Hæstiréttur íslands
Nr. 2024-126
Lykilorð
- Kæruleyfi
- Gjaldþrotaskipti
- Atvinnurekstrarbann
- Skiptastjóri
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Skúli Magnússon.
2. Með beiðni 14. október 2024 leitar A leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., til að kæra úrskurð Landsréttar 30. september 2024 í máli nr. 655/2024: A gegn B, skiptastjóra þrotabús C ehf. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Mál þetta lítur að kröfu gagnaðila um að leyfisbeiðandi sæti atvinnurekstrarbanni á grundvelli XXVI. kafla laga nr. 21/1991. Leyfisbeiðandi var stjórnarmaður og prókúruhafi C ehf. en gagnaðili skiptastjóri í þrotabúi þess.
4. Með úrskurði Landsréttar var staðfestur úrskurður héraðsdóms þar sem leyfisbeiðanda var gert að sæta atvinnurekstrarbanni í þrjú ár. Landsréttur féllst ekki á þá málsástæðu leyfisbeiðanda að skiptastjóra hefði ekki verið heimilt að krefjast atvinnurekstrarbanns eftir að skiptum á búi félagsins hafði verið lokið. Vísaði Landsréttur til þess að hlutverki skiptastjóra væri ekki lokið við skiptalok eins og ráðið yrði af 161. til 164. gr. laga nr. 21/1991 og hafnaði því kröfu um frávísun málsins. Landsréttur tók fram að þegar litið væri til þess sem ráða mætti af framlögðum gögnum um uppsafnaða skuld félagsins við ríkissjóð allt frá árinu 2019, framgöngu leyfisbeiðanda á rekstrartíma félagsins sem og í aðdraganda þess að það var tekið til gjaldþrotaskipta á árinu 2023 og skýringa hennar fyrir dómi væri fullnægt skilyrðum 181. gr. laga. nr. 21/1991 fyrir því að leggja á atvinnurekstrarbann.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að málið lúti að grundvallaratriðum við túlkun og beitingu nýrra réttarreglna samkvæmt lögum nr. 133/2022 sem breyttu lögum nr. 21/1991. Ekki hafi áður reynt á frávísunarkröfu á þeim grunni. Leyfisbeiðandi byggir frávísunarkröfu sína einkum á því að gagnaðila skorti heimild til þess að fara með málefni tengd búinu eða sinna starfsskyldum skiptastjóra eftir skiptalok. Þá kveði 180. gr. laganna skýrt á um að skiptastjóri skuli gera kröfu um atvinnurekstrarbann „við skipti“. Orðalag greinarinnar feli í sér að slíka kröfu verði að gera á meðan á skiptum standi en ekki eftir lok þeirra enda gegni skiptastjóri þá ekki lengur starfanum. Skera þurfi úr óvissu um innan hvaða tímamarka heimilt sé að hafa uppi kröfu um atvinnurekstrarbann og hafi málið fordæmisgildi að því leyti. Sóknaraðili byggir jafnframt á því að skilyrðum atvinnurekstrarbanns samkvæmt 181. gr. laganna sé ekki fullnægt.
6. Að virtum gögnum málsins verður ekki talið að úrlausn um kæruefnið varði mikilsverða almannahagsmuni eða geti haft fordæmisgildi þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar sömu málsgreinar á grundvelli þess að úrskurður Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni. Beiðni um kæruleyfi er því hafnað.