Hæstiréttur íslands

Nr. 2024-157

Sjóvá-Almennar tryggingar hf. (Kristín Edwald lögmaður)
gegn
A (Haukur Freyr Axelsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Skaðabótamál
  • Líkamstjón
  • Varanleg örorka
  • Viðmiðunartekjur
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 3. desember 2024 leita Sjóvá-Almennar tryggingar hf. leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 7. nóvember sama ár í máli nr. 523/2023: A gegn Sjóvá-Almennum tryggingum hf. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Í málinu er deilt um hvaða tekjuviðmið beri að leggja til grundvallar við ákvörðun bóta til gagnaðila vegna slyss sem hann varð fyrir árið 2017. Aðilar voru sammála um að árslaun til ákvörðunar bóta skyldu metin sérstaklega, sbr. 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, en greinir á um hvert árslaunaviðmiðið skuli vera. Leyfisbeiðandi hefur greitt gagnaðila samkvæmt uppgjörstillögu sinni þar sem við útreikning á varanlegri örorku var tekið mið af tekjum gagnaðila á tímabilinu 2016 til 2020, uppreiknuðum miðað við fullt starf. Gagnaðili gerir aðallega kröfu um að miða skuli við meðaltekjur iðnlærðra rafvirkja en til vara meðaltekjur rafvirkja á árinu 2017.

4. Með héraðsdómi var leyfisbeiðandi sýknaður af kröfum gagnaðila um frekari bætur en dæmdur til að greiða honum 205.062 krónur vegna sjúkrakostnaðar. Með dómi Landsréttar var hins vegar fallist á kröfur gagnaðila. Þar kom fram að aðalkrafan væri miðuð við meðaltekjur fólks með sömu menntun og hann. Gagnaðili hefði lokið sveinsprófi í rafvirkjun þegar hann lenti í umræddu slysi og sinnt störfum sem rafvirki í rúmt ár. Hefði hann þannig mótað starfsvettvang sinn til framtíðar. Þar sem gagnaðili hafði nýlega lokið námi þegar slysið varð var talið líklegt að laun hans, eins og þau voru fyrstu ár í starfi, hefðu hækkað eftir því sem hann aflaði sér lengri starfsreynslu en í matsgerð sem lá fyrir í málinu var höfð hliðsjón af því. Féllst Landsréttur á að gagnaðila hefði tekist sönnun um að rétt væri að miða við þau meðallaun sem hann byggði á í aðalkröfu sinni og var sjónarmiðum leyfisbeiðanda um að annar mælikvarði væri réttur hafnað. Var leyfisbeiðanda gert að greiða gagnaðila 7.840.718 krónur ásamt nánar tilgreindum vöxtum og dráttarvöxtum.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi. Á hverju ári reyni á tugi sambærilegra tilvika. Dómur Landsréttar skapi réttaróvissu og nauðsynlegt sé að Hæstiréttur skeri úr um þann vafa sem ríki um ágreiningsefnið. Þá telur leyfisbeiðandi að niðurstaða Landsréttar gangi gegn dómafordæmum Hæstaréttar og að dómurinn sé bersýnilega rangur að efni til. Verulega skorti á rökstuðning Landsréttar að baki þeirri niðurstöðu að gagnaðila hafi tekist sönnun um að rétt sé að miða við annan mælikvarða en tekjusögu hans. Fyrir liggi að gagnaðili hafði starfað óslitið sem rafvirki frá því að hann lauk sveinsprófi í rafvirkjun 9. febrúar 2015 fram að slysdegi.

6. Að virtum gögnum málsins verður ekki litið svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Er þá meðal annars litið til dóms Hæstaréttar 1. nóvember 2023 í máli nr. 17/2023. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.