Hæstiréttur íslands
Mál nr. 38/2022
Lykilorð
- Endurupptaka
- Fjármálafyrirtæki
- Markaðsmisnotkun
- Mannréttindasáttmáli Evrópu
- Skriflegur málflutningur
- Frávísun frá Hæstarétti
Reifun
Dómur Hæstaréttar
1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson og Ingibjörg Benediktsdóttir fyrrverandi hæstaréttardómari og Þorgeir Ingi Njálsson landsréttardómari.
2. Með úrskurði Endurupptökudóms 19. maí 2022 var fallist á beiðni ákærða um endurupptöku á hæstaréttarmálinu nr. 842/2014 sem dæmt var 4. febrúar 2016, að því er hann varðaði.
3. Ákæruvaldið og ákærði krefjast þess að málinu verði vísað frá Hæstarétti.
4. Málið var dómtekið 13. febrúar 2023 að fenginni yfirlýsingu málflytjenda um að ekki væri þörf munnlegs málflutnings í því, sbr. 3. málslið 1. mgr. 222. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Málsatvik
5. Með bréfi 19. október 2010 beindi Fjármálaeftirlitið kæru til sérstaks saksóknara vegna ætlaðrar markaðsmisnotkunar með hlutabréf í Landsbanka Íslands hf. á tímabilinu frá maí 2003 til október 2008. Í kærunni kom meðal annars fram að Kauphöll Íslands hf. hefði í október 2008 vakið athygli Fjármálaeftirlitsins á grunsamlegum viðskiptum í aðdraganda falls viðskiptabankanna þriggja og sent síðan minnisblað til stofnunarinnar í janúar 2009 þar sem viðskiptin voru nánar útlistuð. Í kæru Fjármálaeftirlitsins voru 18 fyrrverandi starfsmenn Landsbanka Íslands hf., þar á meðal ákærði, sakaðir um brot á lögum nr. 108/2007, sem þá hétu lög um verðbréfaviðskipti, vegna framangreindrar háttsemi.
6. Embætti sérstaks saksóknara gaf út ákæru 15. mars 2013 á hendur ákærða auk fimm annarra fyrrverandi starfsmanna Landsbanka Íslands hf. Í I. kafla ákærunnar var ákærða ásamt þremur öðrum starfsmönnum bankans gefin að sök „markaðsmisnotkun í sameiningu í störfum sínum fyrir bankann í tilboðum og viðskiptum fyrir eigin reikning Landsbankans með hlutabréf útgefin af bankanum sjálfum í sjálfvirkum pörunarviðskiptum í viðskiptakerfi Kauphallar Íslands hf. ... á tímabilinu frá og með 1. nóvember 2007 til og með 3. október 2008, samtals 228 viðskiptadaga, sem tryggðu óeðlilegt verð og bjuggu til verð á hlutabréfunum og gáfu eða voru líkleg til að gefa eftirspurn og verð hlutabréfanna ranglega og misvísandi til kynna.“ Í ákærunni var markaðsmisnotkunin sögð framkvæmd af ákærða og öðrum starfsmanni bankans að undirlagi tveggja annarra starfsmanna hans með nánar tilgreindum hætti. Var háttsemin talin varða við a- og b-lið 1. töluliðar 1. mgr. 117. gr., sbr. 1. tölulið 146. gr. laga nr. 108/2007.
7. Með héraðsdómi 19. nóvember 2014 var ákærði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins. Ákæruvaldið áfrýjaði dóminum til Hæstaréttar sem kvað upp dóm 4. febrúar 2016 í máli nr. 842/2014. Með honum var ákærði sakfelldur og gert að sæta fangelsi í níu mánuði.
8. Með kærum 20. júlí 2016 og 2. maí 2017 leitaði ákærði til Mannréttindadómstóls Evrópu. Í yfirlýsingu íslenska ríkisins 8. desember 2020 til dómstólsins var viðurkennt að brotið hefði verið á rétti ákærða til réttlátrar málsmeðferðar samkvæmt 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Til stuðnings því var vísað til þess hvernig sýknu ákærða hefði verið snúið í sakfellingu með hliðsjón af reglunni um milliliðalausa sönnunarfærslu fyrir dómi. Jafnframt var vísað til dóms mannréttindadómstólsins 25. febrúar 2020 í máli nr. 41382/17, Sigríður Elín Sigfúsdóttir gegn Íslandi, þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að ekki væri unnt að leggja til grundvallar að einn dómenda fyrir Hæstarétti hefði verið óvilhallur og málsmeðferð fyrir réttinum hefði því falið í sér brot gegn 1. mgr. 6. gr. sáttmálans. Á grundvelli umræddrar yfirlýsingar felldi dómstóllinn kæruna af málaskrá sinni með ákvörðun 18. nóvember 2021 samkvæmt heimild í 1. mgr. 37. gr. mannréttindasáttmálans.
9. Með beiðni til Endurupptökudóms 24. mars 2022 fór ákærði fram á endurupptöku á umræddu hæstaréttarmáli nr. 842/2014 meðal annars á grundvelli d-liðar 1. mgr. 228. gr., sbr. 1. mgr. 232. gr. laga nr. 88/2008. Eins og áður greinir var fallist á þá beiðni hans með úrskurði dómsins 19. maí 2022 í máli nr. 9/2022. Af því tilefni gaf ríkissaksóknari út fyrirkall 24. sama mánaðar vegna endurupptöku málsins sem birt var ákærða 1. júní sama ár.
Niðurstaða
10. Svo sem að framan greinir hefur ákæruvaldið tekið undir kröfu ákærða um að málinu verði vísað frá Hæstarétti. Því til stuðnings er meðal annars vísað til dóms Hæstaréttar 5. október 2022 í máli nr. 7/2022. Í því máli hafði Endurupptökudómur heimilað endurupptöku máls, meðal annars með vísan til niðurstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu um að brotið hefði verið gegn reglunni um milliliðalausa sönnunarfærslu og þar með rétti sakbornings til réttlátrar málsmeðferðar samkvæmt 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.
11. Í umræddum dómi Hæstaréttar var því slegið föstu að Hæstarétt skorti að gildandi lögum heimild til að láta munnlega sönnunarfærslu fara fram fyrir réttinum eftir að slík heimild hafði verið felld úr gildi með lögum nr. 49/2016 og lögfest heimild með lögum nr. 47/2020 fyrir Endurupptökudóm til að ákveða að mál sem dæmt hefði verið í Hæstarétti yrði vísað til meðferðar og dómsuppsögu að nýju í Landsrétti, sbr. síðari málslið 1. mgr. 232. gr. laga nr. 88/2008. Því hefði Endurupptökudómi að réttu lagi borið, miðað við þær ástæður sem dómurinn lagði til grundvallar endurupptöku málsins, að nýta þá heimild til að vísa því af sjálfsdáðum til meðferðar og dómsuppsögu að nýju í Landsrétti. Í dóminum sagði einnig að í ljósi þess að málið væri endurupptekið af þeirri ástæðu að meðferð þess fyrir Hæstarétti hefði verið í ósamræmi við regluna um milliliðalausa sönnunarfærslu yrði ekki úr því bætt nema með því að leiða ákærða og vitni fyrir dóm til skýrslugjafar. Réttinum væri ókleift að bæta úr því og þá hefði hann heldur ekki að lögum heimild til að hnekkja að þessu leyti niðurstöðu Endurupptökudóms eða vísa málinu til meðferðar hjá Landsrétti. Því væri óhjákvæmilegt að vísa málinu sjálfkrafa frá Hæstarétti.
12. Ákæruvaldið reisir sem fyrr segir kröfu um frávísun málsins frá Hæstarétti meðal annars á þeim grunni að endurupptaka þess hvíli að hluta á sömu sjónarmiðum og lögð eru til grundvallar í framangreindum dómi Hæstaréttar í máli nr. 7/2022. Því verði ekki hjá því komist að krefjast frávísunar málsins. Að gættri þeirri kröfugerð, sem ákærði hefur tekið undir, og í ljósi málsatvika og dóma Hæstaréttar í máli nr. 7/2022 og 9. nóvember 2022 í máli nr. 8/2022 verður að vísa málinu frá Hæstarétti.
13. Eftir þessum málsúrslitum greiðist sakarkostnaður vegna fyrri málsmeðferðar fyrir héraðsdómi og Hæstarétti, sem lauk með dómi réttarins í máli nr. 842/2014, að öllu leyti úr ríkissjóði að því er ákærða varðar.
14. Allur kostnaður af rekstri málsins fyrir Hæstarétti vegna endurupptöku þess greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 6. mgr. 231. gr., sbr. 6. mgr. 232. gr. laga nr. 88/2008, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærða sem ákveðin eru með virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.
Allur sakarkostnaður málsins vegna fyrri málsmeðferðar fyrir héraðsdómi og Hæstarétti að því er varðar ákærða, X, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun verjanda hans, Reimars Péturssonar lögmanns, 21.952.820 krónur, og verjenda ákærða á rannsóknarstigi málsins, Brynjólfs Eyvindssonar lögmanns, 140.560 krónur, og Einars Þórs Sverrissonar lögmanns, 175.700 krónur.
Allur kostnaður af rekstri málsins fyrir Hæstarétti vegna endurupptöku þess greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærða, Reimars Péturssonar lögmanns, 500.000 krónur.