Hæstiréttur íslands
Nr. 2024-61
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Börn
- Forsjá
- Umgengni
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
2. Með beiðni 19. apríl 2024 leitar A leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 22. mars sama ár í máli nr. 637/2023: A gegn B. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Ágreiningur aðila lýtur að forsjá sonar þeirra og umgengi. Með dómi Landsréttar var héraðsdómur staðfestur um að gagnaðili færi ein með forsjá sonar aðila og um inntak umgengi leyfisbeiðanda. Landsréttur tók fram að enda þótt fyrir lægi að aðilar hefðu verið í skráðri sambúð þegar sonur þeirra fæddist yrði ótvírætt ráðið af gögnum málsins að þau hefðu við fæðingu hans þegar slitið sambandi sínu þótt skráðri sambúð þeirra hefði ekki lokið fyrr en eftir fæðingu drengsins. Taldi Landsréttur réttilega lagt til grundvallar í dómi héraðsdóms að aðilar hefðu haft sameiginlega forsjá við sambúðarslit. Fyrir lægi að drengurinn hefði búið hjá og verið í umsjá gagnaðila á heimili hennar en leyfisbeiðandi notið umgengni við hann. Landsréttur vísaði til þess að þau gögn sem lögð hefðu verið fyrir réttinn eftir uppkvaðningu héraðsdóms bæru á ýmsan hátt merki þess að samskipti aðila færu batnandi og að þau hefðu getu til að eiga farsæla samvinnu um uppeldi og umönnun sonar síns. Taldi Landsréttur ljóst að sú skipan mála sem ákveðin hefði verið í héraðsdómi hefði haft góð áhrif á samskiptin. Þá þótti með hliðsjón af því hvernig aðilar hefðu kosið að haga umgengni sinni með dómsátt sem og aldri drengsins ekki efni til að hrófla við niðurstöðu héraðsdóms um umgengni.
4. Leyfisbeiðandi byggir á því úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi varðandi túlkun á skilyrðum sameiginlegrar forsjár foreldra samkvæmt 4. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 76/2003 og hvaða vægi niðurstöður dómkvaddra matsmanna hafi við slíka úrlausn. Þá byggir leyfisbeiðandi á því málið varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína og sonar síns. Enn fremur sé dómur Landsréttar bersýnilega rangur og meðal annars horfi Landsréttur fram hjá niðurstöðu matsmanns án þess að það sé rökstutt með fullnægjandi hætti.
5. Að virtum gögnum málsins verður hvorki litið svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Í því tilliti er þess að gæta að þótt málið varði mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda og sonar hans þá háttar svo almennt til í málum sem lúta að forsjá og umgengni barna. Jafnframt var héraðsdómur og Landsréttur skipaður sérfróðum meðdómendum. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.