Hæstiréttur íslands

Mál nr. 24/2024

Stykkishólmskirkja (Ólafur Björnsson lögmaður)
gegn
Hofsstaðahálsi ehf., Dreisam ehf., Múlavirkjun hf., Magnúsi Elíassyni, Bergljótu Jónsdóttur, Valgerði Jónsdóttur, Einari Steinþóri Jónssyni, Ingibjörgu Fells Elíasdóttur, West ehf., dánarbúi Ástu Ingunnar Thors, Hildi Thors og Eddu Thors (Guðjón Ármannsson lögmaður)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Landamerki
  • Samaðild
  • Samlagsaðild
  • Kröfugerð
  • Ómerking úrskurðar Landsréttar

Reifun

S hafði í héraði uppi kröfu á hendur eigendum átta jarða um viðurkenningu á tilteknum landamerkjum jarðarinnar B gagnvart jörðum sem liggja að henni á alla vegu. Héraðsdómur féllst á kröfu S um nánar tiltekin merki jarðarinnar B gagnvart sex af þessum jörðum en sýknaði eigendur tveggja jarða af kröfum S. Landsréttur vísaði málinu frá héraðsdómi þar sem S hefði borið að gera sérstaka dómkröfu um viðurkenningu landamerkja B að hverri jörð fyrir sig þannig að dæma hafi mátt um þær aðgreint. Hæstiréttur taldi að Landsrétti hefði borið, samkvæmt 3. mgr. 101. gr., sbr. 166. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, að beina því til S að bæta úr ágöllum á kröfugerð sinni í stað þess að vísa málinu frá héraðsdómi. Í því sambandi var þess sérstaklega getið að ekki væri að sjá að upphaflegur málatilbúnaður S hefði komið niður á vörnum eigenda jarðanna. Úrskurður Landsréttar var því ómerktur og málinu vísað til löglegrar meðferðar fyrir Landsrétti.

Dómur Hæstaréttar

1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen, Ingveldur Einarsdóttir, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru dagsettri 15. maí 2024 sem barst réttinum 16. sama mánaðar en kærumálsgögn bárust réttinum 23. þess mánaðar. Kærður er úrskurður Landsréttar 3. maí 2024 þar sem málinu var vísað frá héraðsdómi. Kæruheimild er í a-lið 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

3. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir Landsrétt að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar fyrir Hæstarétti úr hendi varnaraðila.

4. Varnaraðilar krefjast þess hver fyrir sig að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og sóknaraðila gert að greiða varnaraðilum hverjum fyrir sig kærumálskostnað fyrir Hæstarétti.

Ágreiningsefni og málsatvik

5. Fyrir Hæstarétti lýtur kjarni ágreinings aðila að því hvort kröfugerð sóknaraðila uppfylli skilyrði samlagsaðildar samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991.

6. Sóknaraðili hafði í héraði uppi kröfu á hendur eigendum átta jarða á Snæfellsnesi um að viðurkennd yrðu með dómi tiltekin landamerki jarðarinnar Baulárvalla gagnvart jörðum sem liggja að henni á alla vegu.

7. Eigendur einnar þessara jarða, Syðra-Lágafells 1, féllust á kröfur sóknaraðila og létu málið ekki til sín taka fyrir héraðsdómi. Eigendur hinna sjö tóku til varna í héraði og kröfðust aðallega frávísunar, meðal annars á þeim grundvelli að ekki hefði verið gerð sjálfstæð krafa um viðurkenningu á landamerkjum Baulárvalla gagnvart hverri grannjarðanna um sig. Það töldu þeir í andstöðu við þær kröfur sem gera yrði til kröfugerðar þegar byggt væri á samlagsaðild samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991. Til vara kröfðust þeir sýknu, einkum á þeim grundvelli að aldrei hefði verið stofnað til beins eignarréttar að Baulárvöllum. Jafnframt töldu þeir útilokað að réttindi sóknaraðila tækju til svo stórs landsvæðis og mótmæltu öllum hnitpunktum á kröfulínu hans. Stefndu gerðu ekki sjálfstæðar kröfur um landamerki jarða sinna gagnvart Baulárvöllum.

8. Með úrskurði 16. júní 2021 hafnaði héraðsdómur kröfu um frávísun málsins. Sú niðurstaða var reist á því að skilja bæri kröfugerðina á þann veg að kröfum væri beint að hverjum og einum stefnda. Í héraðsdómi 11. júlí 2022 var vísað til úrskurðarins en þar sagði jafnframt að sá hængur væri á kröfugerðinni að auðkenni sem stefnandi miðaði kröfur sínar við tækju einkum mið af upphaflegum heimildum um merki Baulárvalla. Þess væri hins vegar ekki gætt að tilgreina merki eða auðkenni, til dæmis með hnitsetningu, þar sem skilji á milli einstakra jarða gagnvart merkjalínu Baulárvalla. Þessi afmörkun sæist eingöngu á landakorti, sem væri meðal framlagðra dómskjala, sem hafa mætti til hliðsjónar þar sem landamerkjalína Baulárvalla væri lituð sérstökum lit gagnvart hverri jörð. Í héraðsdómi var komist að niðurstöðu um eignarréttarlega stöðu Baulárvalla og leyst úr ágreiningi um landamerki jarðarinnar gagnvart hverri aðliggjandi jörð fyrir sig. Eigendur jarðanna Selvalla og Horns voru sýknaðir af kröfum sóknaraðila en fallist var á viðurkenningarkröfur hans á hendur eigendum sex jarða, Hofsstaða, Ytra-Lágafells, Syðra-Lágafells 1, Elliða, Hraunsfjarðar og Dals.

9. Með hinum kærða úrskurði var málinu vísað frá héraðsdómi, meðal annars vegna þess ágalla á kröfugerð sóknaraðila að gera ekki sjálfstæða aðgreinda kröfu á hendur eigendum hverrar hinnar átta jarða um sig í andstöðu við 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991.

Niðurstaða

10. Aðili máls er sá sem gerir kröfu eða krafa beinist að. Þegar dómsmál er rekið á grundvelli samaðildar til varnar samkvæmt 18. gr. laga nr. 91/1991 gerir sóknaraðili sömu kröfu á hendur fleiri en einum varnaraðila þannig að um eitt sakarefni er að ræða. Megineinkenni samlagsaðildar samkvæmt 1. mgr. 19. gr. sömu laga og það sem skilur hana frá samaðild er að í skjóli hennar er einum eða fleiri í félagi heimilt að sækja mál um kröfur á hendur einum eða fleiri varnaraðilum þar sem hver sóknaraðili gæti allt eins höfðað sjálfstætt mál um kröfu sína á hendur hverjum varnaraðila. Samkvæmt dómum Hæstaréttar er það ófrávíkjanlegt skilyrði þess að unnt sé að nýta réttarfarshagræði 1. mgr. 19. gr. laganna að hver sóknaraðila geri sjálfstæða, aðgreinda kröfu. Varðar það frávísun máls af sjálfsdáðum sé þetta ekki gert, sbr. dóma réttarins 6. september 2005 í máli nr. 294/2005 og 21. október sama ár í máli nr. 439/2005. Það sama á við að breyttu breytanda þegar samlagsaðild er beitt varnarmegin en þá þarf sóknaraðili að gera sjálfstæða kröfu á hendur hverjum varnaðaraðila. Um þetta vísast til dóms Hæstaréttar 17. apríl 2024 í máli nr. 44/2023.

11. Í þessu máli háttar svo til að sóknaraðili, sem er þinglýstur eigandi jarðarinnar Baulárvalla á Snæfellsnesi, krafðist viðurkenningar á ytri landamerkjum jarðarinnar gagnvart þeim jörðum sem hann telur liggja að jörð sinni. Hann beindi málsókn sinni sem fyrr segir að eigendum átta jarða en sumar þeirra eru í óskiptri sameign fleiri en eins.

12. Í úrskurði Landsréttar var að finna athugasemd um vanreifun á aðild málsins sóknarmegin og fundið að því að héraðsdómari hefði ekki tekið rökstudda afstöðu til þeirrar málsástæðu varnaraðila að íslenska ríkið væri eigandi að öllum jarðeignum kirkjunnar fyrir utan prestsetrin sjálf. Í stefnu var byggt á því að sóknaraðili væri samkvæmt þinglýsingarvottorði eini eigandi jarðarinnar Baulárvalla samkvæmt afsali útgefnu 9. september 1882 en þinglýstu árið 1883 en jörðin hefði verið gjöf tilgreinds manns til kirkjunnar. Þar var einnig gerð ítarleg grein fyrir kvöðum í gjafagerningnum. Í greinargerð til héraðsdóms vísuðu varnaraðilar til laga nr. 46/1907 um laun sóknarpresta og kirkjujarðasamkomulags frá árinu 1997 og héldu því fram að íslenska ríkið væri eigandi Baulárvalla en ekki sóknaraðili. Varnaraðilar hafa hins vegar engin gögn lagt fram sem styðja að íslenska ríkið sé þrátt fyrir þinglýsta eignarheimild sóknaraðila réttur aðili til sóknar. Komi annað í ljós er til þess að líta að íslenska ríkið er ekki aðili að málinu og því ekki bundið af niðurstöðu þess, sbr. 1. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991. Í kafla um málsástæður varnaraðila í héraðsdómi var vísað til umræddra varna um aðild. Í atvikalýsingu í héraðsdómi var gerð ítarleg grein fyrir eignarheimild sóknaraðila. Meðal annars var lýst þeirri kvöð að sóknarnefnd Stykkishólmssóknar hefði jafnan alla umsjón með jörðinni kirkjunnar vegna og bæri að gera hana svo arðsama fyrir kirkjuna sem frekast mætti og sjá um að hún yrði aldrei frá kirkjunni seld eða veðsett hvorki í þágu kirkjunnar né annarra. Til þessa var einnig vísað í rakningu málsástæðna sóknaraðila. Í niðurstöðu héraðsdóms var um eignarheimildir sóknaraðila vísað til umrædds gjafabréfs. Komist var að þeirri niðurstöðu að engar forsendur væru fyrir því að telja eignarréttindi sóknaraðila niður fallin fyrir vangeymslu eða á annan hátt.

13. Í ljósi þinglýstra eignarheimilda sóknaraðila um jörðina Baulárvelli og þess að engin gögn liggja fyrir í málinu sem benda til eignarhalds íslenska ríkisins að jörðinni var ekkert tilefni til umræddra athugasemda í hinum kærða úrskurði um vanreifun á aðild málsins sóknarmegin eða framangreindra aðfinnslna við samningu héraðsdóms.

14. Eins og fram kemur í hinum kærða úrskurði áfrýjuðu eigendur Selvalla og Horns ekki héraðsdómi til Landsréttar en sóknaraðili gagnáfrýjaði dóminum eftir að áfrýjunarfrestur var liðinn. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar og dóms Hæstaréttar 12. október 2017 í máli nr. 505/2016 er heimild til málskots eftir að áfrýjunarfrestur er liðinn bundin við gagnáfrýjun gagnvart þeim aðila sem hefur þegar áfrýjað dómi sem aðaláfrýjandi. Heimildinni verður á hinn bóginn ekki beitt gagnvart öðrum sem átt hafa aðild að máli í héraði en hafa ekki áfrýjað dómi. Málinu var því réttilega vísað frá Landsrétti að því er varðar gagnáfrýjun héraðsdóms gagnvart þessum stefndu. Þessi tvö sjálfstæðu sakarefni voru því ekki til umfjöllunar í Landsrétti og heldur ekki kröfur sóknaraðila á hendur eigendum jarðarinnar Syðra-Lágafells 1.

15. Í stefnu sóknaraðila til héraðsdóms krafðist hann þess að viðurkennt yrði með dómi að landamerki Baulárvalla gagnvart aðliggjandi jörðum væru samkvæmt útmælingargjörð fyrir nýbýlið Baulárvelli frá 7. júlí 1823 og lögfestu Arnfinns Arnfinnssonar frá árinu 1847 með þeim hætti sem lýst var nánar með örnefnum og tilvísun til hnitsettra hornpunkta. Kröfulínan kom fram á uppdrætti sem lagður var fram við þingfestingu málsins en hún var dregin í gegnum 16 hnitsetta punkta sem vísað var til í dómkröfum. Þar sem landamerki milli grannjarða snertu kröfulínuna var í sumum tilvikum hnitpunktur en í öðrum ekki. Á uppdrættinum var kröfulínan hins vegar auðkennd með sérstökum lit gagnvart hverri aðliggjandi jörð um sig. Í dómkröfum var ekki gerð grein fyrir hvaða hlutar kröfulínunnar væru merki Baulárvalla gagnvart hverri og einni aðliggjandi jörð. Í stefnunni var tekið fram hverjum væri stefnt vegna hverrar jarðar um sig og málsástæðum að nokkru leyti lýst sérstaklega fyrir hverja jörð en þó að mestu sameiginlega. Í stefnunni sagði að um aðild stefndu væri vísað til 1. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991 um sameigendur umræddra jarða en að öðru leyti til 1. mgr. 19. gr. sömu laga.

16. Eins og að framan greinir lagði sóknaraðili fyrir héraðsdóm átta sjálfstæð sakarefni um landamerki jarðar sinnar og átta aðliggjandi jarða sem ekki voru að öllu leyti sömu eigendur að. Eins og hér stóð á bar sóknaraðila að réttu lagi að gera sérstaka dómkröfu gagnvart eigendum hverrar af þessum átta jörðum. Þannig var sá annmarki á kröfugerðinni að ekki var tilgreint hvaða hnitpunktar afmörkuðu kröfulínu hans gagnvart hverri grannjörð fyrir sig og því ekki gerð sjálfstæð, aðgreind krafa um viðurkenningu á merkjum milli Baulárvalla og hverrar grannjarðar um sig.

17. Sá munur er á málatilbúnaði sóknaraðila í þessu máli og í því sem fyrrnefndur hæstaréttardómur í máli nr. 44/2023 snerist um að hér er kröfulína á uppdrætti sem vísað var til í dómkröfum afmörkuð með sérstökum lit gagnvart hverri grannjarða Baulárvalla. Af því leiddi að héraðsdómur taldi sér kleift að taka afstöðu til kröfu um viðurkenningu á landamerkjum Baulárvalla gagnvart hverri grannjarðanna um sig og sýknaði eigendur tveggja þeirra en tók til greina kröfur sóknaraðila um viðurkenningu á landamerkjum gagnvart sex þeirra. Í dómsorði héraðsdóms var hins vegar ekki frekar en í dómkröfum sóknaraðila greint frá því hvaða hlutar kröfulínunnar væru merki milli Baulárvalla og hverrar aðliggjandi jarðar um sig og þar voru heldur ekki tilgreindir sérstakir hnitpunktar á hinni dæmdu kröfulínu þar sem landamerki milli þessara átta grannjarða snerta kröfulínuna.

18. Þótt finna megi dæmi um að sambærileg framsetning krafna og í þessu máli hafi verið látin óátalin, sbr. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar 12. júní 2014 í máli nr. 609/2013 og 5. október 2017 í máli nr. 78/2017, bar sóknaraðila þegar í upphafi að marka kröfur sínar skýrar þannig að eftir atvikum hefði verið unnt að dæma með réttum hætti aðgreint um hverja þeirra fyrir sig, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 26. maí 2011 í máli nr. 700/2009.

19. Sóknaraðili freistaði þess að bæta úr málatilbúnaði sínum fyrir Landsrétti. Þar lagði hann fram uppdrátt sem sýndi kröfulínur hans með sérstökum lit fyrir hverja aðliggjandi jörð og hnitpunktum nr. 1 til 16 með sama hætti og á þeim uppdrætti sem hann lagði fram í héraði. Inn á uppdráttinn höfðu verið færðir nýir hnitpunktar, auðkenndir A til G, á kröfulínuna þar sem ætluð landamerki milli aðliggjandi jarða snertu hana. Sumir þessara hnitpunkta féllu saman við hina tölusettu hnitpunkta en aðrir voru á milli þeirra. Sóknaraðili lagaði hins vegar ekki kröfugerð sína að þessum nýja uppdrætti þannig að sjálfstæðri, aðgreindri kröfu væri beint að eigendum hverrar aðliggjandi jarðar fyrir sig.

20. Í dómi Hæstaréttar 17. janúar 2006 í máli nr. 538/2005 var til endurskoðunar úrskurður héraðsdóms þar sem máli hafði verið vísað frá héraðsdómi af sjálfsdáðum af þeirri ástæðu að hver sóknaraðila hefði ekki gert sjálfstæða, aðgreinda kröfu. Í dóminum kom fram að úr þessu hefðu sóknaraðilar bætt í kæru til réttarins og væru því ekki lengur fyrir hendi annmarkar á málatilbúnaði þeirra að þessu leyti sem að réttu hefðu leitt til frávísunar. Ekki var fallist á með varnaraðilum að leiðrétting krafna sóknaraðila væri of seint fram komin enda hefði ekki verið sýnt fram á að vörnum kynni að verða áfátt af þessum sökum. Í dómi Hæstaréttar 20. nóvember 2012 í máli nr. 644/2012 var frávísunarúrskurður felldur úr gildi með vísan til þess að bætt hefði verið úr sambærilegum ágalla á kröfugerð í kæru til réttarins. Hæstiréttur vísaði jafnframt til þess að héraðsdómara hefði samkvæmt 3. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 borið að beina því til sóknaraðila að bæta úr þessum ágalla.

21. Í áðurnefndu hæstaréttarmáli nr. 44/2023 höfðu aftur á móti bæði héraðsdómur og Landsréttur leyst efnislega úr máli þar sem kröfugerð var haldin sambærilegum annmörkum og í síðastgreindum tveimur málum eins og um eitt sakarefni væri að ræða. Þá var þeim dómi áfrýjað eingöngu til ómerkingar á honum. Hæstiréttur hafði við þær aðstæður ekki önnur úrræði en að vísa málinu frá héraðsdómi, enda málshöfðunin byggð á því að um samaðild væri að ræða með eigendum tveggja jarða og hvorki unnt að bæta úr ágallanum í héraði né fyrir Landsrétti.

22. Það tilvik sem hér er til úrlausnar er ósambærilegt því sem reyndi á í fyrrnefndum hæstaréttarmálum nr. 538/2005 og 644/2012 að því leyti að þótt sóknaraðili hafi lagt grunn að breyttri kröfugerð með framlagningu nýs uppdráttar hefur hann enn ekki bætt úr ágalla á kröfugerð sinni og sett fram sjálfstæða, aðgreinda kröfu á hendur eigendum hverrar aðliggjandi jarðar um sig. Á hinn bóginn er til þess líta að mál þetta var frá upphafi höfðað gagnvart eigendum hverrar jarðar um sig á grundvelli samlagsaðildar og þannig byggt á því að um mörg sakarefni væri að ræða. Þá liggur fyrir að héraðsdómur hefur fjallað sjálfstætt um merki Baulárvalla og hverrar jarðar á grundvelli málatilbúnaðar aðila og leyst úr hverju sakarefni fyrir sig að því marki sem unnt var í ljósi skorts á hnitpunktum á kröfulínu á landamerkjum þeirra. Loks er til þess að líta að fyrir Landsrétti lagði sóknaraðili fram uppdrátt sem sýnir þá hnitpunkta sem afmarka þau landamerki Baulárvalla sem hann telur rétt gagnvart hverri aðliggjandi jörð fyrir sig. Á grundvelli þessara hnitpunkta er sóknaraðila unnt að bæta úr framangreindum ágöllum á kröfugerð sinni.

23. Í greinargerð til Hæstaréttar var af hálfu varnaraðila bent á þann ágalla á málatilbúnaði sóknaraðila að skort hefði á að öllum eigendum lands innan ágreiningssvæðisins væri stefnt til varna í málinu. Vegna starfrækslu Múlavirkjunar hefði á sínum tíma verið stofnaðar sjálfstæðar fasteignir um stíflur og lagnaleiðir, svo sem Hofstaðaland virkjun, en grunneignarréttur að þeirri fasteign væri að jöfnu í höndum Eggerts Kjartanssonar og Dufgusdals ehf. Um væri að ræða 13,3 hektara spildu sem tæki meðal annars til athafnasvæðis virkjunarinnar innan ágreiningssvæðisins. Dufgusdal ehf. væri þó ekki stefnt í málinu. Þá tæki dómkrafan ekki mið af því að hluti Baulárvallavatns væri almenningur. Almenningar í stöðuvötnum bíði málsmeðferðar óbyggðanefndar en samkvæmt 7. mgr. 10. gr. og 2. mgr. 14. gr. laga nr. 58/1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta væri óheimilt að reka dómsmál um slík svæði.

24. Af hálfu sóknaraðila er á því byggt að dómkrafa hans lúti að því að fá viðurkennd ytri landamerki jarðarinnar Baulárvalla en ekki að ágreiningi um eignarhald eða merki spildna í eigu annarra innan þessara ytri landamerkja og heldur ekki að óbeinum eignarréttindum annarra innan þeirra.

25. Með vísan til þess að dómkröfur sóknaraðila miða að því að afla viðurkenningar á tiltekinni kröfulínu sem markar ytri landamerki jarðarinnar Baulárvalla gagnvart átta grannjörðum er fallist á með honum að ekki beri að vísa málinu frá héraðsdómi vegna þess að aðrir en hann kunni að eiga bein eða óbein eignarréttindi innan þess landsvæðis sem kröfulína hans afmarkar. Þar skiptir jafnframt máli að þeir sem ekki eru aðilar að málinu eru óbundnir af niðurstöðu þess, sbr. 1. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991.

26. Á uppdrætti sem sóknaraðili lagði fram í héraði og sýnir meðal annars hnitsetta kröfulínu hans virðist vera afmörkuð tiltekin spilda umhverfis inntaksmannvirki Múlavirkjunar, innan þess landsvæðis sem kröfulína hans afmarkar. Jafnframt er þar afmörkuð landræma umhverfis rennslispípu sem liggur niður frá inntaksmannvirkjunum og sker kröfulínu sóknaraðila um ætluð landamerki Baulárvalla gagnvart jörðinni Dal. Sóknaraðili hefur ekki afmarkað þessa landræmu í málatilbúnaði sínum og ekki beint kröfum að ætluðum eigendum hennar sérstaklega en úr því getur hann ekki bætt. Reynist umrædd landræma í eigu annarra en varnaraðila verður efnisdómur ekki lagður á dómkröfur sóknaraðila gagnvart eigendum jarðarinnar Dals nema sóknaraðili lagi kröfugerð sína og afmarki með hnitpunktum þann hluta kröfulínunnar sem þverar umrædda landræmu umhverfis rennslispípu virkjunarinnar.

27. Að öllu framangreindu gættu bar Landsrétti samkvæmt 3. mgr. 101. gr., sbr. 166. gr. laga nr. 91/1991, að beina því til sóknaraðila að bæta úr framangreindum ágöllum á kröfugerðinni í stað þess að vísa málinu frá héraðsdómi. Í því sambandi er þess sérstaklega að geta að ekki verður séð að upphaflegur málatilbúnaður sóknaraðila hafi komið niður á vörnum varnaraðila.

28. Með vísan til alls framangreinds verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir Landsrétt að taka málið til efnismeðferðar.

29. Það athugast að sem fyrr greinir gerðu varnaraðilar og eigendur Horns og Selvalla aðeins kröfur um sýknu af kröfum sóknaraðila en ekki kröfur um önnur landamerki milli Baulárvalla og jarða sinna. Með héraðsdómi voru eigendur Horns og Selvalla sýknaðir af kröfum sóknaraðila eins og fram kemur í dómsorði. Í dómsorði var hins vegar jafnframt að finna niðurstöður um þann hluta kröfulínunnar sem laut að merkjum milli Baulárvalla annars vegar og Horns og Selvalla hins vegar og meðal annars sagt að hún væri í samræmi við landamerkjaskrá Horns og Selvalla. Í ljósi þess að eigendur Horns og Selvalla kröfðust aðeins sýknu og héraðsdómari hafði fallist á þá kröfu var honum ekki fært að ákveða merkin með þessum hætti enda með því farið út fyrir kröfur þessara aðila. Þar sem úrlausn héraðsdóms um umrædd sakarefni voru ekki til endurskoðunar fyrir Landsrétti og þar af leiðandi ekki fyrir Hæstarétti getur umræddur annmarki á samningu héraðsdóms ekki haft áhrif við úrlausn þeirra sakarefna sem enn eru til meðferðar.

30. Það athugast jafnframt að þótt Landsréttur hafi sem fyrr greinir komist að þeirri niðurstöðu að gagnáfrýjun héraðsdóms gagnvart eigendum Horns og Selvalla gæti ekki komið til umfjöllunar fyrir réttinum var það niðurstaða hans í úrskurðarorði að vísa málinu frá héraðsdómi. Úrskurðarorðið verður ekki skilið á annan veg en þann að málinu hafi í heild verið vísað frá héraðsdómi. Í úrskurði Landsréttar kom hins vegar fram að leggja bæri til grundvallar að sóknaraðili hefði lagt fyrir héraðsdóm átta sjálfstæð sakarefni um landamerki Baulárvalla. Af þeirri niðurstöðu Landsréttar að tvö af þessum átta sakarefnum gætu ekki komið til umfjöllunar fyrir réttinum verður sú ályktun dregin að héraðsdómur sé að því leyti endanlegur, þar á meðal um dæmdan málskostnað. Í því ljósi er úrskurðarorð Landsréttar um frávísun málsins frá héraðsdómi til þess fallið að skapa óvissu um lyktir umræddra tveggja sakarefna svo og um lyktir málsins gagnvart eigendum Syðra-Lágafells 1.

31. Loks athugast að í stefnu til héraðsdóms er sóknaraðili ýmist nefndur Stykkishólmskirkja eða sóknarnefnd Stykkishólmskirkju. Af þessu misræmi í stefnu virðist hafa leitt að í heiti málsins í þingbók í héraði er sóknaraðili sagður sóknarnefnd Stykkishólmskirkju en í héraðsdómi Stykkishólmskirkja. Í úrskurði Landsréttar er sóknaraðili tilgreindur sem sóknarnefnd Stykkishólmskirkju. Fyrir liggur að þinglýstur eigandi Baulárvalla er lögaðilinn Stykkishólmskirkja sem er rétt heiti á sóknaraðila. Framangreint misræmi hefur hins vegar ekki komið niður á vörnum varnaraðila eða haft áhrif á meðferð málsins fyrir dómi.

32. Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er úr gildi felldur og lagt fyrir Landsrétt að taka málið til efnismeðferðar.

Kærumálskostnaður fellur niður.