Hæstiréttur íslands
Mál nr. 54/2023
Lykilorð
- Hlutafélag
- Hlutafé
- Greiðsla
- Endurskoðandi
- Sérfræðiábyrgð
- Skaðabætur
- Þrotabú
- Sératkvæði
Reifun
Dómur Hæstaréttar
1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen, Karl Axelsson og Sigurður Tómas Magnússon.
2. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 24. nóvember 2023. Hann krefst þess að stefndu verði óskipt gert að greiða þrotabúi Tomahawk Development á Íslandi hf. 1.751.966.273 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 11. febrúar 2016 til 6. apríl 2020 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst áfrýjandi þess að stefndu verði óskipt gert að greiða þrotabúi Tomahawk Development á Íslandi hf. 48.252.879 krónur og til þrautavara 42.101.840 krónur, í báðum tilvikum með sömu vöxtum og í aðalkröfu. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar úr hendi stefndu vegna reksturs málsins á öllum dómstigum.
3. Stefndu krefjast staðfestingar hins áfrýjaða dóms en til vara að kröfur áfrýjanda verði lækkaðar og honum gert að greiða þeim málskostnað fyrir Hæstarétti.
4. Stefndi BD30 ehf. hét áður Ernst & Young ehf. Eftir að breytingar urðu á starfsemi félagsins árið 2023 var nafni þess breytt á aðalfundi 21. nóvember 2023.
Ágreiningsefni
5. Hlutafé í Tomahawk Development á Íslandi hf. var hækkað tíu sinnum á tímabilinu maí 2013 til febrúar 2015, samtals um 1.795.857.801 krónu. Tilkynningum um hlutafjárhækkun til fyrirtækjaskrár fylgdu í níu skipti staðfestingar stefnda Rögnvaldar Dofra og í eitt skipti annars endurskoðanda hjá Ernst & Young ehf. á að greiðslur hefðu borist fyrir umræddar hækkanir. Aðilar deila um hvort endurskoðendur Ernst & Young ehf. hafi sýnt af sér saknæma vanrækslu þegar þeir staðfestu fyrrgreindar hlutafjárhækkanir.
6. Dómkröfur sínar á hendur stefnda Rögnvaldi Dofra Péturssyni byggir áfrýjandi á sakarreglunni. Á hendur stefnda BD30 ehf. reisir áfrýjandi kröfur sínar á reglu um vinnuveitandaábyrgð.
7. Bú Tomahawk Development á Íslandi hf. var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði 6. febrúar 2018. Málið er rekið af áfrýjanda til hagsbóta búinu á grundvelli 130. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
8. Með hinum áfrýjaða dómi Landsréttar 6. október 2023 var staðfestur dómur héraðsdóms um sýknu stefndu af kröfum áfrýjanda.
9. Áfrýjunarleyfi var veitt 24. nóvember 2023, með ákvörðun Hæstaréttar nr. 2023-111, á þeim grunni að dómur í því kynni að hafa fordæmisgildi meðal annars um sérfræðiábyrgð á sviði endurskoðunar.
10. Samhliða máli þessu eru rekin þrjú önnur mál, nr. 41/2023, 50/2023 og 51/2023, sem öll eiga rót sína að rekja til hlutafjárhækkana í félögum sem tengjast stofnun og rekstri kísilmálmverksmiðju Sameinaðs Sílikons hf. Þau eru dæmd samhliða þessu máli og eru málavextir í þeim um margt svipaðir.
Málsatvik
11. Sameinað Sílikon hf. var stofnað 17. febrúar 2014. Tilgangur félagsins var að byggja og gangsetja kísilmálmverksmiðju á lóðinni Stakksbraut 9 í Helguvík. Upphaflega átti að reisa verksmiðju með tveimur ofnum en áformað var að bæta tveimur við síðar. Fullbúin verksmiðja með fjórum ofnum myndi framleiða árlega um 100.000 tonn af kísli.
12. Sameinað Sílikon hf. var í eigu hollenska félagsins United Silicon Holding B.V. Það félag var í eigu tveggja annarra hollenskra félaga, annars vegar USI Holding B.V. sem var í eigu danskra og íslenskra fjárfesta undir forystu Magnúsar Garðarssonar og hins vegar Silicon Mineral Ventures B.V. sem var í eigu hollensks félags, Fondel Holding B.V. Dótturfélög USI Holding B.V. voru Geysir Capital ehf. og Stakksbraut 9 ehf.
Samningar stofnenda Sameinaðs Sílikons hf.
13. Viðræður munu hafa farið fram milli íslenskra og danskra fjárfesta og tilgreinds bandarísks félags um að reisa kísilmálmverksmiðju í Reykjanesbæ. Í því skyni voru stofnuð félög sem ætlað var að koma að uppbyggingu verksmiðjunnar hvert með sínum hætti. Það voru meðal annars Íslenska Kísilfélagið ehf., GSM Overseas Netherlands B.V. og Tomahawk Development á Íslandi hf. Áætlanir þessara aðila gengu ekki eftir og í ársbyrjun 2012 var rift þeim samningum sem Íslenska Kísilfélagið ehf. hafði gert við innlenda aðila tengda verkefninu.
14. Í júlí 2012 voru ný félög komin að málinu og var þá undirrituð viljayfirlýsing milli Silicon Mineral Ventures B.V. og USI Holding B.V. um að koma á fót kísilmálmverksmiðju í Helguvík. Þeirri viljayfirlýsingu var síðar fylgt eftir með samningi um sameiginlega fjárfestingu 14. febrúar 2014. Í grein 1.2 samningsins kom fram að þessir aðilar hefðu ákveðið að fjármagna í sameiningu hluta undirbúningskostnaðar og myndu í kjölfarið taka ákvörðun um að leggja til eigið fé sem yrði nýtt til að reisa verksmiðju eftir að nánari skilyrðum sem fram kæmu í samningnum væri fullnægt og næg lánsfjármögnun tryggð. Í grein 1.3 sagði að á grundvelli skilmála og skilyrða í samningnum staðfestu aðilar þá sameiginlegu skuldbindingu sína að eiga með sér samstarf um áframhaldandi þróun, fjármögnun í formi aukins hlutafjár, gerð einkasölu- og markaðssetningarsamnings við félagið BIT Fondel B.V. og sameiginlega stýringu verksmiðjunnar.
15. Í samningnum var framlag aðila skilgreint nánar. Í grein 2.1 var framlagi USI Holding B.V. lýst en ákvæðið hljóðar svo í íslenskri þýðingu:
[USI Holding B.V.] hefur fram til þessa þróað og fjármagnað verkefnið og hefur 1) keypt lóðina að Stakksbraut 9 í Helguvík, 2) aflað leyfis til að nota höfnina samkvæmt samningi við hafnaryfirvöld sveitarfélagsins sem undirritaður var 18. apríl 2012, 3) framkvæmt umhverfismat og fengið samþykki fyrir umhverfismatinu frá viðeigandi yfirvöldum svo og leyfi til að reka kísilverksmiðju með framleiðslugetu sem nemur allt að 100.000 tonnum á ári, 4) náð samkomulagi um skilmálaskrár við raforkuveituna, 5) gert bindandi viljayfirlýsingu við ríkisfyrirtækið sem annast raforkuflutninga, 6) gert samning við Reykjanesbæ, 7) fengið tilboð frá ofnabirgjunum Tenova og Sinosteel um afhendingu og uppsetningu tveggja kísilofna, 8) fengið skilmálaskrár um lánsfjármögnun frá Arion banka vegna byggingu verksmiðjunnar. Virði framangreindrar þróunarvinnu nemur 10,2 milljónum evra. Aðilar hafa ákveðið að þetta virði skuli endurspeglast á hlutfallslegum grundvelli (pro rata) í hlutabréfum í [Sameinuðu Sílikoni hf.]. Þessu virði verður skipt í 3 hluta. Fyrsti hlutinn nemur 5,1 milljónum evra vegna kaupa á ofnum 1 og 2, og mun sú fjárhæð verða til þess að hlutfallslegum (pro rata) hluta hlutabréfa í [Sameinuðu Sílikoni hf.] verði úthlutað til hluthafa [Sameinaðs Sílikons hf.] samtímis framlögum 1-8 sem talin eru upp hér að ofan (með því að framselja 100% hlutabréfanna í [Stakksbraut 9 ehf. til Sameinaðs Sílikons hf.]), sá næsti nemur 2,55 milljónum evra vegna kaupa á ofni nr. 3 og sá síðasti nemur 2,55 milljónum evra vegna kaupa á ofni nr. 4, og er endanlegt markmið að um síðir verði 4 ofnar starfræktir.
16. Í grein 2.2 í samningnum var framlagi Silicon Mineral Ventures B.V. lýst með eftirfarandi hætti í íslenskri þýðingu:
[Silicon Mineral Ventures B.V.] mun annast um að hlutdeildafélag sitt BIT leggi verkefninu til 1) samning sem tryggi sölu væntanlegrar framleiðslu [...] um sölu á 12.000 tonnum af kísilmálmi hið minnsta á markaðsverði að frádreginni 5,5% söluþóknun, og verði einkasölu- og markaðssetningaraðili [USI Holding B.V.] á afgangi kísilframleiðslunnar [...], 2) [Silicon Mineral Ventures B.V.] mun láta í té tæknilega þekkingu sína sem hefur verið þróuð af tæknilegum ráðgjöfum þess vegna smíði kísilverksmiðju og framleiðslu í henni. Virði framangreindra framlaga nemur 1,5 milljónum evra. Aðilar hafa ákveðið að þetta virði skuli endurspeglast á hlutfallslegum grundvelli (pro rata) i hlutabréfum í [Sameinuðu Sílikoni hf.] Þessu virði verður skipt í 3 hluta. Fyrsti hlutinn nemur 0,5 milljónum evra vegna gerðar samnings um sölu væntanlegrar framleiðslu um sölu á 12.000 tonnum af kísilmálmi á ári, og mun sú fjárhæð verða til þess að hlutfallslegum (pro rata) hluta hlutabréfa i í [Sameinuðu Sílikoni hf.] verði úthlutað til í [Silicon Mineral Ventures B.V.] samtímis framlögum 1-3 sem talin eru upp hér að ofan, sá næsti nemur 0,5 milljónum evra vegna gerðar samnings um sölu væntanlegrar framleiðslu um sölu á 20.000 tonnum af kísilmálmi á ári og sá síðasti nemur 0,5 milljónum evra vegna gerðar samnings um sölu væntanlegrar framleiðslu um sölu á 30.000 tonnum af kísilmáli á ári, og er endanlegt markmið að um síðir verði 4 ofnar starfræktir með heildarframleiðslugetu sem nemur yfir 70.000 tonnum af kísilmálmi á ári.
17. Í samningum 14. febrúar 2014 var einnig fjallað um önnur framlög fyrrgreindra aðila, meðal annars í grein 2.3 um framlag til fjármögnunar undirbúningskostnaðar og í grein 2.4 um framlag nýs eiginfjár með reiðufé. Þá sagði að félagið BIT Fondel B.V. myndi gera samning við Sameinað Sílikon hf. um að tryggja sölu væntanlegrar framleiðslu sem tæki til um það bil 12.000 tonna af kísli á ári. Andvirði eiginfjárframlags yrði varið til að setja á fót, smíða og reka kísilmálmverksmiðju eins og nánar væri lýst í viðskiptaáætlun 3. júní 2013.
18. Með þríhliða hluthafasamkomulagi frá júní 2014 milli USI Holding B.V., Silicon Mineral Ventures B.V. og United Silicon Holding B.V. voru skyldur og réttindi félaganna útfærð nánar og um það vísað til viðræðna aðila sem hefðu staðið yfir um tveggja ára skeið. Þar kom fram að eignarhald USI Holding B.V. og Silicon Mineral Ventures B.V. á félaginu Sameinuðu Sílikoni hf. yrði í gegnum félagið United Silicon Holding B.V. Á undirritunardegi ætti USI Holding B.V. 70% hlutafjár í United Silicon Holding B.V. og Silicon Mineral Ventures B.V. 30% hlutafjárins. Þar sagði einnig að á undirritunardegi hefði USI Holding B.V. í gegnum dótturfélag sitt, Stakksbraut 9 ehf., lokið eftirfarandi vinnu í því skyni að hrinda verkefninu í framkvæmd:
i) lokið umhverfismati, ii) tryggt langtímaleigu á lóðinni [Stakksbraut 9] [...], iii) gert samning við hafnaryfirvöld Reykjanesbæjar varðandi jarðvinnu á lóðinni, iv) gert hafnarsamning við Reykjaneshöfn um notkun hafnarinnar og gjaldtöku fyrir inn- og útflutning sem fer fram í gegnum höfnina í Helguvík, v) gert raforkusamning við ríkisorkufyrirtækið Landsvirkjun um langtímaafhendingu á raforku [...], vi) gert raforkuflutningssamning við Landsnet um langtímaflutning á raforku [...], og vii) gert samning við Reykjanesbæ um smíði og rekstur verksmiðjunnar.
19. Í hluthafasamkomulaginu var gert ráð fyrir að framlag USI Holding B.V. til Sameinaðs Sílikons hf. yrði með þeim hætti að dótturfélag USI Holding B.V., Stakksbraut 9 ehf., rynni saman við Sameinað Sílikon hf. með öllum framangreindum réttindum og skyldum að frátöldum samningi um langtímaleigu lóðarinnar. Yrði það greiðsla fyrir eignarhluti USI Holding B.V. í Sameinuðu Sílikoni hf. í samræmi við áskriftarsamning. Myndi USI Holding B.V. enn fremur sjá til þess að Stakksbraut 9 ehf. gerði Sameinuðu Sílikoni hf. kleift með leigusamningi eða öðrum hætti að nýta lóðina undir verkefnið svo lengi sem aðilar ættu með sér samstarf um það. Þessar skuldbindingar voru nánar útfærðar í grein 4.1 hluthafasamkomulagsins.
Stofnun og rekstur Stakksbrautar 9 ehf.
20. Fyrrgreint félag, Stakksbraut 9 ehf., hafði verið stofnað í febrúar 2012. Með kaupsamningi 4. september 2013 keypti USI Holding B.V. alla hluti í félaginu af stofnanda þess. Kaupverðið var 500.000 krónur og miðað var við að greidd væri ein króna fyrir hvern hlut. Stjórnarmaður félagsins veitti 2. október 2013 Magnúsi Garðarssyni allsherjarumboð til að koma fram fyrir hönd þess í öllu tilliti en Magnús var sem fyrr segir í forsvari fyrir byggingu kísilmálmverksmiðjunnar.
21. Tilgangur Stakksbrautar 9 ehf. var að afla tilskilinna leyfa og gera viðeigandi samninga við yfirvöld til þess að starfrækja mætti kísilmálmverksmiðju hér á landi. Í því skyni gerði félagið þrjá samninga við Reykjaneshafnir 18. apríl 2012. Í fyrsta lagi samning þar sem félagið skuldbatt sig til að greiða 362.100.000 krónur í lóðargjöld, þar með talin gatnagerðargjöld. Áttu greiðslur að fara fram með fjórum afborgunum. Sú fyrsta 30. desember 2012 að fjárhæð 100.000.000 króna og sömu fjárhæð 15. apríl 2013 og 15. apríl 2014. Lokagreiðsluna, 62.100.000 króna, átti að inna af hendi 15. október 2014. Í öðru lagi hafnarsamning og í þriðja lagi samning um kaup á lóðinni Stakksbraut 9. Kaupverðið var 200.000.000 króna sem fjármagnað var að stærstum hluta með láni frá Arion banka hf. Starfsleyfi Umhverfisstofnunar til reksturs verksmiðjunnar var gefið út 3. júlí 2014 til Stakksbrautar 9 ehf. en það síðar fært 21. október 2015 á Sameinað Sílikon hf. Samningar við Landsvirkjun 19. mars 2014 og Landsnet hf. sama dag voru hins vegar gerðir í nafni Sameinaðs Sílikons hf. Þá gerði Stakksbraut 9 ehf. 31. janúar 2014 samning við BIT Fondel B.V. um sölutryggingu. Með honum réð Stakksbraut 9 ehf. BIT Fondel B.V. til að vera einkadreifingaraðili á 12.000 tonna árlegri framleiðslu félagsins, en fyrir hönd Stakksbrautar 9 ehf. skrifaði Magnús Garðarsson undir á grundvelli fyrrgreinds umboðs. Síðar gekk úrskurður Landsréttar 28. júní 2021 í máli nr. 319/2021 þar sem meðal annars var komist að þeirri niðurstöðu að umboð Magnúsar hefði verið ógilt og því hefði ekki komist á bindandi samningur um fyrrgreinda sölutryggingu.
22. Tilkynnt var um samruna Stakksbrautar 9 ehf. við Sameinað Sílikon hf. undir nafni síðargreinda félagsins 24. september 2014. Ágreiningur tengdur þeim samruna er til umfjöllunar í dómi Hæstaréttar sem kveðinn er upp í dag í máli nr. 51/2023.
Hlutafjárhækkanir í Stakksbraut 9 ehf. í nóvember 2014
23. Stefndi Rögnvaldur Dofri sendi tvær tilkynningar um hækkun hlutafjár Stakksbrautar 9 ehf. sem bárust fyrirtækjaskrá 23. september 2014, samtals um 672.975.000 krónur. Hann staðfesti jafnframt að þær væru greiðslur USI Holding B.V. fyrir hlutafé í Stakksbraut 9 ehf. Fyrri hækkunin, um 223.759.000 krónur, var ákveðin 31. desember 2013. Samkvæmt staðfestingu stefnda Rögnvaldar Dofra var hún greidd með skuldajöfnun við víkjandi lán hluthafa sem voru til komin vegna greiðslna sem bárust frá félaginu Tomahawk Development á Íslandi hf. fyrir hönd USI Holding B.V. Staðfestingu um skuldajöfnun fylgdi skrifleg yfirlýsing um að til inneignar USI Holding B.V. hefði stofnast að sömu fjárhæð og hlutafjáraukningin sem hefði verið greidd með skuldajöfnun við víkjandi lán hluthafa félagsins. Seinni hækkunin, um 449.216.000 krónur, var samþykkt 15. febrúar 2014 og skyldi greiðast með reiðufé. Samkvæmt fundargerð hluthafafundar þann dag skráði USI Holding B.V. sig fyrir aukningunni en frestur til að greiða hana var til loka ágúst 2014. Staðfesting stefnda Rögnvaldar Dofra 22. september 2014 byggðist á nokkrum innborgunum frá Tomahawk Development á Íslandi hf. sem höfðu þá borist á reikninga Stakksbrautar 9 ehf. og var að mestu varið til greiðslu reikninga frá hollensku félagi, Pyromet Engineering B.V.
24. Fyrrgreint félag, Pyromet Engineering B.V., var stofnað í Hollandi 4. september 2013 og afskráð 10. október 2015. Skráður eigandi þess var Joseph Patrick Dignam. Samkvæmt upplýsingum sem skiptastjóri Sameinaðs Sílikons hf. aflaði 13. september 2019 hjá hollenskum aðila sem hafði aðstoðað við gerð skattframtala félagsins hafði engin starfsemi verið í því. Greiðslur Stakksbrautar 9 ehf. til Pyromet Engineering B.V. árið 2013 námu 975.000 evrum og 4.150.000 evrum árið 2014. Afrit þriggja reikninga Pyromet Engineering B.V. á hendur Stakksbraut 9 ehf. frá árinu 2013 hafa verið lögð fram, samtals að fjárhæð 975.000 evrur, auk eins reiknings frá árinu 2014 að fjárhæð 515.000 evrur. Á öllum þessum reikningum er skýringin: „Matter [:] Silicon Plant Helguvik, Furnace Design / Engineering and plant building design. / Contract payment according to progress [...].“
Greiðslur til Tomahawk Development á Íslandi hf.
25. Sem fyrr segir var félagið Tomahawk Development á Íslandi hf. stofnað í tengslum við viðræður við bandarískt félag um að koma á fót kísilmálmverksmiðju en þeim viðræðum var slitið árið 2012.
26. Í máli þessu er deilt um tíu hlutafjárhækkanir félagsins á tímabilinu maí 2013 til febrúar 2015 í samræmi við tilkynningar stefnda Rögnvaldar Dofra til fyrirtækjaskrár samkvæmt fyrirmælum laga nr. 2/1995 um hlutafélög, að frátalinni hækkun í júní 2014 sem annar nafngreindur endurskoðandi stefnda BD30 ehf. annaðist. Í tilkynningum um hækkanir hlutafjár var staðfest að greiðslur samkvæmt þeim hefðu borist félaginu. Þær voru sem hér segir:
1. Hlutafjárhækkun 33.000.000 króna 3. maí 2013 2. Hlutafjárhækkun 28.111.460 krónur 12. júní 2013 3. Hlutafjárhækkun 97.448.200 krónur 3. september 2013 4. Hlutafjárhækkun 105.960.160 krónur 16. október 2013 5. Hlutafjárhækkun 133.347.500 krónur 5. desember 2013 6. Hlutafjárhækkun 236.026.810 krónur 5. febrúar 2014 7. Hlutafjárhækkun 435.702.992 krónur 15. maí 2014 8. Hlutafjárhækkun 130.262.699 krónur 25. júní 2014 9. Hlutafjárhækkun 433.602.814 krónur 3. september 2014 10. Hlutafjárhækkun 162.395.166 krónur 11. febrúar 2015
27. Þessara hækkana var jafnframt getið í ársreikningum Tomahawk Development á Íslandi hf. að frátalinni þeirri síðustu 11. febrúar 2015. Magnús Garðarsson skráði sig fyrir nær öllu hlutafénu eða 1.751.966.273 nýjum hlutum og átti að lokum um 96,8% hlutafjár í félaginu. Í skýrslu stjórnar í ársreikningum félagsins komu fram upplýsingar um dreift eignarhald hlutabréfa í því sem endurspegluðu ekki framangreinda breytingu á eignarhaldinu.
28. Greiðslur fyrir hlutaféð bárust inn á reikninga Tomahawk Development á Íslandi hf. í gegnum krónuútboð Seðlabanka Íslands að frátalinni hlutafjárhækkun 12. júní 2014 samkvæmt tilkynningu 25. sama mánaðar, sem ekki hefur verið skýrð að fullu. Þá nam þóknun H.F. Verðbréfa hf. vegna útboðanna 6.081.253 krónum. Skilyrði fyrir þátttöku í útboðunum var meðal annars að fjárfest yrði í íslensku atvinnulífi til að minnsta kosti fimm ára.
29. Seðlabanki Íslands beindi kæru 18. júlí 2019 til héraðssaksóknara vegna ætlaðra brota Magnúsar Garðarssonar gegn þágildandi lögum nr. 87/1992 um gjaldeyrismál sem rakin voru til fyrrgreindra viðskipta. Í tengslum við rannsókn málsins var héraðssaksóknara veitt heimild til húsleitar hjá stefnda BD30 ehf. 17. september 2019.
Málsástæður
Helstu málsástæður áfrýjanda
30. Áfrýjandi reisir málsókn sína á 130. gr. laga nr. 21/1991 sem kröfuhafi í þrotabúi Tomahawk Development á Íslandi hf. þótt ekki hafi enn verið tekin afstaða til lýstra krafna hans í búið. Hann vísar til þess að eini áskilnaður ákvæðisins sé að kröfu hafi ekki verið hafnað. Þá sé ekki áskilið að krafa kröfuhafa í þrotabú sé hærri eða jafnhá stefnufjárhæð.
31. Áfrýjandi byggir á því að stefndu séu skaðabótaskyldir vegna staðfestingar Rögnvaldar Dofra og annars endurskoðanda hjá Ernst & Young ehf. á hlutafjárhækkunum í Tomahawk Development á Íslandi hf. árin 2013 til 2015. Ekki hafi komið fram skýring stefndu á því hvernig greiðslur hafi borist vegna hverrar og einnar hækkunar og byggir áfrýjandi á því að í reynd hafi ekkert verið greitt fyrir þær. Verði talið að þær hafi borist í einhverjum mæli hafi það gerst eftir að staðfestingar voru sendar fyrirtækjaskrá og þær því verið efnislega rangar. Þá sé óumdeilt að fjárhæð sem nemur ætluðum þóknunum H.F. verðbréfa hf., 6.081.253 krónur, hafi aldrei borist inn á reikninga félagsins og hinu sama gegni um 42.101.840 krónur vegna hækkunar 12. júní 2014.
32. Ríkar skyldur hvíli á endurskoðendum sem opinberum sýslunarmönnum. Sakarmat á störfum stefndu sé strangt hvort sem um sé að ræða gerð sérfræðiskýrslu, endurskoðun eða skoðun ársreikninga. Hlutverk endurskoðenda við staðfestingu hlutafjárhækkana sé að ganga úr skugga um að staðhæfing áskrifanda um að greitt hafi verið fyrir hlutafjárhækkun sé rétt. Áfrýjandi byggir á því að sú háttsemi sérfræðings að kanna ekki hvort greiðsla með reiðufé hafi borist inn á bankareikning áður en hún er staðfest sé saknæm og ólögmæt. Sönnunarbyrði snúist við þegar sérfræðingur hefur gerst sekur um saknæmt athæfi og þá sönnunarbyrði hafi stefndu ekki axlað.
33. Framburður stefnda Rögnvaldar Dofra hafi verið á reiki um hvort hann hafi stuðst við greiðslukvittanir eða bankayfirlit þegar hann staðfesti umræddar hlutafjárhækkanir í félaginu. Þá hafi komið í ljós að hlutafjárgreiðslurnar hafi runnið beint aftur til Magnúsar Garðarssonar og félaga undir hans stjórn og lausafjárstaða félagsins því í reynd verið verri eftir hlutafjárhækkanir. Stefndu hefði átt að vera ljóst vegna starfa sinna að ætlaðar greiðslur fyrir hlutafé hafi runnið jafnharðan út af reikningum Tomahawk Development á Íslandi hf. og inn á önnur félög undir stjórn Magnúsar Garðarssonar.
34. Þá hafi upplýsingar í ársreikningi Tomahawk Development á Íslandi hf. um eignarhald félagsins verið rangar þar sem ekki kom fram þar að Magnús Garðarsson hefði einn skráð sig fyrir nær öllum fyrrgreindum hlutafjárhækkunum. Fram komi í ISRS-staðli 4410 sem og í lögum og siðareglum um endurskoðendur almenn skylda þeirra til að fjarlægja hvers kyns villandi framsetningu upplýsinga í reikningsskilum. Ekkert liggi fyrir um að stefndu hafi reynt að leiðrétta ranga tilgreiningu hluthafa í ársreikningum félagsins.
35. Þá byggir áfrýjandi jafnframt á því að greiðslur inn á reikninga Tomahawk Development á Íslandi hf. hafi í reynd verið sýndargreiðslur. Þær hafi nær allar runnið frá félaginu og til þriggja félaga undir stjórn Magnúsar Garðarssonar. Þannig hafi greiðslurnar ýmist farið frá Tomahawk Development á Íslandi hf. til Stakksbrautar 9 ehf. eða Íslenska Kísilfélagsins ehf. og þaðan í báðum tilvikum til Pyromet Engineering B.V. Í að minnsta kosti tveimur tilvikum hafi greiðslum verið ráðstafað beint inn á persónulega reikninga Magnúsar.
36. Árin 2013 til 2015 hafi Pyromet Engineering B.V. fengið greiddar 7.409.600 evrur frá Stakksbraut 9 ehf. og 6.174.800 evrur frá Íslenska Kísilfélaginu ehf. Þessar greiðslur hafi í báðum fyrrgreindum tilvikum átt uppruna sinn í greiðslum frá Tomahawk Development á Íslandi hf. Stefndu hafi verið endurskoðendur Íslenska Kísilfélagsins ehf. Í ársreikningi þess félags vegna ársins 2012 hafi komið fram að öllum samningum þess hefði verið rift það ár og að félagið hefði hætt starfsemi. Engu að síður hafi stefndu ekki skýrt fyrrgreindar greiðslur Íslenska Kísilfélagsins ehf. til Pyromet Engineering B.V. en engin starfsemi hafi verið í því og það verið afskráð 10. október 2015. Félagið hafi haft sama aðsetur og USI Holding B.V. og Silicon Mineral Ventures B.V. og það heimilisfang komið fram á reikningum sem gefnir hafi verið út af Pyromet Engineering B.V.
37. Framangreindar greiðslur hafi verið nýttar til að hækka hlutafé félaganna Tomahawk Development á Íslandi hf. og í kjölfarið Stakksbrautar 9 ehf. Um sé að ræða þekkta aðferð til að auka verðmæti fyrirtækja eða sýna tímabundið tiltekna stöðu á bankareikningi áður en fjármunir eru færðir til baka. Í tilviki Tomahawk Development á Íslandi hf. hafi verið um að ræða háar fjárhæðir yfir langt tímabil og aldrei hafi nokkurt fé orðið eftir í félaginu.
38. Áfrýjandi byggir einnig á því að í þessu hafi falist misnotkun á fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands sem góður og gegn endurskoðandi hefði þurft að vera á varðbergi gegn enda um alþekkta hættu að ræða á tímum gjaldeyrishafta. Hinu sama gegni um greiðslur Stakksbrautar 9 ehf. til Pyromet Engineering B.V. sem stefndu hafi eignfært án frekari athugunar sem óefnisleg verðmæti í ársreikningi Stakksbrautar 9 ehf. og jafnframt í ársreikningi Sameinaðs Sílikons hf. eftir samruna þessara félaga árið 2016. Þá hafi stefndu ekki skýrt hvers vegna sambærilegar greiðslur Íslenska Kísilfélagsins ehf. til Pyromet Engineering B.V. hafi ekki verið eignfærðar í ársreikningum þess félags. Greiðslurnar hafi haft öll einkenni sýndargreiðslna og það átt að vera stefndu ljóst, sbr. kæru Seðlabanka Íslands til héraðssaksóknara 18. júlí 2019 vegna ætlaðra brota Magnúsar Garðarssonar gegn skilmálum bankans frá 18. nóvember 2011 um gjaldeyrisviðskipti og lögum nr. 87/1992.
39. Áfrýjandi byggir á að stefnda Rögnvaldi Dofra hafi borið sem tilkynningarskyldum aðila að kanna greiðslurnar sjálfstætt og tilkynna þær til lögreglu, sbr. 1. mgr. 17. gr. þágildandi laga nr. 64/2006 um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Hann hafi ekkert aðhafst til að afla gagna eða upplýsinga þrátt fyrir ríkt tilefni. Slík athugun sé einföld og krefjist í reynd ekki sérfræðiþekkingar. Stefndu hafi jafnframt borið skylda til að gæta vandaðra vinnubragða og óhæðis gagnvart Magnúsi Garðarssyni og félögum hans, sbr. 1. mgr. 8. gr. og 19. gr. þágildandi laga nr. 79/2008 um endurskoðendur. Mikilvægt sé að opinber sýslunarmaður sinni þessum skyldum og þá séu veigamiklir opinberir hagsmunir og einkahagsmunir tengdir réttri skráningu hlutafjár. Það séu því ekki haldbær rök fyrir sérfróðan endurskoðanda að bera því við að greiðandi hlutafjár hafi sagt sér ósatt eða að hafa ekki aflað gagna eða upplýsinga.
40. Enn fremur byggir áfrýjandi á að það sé meginregla samkvæmt 1. mgr. 16. gr. laga nr. 2/1995 að greiðsla hlutar megi ekki nema minna en nafnverði hans. Stefndu hafi staðfest ranglega að greiðslur Magnúsar Garðarssonar væru komnar inn á bankareikning félagsins áður en þær bárust. Þessi háttsemi endurskoðanda sé gáleysisleg, skapi greiðslufallshættu sem ekki eigi að vera til staðar og sé líkleg til að leiða til tjóns. Gerð hafi verið árangurslaus kyrrsetningargerð hjá Magnúsi 18. september 2017 og því ómögulegt að innheimta áskriftarloforð hjá honum. Þá hafi hlutafé félagsins ekki verið lækkað áður en bú þess var tekið til gjaldþrotaskipta.
41. Áfrýjandi byggir á að samkvæmt 72. gr. laga nr. 21/1991 taki þrotabú skuldara við öllum fjárhagslegum réttindum sem hann átti eða naut við uppkvaðningu úrskurðar um skipti. Áfrýjandi telur niðurstöðu hins áfrýjaða dóms ranga um að tjón geti ekki orðið til framtíðar litið. Félagið hafi verið eignalaust þar sem greiðsla á hlutafjárloforði að fjárhæð um 1,8 milljarða króna hafi ekki skilað sér til þess vegna aðgæsluleysis stefndu. Um orsakatengsl og sennilega afleiðingu sé meðal annars byggt á því að engar greiðslur hafi borist fyrir hlutafjárhækkunina, að minnsta kosti að hluta, og að ekki hafi verið gengið úr skugga um að greiðslur hefðu borist áður en staðfest var að þær hefðu verið greiddar að fullu. Þá sé krafa búsins ekki fyrnd enda verði upphaf fyrningarfrests ekki miðað við vitneskju forsvarsmanna félagsins sjálfs heldur það tímamark þegar skiptastjóri eða kröfuhafar í umboði hans fá réttar og fullnægjandi upplýsingar um hlutafjáraukningu, sbr. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda.
Helstu málsástæður stefndu
42. Stefndu byggja á að þeir hafi ekki sýnt af sér saknæma eða ólögmæta háttsemi. Réttilega hafi verið staðið að staðfestingu hlutafjárhækkana í Tomahawk Development á Íslandi hf. og greiðslur fyrir hlutafé borist félaginu. Staðfesting á innborgun hlutafjár geti byggst á bankayfirlitum og í reynd öllum þeim gögnum sem sýna fram á raunverulega greiðslu.
43. Hlutafjárhækkanir í Tomahawk Development á Íslandi hf. hafi í öllum tilvikum verið ákveðnar á hluthafafundum. Í kjölfarið hafi stefndi Rögnvaldur Dofri fengið upplýsingar um að félagið hefði tekið við greiðslum sem námu að minnsta kosti fjárhæð hlutafjárhækkana. Bankareikningar félagsins hafi borið með sér að áður en hækkun var staðfest hefðu greiðslur borist sem námu í öllum tilvikum að minnsta kosti fjórðungi viðkomandi hækkunar, sbr. 2. mgr. 40. gr. laga nr. 2/1995, sbr. einnig 19. gr. laganna þar sem fram kemur að hluthafar hafa allt að ár til að greiða eftirstöðvar hlutafjárloforða. Þá höfðu einnig borist staðfestingar H.F. Verðbréfa hf. sem önnuðust milligöngu um móttöku greiðslna. Hafi stefndu því réttilega mátt staðfesta greiðslurnar enda framkvæmdin verið í samræmi við þágildandi reglur og skilmála Seðlabanka Íslands um gjaldeyrisútboð. Allar greiðslur fyrir hluti í félaginu hefðu farið í gegnum fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands fyrir milligöngu H.F. Verðbréfa hf. og hlutir verið skráðir rafrænni skráningu í kerfi Verðbréfaskráningar Íslands eins og áskilið var.
44. Í héraðsdómi hafi verið rakið á hvaða gögnum stefndi Rögnvaldur Dofri og annar endurskoðandi hjá Ernst & Young ehf. hafi byggt við gerð umræddra staðfestinga. Þar komi fram að stefndu hafi ekki tekist að rekja á bankayfirlitum greiðslu fyrir hlutafjárhækkun í júní 2014 að fjárhæð 42.101.840 krónur. Þess sé að gæta í því samhengi að langur tími hafi liðið frá því að hækkunin varð auk þess sem óljóst sé hvort stefndu hafi fengið afrit allra þeirra gagna sem hafi verið haldlögð við rannsókn héraðssaksóknara. Innborganir á bankareikninga Tomahawk Development á Íslandi hf. á tímabilinu 2013 til 2015 hafi numið 3,8 milljörðum króna. Þótt ekki hafi verið unnt með áreiðanlegum hætti að tengja þær allar við hlutafjárhækkanir sé ekkert í bókhaldi félagsins sem bendi til þess að hlutafjárloforð hafi verið vanefnd. Í hinum áfrýjaða dómi hafi verið staðfest að hluta mismunar á innborgunum inn á reikninga félagsins og staðfestu hlutafé megi rekja til þóknana H.F. Verðbréfa hf. Ekki liggi fyrir hvort sá kostnaður hafi verið samþykktur á hluthafafundum félagsins en ekki sé við stefndu að sakast í þeim efnum. Stefndu byggja auk þess á því að engin viðurkenning hafi falist í gagnaframlagningu þeirra um sundurliðun hlutafjárgreiðslna. Í henni hafi falist viðleitni þeirra til að útskýra á grundvelli ófullkominna gagna og bankayfirlita að staðfestingar þeirra hafi verið réttar.
45. Verði talið að stefndu hafi ekki staðið rétt að staðfestingum vegna innborgunar hlutafjárins byggja þeir jafnframt á því að ekkert tjón hafi hlotist af því auk þess sem önnur skilyrði skaðabótaábyrgðar séu ekki fyrir hendi. Hvorki liggi fyrir sönnun um ætlaða hringrás fjármuna né vitneskja stefndu um slíkt. Jafnframt mótmæla stefndu að óumdeilt sé að fjárhagsstaða Tomahawk Development á Íslandi hf. hafi orðið verri eftir hlutafjárhækkanirnar.
46. Þá beri stefndu ekki ábyrgð á ráðstöfun hlutafjár. Slíka skyldu sé ekki að finna í lögum nr. 2/1995. Jafnvel þótt rétt reynist að um svokallaðar hringgreiðslur hafi verið að ræða hafi stefndu verið grandlausir um þær enda hafi þá skort nægilega yfirsýn. Þeir hafi ekkert þekkt til félagsins Pyromet Engineering B.V. annað en að það væri verksali sem hefði lagt sitt af mörkum til uppbyggingar kísilmálmverksmiðjunnar. Auk þess hafi stefndu ekki haft vitneskju um erlenda bankareikninga Stakksbrautar 9 ehf. eða Tomahawk Development á Íslandi hf. og engir erlendir bankareikningar verið í bókhaldi þeirra íslensku félaga sem tengdust verkefninu og stefndu aðstoðuðu við gerð ársreikninga. Þá hafi stefndu ekki búið yfir upplýsingum um tvo nánar tilgreinda innlenda bankareikninga Stakksbrautar 9 ehf. sem síðar rann saman við Sameinað Sílikon hf. Þeirra hafi ekki verið getið í svari Arion banka hf. við upplýsingabeiðni stefndu í árslok 2014.
47. Greiðslur til Pyromet Engineering B.V. hafi verið bókfærðar á grundvelli fullnægjandi bókhaldsgagna hjá Stakksbraut 9 ehf. en bókhald félagsins hafi síðar verið afhent Sameinuðu Sílikoni hf. Færsla óefnislegra eigna í Stakksbraut 9 ehf. hafi verið byggð á þessum bókhaldsgögnum, þar á meðal reikningum frá Pyromet Engineering B.V., en stefndu hafi ekki haft aðgang að hönnunargögnum við færslu bókhaldsins. Það hafi auk þess verið eðlilegt að fjárfestingarfélag ráðstafaði hlutafé sínu til fjárfestinga en safnaði því ekki til varðveislu á bankareikningum. Auk þess hafi stefndu engin afskipti haft af þátttöku Magnúsar Garðarssonar og annarra fjárfesta að baki Tomahawk Development á Íslandi hf. að fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands. Þannig bendi allar ytri aðstæður til grandleysis stefndu um fjármagnshreyfingar félagsins.
48. Enn fremur hafi stefndu einungis aðstoðað við samantekt ársuppgjörs og framtals samkvæmt ISRS-staðli 4410 fyrir Tomahawk Development á Íslandi hf. og Stakksbraut 9 ehf. en ekki sinnt hlutverki endurskoðanda fyrir þau félög í skilningi þágildandi 2. töluliðar 1. gr. laga nr. 79/2008. Þá hafi vinna fyrir félögin ekki farið fram á sama tíma og stefnda Rögnvaldi Dofra hafi ekki verið falið að gera samanburð eða rekja fjárflæði milli þeirra.
49. Stefndu byggja einnig á því að tjón sé ósannað en sönnunarbyrði um ætlað tjón og orsakasamband hvíli á áfrýjanda. Þá sé sjónarmiðum um öfuga sönnunarbyrði hafnað. Til að mynda sé ekki skýrt hvernig félagið varð fyrir tjóni eða hvers vegna það samsvari þeirri fjárhæð sem nemur hlutafjárhækkunum eða hvernig hið hækkaða hlutafé eða ætluð röng skráning hafi staðið starfsemi þess fyrir þrifum. Enn fremur hafna stefndu því að fyrir hendi séu orsakatengsl milli háttsemi stefndu og ætlaðs tjóns. Þá séu ætlaðar kröfur fyrndar hafi þær á annað borð stofnast. Kröfuhafar geti ekki öðlast betri rétt en félagið til að hafa uppi ætlaðar bótakröfur.
50. Loks byggja stefndu á að krafa áfrýjanda njóti ekki verndar skaðabótaréttar. Kröfur áfrýjanda við gjaldþrotaskipti á búi Tomahawk Development á Íslandi hf. nemi 191.277.423 krónum en ekki hafi verið tekin afstaða til þeirra við gjaldþrotaskiptin. Höfuðstóll dómkröfu áfrýjanda nemi 1.751.966.273 krónum með vöxtum. Verði fallist á hana liggi fyrir að stærstur hluti hennar muni renna til fyrrverandi hluthafa Tomahawk Development á Íslandi hf.
Niðurstaða
Staðfestingar tíu hlutafjárhækkana 2013 til 2015
51. Aðilar deila um hvort endurskoðendur stefnda BD30 ehf. hafi sýnt af sér saknæma vanrækslu þegar þeir staðfestu tíu hlutafjárhækkanir í félaginu Tomahawk Development á Íslandi hf. á tímabilinu maí 2013 til febrúar 2015. Tilkynningum um hlutafjárhækkun fylgdu í níu skipti staðfestingar stefnda Rögnvaldar Dofra og í eitt skipti annars nafngreinds endurskoðanda hjá BD30 ehf. um að greiðslur hefðu borist fyrir umræddar hækkanir. Samtals var hlutafé félagsins aukið um 1.795.857.801 krónu á grundvelli ákvarðana hluthafafunda í félaginu um hlutafjárhækkanir með áskrift nýrra hluta. Aðalkrafa áfrýjanda um greiðslu 1.751.966.273 króna svarar til þeirra hlutafjárhækkana sem Magnús Garðarsson skráði sig fyrir í félaginu.
52. Við hækkun hlutafjár í félagi gilda ákvæði V. kafla laga nr. 2/1995. Þar segir í 1. tölulið 1. mgr. 36. gr. að í ákvörðun hluthafafundar um hækkun hlutafjár með áskrift nýrra hluta eigi að taka fram hve mikið skuli hækka hlutaféð. Jafnframt skal samkvæmt 5. tölulið málsgreinarinnar taka fram hvort fyrir hendi sé frestur til greiðslu hluta.
53. Í 1. mgr. 19. gr. laga nr. 2/1995 sagði á þeim tíma þegar atvik máls urðu að við hækkun hlutafjár skyldu hlutirnir greiddir að fullu í síðasta lagi einu ári eftir að hækkunin hefði verið tilkynnt til hlutafélagaskrár. Ef ekki væri á réttum tíma tilkynnt að hinir nýju hlutir væru að fullu greiddir skyldi hlutafélagaskrá gefa félaginu hæfilegan frest, sem þó mætti ekki vera lengri en þrír mánuðir, til að bæta úr annmörkum. Hefði ekki verið úr bætt innan frestsins og stjórn félagsins hefði heldur ekki tilkynnt að hlutafé hefði verið lækkað samkvæmt 53. gr. skyldi hlutafélagaskrá láta skrá að það hefði verið lækkað sem samsvaraði nafnverði þeirra hluta er eigi hefðu verið greiddir og samþykktum breytt samkvæmt því. Hækkunarhlutir skyldu teljast ógildir þegar lækkunin hefði verið skráð. Með 6. gr. laga nr. 25/2017 var 1. málslið 1. mgr. 19. gr. laga nr. 2/1995 breytt á þá leið að greiðslufrestur er nú eitt ár frá því að ákvörðun um hækkun hlutafjár var tekin. Þá er þess að geta að fyrirtækjaskrá gerir á stöðluðu eyðublaði ráð fyrir staðfestingu endurskoðanda, lögmanns eða skoðunarmanns á að hlutafé hafi verið greitt í samræmi við lög nr. 2/1995. Tekur sú staðfesting jafnt til greiðslu með reiðufé eða öðrum hætti. Sækir sú framkvæmd stoð í 4. mgr. 148. gr. laga nr. 2/1995.
54. Eins og fram kemur í dómi Landsréttar bera fundargerðir hluthafafunda í Tomahawk Development á Íslandi hf. það með sér að tilkynna hafi átt um hlutafjárhækkanir þegar hlutaféð hefði verið greitt og þar hafi í engu verið getið um fresti til greiðslu hluta eða áætlaðan kostnað félagsins af hækkun hlutafjárins, sbr. 5. og 7. tölulið 1. mgr. 36. gr. laga nr. 2/1995. Þar er einnig vísað til þess að þegar einungis hefur verið greiddur hluti hlutafjárauka við tilkynningu um hlutafjárhækkun beri samkvæmt 2. mgr. 40. gr. sömu laga að geta þess sérstaklega hvaða fjárhæð hafi þegar verið greidd. Það hafi ekki verið gert í þeim tilkynningum sem málið lúti að. Af þessu dregur Landsréttur réttilega þá ályktun að líta beri svo á að með áritunum sínum á umræddar tilkynningar hafi endurskoðendurnir tveir staðfest að allur hlutafjáraukinn hafi verið greiddur hverju sinni.
55. Ríkar skyldur hvíla á endurskoðendum í störfum þeirra og ber þeim ávallt að ástunda rétt og vönduð vinnubrögð. Þegar um er að ræða ráðstafanir í tengslum við stofnun félags með takmarkaðri ábyrgð eða við hækkun hlutafjár í slíku félagi eru mikilvægir hagsmunir hluthafa, lánardrottna sem og samfélagsins í heild bundnir því að staðfesting endurskoðanda eða annarra sérfræðinga og framsetning upplýsinga sé reist á traustum grunni. Jafnframt er brýnt að fylgt sé þeim reglum um greiðslu hlutafjár og skilyrðum fyrir staðfestingu greiðslu sem lög áskilja. Önnur niðurstaða myndi raska grundvelli lögbundins fyrirkomulags um takmarkaða ábyrgð hluthafa á skuldbindingum slíkra félaga.
56. Þegar metið er hvort stefndi Rögnvaldur Dofri eða annar nafngreindur endurskoðandi hjá BD30 ehf. hafi sýnt af sér saknæma háttsemi við gerð fyrrgreindra staðfestinga til fyrirtækjaskrár um hlutafjárhækkanir í Tomahawk Development á Íslandi hf. verður að líta til þess að sú skylda hvíldi á þeim að rækja þann starfa í samræmi við lög og góðar venjur á sínu fagsviði. Auk þess skiptir máli hvaða upplýsingar voru þeim til reiðu þegar atvik málsins áttu sér stað.
57. Í 1. mgr. 16. gr. laga nr. 2/1995 segir að greiðsla hlutar megi ekki nema minna en nafnverði hans. Af framangreindu ákvæði verður sú ályktun dregin að þeim sem staðfestir greiðslu hlutafjár með reiðufé beri skylda til að kanna hvort slík verðmæti eða reiðufé hafi í reynd verið innt af hendi til félags. Hins vegar nær hún almennt ekki til þess að kanna ráðstöfun fjármuna félags í kjölfar hækkunar enda myndi slík almenn skylda fela í sér auknar kröfur sem ekki er gert ráð fyrir í ákvæðum laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög og laga nr. 2/1995. Þrátt fyrir það er ekki útilokað að sérfræðingur sem staðfestir hlutafjárhækkun geti borið ríkari skyldu til aðgæslu þegar sérstaklega stendur á, til að mynda í ljósi þeirrar þekkingar á félagi sem hann býr yfir eða var í lófa lagið að afla sér. Eðli máls samkvæmt verða gerðar auknar kröfur þegar um ræðir greiðslu hlutafjár tengdra aðila.
58. Svo sem að framan greinir staðfestu umræddir tveir endurskoðendur tíu hlutafjárhækkanir í Tomahawk Development á Íslandi hf. að nafnvirði 1.795.857.801 króna. Eins og fram kemur í hinum áfrýjaða dómi sem skipaður var sérfróðum meðdómanda tókst stefndu á grundvelli bankayfirlita Tomahawk Development á Íslandi hf. að tengja greiðslur til félagsins að fjárhæð 1.747.674.708 krónur við nánar tilteknar hlutafjárhækkanir. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms er fallist á þá niðurstöðu að greiðslur á umræddri fjárhæð sem bárust inn á reikninga félagsins á þeim tíma sem um ræðir hafi ekki borið annað með sér en að með þeim væri verið að greiða fyrir þá hlutafjáraukningu sem um er deilt. Þá eru ekki efni til að virða það stefndu til sakar þótt hluti greiðslnanna hafi borist eftir að stefndu staðfestu hverja hlutafjárhækkun fyrir sig. Enn fremur hafa ekki verið leiddar að því nægar líkur að stefndi Rögnvaldur Dofri hafi á þeim tíma sem um ræðir búið yfir upplýsingum um erlenda bankareikninga Tomahawk Development á Íslandi hf. eða Stakksbrautar 9 ehf. en hluta af þeim greiðslum sem hér um ræðir var í kjölfar þess að þær bárust Tomahawk Development á Íslandi hf. ráðstafað til Stakksbrautar 9 ehf. Þá kom hann ekki að endurskoðun félagsins Pyromet Engineering B.V. en hluti af greiðslunum rann til þess félags beint eða í gegnum tengd félög. Þótt stefndi Rögnvaldur Dofri hafi komið með einum eða öðrum hætti að reikningsskilum félaga sem Magnús Garðarsson stýrði í raun verður fallist á þá niðurstöðu hins áfrýjaða dóms að endurskoðendurnir tveir hafi á þessum tíma ekki haft nægt tilefni til að kanna nánar ráðstöfun fjármuna út úr félaginu Tomahawk Development á Íslandi hf. og hagga þau gögn sem áfrýjandi hefur lagt fram fyrir Hæstarétti ekki þeirri niðurstöðu. Verður því fallist á þá niðurstöðu hins áfrýjaða dóms að sýkna beri stefndu af aðalkröfu áfrýjanda.
59. Með varakröfu áfrýjanda er krafist skaðabóta að fjárhæð 48.252.879 króna. Varakrafa að fjárhæð 47.146.179 krónur kom fyrst fram við meðferð málsins fyrir Landsrétti en í niðurstöðu hans var talið að hún rúmaðist innan málatilbúnaðar áfrýjanda frá öndverðu þótt þær fjárhæðir sem hún byggðist á ættu sér ekki að öllu leyti stoð í gögnum málsins. Í hinum áfrýjaða dómi er rakið að undir meðferð málsins fyrir héraðsdómi hafi af hálfu stefndu verið lagt fram yfirlit 16. júní 2021 þar sem leitast hafi verið við að tengja einstakar greiðslur inn á reikninga Tomahawk Development á Íslandi hf. við umræddar tíu hlutafjárhækkanir. Byggi áfrýjandi á því að með framlagningu yfirlitsins hafi stefndu í reynd viðurkennt að framangreinda fjármuni hafi vantað upp á að full greiðsla hefði komið fyrir fyrrgreinda hlutafjáraukningu. Rökstyðji hann kröfu sína með þeim hætti að annars vegar hafi 42.146.179 krónur vantað upp á að greiðslur vegna hlutfjárhækkunar í júní 2014 hafi borist Tomahawk Development á Íslandi hf. Þá hafi hins vegar vantað 6.151.039 krónur upp á að hlutafjáraukningin hafi verið greidd að fullu en sú fjárhæð hafi að stærstum hluta verið vegna þóknunar H.F. Verðbréfa hf. að fjárhæð 6.081.253 krónur.
60. Í hinum áfrýjaða dómi er komist að þeirri niðurstöðu að sá hluti varakröfunnar sem lúti að þóknun H.F. Verðbréfa hf. sé reistur á málsástæðum sem hafi verið of seint fram komnar fyrir Landsrétti og kæmi sá hluti varakröfunnar því ekki til álita, sbr. 2. mgr. 111. gr. laga nr. 91/1991. Er fallist á þá niðurstöðu.
61. Fyrir Hæstarétti gerir áfrýjandi þrautavarakröfu þess efnis að stefndu verði dæmdir óskipt til að greiða honum 42.101.840 krónur með sömu vöxtum og í aðalkröfu. Byggist krafan á því að þá fjárhæð hafi vantað upp á fulla greiðslu hlutafjárhækkunar í Tomahawk Development á Íslandi hf. sem samþykkt var 12. júní 2014 og tilkynnt til fyrirtækjaskrár 25. sama mánaðar af öðrum endurskoðanda hjá Ernst & Young hf. en stefnda Rögnvaldi Dofra.
62. Eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi hefur stefndu samkvæmt framangreindu yfirliti 16. júní 2021 aðeins tekist að tengja tvær greiðslur inn á reikninga Tomahawk Development á Íslandi hf. við hlutafjárhækkun 12. júní 2014. Þær greiðslur eru annars vegar að fjárhæð 18.401.559 krónur og hins vegar 69.759.300 krónur. Sem fyrr segir vantar þá 42.101.840 krónur upp á greiðslu hækkunarinnar sem endurskoðandinn staðfesti í tilkynningu til fyrirtækjaskrár. Stefndu tóku margumrætt yfirlit saman eftir að gögn sem héraðssaksóknari hafði lagt hald á voru afhent þeim. Fallist er á með Landsrétti að sá langi tími sem liðinn er geti ekki breytt þeim ályktunum sem draga má af framlögðum reikningsyfirlitum félagsins. Við skoðun þeirra verður ekki betur séð en að greiðslur, sem réttilega er hægt að tengja við þá hækkun, séu tæmandi taldar í framangreindu yfirliti. Í málatilbúnaði sínum byggir áfrýjandi, sem fyrr segir, á því að framangreinda fjárhæð hafi vantað til að efna hlutafjárhækkunina 12. júní 2014. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms er fallist á að í ljósi þess hvernig báðir aðilar hafa ráðstafað sakarefninu verði samkvæmt því sem upplýst er í málinu að leggja til grundvallar að 42.101.840 krónur hafi vantað upp á fulla greiðslu hlutafjárhækkunarinnar þegar greiðsla hennar var staðfest 25. júní sama ár.
63. Þar sem stefndi Rögnvaldur Dofri kom ekki að staðfestingu umræddrar hlutafjárhækkunar verður hann sýknaður af þrautavarakröfunni. Í ljósi atvika málsins og forsendna hins áfrýjaða dóms verður hins vegar fallist á með áfrýjanda að endurskoðandinn sem annaðist um gerð þeirrar staðfestingar hafi sýnt af sér saknæma háttsemi með því að gæta ekki nægilega að því að umrædd greiðsla hefði borist félaginu. Á tjóni sem af þeirri háttsemi kann að hafa hlotist ber stefndi BD30 ehf. ábyrgð á grundvelli reglu skaðabótaréttar um vinnuveitandaábyrgð.
Tjón áfrýjanda og sönnun um orsakatengsl
64. Að framangreindri niðurstöðu fenginni þarf að taka afstöðu til þess hvort áfrýjandi hafi orðið fyrir tjóni vegna þeirrar fjárhæðar sem vantaði upp á til að full greiðsla kæmi fyrir þá hækkun hlutafjár í Tomahawk Development á Íslandi hf. sem samþykkt var 12. júní 2014 og tilkynnt til fyrirtækjaskrár af endurskoðanda stefnda BD30 ehf. 25. sama mánaðar. Verði talið að um tjón sé að ræða þarf að leysa úr því hvort orsakatengsl teljist sönnuð milli þess og saknæmrar háttsemi og ef svo er ekki hver eigi þá að bera hallann af þeim sönnunarskorti.
65. Gjaldþrotaskipti eru sameiginleg fullnustugerð lánardrottna þrotamanns. Réttindi og skyldur hans flytjast almennt yfir til þrotabús við uppkvaðningu gjaldþrotaúrskurðar. Þau verðmæti sem finnast í búi félags þegar það er tekið til skipta eða skiptastjóra þrotabús tekst að afla með innheimtu, endurheimt verðmæta eða bótakröfum að frátöldum skiptakostnaði koma til skipta milli lánardrottna sem lýst hafa kröfu í búið í samræmi við stöðu þeirra í réttindaröð og ákvæði laga nr. 21/1991 að öðru leyti. Fáist kröfur lánardrottna ekki greiddar að fullu við þessa sameiginlegu fullnustugerð verða þeir fyrir tjóni, ýmist allir eða hluti þeirra, allt eftir stöðu þeirra í réttindaröð.
66. Þegar um er að ræða félag með takmarkaða ábyrgð félagsmanna bera þeir að jafnaði ekki aðra ábyrgð á fjárhagslegum skuldbindingum þess en með því hlutafé sem þeir hafa lagt til þess. Af þeim sökum verða lánardrottnar félags að geta treyst því að endurgjald fyrir hlutafé hafi verið greitt að fullu. Tilkynning til fyrirtækjaskrár um hækkun hlutafjár og greiðslu andvirðis þess er endanleg staðfesting gagnvart lánardrottnum og öðrum um að endurgjald fyrir hlutafé sem nemur að minnsta kosti nafnvirði þess hafi skilað sér til félags. Þótt lánardrottnar geti ekki gengið að því vísu að í félagi séu á hverjum tíma verðmæti sem geti verið andlag fullnustugerðar sem samsvari að öllu leyti því endurgjaldi sem innt hefur verið af hendi fyrir hlutafé eiga þeir almennt að geta treyst því að endurgjaldið geti með einhverju móti orðið grundvöllur verðmætasköpunar í félaginu. Hlutafé félags og endurgjald sem innt er af hendi fyrir það er þannig mikilvægasti grundvöllur lánstrausts þess og almennt má ætla að ákvarðanir lánardrottna í samskiptum við það byggist meðal annars á að upplýsingar þar um séu réttar. Löggjöf um hlutafélög endurspeglar þetta.
67. Hér að framan hefur verið fallist á þá niðurstöðu hins áfrýjaða dóms að með áritunum sínum á umræddar tilkynningar hafi endurskoðendur staðfest að allur hlutafjáraukinn hafi verið greiddur hverju sinni. Af því verður sú ályktun dregin að lánardrottnar hafi mátt treysta því að allt endurgjald fyrir hlutafjáraukninguna sem samþykkt var 12. júní 2014 hefði verið greitt til Tomahawk Development á Íslandi hf. Tilkynningin var þannig til þess fallin að vera grundvöllur ákvarðana lánardrottna félagsins.
68. Afstýra má að einhverju leyti eða draga úr skaðlegum afleiðingum af röngum tilkynningum til fyrirtækjaskrár um greiðslu fyrir hlutafé eða verðmæti endurgjalds með leiðréttingu á fyrri tilkynningu og samsvarandi lækkun hlutafjár. Í þessu máli liggur fyrir að slík leiðrétting var aldrei send og lánardrottnar höfðu þar af leiðandi aldrei tilefni til að laga ákvarðanir sínar í lögskiptum við Tomahawk Development á Íslandi hf. að því að greiðslur fyrir aukið hlutafé bárust ekki að fullu til félagsins.
69. Fyrir liggur að heildarfjárhæð krafna sem lýst hefur verið í þrotabú Tomahawk Development á Íslandi hf. er 198.807.846 krónur. Kröfuhafar eru þrír en áfrýjandi hefur lýst tveimur kröfum samtals að fjárhæð 192.000.073 krónur. Ekki verður úr því skorið í þessu máli hvort þær kröfur eigi við rök að styðjast en skiptastjóri hefur ekki tekið afstöðu til krafna í þrotabúið þar sem hann telur nokkuð ljóst að ekkert fáist upp í lýstar kröfur, sbr. 1. mgr. 119. gr. laga nr. 21/1991.
70. Verði lýstar kröfur í þrotabú Tomahawk Development á Íslandi hf. samþykktar, þar á meðal önnur eða báðar kröfur áfrýjanda, fer ekki á milli mála að lánardrottnar félagsins, þar með talinn áfrýjandi, hafa beðið umfangsmikið tjón í lögskiptum við það. Tjónið sem leiddi samkvæmt framansögðu af því að full greiðsla barst ekki fyrir hlutafé sem tilkynnt var að greitt hefði verið fyrir er hluti af því tjóni.
71. Ljóst er hins vegar að erfitt getur reynst að færa sönnur á að allir lánardrottnar sem ekki fá kröfur sínar greiddar við gjaldþrotaskipti hafi byggt ákvarðanir sínar að einhverju leyti eða öllu á upplýsingum um hlutafjárhækkun og greiðslu endurgjalds fyrir hlutafé. Þetta getur hvort sem er átt við um ákvarðanir lánardrottins um að veita félagi lán eða aðra fyrirgreiðslu, veita greiðslufrest eða virkja ekki ákvæði samnings um gjaldfellingu láns eða önnur vanskilaúrræði.
72. Af dómaframkvæmd Hæstaréttar verður ráðið að þegar fyrir liggur að sérfræðingur hefur orðið uppvís að saknæmri háttsemi við framkvæmd sérfræðistarfa hefur verið slakað á kröfum um sönnun fyrir því að hún hafi orsakað tjón og sönnunarbyrði jafnvel snúið um það atriði. Þetta á sérstaklega við þegar tjónþola er erfitt um vik að sanna orsakasamband milli saknæmrar háttsemi og tjóns sem hann hefur orðið fyrir. Sem dæmi um slíkt má nefna dóma Hæstaréttar 25. janúar 2001 í máli nr. 262/2000 og 18. október 2007 í máli nr. 619/2006.
73. Samkvæmt framansögðu miða ákvæði laga nr. 2/1995 að því að setja trausta umgjörð um greiðslu hlutafjár og þau verðmæti sem heimilt er að inna af hendi sem endurgjald fyrir það. Þessi lagaumgjörð er einn af hornsteinum þessa félagaforms og miðar að því að aðrir hluthafar og lánardrottnar geti treyst því að greiðsla fyrir hlutafé skili sér inn í hlutafélag við stofnun þess eða hækkun hlutafjár. Tilkynning um hækkun hlutafjár er þannig líkleg til að vera mikilvæg forsenda ákvarðanatöku lánardrottna í lögskiptum við hlutafélag. Áfrýjandi hefur ekki sýnt fram á það með óyggjandi hætti að hin saknæma háttsemi löggilts endurskoðanda stefnda BD30 ehf. hafi ráðið ákvörðunum í lögskiptum þeirra kröfuhafa í þrotabúinu sem ekki munu fá kröfur sínar að fullu greiddar og hún þannig orsakað tjón þeirra. Í ljósi erfiðrar sönnunarstöðu um orsakasamband telst áfrýjandi hins vegar hafa leitt nægar líkur að því að umrædd tilkynning endurskoðandans hafi verið einn þeirra þátta sem lánardrottnar Tomahawk Development á Íslandi hf. lögðu traust sitt á við töku ákvarðana í lögskiptum við félagið þannig að stefndu verði látnir bera hallann af því að hafa ekki sýnt fram á að tilkynningin hafi ekki leitt til tjóns fyrir kröfuhafa í þrotabúinu og þar með áfrýjanda.
Um fyrningu
74. Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda fyrnist krafa um skaðabætur á fjórum árum frá þeim degi er tjónþoli fékk nauðsynlegar upplýsingar um tjón og þann sem ábyrgð ber á því eða bar að afla sér slíkra upplýsinga. Í III. kafla laganna er fjallað um viðbótarfresti og segir þar í 1. mgr. 10. gr. að hafi kröfuhafi ekki uppi kröfu sökum þess að hann skorti nauðsynlega vitneskju um kröfu eða skuldara þá fyrnist krafa hans aldrei fyrr en einu ári eftir þann dag þegar kröfuhafi fékk eða bar að afla sér slíkrar vitneskju.
75. Af hálfu stefndu er byggt á því að bótakrafa áfrýjanda hafi hvað sem öðru líður verið fyrnd þegar mál þetta var höfðað þar sem miða beri upphaf fyrningarfrests við dagsetningu tilkynningar um hækkun hlutafjár. Sú tilkynning sem hér um ræðir um hækkun 12. júní 2014 barst fyrirtækjaskrá 25. sama mánaðar. Mál þetta var höfðað 15. maí 2020.
76. Við úrlausn þess hvenær fyrningarfrestur kröfu áfrýjanda byrjaði að líða er ekki eins og á stendur unnt að líta til vitneskju fyrirsvarsmanns hins gjaldþrota félags um kröfuna enda verður tilurð hennar rakin til hans. Bú félagsins var tekið til gjaldþrotaskipta 6. febrúar 2019 og skiptastjóri skipaður þann dag. Telst fyrningarfrestur kröfunnar ekki hafa byrjað að líða fyrr en í fyrsta lagi þann dag. Krafan var því ófyrnd þegar mál þetta var höfðað.
77. Í 2. mgr. 26. gr. laga nr. 91/1991 segir að þegar krafist er dóms um skyldu, sem mætti fullnægja með aðför, og hún reynist hvíla eða geta hvílt á varnaraðila, en sá tími er ókominn sem hann verði krafinn um efndir hennar þegar mál er dómtekið, skuli sýkna varnaraðila að svo stöddu. Sem fyrr segir er áfrýjandi stærsti kröfuhafi í þrotabúi Tomahawk Development á Íslandi hf. og nema aðrar kröfur í búið tæplega sjö milljónum króna. Skiptastjóri hefur enn ekki tekið afstöðu til krafna í búið. Í ljósi fjárhæðar krafnanna og þess tjóns sem ætla má samkvæmt framansögðu að kröfuhafar kunni að verða fyrir ef þær verða samþykktar eru fyrir hendi þær aðstæður sem lýst er í framangreindu ákvæði laga nr. 91/1991. Ber því að sýkna stefnda BD30 ehf. að svo stöddu af þrautavarakröfu áfrýjanda.
78. Rétt er að málskostnaður falli niður á öllum dómstigum.
Dómsorð:
Stefndu, Rögnvaldur Dofri Pétursson og BD30 ehf., eru sýknir af aðal- og varakröfu áfrýjanda, þrotabús Sameinaðs Sílikons hf.
Stefndi, Rögnvaldur Dofri Pétursson, er sýkn af þrautavarakröfu áfrýjanda.
Stefndi, BD30 ehf., er sýkn að svo stöddu af þrautavarakröfu áfrýjanda.
Málskostnaður fellur niður á öllum dómstigum.
Sératkvæði
Benedikts Bogasonar og Ásu Ólafsdóttur
1. Við erum sammála lýsingu meirihluta dómenda á ágreiningsefni málsins, málsatvikum og að sýkna beri stefnda Rögnvald Dofra af kröfum áfrýjanda. Við erum einnig sammála meirihlutanum um að stefndi BD30 ehf. beri ábyrgð á grundvelli vinnuveitandaábyrgðar á tilkynningu endurskoðanda hjá honum frá júní 2014. Jafnframt erum við sammála því að sá stefndi beri ábyrgð á því tjóni sem af þeirri háttsemi kann að hafa hlotist. Aftur á móti erum við ósammála meirihlutanum um að áfrýjandi hafi orðið fyrir tjóni vegna þess að hlutafé í Tomahawk Development á Íslandi hf. var of hátt skráð.
2. Frumforsenda þess að dæmdar verði skaðabætur er að sá sem hefur uppi kröfuna hafi orðið fyrir tjóni. Kröfuhafar Tomahawk Development á Íslandi hf. kunna vissulega að hafa orðið fyrir tjóni ef þeir reistu ákvarðanir sínar um viðskipti á upplýsingum sem þeir máttu treysta um skráð hlutafé félagsins, þar með talið tilkynningum um hækkun hlutafjár. Það veltur þó á atvikum hverju sinni, svo sem hvort stofnað var til skuldar fyrir eða eftir slíka hækkun. Aftur á móti hefur ekki í máli þessu verið sýnt fram á að framkvæmd hækkunar og sú staðreynd að hlutafé í Tomahawk Development á Íslandi hf. var of hátt skráð hafi valdið félaginu sjálfu tjóni. Ekki hefur heldur verið sýnt fram á tjón félagsins á þeim grunni að einn hluthafi hafi eignast fleiri hluti í félaginu.
3. Þar sem við teljum tjón áfrýjanda ósannað er það niðurstaða okkar að sýkna beri stefndu af kröfum hans. Einnig teljum við að fella beri niður málskostnað á öllum dómstigum.