Hæstiréttur íslands
Mál nr. 45/2023
Lykilorð
- Kærumál
- Kæruheimild
- Frávísun frá Hæstarétti
- Aðfinnslur
- Sérálit
Reifun
Dómur Hæstaréttar
1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen, Ingveldur Einarsdóttir og Karl Axelsson.
2. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. september 2023 sem barst réttinum 26. sama mánaðar en kærumálsgögn bárust 28. þess mánaðar. Kærður er úrskurður Landsréttar 12. september 2023 í máli nr. 544/2023 þar sem úrskurður héraðsdóms um að málinu væri vísað frá dómi var staðfestur en einnig var vísað frá Landsrétti kröfum á hendur varnaraðilunum F, G, Verði tryggingum hf. og H fasteignasölu ehf. Um kæruheimild vísar sóknaraðili til a-liðar 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
3. Sóknaraðili krefst þess að úrskurðir héraðsdóms og Landsréttar verði felldir úr gildi og héraðsdómi verði gert að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
4. Varnaraðilarnir F og G krefjast þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti, til vara staðfestingar hins kærða úrskurðar en til þrautavara að kröfum sóknaraðila verði hafnað. Þá krefjast þau kærumálskostnaðar fyrir Hæstarétti.
5. Varnaraðilarnir Fasteignasalan C ehf., D, E og Vörður tryggingar hf. krefjast þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti en til vara staðfestingar hins kærða úrskurðar. Þá krefjast þeir kærumálskostnaðar fyrir Hæstarétti.
6. Varnaraðilinn H fasteignasala ehf. krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti en til vara að úrskurður Landsréttar verði staðfestur. Þá krefst hann kærumálskostnaðar, auk álags og jafnframt að lögmanni sóknaraðila verði, sameiginlega með sóknaraðila, gert að greiða kærumálskostnað auk álags.
Málsatvik
7. Með úrskurði héraðsdóms 4. júlí 2023 var máli sóknaraðila gegn öllum varnaraðilum vísað frá héraðsdómi.
8. Sóknaraðili kærði úrskurðinn til Landsréttar með kæru 11. júlí 2023 og kom fram í kærunni að varnaraðilar væru Fasteignasalan C ehf., D og E. Í greinargerð sóknaraðila til Landsréttar var hins vegar ekki tiltekið hverjir væru varnaraðilar. Þeir sem staðið höfðu til varnar í héraðsdómi skiluðu allir greinargerð til Landsréttar af sinni hálfu. Kröfðust varnaraðilar F og G þess aðallega fyrir Landsrétti að máli þeirra yrði vísað frá réttinum hvað þau varðaði en til vara kröfðust þau staðfestingar á úrskurði héraðsdóms. Aðrir varnaraðilar, þar á meðal réttargæslustefndu í héraði, kröfðust staðfestingar á úrskurði héraðsdóms.
9. Með hinum kærða úrskurði var úrskurður héraðsdóms um frávísun málsins staðfestur en málinu vísað frá Landsrétti varðandi varnaraðilana F, G, Vörð Tryggingar hf. og H fasteignasölu ehf., þar sem „kæru málsins [var] ekki beint að varnaraðilunum F, G, Verði Tryggingum hf. og H fasteignasölu ehf“. Þá var sóknaraðila gert að greiða öllum varnaraðilum kærumálskostnað fyrir Landsrétti.
Niðurstaða
10. Sóknaraðili hefur um kæruheimild vísað til a-liðar 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Í greinargerð sinni til Hæstaréttar bendir hann meðal annars á að frávísun Landsréttar hvað varði varnaraðilana F, G, Vörð Tryggingar hf. og H fasteignasölu ehf. standist ekki þar sem þau hafi ekki verið málsaðilar að kærumálinu fyrir Landsrétti. Engu að síður hefur hann, í stað þess að krefjast endurskoðunar á þeim hluta úrskurðarins sem varðaði frávísun málsins frá Landsrétti varðandi þá varnaraðila og kærumálskostnað sem honum var gert að greiða þeim, kosið að haga kröfugerð sinni hér fyrir dómi með þeim hætti að krefjast þess að „úrskurðir héraðsdóms og Landsréttar verði felldir úr gildi og lagt verði fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar“. Þessi kröfugerð verður ekki skilin á annan veg en að krafist sé endurskoðunar á þeirri niðurstöðu Landsréttar að staðfesta frávísunarúrskurð héraðsdóms.
11. Í a-lið 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 er kveðið á um að dómsathafnir Landsréttar sæti kæru til Hæstaréttar ef um er að ræða frávísun frá héraðsdómi eða Landsrétti eða niðurfellingu máls að hluta eða að öllu leyti fyrir héraðsdómi eða Landsrétti ef ekki er um að ræða staðfestingu á slíkri dómsathöfn héraðsdóms. Að öðru leyti eru kæruheimildir til Hæstaréttar tæmandi taldar í stafliðum b til e í 1. mgr. 167. gr. laganna en engin þeirra á við í máli þessu. Með hinum kærða úrskurði var staðfest niðurstaða héraðsdóms um frávísun málsins frá héraðsdómi og brast sóknaraðila samkvæmt framangreindu kæruheimild til Hæstaréttar. Kröfum hans verður því vísað frá Hæstarétti.
12. Eftir þessum úrslitum verður sóknaraðila gert að greiða varnaraðilum kærumálskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði, en ekki eru efni til að fallast á kröfu varnaraðila, H fasteignasölu ehf., um álag á kærumálskostnað eða til að dæma umboðsmann sóknaraðila til að greiða málskostnað sameiginlega með honum. Einn dómenda, Karl Axelsson, telur rétt að taka til greina kröfu um álag á kærumálskostnað samkvæmt 4. mgr. 131. gr., sbr. 2. mgr. 174. gr. laga nr. 91/1991.
13. Það athugast að sóknaraðili afhenti réttinum málsgögn sem eru í verulegu ósamræmi við reglur Hæstaréttar nr. 140/2018 um kærumálsgögn í einkamálum sem settar eru samkvæmt 4. mgr. 171. gr. laga nr. 91/1991. Skortir mjög á að hann hafi lagt fyrir Hæstarétt þau skjöl sem greinir í 5. gr. fyrrgreindra reglna. Er þetta aðfinnsluvert. Þá athugast jafnframt að kröfur sem réttargæslustefndu hafa gert fyrir Landsrétti og hér fyrir dómi samrýmast ekki 2. mgr. 21. gr. laga nr. 91/1991.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.
Sóknaraðili, A, greiði varnaraðilum, Fasteignasölunni C ehf., D, E, F, G og Verði tryggingum hf. hverjum fyrir sig 200.000 krónur í kærumálskostnað fyrir Hæstarétti.
Sóknaraðili greiði varnaraðila, H fasteignasölu ehf., 300.000 krónur í kærumálskostnað fyrir Hæstarétti.