Hæstiréttur íslands

Mál nr. 30/2025

Ákæruvaldið (Hrafnhildur M. Gunnarsdóttir saksóknari)
gegn
Dagbjörtu Guðrúnu Rúnarsdóttur (Arnar Kormákur Friðriksson lögmaður),
(Guðmundur Ágústsson lögmaður einkaréttarkröfuhafa )

Lykilorð

  • Manndráp
  • Ákæra
  • Heimfærsla
  • Matsgerð
  • Meðdómsmaður
  • Sönnun
  • Sönnunarfærsla
  • Ómerkingarkröfu hafnað
  • Ákvörðun refsingar
  • Sératkvæði

Reifun

X var gefið að sök manndráp með því að hafa svipt A lífi með margþættu ofbeldi. Í héraði hafði hún verið dæmd í 10 ára fangelsi og háttsemi hennar heimfærð undir 2. mgr. 218. gr. laga nr. 19/1940. Með dómi Landsréttar var hún sakfelld fyrir brot gegn 211. gr. sömu laga og henni gert að sæta fangelsi í 16 ár. Hæstiréttur staðfesti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms og að viðbættum frekari röksemdum að ákæra málsins hefði fullnægt kröfum um skýrleika samkvæmt c-lið 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008. Þá rakti Hæstiréttur að meðal sérfræðilegra sönnunargagna í málinu væri útvíkkuð réttarkrufning tveggja réttarlækna sem og matsgerð dómkvadds matsmanns. Vægi þessara sérfræðilegu sönnunargagna var talið ráðast meðal annars af því hvernig staðið hefði verið að gerð þeirra og þeim rökstuðningi sem þar væri að finna fyrir niðurstöðum. Í því tilliti bæri einnig að horfa til nánari skýringa viðkomandi sérfræðinga fyrir dómi svo og þess hvernig niðurstöðurnar samræmdust öðrum gögnum málsins. Rétturinn taldi ekkert fram komið um að annmarkar hefðu verið á aðferð við mat á sönnunargildi sérfræðilegra gagna í hinum áfrýjaða dómi eða að aðrir ágallar væru á málsmeðferð eða samningu hans sem fallnir væru til þess að geta hafa haft áhrif á niðurstöðu málsins. Hæstiréttur taldi jafnframt að ekki yrði hnekkt efnislegri niðurstöðu hins áfrýjaða dóms um mat á sönnun um dánarorsök A og aðkomu ákærðu að því að svipta hann lífi svo og um ásetning hennar til þess verknaðar. Var dómurinn því staðfestur um sakfellingu ákærðu fyrir manndráp af ásetningi og heimfærslu brotsins. Þá var staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um ákvörðun refsingar. Loks voru staðfest ákvæði hins áfrýjaða dóms um greiðslu miskabóta, útlagðs kostnaðar og um greiðslu máls- og gjafsóknarkostnaðar í héraði og fyrir Landsrétti svo og um sakarkostnað.

Dómur Hæstaréttar

1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen, Sigurður Tómas Magnússon og Skúli Magnússon.

2. Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar í samræmi við yfirlýsingu ákærðu um áfrýjun. Ákæruvaldið krefst þess að niðurstaða Landsréttar um sakfellingu ákærðu og ákvörðun refsingar verði staðfest.

3. Ákærða krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur, til vara sýknu og til þrautavara að refsing verði milduð. Þá krefst hún aðallega að einkaréttarkröfum verði vísað frá dómi, til vara að hún verði sýknuð af þeim en að því frágengnu verulegrar lækkunar á dæmdum skaðabótum.

4. Af hálfu einkaréttarkröfuhafa, C, er þess krafist að staðfest verði niðurstaða hins áfrýjaða dóms um miska- og skaðabætur úr hendi ákærðu. Þá krefst hún málskostnaðar eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

5. Af hálfu einkaréttarkröfuhafa, B, er þess krafist að staðfest verði niðurstaða hins áfrýjaða dóms um miskabætur úr hendi ákærðu. Þá krefst hann málskostnaðar eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

Ágreiningsefni

6. Með ákæru héraðssaksóknara 15. desember 2023, eins og henni var breytt með framhaldsákærum 17. janúar og 10. júní 2024, var ákærðu gefið að sök manndráp með því að hafa laugardaginn 23. september 2023, á heimili sínu að […] í Reykjavík, svipt A lífi. Nánar tiltekið var henni gefið að sök að hafa beitt brotaþola margþættu ofbeldi í aðdraganda andláts hans, dagana 22. og 23. september 2023, þar á meðal með höggum og/eða spörkum og þrýstingi á andlit, klof, bol, handleggi og fótleggi auk þess að taka hann hálstaki og taka fast um, snúa upp á og beygja fingur hans. Það hafi haft þær afleiðingar að brotaþoli hlaut af margvíslega áverka á höfði og líkama, þar á meðal brot á nefhrygg kinnkjálkans, undirhúðablæðingu á augnsvæðum og í neðri hluta andlits, slitáverka á efra og neðra varahafti og önnur sár og skrámur á höfði, marbletti og blæðingar í mjúkhlutum hálsins, þar með talið djúpar blæðingar í vöðvum barkakýlisins, brot gegnum bæði efri horn skjaldbrjósksins og blæðandi áverka á sitthvorri hlið hringbrjósksins, marbletti og mjúkvefjablæðingar í framhandleggjum og upphandleggjum, sér í lagi í vöðvum umhverfis vinstri axlarliðinn, mar og marbletti á brjósti og baki, skrámur með marblettum á geirvörtum, blæðingar í vöðvum herðablaðanna, hlið og baklæg brot gegnum efri rif, mar á efra blaði hægra lungans, brot gegnum hægri þvertinda lendhryggjarliða 2 og 3, blæðingar í garnahenginu og í bakskinurýminu umhverfis vinstri þvagleiðarann, þrota og mjúkvefjablæðingar í nára, í getnaðarlim og pung, marbletti og grófar mjúkvefjablæðingar í lærvöðvum og brot gegnum efri hluta hægri dálksins, sár á vinstri ökkla, mölbrot á hægri löngutöng með aðliggjandi blæðingum í liðbönd og aðra mjúkvefi, liðbandsslit með beinflísun á beygihlið hnúaliðs hægri þumals, vöðvatrosnun og mjúkvefjaskaða um hnúalið vinstri þumals, brot gegnum hnúahluta nærkjúku litla fingurs vinstri handar og staðbundnar blæðingar í djúpa og grunna vöðva handanna og inn með sinaslíðrum og inn í liði en brotaþoli hafi látist af völdum köfnunar vegna ytri kraftverkunar á hálsinn og efri öndunarveginn. Hafi blæðing innvortis og fitublóðrek vegna áverka á beinum og mjúkvef átt sinn skerf í spillandi áhrifum á súrefnisnæringu til heilans og þannig verið til þess fallið að stuðla enn frekar að framvindu köfnunarferlisins. Brotið var talið varða við 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

7. Héraðsdómur, sem skipaður var embættisdómara og tveimur sérfróðum meðdómsmönnum, réttarmeinafræðingi og geðlækni, taldi þá háttsemi sem ákærðu var gefin að sök sannaða. Aftur á móti taldi dómurinn ósannað að vakað hefði fyrir henni að bana brotaþola og heimfærði háttsemina til 2. mgr. 218. mgr. almennra hegningarlaga. Ákærða var dæmd til tíu ára fangelsisrefsingar.

8. Að hinum áfrýjaða dómi stóðu þrír embættisdómarar og tveir sérfróðir meðdómsmenn, réttarlæknir og geðlæknir. Þar þótti háttsemi ákærðu, eins og henni var lýst í ákæru og framhaldsákærum, sönnuð að því frátöldu að talið var að nokkra áverka sem hefðu fundist á brotaþola og getið hefði verið um í ákæru mætti mögulega rekja til falls, nánar tiltekið ýmis sár og skrámur á höfði og áverkar á augnsvæðum. Þá var talið að þeir áverkar sem lýst væri í ákæru á vinstri ökkla brotaþola og blæðingar í vöðvum herðablaða kynnu að eiga sér aðrar orsakir. Var ákærða ekki talin sek um að hafa valdið brotaþola þessum áverkum. Í dóminum var ásetningur ákærðu til manndráps talinn sannaður og brotið heimfært til 211. gr. almennra hegningarlaga. Ákærða var dæmd til 16 ára fangelsisrefsingar.

9. Ákærða hefur neitað sök í málinu og byggt á því að hún hafi ekki verið völd að dauða brotaþola. Ákæruvald og ákærðu greinir á um hvað telst sannað um dánarorsök brotaþola og um sönnunargildi skýrslu réttarlækna um útvíkkaða réttarkrufningu annars vegar og matsgerðar dómkvadds manns hins vegar. Þá er uppi ágreiningur um hvort ásetningur ákærðu til manndráps telst sannaður og þar af leiðandi um heimfærslu háttseminnar til refsiákvæða og ákvörðun refsingar. Loks telur ákærða að ágalli hafi verið á verknaðarlýsingu í ákæru og aðferð við sönnunarmat í hinum áfrýjaða dómi sem leiða eigi til ómerkingar eða sýknu.

10. Áfrýjunarleyfi í málinu var veitt 22. maí 2025, með ákvörðun Hæstaréttar nr. 2025-63. Þar kom fram að telja yrði að virtum gögnum málsins að úrlausn þess, meðal annars um heimfærslu háttsemi ákærðu til refsiákvæða, kynni að hafa verulega almenna þýðingu í skilningi 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Væri þá jafnframt haft í huga að hún hefði verið sakfelld fyrir manndráp í Landsrétti en í héraði fyrir stórfellda líkamsárás sem leitt hefði til dauða.

Málsatvik

11. Laugardaginn 23. september 2023 klukkan 21.22 hringdi ákærða í Neyðarlínuna og tilkynnti að brotaþoli, sem bjó hjá henni, væri meðvitundarlaus á heimili hennar að […] í Reykjavík. Lögreglumenn og sjúkraflutningamenn fóru rakleitt á staðinn og var brotaþoli fluttur af vettvangi meðvitundarlaus og líflítill. Hann var úrskurðaður látinn á bráðamóttöku Landspítala í Fossvogi sama dag klukkan 22.14. Það vakti athygli sjúkraflutningamanna hversu mikla áverka brotaþoli var með og höfðu þeir af þeim sökum samband við lögreglu.

12. Eftir líkskoðun á bráðamóttöku þar sem viðstaddir voru læknir á héraðsvakt og lögreglumenn var ákærða handtekin á heimili sínu sunnudaginn 24. september 2023 klukkan 00.16 grunuð um aðild að dauða brotaþola. Á upptöku úr búkmyndavél lögreglumanns sem fór til að vernda vettvang sást hvar ákærða var að eyða gögnum úr síma. Lögregla lagði hald á síma ákærðu og brotaþola. Við afritun á símunum fundust myndskeið og hljóðupptökur frá 22. og 23. september sama ár af samskiptum ákærðu og brotaþola og var sú síðasta frá klukkan 13.18 síðari daginn. Um var að ræða alls tvær og hálfa klukkustund af efni. Flestum upptökunum úr símunum hafið verið eytt en við afritun náðist að endurheimta þær að mestu.

13. Aðfaranótt sunnudagsins 24. september 2023 var skoðun á líki brotaþola framkvæmd öðru sinni af réttarlækni og lögreglu. Að beiðni lögreglu fór fram 26. september og 2. október 2023 svokölluð útvíkkuð réttarkrufning við réttarlæknisfræðieiningu meinafræðideildar Landspítalans. Hún var framkvæmd af réttarlækninum D en E réttarlæknir tók þátt í stórum hluta krufningarinnar og túlkun ummerkja. Liggur skýrsla þeirra fyrir í málinu.

14. Að beiðni ákærðu var F réttarmeinafræðingur dómkvaddur sem matsmaður 15. febrúar 2024 til að leggja mat á og svara tilteknum spurningum um dánarorsök og tilurð tiltekinna áverka brotaþola. Hann skilaði matsgerð sem lögð var fram í héraðsdómi 23. apríl sama ár.

15. Í kjölfar þess að matsgerð lá fyrir svöruðu réttarlæknarnir sem staðið höfðu að útvíkkaðri réttarkrufningu skriflega nokkrum spurningum að beiðni héraðssaksóknara.

16. Lögregla aflaði einnig matsgerðar Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði um magn vínanda og annarra vímuefna í blóði ákærðu og í blóði og þvagi brotaþola.

17. Á grundvelli úrskurðar héraðsdóms sem Landsréttur staðfesti sætti ákærða geðrannsókn dómkvadds matsmanns sem taldi hana sakhæfa. Af hálfu ákærðu var úrskurði héraðsdóms þar sem fallist hafði verið á kröfu ákæruvalds um yfirmat skotið til Landsréttar. Með úrskurði 31. janúar 2024 í máli nr. 72/2024 hafnaði Landsréttur þeirri kröfu.

18. Ákærða hefur sætt gæsluvarðhaldi frá 24. september 2023 og það verið framlengt ítrekað, síðast til 10. desember 2025.

Röksemdir ákærðu og ákæruvalds

Helstu röksemdir ákærðu

19. Ákærða byggir á því að orsakir andláts brotaþola hafi verið aðrar en ofbeldi af hennar hendi. Hún hafi hvað sem öðru líður ekki haft ásetning til að verða brotaþola að bana.

20. Ákærða telur að verknaðarlýsing í ákæru falli illa að broti sem heimfært verði undir 211. gr. almennra hegningarlaga og samræmist ekki málatilbúnaði ákæruvalds. Henni sé hvorki gefið að sök að hafa þrýst á háls eða þrengt að hálsi brotaþola né að hafa sparkað eða slegið í háls eða haldið um munn hans. Hún telur jafnframt að verknaðarlýsingunni hafi í raun ekki verið breytt með framhaldsákærum þar sem lýsingin „vegna ytri kraftverkunar á hálsinn og efri öndunarveginn“ feli ekki í sér nægilega skýra verknaðarlýsingu í ákæru í sakamáli hvað þá að unnt sé að slá því föstu að þar sé lýst manndrápi. Lýsingin sé þannig afar óljós og ekki unnt að ráða af henni hvaða verknaðaraðferðum eigi að hafa verið beitt gegn hálsi brotaþola. Með vísan til þessa óskýrleika sé ekki unnt að sakfella hana fyrir manndráp á grundvelli getgátna um hugsanlegt eðli ytri kraftverkunar á háls brotaþola.

21. Aðalkröfu sína um ómerkingu hins áfrýjaða dóms styður ákærða þeim rökum að alvarlegir ágallar og annmarkar hafi verið á sönnunarmati í dómi Landsréttar, einkum því vægi sem matsgerð dómkvadds manns var gefið í samanburði við skýrslu um útvíkkaða réttarkrufningu. Sönnunarmat hafi í grundvallaratriðum verið rangt þar sem það hafi verið byggt á þeirri röngu forsendu að mat dómkvadds manns hefði almennt fyrir fram ekki meira vægi en skýrslur sem aflað væri einhliða af lögreglu.

22. Varakrafa ákærðu um sýknu er byggð á því að brot það sem henni sé gefið að sök sé ósannað. Hún telur takmörkuð sönnunargögn liggja fyrir um málsatvik og engu verði slegið föstu um sönnunargildi sérfræðigagna varðandi tilurð áverka, dánarorsök og fleira. Aðrar skýringar á þessum atriðum en lagðar hafi verið til grundvallar í hinum áfrýjaða dómi séu ekki útilokaðar og beri að túlka þann vafa henni í hag. Matsgerð dómkvadds manns hafi ríkt sönnunargildi og ákæruvaldið hafi kosið að hrinda henni ekki með yfirmati. Mismunandi niðurstöður réttarlækna sem gefið hafi álit sitt í málinu endurspegli vafa sem Landsréttur hafi ekki látið ákærðu njóta.

23. Ákærða telur horft fram hjá því í hinum áfrýjaða dómi að aðrar skýringar á hálsáverkum brotaþola séu langt í frá útilokaðar. Réttarlæknir sem framkvæmt hafi krufningu hafi staðfest fyrir dómi að tilteknir áverkar hefðu geta orsakast af falli brotaþola. Hann hafi jafnframt borið að högg geti skýrt hálsáverkana frekar en hálstak eða þrýstingur. Sé það í samræmi við ályktanir dómkvadds matsmanns sem talið hafi högg líklegri skýringu en hálstak eða þrýsting. Með vísan til þess sé ósannað að ákærða hafi tekið brotaþola hálstaki eins og henni hafi verið gefið að sök í ákæru eða þrýst á háls hans og þannig valdið áverkum á því svæði líkamans. Þeir áverkar geti allt eins skýrst af höggi eða höggum á hálsinn sem komið hafi til við fall.

24. Af hálfu ákærðu er því einnig haldið fram að sönnun liggi ekki fyrir um ásetning hennar til manndráps. Öll háttsemi hennar fyrir og eftir andlát brotaþola beri þess merki að hún hafi ekki haft slíkan ásetning. Það að ákærða hafi tekið upp samskipti þeirra í hljóði og mynd bendi ekki til þess að hún hafi talið sig vera að fremja alvarlegt lögbrot sem hylma þyrfti yfir. Þá hafi hún meðan ætlað brot hafi átt að eiga sér stað eytt löngum tíma í samtöl við ýmsa aðila sem hún hafi lítil tengsl við. Meðal annars hafi hún hringt í vin skömmu fyrir andlát brotaþola og beðið hann um að koma á heimilið. Þegar ákærða hafi orðið þess vör að brotaþoli virtist í slæmu ástandi hafi hún hringt í Neyðarlínuna en samkvæmt upptöku af samtalinu hafi hún reynt endurlífgunartilraunir allt þar til viðbragðsaðilar komu á vettvang. Slík háttsemi vegi þungt við mat á ásetningi.

25. Þá er á því byggt að samkvæmt áliti réttarlækna hafi ekki verið um einfalt dánarferli að ræða og brotaþoli ekki endilega verið beittur ofbeldi á þeirri stundu þegar hann lét lífið. Samkvæmt því liggi í öllu falli fyrir að hún hafi ekki haft einbeittan ásetning til þess að herða að hálsi brotaþola til að stöðva öndun og flæði blóðs.

26. Þrautavarakrafa ákærðu um mildun refsingar er meðal annars byggð á að hún hafi verið samvinnuþýð við rannsókn málsins, heimilað krufningu á brotaþola, rannsókn á síma og aðrar þær rannsóknaraðgerðir sem lögregla hafi farið fram á.

Helstu röksemdir ákæruvalds

27. Af hálfu ákæruvalds er byggt á því að verknaðarlýsing í ákæru sé skýr. Ekki fari á milli mála að ákærðu sé þar gefið að sök að hafa með ofbeldi viðhaft þá ytri kraftverkun á háls og efri öndunarveg brotaþola sem leiddi til köfnunar hans.

28. Ákæruvaldið tekur undir forsendur Landsréttar að baki mati á sönnunargildi matsgerðar dómkvadds manns og skýrslu tveggja réttarlækna um útvíkkaða réttarkrufningu. Dómari sé ekki bundinn af slíkri matsgerð frekar en öðrum sönnunargögnum í sakamáli og ekki verði fyrir fram lagt til grundvallar að matsgerð hafi ríkara sönnunargildi en önnur sönnunargögn. Úrlausn um sönnunargildi slíkra sérfræðigagna hljóti að taka mið af öðrum sönnunargögnum.

29. Ákæruvaldið tekur undir forsendur Landsréttar að baki mati á sönnunargildi matsgerðar dómkvadds manns og skýrslu tveggja réttarlækna um útvíkkaða réttarkrufningu. Dómari sé ekki bundinn af slíkri matsgerð frekar en öðrum sönnunargögnum í sakamáli og ekki verði fyrir fram lagt til grundvallar að matsgerð hafi ríkara sönnunargildi en önnur sönnunargögn. Úrlausn um sönnunargildi slíkra sérfræðigagna hljóti að taka mið af öðrum sönnunargögnum.

30. Ákæruvaldið vísar til þess að á báðum dómstigum hafi dómur verið skipaður tveimur sérfróðum meðdómsmönnum með læknisfræðilega menntun, öðrum með sérfræðiþekkingu á sviði réttarmeinafræði. Dómarnir beri með sér að lagt hafi verið mat á sönnunargildi framangreindra gagna með hliðsjón af því hvernig niðurstöður um einstaka þætti voru rökstuddar. Þar á meðal mismunandi niðurstöður matsmanns og réttarlæknanna um hvort fyrir hendi væru aðrar mögulegar dánarorsakir en sú sem sakfelling var byggð á.

31. Ákæruvaldið hafi talið óþarft að afla yfirmatsgerðar þar sem niðurstöðu útvíkkaðrar réttarkrufningar hefði ekki verið hnekkt með matsgerðinni. Sérfræðingunum hefði borið saman um að brotaþoli hefði verið með alvarlega áverka á hálssvæði og þeir, ásamt heildarmynd áverkanna, leitt líkur að því að dánarorsök væri köfnun vegna kraftverkunar á hálsi.

32. Ákæruvaldið telur að réttarlæknar og matsmaður hafi verið sammála um að líklegasta dánarorsökin væri sú sem Landsréttur lagði til grundvallar. Við meðferð málsins í héraði og fyrir Landsrétti hafi niðurstöður réttarlækna og matsmanns verið útskýrðar enn frekar. Ákæruvaldið hafnar því að sönnunarbyrði þess feli í sér að aðrir möguleikar séu með öllu útilokaðir enda slíkt nánast ógerlegt frá vísindalegu sjónarmiði.

33. Að mati ákæruvalds eru engir annmarkar á hinum áfrýjaða dómi eða aðferð við mat á sönnunargögnum og því ekki tilefni til ómerkingar hans eða sýknu á þeim grundvelli að vafi sé um dánarorsök brotaþola eða verknað ákærðu.

34. Ákæruvaldið tekur undir forsendur hins áfrýjaða dóms um mat á ásetningi ákærðu til manndráps og telur þær í samræmi við sjónarmið í dómaframkvæmd þar sem meðal annars hafi verið tekið tillit til háttsemi í aðdraganda brots og hættueiginleika verknaðar. Jafnframt hafi verið lagt til grundvallar að engum geti dulist hversu hættulegar atlögur gegn hálsi eru, sbr. dóma Hæstaréttar 14. júní 2001 í máli nr. 121/2001 og 15. júní 2017 í máli nr. 176/2017. Hvað ásetning ákærðu varðar vísar ákæruvaldið sérstaklega til gagna sem tekist hafi að endurheimta úr síma hennar. Þau bendi sterklega til að ásetningur ákærðu hafi staðið til þess að veitast að hálsi brotaþola og hún gert sér grein fyrir að slíkt gæti leitt til bana.

Niðurstaða

Um formhlið málsins

1) Um endurskoðun á niðurstöðu Landsréttar

35. Samkvæmt d-lið 1. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 er unnt að óska eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja landsréttardómi til þess að fá ómerkingu á héraðsdómi og landsréttardómi og heimvísun máls. Þá er samkvæmt e-lið sömu málsgreinar unnt að óska eftir slíku leyfi til að fá máli vísað frá héraðsdómi og Landsrétti.

36. Ákærða hefur aðallega krafist ómerkingar á dómi Landsréttar með þeim rökum að alvarlegir annmarkar séu á aðferð við sönnunarmat í dóminum. Þá gerir hún athugasemdir við verknaðarlýsingu í ákærum en hefur þó ekki krafist frávísunar málsins frá héraðsdómi af þeim sökum. Þrátt fyrir þann málatilbúnað ákærðu ber Hæstarétti að eigin frumkvæði að taka til skoðunar hvort annmarkar hafi verið á ákærum í málinu sem leiða eigi til frávísunar þess frá héraðsdómi.

2) Um skýrleika ákæruefna

37. Heimild til útgáfu framhaldsákæru er að finna í 1. mgr. 153. gr. laga nr. 88/2008 en samkvæmt ákvæðinu getur ákærandi breytt eða aukið við ákæru með útgáfu framhaldsákæru til að leiðrétta augljósar villur eða ef upplýsingar, sem ekki lágu fyrir þegar ákæra var gefin út, gefa tilefni til. Framhaldsákæru skal gefa út svo fljótt sem verða má eftir að þörf fyrir hana er kunn, en þó í síðasta lagi tveimur vikum fyrir aðalmeðferð máls samkvæmt 166. gr. laganna nema ákærði samþykki að það sé gert síðar.

38. Eftir útgáfu ákæru í máli þessu 15. desember 2023 voru gefnar út tvær framhaldsákærur. Sú fyrri 17. janúar 2024 í tilefni af upplýsingum um dánarorsök brotaþola í endanlegri skýrslu vegna útvíkkaðrar réttarkrufningar sem lá fyrir 10. sama mánaðar. Sú seinni var gefin út 10. júní sama ár í tilefni af svörum höfunda skýrslunnar við spurningum ákæranda en þau lágu fyrir 6. maí. Málið var þingfest í héraði 19. janúar 2024 en aðalmeðferð hófst 26. júní það ár.

39. Með framhaldsákærum í málinu var upphafleg ákæra löguð að niðurstöðum fyrrnefndra réttarlækna um dánarorsök brotaþola jafnharðan og þær lágu fyrir. Voru þær gefnar út innan þess frests sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 153. gr. laga nr. 88/2008. Samkvæmt því fullnægðu þær skilyrðum umrædds lagaákvæðis.

40. Í upphaflegri ákæru, með þeim breytingum sem gerðar voru á ákæruefnum með fyrrnefndum framhaldsákærum, var ákærðu gefið að sök að hafa svipt brotaþola lífi með margþættu ofbeldi í aðdraganda andláts hans dagana 22. og 23. september 2023. Fram kom að meðal verknaðaraðferða hefðu verið högg, spörk, þrýstingur og hálstak og því lýst að hvaða líkamshlutum þær beindust. Þá var lýst áverkum á brotaþola svo sem marblettum og blæðingum í mjúkhlutum hálsins, þar með talið djúpum blæðingum í vöðvum barkakýlis, broti gegnum bæði efri horn skjaldbrjósks og blæðandi áverka á sitthvorri hlið hringbrjósks. Loks var því lýst að brotaþoli hefði látist af völdum köfnunar vegna ytri kraftverkunar á hálsinn og efri öndunarveginn en blæðing innvortis og fitublóðrek vegna áverka á beinum og mjúkvef hefði átti sinn skerf í spillandi áhrifum á súrefnisnæringu til heilans og þannig verið til þess fallin að stuðla enn frekar að framvindu köfnunarferlisins.

41. Líta verður heildstætt á fyrrgreinda verknaðarlýsingu í ákæru en af henni gat ákærðu ekki dulist að þar væri lýst lífshættulegri atlögu þar sem krafti hefði meðal annars verið beitt að hálsi og efri öndunarvegi brotaþola sem leitt hefði til köfnunar hans.

42. Að framansögðu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms í liðum 16 til 20 verður staðfest niðurstaða hans um að ákæran, með þeim breytingum sem gerðar voru á henni með framhaldsákærunum, fullnægi kröfum um skýrleika samkvæmt c-lið 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008.

3) Um ætlaða annmarka á aðferð við sönnunarmat í dómi Landsréttar

43. Ómerkingarkrafa ákærðu er byggð á því að aðferð Landsréttar við sönnunarmat hafi í grundvallaratriðum verið röng þar sem það hafi byggst á þeirri grunnforsendu að matsgerð dómkvadds manns hefði almennt ekki meira vægi en skýrslur sem aflað sé einhliða af lögreglu.

44. Meðal sönnunargagna í sakamálum geta verið ýmiss konar skýrslur, álitsgerðir og matsgerðir sérfræðinga sem ætlað er að varpa ljósi á atvik máls. Slík sönnunargögn hafa að jafnaði að geyma niðurstöður tæknilegra rannsókna eða athugana sérfræðings og ályktanir hans sem dregnar eru af þeim í ljósi sérfræðiþekkingar á viðkomandi sviði.

45. Mælt er fyrir um réttarlæknisfræðilega líkskoðun og réttarkrufningu í 87. gr. laga nr. 88/2008 en nánari fyrirmæli um slíkar rannsóknaraðgerðir eru í lögum nr. 61/1998. Einnig eru í reglugerð nr. 248/2001 um ritun dánarvottorða, réttarlæknisfræðilega líkskoðun, réttarkrufningu og tilkynningu til embættis landlæknis ítarlegri fyrirmæli um slík rannsóknarúrræði. Réttarlæknisfræðileg líkskoðun skal samkvæmt 87. gr. laga nr. 88/2008 fara fram þegar lögregla telur það nauðsynlegt í þágu rannsóknar. Er hún gerð af lögreglu og lækni í sameiningu, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 61/1998.

46. Samkvæmt 87. gr. laga nr. 88/2008 skal framkvæma réttarkrufningu ef nauðsyn þykir. Skal leita úrskurðar dómara um slíka krufningu nema nánasti venslamaður eða nánustu venslamenn hins látna samþykki að hún fari fram. Um réttarkrufningu segir nánar í 1. mgr. 6. gr. laga nr. 61/1998 að hún skuli fara fram þegar dauðsfall verður rakið til refsiverðrar háttsemi eða ekki reynist unnt að útiloka slíkt með fullnægjandi hætti. Jafnframt skuli slík krufning fara fram þegar hún er talin nauðsynleg til að koma í veg fyrir að síðar vakni grunsemdir um að dauðsfall megi rekja til refsiverðs verknaðar svo og þegar dánarorsök verður ekki með viðunandi hætti ákvörðuð með réttarlæknisfræðilegri líkskoðun.

47. Fyrir liggur að réttarlæknisfræðileg skoðun á líki brotaþola fór fram skömmu eftir andlát hans og aftur upp úr miðnætti daginn eftir. Sú síðari var framkvæmd af réttarlækni og lögreglumanni. Þá liggur fyrir að dómari heimilaði réttarkrufningu á brotaþola. Framkvæmd var svokölluð útvíkkuð réttarkrufning 26. september og 2. október 2023 við réttarlæknisfræðieiningu meinafræðideildar Landspítalans af D réttarlækni en E réttarlæknir tók þátt í stórum hluta hennar og túlkun ummerkja. Bráðabirgðaskýrsla læknanna um þessa réttarkrufningu lá fyrir 27. september sama ár en mun ítarlegri skýrsla þeirra um hana með niðurstöðum um dánarorsök ásamt fjölda mynda er dagsett 10. janúar 2024.

48. Útvíkkaða réttarkrufningin var samkvæmt framansögðu framkvæmd af réttarlæknum á vegum stofnunar sem lýtur ekki boðvaldi lögreglu eða ákæruvalds um framkvæmd, aðferðafræði eða niðurstöður. Slík skýrsla réttarlækna um niðurstöður réttarkrufningar er sérfræðilegt sönnunargagn sem aflað er í samræmi við fyrrnefnd lagafyrirmæli og hefur að öðru jöfnu mikið sönnunargildi í sakamálum.

49. Sem fyrr segir var F réttarmeinafræðingur dómkvaddur sem matsmaður 15. febrúar 2024 að beiðni ákærðu til að leggja mat á og svara tilteknum spurningum um dánarorsök brotaþola. Matsgerð hans var lögð fram í héraðsdómi 23. apríl sama ár.

50. Matsgerðir dómkvaddra manna um sérfræðileg efni sem aflað er í samræmi við ákvæði laga nr. 88/2008 hafa almennt mikið vægi við úrlausn um sérfræðileg atriði í sakamálum. Helgast það fyrst og fremst af því að þeir eru kvaddir til starfans af dómara á dómþingi þar sem ákæruvaldi og ákærða gefst kostur á að koma að andmælum við þörf á mati, vali á matsmanni og matsspurningum. Auk þess geta þeir síðar á matsfundi komið að sjónarmiðum sínum við matsmann um matið. Þrátt fyrir það leggur dómari mat á sönnunargildi slíkrar matsgerðar eins og annarra gagna í sakamáli, sbr. 2. mgr. 133. gr. laganna svo og almennu regluna um frjálst sönnunarmat dómara í 1. mgr. 109. gr. þeirra.

51. Enda þótt matsgerð dómkvadds sérfræðings hafi almennt mikið sönnunargildi í sakamálum um þau atvik sem henni er ætlað að varpa ljósi á verður ekki ráðið af lögum nr. 88/2008 eða dómaframkvæmd að hún hafi slíka stöðu sem sönnunargagn að niðurstöður hennar verði óhjákvæmilega taldar ganga framar öðrum sérfræðilegum sönnunargögnum um það sem á milli ber. Á það sérstaklega við um niðurstöður óháðra sérfræðinga sem aflað er í samræmi við lagafyrirmæli eins og við á um fyrrgreindar niðurstöður í skýrslu um útvíkkaða réttarkrufningu.

52. Vægi þeirra sérfræðilegu sönnunargagna sem að ofan er lýst ræðst meðal annars af því hvernig staðið hefur verið að gerð þeirra og þeim rökstuðningi sem þar er að finna fyrir niðurstöðum. Í því tilliti ber einnig að horfa til nánari skýringa viðkomandi sérfræðinga fyrir dómi svo og þess hvernig niðurstöðurnar samrýmast öðrum gögnum málsins.

53. Sá munur var á aðkomu fyrrnefndra sérfræðinga að réttarlæknarnir sem rituðu fyrrnefnda skýrslu um útvíkkaða réttarkrufningu önnuðust sjálf krufninguna og byggðu niðurstöður sína einkum á henni en höfðu jafnframt aðgang að öðrum gögnum sem varpað gátu ljósi á atvik málsins. Matsmaðurinn var aftur á móti í þeirri stöðu að svara tilteknum matsspurningum frá ákærðu og virðist hafa byggt svör sín fyrst og fremst á ljósmyndum sem teknar voru við réttarkrufninguna og niðurstöðum hennar.

54. Fyrrgreindir sérfræðingar gáfu allir ítarlegar skýrslur fyrir héraðsdómi og viðbótarskýrslur fyrir Landsrétti. Sem fyrr segir átti sérfróður meðdómsmaður á sviði réttarlæknisfræði sæti í dómi bæði í héraði og Landsrétti og áttu meðdómsmennirnir þess kost að beina spurningum til þessara sérfræðinga.

55. Af forsendum hins áfrýjaða dóms verður ráðið að sönnunarmat, meðal annars um dánarorsök brotaþola, tók ekki aðeins mið af samanburði á sönnunargildi matsgerðarinnar og skýrslu um útvíkkaða réttarkrufningu heldur einnig munnlegum framburði þeirra sem stóðu að þessum sérfræðilegu sönnunargögnum. Einnig verður ráðið að horft hafi verið til þess hvernig niðurstöður þeirra og nánari skýringar samrýmdust öðrum sönnunargögnum.

56. Þá verður ekki séð að slíkt ósamræmi væri í niðurstöðum umræddra sérfræðinga að tilefni væri fyrir ákæruvaldið eða héraðsdóm á grundvelli 2. mgr. 110. gr. laga nr. 88/2008 að hlutast til um dómkvaðningu yfirmatsmanna til að leggja mat á dánarorsök.

57. Samkvæmt framangreindu er ekkert fram komið um að annmarkar hafi verið á aðferð við mat á sönnunargildi sérfræðilegra gagna í hinum áfrýjaða dómi eða aðrir ágallar á málsmeðferð eða samningu hans sem fallnir eru til þess að geta hafa haft áhrif á niðurstöðu málsins. Er því ekki tilefni til ómerkingar dómsins.

Um efnishlið málsins

1) Um sönnun fyrir háttsemi ákærðu og ásetningi hennar til manndráps

58. Með hinum áfrýjaða dómi var ákærða sakfelld fyrir manndráp af ásetningi. Þessi niðurstaða var reist á heildstæðu mati Landsréttar, sem skipaður var þremur embættisdómurum og tveimur sérfróðum meðdómsmönnum, á öllum sönnunargögnum, þar á meðal sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi, sérfræðilegum gögnum og upptökum af samskiptum ákærðu og brotaþola síðustu tvo daga fyrir andlát hans. Mat á sönnunargildi munnlegs framburðar verður ekki endurmetið af Hæstarétti, sbr. 2. mgr. 225. gr. laga nr. 88/2008. Í samræmi við það hefur Hæstiréttur ítrekað tekið fram í dómum að réttinum sé þröngur stakkur skorinn við endurskoðun á sönnunarmati Landsréttar að þessu leyti og á það jafnt við um mat á því hvað telst sannað um þá háttsemi sem ákært er fyrir, um heimfærslu hennar til refsiákvæða og ásetning.

59. Ekki er heimilt að kveðja meðdómsmenn með sérkunnáttu til setu í dómi í Hæstarétti. Með þeirri skipan sem komið var á með stofnun millidómstigs með lögum nr. 50/2016 um dómstóla og nr. 49/2016 um breytingar meðal annars á lögum nr. 88/2008 var Landsrétti hins vegar gert kleift að endurskoða alla þætti dómsúrlausna héraðsdóms í sakamálum, þar á meðal mat á sönnun um atriði sem sérkunnáttu þarf í dómi til að leysa úr.

60. Að því leyti sem sakfelling ákærðu fyrir manndráp af ásetningi var reist á mati á sérfræðilegum gögnum og sönnunargildi þeirra er til þess að líta að í hinum áfrýjaða dómi Landsréttar, sem í sátu tveir sérfróðir meðdómsmenn í samræmi við 3. gr. a laga nr. 88/2008 voru endurmetnar efnislega niðurstöður héraðsdóms um atriði sem sérkunnáttu þurfti til að leysa úr. Sambærileg efnisleg endurskoðun á niðurstöðu um sönnun í sakamálum um atriði sem byggjast á sérfræðiþekkingu getur því ekki farið fram með sama hætti fyrir Hæstarétti.

61. Í ljósi alls framangreinds verður ekki hnekkt efnislegri niðurstöðu hins áfrýjaða dóms um mat á sönnun um dánarorsök brotaþola og aðkomu ákærðu að því að svipta hann lífi svo og um ásetning hennar til þess verknaðar.

62. Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um sakfellingu ákærðu fyrir manndráp af ásetningi og heimfærslu brotsins til 211. gr. almennra hegningarlaga.

2) Um ákvörðun refsingar

63. Neðri refsimörk manndráps af ásetningi samkvæmt 211. gr. almennra hegningarlaga eru fimm ára fangelsi en þau efri ævilangt fangelsi. Af 1. mgr. 34. gr. laganna leiðir hins vegar að ef fangelsisrefsing er ákveðin um tiltekinn tíma skuli hún ekki vera þyngri en 16 ára fangelsi nema lög heimili aukna refsingu við broti, sbr. 79. gr. laganna, en þá ekki þyngri en 20 ára fangelsi. Það orðalag síðastnefndu greinarinnar hefur í dómaframkvæmd verið skýrt þannig að það eigi aðeins við um lagaákvæði sem heimila refsingu umfram almenn refsimörk og eftir atvikum sérrefsimörk einstakra hegningarlagaákvæða, sbr. dóm Hæstaréttar 21. júní 2023 í máli nr. 8/2023.

64. Af refsimörkum 211. gr. almennra hegningarlaga og dómaframkvæmd um refsingar við manndrápi af ásetningi verður afdráttarlaust ráðið að löggjafinn og dómstólar líti slíkt brot alvarlegri augum en önnur. Mikilvægt er að við ákvörðun refsingar sé gætt samræmis að því leyti sem dómafordæmum um sambærileg eða svipuð brot er til að dreifa með það að leiðarljósi að stuðla að fyrirsjáanleika í refsiframkvæmd og jafnræði að lögum. Við ákvörðun refsingar koma auk þess til skoðunar fjölmargir þættir sem vegið geta misjafnlega þungt og ýmist horft til þyngingar refsingar eða refsimildunar. Dómaframkvæmd hér á landi um refsingar fyrir manndráp af ásetningi hefur þróast í þá átt að refsing er að jafnaði 16 ára fangelsi ef ekki eru fyrir hendi lögbundnar refsilækkunarástæður eða mikilvægar lögbundnar eða ólögbundnar refsimildunarástæður.

65. Ekki eru fyrir hendi refsiákvörðunarástæður sem leitt geta til mildunar refsingar ákærðu. Jafnframt er fallist á með Landsrétti að ákærða eigi sér ekki málsbætur sem máli skipta.

66. Að framangreindu athuguðu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms um ákvörðun refsingar ákærðu, þar á meðal um ásetningsstig, verður niðurstaða hans þar um staðfest.

3) Um einkaréttarkröfur, sakarkostnað og gjafsóknarkostnað

67. Enda þótt dæmdar miskabætur eins og aðrar skaðabætur taki mið af atvikum og aðstæðum í hverju tilviki fyrir sig liggur þó fyrir að miskabætur til foreldra og barna brotaþola í manndrápsmálum úr hendi ákærða hafa verið í nokkuð föstum skorðum að teknu tilliti til verðlagsþróunar. Hafi aftur á móti verið sýnt fram á að vegna tiltekinna aðstæðna sem varða aðstandanda hafi brot haft sérstaklega þungbærar afleiðingar fyrir hann getur verið tilefni til að líta til þess sérstaklega við ákvörðun miskabóta.

68. Ekki hafa verið leiddar að því líkur að fyrir hendi séu aðstæður sem eigi að leiða til þess að vikið verði frá almennri dómaframkvæmd um ákvörðun miskabóta til barna brotaþola í manndrápsmálum. Með vísan til nýlegra dóma Hæstaréttar í slíkum málum, svo sem dóms 13. maí 2020 í máli nr. 11/2020 og fyrrnefnds dóms í máli nr. 8/2023, þykja miskabætur til hvors barns brotaþola hæfilega ákveðnar í hinum áfrýjaða dómi.

69. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um greiðslu ákærðu á skaðabótum til C vegna útlagðs kostnaðar við útför brotaþola. Þá verður staðfest niðurstaða hans um greiðslu máls- og gjafsóknarkostnaðar í héraði og fyrir Landsrétti svo og um sakarkostnað.

70. Ákærðu verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Arnars Kormáks Friðrikssonar lögmanns, sem ákveðin verða með virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði.

71. Gjafsóknarkostnaður einkaréttarkröfuhafa fyrir Hæstarétti skal greiddur úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns þeirra, eins og greinir í dómsorði.

72. Loks verður ákærðu gert að greiða málskostnað í ríkissjóð eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Ákærða, Dagbjört Guðrún Rúnarsdóttir, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 2.463.729 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Arnars Kormáks Friðrikssonar lögmanns, 1.841.400 krónur.

Gjafsóknarkostnaður einkaréttarkröfuhafa fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns þeirra, Guðmundar Ágústssonar, samtals 400.000 krónur.

Ákærða greiði 400.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti sem renni í ríkissjóð.

Sératkvæði

Skúla Magnússonar

1. Ég er sammála forsendum og niðurstöðum meirihluta dómenda um öll önnur atriði en ákvörðun refsingar. Í því tilliti geri ég þá athugasemd að þótt enginn vafi leiki á sakhæfi ákærðu séu gögn málsins um geðrænt ástand hennar af skornum skammti, svo sem hvort í umrætt sinn hafi verið um að ræða ákafa geðshræringu eða tímabundið en jafnframt verulegt ójafnvægi á geðsmunum sem horfa beri til.

2. Um sönnunarstöðu málsins að þessu leyti verður ákæruvaldinu ekki kennt. Þá hefur ákærða sjálf engan reka gert að því að frekari gagna yrði aflað um geðrænt ástand sitt, hvorki almennt né þegar atvik gerðust. Þvert á móti hefur ákærða lagst gegn slíkri gagnaöflun og í reynd ekki byggt vörn sína á atriðum tengdum geðrænu ástandi sínu sem leitt gætu til refsileysis samkvæmt 15. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, úrræða samkvæmt 16. gr. eða refsilækkunar samkvæmt 75. gr. þeirra.

3. Í forsendum hins áfrýjaða dóms er lagt til grundvallar sakfellingu ákærðu að henni hafi ekki getað dulist að langlíklegast væri að af háttsemi hennar hlytist bani brotaþola. Þegar þetta er haft í huga og horft er heildstætt til gagna málsins um tildrög þess að brotaþoli lést tel ég verulegan vafa uppi um hvort ásetningur ákærðu til manndráps, andstætt meiri háttar líkamsárás, hafi verið sterkur eða einbeittur svo sem almennt ber að miða við þegar manndráp er látið varða 16 ára fangelsi. Þennan vafa um ásetningsstig ber að meta ákærðu í hag við ákvörðun viðurlaga, sbr. 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008.

4. Að teknu tilliti til 6. töluliðar 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga tel ég að refsing ákærðu sé að þessu virtu, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms, hæfilega ákveðin 14 ára fangelsi.