Hæstiréttur íslands
Nr. 2024-122
Lykilorð
- Kæruleyfi
- Kærumál
- Vitni
- Skýrslugjöf
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Skúli Magnússon.
2. Með beiðni 2. október 2024 leitar Kvika banki hf. leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 3. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991, til að kæra úrskurð Landsréttar 18. september sama ár í máli nr. 491/2024: íslenska ríkið gegn Kviku banka hf. Gagnaðili leggst ekki gegn beiðninni.
3. Ágreiningur málsins varðar kröfu leyfisbeiðanda um að A ríkisskattstjóra og tveimur starfsmönnum Skattsins verði gert að gefa vitnaskýrslu við aðalmeðferð í héraði í máli sem leyfisbeiðandi hefur höfðað á hendur íslenska ríkinu. Kröfur leyfisbeiðanda í héraði snúa að því að felldur verði úr gildi úrskurður yfirskattanefndar 9. nóvember 2022 þar sem kröfu um ógildingu úrskurðar ríkisskattstjóra 30. nóvember 2021 var hafnað. Leyfisbeiðandi byggir dómkröfu sína meðal annars á því að starfsmenn Skattsins hafi verið vanhæfir til að undirbúa og taka þá stjórnvaldsákvörðun sem fólst í úrskurði ríkisskattstjóra vegna þágildandi fyrirkomulags um viðbótarlaunagreiðslur hjá Skattinum.
4. Með héraðsdómi var ríkisskattstjóra og tveimur starfsmönnum Skattsins gert skylt að gefa vitnaskýrslu við aðalmeðferð fyrrnefnds máls en með úrskurði Landsréttar var þeirri kröfu hafnað með vísan til 3. mgr. 46. gr. og 5. mgr. 52. gr. laga nr. 91/1991. Landsréttur taldi að þau atvik sem leyfisbeiðandi vildi leita vættis um hefðu verið nægilega leidd í ljós með framlögðum gögnum. Rétturinn skírskotaði þar sérstaklega til afdráttarlausrar yfirlýsingar ríkisskattstjóra og sviðsstjóra eftirlits- og rannsóknarsviðs Skattsins 12. mars 2024 um að engin tengsl væru á milli greiðslu viðbótarlauna og úrlausna einstakra mála. Landsréttur taldi yfirlýsinguna samræmast öðrum framlögðum gögnum um viðbótarlaun. Umræddum starfsmönnum Skattsins væri því óskylt að koma fyrir dóm til skýrslugjafar.
5. Leyfisbeiðandi byggir í fyrsta lagi á því að úrskurður Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til. Hann telur bersýnilegt að atvik verði ekki nægilega leidd í ljós með fyrirliggjandi opinberum skjölum. Þá standist beiting Landsréttar á 5. mgr. 52. gr. laga nr. 91/1991 ekki en hún feli í sér að gagnaðili geti sett skriflegan málatilbúnað í búning opinbers skjals. Leyfisbeiðandi telur úrskurð Landsréttar fela í sér að ríkisskattstjóra sé í raun játað sjálfdæmi um sérstakt hæfi starfsmanna sinna. Þar að auki telur hann úrskurð Landsréttar víkja frá fordæmum Hæstaréttar og Landsréttar um undantekningar frá meginreglunni um forræði málsaðila á sönnunarfærslu á grundvelli 5. mgr. 52. gr. laga nr. 91/1991. Málið varði mikilvæga almannahagsmuni og sé fyrsta dómsmálið þar sem reyni á viðbótarlaunakerfi Skattsins með tilliti til hæfisskilyrða 104. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Þá byggir leyfisbeiðandi á því að kæruefnið hafi fordæmisgildi um túlkun 5. mgr. 52. gr. laga nr. 91/1991 og samspil ákvæðisins við 3. mgr. 46. gr. sömu laga. Brýnt sé að Hæstiréttur taki til skoðunar ákvæði 71. gr. laga nr. 91/1991 í ljósi beitingar greinarinnar fyrir Landsrétti. Að endingu byggir leyfisbeiðandi á því að kæruefnið hafi grundvallarþýðingu fyrir meðferð málsins þar sem hin umdeilda stjórnvaldsákvörðun sæti ekki fullri endurskoðun dómstóla án skýrslutöku af starfsmönnunum.
6. Að virtum gögnum málsins verður ekki talið að úrlausn um kæruefnið varði mikilsverða almannahagsmuni, geti haft fordæmisgildi eða grundvallarþýðingu fyrir meðferð málsins þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 3. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Eins og atvikum málsins er háttað og að virtum almennum reglum einkamálaréttarfars um sönnunarfærslu og sönnunarmat eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar sömu málsgreinar á grundvelli þess að úrskurður Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni. Beiðni um kæruleyfi er því hafnað.