Hæstiréttur íslands
Nr. 2025-47
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Umferðarlagabrot
- Brot gegn valdstjórninni
- Líkamsárás
- Manndráp
- Tilraun
- Sönnun
- Sakhæfi
- Geðrannsókn
- Refsiákvörðun
- Miskabætur
- Sakarkostnaður
- Hæfi
- Einkaréttarkrafa
- Upptaka
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ása Ólafsdóttir og Skúli Magnússon.
2. Með beiðni 5. mars 2025 leitar Mohamad Thor Jóhannesson leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 6. febrúar sama ár í máli nr. 639/2024: Ákæruvaldið gegn Mohamad Thor Jóhannessyni. Ákæruvaldið leggst gegn beiðninni.
3. Með tveimur dómum héraðsdóms var leyfisbeiðandi sakfelldur fyrir umferðarlagabrot, sjö brot gegn valdstjórninni, að gabba lögreglu, tvær líkamsárásir og tilraun til manndráps. Málin voru sameinuð fyrir Landsrétti og flutt þar í einu lagi. Landsréttur staðfesti niðurstöðu beggja dóma um sakfellingu leyfisbeiðanda og heimfærslu brota hans til refsiákvæða. Að virtum gögnum málsins og framburði fyrir héraðsdómi þóttu ákvæði 1. mgr. 16. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 ekki standa því í vegi að leyfisbeiðanda yrði dæmd refsing. Var honum gert að sæta fangelsi í átta ár en gæsluvarðhald sem hann hafði sætt skyldi dragast frá refsingunni.
4. Leyfisbeiðandi byggir á því að málið hafi verulega þýðingu fyrir hann. Þá byggir leyfisbeiðandi á því að niðurstaða Landsréttar sé röng að efni og formi til. Hann vísar meðal annars til þess að við þinghald í Landsrétti hafi fimm lögreglumenn gætt hans í salnum hverja stund sem leitt hafi til þess að dómendur hafi hræðst hann og telur hann það leiða til þess að þeir hafi verið vanhæfir til að dæma í málinu. Að endingu byggir leyfisbeiðandi á því að niðurstaða Landsréttar sé efnislega röng og vísar einkum til þess að borin von sé til að fangelsisrefsing muni skila árangri. Því eigi 1. mgr. 16. gr. laga almennra hegningarlaga við. Einsýnt sé að fangelsisdvöl muni ýta undir andleg veikindi leyfisbeiðanda, hún sé honum verulega skaðleg og brjóti gegn alþjóðlegum skuldbindingum.
5. Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu eða mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar um þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar. Beiðninni er því hafnað.