Hæstiréttur íslands

Nr. 2025-36

Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari)
gegn
Vilhelm Norðfjörð Sigurðssyni (Stefán Karl Kristjánsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Kynferðisbrot
  • Nauðgun
  • Líkamsárás
  • Refsiákvörðun
  • Miskabætur
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 6. febrúar 2025 leitar Vilhelm Norðfjörð Sigurðsson leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 12. desember 2024 í máli nr. 190/2024: Ákæruvaldið gegn Vilhelm Norðfjörð Sigurðssyni. Leyfisbeiðanda var birtur dómurinn 15. janúar 2025. Ákæruvaldið leggst gegn beiðninni.

3. Leyfisbeiðandi var ákærður fyrir brot í nánu sambandi, kynferðisbrot og húsbrot. Í fyrsta ákærulið var háttsemi hans heimfærð til 231. gr., 1. mgr. 194. gr. og 1. mgr., sbr. 2. mgr. 218. gr. b almennra hegningarlaga nr. 19/1940 en í öðrum og þriðja ákærulið var háttsemi hans heimfærð til 231. gr. og 1. mgr. 218. gr. b sömu laga.

4. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu leyfisbeiðanda fyrir þá háttsemi sem honum var gefin að sök í ákæru og ákvörðun refsingar. Þá var leyfisbeiðanda gert að greiða brotaþola 3.000.000 króna í miskabætur en þær höfðu verið ákveðnar 2.000.000 króna í héraði. Í héraðsdómi kom fram að 1. mgr. 218. gr. b almennra hegningarlaga tæmdi sök gagnvart 231. gr. sömu laga og að aðstæður hefðu ekki verið með þeim hætti að 2. mgr. 218. gr. b laganna ætti við. Landsréttur taldi hins vegar að ákvæði 218. gr. b almennra hegningarlaga tæmdi ekki sök gagnvart ákvæði 231. gr. Þá heimfærði Landsréttur brot leyfisbeiðanda samkvæmt fyrsta ákærulið jafnframt til 1. mgr., sbr. 2. mgr. 218. gr. b sömu laga.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að málið hafi verulega almenna þýðingu en ekki hafi reynt á sönnunargildi gagna úr upptökubúnaði á heimili í sakamáli. Þá byggir leyfisbeiðandi á því að niðurstaða málsins sé bersýnilega röng og vísar einkum til þess að upptaka sem liggi fyrir í málinu sýni að hann hafi ekki brotið af sér með þeim hætti að skilyrðum 194. gr. almennra hegningarlaga sé fullnægt. Leyfisbeiðandi telur Landsrétt hafa byggt sakfellingu á einhvers konar huglægu mati á því hvað brotaþoli kunni almennt að upplifa í slíkum aðstæðum í stað þess að taka mið af raunverulegum atvikum málsins.

6. Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu eða að mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar um þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar. Beiðninni er því hafnað.