Hæstiréttur íslands

Nr. 2024-84

Magnús Eiríkur Eyjólfsson (Þórður Heimir Sveinsson lögmaður)
gegn
Arion banka hf. (Kristján B. Thorlacius lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Sjálfskuldarábyrgð
  • Tryggingarbréf
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

2. Með beiðni 27. júní 2024 leitar Magnús Eiríkur Eyjólfsson leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 31. maí sama ár í máli nr. 720/2023: Magnús Eiríkur Eyjólfsson gegn Arion banka hf. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Í málinu er deilt um hvort sjálfskuldarábyrgð leyfisbeiðanda að fjárhæð 7.000.000 króna sem veitt var í tengslum við hækkun á yfirdráttarheimild einkahlutafélagsins Feris, sem leyfisbeiðandi var í forsvari fyrir, hefði átt að falla niður samtímis því sem gagnaðili móttók tryggingabréf að sömu fjárhæð útgefið af leyfisbeiðanda. Ágreiningur er einnig um hvort sjálfskuldarábyrgðin hefði átt að falla niður þegar viðauki var gerður við tryggingabréfið sem fól í sér að það tæki einnig til skulda Feris ehf.

4. Með dómi Landsréttar var héraðsdómur staðfestur um sýknu gagnaðila af kröfum leyfisbeiðanda. Héraðsdómur féllst ekki á að ósanngjarnt hefði verið eða andstætt góðri viðskiptavenju af hálfu gagnaðila að bera fyrir sig sjálfskuldarábyrgðina. Hvorki var fallist á að fyrirkomulag ábyrgðarinnar og tryggingabréfsins hefði falið í sér tvöfalda tryggingu né að leyfisbeiðandi hefði sýnt fram á að starfsmenn gagnaðila hefðu lofað að ábyrgðin félli niður við afhendingu þinglýsts tryggingabréfs. Leyfisbeiðandi hefði jafnframt sýnt af sér tómlæti með því að mótmæla ekki gildi sjálfskuldarábyrgðarinnar fyrr en sex árum eftir gildistöku hennar. Í dómi Landsréttar var meðal annars sérstaklega tiltekið að leyfisbeiðandi hefði sama dag og hann veitti fyrrnefnda sjálfskuldarábyrgð gefið út tryggingabréf þar sem gagnaðila var veitt veð í fasteign leyfisbeiðanda fyrir öllum skuldum hans við gagnaðila að meðtöldum ábyrgðarskuldbindingum. Viðauki hefði einnig verið gerður við tryggingabréfið þess efnis að veð samkvæmt því skyldi framvegis tryggja skuldir Feris ehf. við gagnaðila.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi um skýringu á ákvæðum yfirlýsingar um sjálfskuldarábyrgð en aðila greini á um gildistíma hennar. Þannig sé deilt um hvort að forsíða ábyrgðarskjals eigi að gilda þar sem fram komi að gildistími sé fjögur ár frá útgáfudegi eða skilmálar á baksíðu um að sjálfskuldarábyrgðin vari uns skuldbinding sem henni sé ætlað að tryggja sé að fullu greidd. Þá byggir leyfisbeiðandi á því að úrslit málsins varði sérstaklega mikilvæga fjárhagslega hagsmuni sína. Að auki telur hann dóm Landsréttar bersýnilega rangan að formi til þar sem rétturinn hafi ranglega komist að þeirri niðurstöðu að tilgreindar málsástæður hans hafi verið of seint fram komnar. Loks byggir leyfisbeiðandi á því að dómur Landsréttar sé rangur að efni til.

6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki litið svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að málsmeðferð fyrir héraðsdómi eða Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant eða dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.