Hæstiréttur íslands
Mál nr. 9/2024
Lykilorð
- Sjúklingatrygging
- Miskabætur
- Skaðabætur
- Lögskýring
Reifun
Dómur Hæstaréttar
1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Karl Axelsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Skúli Magnússon.
2. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 2. febrúar 2024. Hann krefst sýknu af kröfum stefndu og að málskostnaður verði felldur niður á öllum dómstigum.
3. Stefnda krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti úr hendi áfrýjanda, án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt.
Ágreiningsefni
4. Í málinu deila aðilar um hvort lög nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu heimili áfrýjanda að greiða stefndu miskabætur á grundvelli a-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Að því frágengnu er ágreiningur um hvort aðgerðarlæknir á Landspítala hafi sýnt af sér stórfellt gáleysi við framkvæmd kviðarholsspeglunar á stefndu 19. nóvember 2015 en í aðgerðinni voru báðir eggjastokkar hennar fjarlægðir.
5. Með héraðsdómi 25. nóvember 2021 var áfrýjandi sýknaður þar sem háttsemi læknisins við aðgerðina hefði ekki falið í sér stórfellt gáleysi. Með hinum áfrýjaða dómi Landsréttar 1. desember 2023 var hins vegar fallist á kröfu stefndu um greiðslu miskabóta samkvæmt a-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga, á grundvelli 1. mgr. 1. gr., sbr. 5. gr. laga nr. 111/2000.
6. Áfrýjunarleyfi var veitt 1. febrúar 2024, með ákvörðun Hæstaréttar nr. 2023-160, á þeim grunni að dómur í málinu gæti haft fordæmisgildi um greiðsluskyldu eftir lögum nr. 111/2000.
Helstu málsatvik
7. Þegar atvik máls þessa urðu var stefnda […] ára gömul og átti sér langa sögu um sjúkdóminn endómetríósu. Hún hafði undirgengist um 12 kviðarholsspeglanir vegna hans og kviðverkja, sex glasafrjóvganir og fengið sýkingu í grindarhol eftir eggheimtu.
8. Kvensjúkdómalæknir sem hafði sinnt stefndu um langa hríð vísaði henni til aðgerðar á kvennadeild Landspítalans 8. apríl 2015. Í innlagnarbeiðni var aðgerðin tilgreind sem „Isc hæ salp /oophorectomy“ eða fjarlæging á hægri eggjastokk. Kom fram að hún væri „fyrir frekari GF meðferð“. Í komuyfirliti sama læknis 16. september 2015 sagði að stefnda hefði farið á Landspítala vegna verkja. Einnig að læknirinn hefði rætt um „að best væri að gera Isc og hreinsa hæ eggjastokk af Endometriosis“ og hugsanlega fjarlægja hægri eggjastokk og best væri að það yrði gert á Landspítala.
9. Í göngudeildarnótu Landspítala 5. október 2015 sem rituð var af aðgerðarlækni kom fram að stefnda gerði ráð fyrir að reyna glasafrjóvgun eftir fyrirhugaða aðgerð. Undir liðnum „áform“ sagði að stefnda væri sammála mati aðgerðarlæknisins sem og læknis síns um að fjarlægja hægri eggjastokk og eggjaleiðara. Aðgerðarlæknirinn hefði útskýrt fyrir stefndu að hún væri í talsverðri hættu á að vera með samvexti og mögulega hlytist líffæraskaði af. Jafnvel væri möguleiki á opinni aðgerð en hún væri tilbúin í þetta og hefði skrifað undir samþykki þar að lútandi. Í upplýstu samþykki sjúklings um aðgerð sem stefnda undirritaði 5. október 2015 er handritaður texti frá aðgerðarlækninum. Þar segir: „Kviðarholsspeglun v. endometriosis, -fjarlægja hæ eggjastokk + - leiðara, fjarlægja Blöðru úr vinstri e.stokk, + samvaxtalosun osfrv.“ Fyrir neðan er prentaður svofelldur texti: „Með undirskrift minni staðfesti ég að mér hafa verið veittar upplýsingar um ofangreinda aðgerð, tilgang hennar, áhættur og hugsanlega fylgikvilla. [...] Geri ég mér jafnframt ljóst að ófyrirséð vandamál geta komið upp á meðan aðgerð stendur og samþykki að á þeim verði tekið eftir þörfum svo fremi sem slíkt verði gert á vel rökstuddan hátt og gagnreyndan. [...]“
10. Stefnda gekkst sem fyrr segir undir kviðarholsspeglun á Landspítala 19. nóvember 2015. Í aðgerðarlýsingu sem mun hafa verið staðfest 4. febrúar 2016 kom meðal annars fram að aðgerðarlæknirinn hefði kosið að skilja vinstri eggjastokkinn eftir. Við nánari skoðun hefði læknirinn talið mikla hættu á því í ljósi sögu stefndu að gera þyrfti aðra aðgerð sem gæti reynst erfið og ákvað því að fjarlægja báða eggjastokka stefndu.
11. Stefnda sótti um bætur til áfrýjanda 20. desember 2016 á grundvelli laga nr. 111/2000. Sama dag sendi hún kvörtun til landlæknis með vísan til 2. mgr. 12. gr. laga nr. 41/2007 um landlækni og lýðheilsu. Í áliti landlæknis 29. maí 2018 var ekki fallist á að aðgerðarlækni hefðu orðið á mistök eða hún sýnt af sér vanrækslu við undirbúning og framkvæmd aðgerðarinnar. Með ákvörðun áfrýjanda 28. janúar 2019 var síðan komist að þeirri niðurstöðu að ekki lægi fyrir bótaskylt tjón sem að öllum líkindum mætti rekja til þátta sem féllu undir gildissvið sjúklingatryggingar samkvæmt 2. gr. laga nr. 111/2000. Stefnda kærði þá niðurstöðu til úrskurðarnefndar velferðarmála 12. apríl 2019. Með úrskurði nefndarinnar 11. september 2019 var synjun áfrýjanda staðfest.
12. Mál þetta var upphaflega höfðað 30. október 2019 til ógildingar úrskurðar úrskurðarnefndar velferðarmála og viðurkenningar á bótaskyldu áfrýjanda úr sjúklingatryggingu samkvæmt lögum nr. 111/2000 vegna ófullnægjandi læknismeðferðar sem stefnda hefði gengist undir 19. nóvember 2015. Undir rekstri málsins aflaði stefnda matsgerðar tveggja dómkvaddra manna. Í matsgerð þeirra 2. mars 2021 var meðal annars komist að þeirri niðurstöðu að upplýsingagjöf aðgerðarlæknis til stefndu í aðdraganda aðgerðarinnar hefði ekki verið í samræmi við góða læknishætti. Aðgerðarlýsing læknis hefði verið vel unnin og lýst ástandi kviðarhols vel en hins vegar hefði skort skriflegt leyfi eða skráð munnlegt leyfi stefndu til að fjarlægja vinstri eggjastokk. Þá hefði í fyrir fram ákveðinni áætlun um framkvæmd kviðarholsspeglunarinnar ekki verið ráðgert brottnám beggja eggjastokka. Áætluninni hefði því ekki verið fylgt við aðgerðina. Það hefði því ekki verið bráðnauðsynleg aðgerð í skilningi 9. gr. laga nr. 74/1997 um réttindi sjúklinga að fjarlægja vinstri eggjastokk stefndu þótt að áliti matsmanna yrði að halda því til haga að aðgerðalýsing læknisins gæfi til kynna að endurtekin kviðarholsaðgerð hefði getað reynst mjög erfið með hættu á því að líffæri yrðu fyrir skaða. Varanlegur miski stefndu samkvæmt 1. mgr. 4. gr. skaðabótalaga var metinn 25 stig og varanleg örorka hennar samkvæmt 5. til 7. gr. laganna 5%.
13. Með dómsátt 6. maí 2021 viðurkenndi áfrýjandi greiðsluskyldu vegna tjóns stefndu með vísan til fyrrgreindrar matsgerðar. Jafnframt samþykkti áfrýjandi að greiða stefndu sjúkrakostnað, bætur vegna varanlegs miska samkvæmt 4. gr. skaðabótalaga og varanlegrar örorku samkvæmt 5. til 7. gr. laganna, allt með tilgreindum vöxtum. Aðilar náðu hins vegar ekki samkomulagi um greiðslu miskabóta eftir 26. gr. skaðabótalaga. Í samræmi við sátt aðila höfðaði stefnda framhaldssök vegna þeirrar kröfu, sbr. 29. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sem þingfest var sama dag.
Málsástæður
Helstu málsástæður áfrýjanda
14. Áfrýjandi byggir á því að heimild til greiðslu skaðabóta eftir lögum nr. 111/2000 nái ekki til greiðslu miskabóta samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga. Með fyrrnefndu lögunum hafi verið komið á sérstöku kerfi trygginga fyrir sjúklinga sem njóti heilbrigðisþjónustu hér á landi. Hafi tilgangurinn verið að auka bótarétt sjúklinga vegna áfalla í tengslum við læknismeðferð, tryggja víðtækari rétt til bóta en samkvæmt skaðabótareglum og auðvelda tjónþolum að sækja þann rétt. Þetta megi ráða af 2. gr. laganna þar sem segi að bætur skuli greiða án tillits til þess hvort einhver beri skaðabótaábyrgð samkvæmt reglum skaðabótaréttarins. Skilyrði bóta sé að tjónið megi að öllum líkindum rekja til þeirra atvika sem koma fram í 1. til 4. tölulið 2. gr. laganna. Í lögunum sé þannig mælt fyrir um hlutlæga bótareglu án sakar heilbrigðisstarfsfólks og slakað á kröfum um sönnun orsakatengsla.
15. Áfrýjandi vísar til þess að við móttöku umsóknar um bætur sé það hlutverk stofnunarinnar samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laga nr. 111/2000 að afla nauðsynlegra gagna. Áfrýjandi hafi víðtækar heimildir við þá gagnaöflun. Að henni lokinni sé afstaða tekin til bótaskyldu og fjárhæð bóta ákveðin, sbr. 2. mgr. 15. gr. laganna. Telji áfrýjandi bótaskyldu vera fyrir hendi kveði 1. mgr. 5. gr. laganna á um að ákvörðun bótafjárhæðar fari eftir skaðabótalögum.
16. Áfrýjandi byggir á því að bætur eftir 26. gr. skaðabótalaga séu undanskildar gildissviði laga nr. 111/2000. Því sé röng sú niðurstaða hins áfrýjaða dóms að byggja lögskýringu á því að miskabætur samkvæmt lagagreininni séu ekki undanskildar gildissviði 5. gr. laga nr. 111/2000. Slík lögskýring falli ekki að því markmiði laganna að bótaskylda stofnist án tillits til þess hvort einhver beri skaðabótaábyrgð samkvæmt reglum skaðabótaréttarins, sbr. 2. gr. laganna. Í 15. gr. laga nr. 111/2000 felist auk þess ekki heimild til handa áfrýjanda að ákveða hvort tjón hafi orðið með saknæmum hætti og hvað þá af ásetningi eða stórfelldu gáleysi sem sé skilyrði bóta samkvæmt a-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga. Þá verði ekki séð að slíka heimild sé að finna í öðrum lögum sem gildi um áfrýjanda, svo sem í 5. gr. laga nr. 112/2008 um sjúkratryggingar. Samkvæmt lögmætisreglu stjórnsýsluréttar verði allar ákvarðanir stjórnvalda að eiga stoð í lögum og reglugerðum. Þar sem ekki sé kveðið skýrlega á um heimild áfrýjanda til að meta saknæmi heilbrigðisstarfsmanna við ákvörðun bótaskyldu sé hún ekki fyrir hendi.
17. Þá vísar áfrýjandi til þess að í 5. gr. laga nr. 111/2000 segi að um ákvörðun bótafjárhæðar fari samkvæmt skaðabótalögum. Það sé því aðeins ákvörðun fjárhæðarinnar sem fari eftir ákvæðum skaðabótalaga en ekki mat á bótaskyldu, saknæmi, ólögmæti eða orsakatengslum.
18. Án tillits til framangreinds telur áfrýjandi að skilyrði a-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga séu ekki fyrir hendi. Þótt brottnám vinstri eggjastokks stefndu hafi ekki verið bráðnauðsynlegt í skilningi 9. gr. laga nr. 74/1997 hafi læknirinn tekið ákvörðun þar að lútandi með hagsmuni stefndu í huga. Í því felist ekki stórfellt gáleysi í skilningi a-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga. Óumdeilt sé að ekki hafi legið fyrir ótvírætt skriflegt samþykki stefndu um beina heimild aðgerðarlæknis til þess að nema vinstri eggjastokkinn á brott en læknirinn hafi talið sig hafa samþykki fyrir því að taka þá ákvörðun í aðgerðinni og hún verið læknisfræðilega rétt. Við það sakarmat verði að horfa heildstætt á málið og hlutrænt á háttsemi læknisins miðað við aðstæður í umrætt sinn. Þegar litið sé til þessarar huglægu afstöðu hennar með hliðsjón af heildstæðu mati á þeim gögnum sem liggi fyrir telur áfrýjandi að tjón stefndu hafi ekki verið valdið af stórfelldu gáleysi í skilningi a-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga.
Helstu málsástæður stefndu
19. Stefnda byggir á því að aðgerðarlæknirinn hafi sýnt af sér stórfellt gáleysi við framkvæmd aðgerðarinnar. Vísast þar um til matsgerðar sem ekki hafi verið hnekkt. Markmið og tilgangur aðgerðarinnar hafi verið að auka líkur á barneignum stefndu og hafi lækninum mátt vera það ljóst. Þá hafi verið óheimilt að víkja frá fyrir fram ákveðinni aðgerðaráætlun, sbr. 3. mgr. 7. gr. laga nr. 74/1997 og 1. mgr. sömu greinar, enda hafi meðferðin ekki verið bráðnauðsynleg, sbr. 9. gr. sömu laga.
20. Stefnda hafi átt ákvörðunarvald um hvort vinstri eggjastokkur sinn yrði fjarlægður og er um það vísað til friðhelgi einkalífs hennar sem varið sé af stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Engin skynsamleg rök hafi mælt með því að læknirinn veldi óafturkræfan og mest íþyngjandi valkost sem völ var á. Henni hafi borið að láta staðar numið, ræða við stefndu, veita henni ráðgjöf og eftirláta henni að ákveða um framhaldið. Afleiðingar aðgerðarinnar fyrir heilsu og starfsgetu stefndu séu miklar og kunni að fela í sér styttri lífslíkur.
21. Þá tekur stefnda fram að skoða verði málatilbúnað áfrýjanda í heild með hliðsjón af þeirri staðreynd að aðgerðarlýsing hafi ekki verið rituð samdægurs, öfugt við það sem fullyrt sé af áfrýjanda. Við blasi að hún hafi verið rituð daginn eftir aðgerð og þá með hliðsjón af umkvörtunum stefndu í kjölfar þess áfalls sem hún varð fyrir þegar henni varð ljóst að báðir eggjastokkar hennar hefðu verið fjarlægðir.
22. Stefnda byggir á því að lög nr. 111/2000 geri beinlínis ráð fyrir því að greiddar séu bætur samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga. Séu skilyrði greinarinnar uppfyllt í máli þessu. Fram komi með afdráttarlausum hætti í 1. mgr. 5. gr. laganna að sé tjónsatburður bótaskyldur samkvæmt lögum nr. 111/2000 skuli bæta tjón í samræmi við ákvæði skaðabótalaga. Vísað sé til laganna í heild sinni en ekki afmarkaðs hluta þeirra. Almenna reglan sé sú að tjónþoli eigi að uppfylltum skilyrðum rétt til miskabóta. Koma þyrfti fram með skýrum hætti í lögum nr. 111/2000 ætti áfrýjandi að vera undanþeginn greiðslu miskabóta samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga.
23. Stefndi andmælir því að lög nr. 111/2000 einskorðist við hlutlæga ábyrgð. Hvergi sé vísað til hlutlægrar ábyrgðar í athugasemdum með frumvarpi því sem síðar varð að lögunum. Raunin sé sú að þeim sé ætlað að slaka á almennum sönnunarkröfum til tjónþola. Í öðrum greinum laganna sé fjallað um stórfellt gáleysi, til að mynda um tjónþola í 6. gr. laganna.
24. Stefnda fellst ekki á þá nálgun áfrýjanda að þar sem 1. til 4. töluliður 2. gr. laga nr. 111/2000 mæli fyrir um hlutlæga reglu um bótarétt sé áfrýjanda óheimilt að meta gáleysi heilbrigðisstarfsmanna. Lögin geri beinlínis ráð fyrir því að slíkt mat fari fram, sbr. til að mynda 1. tölulið 2. gr. laganna. Áfrýjandi hafi það hlutverk að leggja mat á ásetning eða gáleysi heilbrigðisstarfsmanna og engin rök standi til þess að útiloka nánar tiltekna bótaliði, einkum í ljósi þess tilgangs laganna að tryggja tjónþola víðtækari rétt til bóta en samkvæmt almennum skaðabótareglum. Loks sé sérstaks lagaákvæðis ekki þörf til handa áfrýjanda til að meta saknæmi heilbrigðisstarfsmanna heldur sé heimild og skylda hans til þess beinlínis byggð inn í lög nr. 111/2000.
Löggjöf
25. Í lögum nr. 74/1997 um réttindi sjúklinga segir í 1. gr. að markmið þeirra sé að tryggja sjúklingum tiltekin réttindi í samræmi við almenn mannréttindi og mannhelgi og styrkja þannig réttarstöðu þeirra gagnvart heilbrigðisþjónustunni og styðja trúnaðarsambandið sem ríkja ber milli sjúklinga og heilbrigðisstarfsmanna. Í 1 mgr. 7. gr. laganna segir að virða skuli rétt sjúklings til að ákveða sjálfur hvort hann þiggi meðferð og í 3. mgr. greinarinnar að enga meðferð megi framkvæma án samþykkis sjúklings, sbr. 1. og 2. mgr. 7. gr. laganna, sbr. þó 9. gr. Samþykki sjúklings skuli eftir því sem kostur er vera skriflegt þar sem fram komi hvaða upplýsingar voru gefnar honum og að hann hafi skilið þær. Í b-lið 1. mgr. 5. gr. laganna segir enn fremur að sjúklingur eigi rétt á upplýsingum um fyrirhugaða meðferð ásamt upplýsingum um framgang hennar, áhættu og gagnsemi og samkvæmt c-lið sömu greinar um önnur hugsanleg úrræði en fyrirhugaða meðferð sem og afleiðingar þess að ekkert verði aðhafst. Þá kemur fram í 9. gr. laganna að sé sjúklingur meðvitundarlaus eða ástand hans að öðru leyti þannig að hann sé ófær um að gefa til kynna vilja sinn varðandi meðferð sem telst bráðnauðsynleg skuli taka samþykki hans sem gefið nema fyrir liggi örugg vitneskja um að hann hefði hafnað meðferðinni.
26. Í 1. gr. laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu segir meðal annars að rétt til bóta eigi þeir sjúklingar sem verði fyrir líkamlegu eða geðrænu tjóni hér á landi í tengslum við rannsókn eða sjúkdómsmeðferð á sjúkrahúsi. Í 2. gr. laganna segir meðal annars:
Bætur skal greiða án tillits til þess hvort einhver ber skaðabótaábyrgð samkvæmt reglum skaðabótaréttarins, enda megi að öllum líkindum rekja tjónið til einhvers eftirtalinna atvika:
1. Ætla má að komast hefði mátt hjá tjóni ef rannsókn eða meðferð við þær aðstæður sem um ræðir hefði verið hagað eins vel og unnt hefði verið og í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði. [...]
27. Í 5. gr. laganna segir meðal annars í 1. og 2. mgr.:
Um ákvörðun bótafjárhæðar samkvæmt lögum þessum fer eftir skaðabótalögum, sbr. þó 2. mgr. 10. gr.
Bætur skv. 1. mgr. greiðast ef virt tjón nemur 50 þús. kr. eða hærri fjárhæð. Hámark bótafjárhæðar fyrir einstakt tjónsatvik skal þó vera 5.000.000 kr. Fjárhæðir þessar breytast miðað við 1. janúar ár hvert í samræmi við vísitölu neysluverðs. [...]
28. Í almennum athugasemdum með frumvarpi sem varð að lögum nr. 111/2000 segir um helstu rök fyrir sjúklingatryggingu:
Með lagafrumvarpi þessu er stefnt að því að færa íslenskar reglur um sjúklingatryggingu nær öðrum norrænum reglum um sjúklingatryggingu og auka þannig bótarétt sjúklinga sem bíða heilsutjón vegna áfalla í tengslum við læknismeðferð o.fl. Tilgangur fyrirhugaðra breytinga er að tryggja tjónþola víðtækari rétt á bótum en hann á samkvæmt almennum skaðabótareglum og jafnframt að gera honum auðveldara að ná rétti sínum. [ ... ] Æskilegt er að sem víðtækust vitneskja fáist um það sem betur má fara í heilbrigðiskerfinu. Slíkt er nauðsynlegt ef bæta á úr göllum þess. Skaðabótamál eru fallin til að skapa tortryggni og geta spillt eðlilegu og nauðsynlegu sambandi sjúklings og þess sem veitir þjónustu. Dómsmál henta illa til að auðvelda öflun almennra upplýsinga um það sem miður fer. Bótaréttur úr [sjúklingatryggingu] er hins vegar ekki háður því að unnt sé að sýna fram á persónulega ábyrgð læknis eða annars starfsmanns. Því er líklegt að starfsmenn muni vera fúsari til samvinnu um að afla upplýsinga.
29. Í athugasemdum við 5. gr. laganna segir meðal annars:
Hér er kveðið á um að um ákvörðun bótafjárhæðar skuli fara samkvæmt skaðabótalögum. Jafnframt er gert ráð fyrir að með reglugerð verði sett ákvæði um lágmark vátryggingarfjárhæðar innan hvers vátryggingarárs og framkvæmd vátryggingarskyldu, sbr. 2. mgr. 10. gr. [...] Með ákvæði 4. málsl. 2. mgr. er ráðherra heimilað að setja með reglugerð frekari takmörk (lágmarkstíma) á bætur fyrir tímabundna örorku (vinnutap) eða þjáningar. [ … ]. Reglan takmarkar á engan hátt rétt á bótum fyrir varanlega örorku, lýti, röskun á stöðu og högum, sjúkrakostnað, missi framfæranda eða útfararkostnað. Bæturnar greiðast ef tjón nær 50 þús. kr. þótt vinnutap sé undir lágmarkstíma sem kann að vera ákveðinn í reglugerð. Að baki heimildarákvæðinu í 4. málsl. 2. mgr. liggja sömu rök og ákvæði 1. málsl., þ.e. að einskorða sjúklingatryggingu við tjónstilvik sem hafa alvarlegar og varanlegar afleiðingar.
30. Í 2. mgr. 10. gr. laganna segir jafnframt að ráðherra setji reglugerð um lágmark vátryggingarfjárhæðar innan hvers vátryggingarárs og framkvæmd vátryggingarskyldu. Um það var sett reglugerð nr. 763/2000 um vátryggingu þeirra sem veita heilbrigðisþjónustu samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu.
31. Sett hafa verið ný lög um sjúklingatryggingu nr. 47/2024. Samkvæmt 17. gr. þeirra taka þau gildi 1. janúar 2025 og eiga við um tjónsatvik sem verða frá og með þeim tíma. Segir í 1. mgr. 5. gr. laganna að um ákvörðun bóta fari eftir I. kafla skaðabótalaga nr. 50/1993. Í greinargerð með frumvarpi til laganna segir meðal annars svo um 1. mgr. 5. gr.:
Með frumvarpinu er gerð sú breyting að skýrt er kveðið á um að ákvörðun bótafjárhæðar samkvæmt lögum um sjúklingatryggingu fari skv. I. kafla skaðabótalaga, nr. 50/1993, um bætur fyrir líkamstjón. Í gildandi lögum um sjúklingatryggingu segir að um ákvörðun bótafjárhæðar fari eftir skaðabótalögum, en kaflar laganna eru ekki tilteknir. Tilgangur breytingarinnar er að skýra lagagrundvöll gildandi framkvæmdar. Aðrir kaflar skaðabótalaga, sem sagt að undanskildum I. kafla, fjalla um sjónarmið sem að mati starfshópsins eiga ekki við þegar kemur að ákvörðun um bótafjárhæð fyrir tjón vegna sjúklingatryggingaratviks, enda fjalla þeir ekki um útreikning bóta.
32. Í 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 er heimild til greiðslu miskabóta, svohljóðandi:
Heimilt er að láta þann sem:
a. af ásetningi eða stórfelldu gáleysi veldur líkamstjóni eða
b. ábyrgð ber á ólögmætri meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu annars manns greiða miskabætur til þess sem misgert var við. [...]
Niðurstaða
33. Ágreiningur aðila lýtur sem fyrr segir að því hvort áfrýjanda beri samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu að greiða miskabætur eftir a-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga. Tilefni þess er ágreiningur um hvort aðgerðarlæknir á Landspítala hafi sýnt af sér stórfellt gáleysi við framkvæmd kviðarholsspeglunar á stefndu 19. nóvember 2015 þannig að skilyrðum ákvæðisins sé fullnægt. Verður eðli máls samkvæmt fyrst að leysa úr því hvort áfrýjandi hafi heimild til greiðslu miskabóta samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga á grundvelli laga nr. 111/2000.
34. Af hálfu áfrýjanda hefur verið byggt á því að skilja verði orðalag 1. mgr. 5. gr. laga nr. 111/2000, um að ákvörðun bótafjárhæðar samkvæmt lögunum fari eftir skaðabótalögum, á þann veg að þar sé eingöngu vísað til I. kafla skaðabótalaga sem hefur meðal annars að geyma almennar reglur um útreikning bóta vegna líkamstjóns. Af hálfu stefndu er því hins vegar haldið fram að samkvæmt orðalagi ákvæðisins sé vísað til reglna skaðabótalaga í heild sinni, þar með talinnar 26. gr. laganna sem er að finna í III. kafla þeirra. Ekki var sérstaklega vikið að því í athugasemdum við frumvarp til laga nr. 111/2000 hvort 1. mgr. 5. gr. laganna fæli í sér heimild til greiðslu bóta eftir 26. gr. skaðabótalaga.
35. Almennt er það skilyrði fyrir greiðslu skaðabóta að sá sem verður fyrir líkamstjóni þurfi að sækja þann rétt á hendur ætluðum tjónvaldi. Til þess að fallist verði á greiðslu bóta þarf bótagrundvöllur að vera til staðar að lögum auk þess sem tjónþoli þarf að sýna fram á tjón sitt, eftir atvikum með öflun sérfræðigagna. Einnig þarf hann að rökstyðja önnur skilyrði skaðabótaábyrgðar, svo sem orsakatengsl og sennilega afleiðingu. Þá verður miski tjónþola ekki bættur nema til þess sé sérstök heimild í lögum. Í a-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga felst þannig heimild til að greiða tjónþola miskabætur umfram bætur fyrir varanlegan miska samkvæmt 4. gr. laganna verði hann fyrir líkamstjóni sem valdið er af ásetningi eða stórfelldu gáleysi. Eru að þessu leyti gerðar strangari kröfur til saknæmis við mat á miska samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga en leiðir af almennum reglum skaðabótaréttar þar sem gáleysi er lægsta stig saknæmis.
36. Almennar reglur skaðabótaréttar giltu um sjúklinga og aðra sem nýttu sér heilbrigðisþjónustu og urðu fyrir tjóni í tengslum við rannsókn eða sjúkdómsmeðferð allt fram til setningar laga nr. 111/2000. Eitt meginmarkmið laganna var að tryggja þeim tjónþolum sem lögin taka til víðtækari rétt til bóta en leiddi af almennum reglum skaðabótaréttar. Einnig var það sérstakt markmið þeirra að auðvelda þessum tjónþolum að ná rétti sínum.
37. Fyrrgreindu markmiði var meðal annars mætt með reglu 1. og 2. gr. laga nr. 111/2000. Leiðir af 2. gr. laganna að bótaskylda samkvæmt þeim er fyrir hendi án tillits til þess hvort einhver ber ábyrgð samkvæmt reglum skaðabótaréttarins. Hins vegar þurfa atvik sem leiða til tjóns að tengjast rannsókn eða sjúkdómsmeðferð, sbr. 1. mgr. 1. gr. laganna. Þá þarf tjónið að öllum líkindum að verða rakið til einhverra þeirra atvika sem talin eru upp í fjórum töluliðum í 2. gr. þeirra. Því er ekki um það að ræða að metin sé sök heilbrigðisstarfsmanns þegar tekin er afstaða til þess hvort skilyrði til greiðslu bóta teljist vera fyrir hendi. Þá er við mat á því hvort nauðsynlegt orsakasamband sé milli tjóns og rannsóknar eða meðferðar sjúklings nægilegt að sýna fram á að tjón hafi að „öllum líkindum“ hlotist af rannsókn eða meðferð. Í 15. gr. laganna er einnig fjallað um hlutverk áfrýjanda við að upplýsa um tiltekið atvik, kalla eftir gögnum um það og að því loknu taka afstöðu til bótaskyldu svo og ákveða fjárhæð bóta. Þessu hagræði fylgja á hinn bóginn takmarkanir á fjárhæð bóta. Þannig er mælt fyrir um nánar tiltekið hámark og lágmark bóta, sbr. 2. mgr. 5. gr. og 2. mgr. 10. gr. laganna og reglugerð nr. 763/2000.
38. Jafnframt er þess að gæta að lögum nr. 111/2000 var ekki ætlað að koma í stað almennra reglna skaðabótaréttar. Lögin girða þannig ekki fyrir að tjónþoli geti krafist bóta á grundvelli almennra skaðabótareglna, sbr. dóm Hæstaréttar 6. apríl 2017 í máli nr. 525/2016. Því getur tjónþoli sem ekki fær allt tjón sitt bætt vegna fyrrgreindra takmarkana freistað þess að sækja hið óbætta tjón í bótamáli á grundvelli almennra reglna skaðabótaréttar, sbr. 7. gr. laga nr. 111/2000 og til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 25. október 2012 í máli nr. 6/2012. Einnig getur tjónþoli kosið að beina kröfu sinni aðeins að tjónvaldi en ekki áfrýjanda á grundvelli laga nr. 111/2000. Eins og fram kemur í dómi Hæstaréttar 10. desember 2014 í máli nr. 747/2014 nýtur tjónþoli þá ekki þess hagræðis sem hann ella nyti hefði hann rekið mál sitt á grundvelli laga nr. 111/2000.
39. Við skýringu 1. mgr. 5. gr. laga nr. 111/2000 verður að hafa í huga þá forsögu og tilgang laganna sem hér hefur verið rakinn. Þeim var sem fyrr segir ætlað að bæta rétt sjúklinga og annarra sem nýta sér heilbrigðisþjónustu með því meðal annars að gera ekki kröfu um sök að skilyrði greiðslu bóta. Jafnframt var þess gætt að réttur tjónþola til að sækja kröfu um greiðslu frekari bóta eftir almennum reglum væri að engu leyti takmarkaður. Auk þess er samkvæmt orðum 1. mgr. 5. gr. eingöngu vísað til þess að ákvörðun um fjárhæð tjóns fari eftir reglum skaðabótalaga en ekki að bótaréttur ákvarðist eftir reglum þeirra laga eða eftir atvikum skaðabótaréttar.
40. Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið verður 1. mgr. 5. gr. laga nr. 111/2000 ekki skýrð svo rúmt að í henni felist tilvísun til þess sérstaka bótagrundvallar sem um getur í 26. gr. skaðabótalaga. Í ljósi forsögu laganna og orðalags 1. mgr. 5. gr. verður málsgreinin þvert á móti skilin þannig að í henni felist fyrirmæli um ákvörðun fjárhæðar bóta sem tjónþolum eru tryggðar án tillits til sakar samkvæmt nánari fyrirmælum laga nr. 111/2000. Til þess er jafnframt að líta að sá bótagrundvöllur sem mælt er fyrir um í 26. gr. skaðabótalaga er sérstaks eðlis og frábrugðinn þeim efnislegu skilyrðum bótaábyrgðar sem mælt er fyrir um í lögum nr. 111/2000. Því falla bætur sem ákvarðaðar eru á grundvelli mats á ásetningi eða stórfelldu gáleysi samkvæmt 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga ekki undir að vera ákvörðun bótafjárhæðar í skilningi 1. mgr. 5. gr. laga nr. 111/2000.
41. Að öllu framangreindu gættu verður bótagrundvöllur 26. gr. skaðabótalaga undanskilinn því kerfi sem komið var á fót með setningu laga nr. 111/2000, sbr. til hliðsjónar lög nr. 47/2024 um sjúklingatryggingu. Áfrýjandi verður því sýknaður af greiðslukröfu stefnda.
42. Rétt þykir að málskostnaður falli niður á öllum dómstigum.
43. Ákvæði hins áfrýjaða dóms um gjafsóknarkostnað í héraði og fyrir Landsrétti eru staðfest.
44. Um gjafsóknarkostnað stefndu fyrir Hæstarétti fer eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Áfrýjandi, Sjúkratryggingar Íslands, er sýkn af kröfu stefndu, A.
Málskostnaður fellur niður á öllum dómstigum.
Ákvæði hins áfrýjaða dóms um gjafsóknarkostnað í héraði og fyrir Landsrétti eru staðfest.
Gjafsóknarkostnaður stefndu fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 1.000.000 króna.