Hæstiréttur íslands

Mál nr. 31/2022

Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari)
gegn
X (Björgvin Jónsson lögmaður),
(Þorbjörg I. Jónsdóttir réttargæslumaður )

Lykilorð

  • Líkamsárás
  • Brot í nánu sambandi
  • Manndráp
  • Tilraun
  • Heimfærsla
  • Ásetningur
  • Gáleysi
  • Sönnun
  • Viðurkenningarkrafa
  • Miskabætur
  • Skaðabætur
  • Sakarkostnaður
  • Frávísun frá héraðsdómi að hluta

Reifun

Ágreiningsefni málsins um heimfærslu háttsemi X til refsiákvæða laut að því hvort hún skyldi heimfærð til 211. gr., sbr. 20. gr., almennra hegningarlaga eða til. 2. mgr. 218. gr. sömu laga en ágreiningslaust var hins vegar að háttsemi X mætti færa undir 1., sbr. 2. mgr. 218. gr. b laganna. Í Landsrétti var háttsemin heimfærð undir 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga. Í dómi Hæstaréttar var rakið að í málinu lægi ekki fyrir játning X um ásetning til manndráps og ekkert yrði ráðið af framburði hans um huglæga afstöðu til afleiðinga atlögunnar að brotaþola. Þá væri öðrum vitnum um verknaðinn ekki til að dreifa. Yrði því að ráða hina huglæga afstöðu X, þar á meðal um hvað hann hlaut að gera sér grein fyrir um afleiðingar líkamsárásarinnar, af því sem taldist sannað í dómi Landsréttar um sjálfan verknaðinn. Hæstiréttur vísaði til þess að árás með skotvopni eða hníf sem beinist að viðkvæmum stöðum á líkama svo sem höfði, hálsi, brjóstkassa og kviði hefði oftar leitt til þess að ásetningur telst sannaður þegar ákært hefur verið fyrir tilraun til manndráps en þegar um aðrar verknaðaraðferðir hefur verið að ræða. Þá vísaði rétturinn til þess að í þeim dómum sem Landsréttur skírskotaði sérstaklega til í niðurstöðu sinni hefði slíkum vopnum og verknaðaraðferðum verið beitt en svo háttaði ekki til í þessu máli þótt lagt væri til grundvallar að árásin hefði verið ofsafengin og beinst að viðkvæmum líkamshlutum. Þá yrðu heldur ekki dregnar haldbærar ályktanir um ásetning X til manndráps af háttalagi hans daginn og nóttina fyrir árásina eða í framhaldi af henni. Komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að varhugavert væri að telja fram komna fulla sönnun þess að X hefði á verknaðarstundu haft ásetning til að bana brotaþola heldur yrði að miða við að um hefði verið að ræða stórfellt gáleysi X til afleiðinga verknaðarins. Yrði brot X því ekki fært undir 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga heldur 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga og 1., sbr. 2. mgr. 218. gr. b. Refsing X var ákveðin fangelsi í fjögur ár og honum gert að greiða brotaþola 3.000.000 króna í miskabætur.

Dómur Hæstaréttar

1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Karl Axelsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 16. maí 2022 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Ákæruvaldið krefst þess að ákærði verði sakfelldur samkvæmt ákæru og refsing hans þyngd.

3. Ákærði krefst sýknu af sakargiftum ákæruvaldsins um tilraun til manndráps og að háttsemi hans verði þess í stað virt til viðurlaga eftir 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 eða 2. mgr. 218. gr. b sömu laga og að refsing hans verði milduð auk þess sem gæsluvarðhaldsvist frá 31. janúar 2021 komi til frádráttar tildæmdri refsivist. Loks krefst ákærði þess að krafa brotaþola um miskabætur verði lækkuð.

4. Af hálfu brotaþola er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða sér 5.000.000 króna með nánar tilgreindum vöxtum en til vara staðfestingar hins áfrýjaða dóms. Í báðum tilvikum er krafist staðfestingar á niðurstöðu dómsins um viðurkenningu á skaðabótaskyldu ákærða vegna líkamstjóns sem brotaþoli varð fyrir.

Ágreiningsefni

5. Með ákæru héraðssaksóknara 20. apríl 2021 var ákærða gefin að sök tilraun til manndráps og stórfellt brot í nánu sambandi með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 31. janúar 2021, á hótelherbergi á […] við […] í Reykjavík, veist að eiginkonu sinni og ógnað lífi, heilsu og velferð hennar með því að stappa ítrekað á hægri hlið líkama hennar með þeim afleiðingum að hún hlaut ,,mörg rifbrot, mar á lifur, áverkaloftbrjóst, áverkahúðbeðsþembu, mar á lunga og áverkafleðruholsblæðingu.“ Háttsemi þessi var talin varða við 211. gr., sbr. 20. gr. og 1., sbr. 2. mgr. 218. gr. b almennra hegningarlaga.

6. Ágreiningsefni málsins um heimfærslu háttsemi ákærða til refsiákvæða lýtur að því hvort hún skal heimfærð til 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga eða til 2. mgr. 218. gr. sömu laga. Ágreiningslaust er hins vegar að háttsemi hans megi færa undir 1., sbr. 2. mgr. 218. gr. b laganna. Þá er jafnframt deilt um ákvörðun viðurlaga sem og um fjárhæð einkaréttarkröfu brotaþola.

7. Með héraðsdómi 25. maí 2021 var talið sannað að ákærði hefði stappað ítrekað á hægri hlið líkama brotaþola með þeim afleiðingum sem lýst er í ákæru. Hins vegar væri ósannað gegn neitun ákærða að fyrir honum hefði vakað að deyða brotaþola. Ákærði var því sýknaður af tilraun til manndráps samkvæmt 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga en brot hans talið meiri háttar líkamsárás samkvæmt 2. mgr. 218. gr. laganna og brot í nánu sambandi samkvæmt 1., sbr. 2. mgr. 218. gr. b þeirra. Var ákærði dæmdur í fangelsi í tvö ár og sex mánuði og honum gert að greiða brotaþola 2.000.000 króna í miskabætur með nánar tilgreindum vöxtum, jafnframt því sem viðurkennd var skaðabótaskylda hans gagnvart brotaþola.

8. Með dómi Landsréttar 25. febrúar 2022 var með vísan til forsendna héraðsdóms staðfest sú niðurstaða að ákærði hefði veist að brotaþola með því að stappa ítrekað á hægri hlið líkama hennar með þeim afleiðingum sem í ákæru greindi. Á hinn bóginn var ákærði talinn hafa gerst sekur um tilraun til manndráps og háttsemi hans felld undir þau refsiákvæði sem í ákæru greinir. Refsing ákærða var ákveðin fangelsi í sex ár og honum gert að greiða brotaþola 2.500.000 krónur í miskabætur með nánar tilgreindum vöxtum, auk þess sem ákvæði héraðsdóms um viðurkenningu á skaðabótaskyldu var staðfest.

9. Með ákvörðun Hæstaréttar 4. maí 2022, nr. 2022-48, var fallist á beiðni ákærða um áfrýjunarleyfi á þeim grunni að úrlausn málsins, meðal annars um heimfærslu háttsemi hans til refsiákvæða, kynni að hafa verulega almenna þýðingu í skilningi 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Tekið var fram að jafnframt væri haft í huga að ákærði var sakfelldur fyrir tilraun til manndráps í Landsrétti en hafði verið sýknaður af því broti í héraði.

Málsatvik

10. Neyðarlínunni barst símtal úr síma ákærða klukkan fjórar mínútur yfir eitt aðfaranótt sunnudagsins 31. janúar 2021 en í gögnum málsins er upplýsingaskýrsla lögreglu um símtalið auk hljóðupptöku af því. Í símtalinu óskaði ákærði eftir sjúkrabifreið að […] en brotaþoli og ákærði voru þar næturgestir. Sagði ákærði brotaþola finna til verkja í baki. Í símtalinu spurði starfsmaður Neyðarlínunnar ákærða hvort brotaþoli væri með sögu um bakverki. Ákærði bar spurninguna undir brotaþola sem sagði svo ekki vera en bætti við: „Nei en þú varst að berja mig.“

11. Svo sem nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi var það árla morguns nefndan sunnudag að sérfræðilæknir á slysa- og bráðadeild Landspítala tilkynnti lögreglu um komu brotaþola á deildina um klukkan hálftvö þá um nóttina. Bæri brotaþoli alvarlega áverka sem að hennar sögn væru af völdum ákærða. Í frumskýrslu lögreglu þennan dag er haft eftir sjúkraflutningamönnum sem fluttu brotaþola á sjúkrahús að hún hefði sagt ákærða hafa „lamið sig eða sparkað í brjóstkassann hægra megin.“ Þá kemur fram í skýrslunni að brotaþoli hefði sagt hjúkrunarfræðingi og lækni á sjúkrahúsinu að „maðurinn hennar hafi bara skyndilega misst sig, ráðist á hana og sparkað í bakið á henni.“

12. Ákærði var handtekinn laust fyrir klukkan 9 þá um morguninn í fyrrnefndu hótelherbergi og færður í fangageymslu. Hann gaf skýrslu hjá lögreglu laust fyrir miðnætti þann dag. Þá og við síðari skýrslutökur við meðferð málsins fyrir dómi hefur hann neitað sök og sagst ekkert muna eftir málsatvikum.

13. Brotaþoli gaf skýrslu fyrir lögreglu á slysadeild að morgni 31. janúar 2021. Kvaðst hún ekki muna vel eftir atvikum en sagði þó aðspurð um hvað hefði gerst um nóttina að það hefði verið „stappað ofan á“ sér. Þá sagði hún orðrétt: „Ég man bara eftir að ég bað hann að hætta að stappa, að stappa á mér.“ Þá svaraði hún játandi spurningu lögreglu um það hvort hún hefði verið liggjandi á gólfinu þegar ákærði hefði stappað ítrekað á hægri hlið hennar. Spurð um hvort þeirra hefði hringt á Neyðarlínuna kvaðst hún halda að hún hefði gert það sjálf. Brotaþoli gaf ekki aðra skýrslu við rannsókn eða meðferð málsins fyrir dómi en hún er eiginkona ákærða og hefur nýtt sér lögbundinn rétt til að tjá sig ekki um málið, sbr. 2. mgr. 65. gr. og a-lið 1. mgr. 117. gr. laga nr. 88/2008. Hún dvaldi á sjúkrahúsi í níu daga en síðan á sjúkrahóteli um hríð.

14. Ákærði og brotaþoli eru ein til frásagnar um árás þá sem ákærða er gefin að sök en skýrslum annarra er ítarlega lýst í héraðsdómi og dómi Landsréttar sem og ýmsum læknisfræðilegum gögnum um áverka brotaþola.

Löggjöf

15. Í XXIII. kafla almennra hegningarlaga er að finna refsiákvæði um manndráp og líkamsmeiðingar. Í 211. gr. laganna segir að hver sá sem sviptir annan mann lífi skuli sæta fangelsi, ekki skemur en fimm ár, eða ævilangt.

16. Í 1. mgr. 218. gr. b almennra hegningarlaga segir:

Hver sem endurtekið eða á alvarlegan hátt ógnar lífi, heilsu eða velferð núverandi eða fyrrverandi maka síns eða sambúðaraðila, niðja síns eða niðja núverandi eða fyrrverandi maka síns eða sambúðaraðila, áa síns, eða annarra sem búa með honum á heimili eða eru í hans umsjá, með ofbeldi, hótunum, frelsissviptingu, nauðung eða á annan hátt, skal sæta fangelsi allt að 6 árum.

17. Í 2. mgr. 218. gr. b segir:

Ef brot er stórfellt getur það varðað fangelsi allt að 16 árum. Við mat á grófleika verknaðar skal sérstaklega líta til þess hvort þolandi hafi beðið stórfellt líkams- eða heilsutjón eða bani hlotist af. Enn fremur ber að líta til þess hvort brot hafi verið framið á sérstaklega sársaukafullan eða meiðandi hátt, hafi staðið yfir í langan tíma eða hvort gerandi hafi misnotað freklega yfirburðastöðu sína gagnvart þolanda.

18. Ákvæði 1. mgr. 20. gr. almennra hegningarlaga hefur að geyma efnisinntak tilraunar til brots samkvæmt lögunum en það er svohljóðandi:

Hver sá, sem tekið hefur ákvörðun um að vinna verk, sem refsing er lögð við í lögum þessum, og ótvírætt sýnt þann ásetning í verki, sem miðar eða er ætlað að miða að framkvæmd brotsins, hefur, þegar brotið er ekki fullkomnað, gerst sekur um tilraun til þess.

19. Í 2. mgr. 20. gr. laganna er síðan veitt heimild til að dæma lægri refsingu fyrir tilraun til brots en mælt er fyrir um fullframin brot. Skal það einkum gert þegar af tilrauninni má ráða að brotamaðurinn sé ekki eins hættulegur og vilji hans ekki eins harðnaður og ætla má að sé um menn sem fullfremja slík brot. Þá kemur fram í 3. mgr. að sé hagsmunum þeim sem verknaður beinist að eða verknaðinum sjálfum svo háttað að tilraunin hefði ekki getað leitt til fullframins brots megi ákveða að refsing skuli falla niður.

20. Ákvæði 218. gr. almennra hegningarlaga tekur til alvarlegri líkamsárása en greinir í 217. gr. laganna og hefur auk þess að geyma þá sérstöku reglu að gáleysi nægir með tilliti til afleiðingar ásetningsverknaðar en 1. mgr. 218. gr. laganna hljóðar svo:

Hafi maður með vísvitandi líkamsárás valdið öðrum manni tjóni á líkama eða heilbrigði, og þessar afleiðingar árásarinnar verða taldar honum til sakar vegna ásetnings eða gáleysis, þá varðar það fangelsi allt að 3 árum, eða sektum, ef sérstakar málsbætur eru.

21. Þá segir í 2. mgr. greinarinnar:

Nú hlýst stórfellt líkams- eða heilsutjón af árás eða brot er sérstaklega hættulegt vegna þeirrar aðferðar, þ. á m. tækja, sem notuð eru, svo og þegar sá, er sætir líkamsárás, hlýtur bana af atlögu, og varðar brot þá fangelsi allt að 16 árum.

22. Ákvæði 211. gr. og 20. gr. almennra hegningarlaga hafa ekki tekið breytingum frá setningu laganna en ákvæði 218. gr. sættu síðast efnislegum breytingum með 11. gr. laga nr. 20/1981 á þá lund að felld var niður heimild til að dæma til ævilangrar fangelsisvistar fyrir brot gegn greininni, jafnframt því sem efni hennar var skipt niður í tvær málsgreinar með mismunandi refsimörkum. Á hinn bóginn hafa frá setningu almennra hegningarlaga bæst við XXIII. kafla þeirra ýmis sértækari ákvæði er taka til líkamsárása, svo sem framangreind ákvæði 218. gr. b, sbr. 4. gr. laga nr. 23/2016.

23. Í almennum athugasemdum sem fylgdu frumvarpi til laga nr. 23/2016 segir meðal annars að afstaða löggjafans til sérrefsiákvæða um ofbeldi í nánum samböndum og heimilisofbeldi hafi breyst og sterk refsipólitísk og samfélagsleg rök standi nú til þess að setja sérstakt ákvæði um efnið. Mikilvægt er talið að löggjafinn viðurkenni sérstöðu slíkra brota og að heimilisofbeldi sé ekki einkamál fjölskyldna heldur varði samfélagið allt. Tryggja þurfi þeim sem búa við alvarlegt eða endurtekið ofbeldi af hálfu nákominna meiri og beinskeyttari réttarvernd. Líta beri til tengsla þolanda og geranda og þess rofs á trúnaðarsambandi og trausti þeirra á milli sem í háttseminni felist. Með 1. mgr. 4. gr. frumvarpsins sem varð að 218. gr. b sé lögð áhersla á að ofbeldi í nánum samböndum feli ekki einungis í sér samansafn einstakra tilvika heldur megi virða slíka háttsemi sem eina heild. Meginmarkmið ákvæðisins sé að ná til endurtekinnar eða alvarlegrar háttsemi. Ekki sé þó útilokað að einstakt brot geti fallið undir ákvæðið nái það tilteknu alvarleikastigi. Minni háttar brot sem ekki nái því stigi gætu eftir sem áður varðað við vægari refsiákvæði, svo sem 1. mgr. 217. gr. laganna. Refsinæmi sé ekki bundið við verknað sem þegar geti falið í sér refsiverða háttsemi samkvæmt almennum hegningarlögum heldur taki það jafnframt til þess ef lífi, heilsu eða velferð þolanda er ógnað á annan hátt sem ekki feli í sér sjálfstæða refsiverða háttsemi samkvæmt gildandi lögum.

24. Í almennum athugasemdum með fyrrgreindu lagafrumvarpi er einnig lýst atriðum sem leiða eiga til þess að brot samkvæmt 1. mgr. 218. gr. b almennra hegningarlaga teljist stórfellt þannig að það falli undir 2. mgr. greinarinnar en það skuli ráðast af grófleika brots. Tekið er fram að við mat þar að lútandi skuli sérstaklega litið til þess hvort stórfellt líkams- eða heilsutjón eða bani hefur hlotist af. Loks er í athugasemdum ráðgert að ákvæði 218. gr. b verði að meginstefnu beitt einu og sér en ekki samhliða öðrum refsiákvæðum almennra hegningarlaga, svo sem þeim er fjalla um líkamsmeiðingar (217. og 218. gr.), nauðung (225. gr.), frelsissviptingu (226. gr.) og hótanir (233. gr.). Þó væri hægt að beita ákvæðinu samhliða öðrum refsiákvæðum sem hafi hærri refsimörk eða taki til kynferðisbrota, svo sem 194. gr., enda innihaldi slík ákvæði jafnan efnisþætti sem hið nýja ákvæði nái ekki fyllilega utan um þótt efnislegt inntak þeirra skarist að nokkru leyti.

Niðurstaða

25. Eins og áður greinir veitti Hæstiréttur áfrýjunarleyfi á þeim grunni að telja yrði að úrlausn málsins, meðal annars um heimfærslu háttsemi ákærða til refsiákvæða, kynni að hafa verulega almenna þýðingu í skilningi 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Var þá einnig haft í huga að ákærði var sakfelldur fyrir tilraun til manndráps í Landsrétti en hafði verið sýknaður af því broti í héraði. Lýtur ágreiningur í máli þessu þannig einkum að því hvort meta skal sannaða háttsemi ákærða sem tilraun til manndráps samkvæmt 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga, eins og Landsréttur taldi, eða meiri háttar líkamsárás sem fella beri eftir atvikum undir 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga eins og lagt var til grundvallar í héraði.

26. Af 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrár og 2. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, og sönnunarreglum laga nr. 88/2008 leiðir að hver sá sem borinn er sökum um refsiverða háttsemi skal teljast saklaus uns sekt hans hefur verið sönnuð, sbr. einnig meðal annars dóm Hæstaréttar 15. október 2020 í máli nr. 16/2020. Svo að verknaður ákærða verði talinn tilraun til manndráps þarf ákæruvaldið að sýna fram á að ásetningur ákærða á verknaðarstundu hafi ekki einungis náð til ofbeldisverksins sem slíks heldur einnig til þeirrar afleiðingar sem að er stefnt, sem er dauði brotaþola. Mat á því lýtur meginreglum 109. gr. laga nr. 88/2008 um að nægileg sönnun sem ekki verði vefengd með skynsamlegum rökum sé fram komin um hvert það atriði sem máli skiptir um sekt ákærða. Við það mat verður litið til þess að sönnunarbyrði um sekt ákærða og atvik sem telja má honum í óhag hvíli á ákæruvaldinu, sbr. 108. gr. laganna.

27. Þegar niðurstaða áfrýjaðs dóms er einkum reist á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar ákærða og vitna fyrir dómi verður það mat ekki endurskoðað fyrir Hæstarétti, enda er ekki heimilt að veita leyfi til áfrýjunar á dómi Landsréttar til Hæstaréttar til endurskoðunar á slíku mati, sbr. 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Ef á hinn bóginn annmarkar eru á málsmeðferð, þar á meðal aðferð við sönnunarmat í dómi, sem teljast fallnir til að hafa áhrif á niðurstöðu máls, geta þeir orðið til þess að leyfi til áfrýjunar skuli veita, sbr. d-lið 1. mgr. 215. gr. sömu laga, sem leitt getur eftir atvikum til ómerkingar dóms og heimvísunar máls, sbr. dóm Hæstaréttar 18. febrúar 2021 í máli nr. 30/2020 og fyrrgreindan dóm í máli nr. 16/2020. Hins vegar endurmetur Hæstiréttur undir hvaða refsiákvæði heimfæra skal sannaða háttsemi, sbr. b-lið 1. mgr. 215. gr. laganna. Koma þá eftir atvikum til skoðunar önnur sönnunargögn en munnlegur framburður fyrir dómi, sbr. c-lið 1. mgr. greinarinnar, en slík gögn geta verið hvað eina sem líta ber til við niðurstöðu máls. Getur mál verið þannig vaxið að við heimfærslu verknaðar til refsiákvæða reyni á hvað telst sannað um huglæga afstöðu ákærða gagnvart þeim brotum sem til greina kemur að hann hafi gerst sekur um. Við mat á sönnun um huglæga afstöðu getur þannig reynt á sönnunargildi munnlegs framburðar um atvik og afleiðingar brots en jafnframt önnur sönnunargögn, sbr. dóm Hæstaréttar 13. maí 2020 í máli nr. 11/2020. Í samræmi við það sem áður sagði getur Hæstiréttur þá þurft að reisa niðurstöðu sína um heimfærslu til refsiákvæða á mati Landsréttar á sönnunargildi munnlegs framburðar.

28. Framburður ákærða í héraði og fyrir Landsrétti var á sömu lund en ekki gáfu skýrslu fyrir Landsrétti að nýju þau vitni sem það höfðu gert í héraði. Á hinn bóginn voru myndupptökur af framburði þriggja vitna í héraði spilaðar við meðferð málsins í Landsrétti. Þá gaf eitt nýtt vitni skýrslu fyrir Landsrétti en hvorki var vísað til hennar í röksemdum réttarins fyrir niðurstöðum um sönnun á atvikum né við heimfærslu til refsiákvæða.

29. Í dómi Landsréttar var staðfest sú niðurstaða héraðsdóms, með vísan til forsendna hans, að ákærði hefði gerst sekur um að hafa stappað ítrekað á hægri hlið líkama brotaþola með þeim afleiðingum sem greint væri frá í ákæru. Þó var tiltekið að ekki yrði fallist á með héraðsdómi að brotaþoli hefði ekki verið hæf til að gefa þá skýrslu er hún gaf fyrir lögreglu á sjúkrahúsi daginn eftir atvik og spiluð var í hljóði og mynd fyrir dómendur Landsréttar. Ekkert er fram komið í málinu um að slíkir annmarkar séu á aðferð Landsréttar við sönnunarmat að áhrif geti haft á sönnun um atvik og verður niðurstaða hans um þá háttsemi sem ákærði hefur gerst sekur um því lögð til grundvallar.

30. Á hinn bóginn komust héraðsdómur og Landsréttur að mismunandi niðurstöðu um sönnun á huglægri afstöðu ákærða til afleiðinga árásarinnar enda þótt niðurstöður um sönnun þar um hafi á báðum dómstigum að verulegum hluta verið reistar á mati á framburði sérfræðilæknis og réttarmeinafræðings og skjallegum læknisfræðilegum gögnum sem frá þeim og öðrum stafa.

31. Í rökstuðningi héraðsdóms fyrir sýknu af tilraun til manndráps sagði að ekkert lægi fyrir um hvað ákærða gekk til með árásinni. Brotaþoli hefði skorast undan vitnisburði og gegn neitun ákærða yrði engu slegið föstu um að hann hefði ætlað að deyða hana. Af læknisfræðilegum gögnum og framburði lækna um þau, einkum framburði framangreindra tveggja lækna, væru áverkarnir ekki slíkir að unnt væri að slá því föstu að vakað hefði fyrir ákærða að deyða brotaþola.

32. Í dómi Landsréttar sagði á hinn bóginn að dómstólar hefðu fellt undir tilraun til manndráps árás sem ekki hefði verið lífshættuleg en getað orðið það ef atlagan, í ljósi þeirra líffæra er voru í hættu, hefði á einhvern hátt verið lítils háttar öðruvísi. Um það var vísað til dóms Landsréttar 1. október 2021 í máli nr. 685/2020 og dóms Hæstaréttar 30. maí 2013 í máli nr. 197/2013. Þá hefði í dómaframkvæmd verið litið til þess ofsa sem í árás hefði falist og huglægrar afstöðu árásarmannsins í því efni, sbr. dóm Landsréttar 3. maí 2019 í máli nr. 783/2018. Eins og í héraðsdómi vísaði Landsréttur sérstaklega til framburðar framangreindra tveggja lækna en sagði að samkvæmt framburði þeirra yrði við það að miða að atlaga ákærða hefði beinst að viðkvæmu svæði á líkama brotaþola þar sem væru viðkvæm líffæri, svo sem lungu og lifur. Ákærði hefði brotið mörg rifbein ofan þessara líffæra. Af framburði læknanna yrði ráðið að hending ein hefði ráðið því að árásin varð ekki lífshættuleg eins og á stóð þar sem brotin rifbein hefðu getað stungist í lungu brotaþola sem hefðu við það getað fallið meira saman og valdið lífshættulegri öndunarbilun. Eins hefði lifrarhýðið getað rofnað með tilheyrandi blæðingu úr lifur inn í frían kvið. Yrði því slegið föstu, með vísan til framburða læknanna, að atlaga ákærða hefði verið ofsafengin en vitnin hefðu lýst þeim krafti sem beita hefði þurft til að valda áverkum af því tagi sem brotaþoli hlaut. Þá væri einnig til þess að líta að árásin hefði falið í sér síendurtekin högg. Þegar þessi atriði væru virt yrði lagt til grundvallar að ákærða „hafi ekki getað dulist að bani gæti hlotist af hinni ofsafengnu atlögu sem hann gerði að brotaþola.“

33. Eftir þeim meginreglum sem að framan eru raktar hvílir á ákæruvaldinu sönnunarbyrði um ásetning ákærðs manns til brots. Þarf tilraun til brots að vera svo löguð að áskilnaði reglunnar um að ásetningur taki til allra efnisþátta verknaðar sé fullnægt þótt verkið sé ekki fullframið og því ekki allir verknaðarþættir komnir fram í samræmi við verknaðarlýsingu refsiákvæðis. Verða dómstólar einatt að meta hvort beinn ásetningur, líkindaásetningur eða eftir atvikum lægsta stig ásetnings sem nefnt er dolus eventualis teljist sannaður. Líkindaásetningur til tilraunar til tjónsbrots telst fyrir hendi þegar sannað þykir að ákærði hafi álitið langlíklegast að afleiðingar af fullfrömdu broti kæmu fram. Lægsta stig ásetnings til tjónsbrots telst hins vegar geta verið til staðar þegar sannað er að ákærði hafi hlotið að vita eða ekki getað dulist að afleiðingar af fullfrömdu broti gætu komið fram en hann látið sér þær í léttu rúmi liggja eða sannað þykir að hann hefði engu að síður framið verknað þótt honum væru afleiðingar hans ljósar. Um stórfellt gáleysi er á hinn bóginn að ræða ef verknaður er framinn þrátt fyrir vitneskju um hættu á afleiðingum en í trausti þess að þær komi ekki fram.

34. Nokkuð skortir á rökstuðning í dómi Landsréttar um ásetningsstig ákærða til afleiðinga verknaðar hans. Mögulega má þó ráða að byggt sé á því að sannað sé lægsta stig ásetnings ákærða til manndráps, eins og þessum ásetningsstigum er lýst hér áður. Þess er þó ekki getið með glöggum hætti að fram væri komin sönnun um að ákærði hefði látið sér afleiðingarnar í léttu rúmi liggja eða að hann hefði engu að síður framið verknaðinn þótt hann teldi afleiðingar ljósar á verknaðarstundu.

35. Ekki liggur fyrir í málinu játning ákærða um ásetning til manndráps og ekkert verður ráðið af framburði hans um huglæga afstöðu hans til afleiðinga atlögunnar að brotaþola. Þá er öðrum vitnum um verknaðinn ekki til að dreifa. Verður því að ráða hina huglæga afstöðu ákærða, þar á meðal um hvað hann hlaut að gera sér grein fyrir um afleiðingar líkamsárásarinnar, af því sem telst sannað í dómi Landsréttar um sjálfan verknaðinn, svo sem um verknaðaraðferð, þá hættu sem skapaðist, hvernig afleiðingar verknaðar birtust og eftirfarandi háttsemi ákærða. Við það mat reynir annars vegar á hvað telst sannað um framangreind atriði, þar á meðal með sýnilegum sönnunargögnum, sérfræðigögnum og munnlegum framburði þeirra sem borið geta um afleiðingar verknaðarins. Svo sem að framan greinir er þessi hluti sönnunarmatsins í hinum áfrýjaða dómi að verulegu leyti byggður á mati á framburði tveggja sérfræðilækna fyrir héraðsdómi og verður það ekki endurskoðað fyrir Hæstarétti. Við mat á sönnun á huglægri afstöðu ákærða reynir hins vegar á fleiri atriði, svo sem ályktanir sem almennt verða dregnar um hættueiginleika þeirrar verknaðaraðferðar sem um ræðir. Samkvæmt dómaframkvæmd hefur þýðingu við það mat hvort vopnum, svo sem skot-, stungu- eða eggvopnum eða þungum bareflum, var beitt svo og á hvaða líkamshluta brotaþola var ráðist. Þannig hefur árás með til að mynda skotvopni eða hníf sem beinist að viðkvæmum stöðum á líkama, svo sem höfði, hálsi, brjóstkassa og kviði, oftar leitt til þess að ásetningur telst sannaður þegar ákært hefur verið fyrir tilraun til manndráps en þegar um aðrar verknaðaraðferðir hefur verið að ræða. Í þessum þætti sönnunarmatsins reynir í engu á mat á sönnunargildi munnlegs framburðar og kemur þetta atriði rökstuðnings fyrir heimfærslu til endurskoðunar fyrir Hæstarétti. Í framangreindum dómum sem Landsréttur vísaði sérstaklega til í niðurstöðu sinni var slíkum vopnum og verknaðaraðferðum beitt en svo háttar ekki til í þessu máli þótt lagt sé til grundvallar að árásin hafi verið ofsafengin og beinst að viðkvæmum líkamshlutum. Þá verða heldur ekki dregnar haldbærar ályktanir um ásetning ákærða til manndráps af háttalagi hans daginn og nóttina fyrir árásina eða í framhaldi af henni, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 24. maí 2006 í máli nr. 551/2005. Er um hið síðastgreinda einkum til þess að líta að fram er komið að ákærði hafði samband við Neyðarlínuna strax eftir árásina og kallaði eftir aðstoð brotaþola til handa.

36. Þegar allt framangreint er metið heildstætt, og að virtri meginreglu 108. gr. laga nr. 88/2008, er varhugavert að telja fram komna fulla sönnun þess að ákærði hafi á verknaðarstundu haft ásetning til að bana brotaþola heldur verður að miða við að um hafi verið að ræða stórfellt gáleysi ákærða til afleiðinga verknaðarins. Verður brot ákærða því ekki fært undir 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga.

37. Ákvæði 218. gr. b almennra hegningarlaga lýtur að broti þar sem tilgreind tengsl eru eða hafa verið milli geranda og brotaþola og getur ákvæðið átt við margvíslega háttsemi. Þó er gert að skilyrði að háttsemin sé með þeim hætti að ógni lífi, heilsu eða velferð þess sem fyrir verður. Á hinn bóginn þarf brotaþoli ekki að verða fyrir beinum eða sjáanlegum líkamsáverkum eða öðru tjóni svo að heimfæra megi háttsemi til 1. mgr. greinarinnar. Slíkt getur þó komið til skoðunar við mat á grófleika brots og heimfærslu, einkum að því er varðar 2. mgr. hennar. Skal þá meðal annars sérstaklega líta til þess hvort brotaþoli hafi beðið stórfellt líkams- eða heilsutjón eða bani hlotist af og enn fremur hvort brot hafi verið framið á sérstaklega sársaukafullan eða meiðandi hátt, eins og hér háttar til. Samkvæmt þessu fellur sú háttsemi sem ákærði er fundinn sekur um beint að lýsingu á broti samkvæmt 1., sbr. 2. mgr. 218. gr. b laganna.

38. Eins og áður segir er í athugasemdum með frumvarpi sem varð að lögum nr. 23/2016 ráðgert að 218. gr. b almennra hegningarlaga verði að meginstefnu beitt einni og sér en ekki samhliða öðrum refsiákvæðum laganna. Jafnframt er þó tiltekið að beita megi greininni með öðrum refsiákvæðum sem hafa hærri refsimörk. Eins og greinir hér að framan er það ekki skilyrði að afleiðingar brota séu verulegar eða varanlegar til að ákvæði 2. mgr. 218. gr. b taki til þeirra heldur nægir að verknaður feli í sér ógn svo ákvæðið eigi við. Þá nær ákvæðið, svo sem ákvæði 2. mgr. 218. gr. laganna, samkvæmt orðum sínum einnig til líkamsárásar sem eftir atvikum getur leitt til dauða þess sem fyrir verður og er refsihámark beggja ákvæða 16 ára fangelsi. Þótt ákvæði 218. gr. b séu sérákvæði um margvísleg brot í nánu sambandi og geti falið í sér efnisþætti sem 2. mgr. 218. gr. tekur til verður á hinn bóginn ekki talið að greinin nái í öllum tilvikum fyllilega utan um efnislegt inntak 2. mgr. 218. gr. þannig að hún tæmi sök gagnvart hinni síðari. Eiga báðar greinarnar því við um verknað ákærða. Samkvæmt þessu og með hliðsjón af lokamálslið 1. mgr. 180. gr. laga nr. 88/2008 verður ákærði því einnig sakfelldur fyrir brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga.

39. Ákærði hefur unnið sér til refsingar. Við ákvörðun hennar verður horft til refsimarka þeirra ákvæða sem hann hefur brotið gegn en í árás ákærða fólst alvarlegt brot gegn báðum greinunum. Hann á sér engar málsbætur. Einnig verður við refsiákvörðun litið sérstaklega til 1., 2. og 3. töluliða 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Með hliðsjón af 2. mgr. 218. gr. b sem ákærði er sakfelldur fyrir eru ekki efni til að líta hér sérstaklega til 3. mgr. 70. gr. við ákvörðun refsingar, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 30. mars 2022 í máli nr. 47/2021. Verður refsing ákærða ákveðin fangelsi í fjögur ár.

40. Samkvæmt 76. gr. almennra hegningarlaga kemur til frádráttar refsingunni gæsluvarðhald sem ákærði hefur sætt óslitið frá 31. janúar 2021.

41. Að virtum atvikum öllum og þeim gögnum sem liggja fyrir um miska brotaþola verður ákærða gert að greiða henni 3.000.000 króna í miskabætur eftir 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 með vöxtum eins og ákveðnir voru í Landsrétti. Ekki er hins vegar að fullu ljóst að hvaða tjóni viðurkenningarkrafa brotaþola lýtur og skýrðist það ekki við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti. Sú krafa er því vanreifuð og verður af þeim sökum vísað frá héraðsdómi.

42. Ákvæði Landsréttar um sakarkostnað verða staðfest.

43. Eftir þessum úrslitum og samkvæmt 1. mgr. 238. gr., sbr. 235. gr. laga nr. 88/2008 verður ákærði dæmdur til að greiða helming sakarkostnaðar málsins fyrir Hæstarétti, þar með talið helming málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns og þóknunar réttargæslumanns brotaþola sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti, allt eins og greinir í dómsorði. Hinn hluti sakarkostnaðar fyrir Hæstarétti fellur á ríkissjóð.

Dómsorð:

Ákærði, X, sæti fangelsi í fjögur ár. Til frádráttar refsingu kemur gæsluvarðhaldsvist frá 31. janúar 2021.

Ákærði greiði A 3.000.000 króna með vöxtum eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi.

Kröfu brotaþola um viðurkenningu á skaðabótaskyldu ákærða er vísað frá héraðsdómi.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað skulu vera óröskuð.

Ákærði greiði helming sakarkostnaðar málsins fyrir Hæstarétti, þar með talinn helming af 1.240.000 króna málsvarnarlaunum skipaðs verjanda síns, Björgvins Jónssonar lögmanns, svo og helming 372.000 króna þóknunar réttargæslumanns brotaþola, Þorbjargar I. Jónsdóttur lögmanns. Að öðru leyti greiðist sakarkostnaður úr ríkissjóði.