Hæstiréttur íslands

Mál nr. 6/2022

Viktoria Ludmilova Nikolova (sjálf)
gegn
Höldi ehf.

Lykilorð

  • Kærumál
  • Frávísun frá Hæstarétti
  • Endurupptaka máls í héraði
  • Þingmál

Reifun

Kærður var úrskurður Landsréttar þar sem staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að hafna beiðni V um endurupptöku á máli H ehf. á hendur henni sem lauk með áritun á stefnu um aðfararhæfi dómkrafna. Hæstiréttur vísaði til þess að í 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 væru tæmandi taldar þær dómsathafnir Landsréttar sem sæta kæru til Hæstaréttar. Meðal þeirra væri ekki úrskurður um hvort dómsúrlausn í héraði verði endurupptekin. Þá væri kæra málsins rituð á ensku en slíkt skjal bæri að rita á íslensku í samræmi við 1. mgr. 10. gr. laga nr. 91/1991. Var málinu vísað frá Hæstarétti.

Dómur Hæstaréttar

1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen, Ingveldur Einarsdóttir, Karl Axelsson og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. janúar 2022 en kærumálsgögn bárust réttinum 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Landsréttar 4. janúar 2022 þar sem staðfestur var úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. nóvember 2021 um að hafna beiðni sóknaraðila um endurupptöku á máli varnaraðila á hendur henni sem lauk 20. apríl 2021 með áritun á stefnu um aðfararhæfi dómkrafna. Um kæruheimild vísar sóknaraðili meðal annars til 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

3. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að endurupptaka málsins verði heimiluð.

4. Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

5. Í 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 eru tæmandi taldar þær dómsathafnir Landsréttar sem sæta kæru til Hæstaréttar. Meðal þeirra er ekki úrskurður um hvort dómsúrlausn í héraði verði endurupptekin. Auk þess er ekki fyrir hendi lagaheimild til þess að veita leyfi til að slíkur úrskurður verði kærður til réttarins. Þá er kæra málsins rituð á ensku en slíkt skjal ber að rita á íslensku í samræmi við 1. mgr. 10. gr. laga nr. 91/1991 um að þingmálið sé íslenska. Samkvæmt þessu verður málinu vísað frá Hæstarétti en hvor þessara ástæðna um sig stendur til þeirrar niðurstöðu.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.