Hæstiréttur íslands

Nr. 2025-32

Íslandsbanki hf. (Áslaug Árnadóttir lögmaður)
gegn
Neytendastofu (Ásta Sóllilja Sigurbjörnsdóttir )

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Stjórnvaldsákvörðun
  • Stjórnsýsla
  • Skuldabréf
  • Skilmálar
  • EES-samningurinn
  • EFTA-dómstóllinn
  • Ráðgefandi álit
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen og Skúli Magnússon.

2. Með beiðni 4. mars 2025 leitar Íslandsbanki hf. leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 13. febrúar sama ár í máli nr. 99/2022: Neytendastofa gegn Íslandsbanka hf. Gagnaðili leggst ekki gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að ákvörðun gagnaðila 26. nóvember 2019 þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að leyfisbeiðandi hefði með ófullnægjandi upplýsingagjöf á stöðluðu eyðublaði til neytenda brotið gegn f-, g-, i- og l-liðum 7. gr. laga nr. 33/2013 um neytendalán og f- og k-liðum 2. mgr. 12. gr. sömu laga. Með úrskurði áfrýjunarnefndar neytendamála 13. október 2020 í máli nr. 11/2019 var ákvörðunin staðfest.

4. Héraðsdómur féllst á kröfu leyfisbeiðanda um að fella úr gildi úrskurð áfrýjunarnefndar neytendamála en með dómi Landsréttar var gagnaðili sýknaður. Landsréttur ákvað að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins í málinu og beindi til hans sjö spurningum um hvernig bæri að túlka tilskipun 2008/48/EB um lánssamninga fyrir neytendur sem innleidd var í íslenskan rétt með lögum nr. 33/2013. EFTA-dómstóllinn kvað upp dóm 23. maí 2024 í máli nr. E-4/23 þar sem veitt var ráðgefandi álit með svörum við spurningunum. Landsréttur tók fram að líkt og rakið væri í dómi EFTA-dómstólsins væri skýrt samkvæmt tilskipun 2008/48/EB að hún miðaði að fullri samræmingu löggjafar að því er varðaði þá lánssamninga sem féllu undir gildissvið hennar og kröfur hennar væru ófrávíkjanlegar. Landsréttur taldi ljóst að niðurstaða gagnaðila, sem staðfest hefði verið með úrskurði áfrýjunarnefndar neytendamála, um að staðlaðar upplýsingar leyfisbeiðanda til neytenda uppfylltu ekki kröfur framangreindra ákvæða laga nr. 33/2013, samræmdist ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins. Þá var ekki fallist á með héraðsdómi að málsmeðferð fyrir nefndinni hefði verið ábótavant. Komst Landsréttur því að þeirri niðurstöðu að ekki væru slíkir annmarkar á úrskurði áfrýjunarnefndar neytendamála í máli nr. 11/2019 að fella bæri hann úr gildi.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi. Niðurstaða þess sé fordæmisgefandi um þær skyldur sem lagðar verði á leyfisbeiðanda við upplýsingagjöf til neytenda, bæði áður en lán eru veitt og upplýsingar sem fram komi í lánssamningi. Þá hafi málið fordæmisgildi fyrir aðra lánveitendur og um túlkun ákvæða laga nr. 33/2013 um upplýsingagjöf lánveitenda um breytilega vexti. Jafnframt reyni á túlkun laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið og skýringu íslenskra laga til samræmis við EES-samninginn. Loks geti niðurstaðan haft almenna þýðingu varðandi túlkun á málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Leyfisbeiðandi byggir jafnframt á því að dómur Landsréttar sé bersýnilegar rangur að efni og réttaróvissa ríki um túlkun laga um upplýsingagjöf lánveitenda til neytenda.

6. Að virtum gögnum málsins verður að telja að dómur í því kunni að hafa verulegt almennt gildi. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því samþykkt.