Hæstiréttur íslands

Nr. 2024-183

Lyfjablóm ehf. (Jón Þór Ólason lögmaður)
gegn
Þórði Má Jóhannessyni (Arnar Þór Stefánsson lögmaður) og Sólveigu Guðrúnu Pétursdóttur (Ragnar Halldór Hall lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Umboð
  • Einkahlutafélag
  • Fjártjón
  • Skaðabætur
  • Endurtekin ákvörðun
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen og Karl Axelsson.

2. Með beiðni 25. desember 2024 leitaði Lyfjablóm ehf. leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 28. nóvember sama ár í máli nr. 566/2022: Lyfjablóm ehf. gegn Þórði Má Jóhannessyni og Sólveigu Guðrúnu Pétursdóttur. Með ákvörðun réttarins 21. febrúar 2025 var þeirri beiðni hafnað. Við þá meðferð málsins urðu þau mistök að tiltekin fylgigögn með beiðninni bárust ekki þeim dómurum sem stóðu að ákvörðuninni. Af þeirri ástæðu óskaði leyfisbeiðandi eftir því með bréfi 11. mars 2025 að ákvörðunin yrði endurskoðuð. Á það er fallist og fara aðrir dómarar réttarins með málið nú en þeir sem stóðu að fyrri ákvörðun. Gagnaðilar leggjast gegn beiðni um áfrýjunarleyfi.

3. Leyfisbeiðandi höfðaði mál þetta á hendur gagnaðilum til heimtu skaðabóta vegna fjártjóns sem hann taldi sig hafa orðið fyrir annars vegar á árinu 2006 í viðskiptum með hlutafé í Þúfubjargi ehf. (síðar Gnúpi fjárfestingafélagi hf.) og hins vegar á árinu 2007 við hlutafjárhækkun í Gnúpi fjárfestingafélagi hf. Leyfisbeiðandi telur sig hafa verið beittan sviksamlegum blekkingum og margvíslegum aðgerðum verið beitt til þess að dylja þá háttsemi í lögskiptum aðila.

4. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að sýkna gagnaðila af kröfum leyfisbeiðanda.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að málið varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína, enda nemi dómkröfur í málinu 2,3 milljörðum króna. Þá telur hann að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi og málið sé fordæmisgefandi á sviði skatta- og hlutafélagaréttar, meðal annars um innborgað hlutafé og ólögmætar úttektir úr félagi, sem og lagareglur um meðferð eigna hlutafélaga. Um niðurstöðu Landsréttar bendir leyfisbeiðandi á að hún sé algjörlega órökstudd og stórlega ábótavant. Auk þess samræmist hún ekki almennum sönnunarreglum einkamálaréttarfars og ekki hafi verið lagt mat á margsaga vitnisburði í málinu. Þá hafnar leyfisbeiðandi þeirri niðurstöðu héraðsdóms að hann hafi ekki orðið fyrir tjóni og fullyrðingu um að ekki verði séð að hann hafi verið beittur blekkingum. Niðurstaðan byggi á misskilningi héraðsdóms um lykilskjöl í málinu og sé bersýnilega röng.

6. Að virtum gögnum málsins verður talið að hvorki sé fullnægt því skilyrði 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi ákvæðisins. Þá verður ekki talið að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Tekið skal fram að fyrrgreind fylgigögn sem ekki lágu fyrir við fyrri afgreiðslu málsins breyta engu um þessa niðurstöðu. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.