Hæstiréttur íslands
Mál nr. 43/2022
Lykilorð
- Dánarbú
- Erfðaskrá
- Dánargjöf
- Lífsgjöf
Reifun
Dómur Hæstaréttar
1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Ingveldur Einarsdóttir, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
2. A áfrýjaði málinu til Hæstaréttar 15. ágúst 2022. Í áfrýjunarstefnu er þess krafist að skjali 3. desember 2018 sem ber yfirskriftina „Um ráðstöfun málverka minna“ til stefndu á eftirtöldum málverkum: Botnssúlur eftir Gunnlaug Blöndal, Hekla eftir Jón Stefánsson, Hrafnabjörg eftir Þórarin B. Þorláksson, Nýársnótt eftir Jóhannes Kjarval, ónefnd mynd (sólarlag) eftir Ásgrím Jónsson, andlitsmynd eftir Jóhannes Kjarval, mósaík 1963 eftir Jóhannes Kjarval og ónefnt (sjómenn) eftir Svein Björnsson „verði rift“ og viðurkennt að málverkin teljist hluti óskipts bús A og skammlífari maka hennar, E sem lést 11. febrúar 2019. Til vara er þess krafist að viðurkennt verði að málverkin teljist til fyrirframgreidds arfs stefndu við arfskipti eftir báða arfláta. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefndu á öllum dómstigum.
3. Stefndu krefjast þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur og áfrýjanda gert að greiða þeim málskostnað fyrir Hæstarétti.
4. A lést [...] 2023. Leyfi til einkaskipta á dánarbúi hennar var gefið út [...] 2023 og tók það við aðild að málinu fyrir Hæstarétti í samræmi við 2. mgr. 22. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Ágreiningsefni
5. Kjarni deilu aðila snýst um hvort ráðstöfun E á átta málverkum til dóttur sinnar og tveggja barnabarna hafi falið í sér lífsgjöf eða dánargjöf. Áfrýjandi telur að um hafi verið að ræða lífsgerning E sem beri að ógilda vegna þess að hann sé í ósamræmi við ákvæði sameiginlegrar erfðaskrár E og A frá 1. september 2016. Verði ekki á það fallist beri að líta svo á að ráðstöfunin sé ógild þar sem ekki hafi verið uppfyllt skilyrði um dánargjafir. Stefndu byggja hins vegar á því að afsal málverkanna hafi falið í sér lögmæta ráðstöfun E í lifanda lífi á hluta hjúskapareignar sinnar.
6. Með hinum áfrýjaða dómi var staðfestur héraðsdómur um sýknu stefndu.
7. Áfrýjunarleyfi var veitt 15. ágúst 2022, með ákvörðun réttarins nr. 2022-89, þar sem dómur í málinu kynni að hafa fordæmisgildi um atriði sem um er deilt, meðal annars um túlkun 54. gr. erfðalaga nr. 8/1962.
Málsatvik
8. A og E gengu í hjónaband árið 1980. E var áður kvæntur F sem lést árið 1977. Eignaðist hann með henni þrjár dætur, stefndu B, G sem lést árið 2018 og H er lést á barnsaldri 1968. Stefndu C og D eru börn G. A var barnlaus þegar til hjónabands þeirra E var stofnað og þau áttu ekki börn saman.
9. A og E gerðu sameiginlega erfðaskrá 5. júní 1997. Þar lýstu þau yfir vilja sínum þess efnis að því þeirra sem lengur lifði yrði heimilt að sitja í óskiptu búi eftir hitt. Í erfðaskránni var einnig kveðið á um að færi svo að E lifði A ættu dætur hans frá fyrra hjónabandi, þær stefnda B og G, að fá í sinn hlut [...]. Skyldi fyrirtækið og þær eignir því tilheyrandi, sem nánar voru tilgreindar í erfðaskránni, afhentar systrunum strax eftir andlát E og teljast hluti heildararfs eftir hann. Þá kom fram í 3. grein erfðaskrárinnar að yrði A veitt heimild til setu í óskiptu búi væri það sameiginlegur vilji hjónanna að ráðstafa eignum sínum jafnt til tilgreindra aðila að þeim báðum látnum. Var þar um að ræða I systur A, Samband íslenskra kristniboðsfélaga, barnabörn og barnabarnabörn E og barnabörn I. Ef á hinn bóginn E lifði A þá skyldi 1/3 arfshluta hennar falla til erfingja sem tilgreindir voru í 3. grein erfðaskrárinnar auk þess sem þá bæri að ráðstafa 1/3 hluta af eignum E til hinna sömu aðila eftir hans dag.
10. A og E gerðu með sér nýja erfðaskrá 1. september 2016. Í henni var lýst sameiginlegum vilja hjónanna þess efnis að hið langlífara fengi heimild til setu í óskiptu búi. Þá sagði að stefndu B og G hefðu þegar fengið í arf [...] í samræmi við fyrirmæli eldri erfðaskrár og teldist sá arfshluti hluti heildararfs. Þó kom fram að yrði skylduerfðahluti dætranna verðminni miðað við heildararfshluta þeirra skyldi þeim greiddur mismunurinn innan árs frá andláti E. Erfðaskráin hafði að geyma ítarleg fyrirmæli um ráðstöfun arfs. Í 3. grein kom meðal annars fram að „eftir setu A í óskiptu búi og lát hennar“ væri það sameiginlegur vilji hjónanna að ráðstafa eignum þeirra „jafnt til eftirtalinna aðila“ sem taldir voru upp í stafliðum a til o. Fyrst var tilgreint Samband íslenskra kristniboðsfélaga. Þá voru í stafliðum b til f talin upp öll barnabörn E nema eitt, þar á meðal stefndu C og D. Síðan voru í stafliðum g til o tilgreind barnabörn I. Í framhaldi þeirrar upptalningar sagði að yrðu barnabörn hennar fleiri myndu þau taka jafnan arf á við aðra erfingja samkvæmt 3. grein. Einnig kom fram að tveir niðjar I hefðu fengið í sinn hlut tilgreindar fjárhæðir sem taka skyldi mið af við útgreiðslu arfs. Auk þess var kveðið á um hvernig fara skyldi með sjálfskuldarábyrgð A vegna námslána eins af niðjum systur hennar. Þá var tiltekið að arfshlutar í stafliðum a til o væru allir jafnir en gætu minnkað hlutfallslega yrðu erfingjar fleiri. Einnig var að finna ákvæði um að arfshlutar væru bundnir kvöðum til 18 ára aldurs erfingja. Í 4. grein erfðaskrárinnar voru fyrirmæli sem tóku til þeirrar stöðu ef E lifði A. Skyldi „1/3 hluti af arfshluta“ hennar falla til erfingja sem tilgreindir voru í 3. grein erfðaskrárinnar auk þess sem ráðstafa bæri 1/3 af eignum E til sömu aðila eftir hans dag.
11. Hinn 3. desember 2018 undirritaði E skjal með yfirskriftinni „Um ráðstöfun málverka minna“. Skjalið er vottað af lögmanni stefndu og er það svohljóðandi:
„Ég undirritaður, E [ ... ] á eftirgreind málverk:
1. Botnssúlur eftir Gunnlaug Blöndal
2. Hekla eftir Jón Stefánsson
3. Hrafnabjörg eftir Þórarin B. Þorláksson
4. Nýársnótt eftir Kjarval
5. Ónefnt (sólarlag) eftir Ásgrím Jónsson
6. Andlitsmynd eftir Kjarval
7. Mósaík 1963 eftir Kjarval
8. Ónefnt (sjómenn) eftir Svein Björnsson.
Ég afsala nú ofangreindum málverkum mínum sameiginlega til dóttur minnar B annars vegar og til barna G, sem er látin, hins vegar.
B fái helming verkanna og börn G þau D og C fái hinn helminginn, samkvæmt samkomulagi milli þeirra þriggja.
Skilyrði er að málverkin fái að vera á heimili okkar A, eiginkonu minnar, þangað til annað hvort gerist:
Skipt verði eftir andlát mitt án þess að A fái leyfi til setu í óskiptu búi
eða
skipt verði eftir andlát þess okkar sem lengur lifir ef fengið verður leyfi til setu í óskiptu búi.“
12. Við undirritun skjalsins var E fluttur af heimili þeirra hjóna og kominn á sjúkradeild dvalarheimilisins [...] en A bjó í íbúð þeirra í fjölbýlishúsi tengdu við dvalarheimilið. Hann lést rétt rúmum tveimur mánuðum síðar og fékk A leyfi til setu í óskiptu búi.
13. J lögmaður, sem tilgreindur hafði verið í erfðaskránni umsjónarmaður við skipti á dánarbúi þeirra hjóna, ritaði tölvubréf til lögmanns stefndu 30. apríl 2019 þar sem meðal annars var óskað nánari upplýsinga um ráðstöfun tiltekinna fjármuna. Í svörum lögmanns stefndu 7. maí sama ár voru skýrðar ráðstafanir þess fjár sem fyrirspurnin laut að. Þar kom fram að E hefði beðið lögmanninn um að kanna hvort einhver mistök hefðu átt sér stað við gerð erfðaskrárinnar árið 2016. Í kjölfarið hefði verið gengið frá formlegu framsali E á málverkunum í samræmi við vilja hans með því skilyrði að þau fengju að vera á heimili þeirra A þar til skipt yrði eftir andlát hennar. Jafnframt hefði erfðaskráin verið borin saman við eldri erfðaskrá og komið í ljós að láðst hefði að geta eins af barnabörnum E sem arfþega í nýju skránni en sá erfingi hefði verið í eldri erfðaskránni. Hefði E viljað lagfæra þetta atriði án þess að vefengja erfðaskrána að öðru leyti.
14. Með bréfi lögmanns áfrýjanda til lögmanns stefndu 31. maí 2019 var meðal annars kallað eftir frekari upplýsingum um ráðstöfun E á málverkunum. Hinn 21. júní sama ár sendi lögmaður stefndu afrit af framangreindu skjali 3. desember 2018 um ráðstöfun málverkanna og ítrekaði að ástæða gerningsins hefði verið sú að E hefði viljað að niðjar sínir fengju málverkin en ekki erfingjar A.
15. Erfðaskráin sætti leiðréttingu af hálfu A hjá lögbókanda 8. júlí 2019 á þann veg að við bættist sem erfingi fyrrgreint barnabarn E. Að öðru leyti kom fram að ákvæði skrárinnar skyldu haldast. A gaf jafnframt út yfirlýsingu 8. ágúst 2019 um að erfðaskráin yrði ekki afturkölluð og ítrekaði leiðréttingu hennar.
16. Nokkur frekari bréfaskipti urðu milli lögmanna er lutu einkum að ágreiningi um málverkin sem og hvort afhenda ætti nánar tilgreinda fjármuni til hins óskipta bús. Með bréfi lögmanns áfrýjanda 8. ágúst 2019 var þess meðal annars farið á leit við stefndu að þau lýstu því yfir að andvirði málverkanna yrði tekið undir skiptin þegar til þeirra kæmi. Með bréfi 22. sama mánaðar upplýsti lögmaður stefndu að þau teldu hvorki eðlilegt né viðeigandi að taka ákvörðun um málverkin fyrr en við væntanleg skipti.
17. A fól sérfræðingi að meta verðmæti málverkanna. Í mati hans 20. september 2019 kom fram að verðmæti þeirra næmi samtals 10.530.000 krónum. Þar var tekið fram að verðið „miðast við verð milli skyldra“ en hvorki við útsöluverð hjá miðlara auk tilheyrandi gjalda né útsöluverð að frádreginni söluþóknun.
Málsástæður og lagarök
Helstu málsástæður og lagarök áfrýjanda
18. Áfrýjandi byggir á því að sameiginlegri erfðaskrá verði ekki breytt eða hún numin úr gildi í heild eða að hluta nema fyrir tilstuðlan beggja aðila. Með henni hafi heimild A og E til að ráðstafa eignum sínum verið takmörkuð. Framsal E á málverkunum sé því markleysa og tilheyri þau hinu óskipta búi. Hefði E viljað breyta erfðaskránni hefði honum borið að gæta sömu reglna og við gerð erfðaskrár, sbr. 48. gr. erfðalaga. Einnig hafi gerningur E raskað því jafnræði milli erfingja sem stefnt hefði verið að með erfðaskránni. Verði málverkunum haldið utan skipta sé grundvöllur hennar brostinn.
19. Enn fremur verði að líta til þess að verðmæti málverkanna hafi í árslok 2018 numið ríflega 10% af heildarvirði eigna A og E og 20% af búshluta hans. Hafa verði hliðsjón af því að allar eigur þeirra hjóna, þar með talið innbú, hafi verið andlag erfðaskrárinnar og jafnræði hafi verið með þeim um eignir við gerð seinni erfðaskrárinnar. E hafi því verið óheimilt að ráðstafa svo stórum hlut eignanna án samráðs við A. Ekki verði heldur séð af umræddum gerningi hvort eða hvernig staðið hafi til að verðmæti málverkanna skyldi gert upp við skipti að A látinni.
20. E hafi ekki nýtt heimild 2. mgr. 36. gr. laganna til að mæla svo fyrir um í erfðaskrá að skylduerfingi fengi í sinn hlut tiltekna muni úr hjúskapareign hans þótt honum hefði verið það í lófa lagið. Þá beri við úrlausn málsins að líta til grunnreglu 29. gr. erfðalaga um hvernig fara skal með fyrirframgreiddan arf, sem og sjónarmiða er fram komi í 35. gr. laganna um heimild til ráðstöfunar arfs með erfðaskrá.
21. Jafnframt byggir áfrýjandi á að í skjalinu 3. desember 2018 hafi falist gjafaloforð E sem ekki skyldi koma til framkvæmda fyrr en að honum látnum. Í því hafi falist dánargjöf í skilningi 54. gr. erfðalaga sem ekki hefði uppfyllt formskilyrði 48. gr. sömu laga.
22. Til stuðnings varakröfu sinni um að málverkin skuli teljast til fyrirframgreidds arfs vísar áfrýjandi einkum til þess að þá verði efni erfðaskrárinnar ekki raskað.
Helstu málsástæður og lagarök stefndu
23. Stefndu andmæla því að ráðstöfunin sem gerð var með skjalinu 3. desember 2018 hafi falið í sér grundvallarbreytingu á erfðaskrá A og E. Engin formleg breyting á skránni hafi átt sér stað með afsalinu og í erfðaskránni hafi hvorki falist fyrirheit né loforð um að tilteknar eignir yrðu til staðar við skipti dánarbúsins enda krefjist áfrýjandi hvorki breytinga né riftunar erfðaskrárinnar.
24. Stefndu vísa til þess að við upphaf hjúskapar E og A hafi hann verið sterkefnaður og málverk þau sem um ræðir prýtt heimili hans og fyrri konu hans en síðar verið á heimili þeirra A og síðast á heimili A. E hafi haft ráðstöfunarrétt yfir eigum sínum í lifanda lífi. Umrætt afsal hafi verið endanlegt og í því falist lífsgjöf en ekki dánargjöf samkvæmt 54. gr. erfðalaga. Breyti engu í því sambandi þótt vilji E hafi staðið til þess að málverkin yrðu á heimili A fram að andláti hennar. Þá hafi verðmæti málverkanna ekki verið mikið miðað við verðmat á þeim. Því hafi verið um að ræða eðlilega gjöf frá föður og afa til dóttur og barnabarna.
25. Um varakröfu áfrýjanda benda stefndu á að ekki hafi staðið til að gjöfin skyldi teljast fyrirframgreiddur arfur og eigi fullyrðing áfrýjanda í þá veru sér ekki lagastoð. Dætur E, G og B, hafi áður fengið fyrirframgreiddan arf og þá hafi verið gengið formlega frá honum með erfðafjárskýrslu og greiðslu erfðafjárskatts. Svo hafi hins vegar ekki verið raunin í þessu tilviki. Einnig hafi stefndu ekki gert samkomulag við E um að við móttöku gjafarinnar myndu þau fallast á að hún teldist fyrirframgreiddur arfur þegar að skiptum kæmi. Loks benda stefndu á að A hafi hvorki gert kröfu um breytingu á erfðaskránni né niðurfellingu hennar.
Niðurstaða
26. Eignarrétti fylgir heimild manna til að ráðstafa eignum í lifanda lífi nema lög eða samningur takmarki á einhvern hátt ráðstöfunarheimild þeirra. Gjöf er örlætisgerningur, að jafnaði án þess að endurgjald komi fyrir og sem stendur ekki í tengslum við efndir á lagaskyldu eða annarri skyldu sem hvílir á gefanda gagnvart gjafþega. Dánargjöf er sú gjöf sem ekki er ætlast til að komi til framkvæmda fyrr en að gefanda látnum. Samkvæmt 54. gr. erfðalaga skulu um slíkar gjafir gilda reglur um erfðaskrár, sbr. 34. til 53. gr. í VI. kafla þeirra.
27. Við mat á því hvort gerningur teljist dánargjöf eða lífsgjöf verður einatt að horfa til aðstæðna hverju sinni enda geta gjafir verið að margvíslegu formi og efni. Skiptir þá ekki öllu hvað gerningurinn er nefndur heldur fyrst og fremst efndatími og fyrirætlun gefanda. Brjóta þarf til mergjar einstaka þætti gernings og líta til framvindu efnda hans svo sjá megi hvort og hvenær yfirfærsla eignarréttar hafi átt sér stað. Gjöf telst jafnan dánargjöf ef ekki stendur til að efna hana að neinu leyti fyrr en eftir fráfall gefanda. Hefur þá þýðingu hvort gefandi eigi þess kost að taka aftur gjöfina. Huga þarf að því hvaða rétt gjafþegi fær með gerningnum, að hverju marki hann skuldbindi gefandann og hvort hann geti tekið aftur gjöfina, sbr. dóm Hæstaréttar 11. maí 1964 í máli nr. 122/1963 sem birtur er á bls. 406 í dómasafni réttarins það ár. Við mat á því hvort um dánargjöf eða lífsgjöf er að ræða skiptir máli hvernig réttur gjafþegans er tryggður, til dæmis með þinglýsingu í tilviki fasteigna eða opinberri skráningu. Má um þetta vísa til fyrrgreinds dóms Hæstaréttar í máli nr. 122/1963 og dóms 11. desember 1980 í máli nr. 198/1980 sem birtur er á bls. 1955 í dómasafni réttarins það ár. Þegar um ræðir lausafé eins og hér á við gegna vörslur og vörsluskipti grundvallarmáli, sbr. dóm Hæstaréttar 19. nóvember 1957 í máli nr. 17/1956 sem birtur er á bls. 607 í dómasafni réttarins það ár. Jafnframt standa líkur almennt til þess að sá sem hefur lausafjármuni í vörslum sínum og hefur heimild til að fara með þá eins og þeir tilheyri sér, sé jafnframt réttur eigandi þeirra, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 9. nóvember 2017 í máli nr. 716/2016.
28. E lést einungis rúmum tveimur mánuðum eftir að hann ritaði undir umþrættan gjafagerning þá 95 ára að aldri. A vissi ekki um gerninginn fyrr en að E látnum og ekki liggur fyrir í málinu hvort allir gjafþegar hafi vitað nákvæmt efni hans. Af því sem fram kom við flutning málsins hér fyrir dómi mun stefnda B hafa verið viðstödd gerð hans. Sú eina af stefndu sem gaf skýrslu í málinu fyrir héraðsdómi, C, kvaðst hafa vitað að E hefði haft áhyggjur af því að erfðaskrá hjónanna tryggði ekki nægilega rétt niðja hans til frekari arfs vegna þess fyrirframgreidda arfs sem dætrum hans hefði þegar verið greiddur. Hún sagðist jafnframt ekki hafa vitað nákvæmlega um efni hins umþrætta skjals fyrr en eftir andlát E þótt hún hafi vitað að hann hefði haft hug til að gefa niðjum sínum málverkin svo að þau færu ekki til annarra við skiptin. Hafi hann ráðfært sig þar um við lögmann stefndu.
29. Á þeim tíma er gerningurinn var gerður voru málverkin í vörslum A en E var þá endanlega fluttur á sjúkradeild dvalarheimilis. Í gerningnum kvað E sérstaklega á um að gjafþegar skyldu ekki fá málverkin í sínar vörslur fyrr en við dánarbússkipti eftir að annað tveggja myndi gerast: „að skipt verði eftir andlát mitt án þess að A fái leyfi til setu í óskiptu búi“ eða að „skipt verði eftir andlát þess okkar sem lengur lifir ef fengið verður leyfi til setu í óskiptu búi“. Samkvæmt því hafði í raun ekki átt sér stað endanleg og formleg yfirfærsla eignarréttar yfir málverkunum er E andaðist og kom reyndar fram í bréfi lögmanns stefndu til lögmanns áfrýjanda 22. ágúst 2019 að stefndu þætti „hvorki eðlilegt né viðeigandi að taka ákvörðun um málverkin fyrr en við væntanleg skipti“. Er þá einnig til þess að líta að málverkin voru átta að tölu og ekki tilgreint sérstaklega hver gjafþega skyldi fá hvaða málverk og ekki heldur nefnt hvort málverkunum yrði skipt milli þeirra eftir verðmæti. Þess í stað sagði einungis að stefnda B, fengi „helming verkanna“ en börn G, stefndu D og C fengju „hinn helminginn, samkvæmt samkomulagi milli þeirra þriggja“.
30. Að öllu framangreindu virtu verður talið að gjöf sú sem um ræðir hafi eftir efni sínu verið dánargjöf sem lúta þurfti reglum sem um erfðaskrár gilda, sbr. 54. gr. erfðalaga. Þeirra reglna var ekki gætt og er gerningurinn því ógildur. Samkvæmt því verður fallist á kröfu áfrýjanda og málverkin teljast hluti dánarbúsins.
31. Eftir ákvæðum 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður málskostnaður felldur niður á öllum dómstigum.
Dómsorð:
Ógild er ráðstöfun E á tilgreindum málverkum til stefndu B, C og D, 3. desember 2018 og viðurkennt að málverkin teljast hluti áfrýjanda, dánarbús A.
Málskostnaður fellur niður á öllum dómstigum.