Hæstiréttur íslands

Nr. 2024-100

Jón Hilmar Karlsson (Ólafur Eiríksson lögmaður)
gegn
Þrotabúi Karls Emils Wernerssonar (Árni Ármann Árnason lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Gjaldþrotaskipti
  • Þrotabú
  • Riftun
  • Gjöf
  • Nákomnir
  • Matsgerð
  • Ógjaldfærni
  • Sönnun
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen og Skúli Magnússon.

2. Með beiðni 4. júlí 2024 leitar Jón Hilmar Karlsson leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 7. júní sama ár í máli nr. 731/2022: Þrotabú Karls Emils Wernerssonar gegn Jóni Hilmari Karlssyni og gagnsök. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að sölu þrotamanns á einkahlutafélaginu Toska til leyfisbeiðanda. Gagnaðili byggir á því að um riftanlegan gjafagerning hafi verið að ræða. Aðilar deila um hvort gagnaðili fái rift ráðstöfuninni á grundvelli 131. gr. eða 141. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

4. Með héraðsdómi var fallist á riftun á grundvelli 141. gr. laga nr. 21/1991 og leyfisbeiðandi dæmdur til að greiða gagnaðila 464.467.000 krónur. Landsréttur komst að þeirri niðurstöðu að ráðstöfunin væri riftanleg á grundvelli 2. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991 og var leyfisbeiðandi dæmdur til að greiða gagnaðila 2.652.753.000 krónur með nánar tilgreindum dráttarvöxtum. Í dómi Landsréttar kom fram að bú þrotamanns hefði verið tekið til skipta 16. apríl 2018 og frestdagur við skiptin væri 21. júlí 2017. Tæki riftunarregla 2. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991 til gjafa til nákominna sem afhentar hefðu verið eftir 21. júlí 2015. Óumdeilt væri að þrotamaður og leyfisbeiðandi teldust nákomnir í skilningi 2. mgr. 131. gr., sbr. 2. tölulið 3. gr. laga nr. 21/1991. Á hinn bóginn væri deilt um hvenær sala félagsins hefði átt sér stað. Í dómi Landsréttar kom fram að ekki væri staðhæft annað í aðalkröfu gagnaðila en að dagsetningin 13. janúar 2014 væri rituð á hinn umdeilda kaupsamning og var því ekki fallist á að gagnaðili hefði ráðstafað sakarefninu á þann hátt að viðskiptin hefðu orðið þann dag. Með vísan til heildstæðs mats á gögnum málsins og misræmis í þeim, taldist sannað að viðskiptin hefðu átt sér stað 29. apríl 2016 eða síðar. Fyrir Landsrétti lá matsgerð dómkvadds manns, sem rétturinn taldi að hefði ekki verið hnekkt, um að virði allra hluta félagsins hefði þann dag numið 2.653.886.000 krónum. Fyrir það hefði komið innborgun frá leyfisbeiðanda 6. desember 2014 að fjárhæð 1.133.000 krónur. Samkvæmt því hefði verið verulegur munur á verðmæti félagsins og endurgjaldi sem fyrir það kom og því talið að um gjöf væri að ræða í skilningi 131. gr. laga nr. 21/1991. Loks taldi Landsréttur óhætt að slá því föstu að leyfisbeiðandi hefði ekki leitt líkur að eða sannað að þrotamaður hefði verið gjaldfær þegar hann afsalaði hlutunum en á honum hvíldi sönnunarbyrði um það.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að málið varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína meðal annars verulega fjárhagslega hagsmuni. Þá telur hann að dómur Landsréttar sé rangur, bæði að formi og efni til. Vísar hann einkum til þess að dómurinn sé rangur um mat á sönnun um hvenær kaupsamningur um félagið hafi verið undirritaður. Niðurstaða um það muni einnig hafa fordæmisgildi um ráðstöfun sakarefnis í einkamálum sem og um beitingu málsforræðisreglu og útilokunarreglu einkamálaréttarfars og hafi því verulegt almennt gildi. Auk þess hafi endurmat Landsréttar á sönnunargildi framburða tiltekinna vitna fyrir héraðsdómi brotið gegn e-lið 2. mgr. 156. gr. laga nr. 91/1991 og meginreglu einkamálaréttarfars um milliliðalausa sönnunarfærslu, sbr. 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Auk þess geti úrslit málsins, með vísan til 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 2. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmálans, haft verulegt almennt gildi um sakarefni í einkamálum þegar þau skarist við rannsókn sakamáls. Enn fremur sé niðurstaða Landsréttar um gjaldfærni þrotamanns á árinu 2016 bersýnilega röng og geti niðurstaða Hæstaréttar um það haft verulegt fordæmisgildi.

6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki séð að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að málsmeðferð hafi verið stórlega ábótavant eða að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðninni er því hafnað.