Hæstiréttur íslands
Nr. 2025-26
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Útlendingur
- Endurupptaka
- Leiðbeiningarregla
- Stjórnsýsla
- Stjórnvaldsákvörðun
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.
2. Með beiðni 21. febrúar 2025 leitar A leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 30. janúar sama ár í máli nr. 847/2023: Íslenska ríkið gegn A. Gagnaðili leggst ekki gegn beiðninni en telur skilyrði fyrir veitingu áfrýjunarleyfis ekki vera fyrir hendi.
3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um ógildingu úrskurðar kærunefndar útlendingamála þar sem hafnað var kröfu um endurupptöku á máli hans. Með úrskurðinum var staðfest ákvörðun Útlendingastofnunar um að ekki skyldi taka umsókn leyfisbeiðanda til efnismeðferðar enda hann þegar fengið alþjóðlega vernd í Grikklandi.
4. Héraðsdómur féllst á kröfu leyfisbeiðanda en með dómi Landsréttar var gagnaðili sýknaður af kröfunni. Í dómi Landsréttar kom fram að fyrir lægi að fullnægt væri fyrra skilyrði þágildandi 2. málsliðar 2. mgr. 36. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga um að 12 mánuðir væru liðnir frá því að umsókn leyfisbeiðanda um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum. Lyti ágreiningur málsins að síðara skilyrði málsliðarins um að umsækjandi um alþjóðlega vernd hefði ekki borið sjálfur ábyrgð á töfum. Landsréttur komst að þeirri niðurstöðu að breytt afstaða leyfisbeiðanda sem hefði orðið þess valdandi að hann mætti ekki í sýnatöku vegna COVID-19 hefði verið meginástæða þess að framkvæmd ákvörðunarinnar dróst fram yfir 12 mánuði. Hann hefði hlotið að gera sér grein fyrir því að með þeim sinnaskiptum kæmi hann að óbreyttu í veg fyrir að vera fluttur úr landi. Var því fallist á það með gagnaðila að leyfisbeiðandi hefði sjálfur borið ábyrgð á þeirri töf sem orðið hefði á fullnustu þeirrar skyldu hans að yfirgefa landið. Þá lægi hvorki fyrir að efnis- né formannmarkar hefðu verið á úrskurðinum.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi. Málið snúist um hvort fjarvera hans frá einum tíma í sýnatöku fyrir COVID-19 geti svipt hann rétti til að fá mál sitt tekið til efnismeðferðar og endurupptekið eftir 12 mánuði. Hér sé þess að gæta að engin lagaheimild sé fyrir hendi um skyldu til líkamsrannsóknar eins og COVID-19 prófs og engin skýr lagaheimild standi til þess að tafir á afgreiðslu umsóknar sem teljist á ábyrgð umsækjanda samkvæmt 2. mgr. 36. gr. laga nr. 80/2016 geti átt sér stað óviljandi eða ómeðvitað. Þá hafi málið þýðingu um hvort stjórnsýslulög nr. 37/1993 eigi við um brottvísun eða samskipti í aðdraganda brottvísunar útlendings. Að auki feli dómur Landsréttar í sér stefnubreytingu um túlkun leiðbeiningarskyldu 11. gr. laga nr. 80/2016. Þá varði úrslit málsins sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda. Loks sé dómur Landsréttar bersýnilega rangur að formi eða efni til einkum að því er varði þá niðurstöðu að ákvæði 1. eða 2. mgr. 11. gr. laga nr. 80/2016 eigi samkvæmt efni sínu ekki við um samskipti stjórnvalda við útlending um framkvæmd þeirrar skyldu að yfirgefa landið.
6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki litið svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að málsmeðferð fyrir héraðsdómi eða Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant eða dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.