Hæstiréttur íslands
Nr. 2025-38 og 39
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Neytendalán
- Samningur
- Skuldabréf
- Ógilding samnings
- EES-samningurinn
- Samþykkt
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen og Skúli Magnússon.
2. Með beiðni 12. mars 2025 leitar Arion banki hf. leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 13. febrúar sama ár í máli nr. 333/2023: Eyþór Skúli Jóhannesson og Elínborg Jóhannesdóttir gegn Arion banka hf. Sama dag leituðu Eyþór Skúli Jóhannesson og Elínborg Jóhannesdóttir jafnframt leyfis Hæstaréttar á sama grundvelli til að áfrýja sama dómi.
3. Mál þetta lýtur að skilmála verðtryggðs veðskuldabréfs sem leyfisbeiðendurnir Eyþór og Elínborg gáfu út 3. janúar 2017 til leyfisbeiðandans Arion banka hf. vegna fasteignakaupa en samkvæmt því voru vextir breytilegir og upphafsvextir 4,75% við útgáfu bréfsins. Á grundvelli skilmálans breytti leyfisbeiðandi Arion banki hf. vöxtum lánsins sjö sinnum eftir útgáfu bréfsins, einu sinni til hækkunar en annars til lækkunar.
4. Leyfisbeiðendurnir Eyþór og Elínborg byggðu málsókn sína gegn leyfisbeiðanda Arion banka hf. á því að skilmálinn færi gegn f-lið 2. mgr. 12. gr. laga nr. 33/2013 um neytendalán sem giltu um fasteignalán þeirra. Skilmálinn hefði því verið ósanngjarn í skilningi 36. gr., sbr. 36. gr. c laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga og því ógildur. Töldu þau óskýrleika skilmálans hafa leitt til þess að bankanum hefði verið óheimilt að krefja sig um vexti umfram lægstu almennu vexti af nýjum verðtryggðum lánum sem Seðlabanki Íslands ákveður samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. 18. gr. sömu laga. Byggðu þau endurgreiðslukröfu sína á því. Héraðsdómur sýknaði leyfisbeiðanda Arion banka hf.
5. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að sýkna leyfisbeiðanda Arion banka hf. Í dóminum kom fram að við mat á því hvort skilmálinn uppfyllti það skilyrði um gagnsæi sem gera yrði kröfu um í neytendasamningum yrði að leggja heildarmat á samninginn. Landsréttur féllst ekki á að skilmáli skuldabréfsins hefði verið í ósamræmi við f-lið 2. mgr. 12. gr. laga nr. 33/2013. Komst rétturinn að þeirri niðurstöðu að af því mati og málatilbúnaði þeirra leiddi að ekki yrði fallist á að það teldist ósanngjarnt, andstætt góðri viðskiptavenju eða viðskiptaháttum eða hefði raskað til muna jafnvægi milli réttinda og skyldna aðila í skilningi 36. gr., sbr. 36. gr. c laga nr. 7/1936, að leyfisbeiðandinn Arion banki hf. hefði borið fyrir sig þennan skilmála skuldabréfsins. Ekki yrði hjá því litið að málið snerist um hvort leyfisbeiðendur Eyþór og Elínborg ættu endurkröfu á hendur leyfisbeiðanda Arion banka hf. en engin óvissa sem telja mætti ósanngjarna væri uppi í samningssambandi aðila vegna skilmálans. Þvert á móti lægi fyrir að þau hefðu greitt hærri fjárhæð í vexti en raunin varð hefðu vextirnir haldist óbreyttir.
6. Leyfisbeiðandinn Arion banki hf. byggir á því að málið hafi verulegt almennt gildi og varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína. Nokkur fjöldi lánasamninga, bæði óuppgerðra sem og uppgerðra, kunni að verða fyrir áhrifum af endanlegri niðurstöðu í málinu. Þá varði málið mikilvæga fjárhagslega hagsmuni.
7. Leyfisbeiðendurnir Eyþór og Elínborg byggja á því málið hafi verulega almenna þýðingu og fordæmisgildi og því rétt að það fái efnislega umfjöllun á öllum dómstigum. Úrslit þess hafi bein áhrif á verulegan fjölda íslenskra neytenda og kunni að hafa fordæmisgildi í málum gegn öðrum fjármálafyrirtækjum vegna skilmála þeirra um breytilega vexti. Auk þess hafi lítið reynt á beitingu ógildingarreglu 36. gr. c laga nr. 7/1936. Málið hafi enn fremur þýðingu fyrir framkvæmd samningsins um Evrópska efnahagssvæðið einkum í ljósi þess að Landsréttur leggi ekki til grundvallar nýlega dóma EFTA-dómstólsins í máli E-4/23 og sameinuðum málum E-13/22 og E-1/23 sem varði lögmæti skilmála um breytilega vexti. Þá byggi rétturinn niðurstöðu sína á sjónarmiðum sem séu í verulegum atriðum í beinni andstöðu við þá leiðsögn um túlkun sem fram komi í dómum EFTA-dómstólsins. Loks byggir leyfisbeiðandi á því að verulegir ágallar séu á rökstuðningi Landsréttar og dómurinn óskýr um þýðingarmikil lagaatriði.
8. Að virtum gögnum málsins verður að telja að dómur í því kunni að hafa verulegt almennt gildi. Beiðnir um áfrýjunarleyfi eru því samþykktar.