir, aðgengilegir, hlutlægir og sannprófanlegir fyrir aðilana að lánssamningnum og lögbær yfirvöld, og
b) sögulegum gögnum um vísitölur sem notaðar eru til að reikna út útlánsvextina sé viðhaldið, annaðhvort af þeim sem leggja fram þessar vísitölur eða lánveitendunum.
Lög nr. 33/2013 um neytendalán og tilskipun 2008/48/EB um lánasamninga fyrir neytendur
41. Tilskipun 2008/48/EB um lánasamninga fyrir neytendur gildir ekki um fasteignalán, sbr. a-lið 2. mgr. 2. gr. hennar. Þegar hún var innleidd í íslenskan rétt með lögum nr. 33/2013 um neytendalán ákvað Alþingi engu að síður að fasteignalán féllu einnig þar undir. Um það var í greinargerð með frumvarpi til laganna tekið fram að aðildarríkjum væri heimilt að fella fleiri tegundir lánasamninga undir gildissvið landslaga en tilgreindir væru í tilskipuninni.
42. Fyrrgreindur síðari málsliður 1. mgr. 34. gr. laga nr. 118/2016 er hliðstæður samsvarandi ákvæðum laga um neytendalán nr. 33/2013. Fyrirmæli um að upplýsa skuli neytanda um skilyrði og málsmeðferð við breytingu á útlánsvöxtum koma fram í f-lið 4. mgr. 7. gr. laga nr. 33/2013 sem fjallar um upplýsingar áður en samningur er gerður og í samhljóða f-lið 2. mgr. 12. gr. þeirra laga um upplýsingar sem skulu koma fram í lánasamningi.
43. Ekki kemur fram í lögskýringargögnum um þessi ákvæði laga nr. 33/2013 hvað sé fólgið í orðunum „skilyrði og málsmeðferð“ við ákvörðun um vaxtabreytingu. Í skýringum með frumvarpi til laganna er þar um vísað til orða 5. og 10. gr. tilskipunar 2008/48/EB um lánasamninga fyrir neytendur varðandi breytingar á útlánsvöxtum.
Lög nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga og tilskipun 93/13/EBE um ósanngjarna skilmála í neytendasamningum
44. Í 36. og 36. gr. c laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, sbr. lög nr. 14/1995, eru meðal annars tilgreindar eftirfarandi heimildir til ógildingar á samningi:
36. gr. Samningi má víkja til hliðar í heild eða að hluta, eða breyta, ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig, sbr. þó 36. gr. c. Hið sama á við um aðra löggerninga.
Við mat skv. 1. mgr. skal líta til efnis samnings, stöðu samningsaðilja, atvika við samningsgerðina og atvika sem síðar komu til.
36. gr. c. Ákvæði 36. gr. gilda um samninga skv. 1. mgr. 36. gr. a. þó með þeim breytingum sem leiðir af 2. og 3. mgr.
Við mat á því hvort samningur skv. 1. mgr. sé ósanngjarn skal líta til atriða og atvika sem nefnd eru í 2. mgr. 36. gr., m.a. skilmála í öðrum samningi sem hann tengist. Þó skal eigi taka tillit til atvika sem síðar komu til, neytanda í óhag.
Samningur telst ósanngjarn stríði hann gegn góðum viðskiptaháttum og raski til muna jafnvægi milli réttinda og skyldna samningsaðila, neytanda í óhag. Ef slíkum skilmála er vikið til hliðar í heild eða að hluta, eða breytt, skal samningurinn að kröfu neytanda gilda að öðru leyti án breytinga verði hann efndur án skilmálans.
45. Fyrrgreind breytingalög nr. 14/1995 voru sett til að innleiða tilskipun 93/13/EBE um ósanngjarna skilmála í neytendasamningum. Í greinargerð með frumvarpinu var lýst með hvaða hætti ákvæði þess stefndu að aukinni neytendavernd og jafnframt því markmiði að samræma löggjöf EFTA-ríkjanna um vissa ósanngjarna samningsskilmála í neytendasamningum, einkum í stöðluðum samningsskilmálum.
46. Ákvæði laga nr. 14/1995 innleiddu ákvæði í 3., 5. og 6. gr. tilskipunarinnar. Samkvæmt 3. gr. hennar telst samningsskilmáli þannig ósanngjarn ef hann veldur umtalsverðu ójafnvægi réttinda og skyldna samningsaðila samkvæmt samningnum neytanda til tjóns. Þá kemur fram í 5. gr. að samningar með skriflegum skilmálum skuli orðaðir á skýru, skiljanlegu máli og í vafatilvikum gildi sú túlkun sem neytendum komi best. Þá skulu aðildarríki samkvæmt 6. gr. hennar mæla fyrir um að ósanngjarnir skilmálar í neytendasamningi séu samkvæmt landslögum þeirra ekki bindandi fyrir neytendur og samningurinn verði áfram bindandi fyrir aðila ef hann getur haldið gildi sínu að öðru leyti án ósanngjörnu skilmálanna.
Niðurstaða
Gildi Evróputilskipana um neytendavernd á sviði lánasamninga
47. Aðila máls greinir á hvort skýra beri ákvæði laga nr. 118/2016 um fasteignalán til neytenda með hliðsjón af tilskipun 2014/17/ESB. Stefndi byggir á að hún hafi ekki verið gildur EES-réttur þegar umrætt skuldabréf var gefið út 21. janúar 2021 þar sem ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um að taka gerðina upp í EES-samninginn hafi ekki tekið gildi fyrr en 1. nóvember sama ár.
48. Sem fyrr greinir voru lög nr. 118/2016 sett til að innleiða tilskipun 2014/17/ESB, svo sem lýst er í greinargerð frumvarps til laganna og skýringum ákvæðis um lán með breytilegum vöxtum í 34. gr. Þótt þjóðréttarskuldbinding að EES-rétti um að innleiða tilskipunina í landsrétt hafi samkvæmt framansögðu ekki stofnast fyrr en 1. nóvember 2021 er engu að síður til þess að líta að lögin öðluðust gildi 1. janúar 2017. Samkvæmt viðurkenndum sjónarmiðum um skýringu settra laga fékk efni tilskipunarinnar því vægi við lögskýringu með gildistöku þeirra enda vilji löggjafans skýr að þessu leyti.
49. Til viðbótar framangreindu gerir tilskipun 2014/17/ESB ráð fyrir að það sé komið undir hverju EES-ríki hvort það ákveður með lögum að veita henni rýmra gildissvið þannig að hún nái einnig yfir lánasamninga sem annars myndu falla þar utan. Má um það vísa til 9. og 13. liðs í formálsorðum hennar, sbr. einnig 1. mgr. 43. gr. og umfjöllunar í 59. og 60. lið ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins í fyrrgreindum sameinuðum málum E-13/22 og E-1/23. Samkvæmt framangreindu er hafnað málsástæðum stefnda um að líta beri fram hjá ákvæðum tilskipunarinnar við skýringu á ákvæðum laga nr. 118/2016.
50. Sama gildir um tengsl ákvæða laga nr. 33/2013 um neytendalán við tilskipun 2008/48/EB um lánasamninga fyrir neytendur. Sem fyrr segir ákvað löggjafinn við innleiðingu hennar með lögum nr. 33/2013 að fella einnig fasteignalán undir lögin þótt slík lán féllu utan gildissviðs hennar. Þótt skýring laganna í ljósi tilskipunar 2008/48/EB verði þannig ekki leidd af þjóðréttarlegri skyldu ríkisins er ljóst, þegar litið er til framangreinds markmiðs laga nr. 33/2013 og tilvísunar til þeirra í skýringum á efni 34. gr. laga nr. 118/2016, að þau verða skýrð með hliðsjón af henni.
Um lögmæti skilmála fasteignaláns áfrýjenda
51. Lög nr. 118/2016 gera ríkar kröfur til lánveitanda bæði um upplýsingagjöf til neytenda áður en lán er tekið og hvað skuli koma fram í samningi um fasteignalán. Um upplýsingagjöf fyrir lántöku er einkum fjallað í 12. gr. um almennar upplýsingar um lánaframboð, 13. gr. um að upplýsingar skuli miðaðar að aðstæðum hvers neytanda svo að hann geti tekið upplýsta ákvörðun og í 16. gr. um skyldu til að útskýra fyrir neytendum hvaða áhrif breytingar á vöxtum hafi á fjárhæð reglulegra endurgreiðslna.
52. Af gögnum málsins verður ráðið að stefndi hafi að formi til gætt þeirrar upplýsingaskyldu sem fyrrgreind lagafyrirmæli lögðu honum á herðar áður en skuldabréfið var gefið út. Þannig var áfrýjendum afhent útfyllt staðlað eyðublað í samræmi við fyrirmynd í II. viðauka tilskipunar 2014/17/ESB með upplýsingum um lánið og helstu eiginleika þess. Auk þess fengu áfrýjendur afhent skjal Neytendastofu með almennum upplýsingum og dæmum um áhrif verðlags og breytilegra vaxta á höfuðstól og greiðslubyrði lána. Upplýsingar í eyðublaðinu um atriði sem stefndi leggur til grundvallar við ákvarðanir um vaxtabreytingar eru í meginatriðum samhljóða því sem kemur fram í 2. tölulið skilmála veðskuldabréfsins.
53. Áður en leyst verður úr kröfu áfrýjenda um að skilmáli skuldabréfsins teljist ógildur samkvæmt 36. gr. c laga nr. 7/1936 ber að leggja mat á þau fyrirmæli 34. gr. laga nr. 118/2016 að séu breytingar á vöxtum byggðar á viðmiðunargengi, vísitölum eða viðmiðunarvöxtum sé lánveitanda aðeins heimilt að byggja á slíkum þáttum sem eru „skýrir, aðgengilegir, hlutlægir og unnt að sannreyna” svo og í öðrum tilvikum hvort greint sé frá „skilyrðum og málsmeðferð“ ákvörðunar um vaxtabreytingu. Skilmálar sem ekki uppfylla þessi skilyrði laga nr. 118/2016 kunna að skerða réttarstöðu neytandans og raska til muna jafnvægi milli samningsaðila, neytanda í óhag í skilningi 2. mgr. 36. gr. c laga nr. 7/1936 eins og það ákvæði verður skýrt með hliðsjón af tilskipun 93/13/EBE, sbr. 88. lið í ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins.
54. Samkvæmt þessu hafa fyrirmæli laga nr. 118/2016 þýðingu við úrlausn þess hvort skilmáli sé ógildanlegur í skilningi 36. gr. c laga nr. 7/1936. Hér á eftir verður því fyrst leyst úr því hvort stefndi hafi efnislega gætt upplýsingaskyldu sinnar samkvæmt fyrrgreindu lögunum og hvort efni umrædds skilmála veðskuldabréfsins uppfylli nánari kröfur 1. mgr. 34. gr. þeirra. Að svo búnu verður fjallað um hvort og að hvaða marki skilmálinn verði að kröfu áfrýjenda ógiltur samkvæmt 36. gr. c laga nr. 7/1936.
1) Um efni 34. gr. laga nr. 118/2016 og samspil Evróputilskipana um lánasamninga
55. Efnisþættir 1. mgr. 34. gr. laga nr. 118/2016 eru tveir eins og áður er lýst. Í fyrri málslið er innleidd sú regla 24. gr. tilskipunar 2014/17/ESB að þegar ákvörðun um breytingu á vöxtum byggist á viðmiðunargengi, vísitölu eða viðmiðunarvöxtum skuli þeir vera gagnsæir, aðgengilegir, hlutlægir og sannreynanlegir. Í síðari málsliðnum kemur síðan fram að þegar ákvörðun byggist ekki á þessum þáttum skuli í samningi um fasteignalán greina frá skilyrðum og málsmeðferð við breytingu á vöxtum. Sem áður greinir er þessi málsliður sóttur í lög nr. 33/2013 um neytendalán að fyrirmynd tilskipunar 2008/48/EB. Þannig endurspeglar 1. mgr. 34. gr. laga nr. 118/2016 samspil beggja tilskipananna.
56. Samkvæmt 3. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið skal skýra lög og reglur, að svo miklu leyti sem við á, til samræmis við EES-samninginn og þær reglur sem á honum byggjast. Eðli máls samkvæmt tekur slík lögskýring til þess að orðum íslenskra laga verði svo sem framast er unnt gefin merking sem næst kemst því að svara til þeirra sameiginlegu reglna sem gilda á Evrópska efnahagssvæðinu. Þar sem lagaákvæði þau sem hér er fjallað um eru orðuð á sama veg og í EES-reglum reynir ekki á 3. gr. laga nr. 2/1993. Má ganga út frá því að þau hafi sama efnisinntak og þær reglur sem þau eiga að innleiða, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 15. maí 2024 í máli nr. 52/2023.
57. Stefndi heldur því fram að síðari málslið 1. mgr. 34. gr. laga nr. 118/2016 hafi verið ætlað að fela í sér undantekningu frá fyrirmælum 24. gr. tilskipunar 2014/17/ESB um fasteignalán. Svo sem fyrr greinir sækir þessi málsliður fyrirmynd til f-liðar 2. mgr. 10. gr. tilskipunar 2008/48/EB um neytendalán. Þannig er ótvírætt að báðir efnisþættir ákvæðisins byggjast á EES-reglum. Þar sem ekkert ósamræmi er fyrir hendi milli þeirra og texta 34. gr. laga nr. 118/2016, eins og fyrr greinir, verður lagaákvæðið skýrt í ljósi þeirra.
58. Við skýringu íslenskra laga um neytendavernd á sviði lánasamninga og úrlausn um hvort lánaskilmálar sem neytendum eru boðnir uppfylli kröfur um gagnsæi og skýrleika verður jafnframt litið heildstætt til sameiginlegs markmiðs þeirra EES-reglna sem gilda um efnið, svo sem rakið er í ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins, einkum 68. til 70. lið.
59. Tilskipun 2014/17/ESB var sett sérstaklega til að auka neytendavernd enn frekar og styrkja stöðu neytenda við lántöku til kaupa á íbúðarhúsnæði. Samkvæmt 19. lið formálsorða hennar eiga reglur á sviði lánasamninga sem tengjast íbúðarhúsnæði að vera í samræmi við og koma til fyllingar öðrum gerðum, einkum á sviði neytendaverndar. Í 67. lið formálsorðanna er undirstrikað mikilvægi þess að ríkt gagnsæi sé fyrir hendi til að neytanda sé ljóst eðli þeirra skuldbindinga sem gerðar eru með tilliti til fjármálastöðugleika og sveigjanleika á lánstíma. Jafnframt skuli neytendum veittar upplýsingar um útlánsvexti á samningstíma sem og áður en samningur er gerður.
60. Í 31. lið formálsorða tilskipunar 2008/48/EB er tekið fram að til að neytandi geti þekkt réttindi sín og skyldur samkvæmt lánasamningi skuli allar nauðsynlegar upplýsingar koma þar fram á skýran og hnitmiðaðan hátt. Enn fremur segir í 32. lið að svo fullt gagnsæi verði tryggt fyrir neytanda skuli veita honum upplýsingar um breytingar sem verða á breytilegum útlánsvöxtum og áhrif þeirra á greiðslur af láni.
61. Markmið framangreindra tilskipana stendur í nánum tengslum við tilskipun 93/13/EBE um ósanngjarna skilmála í neytendasamningum. Sú tilskipun mælir fyrir að vernda skuli rétt neytanda sem gengst undir staðlaða samningsskilmála og samningur valdi ekki umtalsverðu ójafnvægi milli réttinda og skyldna samningsaðila, neytanda til tjóns. Svo sem fram kemur í 76. og 77. lið ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins leiðir af 5. gr. hennar að hinum almenna neytanda á að vera kleift að skilja þá tilteknu aðferð sem beitt er við ákvörðun vaxta samkvæmt lánasamningi þannig að hann verði í aðstöðu til að meta, út frá skýrum, hlutlægum og skiljanlegum viðmiðum, hinar mögulega umtalsverðu afleiðingar slíks skilmála á fjárhagslegar skuldbindingar sínar. Á þessum grunni beri að meta hvort uppfylltar séu kröfur tilskipunarinnar um góða trú, jafnvægi og gagnsæi þar sem jafnframt beri að líta til þeirrar ríku neytendaverndar sem gildi um fasteignalánasamninga.
62. Í 2. málslið 2. töluliðar skilmála veðskuldabréfsins sem hér er til umfjöllunar eru taldir þættir sem heimilt er að byggja vaxtabreytingar á sem falla undir báða málsliði 1. mgr. 34. gr. laga nr. 118/2016. Verður hér á eftir metið hvernig einstakir þættir og framsetning þeirra samrýmast þeim kröfum sem lýst er í 1. mgr.
2) Um þætti skilmála sem vísa til stýrivaxta Seðlabanka Íslands og vísitölu neysluverðs
63. Við mat þátta sem taldir eru í 2. málslið 2. töluliðar skilmála stefnda er fyrst til þess að líta að í tveimur þeirra er vísað til viðmiðunarvaxta og vísitalna, það er annars vegar stýrivaxta Seðlabankans og hins vegar vísitölu neysluverðs. Við úrlausn um hvort þeir standist áskilnað 1. málsliðar 1. mgr. 34. gr. laga nr. 118/2016 um að vera skýrir, aðgengilegir, hlutlægir og unnt að sannreyna verða þeir fyrst metnir í ljósi fyrirmæla 24. gr. tilskipunar 2014/17/ESB.
64. Fyrir liggur að stýrivextir eru ákveðnir af opinberum aðila á grundvelli laga nr. 92/2019 um Seðlabanka Íslands. Þeir eru birtir og aðgengilegir á vef hans og unnt að sannreyna á hvaða forsendum þeir hvíla. Verður því ályktað, eins og fram kemur í 94. lið álits EFTA-dómstólsins, að upplýstum neytanda sé gert kleift að átta sig á hver birtir umrædda vexti og hvar og hvenær það er gert. Viðmiðið um stýrivexti fullnægir því eitt og sér skilyrðum 1. mgr. 34. laga nr. 118/2016 um gagnsæi við ákvarðanir stefnda um breytingu á vöxtum af húsnæðisláni áfrýjenda.
65. Jafnframt er ljóst að vísitala neysluverðs er opinber vísitala byggð á mælingum Hagstofu Íslands, sbr. lög nr. 163/2007 um Hagstofu Íslands og opinbera hagsýslugerð. Upplýsingar um þessa vísitölu eru öllum aðgengilegar á heimasíðu Hagstofunnar og ákvarðanir um hana byggjast á fyrir fram gefnum forsendum. Þetta viðmið telst því einnig eitt og sér skýrt, aðgengilegt, hlutlægt og unnt að sannreyna samkvæmt 34. gr. laga nr. 118/2016.
66. Á hinn bóginn er vægi vísitölu neysluverðs í ákvörðun um vaxtabreytingu og samspil við heimild stefnda til að breyta vöxtum á öðrum grundvelli, svo sem vegna stýrivaxtabreytinga, ekki frekar útskýrð í skilmálanum og er því eðli máls samkvæmt óvissu háð. Þar sem ekkert kemur fram um vægi vísitölunnar við aðra viðmiðunarþætti verður ekki séð að fullnægt sé kröfum um að einhliða vaxtabreytingar stefnda séu gerðar þannig að neytandi geti með fyrirsjáanlegum hætti áttað sig á þeim forsendum sem þeim liggja til grundvallar, sbr. til hliðsjónar 85. lið í ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins. Er þá bæði litið til krafna 34. gr. laga nr. 118/2016 um gagnsæi, eins og ákvæðið verður skýrt í ljósi 24. gr. tilskipunar 2014/17/ESB, og markmiða og meginreglna 1. mgr. 3. gr. og 5. gr. tilskipunar 93/13/EBE, sbr. einnig fyrirmæli í 3. þætti B-hluta viðauka II við fyrrgreindu tilskipunina um útskýringar á eiginleikum lánasamnings með breytilega vexti.
67. Áður er rakið að samningur aðila ber skýrlega með sér, svo sem fram kemur í heiti skuldabréfsins, að um er að ræða óverðtryggt húsnæðislán með breytilegum vöxtum. Einnig liggur fyrir að af hálfu stefnda var á þeim tíma sem samningurinn var gerður boðið upp á verðtryggð húsnæðislán, þar á meðal lán með föstum vöxtum þar sem höfuðstóll tekur breytingum til samræmis við vísitölu neysluverðs. Samkvæmt þessu verður ekki talið að samningsaðilar hafi stefnt að því að lánið myndi í reynd taka breytingum til samræmis við vísitölu neysluverðs eða fylgja þeirri vísitölu í öllu verulegu.
68. Stefndi bendir á að þær þrjár vaxtahækkanir á árinu 2021 sem greiðslukrafa áfrýjenda beinist að hafi aðeins byggst á breytingum á stýrivöxtum Seðlabanka Íslands. Fyrir Hæstarétt hefur hann einnig lagt fram fundargerðir efnahagsnefndar stefnda með forsendum ákvarðana um vaxtahækkanir á tímabilinu maí 2021 til maí 2025, þar á meðal af fundum 25. maí, 3. september og 20. október 2021. Er þar í öllum tilvikum vísað til undanfarandi ákvarðana peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands sem tilefnis vaxtahækkana óverðtryggðra húsnæðislána með breytilegum vöxtum. Á vefsíðu stefnda hafa einnig hverju sinni verið birtar fréttir um vaxtabreytingar þar sem hefur verið vísað til ákvarðana Seðlabanka Íslands um breytingar á stýrivöxtum.
69. Eins og málið liggur fyrir samkvæmt þessu verður lagt til grundvallar að tilvísun skilmála skuldabréfsins til breytinga á vísitölu neysluverðs sem grundvallar vaxtabreytinga samhliða stýrivöxtum Seðlabanka Íslands með þeim hætti sem áður greinir fullnægi ekki kröfum 1. mgr. 34. gr. laga nr. 118/2016.
3) Um aðra þætti skilmálans
70. Næst verður lagt mat á hvort þeir þættir 2. málsliðar 2. skilmála sem ekki vísa til viðmiðunarvaxta eða vísitalna uppfylli kröfur síðari málsliðar 1. mgr. 34. gr. laga nr. 118/2016 um að í samningi um fasteignalán skuli greint frá skilyrðum og málsmeðferð við breytingu á vöxtum. Sem fyrr greinir taka þær vaxtabreytingar „meðal annars mið af breytingum á fjármögnunarkostnaði (lánskjörum) bankans, rekstrarkostnaði, opinberum álögum og/eða öðrum ófyrirséðum kostnaði […] o.s.frv.“
71. Almennar tilvísanir til ofangreindra þátta fela í sér ófyrirséðar breytingar á vöxtum sem neytandi getur eðli máls samkvæmt ekki sannreynt. Þá eykur enn á óskýrleika skilmálans að þessu leyti að til þeirra megi líta „meðal annars“. Loks endar talning þátta málsliðarins á „o.s.frv.“ sem í reynd felur í sér opna og þar með ófyrirsjáanlega heimild stefnda til vaxtabreytinga.
72. Sem áður greinir ber að skýra 1. mgr. 34. gr. laga nr. 118/2016 í ljósi EES-reglna á sviði neytendalánasamninga þegar litið er til fyrrgreindra lögskýringagagna um markmið og uppruna ákvæðisins, sbr. f-lið 2. mgr. 10. gr. tilskipunar 2008/48/EB og þeirra krafna sem hún gerir til gagnsæis lánasamninga. Eru orðin „skilyrði og málsmeðferð“ við breytingu á vöxtum í þeirri tilskipun talin fela í sér að lánveitanda beri að taka skýrlega fram og útskýra við hvaða aðstæður vextir kunna að breytast.
73. Nánari skýringar á f-lið 2. mgr. 10. gr. tilskipunar 2008/48/EB um neytendalán er að finna í 126. og 127. lið ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins. Samkvæmt því skulu í lánasamningi koma fram, á skýran og hnitmiðaðan hátt, útlánsvextir og skilyrði sem gilda um beitingu þeirra svo og tímabil, skilyrði og málsmeðferð við breytingu á útlánsvöxtum. Einnig skulu neytanda veittar nægar upplýsingar til að hann geti kynnt sér tiltekna virkni aðferðarinnar sem notuð er við útreikning vaxtanna svo og samspil hennar og annarra skilmála.
74. Í öðru ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins samkvæmt dómi sem gekk sama dag, eins og fyrr greinir, í máli E-4/23, Neytendastofa gegn Íslandsbanka hf., var lagt mat á sömu skilmála og hér eru til umfjöllunar á grundvelli f-liðar 2. mgr. 10. gr. tilskipunar 2008/48/EB. Þar kemur fram að kröfur sem ákvæðið gerir til upplýsinga í lánasamningi séu ekki uppfylltar ef þar er að finna almenna tilvísun til ófyrirséðrar hækkunar á kostnaði lánveitanda eða annarra skilyrða sem lánveitanda er ókunnugt um fyrir breytingu útlánsvaxta.
75. Þótt stefndi geti samkvæmt 1. mgr. 34. gr. laga nr. 118/2016 sett í samning um fasteignalán með breytilegum vöxtum skilmála um að ákvarðanir um vaxtabreytingar hvíli á öðrum þáttum en viðmiðunarvöxtum og vísitölum, svo sem fjármögnunarkostnaði, léttir það samkvæmt framangreindu ekki þeirri skyldu af honum að í skilmálum láns komi fram á skýran, hnitmiðaðan og fyrirsjáanlegan hátt hver séu skilyrði breytinga á vöxtum og málsmeðferð slíkrar ákvörðunar.
76. Stefndi hefur þrátt fyrir þetta ekki leitast við að skýra hvernig framangreind viðmið um vaxtabreytingar uppfylla kröfu 34. gr. laga nr. 118/2016 um gagnsæi. Hann hefur vísað til þess að síðari málslið 1. mgr. hafi verið ætlað að standa sem sérregla sem ekki beri að skýra í ljósi EES-reglna en því hefur samkvæmt framansögðu verið hafnað.
77. Þegar allt framangreint er tekið saman varðandi þá þætti sem geta verið grundvöllur vaxtabreytinga samkvæmt 2. málslið 2. töluliðar skilmála skuldabréfsins uppfylla eingöngu stýrivextir Seðlabanka Íslands þær kröfur sem 1. mgr. 34. gr. laga nr. 118/2016 gerir til gagnsæis samningsskilmála fasteignaláns með breytilegum vöxtum. Af því leiðir jafnframt að stefndi uppfyllti ekki heldur upplýsingaskyldu sína gagnvart áfrýjendum áður en samningurinn var gerður, sbr. 12. og 16. gr. laga nr. 118/2016.
Krafa um að skilmáli um breytilega vexti skuli metinn ógildur
78. Að fenginni þeirri niðurstöðu að 2. málsliður 2. töluliðar skilmála í skuldabréfi áfrýjenda til stefnda samræmist ekki nema að hluta gagnsæiskröfum 1. mgr. 34. gr. laga nr. 118/2016 verður leyst úr því hvort hann teljist ósanngjarn í skilningi 36. gr. c laga nr. 7/1936 og skuli metinn ógildur. Áfrýjendur krefjast þess að lánasamningurinn skuli gilda áfram að öðru leyti og hann efndur án skilmálans þannig að lánið beri 3,4% fasta vexti út samningstímann eða í 40 ár frá útgáfu skuldabréfsins.
79. Í lögum nr. 118/2016 er ekki mælt fyrir um réttaráhrif þess að samningur um fasteignalán uppfylli ekki skilyrði laganna um gagnsæi. Þótt slíkir ágallar séu á skilmála skuldabréfs leiðir það ekki sjálfkrafa til þess að hann sé ógildur, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 27. maí 2021 í máli nr. 4/2021. Því þarf að fara fram atviksbundið mat á því hvort skilmáli sé ósanngjarn eða stríði gegn góðum viðskiptaháttum og raski til muna jafnvægi milli réttinda og skyldna samningsaðila neytanda í óhag samkvæmt fyrrgreindum ákvæða laga nr. 7/1936. Verði talið að svo sé þarf jafnframt að taka afstöðu til þess hvort samningur geti staðið án hins ósanngjarna skilmála samkvæmt 36. gr. c en þá ógildingarreglu ber að skýra í ljósi hliðstæðra ákvæða tilskipunar 93/13/EBE sem fyrr greinir, einkum 3., 5. og 6. gr. hennar.
80. Samkvæmt 36. gr. laga nr. 7/1936 má víkja samningi til hliðar í heild eða hluta eða breyta ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig. Þá segir í 3. mgr. 36. gr. c laganna að samningur teljist ósanngjarn stríði hann gegn góðum viðskiptaháttum og raski til muna jafnvægi milli réttinda og skyldna samningsaðila neytanda í óhag. Einnig segir að verði slíkum skilmála vikið til hliðar í heild eða að hluta eða breytt skuli samningurinn að kröfu neytanda gilda að öðru leyti án breytinga verði hann efndur án hans.
81. Við mat á ósanngirni skilmála veðskuldabréfs áfrýjenda samkvæmt lögum nr. 7/1936 og tilskipunar 93/13/EBE ber fyrst að líta til orðalags 2. málsliðar 2. töluliðar hans. Þótt textinn sé hlutlægt séð á skýru og skiljanlegu máli eru flest þau hugtök sem þar koma fram ekki afmörkuð frekar og óvissu háð. Afleiðingar af ógagnsæjum þáttum skilmálans sem lýst var að framan leiða til þeirrar niðurstöðu að stefndi getur í reynd tekið einhliða ákvörðun um breytingar á vöxtum á grundvelli þátta sem áfrýjendum er ókleift að sannreyna. Þá voru ekki allir þættir þekktir við samningsgerðina þar sem þeir eru ekki tæmandi taldir og áfrýjendum því ókleift að átta sig á umfangi samningsskuldbindinga sinna. Þessu til viðbótar gátu forsendur vaxtahækkana verið breytilegar sem og innbyrðis vægi þeirra hverju sinni í ákvörðunum nefndar stefnda svo sem fram kemur síðar í texta 2. töluliðar.
82. Þegar 2. málsliður 2. töluliðar veðskuldabréfsins er metinn með tilliti til þessara sjónarmiða er fallist á með áfrýjendum að skilmálinn sé til þess fallinn að raska til muna jafnvægi milli réttinda og skyldna aðila samningsins áfrýjendum í óhag í skilningi 36. gr. c laga nr. 7/1936. Ræður þar ekki úrslitum, eins og stefndi byggir á, að áfrýjendum sé frjálst hvenær sem er að greiða upp lánið án kostnaðar, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 12. október 2017 í máli nr. 623/2016. Samkvæmt þessu og þegar litið er til skorts á nauðsynlegum skýrleika og gagnsæi um samningsskyldur áfrýjenda, eins og áður er rakið um 34. gr. laga nr. 118/2016, eru þeir þættir um breytingar á vöxtum sem taldir eru í 2. málslið 2. töluliðar, aðrir en stýrivextir Seðlabanka Íslands, ósanngjarnir skilmálar samkvæmt 36. gr. c laga nr. 7/1936.
83. Í lokamálslið 3. mgr. 36. gr. c er tekið fram að sé skilmála samnings vikið til hliðar í heild eða hluta skuli samningurinn að kröfu neytanda gilda að öðru leyti án breytinga verði hann efndur án skilmálans. Ákvæðið endurspeglar að þessu leyti fyrirmæli 1. mgr. 6. gr. tilskipunar 93/13/EBE um að aðildarríki skuli tryggja að ósanngjarnir skilmálar séu ekki bindandi fyrir neytendur en jafnframt að samningurinn verði áfram bindandi fyrir samningsaðila ef hann getur að öðru leyti haldið gildi sínu án ósanngjörnu skilmálanna.
84. Verði 2. töluliður skilmála skuldabréfsins felldur úr gildi í heild sinni eins og áfrýjendur krefjast er ljóst að lánasamningur aðila getur ekki haldið gildi sínu enda er þá fallinn niður órjúfanlegur hluti af meginefni hans sem er um húsnæðislán með breytilegum vöxtum. Niðurfelling skilmálans myndi því í reynd þýða ógildi samnings aðila í heild eftir atvikum með sérlega óhagstæðum afleiðingum fyrir áfrýjendur, sbr. til hliðsjónar umfjöllun í 140. lið ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins.
85. Áfrýjendur byggja á að verði samningurinn ekki talinn geta haldið gildi sínu án 2. töluliðar skilmálans skuli beita 18. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu sem mæli fyrir að þegar samningsákvæði um vexti teljist ógild skuli peningakrafa bera vexti samkvæmt 1. málslið 4. gr. laganna. Þau telja á hinn bóginn ekki standast áskilnað 36. gr. c laga nr. 7/1936 og tilskipunar 93/13/EBE að ógilda skilmálann að hluta. Með því væru dómstólar í reynd að endurskoða ákvæði samnings milli aðila og breyta efni hans en það færi í bága við dómaframkvæmd Evrópudómstólsins um skýringu tilskipunar 93/13/EBE. Áfrýjendur vísa þar meðal annars til dóms Evrópudómstólsins 30. maí 2013 í máli C-488/11 þar sem fram komi að það myndi grafa undan markmiði 7. gr. tilskipunarinnar ef dómstólar aðildarríkja gætu endurskoðað efni ósanngjarns samningsskilmála. Hliðstæðar skýringar í þessu tilliti komi fram í fyrrgreindu ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins, einkum 138. og 139. lið og umfjöllun hans um dómaframkvæmd Evrópudómstólsins þess efnis að dómstóll geti ekki breytt efni ósanngjarnra skilmála, sbr. til dæmis dóm 26. mars 2019 í máli C-70/17.
86. Hvað sem þessu líður verður að horfa til þess að umræddur skilmáli skuldabréfsins vísar til fleiri þátta sem vaxtabreytingar geta byggst á og getur hver og einn þeirra staðið sjálfstætt. Ekki ræður úrslitum í því efni þótt um sé að ræða þætti sem settir eru fram hver á fætur öðrum í sama málslið. Verður því að leggja til grundvallar að hægt sé að greina þá þætti skilmálans sem eru ósanngjarnir frá þeim sem eru það ekki og standast áskilnað 1. mgr. 34. laga nr. 118/2016. Geti samningurinn haldið gildi sínu án hinna ósanngjörnu þátta skilmálans næst það markmið 3. mgr. 36. gr. c laga nr. 7/1936 að koma á jafnvægi milli réttinda og skyldna aðila.
87. Í þessu sambandi má til hliðsjónar vísa til dóms Evrópudómstólsins 29. apríl 2021 í máli C-19/20. Þar kemur fram að tilskipun 93/13/EBE áskilji ekki að landsdómstóll ógildi, auk skilmála sem taldir eru ósanngjarnir, þá skilmála sem ekki eru flokkaðir sem slíkir. Jafnframt er vísað til þess markmiðs tilskipunarinnar að endurheimta jafnvægi milli samningsaðila með því að beita ekki þeim samningsskilmálum sem taldir eru ósanngjarnir en jafnframt að viðhalda í meginatriðum gildi annarra skilmála samningsins, sbr. nánar 72. lið dómsins.
88. Þegar krafa áfrýjenda um ógildingu skilmála veðskuldabréfsins er metin í ljósi þessara sjónarmiða ber að líta til þess sem fyrr var rakið að ekki fara allir þættir 2. málsliðar 2. töluliðar skilmála þess í bága við kröfur sem lög nr. 118/2016 gera til gagnsæis samningsskilmála fasteignaláns með breytilegum vöxtum. Að framan hefur því verið lýst hvernig stýrivextir Seðlabanka Íslands eru aðgreinanlegir frá öðrum þáttum sem þar eru taldir. Verður ekki á það fallist að tilvísun til þessa þáttar, eins og sér, stríði gegn góðum viðskiptaháttum eða raski til muna jafnvægi milli réttinda og skyldna samningsaðila áfrýjendum í óhag samkvæmt 3. mgr. 36. gr. c laga nr. 7/1936, sbr. 1. mgr. 3. gr. tilskipunar 13/93/EBE.
89. Bent er á að með því að fella úr gildi aðra þætti skilmálans en tilvísun til stýrivaxta Seðlabanka Íslands er heimild stefnda til hækkunar á vöxtum húsnæðisláns áfrýjenda samkvæmt skuldabréfinu þrengd verulega til hagsbóta fyrir neytendur. Fyrir liggur að Neytendastofa hefur fjallað um skilmála stefnda um vaxtabreytingar, sambærilega þeim sem um ræðir í máli þessu, og komist að þeirri niðurstöðu að bankinn hafi með ófullnægjandi upplýsingagjöf brotið gegn tilteknum fyrirmælum laga nr. 33/2013. Í dómsmáli sem stefndi höfðaði til ógildingar á þeirri ákvörðun leitaði Landsréttur ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins í máli E-4/23 sem áður greinir. Í kjölfarið sýknaði Landsréttur Neytendastofu af ógildingarkröfu stefnda með dómi 13. febrúar 2025 í máli nr. 99/2022. Er þetta til marks um að opinbert eftirlit með þeirri löggjöf sem innleiðir Evróputilskipanir um neytendavernd sé virkt og varnaðaráhrif þeirra gagnvart lánveitendum séu einnig tryggð með þeim hætti.
90. Að virtri þessari niðurstöðu eru ekki efni til að fjalla frekar um þá málsástæðu áfrýjenda að í stað skilmálans í heild skuli beita 18. gr. laga nr. 38/2001 og lánið bera vexti samkvæmt 1. málslið 4. gr. laganna.
91. Að öllu framangreindu virtu er fallist á kröfu áfrýjenda um að ógilda 2. málslið 2. töluliðar skilmála skuldabréfs um breytingar á vöxtum á láni þeirra að því leyti sem þar er vísað til annarra þátta en stýrivaxta Seðlabanka Íslands.
Aðrar kröfur áfrýjenda
92. Önnur krafa áfrýjenda lýtur að viðurkenningu á að stefnda hafi verið óheimilt að hækka vaxtafót skuldar þeirra samkvæmt veðskuldabréfinu, sbr. fyrrgreindar tilkynningar hans til áfrýjenda um þrjár vaxtabreytingar á árinu 2021. Þriðja dómkrafan er síðan fjárkrafa sem svarar til þeirrar hækkunar. Þessar kröfur eru reistar á þeim sama grundvelli að hækkanirnar hafi verið óheimilar og verður fjallað um þær í einu lagi.
93. Um fjárkröfu sína á hendur stefnda vísa áfrýjendur til 5. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001 um að kröfuhafa beri að endurgreiða skuldara þá fjárhæð sem hann hafi ranglega haft af skuldara vegna ólögmætra umframvaxta. Þau krefjast því endurgreiðslu á þeirri fjárhæð sem þau hafi greitt umfram skyldu á því tímabili sem krafan taki til vegna óheimilla vaxtahækkana stefnda.
94. Að framan hefur verið rakið að ákvarðanir stefnda um vaxtahækkanir á árinu 2021 á láni áfrýjenda byggðust að öllu leyti á breytingum sem gerðar voru á stýrivöxtum Seðlabanka Íslands. Í ljósi framangreindrar niðurstöðu um að gildi þessa þáttar í 2. málslið 2. töluliðar skilmála skuldabréfsins standi óhaggað var stefnda heimilt að hækka vexti að því marki sem rúmaðist innan hækkunar stýrivaxta á því tímabili sem dómkrafan tekur til. Fyrir liggur að vextir á láni áfrýjenda hækkuðu á því tímabili minna en stýrivextir Seðlabanka Íslands. Ber því að sýkna stefnda af þessum kröfum áfrýjenda.
95. Í málinu er ekki höfð uppi krafa um málskostnað.
Dómsorð:
Ógiltur er 2. málsliður 2. töluliðar skilmála skuldabréfs um breytilega vexti í veðskuldabréfi nr. 4278 frá 21. janúar 2021, upphaflega að fjárhæð 56.610.000 krónur, sem áfrýjendur, Elva Dögg Sverrisdóttir og Ólafur Viggó Sigurðsson, gáfu út til viðurkenningar á skuld við stefnda, Íslandsbanka hf., að því leyti sem þar er vísað til annarra þátta en stýrivaxta Seðlabanka Íslands.
Stefndi er sýkn af öðrum kröfum áfrýjenda.