Hæstiréttur íslands

Mál nr. 1/2023

Sýrfell ehf. (Kjartan Ragnars lögmaður)
gegn
Reykjavíkurborg (Theodór Kjartansson lögmaður)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Lögvarðir hagsmunir
  • Frávísun frá Landsrétti staðfest
  • Frávísun frá Hæstarétti að hluta

Reifun

Kærður var úrskurður Landsréttar þar sem aðalkröfu S ehf. um frávísun þess máls sem S ehf. hafði höfðað á hendur R frá héraðsdómi var vísað frá Landsrétti og varakröfu hans um ómerkingu héraðsdóms var hafnað. Hæstiréttur staðfesti með vísan til forsendna niðurstöðu hins kærða úrskurðar um frávísun á þeirri kröfu S ehf. að málinu yrði vísað frá héraðsdómi. Þar sem sóknaraðila brast að öðru leyti heimild til kæru til Hæstaréttar var öðrum kröfum hans vísað frá Hæstarétti.

Dómur Hæstaréttar

1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Ása Ólafsdóttir, Karl Axelsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. desember 2022 sem barst réttinum 2. janúar 2023 en kærumálsgögn bárust réttinum 9. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Landsréttar 16. desember 2022 í máli nr. 550/2021 þar sem aðalkröfu sóknaraðila, um að máli hans yrði vísað frá héraðsdómi var vísað frá Landsrétti. Jafnframt var hafnað varakröfu sóknaraðila um ómerkingu héraðsdóms og heimvísun málsins til meðferðar fyrir héraðsdómi að nýju.

3. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður Landsréttar og dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu verði ómerktir og málinu vísað frá héraðsdómi. Í fyrstu varakröfu er þess krafist að hinn kærði úrskurður og héraðsdómur verði ómerktir og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Í annarri varakröfu er þess krafist að hinn kærði úrskurður Landsréttar verði ómerktur og lagt fyrir Landsrétt að taka málið til löglegrar efnismeðferðar. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar fyrir Landsrétti og kærumálskostnaðar fyrir Hæstarétti úr hendi varnaraðila.

4. Varnaraðili krefst þess aðallega að aðalkröfu sóknaraðila og fyrstu varakröfu hans verði vísað frá Hæstarétti. Þá krefst varnaraðili þess að annarri varakröfu sóknaraðila verði hafnað og hinn kærði frávísunarúrskurður Landsréttar staðfestur. Til vara krefst varnaraðili þess að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað. Þá er þess krafist að sóknaraðila verði í öllum tilvikum gert að greiða varnaraðila málskostnað fyrir Hæstarétti að mati réttarins.

Niðurstaða

5. Eins og rakið er í hinum kærða úrskurði krafðist sóknaraðili ekki efnislegrar endurskoðunar héraðsdóms fyrir Landsrétti heldur kaus að haga kröfugerð sinni á þann hátt að aðeins var krafist frávísunar máls þess sem hann hafði höfðað fyrir héraðsdómi en til vara heimvísunar þess.

6. Með hinum kærða úrskurði var kröfu sóknaraðila um að málinu yrði vísað frá héraðsdómi vísað frá Landsrétti en hafnað varakröfu hans um ómerkingu héraðsdóms og heimvísun málsins til meðferðar fyrir héraðsdómi að nýju.

7. Sóknaraðili hefur um kæruheimild vísað til a-liðar 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála en þar er kveðið svo á um að dómsathafnir Landsréttar sæti kæru til Hæstaréttar ef um er að ræða frávísun frá héraðsdómi eða Landsrétti eða niðurfellingu máls að hluta eða að öllu leyti fyrir héraðsdómi eða Landsrétti ef ekki er um að ræða staðfestingu á slíkri dómsathöfn héraðsdóms. Að öðru leyti eru kæruheimildir til Hæstaréttar tæmandi taldar í stafliðum b til e í 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 en enginn þeirra á við í máli þessu. Þá á heimild 2. mgr. 167. gr. laganna til að sækja um kæruleyfi til Hæstaréttar í tilteknum málum ekki við í máli þessu.

8. Samkvæmt framangreindu nær heimild sóknaraðila til að kæra úrskurð Landsréttar einungis til þess hluta úrskurðarins er lýtur að frávísun frá Landsrétti á þeirri kröfu hans að málinu yrði vísað frá héraðsdómi, sbr. a-lið 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður niðurstaða Landsréttar um þá kröfu staðfest. Þar sem sóknaraðila brestur að öðru leyti heimild til kæru til Hæstaréttar verður öðrum kröfum hans vísað frá Hæstarétti.

9. Eftir þessum úrslitum verður sóknaraðila gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Staðfest er niðurstaða hins kærða úrskurðar um að vísað verði frá Landsrétti kröfu sóknaraðila, Sýrfells ehf., um að máli hans verði vísað frá héraðsdómi.

Öðrum kröfum sóknaraðila er vísað frá Hæstarétti.

Sóknaraðili greiði varnaraðila, Reykjavíkurborg, 300.000 krónur í kærumálskostnað.