Hæstiréttur íslands

Nr. 2025-14

Jóhann Halldórsson (Kristján Gunnar Valdimarsson lögmaður)
gegn
íslenska ríkinu (Ásta Sóllilja Sigurbjörnsdóttir )

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Skattalög
  • Opinber gjöld
  • Endurákvörðun
  • Fasteign
  • Einkahlutafélag
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.

2. Með beiðni 14. janúar 2025 leitar Jóhann Halldórsson leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 17. desember 2024 í máli nr. 737/2023: Jóhann Halldórsson gegn íslenska ríkinu. Gagnaðili leggst ekki gegn beiðninni en telur þó að skilyrði fyrir veitingu áfrýjunarleyfis séu ekki til staðar.

3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um að felldir verði úr gildi að hluta úrskurður ríkisskattstjóra 12. október 2017 og úrskurður yfirskattanefndar 29. ágúst 2018, sem endurupptekinn var með úrskurði 4. desember 2019, um endurákvörðun opinberra gjalda leyfisbeiðanda gjaldárin 2013, 2014 og 2015.

4. Með dómi Landsréttar var héraðsdómur staðfestur um sýknu gagnaðila af kröfum leyfisbeiðanda. Aðilar deildu um hvernig virða skyldi í skattalegu tilliti tilteknar greiðslur einkahlutafélags í eigu leyfisbeiðanda til hans árin 2012, 2013 og 2014 og þá hvort um væri að ræða greiðslur vegna sölu á erlendri fasteign eða óheimilar lánveitingar einkahlutafélagsins sem skattleggja bæri sem launagreiðslur. Landsréttur vísaði til þess að með héraðsdómi hefði verið fallist á þá niðurstöðu yfirskattanefndar að ekkert væri hægt að leggja upp úr kaupsamningi frá árinu 2012 sem leyfisbeiðandi vísaði til. Hefði leyfisbeiðandi átt þess kost að freista þess að hnekkja afstöðu skattyfirvalda með því að leiða fyrir dóm vott að undirskrift hans en það hefði hann ekki gert. Yfirlýsing endurskoðanda, sem ekki hafði verið leiddur fyrir héraðsdóm, frá árinu 2019 var ekki talin hrófla við þeirri niðurstöðu. Fyrir Landsrétti gaf endurskoðandinn skýrslu auk manns sem ritað hafði undir kaupsamninginn sem vottur en sá staðfesti það eitt að um undirskrift hans væri að ræða á kaupsamningnum. Ekki voru taldar forsendur til þess að ljá vitnisburði endurskoðandans og nýjum gögnum sem frá honum stöfuðu það vægi við úrlausn málsins að niðurstöðu héraðsdóms um þýðingu kaupsamningsins hefði verið hnekkt. Tók Landsréttur fram að með sama hætti og í héraðsdómi væri einkum horft til annarra gagna málsins og þess hvernig það lægi að öðru leyti fyrir réttinum.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til sem rekja megi til þess misskilnings að umrædd fasteign hafi verið tilgreind á skattframtali leyfisbeiðanda eftir viðskiptin. Staðreyndin sé sú að skattframtal leyfisbeiðanda að afloknum viðskiptum hafi verið í samræmi við það að þau hefðu átt sér stað með því að eignin hafi ekki verið tilgreind á skattframtali leyfisbeiðanda í kjölfarið. Mistök við framsetningu eigna á skattframtölum leyfisbeiðanda fyrir viðskiptin breyti engu í þessu tilliti. Rétt hafi verið talið fram í skattframtali leyfisbeiðanda á árinu 2013. Þá séu aðfinnsluverðar athugasemdir Landsréttar um að færsla á biðreikning skipti ekki máli. Leyfisbeiðandi byggir jafnframt á því að niðurstaða málsins hafi verulegt almennt gildi þar sem með dómi Landsréttar sé leyfisbeiðandi látinn gjalda þess að vikið sé frá staðreyndum í skattamáli. Svokölluð raunveruleikaregla gildi í skattarétti. Hún byggi á því að haga beri skattákvörðun eftir því sem raunverulega gerðist ef það er frábrugðið heiti gerninga. Hún gildi þó samkvæmt dómi Landsréttar aðeins ef staðreyndir falli skattyfirvöldum í geð. Málið sé jafnframt mikilvægt hvað varðar mat á gögnum máls og að réttur skilningur sé lagður í samtímagögn úr bókhaldi. Loks varði niðurstaða málsins sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda.

6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki litið svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að málsmeðferð fyrir héraðsdómi eða Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant eða dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.